Hæstiréttur íslands
Mál nr. 413/2001
Lykilorð
- Börn
- Kynferðisbrot
- Skýrslutaka
- Skilorð að hluta
|
|
Fimmtudaginn 31. janúar 2002. |
|
Nr. 413 /2001. |
Ákæruvaldið(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari) gegn Gunnari Gunnarssyni (Sigurður Georgsson hrl.) |
Börn. Kynferðisbrot. Skýrslutaka. Skilorð að hluta.
G var ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa í skála Útivistar í Básum í Þórsmörk þuklað stúlkuna X, fædda árið 1989, innanklæða á baki, maga og nálægt kynfærum. Var brotið talið varða við síðari málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992. G krafðist þess aðallega að héraðsdómur yrði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar. Til vara krafðist hann sýknu. Var ómerkingarkrafa G byggð á því að skýrslutaka af X í Barnahúsi hefði ekki verið í samræmi við meginreglur réttarfars. Ekkert var talið hafa komið fram sem benti til annars en að umrætt þinghald í héraði og skýrslutaka hefði verið í fullu samræmi við ákvæði laga um meðferð opinberra mála og reglur settar samkvæmt þeim. Því þóttu ekki efni til að taka til greina kröfu ákærða um ómerkingu og heimvísun héraðsdóms. Þá var talið sannað að G hefði áreitt X umrætt sinn með þeim hætti sem greindi í ákæru. Var hann dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða X 250.000 krónur í miskabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar samkvæmt ósk ákærða 23. október 2001 og krefst staðfestingar á sakfellingu, þyngingar á refsingu og greiðslu miskabóta samkvæmt ákæru.
Ákærði krefst þess aðallega að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar. Ella krefst hann sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en komi til sakfellingar krefst hann þess að refsing verði ekki ákveðin þyngri en í héraðsdómi og miskabætur lækkaðar.
Ómerkingar- og heimvísunarkrafa ákærða er á því reist, að meðferð málsins í héraði hafi ekki verið í samræmi við meginreglur réttarfars og er þá vísað til skýrslutöku af X í Barnahúsi. Ólöglærður starfsmaður barnaverndaryfirvalda hafi annast yfirheyrsluna og þótt bókað sé, að það hafi verið eftir ákvörðun og undir stjórn dómara sjáist ekki af myndbandsupptöku að dómarinn hafi verið viðstaddur. Upptakan sé einnig háð annmörkum þar sem andlitsdrættir og svipbrigði sjáist ekki eða mjög ógreinilega. Þá bætist við að yfirheyrandi hafi spurt barnið leiðandi spurninga.
Samkvæmt a-lið 1. mgr. 74. gr. a laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 23. gr. laga nr. 36/1999, ber lögreglu við rannsókn máls að leita atbeina dómara um skýrslutöku ef rannsóknin beinist að broti á XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og brotaþoli hefur ekki náð 18 ára aldri. Eftir 2. mgr. greinarinnar á meðal annars verjandi sakbornings rétt á að vera viðstaddur skýrslutökuna og einnig skal gætt ákvæða 7. mgr. 59. gr. laganna, sbr. 18. gr. laga nr. 36/1999, en hún kveður á um heimild dómara til að kveðja til kunnáttumann sér til aðstoðar við skýrslutöku af brotaþola yngri en 18 ára. Skuli dómari þá sjá til þess að málsaðilar geti fylgst með skýrslutöku um leið og hún fer fram ef þeir eru ekki viðstaddir í yfirheyrsluherbergi og er honum rétt að leggja fyrir brotaþola þær spurningar, sem þeir óska. Samkvæmt lokamálslið málsgreinarinnar skal dómsmálaráðherra setja nánari ákvæði í reglugerð um tilhögun skýrslutöku samkvæmt þessu ákvæði og gildir um þetta reglugerð nr. 321/1999 um tilhögun skýrslutöku fyrir dómi af brotaþola yngri en 18 ára. Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. hennar skal skýrslan tekin á eins varfærinn hátt og unnt er, þó með það að leiðarljósi að fá brotaþola til að skýra satt og rétt frá og draga ekkert undan sem máli skiptir. Þótt kunnáttumaður sé til kvaddur geti dómari ákveðið að spyrja brotaþola sjálfur með aðstoð hans. Dómari getur einnig falið kunnáttumanninum að spyrja brotaþola beint og jafnframt lagt fyrir hann að spyrja barnið tiltekinna spurninga.
Samkvæmt 2. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 16. gr. laga nr. 36/1999, er dómara heimilt að taka til greina sem sönnunargagn skýrslu, sem brotaþoli hefur gefið fyrir dómi samkvæmt 74. gr. a laganna áður en mál var höfðað. Þó skuli skýrslugjafi koma á ný fyrir dóm við málsmeðferð sé þess kostur og annar hvor málsaðili krefjist eða dómari telji annars ástæðu til. Sé um að ræða brot gegn XXII. kafla almennra hegningarlaga og brotaþoli ekki náð 18 ára aldri skuli hann þó ekki koma fyrir dóm nema dómari telji sérstaka ástæðu til.
Skýrslutaka af X fór fram í Barnahúsi 10. janúar 2001, en ekki 13. mars 2001, eins og í héraðsdómi segir. Samkvæmt endurriti, sem liggur fyrir í málinu, var dómþing sett og dómari gerði grein fyrir kæruefni og tilhögun skýrslutöku, auk þess sem vitnið var brýnt á vitnaskyldu og vitnaábyrgð. Mætt voru auk dómara fulltrúar lögreglustjóra og barnaverndarnefndar, rannsóknarlögreglumaður, verjandi ákærða og réttargæslumaður brotaþola. Skýrslutaka fór fram í sérútbúnu herbergi og sá Ragna Guðbrandsdóttir félagsráðgjafi um hana eftir ákvörðun og undir stjórn dómara og var skýrslan tekin upp á myndband. Verður af gögnum ráðið að yfirheyrandinn hafi verið einn með telpunni í yfirheyrsluherberginu en aðrir viðstaddir hafi getað fylgst með. Endurrit skýrslutökunnar var unnið af hálfu lögreglunnar í Reykjavík og kemur þar meðal annars fram að viðstöddum var gefinn kostur á að koma að spurningum til telpunnar.
