Hæstiréttur íslands

Mál nr. 491/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fasteignakaup
  • Ógilding samnings
  • Útburðargerð


Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 14. nóvember 2002.

Nr. 491/2002.

Ingibjörg Ólafsdóttir

(Magnús B. Brynjólfsson hdl.)

gegn

Svavari Guðmundssyni

(Garðar Valdimarsson hrl.)

 

Kærumál. Fasteignakaup. Ógilding samnings. Útburðargerð.

S var heimilað að fá I borna með beinni aðfarargerð út úr íbúð sem hann hafði keypt af I gegn því að hann léti af hendi nánar tilgreindar greiðslur. Voru varnir sem I hafði uppi um meiriháttað nauðung, misneytingu o.fl. ekki  teknar til greina.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. október 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. nóvember sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. október 2002, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að honum yrði heimilað að fá sóknaraðila borna með beinni aðfarargerð út úr íbúð merktri nr. 0204 að Núpalind 8 í Kópavogi gegn því að varnaraðili léti af hendi nánar tilgreindar greiðslur. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um heimild til aðfarargerðar. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmd til að greiða varnaraðila kærumálskostnað, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Ingibjörg Ólafsdóttir, greiði varnaraðila, Svavari Guðmundssyni, 100.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. október 2002.

I.

Með aðfararbeiðni, sem barst dóminum 27. nóvember s.l., hefur sóknaraðili Svavar Guðmundsson, Víkurbraut 54, Grindavík, krafist þess að varnaraðili, Ingibjörg Ólafsdóttir, Núpalind 8, Kópavogi, verði með beinni aðfarargerð borin út úr íbúðinni á annarri hæð að Núpalind 8, Kópavogi, merkt 0204, ásamt öllu sem henni tilheyrir og honum fengin umráð fasteignarinnar, allt gegn því að gerðarbeiðandi afhendi íbúð á neðri hæð að Víkurbraut 54, Grindavík, merkt 0101, og undirriti og afhendi tilbúið til þinglýsingar fasteignaveðbréf að fjárhæð 869.664 krónur eins og ráð er fyrir gert í samningi milli aðila.

Af hálfu sóknaraðila er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, auk þess að fjárnám verði heimilað fyrir kostnaði af væntanlegri gerð.

Af hálfu varnaraðila er þess krafist að beiðni sóknaraðila um útburð varnaraðila verði hafnað. Þá er krafist málskostnaðar að mati réttarins auk virðisaukaskatts.

II.

Helstu málavextir eru þeir, að málsaðilar undirrituðu þann 22. júlí 2002 tvö kauptilboð. Annars vegar var um að ræða kauptilboð sóknaraðila í fasteign varnaraðila að Núpalind 8, Kópavogi, að fjárhæð 14.800.000 krónur og hins vegar kauptilboð varnaraðila í fasteign sóknaraðila að Víkurbraut 54, Grindavík, að fjárhæð  9.400.000 krónur. Um var að ræða makaskipti þar sem sóknaraðili skuldbatt sig til að greiða meginhluta kaupverðsins með afhendingu fasteignar sinnar að Víkurbraut 54.

Samkvæmt kauptilboði í Núpalind 8, Kópavogi, skyldi sóknaraðili greiða 9.400.000 krónur með íbúð sinni að Víkurbraut 54, Grindavík, í peningum  1.150.000 krónur á fimm tilgreindum gjalddögum, með yfirtöku á veðskuldabréfi á 1. veðrétti, að eftirstöðvum 3.380.336 krónur og með fasteignaveðbréfi á 3. veðrétti, að fjárhæð  869.664 krónur skiptanlegu fyrir húsbréf, samtals 14.800.000 krónur.

Sóknaraðili lét þinglýsa kauptilboði sínu í Núpalind 8 og var það áritað um móttöku til þringlýsingar hinn 1. ágúst 2002.

    Samkvæmt kauptilboði í Víkurbraut 54, Grindavík, skyldi varnaraðili greiða kaupverðið með íbúðaskiptum, Núpalind 8 í Kópavogi, afhending 25. ágúst 2002, 3.290.000 krónur og með fasteignaveðbréfum, skiptanlegum fyrir húsbréf, veðskuldabréf á 1. veðrétti, 6.110.000 krónur.  Samtals 9.400.000 krónur.

