Hæstiréttur íslands
Mál nr. 121/2003
Lykilorð
- Vinnuslys
- Skaðabætur
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 16. október 2003. |
|
Nr. 121/2003. |
Stefanía Andrésdóttir(Ástráður Haraldsson hrl.) gegn Hólmadrangi ehf. (Hákon Árnason hrl.) |
Vinnuslys. Skaðabætur. Gjafsókn.
S, starfsmaður H, skrikaði fótur í lausum tröppum, sem komið hafði verið fyrir við færiband. Féll S á verksmiðjugólfið og slasaðist. Fallist var á það með H að óhapp hefði valdið slysinu og það yrði ekki rakið til vanbúnaðar á þeirri aðstöðu sem starfsmenn þurftu að notast við. Var H sýknaður af kröfum S.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. apríl 2003. Hún krefst þess að stefndi verði dæmdur til greiða sér 4.176.316 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 8. júlí 1999 til 24. ágúst 2001, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. september 2001 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun á 492.853 krónum þann 14. febrúar 2002. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt fyrir báðum dómstigum.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
Áfrýjandi hefur stefnt Vátryggingafélagi Íslands hf. til réttargæslu.
Svo sem rakið er í héraðsdómi varð áfrýjandi fyrir vinnuslysi 9. júlí 1999 í rækjuverksmiðju stefnda á Hólmavík. Hafði hún farið upp í lausar tröppur, sem komið var fyrir við færiband, til að losa um rækju, sem safnaðist fyrir á bandinu. Á leið niður tröppurnar aftur skrikaði áfrýjanda fótur er hún stóð í öðru þrepi þeirra og hugðist stíga niður á fyrsta þrepið. Féll hún við það á verksmiðjugólfið og slasaðist. Verður fallist á með stefnda að óhapp hafi valdið slysinu og að það verði ekki rakið til vanbúnaðar, sem áfrýjandi telur hafa verið á þeirri aðstöðu, sem starfsmenn þurftu að notast við til að komast að umræddum stað á færibandinu. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda verður ákveðinn eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Stefaníu Andrésdóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 300.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 31. janúar 2003.
Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum málflutningi þann 7. janúar 2003, er höfðað með stefnu útgefinni 16. október 2001 og var málið þingfest þann 27. nóvember 2001.
Stefnandi málsins er Stefanía Andrésdóttir, kt. 130230-4589, Hafnarbraut 35, Hólmavík.
Stefndi er Hólmadrangur ehf. kt. 450400-2620, Höfðagötu 3, Hólmavík.
Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík, er stefnt til réttargæslu.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð kr. 4.176.316,00 með vöxtum skv. 16. gr. laga nr. 50/1993 frá 8. júlí 1999 til 24. ágúst 2001, en með dráttarvöxtum skv. III. og IV. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 13. september 2001 til greiðsludags, allt að frádregnum kr. 492.853, sem greiddar voru stefnanda þann 14. febrúar 2002 úr atvinnuslysatryggingu. Loks er krafist málskostnaðar samkvæmt mati réttarins auk álags er nemi virðisaukaskatti eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.
Dómkröfur stefnda eru þær, aðallega, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hennar hendi að mati dómsins, en til vara að sök verði skipt í málinu, stefnukröfur lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Af hálfu réttargæslustefnda, Vátryggingafélags Íslands hf. eru ekki gerðar sjálfstæðar dómkröfur, enda engar kröfur gerðar á hendur félaginu.