Ekkert hefur komið fram, sem bendir til annars en að ofangreint þinghald og skýrslutaka hafi verið í fullu samræmi við ákvæði laga um meðferð opinberra mála og reglur settar samkvæmt þeim. Það var mat viðkomandi dómara að yfirheyrslan skyldi framkvæmd af tilkvöddum kunnáttumanni og er því ekki haldið fram að hann hafi áður haft afskipti af málinu. Verjandi ákærða gat komið að spurningum og athugasemdum við yfirheyrsluna og við aðalmeðferð málsins voru ekki gerðar athugasemdir af hans hálfu við framkvæmd hennar. Því er hafnað að myndbandsupptaka af yfirheyrslunni sé ekki nægilega skýr eða að spurningar þær, sem lagðar voru fyrir telpuna, hafi verið leiðandi.
Að framansögðu virtu eru engin efni til að taka til greina kröfu ákærða um ómerkingu og heimvísun héraðsdóms.
Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur, þó þannig að upphaf skilorðstíma skal miðast við uppkvaðningu dóms þessa.
Dæma ber ákærða til greiðslu áfrýjunarkostnaðar, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Gunnar Gunnarsson, sæti fangelsi í þrjá mánuði, en fresta ber fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að þremur árum liðnum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákvæði héraðsdóms um miskabætur og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði áfrýjunarkostnað sakarinnar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Georgssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Sifjar Konráðsdóttur hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. október 2001.
Málið er höfðað með ákæruskjali dagsettu 11. júní 2001 á hendur
Gunnari Gunnarssyni, kt. 030954-3439,
Blikahólum 4, Reykjavík,
,,fyrir kynferðisbrot með því að hafa aðfaranótt 3. desember 2000, í skála Útivistar í Básum í Þórsmörk, þuklað stúlkuna X fædda árið 1989, innanklæða á baki, maga og nálægt kynfærum.
Telst þetta varða við síðari málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Af hálfu stúlkunnar X, kt. [ ], er þess krafist að ákærði greiði henni miskabætur að fjárhæð kr. 450.000, auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 3. desember 2000 til greiðsludags, og kostnaðar við að halda fram bótakröfu.”
Verjandi ákærða gerir þær kröfur að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins og til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa. Þá verði málskostnaður, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda, greiddur úr ríkissjóði.
Málavextir
Málavextir eru þeir helstir að með bréfi Félagsþjónustu Reykjavíkurborgar, dagsettu 5. desember 2000 til lögreglunnar í Reykjavík, var fyrir hönd Barnaverndarnefndar Reykjavíkur óskað rannsóknar á því hvort brotið hefði verið kynferðislega á X, sem fædd er í mars 1989. Tilefnið var sagt það að stúlkan hafi farið ásamt foreldrum sínum og tveimur systkinum í helgarferð í Þórsmörk þann 1. desember 2000. Gist var í Básum en í skálanum voru samtals um 40 manns. Fjölskyldan kom sér fyrir uppi á lofti skálans en vegna þrengsla fékk hún ekki svefnpokapláss saman. Gisti móðirin ásamt börnunum öðrumegin á skálaloftinu en faðirinn hinumegin. Faðirinn fór að sofa um miðnættið en á Básum var fólk við drykkju fram undir morgunn, þar á meðal ákærði í málinu. Í bréfinu kemur fram að stúlkan hafi skýrt svo frá að í svefnrofunum hafi hún fundið að lagst var upp að henni, henni strokið um bakið og haldið hafi verið utan um hana. Hafi hún spurt hvort þetta væri móðir hennar og hafi viðkomandi sagt að svo væri. Hann hafi snúið stúlkunni að sér og káfað á henni innan klæða ofan í nærbuxunum. Stúlkan hafi þá farið fram úr og til móðurinnar sem hafi farið með börnin niður.
Þriðjudaginn 13. mars 2001 var tekin skýrsla af stúlkunni undir stjórn Hjartar Aðalsteinssonar, héraðsdómara í Reykjavík, að viðstöddum skipuðum verjanda ákærða og fleirum. Stúlkan skýrði svo frá að hún hafi komið ásamt foreldrum sínum í Þórsmörk í umrætt sinn og farið að sofa um kvöldið við hlið systkina sinna og móður sinnar, en faðirinn sofið annars staðar í húsinu. Við aðra hlið hennar hafi verið einhver maður en hinumegin systkinin tvö og þá móðir hennar. Hún hafi átt erfitt með að sofna, en það hafi síðan tekist. Stúlkan kvaðst síðan hafa vaknað er maðurinn hafi haldið utan um hana og hafi hún spurt hvort þetta væri mamma hennar og hafi hann svaraði því játandi. Hún hafi spurt hvernig hann hafi komist þangað, og hafi hann þá sagt ,,uss". Stúlkunni hafi þótt þetta eitthvað skrýtið, en mikil vínlykt hafi verið af honum. Stúlkan kvaðst hafa legið á maganum og hafi maðurinn alltaf togað hana að sér. Hún hafi verið klædd síðum ullarbuxum og síðum bol en þar sem henni hafi verið heitt hafi hún verið farin úr svefnpokanum. Ákærði hafi komið við bert hörund hennar bæði bak og maga og inn fyrir ullarbuxurnar og nærbuxurnar að framanverðu, en ekki alla leið niður að kynfærum. Hann hafi komið alveg upp að henni og hún þá fundið eitthvað skegg og áttað sig á því að þetta var ekki móðir hennar og fundið „eitthvað skegg" við andlit sér. Þetta hafi ekki tekið langan tíma eða um 10 mínútur að hún telur. Dimmt hafi verið og hún hafi ekki séð neitt. Hún hafi staðið upp og ætlað til mömmu sinnar, en ekki fundið hana og ekki heldur föður sinn. Maðurinn hafi staðið upp og gengið á eftir henni og hafi meðal annars gengið á bak við borð, en maðurinn hafi síðan farið niður. Þegar stúlkan kom niður ásamt móður sinni var maðurinn þar og einhver kona og hafi hún þá sagt foreldrum sínum hvað gerst hefði. Stúlkan skýrði frá nafni mannsins og kvaðst hafa kynnst honum svolítið síðastliðið sumar. Var þar um ákærða að ræða. Ákærði hafi hins vegar komið á eftir henni þegar hún ætlaði að hitta mömmu sína og hún sagt honum að hætta og hann þá farið niður. Hún kvaðst þó ekki hafa séð framan í hann þegar hann var uppi, ákærði hafi verið niðri og hún hafi séð hann einan niðri þegar hún kom niður með móður sinni. Hún lýsti honum sem frekar lágvöxnum. Aðspurð hvort hann hafi verið með skegg svarar stúlkan: „Já eða svona smá." Hún kvaðst ekki geta lýst klæðaburði hans en kvað hann hafa verið í fötum. Aðspurð um líðan hennar eftir atvikið kveðst hún gleyma þessu af og til, en henni hafi liðið illa fyrst á eftir og hafi fundist eins og allir sæju á henni hvað gerst hefði og hún hafi hugsað mikið um atburðinn.