Sóknaraðili kveður varnaraðila og eiginmann hennar hafa komið fimm sinnum frá mánaðarmótum júní/júlí 2002 til að skoða Víkurbraut 54, áður en skrifað var undir ofangreind tilboð. Hafi þau lagt mikla áherslu á að makaskiptin gengju fljótt og vel fyrir sig og að afhending færi helst fram fyrir 10.- 15 ágúst 2002. Varnaraðili hafi m.a. gert tilboð í eignina sem sóknaraðili hafi hafnað áður en ofangreind tilboð, sem báðir aðilar gátu sætt sig við voru undirrituð.

Með bréfi lögmanns varnaraðila dagsettu 26. júlí 2002 til fasteignasölunnar Áss ehf. var tilkynnt að varnaraðili afturkallaði tilboð sitt í Víkurbraut 54 og samþykki sitt á tilboði sóknaraðila í Núpalind 8. Ástæður voru sagðar þær að varnaraðili teldi sig hafa verið þvingaða með ólögmætum hætti af eiginmanni sínum til að rita undir umrædd tilboð og varðaði það ógildingu þeirra.

Með bréfi lögmanns sóknaraðila, dagsettu 29. júlí 2002, til lögmanns varnaraðila, var greint frá þeirri afstöðu sóknaraðila, að hann teldi afturköllun varnaraðila á samþykki sínu fyrir tilboðunum ólögmæta og að hann krefðist þess að samþykkt kauptilboð yrðu réttilega efnd. Var þess krafist að þegar yrði gengið frá endanlegum kaupsamningum um eignirnar. Að öðrum kosti væri sóknaraðila nauðugur einn kostur að leita réttar síns með aðstoð dómstóla.

Með bréfi lögmanns varnaraðila, dagsettu 29. júlí 2002, til lögmanns sóknaraðila, fylgdi yfirlýsing varnaraðila þess efnis að eiginmaður hennar hefði þvingað hana til að undirrita umrædd kauptilboð. Hann hefði veist hvað eftir annað harkalega að henni til að fá hana til að samþykkja sölu á Núpalind 8 fyrir 22. júlí sl., m.a. til að aflétta skuldum (fjárnámum) hans, sem settar höfðu verið á íbúðina gegn hennar vilja. Hann hefði m. a. beitt hana nauðung í því formi að hóta að fyrirfara sér fengi hann ekki fram vilja sinn um að setja skuldir sínar á íbúð varnaraðila að Núpalind 8. Í bréfi sínu telur lögmaður varnaraðila, að nauðung sú, er varnaraðili lýsi í yfirlýsingu sinni, muni örugglega valda ógildingu tilboðanna lögum samkvæmt. Með bréfi lögmannsins fylgdi umboð, dagsett sama dag, til handa lögmanni varnaraðila til að tilkynna sóknaraðila að varnaraðili hyggist ekki ætla að standa við tilboð sitt vegna hinnar meintu nauðungar.

Með bréfi lögmanns sóknaraðila, dagsettu 9. ágúst 2002, til lögmanns varnaraðila, var áréttað að afstaða sóknaraðila væri óbreytt. Var þess krafist að varnaraðili stæði við gerð kauptilboð og gengi frá endanlegum kaupsamningum um eignirnar. Bréfinu var ekki svarað en í samtali lögmanna skömmu síðar kom fram að varnaraðili hyggðist ekki standa við kauptilboð sitt.