Málsatvik:
Stefnandi hafði starfað í áratugi hjá stefnda við rækjuvinnslu í rækjuverksmiðju stefnda á Hólmavík. Í lögregluskýrslu, sem stefnandi gaf 3. október 2000, skýrði hún svo frá, að fimmtudaginn 8. júlí 1999 hafi stefnandi hafið vinnu sína að morgni og unnið við vigtun á frosinni rækju, sem kom á færibandi úr lausfrysti. Við enda færibandsins var ryðfrí plata, sem vísaði rækjunni niður á annað færiband, sem lá hornrétt frá fyrra færibandinu, þar sem vatni var úðað yfir rækjuna, áður en hún fór í annan frysti, en þaðan fór rækjan loks til áfram til pökkunar. Að sögn stefnanda hafi ryðfría platan fyrst á morgnana verið rök eða blaut og vildi rækjan þá festast við plötuna og ef ekki var fylgst vel með hafi endi bandsins fyllst og rækjan hrunið á gólfið. Stefnandi sagði, að við endann á færibandinu sé höfð trappa sem sé notuð í þeim tilgangi að fara upp í og hreinsa frá plötunni. Tröppu þessari er í málinu lýst sem "A" tröppu, sem stendur á fjórum fótum og er úr áli. Á myndum, sem eru í málinu, má sjá, að í tröppunni eru fimm þrep auk sjötta þrepsins, sem er eins konar pallur efst. Stefnandi sagðist þennan morgun hafa séð rækjuna hrúgast upp við plötuna og því hafi hún farið upp í tröppuna og hreinsað frá plötunni. Þetta hafi hún oft gert og hafi hún ávallt þurft að fara upp í fjórða þrep tröppunnar til þess að geta hreinsað frá plötunni. Stefnandi sagði, að hinum megin við færibandið sé vinnupallur, sem hægt sé að fara upp á til þess að hreinsa frá plötunni, en það sé lengri leið og torfærari frá vinnustað mættu í salnum og því hafi trappan verið notuð. Stefnandi sagðist hafa verið á leið niður úr tröppunni er hún hafi runnið til og misst fótfestu með þeim afleiðingum að hún hafi fallið úr tröppunni og niður á steingólfið. Fyrir dómi lýsti stefnandi slysinu á þann veg, að hún hefði farið upp í tröppuna og hreinsað rækjuna af pallinum og hafi hún að því loknu verið að fara niður tröppuna. Stefnandi taldi, að hún hefði verið að fara úr þriðja þrepi og niður á annað þrep, er hún hafi annað hvort runnið fram af þrepinu, eða ekki náð að stíga á það. Hún hefði talið sig vera að stíga niður á fyrsta þrepið og því sleppt taki, sem hún hafði á handfangi efst á tröppunni, um leið og hún steig niður. Stefnandi sagði, að þetta hafi ekki orðið fyrir það, að trappan hafi runnið til á gólfinu, eða neitt það hafi verið á þrepinu, sem hafi gert það hált. Hún sagðist hafa verið með gúmmískó á fótum. Hún sagði, að bleyta hefði verið á gólfinu, en ekki á tröppunni, nema þá bleyta, sem þangað hefði borist með skóm hennar.
Fyrir dóm kom Konráð Einarsson,verkstjóri stefnda, þegar slysið varð. Hann upplýsti, að pallur sá, sem nefndur var í lögreglurannsókn og víðar í málinu, og gert er ráð fyrir, að stefnandi hefði heldur átt að nota til að vinna það verk, sem um ræðir í málinu, hafi í raun verið ónothæfur til þess, vegna þess að ekki hefði verið hægt að ná til þess að hreinsa rækjuna af færibandinu af þeim palli.
Fulltrúi Vinnueftirlits kom á slysstað þann 12. júlí 1999. Í skýrslu þess segir m.a.: „Niðurstaða rannsóknar var að orsök slyssins væri að notaður var laus stigi á hálu gólfi.”
Við slysið hlaut stefnandi brot á hægra lærleggshálsi. Hún var send til meðferðar á Sjúkrahús Akraness og var samdægurs gerð skurðaðgerð, beinbrotið fært í betri skorður og neglt með tveimur nöglum. Með því að brotið hafðist ekki nógu vel við, var ákveðið að gera gerviliðsaðgerð í hægri mjöðm og var hún gerð 16. apríl 2000. Að sögn í áverkavottorði útskrifaðist hún í góðu ástandi þann 24. 02. 2000. Önnur hvor þessara dagsetninga hlýtur að vera röng, og eru mestar líkur á að það sé sú seinni, sem virðist, eftir örorkumatinu eiga að vera 28. apríl 2000. Gerviliðsaðgerðin í hægri mjöðm virtist hafa gengið vel, en versnandi óþægindi voru af slitgigt í hægra hné. Vegna þessa var stefnandi tekin inn á sjúkrahús Akraness 29. mars 2001 og gerð gerviliðsaðgerð í hægra hné. Stefnandi útskrifaðist af sjúkrahúsinu þann 17. apríl 2001.