Í málinu liggur fyrir skýrsla Vigdísar Erlendsdóttur, forstöðumanns Barnahúss, dagsett 28. júlí 2001 um greiningu og meðferð stúlkunnar. Fram kemur að stúlkan hafi sótt sjö greiningar- og meðferðarviðtöl á tímabilinu 2. febrúar til 25. apríl 2001 að beiðni barnaverndarnefndar. Í skýrslunni segir að stúlkan hafi greint frá áreitninni, sem hún hafi orðið fyrir, í fyrsta viðtali. Sjálf hafi stúlkan notað orðið ,,misnotuð” þegar hún vísaði til atviksins í síðari viðtölum, en hún hafi ekki lýst því nánar. Stúlkan hafi talað lágt og hikandi og getið þess að henni þætti erfitt að ræða líðan sína. Kvaðst hún finna til ábyrgðar á því sem gerst hafi og hafi töluverða sektarkennd af þeim sökum eins og títt sé um börn sem þolað hafi kynferðislega áreitni/ofbeldi. Segist hún hafa orðið ráðvillt og hrædd þegar atvikið átti sér stað og því ekki forðað sér um leið og henni var ljóst hvað var að gerast. Hún hafði á tilfinningunni að það sæist á henni að hún hefði verið misnotuð. Kvaðst hún þess fullviss að hún hafi verið öðruvísi en önnur börn og ,,verri en aðrir” og væri það skýringin á því að hún hefði ,,lent í þessu”. Sjálfsmat stúlkunnar væri lágt og atvikið hvíldi þungt á henni.
Síðan segir í skýrslunni: ,,viðtöl við telpuna leiddu í ljós ýmis einkenni sem þekkt eru meðal barna sem sætt hafa kynferðislegu ofbeldi ss., endurupplifanir (Kvíða eða hræðsla vegna ytri eða innri áreita, sem minna á atvikið) og hliðrunareinkenni (hliðrun við hugsununum, tilfinningum eða umræðum sem tengist atvikinu, hliðrun við virkni, stöðum eða fólk sem minna á atvikið). Fyrrnefnd einkenni tengjast áfallaröskun 3 (PTSD) en telpan uppfylli ekki skilyrði þeirrar greiningar. Engin hegðunarfrávik voru mælanleg hjá telpunni samkvæmt spurningalistum CBCL 4, en telpan og móðir hennar svöruðu spurningalistunum 2. og 4. apríl 2001.
Ljóst er að X varð fyrir umtalsverðum tilfinningalegum óþægindum vegna hinnar kynferðislegu áreitni/ofbeldis. Ætla má að hún muni áfram um nokkurn tíma finna fyrir því miðað við aðstæður, sem minna hana á atvikið."
Ákærði neitaði sök við frumrannsókn og hér fyrir dómi. Hann kvaðst hafa komið í Þórsmörk um hádegi laugardagsins ásamt fleira fólki og fundið sér svefnpláss hægra megin við stiga á svefnlofti í stærri skála Útivistar á svæðinu. Um hafi verið að ræða dýnur hlið við hlið á gólfinu. Hafi hann breitt úr svefnpokanum á dýnuna. Við hlið hans í loftinu hafi verið mágur hans, systir og síðan einhver kona en hann kvaðst ekki vita hver hafi verið hinum megin. Um kvöldið hafi hann drukkið bollu, eina rauðvínsflösku og því næst bjór. Aðspurður um áfengisáhrif sín kvaðst hann algjörlega hafa misst minnið um kvöldið og ekki vita hvenær hann kom upp að sofa. Kvaðst hann næst muna eftir sér þegar hann vaknaði úti í bifreið sinni milli klukkan 10 og 11 næsta dag og hafi hann þá verið með svefnpokann þar. Kvaðst hann þá hafa hitt systur sína og mág en þau hafi komið að bifreiðinni og systir hans þá sagt honum lítillega hvað hafi gerst um morguninn. Kvaðst ákærði ekki hafa haft um það að segja. Hann hafi farið með þeim í gönguferð um 11 leytið en síðan farið með þeim til Reykjavíkur. Ákærði kvaðst ekki minnast þess að hafa átt orðaskipti við C en kvaðst kannast við þann mann. Þá kvaðst hann ekki minnast þess að konur hefðu aðstoðað hann við að finna svefnstæði sitt um nóttin. Aðspurður kvaðst ákærði fyrst hafa heyrt um að hann væri grunaður um verknaðinn þegar lögregla hafði samband við hann og hafi það orðið honum mikið áfall. Borinn var undir ákærða framburður C, D og E og kvaðst hann eins og hjá lögreglu að hann myndi ekki eftir þessu en að hann rengdi ekki framburð þeirra.