Með símskeyti frá fasteignasölunni Ási dagsettu 22. ágúst 2002, sem varnaraðili móttók og kvittaði fyrir þann 23. sama mánaðar, var varnaraðili boðuð til kaupsamningsfundar á fasteignasölunni hinn 26. ágúst 2002 kl. 15:00.  Tekið var fram í símskeytinu að tilefni fundarins væri að ganga frá kaupsamningi og afhendingu eignarinnar að Núpalind 8 samkvæmt undirrituðu kauptilboði dagsettu 22. júlí 2002. Var og tekið fram að ef boðaður fundartími hentaði varnaraðila ekki þá léti hún vita án tafar. Varnaraðili mætti ekki á fundinn. Eftir að hafa beðið komu varnaraðila árangurslaust til kl. 15:45 var bókað eftir sóknaraðila í fundargerð að hann væri tilbúinn til að greiða kaupsamningsgreiðslu 9.400.000 krónur með afhendingu íbúðar sinnar að Víkurbraut 54, sem og 8.697 krónur sem er lántökugjald fasteignaveðbréfs, svo og að afhenda Kára Halldórssyni, löggiltum fasteignasala, fé til þess að greiða mætti þinglýsingar-og stimpilgjöld vegna viðskiptanna. Þá væri hann einnig tilbúinn til að rita undir öll nauðsynleg skjöl vegna viðskiptanna. Þar sem fasteignaveðbréf vegna kaupanna á Núpalind 8 hafði ekki verið gefið út, sbr. C-liður kauptilboðs í eignina, dagsett 22. júlí 2002, lagði sóknaraðili fram lánsloforð Íslandsbanka vegna umsóknar um húsbréfalán að fjárhæð 869.664 krónur. Allt þetta væri sóknaraðili reiðubúinn að reiða fram gegn því að varnaraðili sinnti samningsskyldum sínum og ritaði undir kaupsamninga og heimilaði þinglýsingu fasteignaveðbréfa.

Í greinargerð varnaraðila er því mótmælt sem ósönnuðu að varnaraðili og eiginmaður hennar hafi komið fimm sinnum frá mánaðarmótum júní/júlí 2002 til þess að skoða Víkurbraut 54. Þau hafi aðeins skoðað eignina einu sinni. Þá mótmælir varnaraðili því sem ósönnuðu að varnaraðili og eiginmaður hennar hafi lagt áherslu á að fá eignina strax afhenta eða eigi síðar en 10.- 15. ágúst 2002.

III.

Sóknaraðili byggir kröfu sína á því að hann eigi formlegan og efnislegan eignarrétt yfir fasteigninni Núpalind 8, Kópavogi, merkt 0204. Með þinglýsingu kauptilboðs frá 22. júlí 2002 hafi hann öðlast beinan eignarrétt yfir fasteigninni, sbr. 25. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978, (formlegan eignarrétt). Sé fullnægt því skilyrði 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, að réttindi gerðarbeiðanda séu svo ljós að sönnur verði færðar fyrir þeim með gögnum sem aflað verður skv. 83. gr. laganna.

Þá hafi sóknaraðili öðlast efnislegan rétt yfir umræddri fasteign samkvæmt meginreglu samningaréttar um skuldbindingargildi samninga. Kauptilboð um báðar eignirnar hafi verið undirrituð af báðum aðilum og vottuð af tveimur vottum hinn 22. júlí síðast liðinn. Þegar kauptilboðin höfðu verið samþykkt af báðum aðilum hafi verið kominn á bindandi kaupsamningur um báðar eignirnar, sbr. 14. tölul. kauptilboðanna.

Varnaraðili hafi hvorki viljað ganga til kaupsamnings eftir að samningar komust á milli aðila, né viljað taka við framboðnum greiðslum, sbr. áðurgreint símskeyti er varnaraðila var sent og fundargerð fasteignasölunnar Áss. Hið eina sem liggi fyrir í þessu efni sé að varnaraðili hafi neitað að efna gerða samninga vegna meintrar ólögmætrar þvingunar af hálfu eiginmanns síns. Sóknaraðili telji þessa neitun ólögmæta.

Sóknaraðili byggir á því að hann hafi fullnægt öllum skyldum sínum gagnvart varnaraðila. Hann hafi boðið fram greiðslur, bæði íbúð sína að Víkurbraut 54, sem og greiðslu þá sem falist hafi í því að gefa út fasteignaveðbréf skiptanlegt fyrir húsbréf. Eins og skjöl málsins beri með sér hafi sóknaraðili aflað sér lánsloforðs banka vegna umsóknar um húsbréfalán að fjárhæð 869.664 krónur þar sem ekki hafi verið unnt að gefa út fasteignabréf vegna kaupa á Núpalind 8. Allt að einu virðist sem varnaraðili ætli ekkert að aðhafast til þess að efna samninga aðila.