Dr. Halldór Baldursson, bæklunarlæknir, mat örorku stefnanda og varð niðurstaða hans þessi:
Matsorð skv. skaðabótalögum:
Tímabundið atvinnutjón skv. 2. gr. telst 100% frá 8. júlí 1999 til 28. febrúar 2000 og 50% frá 1. mars 2000 til 30. júní 2001.
Þjáningabætur skv. 3. gr.: Tjónþoli telst hafa verið veik í skilningi skaðabótalaganna frá 8. júlí 1999 til 30. júní 2001, þar af rúmföst 8. júlí 1999 til 16. júlí 1999, 16. apríl 2000 til 28. apríl 2000 og 28. mars 2001 til 17. apríl 2001.
Varanlegur miski skv. 4. gr. telst 18%.
Varanleg örorka skv. 5. gr. telst 25%.
Málsástæður stefnanda:
Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á því að stefndi beri ótvíræða bótaábyrgð á vinnuslysi stefnanda. Grundvallist sú ábyrgð á reglum skaðabótaréttar um ábyrgð atvinnurekanda á vanbúnaði á vinnustað og á ófullnægjandi verkstjórn.
Á því sé byggt, að aðbúnaður starfsmanna stefnda hafi verið óforsvaranlegur. Eins og fram komi í umsögn Vinnueftirlitsins hafi ekki verið notaður forsvaranlegur búnaður til að standa á við þrif á vélum og böndum, en niðurstaða Vinnueftirlitsins sé, að slysið hafi orsakast af því, að notaður hafi verið laus stigi á hálu gólfinu. Trappan hafi verið höfð við enda færibandsins og hafi hún almennt verið notuð af starfsmönnum stefnda til þess að hreinsa af plötunni. Stefnandi hafi unnið verk sitt á hefðbundinn hátt eins og venja hafi staðið til. Stefndi hefði með einföldum hætti getað afstýrt slysinu með því að koma fyrir föstum palli með föstum tröppum. Sú leið, sem stefndi bar eftir slysið, að stefnandi hefði átt að fara hafi verið ógreiðfær, þar sem fara hafi þurft undir færibandið til að hreinsa frá plötunni. Í aðalmeðferð hafi komið fram, að hjá verkstjóra stefnda, í raun hafi ekki verið gerlegt að hreinsa plötuna af þeim palli, sem talið var, að stefnandi hefði átt að nota. Hafi þannig ekki verið unnt að vinna verkið öðru vísi en því, að koma fyrir vanbúnum tröppum á hálu gólfinu, sem hafi svo orðið til þess, að stefnandi féll í umrætt sinn.
Þá byggir stefnandi á því, að rekja megi slys hennar til ófullnægjandi verkstjórnar á vinnustað. Í svari verkstjóra stefnda til réttargæslustefnda komi fram, að tíðkast hafi að nota lausa tröppu. Ennfremur hafi komið fram, að aðferð þessi hafi verið verkstjóra kunn og hann hafi látið verklag þetta viðgangast um árabil.
Sé af framansögðu ljóst, að verkstjórn hafi að þessu leyti verið ábótavant og beri stefndi bótaábyrgð vegna þess, enda felist það í húsbóndavaldi stefnda að ráða hvernig verk í hans þágu eru unnin og að óþarfa hættu sé afstýrt, skv. 21. gr., sbr. 23. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Athafnaleysi verkstjóra varðandi notkun starfsmanna á umræddum tröppum leiddi til tjóns stefnanda, en miðað við niðurstöðu Vinnueftirlitsins hafi hættan af umræddu verklagi verið augljós. Auðveldlega hefði mátt koma í veg fyrir slysið með afgerandi og virkri verkstjórn. Verði stefndi að bera ábyrgð á athafnaleysi verkstjóra að þessu leyti.