Vitnið, A, móðir stúlkunnar, kvað fjölskylduna hafa komið nokkuð seint í skálann umrætt kvöld en auk þeirra hjóna voru þrjú börn með í för. Þá var bróðir vitnisins og mágkona með í ferðinni en þau hafi verið í öðrum bíl. Á svefnloftinu hafi verið dýnur á gólfinu þétt saman út við veggina en svefnpláss hafi mikið verið upptekin þegar þau komu. Svefnpláss hafi þó verið fyrir fjóra úr fjölskyldunni hægra megin á loftinu séð frá stiga og hafi þau tekið þau svefnstæði en þrír úr þeirra hóp hafi orðið að sofa vinstra megin á loftinu frá stiga. Þau hafi séð að ákærði var búinn að koma sér þarna fyrir, en svefnpoki hans hafi verið merktur honum. Til hafi staðið að eiginmaður vitnisins væri við hlið ákærða og að yngri börnin svæfu á milli þeirra hjóna. Stúlkan átti hins vegar að sofa vinstra megin á svefnloftinu ásamt bróður vitnisins og mágkonu. Vitnið kvaðst hafa farið snemma að sofa ásamt börnunum og þá hafi verið ákveðið að stúlkan svæfi í svefnstæði föðurins en hann flytti sig yfir á vinstra svefnloftið. Nokkur umgangur hafi verið um nóttina en það hafi verið algjört myrkur á loftinu og hafi vitnið verið að vakna af og til. Vitnið taldi að það hafi verið um klukkan 6 að stúlkan hafi komið og sagt að þau yrðu að fara niður og þegar þangað kom hafi hún sagt að maður hafi verið að káfa á henni. Ákærði hafi þá verið niðri og hafi verið mikið umhverfis þær á staðnum og spurt í sífellu hvað hefði gerst. Hafi vitnið beðið hann að fara og hafi eiginmaður hennar aðstoðað hann við að pakka saman dóti hans. Vitnið kvað stúlkuna hafa grátið mikið og hafi hún verið með hana í fanginu. Fjölskyldan hafi síðan farið til Reykjavíkur. Hún kvað stúlkuna vera rólega að eðlisfari og ekki grátgjarna. Þegar heim var komið hafi stúlkan farið að gráta og skýrt henni frá því nákvæmlega sem gerðist m.a. að maðurinn hafi klappað henni á bakinu innan klæða og farið ofan í nærbuxur. Vitnið kvaðst ekki telja að öðrum hafi verið til að dreifa en ákærða. Vitnið kvað stúlkuna eftir atvikið hafa einangrað sig mikið sl. vetur s.s. í skóla og meðal vina. Þá hafi sjálfsmynd hennar beðið mikinn hnekki af atvikinu. Stúlkunni sé hins vegar farið að líða betur nú en hræðist þó að sofa í skála.
Vitnið, B, faðir stúlkunnar skýrði svo frá aðstæðum á svefnloftinu þegar fjölskyldan kom á sömu lund og eiginkona hans. Um kvöldið hefðu eiginkonan og börnin gengið til náða um klukkan hálfellefu og þá hafi verið ákveðið að stúlkan svæfi þar sem vitninu hefði verið ætlaður staður. Hefði það verið við hlið svefnpoka ákærða. Vitnið kvaðst hafa komið upp á svefnloftið skömmu eftir miðnætti og lagst fyrir vinstra megin og sofnað. Nokkurt ónæði hafi verið uppi þar sem fólk hafi verið á ferð; fólk hefði farið upp til svefns, sumir farið niður aftur og aðrir setið og spjallað. Milli klukkan fimm og sex um morguninn hefði vitnið vaknað við umgang og heyrt til mæðgnanna og hafi greinilega verið mikil „panik“ á ferðinni. Þá hefði ákærði verið á staðnum en fáir á ferli. Þau hefðu farið niður og ákærði sífellt verið í kringum þau og ítrekað spurt hvað hefði gerst. Vitnið kveður að stúlkan hafi sagt að einhver hafi lagt hönd yfir sig og hafi vitnið sagt ákærða það. Hefði ákærði sagt að það væri agalegt og lagt áherslu á að stúlkunni yrði trúað, þetta væri alvarlegt mál. Þau hafi farið niður í eldhús en síðar hafi vitnið farið og sótt yngri börnin og komið niður með þau. Hefði stúlkan þá grátið og verið „ómöguleg“. Vitnið segir, að ákærði hafi beðið vitnið um að lána sér vasaljós og hafi vitnið farið með ákærða upp til að taka saman dót sitt þar á meðal svefnpokann sem var hlið svefpoka stúlkunnar. Hafi svefnpokinn verið opinn og peysa ákærða og önnur föt til fóta. Vitnið segir að á leiðinni til Reykjavíkur um morguninn hafi stúlkan fátt viljað segja af því sem gerst hefði og allan þann dag hefði hún að mestu legið fyrir og grátið. Smátt og smátt hafi hún hins vegar sagt hvað hefði gerst. Hafi hún fundið að tekið hafi verið utan um hana en skynjað að það hafi hvorki verið vitnið né móðir hennar. Hafi verið farið inn á bolinn á henni og „strokið bak og svoleiðis“ og svo hafi henni verið snúið við og hafi maður haldið henni að sér. Hafi stúlkan fundið mikla áfengislykt en hún hafi vitað að hvorki vitnið né móðir hennar hafi verið undir áhrifum áfengis. Maður þessi hafi káfað á henni að ofanverðu og einnig farið niður í nærbuxur en þá hafi hún náð að rífa sig lausa og farið fram úr rúminu. Ákærði hafi verið ölvaður um morguninn en þó getað gengið um, spurt spurninga og óskað eftir vasaljósi til að taka saman föggur sínar. Vitnið kvaðst ekki minnast þess að ákærði hafi verið neitt sérstaklega skeggjaður en ekki hafi hann verið rakaður heldur. Vitnið segir að stúlkan sé nú „brotin“, henni finnist hún öðruvísi en önnur börn, hún telji að allir viti hvað hafi hent hana og hún falli ekki inn í hópinn eins og hún hafi áður gert. Sjálfsöryggi hennar sé brostið og hún geti til dæmis ekki hugsað sér að fara í skálaferðir.