Sú venja sé ríkjandi í fasteignaviðskiptum að seljandi afhendi kaupanda hina seldu eign á hádegi afhendingardags. Það tímamark sé nú liðið án þess að varnaraðili hafi afhent eignina. Sé sóknaraðila því nauðugur einn kostur að krefjast aðfarar.

Þá byggir sóknaraðili á því að hin meinta nauðung, sem varnaraðili ber fyrir sig, geti ekki valdið ógildingu fyrirliggjandi kauptilboða sem undirrituð voru af báðum aðilum og vottuð af tveimur vottum þann 22. júlí s.l. Engri nauðung hafi verið beitt við undirritun kauptilboðanna sem valdið gæti ógildingu þeirra. Þá verði ráðið af yfirlýsingu varnaraðila frá 29. júlí 2002 að hin meinta nauðung sé minniháttar, sbr. 29. gr. samningalaga nr. 7/1936. Af því leiði að hin meinta nauðung valdi ekki ógildingu kauptilboðanna gagnvart sóknaraðila sem grandlausum löggernings móttakanda, þótt hún reyndist sönn.

Um lagarök vísar sóknaraðili til meginreglna eignarréttar, sem og meginreglu samningaréttar um skuldbindingargildi samninga og að kaupandi eigi rétt til þess að krefjast efnda in natura. Um heimild til þess að krefjast aðfarar er vísað til 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.

IV.

Af hálfu varnaraðila er krafa um að útburðarkröfu sóknaraðila verði hafnað í fyrsta lagi byggð á 2. mgr. 28. gr. laga nr. 7/1936 um samninga. Er því haldið fram af varnaraðila að um meiriháttar nauðung hafi verið að ræða sem eiginmaður hennar Vilhjálmur A. Stefánsson hafi beitt hana. Hann hafi hótað að svipta sig lífi, léti hún ekki undan vilja hans um að undirrita kauptilboðin í Núpalind 8, Kópavogi og Víkurbraut 54, Grindavík. Varnaraðili hafi haft ástæðu til að taka hótun eiginmanns síns alvarlega þar sem hann hafi gert tilraun til sjálfsvígs s.l. vor, sbr. læknisvottorð Jóns G. Stefánssonar, geðlæknis. Er á því byggt að nauðungin hafi verið meiriháttar þar sem hún hafi staðið áfram eftir undirritun kauptilboða og fram til þess að haft var samband við lögmann varnaraðila, sem hafi skýrt sóknaraðila og fasteignasölu þegar í stað frá nauðunginni, en þá hafi 4 dagar verið liðnir frá undirritun.

Í öðru lagi er á því byggt af hálfu varnaraðila að hún hafi verið beitt misneytingu af hálfu sóknaraðila og fasteignasölunnar Áss að því leyti að fasteign sóknaraðila hafi verið allt of hátt metin til verðs en eign varnaraðila að sama skapi of lágt. Þannig hafi fasteignamat Víkurbrautar 54 verið 5.353.000 krónur en söluverð 9.400.000 krónur, og fasteignamat Núpalindar 8 14.267.000 krónur en söluverð 14.800.000 krónur. Með vísan til 31. gr. samningalaga nr. 7/1936 hafi því verið á ferðinni gróf misneyting þar sem sóknaraðili hafi notað sér bágindi varnaraðila, einfeldni hennar og fákunnáttu, til þess að afla sér og áskilja hagsmuna með aðstoð fasteignasalans, þannig að bersýnilegur mismunur var á hagsmunum þessum og því endurgjaldi er fyrir þá kom eða skyldi koma.

Í þriðja lagi er byggt á 33. gr. samningalaga af hálfu varnaraðila. Er þá átt við almennt siðferði sóknaraðila að ákveða að halda samningi upp á varnaraðila þrátt fyrir að hann hafi vitað betur stuttu seinna um ólögmæti gernings út frá hinni almennu andlegu þvingun. Í annan stað sé óheiðarleiki sóknaraðila fólginn í vitneskju hans um einfeldni og fákunnáttu varnaraðila og þá staðreynd að bersýnilegur verðmunur var á umræddum eignum.