Krafa stefnanda er í samræmi við niðurstöðu örorkumats og gildandi útreikningsreglur skaðabótalaga. Stefnandi var 69 ára á tjónsdegi. Laun stefnanda árið 1998 að fjárhæð kr.1.60820 lögð til grundvallar tímabundnu örorkutjóni. Þá hafi verið fundin meðallaun stefnanda næstu þrjú árin áður en slys varð skv. skattframtölum stefnanda 1997-1999, vegna tekna áranna 1996-1998 að viðbættu 6 lífeyrissjóðsframlagi. Þegar ekki hafi verið að vænta frekari bata, þann 30. júní 2001 hafi stefnandi verið 71 árs og 138 daga gömul. Samkvæmt því sé stuðst við stuðulinn 1,545 við útreikning á varanlegu örorkutjóni stefnanda. Lánskjaravísitala hafi verið 3728 stig á tjónsdegi, 4135 stig þegar ekki var frekari bata að vænta en 4229 stig þegar krafan hafi verið reiknuð.
Samkvæmt þessu sundurliðast krafa stefnanda þannig:
Þjáningabætur
(batnandi 722 dagar, þar af rúmföst í 43 daga)
1680*43 dagar)+(900*679 dagar) kr. 683.340
Miskabætur
(18%*4.123.500) kr. 742.230
Tímabundið atvinnutjón
(1.680.200*236/365)+(1.608.200*486/365*50%) kr. 2.110.487
Varanleg örorka
(1.494.472*(4135/3728)* 1,545* 25%) kr. 640.259
Samtals kr. 4.176.316
Þann 14. febrúar 2002 fékk stefnandi greiddar örorkubætur kr. 480.384 ásamt vöxtum kr. 12.469 frá réttargæslustefnda úr atvinnuslysatryggingu vegna slyssins og er í kröfugerð gert ráð fyrir, að þessi fjárhæð sé dregin frá bótakröfu..
Málsástæður stefnda:
Sýknukrafa stefnda, Hólmadrangs ehf. er á því reist, að ekkert sé við hann eða starfsmenn hans að sakast um slysið, sem alfarið sé að rekja til óhappatilviljunar eða óaðgæslu stefnanda sjálfrar. Slysið hafi ekki hlotist af því, að stefnandi hafi notað áltröppuna sem slíka til að standa í við hreinsun plötunnar á færibandinu í stað vinnupallsins sem fyrir var, enda hafi áltrappan ekki runnið til á gólfinu og valdið fallinu, heldur hafi slysið hlotist af því, að stefnandi hafi sjálf runnið til og hrasað í neðsta þrepi tröppunnar, þegar hún hafi verið að fara niður að verki loknu og fallið af þeim sökum á gólfið. Hefði hún allt eins getað runnið til og hrasað á niðurleið í þrepum fastrar tröppu eða stiga niður af föstum vinnupalli. Hafi þannig engum sköpum skipt um óhappið, hvort notuð var laus áltrappa eða fastur stigi. Sé þannig rangt sem segir í umsögn Vinnueftirlitsins, „að orsök slyssins væri að notaður var laus stigi á hálu gólfi.” Séu heldur ekki færð nein rök fyrir þeirri fullyrðingu í umsögninni. Sé alls ósannað, að áltrappan sem slík sé slyssvaldurinn.
Þá hafi verið ósaknæmt af stefnda og verkstjórum hans að láta átölulaust, eða hindra ekki að stefnandi og annað starfsfólk notaði áltröppuna við hreinsun plötunnar á færibandinu. Sé notkun áltröppu ekki hættuleg né banni nokkur lög eða reglur notkun áltrappa, hvorki almennt né í rækjuverksmiðjum eins og hjá stefnda. Sé alls ósannað að „athafnaleysi verkstjóra varðandi notkun starfsmanns á umræddum tröppum ” hafi leitt til tjóns stefnanda. Hafi stefnandi verið 69 ára að aldri, alvön fiskvinnslu, vinnustað stefnda og búnaðinum þar og hafði margoft notað áltröppuna við hreinsun rækju frá plötunni á færibandinu. Hafi stefnanda því verið mæta vel ljóst, hvað hún var að gera og séu því engin efni til skaðabótaábyrgðar stefnda á slysinu.