Vitnið, F, kvaðst kannast við að ákærði hefði verið í skálanum umrætt sinn en kvaðst aldrei hafa séð hann fyrr. Vitnið kvaðst hafa farið upp á svefnloftið milli klukkan hálffimm og fimm um morguninn og hafi G farið upp með vitninu og haft með sér vasaljós. Hefðu þær komið að ákærða við stigann niðri og hann orðið þeim samferða upp. Ákærði hefði sagst vera hægra megin á loftinu og hafi G lýst honum í áttina að svefnstað hans. Engin orðaskipti hefðu orðið milli þeirra þá en ákærði hefði séð svefnpoka sinn og farið að honum. Vitnið kvaðst hafa sofnað mjög fljótt og ekki hafa orðið vart við að nokkuð gerðist á svefnloftinu.
Vitnið, G, kvaðst hafa ætlað að beina ákærða í herbergi á neðri hæð en hann þá sagst sofa á efri hæð og farið með þeim upp. Vitnið hefði lýst ákærða en ekki séð í hvaða svefnstað hann hefði farið og hefði ekki séð hann leggjast til svefns. F hefði farið að sofa, en þær áttu svefnstæði vinstra megin á svefnloftinu, en vitnið farið niður aftur. Vitnið hefði sjálft farið að sofa á bilinu klukkan 5 til 6 og hefðu þá 6 til 7 manns enn verið á fótum niðri. Vitnið kvaðst ekki hafa orðið vart við neitt eftir að það fór að sofa.
Vitnið C kvaðst einskis hafa orðið vart um nóttina og sofið til klukkan níu um morguninn er kona vitnisins hefði vakið það og sagt að A og B hefðu farið í bæinn. Kona vitnisins hefði sagt að einhver hefði lagt hönd yfir stúlkuna en hún vissi ekki meira en það. Eftir þetta hefði vitnið fengið sér morgunverð en að því búnu gengið út og gangsett bifreið sína. Hefði klukkan þá verið milli 9 og 10. Þá hefði ákærði komið að sér og sagt að foreldrar stúlkunnar hefðu farið snemma. Hefði vitnið þá sagt ákærða að einhver hefði lagt hönd yfir stúlkuna en ákærði þá sagt: „Já, það var víst ég“, en þeir hefðu ekki rætt þetta frekar. Vitnið var spurt um ástand ákærða og hvort hann hefði verið merkjanlega ölvaður og sagði vitnið að ákærði hefði virst timbraður og hefði ákærði sagst hafa verið mjög ölvaður um nóttina og hafa sofið í bílnum. Ákærði hefði enga skýringu gefið á því. Annað hefðu þeir ekki rætt sem tengist máli þessu.
Vitnið, Vigdís Erlendsdóttir sálfræðingur, kvað stúlkuna hafa sótt alls átta greiningar- og meðferðarviðtöl hjá sér og hafi það síðasta verið 14. september sl. Kvað vitnið stúlkuna hafa lýst atburðum í fyrsta viðtalinu og þá gefið þá lýsingu sem fram kom í skýrslu vitnisins frá 28. júní 2001 en síðan þá hafi hún ekki viljað ræða það nánar. Vitnið taldi stúlkuna í góðu meðallagi þroskaða en hún hafi átt mjög erfitt með að tjá sig um atvikið, sjálfsmat lágt og átt erfitt með að vera innan um fólk. Þá hafi hún verið sveiflukennd í skapi að eigin sögn. Þetta hafi verið verst í byrjun en í síðasta viðtali hafi komið fram að henni liði nú betur. Hafi hún enn svonefnd hliðrunareinkenni þar sem hún hafi lýst því í síðasta viðtalinu að hún forðaðist að fletta blöðum og hlusta á útvarp ef ske kynni að þar væru fréttir af kynferðisofbeldi en það ylli henni kvíða. Þá hafi hún ekki fengist til að fara í skálaferðir í sumar. Vitnið kvað einstök einkenni áfallaröskunar, sem sé sjúkdómsgreining, koma fram hjá stúlkunni en þar sem hún hafi ekki nægilega mörg slík einkenni falli hún ekki undir greininguna sjálfa. Kvað vitnið að stúlkunni muni takast að ná sér en til þess þurfi hún að taka sig á. Vitnið staðfesti skýrslu sína frá 28. júní sl.
Vitnið, D, kvaðst hafa sofið hægra megin á svefnloftinu. Honum á aðra hönd hafi verið ákærði, sem er mágur vitnisins, og síðan eiginkona vitnisins. Vitnið kvaðst hafa vaknað um 5 leytið við að kona hafi komið með ákærða og lýst honum að svefnstæði hans. Hafi vitnið hálfpartinn ýtt honum inn í fleti ákærða og taldi vitnið að ákærði hefði ekki klætt sig úr fötunum. Vitnið kvaðst hafa orðið var við að ákærði lá utan í honum en hann hafi snúið sér að eiginkonu sinni. Vitnið kvaðst hafa verið milli svefns og vöku en síðan vaknað við óp í barni sem kallaði "mamma". Hafi móðirin farið að sinna barninu og síðan hafi faðirinn komið og þau farið niður. Ákærði hafi þá verið vakandi og einnig farið niður. Vitnið kvaðst hafa farið niður og hafi hann þá heyrt á móðurinni að einhver hafi verið að strjúka stúlkunni. Ákærði hafi verið þarna niðri og hafi vitnið séð að hann var að tala við föðurinn en hann hafi síðan farið út í bílinn að sofa. Hafi hann hitt ákærða um 10,30 um morguninn en þeir hafi ekki rætt atburði næturinnar. Vitnið kvaðst ekki hafa neitt áfengis um nóttina. Vitnið kvað töluverðan umgang hafa verið um skálann fram eftir nóttu og hann því verið að vakna alla nóttina. Vitnið kvaðst ekki hafa orðið var við umgang á svefnloftinu milli 5 og 6 um morguninn. Þegar hann kom niður hafi stúlkan legið á bekk með móður sinni og ekki virst óróleg eða grátandi.