Í fjórða lagi er af hálfu varnaraðila byggt á 36. gr. samningalaga um að víkja megi samningi að hluta eða að öllu leyti til hliðar ef hann sé talinn ósanngjarn. Í þessu sambandi er af hálfu varnaraðila vísað til efnis samninga, stöðu samningsaðila við samningsgerðina, atvika við samningsgerðina og atvika er síðar komu fram. Þykir ekki ástæða til að rekja þau atriði frekar hér, en þeirra verður getið í niðurstöðukafla ef tilefni þykir til þess.

V.

Forsendur og niðurstaða.

Með samþykki varnaraðila á tilboði því, sem sóknaraðili gerði henni í fasteign hennar að Núpalind 8 í Kópavogi og lýst er hér að framan, komst á bindandi samningur milli málsaðila um það hvernig standa skyldi að yfirfærslu eignarréttar að íbúðinni á annari hæð að Núpalind 8, Kópavogi, merktri 0204, til sóknaraðila. Í hinu samþykkta kauptilboði var kveðið á um kaupverð og greiðsluskilmála, afhendingardag og meðferð áhvílandi lána á eigninni, eða öll þau atriði, sem rétt er að taka afstöðu til við gerð kaupsamnings. Var og tekið fram í stöðluðum texta kauptilboðsins að þegar kauptilboð hefði verið samþykkt af báðum aðilum væri kominn á bindandi samningur. Þó væri gengið út frá því að eftir samþykki tilboðs (eða gagntilboðs) væri gerður kaupsamningur milli aðila, sem eftir atvikum gæti mælt nánar fyrir um kaupin, allt eftir eðli máls og í samræmi við venjur. Hið samþykkta tilboð er því ígildi kaupsamnings.

Eins og að framan er rakið teflir varnaraðili fram málsástæðum í fjórum liðum kröfum sínum til stuðnings.

Í fyrsta lagi að hún hafi verið beitt meiriháttar nauðung af hálfu eiginmanns síns, sem hafi hótað að svipta sig lífi samþykkti varnaraðili ekki kauptilboð sóknaraðila. Af hálfu varnaraðila er ekki á því byggt að sóknaraðila hafi verið kunnugt um þessa nauðung er kauptilboðin voru undirrituð. Til stuðnings þessari málsástæðu hafa verið lagðar fram yfirlýsingar varnaraðila og eiginmanns hennar um nauðungina og læknisvottorð Jóns G. Stefánssonar, geðlæknis, dagsett 19. september s.l.  Þar kemur m. a. fram að eiginmaður varnaraðila hafi verið með vaxandi kvíða og þunglyndi frá því í byrjun þessa árs. Hann hafi legið á geðdeild Landspítalans sl. vor eftir sjálfsvígstilraun. Í júli hafi hann gert aðra slíka tilraun og verið lagður inn á geðdeild og hafi hann verið þar þar til um miðjan september. Í yfirlýsingu eiginmanns varnaraðila frá 26. ágúst s.l. kemur fram að hann hafi átt við þunglyndi að stríða undanfarin ár og verið undir læknishendi og að hann hafi áður gert tilraun til að fyrirfara sér, en það hafi verið í maí 2002. Í yfirlýsingu eiginmanns varnaraðila er ekki vikið að sjálfsvígstilraun í júlí eins og vikið er að í vottorði geðlæknisins.

Gegn mótmælum sóknaraðila þykir varnaraðili með þeim sönnunargögnum sem hún hefur lagt fram, ekki hafa fært á það sönnur að hún hafi fyrir undirritun kauptilboðanna verið beitt meiriháttar nauðung í skilningi 2. mgr. 28. gr. samningalaga nr. 7/1936. Ber því að hafna þessari málsástæðu varnaraðila.

Í öðru lagi byggir varnaraðili á því að hún hafi verið beitt misneytingu í skilningi 31. gr. samningalaga af hálfu sóknaraðila og fasteignasala. Hafi þessir aðilar nýtt sér bágindi hennar, einfeldni og fákunnáttu til að afla sóknaraðila og áskilja hagsmuni þannig að bersýnilegur munur hafi verið á þessum hagsmunum og því endurgjaldi er fyrir þá skyldi koma. Þarna byggir varnaraðili á því að fasteign sóknaraðila hafi verið of hátt verðlögð í kaupunum miðað við eignina í Kópavogi. Þessi málsástæða er einvörðungu reist á einhliða staðhæfingu varnaraðila og ekki studd öðrum gögnum. Gegn mótmælum sóknaraðila ber því að hafna þessari málsástæðu.

