Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-207
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Líkamsárás
- Heimilisofbeldi
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 6. júní 2019 leitar X eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 17. maí sama ár í málinu nr. 550/2018: Ákæruvaldið gegn X, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr., 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið telur ekki efni til að verða við beiðninni.
Með fyrrnefndum dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir að hafa brotið gegn 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa veist að eiginkonu sinni og dóttur með nánar tilgreindum hætti. Var refsing leyfisbeiðanda ákveðin fangelsi í þrjá mánuði en fullnustu hennar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Telur leyfisbeiðandi að skilyrðum 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis sé fullnægt í málinu. Byggir hann á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til og vísar í því sambandi meðal annars til þess að lögregla hafi ekki rannsakað vettvang en það hafi þó verið metið honum í óhag andstætt 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 108. gr. laga nr. 88/2008. Hafi málið því verulegt almennt gildi um skýringu þessara ákvæða. Þá telur hann að brotið hafi verið gegn rétti sínum til réttlátrar málsmeðferðar við rannsókn málsins og því hefði borið að vísa málinu frá héraðsdómi.
Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að leyfisbeiðni lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. fyrrgreindrar lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt fyrst og fremst á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar leyfisbeiðanda og brotaþola en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Er beiðninni því hafnað.