Vitnið, E, kvaðst hafa verið í skálanum umrætt sinn og lítillega rætt við ákærða. Ákærði hafi verið talsvert drukkinn um nóttina. Vitnið sem svaf niðri kvaðst hafa farið að sofa um 4 leytið. Vitnið hafi síðan vaknað um 6 leytið og þá hafi hún hitt ákærða í anddyrinu en hún hafi þurft að fara á klósettið. Hún hafi síðan hitt móður stúlkunnar í eldhúsinu og þá séð að stúlka var grátandi.
Niðurstaða
Mál það sem hér um ræðir kom upp í desember 2000 er stúlkan skýrði frá kynferðislegri áreitni ákærða gagnvart henni. Ákærði hefur neitað sök við frumrannsókn og hér fyrir dómi.
Í málinu liggja ekki fyrir uppdrættir af umræddum skála Útivistar í Básum í Þórsmörk og skipan svefnstæða. Hins vegar hafa vitni upplýst hvernig aðstæður voru á svefnloftinu umrædda nótt. Ber þeim saman um að mjög þröngt hafi verið en dýnum var raðað þétt saman hlið við hlið á gólfið út við veggi en gangvegur við enda þeirra. Þá er ágreiningslaust að svefnstæði þeirra aðila sem máli skipta hér voru þannig, að innst á svefnloftinu var svefnstæði móður stúlkunnar, því næst yngri barnanna og síðan svefnstæði stúlkunnar. Við hina hlið hennar var svefnstæði ákærða, þá mágs hans og síðan systur hans en þau voru því nær stiga upp á svefnloftið. Eins og fram hefur komið stóð til að stúlkan svæfi vinstra megin á svefnloftinu ásamt ættingja sínum vegna þess að svo þröngt var hægra megin á loftinu að fjölskylda stúlkunnar komst ekki öll þar fyrir. Þetta breyttist síðan þegar stúlkan fór að sofa um kvöldið ásamt móðurinni.
Ákærði neytti áfengis um kvöldið og nóttina og ber við algjöru minnisleysi um atburði þá sem hér skipta máli. Hefur hann ekki getað borið um það hvenær hann fór að sofa um nóttina, eða hvað hann gerði. Hann hafi vaknað út í bifreið sinni milli klukkan 10 og 11 næsta dag og þá verið með svefnpoka sinn þar. Kvaðst hann þá hafa hitt systur sína og mág við bifreiðina og farið með þeim í gönguferð um 11 leytið, en haldið síðdegis til Reykjavíkur. Minnist hann ekki orðaskipta við aðra þennan morgun.
Vitnin, F og G, kváðust hafa orðið samferða ákærða upp á svefnloft skálans um 5 leytið um morguninn og hafi G. lýst ákærða með vasaljósi að svefnstæði hans hægra megin í skálanum, en þar var algjört myrkur. Vitnið, D, staðfesti að hann hafi vaknað um 5 leytið við að konurnar lýstu ákærða að svefnpoka hans og að ákærði lagðist þar fyrir við hlið vitnisins. Hafi ákærði legið utan í honum vegna þrengsla þó ekki allan tímann en vitnið hafi vaknað um 6 leytið við óp í stúlku. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið þykir sýnt að ákærði kom upp á svefnloftið um 5 leytið um morguninn og lagðist þar fyrir en stúlkan var þá sofandi við hlið hans.
Stúlkan kvaðst hafa vaknað við að maður hélt utan um hana og togað hana til sín. Stúlkan, sem var í svefnrofanum, kvaðst hafa fundið vínlykt af manninum og fundið „eitthvað skegg". Hann hafi farið inn á hana bæði á bak og maga og lítillega niður í buxurnar, en þó ekki alla leið að kynfærum. Stúlkan hafi síðan vakið foreldra sína og farið með þeim niður af svefnloftinu. Fyrir liggur, samkvæmt framburði vitna, að það var um klukkan 6 um morguninn.
Ljóst er að stúlkunni var mjög brugðið þegar hún vakti móður sína og skýrði henni þá þegar frá því að hún hefði orðið fyrir áreiti. Stúlkan skýrði skilmerkilega frá atburðum við skýrslutöku fyrir dómi en myndband af skýrslutökunni var sýnt í réttinum. Átti hún greinilega erfitt með að skýra frá atvikinu en að öðru leyti var framburðurinn greinargóður og skýr og frásögnin sjálfstæð. Hefur framburður hennar verið sjálfum sér samkvæmur frá upphafi. Atvikið hefur valdið stúlkunni vanlíðan síðar og hefur hún samkvæmt framburði Vígdísar Erlendsdóttur sálfræðings ýmis einkenni áfallaröskunar. Er það mat dómenda að framburður stúlkunnar sé trúverðugur og ekkert fram komið sem veikir hann. Hafa vitni borið að stúlkan hafi verið hrædd og miður sín eftir að hún vaknaði. Þegar það er virt í heild sem hér hefur verið rakið þykir framburður stúlkunnar veita traustar vísbendingar um að atburðurinn hafi gerst í raun.