Í þriðja lagi byggir varnaraðili á 33. gr. samningalaga. Er þar vikið að því almenna siðferði sóknaraðila að ákveða að halda upp á varnaraðila samningi þrátt fyrir að hafa vitað betur stuttu eftir samningsgerð um ólögmæti gernings út frá þeirri andlegu þvingun sem varnaraðili sætti fyrir gerð samnings. Þá verði að telja óheiðarleika sóknaraðila fólginn í vitneskju hans um einfeldni og fákunnáttu varnaraðila og þeiri staðreynd að bersýnilegur munur var á umræddum eignum. Af hálfu varnaraðila hefur því hvorki verið haldið fram né verið sýnt fram á það að ætla megi að sóknaraðila hafi verið kunnugt um að varnaraðili hafi verið beitt nauðung af hálfu þriðja manns til að samþykkja tilboð sóknaraðila í íbúð hennar. Er þessari málsástæðu varnaraðila því hafnað.

Í fjórða lagi er af hálfu varnaraðila byggt á 36. gr. samningalaga . Með vísan til umfjöllunar hér að framan um aðrar málsástæður varnaraðila verður krafa varnaraðila ekki tekin til greina  á þessum grundvelli og er þessari málsástæðu því hafnað.

Skilyrði þess, að réttarfarshagræði 78. gr. aðfararlaga verði beitt, felst í því, að réttindi þess sem aðfarar krefst, séu svo ljós, að sönnur verði færðar fyrir réttmæti þeirra með gögnum, sem afla má samkvæmt 1. mgr. 83. gr. sömu laga.

Í máli þessu er deilt um það hvort skilyrði séu til að veita sóknaraðila heimild til útburðar á varnaraðila. Með samþykki sínu þann 22. júlí 2002 á kauptilboði sóknaraðila skuldbatt varnaraðili sig til að afhenda honum þann 25. ágúst 2002 umrædda íbúð að Núpalind 8 í Kópavogi. Sóknaraðili hefur sannanlega boðið fram þær greiðslur, sem honum bar að reiða fram til að fá íbúðina afhenta sér. Hann hefur því fyrir sitt leyti tryggt efndir á samningsskyldum sínum. Þykja því skilyrði til að fallast á kröfur sóknaraðila í máli þessu.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða dómsins, að fallist er á kröfur sóknaaðila um að varnaraðili skuli með beinni aðfarargerð borin út úr íbúðinni á annarri hæð að Núpalind 8, Kópavogi, merktri 0204, ásamt öllu sem henni tilheyrir og sóknaraðila fengin umráð fasteignarinnar, allt gegn því að sóknaraðili afhendi íbúð á neðri hæð að Víkurbraut 54, Grindavík, merkt 0101, og undirriti og afhendi tilbúið til þinglýsingar fasteignaveðbréf að fjárhæð 869.664 krónur, eins og ráð er gert fyrir í samningi milli aðila.

Varnaraðili greiði sóknaraðila málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 150.000 að meðtöldum virðisaukaskatti..

Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kvað úrskurðinn upp.

Úrskurðarorð

Sóknaraðila, Svavari Guðmundssyni, er veitt heimild til að bera varnaraðila, Ingibjörgu Ólafsdóttur, út úr íbúð á annarri hæð að Núpalind 8, Kópavogi, merktri 0204, ásamt öllu sem henni tilheyrir, með beinni aðfarargerð, og sóknaraðila fengin umráð fasteignarinnar, allt gegn því að sóknaraðili afhendi íbúð á neðri hæð að Víkurbraut 54, Grindavík, merkt 0101, og undirriti og afhendi tilbúið til þinglýsingar fasteignaveðbréf að fjárhæð 869.664 krónur, eins og ráð er gert fyrir í samningi milli aðila.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 150.000 í málskostnað.