Varakrafa stefnda er á því byggð, að skipta beri sök í málinu og stórlækka stefnukröfur, sem mótmælt er sem of háum. Um sök aðila hefur þegar verið rætt, en sök stefnanda sé fólgin í því að gæta sín ekki í áltröppunni á leiðinni niður að verki loknu með þeim afleiðingum að hún rann til í neðstu tröppunni, hrasaði og féll. Sé því ljóst, að stefnandi sjálf sé frumvaldur að slysinu.
Örorkumati dr. Halldórs Baldurssonar er ekki mótmælt.
Hins vegar er einstökum kröfuliðum í kröfugerð stefnanda mótmælt sem of háum. Krafa um þjáningabætur sé langt umfram hámarksviðmiðun 3. gr. skaðabótalaga og beri að lækka þegar af þeirri ástæðu auk þess sem þjáningatími hafi orðið lengri en ella sökum slitgigtar í liðum stefnanda sem óviðkomandi séu slysinu. Þá sé krafa um tímabundið tjón miðuð við meðaltekjur næstu þriggja ára fyrir slys, en ekki þeirra rauntekna, sem stefnandi mundi hafa haft ef ekkert slys hefði orðið. Beri því skv.dómvenju að hafna þessum kröfulið. Þá eigi að koma til frádráttar skaðabótum skv. lögum og kjarasamningi, bætur úr samningsbundinni atvinnuslysatryggingu, bætur frá almannatryggingum og einnig hugsanlega frá lífeyrissjóði og sjúkrasjóði. Kröfu um dráttarvexti sé andmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.
Niðurstaða:
Enginn sjónarvottur var að slysi stefnanda þann 8. júlí 1999 og verður að leggja til grundvallar frásögn stefnanda sjálfrar um atvik að slysinu.
Fram hefur komið í þeirri frásögn, að stefnandi hefði lokið því verki að hreinsa rækju af plötu þeirri, sem um ræðir í málinu. Hafi hún verið á leið niður tröppuna. Hún hafi haldið í málmboga, sem stendur upp úr tröppunni og verið að stíga úr þriðja þrepi niður í annað þrep, þegar henni skrikar fótur eða hún hitti ekki fæti sínum á þrepið, henni var ekki ljóst, hvort gerðist, um leið og hún sleppti hendi af boganum.
Ljóst er af þessari frásögn stefnanda, að slysið hefur ekki orðið við framkvæmd þess verks að hreinsa rækjuna af plötunni. Þá kom það skýrt fram hjá stefnanda, að hvorki hafi trappan hreyfst á gólfinu, né hafi verið neitt það á þrepinu, sem olli því, að henni hafi skrikað fótur.
Verður þá ekki fallist á það álit Vinnueftirlitsins, að orsök slyssins megi rekja til þess að notaður hafi verið laus stigi á hálu gólfi.
Þegar litið er til þess framburðar stefnanda, að hún hefði talið sig vera að stíga niður á fyrsta þrepið og því sleppt taki, sem hún hafði á handfangi efst á tröppunni, um leið og hún steig niður, verður ekki hjá því komist, að telja, að stefnandi hafi sýnt af sér nokkurt gáleysi, er hún fór niður stigann.
Ekki hefur verið sýnt fram á, að rekja megi slysið að neinu leiti til skorts á eða mistaka við verkstjórn af hálfu stefnda.
Þá hefur ekki verið sýnt fram á, að neitt hafi verið að athuga við tröppuna, eða að hættueiginleikar hennar umfram þá hættu, sem almennt stafar af stigum, hafi valdið slysinu.
Verður með vísan til ofangreinds að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Stefnandi hefur gjafsókn í máli þessu. Gjafsóknarkostnaður kr. 358.699 greiðist úr ríkissjóði, þar af kr. 58.699 í útlagðan kostnað og kr. 300.000 í málsóknarlaun til talsmanns stefnanda, Ástráðs Haraldssonar, hrl.
Dóm þennan kveður upp Logi Guðbrandsson, héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, Hólmadrangur ehf., skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda Stefaníu Andrésdóttur, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, kr. 358.699, greiðist úr ríkissjóði, þar af málssóknarlaun talsmanns stefnanda, Ástráðs Haraldssonar, hrl. kr. 300.000.