Stúlkan kvaðst hafa staðið upp eftir að hún vaknaði og svipast um eftir móður sinni en maðurinn hafi komið á eftir henni. Hún hafi síðan séð manninn fara niður og skömmu síðar þegar hún kom niður ásamt móður sinni hafi hún séð ákærða þar en hún kannaðist við hann með nafni. Vitnið, D, bar að hann hafi ekki orðið var við umgang á svefnloftinu eftir að ákærði kom og lagðist við hlið hans þar til hann vaknaði við óp stúlkunnar.
Ákærði hefur borið við algjöru minnisleysi um atburði næturinnar allt þar til hann hitti systur sína og mág fyrir klukkan 11 eins og áður hefur komið fram. Vitnið, C, sagðist hafa hitt ákærða um 10 leytið um morguninn. Kvað vitnið það hafa komið fram í samtali þeirra að einhver hafi lagt hönd á stúlkuna. Vitnið bar að ákærði hafi þá sagt: „Já, það var víst ég." Ákærði kvaðst ekki muna eftir að hafa hitt vitnið en kvaðst ekki draga framburð vitnisins í efa. Framburður vitnisins, C, er að mati dómsins trúverðugur. Þykir þetta benda til þess að ákærði muni meira en hann vill vera láta um atburði þá um morguninn og því ekki trúverðugur að þessu leyti.
Vitnið, D, kvaðst hafa séð ákærða fara niður eftir að vitnið vaknaði við óp stúlkunnar og ber vitnum saman um að ákærði hafi farið niður af svefnloftinu þegar eftir atvikið. Í framburði stúlkunnar kemur fram að hún hafi fundið „eitthvað skegg" við andlit sér og ennfremur svarar hún spurningu um það, hvort ákærða hafi verið með skegg: „Já eða svona smá." Faðir stúlkunnar kvaðst ekki minnast þess að ákærði hafi verið sérlega skeggjaður en hann hafi heldur ekki verið rakaður. Á ljósmyndum af ákærða, sem teknar voru á kvöldvökunni, má sjá að ákærði er ekki skeggjaður. Dóminum þykir hins vegar ekki ástæða til að leggja meira upp úr þessu atriði en að vangi ákærða hafi, að mati stúlkunnar, verið hrjúfur viðkomu. Þá er það mat dómsins að ekkert hafi fram komið í málinu að einhverjum öðrum kunni að vera til að dreifa en ákærða enda telst það útilokað miðað við aðstæður allar á svefnloftinu, tímasetninga og lýsingar vitna að öðru leyti.
Þegar allt framangreint er virt telur dómurinn sannað að það hafi verið ákærði sem áreitti stúlkuna umrætt sinn. Telst því að fram sé komin lögfull sönnun þess að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákærunni og er þar rétt færð til refsiákvæðis.
Ákærði hefur ekki samkvæmt sakarvottorði gerst sekur um refsiverða háttsemi. Þykir refsing ákærða hæfilega ákvörðuð fangelsi í 3 mánuði, en rétt þykir eftir atvikum að skilorðsbinda refsinguna eins og greinir nánar í dómsorði.
Dæma ber ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Georgssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur
Skipaður réttargæslumaður stúlkunnar, Sif Konráðsdóttir hæstaréttarlögmaður, krefst þess að ákærði verði dæmdur til þess að greiða stúlkunni miskabætur 450.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 3. desember 2000 til greiðsludags auk málskostnaðar. Með broti sínu gerðist ákærði sekur um meinsemd gegn persónufriði stúlkunnar sem valdið hefur henni talsverðri andlegri röskun en samkvæmt gögnum málsins bar stúlkan greinileg einkenni um þá kynferðislegu áreitni sem hún varð fyrir. Þykja miskabætur henni til handar hæfilega ákveðnar 250.000 krónur og skal fjárhæðin bera dráttarvexti frá dómsuppsögudegi samkvæmt lögum nr. 38/2001 til greiðsludags. Þá ber að greiða réttargæslumanni brotaþola réttargæslulaun sem hæfileg þykja 150.000 krónur.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigríður Jósefsdóttir saksóknari.
Valtýr Sigurðsson héraðsdómari, ásamt meðdómendunum Pétri Guðgeirssyni héraðsdómara og Sigríði Ingvarsdóttur héraðsdómara kváðu upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Gunnar Gunnarsson, sæti fangelsi í 3 mánuði, en fresta ber fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að 3 árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði X, 250.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt lögum nr. 38/2001 frá dómsuppsögudegi til greiðsludags.
Ákærði greiði allan sakarkostnað þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Georgssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.
Ákærði greiði skipuðum réttargæslumanni brotaþola, Sif Konráðsdóttur hæstaréttarlögmanni, réttargæslulaun sem hæfileg þykja 150.000 krónur.
Sératkvæði Péturs Guðgeirssonar héraðsdómara.
Ég er sammála samdómendum mínum um það að slá því föstu að stúlkan X hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni þar sem hún lá sofandi á svefnlofti gistiskálans þessa nótt. Vegur þar þyngst framburður foreldra hennar sem bæði hafa komið fyrir dóminn í aðalmeðferð málsins og er framburður þeirra studdur frásögn stúlkunnar við yfirheyrslu hinn 13. mars sl., sbr. hér á eftir. Málavöxtunum er skilmerkilega lýst í dóminum og tel ég að í málinu séu talsverðar líkur fyrir því að ákærði hafi brotið gegn stúlkunni.
Ákærði neitar sök og hann hefur ennfremur sagt að hann muni ekki eftir sér þessa nótt vegna ölvunar. Framburður vitna bendir einnig til þess að hann hafi verið mjög ölvaður og skýrslur hans í málinu benda ekki til annars en að hann muni ekki eftir atburðum næturinnar. Frásögn C af því sem ákærði hefði sagt verður að skoðast í samhengi við það að hann hafði þá áður verið sakaður um verknaðinn.
