Hæstiréttur íslands
Mál nr. 152/1999
Lykilorð
- Ökuréttur
- Umferðarlög
|
|
Fimmtudaginn 10. júní 1999. |
|
Nr. 152/1999. |
Ákæruvaldið (Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Hilmari Þór Hannessyni (Guðmundur Ingvi Sigurðsson hrl.) |
Ökuréttur. Umferðarlög.
H var ákærður fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti. Með játningu H var talið sannað að hann hefði gerst sekur um brotið. H hafði margoft verið sakfelldur fyrir sams konar brot, auk annars konar brota á umferðarlögum. Með tilliti til sakaferils hans var hann dæmdur til fangelsisrefsingar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Arnljótur Björnsson og Sigurður Líndal prófessor.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 7. apríl 1999 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Krefst ákæruvaldið staðfestingar héraðsdóms.
Ákærði krefst þess að sér verði gerð vægasta refsing, sem lög leyfa, og að hún verði skilorðsbundin.
Í héraðsdómi er rakið að ákærði hefur margoft verið sakfelldur fyrir sams konar brot og ákæra í málinu tekur til, auk annars konar brota á umferðarlögum. Með tilliti til sakaferils ákærða þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í fjóra mánuði. Engin efni eru til að skilorðsbinda refsinguna, svo sem ákærði krefst.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði, Hilmar Þór Hannesson, sæti fangelsi í fjóra mánuði.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Guðmundar Ingva Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. mars 1999.
Ár 1999, miðvikudaginn 24. mars, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur sem haldið er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Ingibjörgu Benediktsdóttur héraðsdómara kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 306/1999: Ákæruvaldið gegn Hilmari Þór Hannessyni, sem tekið var til dóms 19. þ.m.
Málið er höfðað með ákæruskjali lögreglustjórans í Reykjavík 16. febrúar sl. gegn ákærða, Hilmari Þór Hannessyni, kt. 281068-5719, Öldugranda 7, Reykjavík fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni NP-299, laugardaginn 30. janúar 1999, sviptur ökurétti um Öldugranda í Reykjavík.
Þetta telst varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 3. gr. laga nr. 57/1997.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Með skýlausri játningu ákærða, sem er í samræmi við gögn málsins, þykir sannað að ákærði hafi gerst sekur um það brot, sem honum er að sök gefið í ákæru og þar er rétt heimfært til refsiákvæða.
Ákærði gekkst á árinu 1988 tvívegis undir að greiða sektir fyrir umferðarlagabrot, fyrst fyrir að aka ölvaður og í síðara skiptið fyrir að aka sviptur ökuleyfi og sætti í fyrra skiptið jafnframt sviptingu ökuleyfis í 12 mánuði. Hann hlaut 7 refsidóma á árunum 1988 til ársins 1992, alla fyrir umferðarlagabrot aðallega ölvun við akstur og akstur sviptur ökuleyfi, síðast 17. desember 1992 4 mánaða fangelsi fyrir ölvun og réttindaleysi við akstur. Með einum þessara dóma var hann auk umferðarlagabrota dæmdur fyrir þjófnað. Þann 9. september 1993 var hann dæmdur í 8 mánaða fangelsi fyrir nokkur síðastgreindra umferðarlagabrota. Þá var hann dæmdur í 4 mánaða fangelsi 23. nóvember 1993 fyrir þjófnað. Enn var hann dæmdur 15. september 1994 í 1 mánaðar fangelsi fyrir að aka sviptur ökurétti. Þá var ákærði dæmdur í 2 mánaða fangelsi 27. október 1994 fyrir þjófnaðarbrot og hilmingu. Þann 19. desember 1994 var hann dæmdur í 4 mánaða fangelsi fyrir ölvun- og réttindaleysi við akstur og á ný fyrir að aka sviptur ökurétti 12. apríl 1996 og var þá dæmd upp reynslulausn af 190 fangelsisdögum. Var ákærða þá gerð 12 mánaða fangelsisrefsing og sviptur ökurétti ævilangt. Loks var hann dæmdur í 8 mánaða fangelsi 3. nóvember sl. fyrir ölvun- og réttindaleysi við akstur. Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði.
Dæma ber ákærða til þess að greiða allan sakarkostnað, þar með talda þóknun skipaðs verjanda ákærða, Guðmundar Ingva Sigurðssonar, hæstaréttarlögmanns, 25.000 krónur.
Dómsorð:
Ákærði, Hilmar Þór Hannesson, sæti fangelsi í 6 mánuði.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talda þóknun til verjanda síns, Guðmundar Ingva Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, 25.000 krónur.