Stúlkan var yfirheyrð í “Barnahúsinu” eins og sá staður er nefndur í þingbókarendurriti. Héraðsdómari setti rétt í þessu húsi þegar yfirheyrslan fór þar fram. Þá voru og fulltrúi ákæruvalds, verjandi ákærða og réttargæslumaður stúlkunnar staddir þar. Í endurritinu segir ennfremur að nafngreindur starfsmaður barnaverndaryfirvalda hafi séð um yfirheyrsluna “eftir ákvörðun og undir stjórn dómara samkvæmt 7. mgr. 59. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991...” Ekki er að sjá af endurritinu né af myndbandsupptöku af yfirheyrslunni að dómarinn hafi verið viðstaddur hana, eins og þó er gert ráð fyrir í fyrrnefndu ákvæði, heldur virðist hann hafa verið annars staðar í húsinu meðan hún fór fram. Af upptökunni má hins vegar ráða að yfirheyrandinn hafi verið í sambandi við aðra úr yfirheyrsluherberginu. Myndbandsupptakan af skýrslu stúlkunnar er þannig úr garði gerð að andlit hennar er mjög lítill hluti af myndfletinum og andlitsdrættir og svipbrigði sjást ekki eða mjög ógreinilega. Aftur á móti er frásögn hennar nokkuð greinargóð og er trúleg í sjálfu sér.
Í 1. gr. barnaverndarlaga nr. 58, 1992 segir að í barnaverndarstarfi skuli jafnan það ráð upp taka sem ætla má að barni sé fyrir bestu. Þessi meginregla er grundvöllur allrar barnaverndarlöggjafar og ber starfsmönnum barnaverndaryfirvalda ávallt að haga starfi sínu í samræmi við hana. Við rannsókn sakamáls verður á hinn bóginn að líta til fleiri hagsmuna en barnsins, þar á meðal til hagsmuna sakbornings af því að fá réttláta málsmeð, sbr. t.d. VI. kafla laga um meðferð opinberra mála, 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Ísland, 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópus, sbr. lög nr. 62, 1994. Er þess að gæta að yfirheyrslu samkvæmt 74. gr. a í lögum um meðferð opinberra mála er ætlað að verða hluti af aðalmeðferð máls, komi til málshöfðunar. Ekki nægir að málsmeðferðin sé réttlát og óvilhöll heldur verður hún einnig að virðast vera það. Er því hlutlægt séð óhæft að slík yfirheyrsla barns fari fram í húsnæði barnaverndaryfirvalda og að starfsmaður barnaverndaryfirvalda annist hana. Í 46. gr. laga um meðferð opinberra mála kemur fram sú meginregla íslensks réttarfars að sönnun sé óbundin og að dómari sé frjáls að meta það hverju sinni hvort nægileg sönnun sé fram komin um hvert það atriði sem sanna skal. Lög nr. 36, 1999 breyta ekki þessari meginreglu og ef skýrslu barns eða ungmennis, samkvæmt 74. gr. a í lögunum, er áfátt hlýtur ákæruvaldið að verða að bera hallann af því en ekki sakborningur. Ég tel myndbandsupptökuna með skýrslu stúlkunnar hafa takmarkað sönnunargildi vegna þeirra ágalla sem ég hef gert grein fyrir.
Myrkur var á svefnlofti gistiskálans þegar atburðurinn varð og þar var fjöldi manns í einni flatsæng á gólfinu. Fólk var einnig í öðrum skála sem er þar rétt hjá og einhver mannaferð var á milli skálanna um nóttina. Var skálinn sem atburðurinn gerðist í ólæstur um nóttina, að því er vitni hefur borið. Vitni bera það að menn hafi legið þétt í svefnpokum á skálaloftinu en ekki er unnt að gera sér grein fyrir því af skýrslum þeirra hversu breitt bil var á milli manna. Enginn uppdráttur eða ljósmyndir af skálanum eru í málinu og engar mælingar hafa heldur verið gerðar þar svo að fá megi glögga hugmynd um aðstæður í húsinu. Nokkur umferð fólks var um loftið þessa nótt og sumir ölvaðir. Vitni bera það einnig að ákærði hafi verið nokkuð á ferðinni þessa nótt og að þurft hafi að hjálpa honum að finna svefnpokann sinn þegar hann loks lagðist niður. Mágur ákærða hefur borið það að ákærði hafi þá snúið sér að honum og legið utan í honum. Stúlkan sagði í yfirheyrslunni 13. mars sl. að hún hefði ekki séð manninn sem áreitti hana í myrkrinu en sagt að hún hefði fundið af honum áfengisþef og fundið fyrir skeggi hans á andliti sér. Hefði maðurinn farið niður eftir þetta og þegar hún fór niður hafi þar verið einn karlmaður, fremur lágvaxinn með smáskegg. Meðal gagna í málinu er ljósmynd sem tekin var í skálanum í þetta sinn og má þekkja ákærða á henni. Er að sjá að hann hafi þá verið skegglaus. Stúlkan hefur aldrei verið spurð nánar út í þetta atriði, hvort hún hafi átt við það að maðurinn hafi verið með skeggbrodda eða þá hvort hann hafi verið með meira skegg. Hefði þó verið rík ástæða til þess, en ákæruvaldið hefur ekki séð ástæðu til þess að fá hana aftur fyrir dóm. Allan vafa um þetta atriði verður að meta ákærða í hag.
Það er niðurstaða mín að ekki sé hægt að útiloka það að annar maður en ákærði hafi áreitt stúlkuna í umrætt sinn og að ákæruvaldinu hafi því ekki tekist að færa fram fullar sönnur þess að hann hafi gert það. Tel ég að sýkna beri hann af ákærunni. Þar sem meiri hluti dómenda hefur sakfellt ákærða ber mér þó að taka afstöðu til refsingar, skaðabóta og sakarkostnaðar. Er ég sammála samdómendum mínum um þessi atriði.