Hæstiréttur íslands

Mál nr. 664/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann


                                     

Þriðjudaginn 6. október 2015.

Nr. 664/2015.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Vilhjálmur Reyr Þórhallsson fulltrúi)

gegn

X

(Stefán Karl Kristjánsson hrl.)

Kærumál. Farbann.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta  farbanni á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. október 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. október 2015, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi, en honum þess í stað bönnuð brottför af landinu til föstudagsins 30. október 2015 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 30. október 2015 klukkan 16.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. október 2015.

                Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness að X, fæddum [...], verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 30. október 2015, kl. 16:00, eða þar til dómur fellur í máli hans. Til vara er þess krafist að kærða verði gert að sæta farbanni allt til föstudagsins 30. október 2015, kl. 16:00.

                Kærði mótmælir aðalkröfu lögreglustjóra. Hann mótmælir hins vegar ekki varakröfu embættisins.

I

                Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum segir meðal annars að tilkynning hafi borist frá tollgæslunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í 20. ágúst 2015 vegna tveggja aðila sem grunur léki á um að ferðast hefðu á fölsuðum skilríkjum hingað til lands. Í viðræðum við lögreglu hafi kærði greint svo frá að hann væri á ferð með syni sínum. Þegar óskað hafi verið eftir því að þeir framvísuðu skilríkjum hafi kærði framvísað [...] kennivottorðum, sem hann hafi sagt að tilheyrðu sér og syni sínum. Þá hafi kærði einnig  framvísað [...] ökuskírteini. Við rannsókn skilríkjasérfræðinga lögreglu hafi komið í ljós að skilríkin voru öll fölsuð. Samkvæmt skilríkjunum hafi drengurinn borið nafnið [...], fd. [...] og kærði nafnið [...], fd. [...].

                Í viðræðum við lögreglu hafi kærði sagst heita X, fd. [...] og sonur hans [...], fd. [...]. Kærði hafi jafnframt viðurkennt að framangreind skilríki væru fölsuð. Ekki hafi verið unnt að ræða við drenginn sökum tungumálaörðugleika. Kærði hafi í framhaldinu óskað eftir hæli fyrir sig og drenginn. Við leit í farangri kærða hafi einnig fundist fæðingarvottorð á nafni [...], fd. [...]. Samkvæmt fæðingarvottorðinu sé faðir [...] [...] og móðir hans [...]. Þá hafi einnig fundist skjal sem virst hafi gefa kærða heimild frá foreldrum hans til að ferðast með drenginn.

                Eftir að hafa tekið ljósmyndir og fingraför af kærða og drengnum hafi það verið mat lögreglu að um hefðbundið hælismál væri að ræða. Þar sem talið hafi verið að um föður og son hans væri að ræða hafi fulltrúi lögreglustjóra tekið þá ákvörðun að ekki yrði farið fram á gæsluvarðhald yfir aðilunum. Hafi þeim því verið komið í umsjá Útlendingastofnunar.

                Vegna rannsóknar á máli kærða og drengsins, einkum vegna þess að ekki hafi verið hægt að staðreyna í raun hver kærði og drengurinn voru, hafi lögregla sent fyrirspurnir til erlendra löggæsluyfirvalda. Síðdegis 20. ágúst sl. hafi lögreglu borist svör frá erlendum löggæsluyfirvöldum, þ.e. [...]og [...]. Í þeim hafi komið fram að kærði væri þekktur undir nafninu X og sætti komubanni til [...] til 27.01.2016 og til [...] til 01.03.2017.

                Að þessum upplýsingum fengnum hafi fyrirspurn verið send til alþjóðalögreglunnar Interpol um hvort kærða væri að finna í þeirra gagnagrunnum. Lögreglu hafi borist svar frá skrifstofu Interpol í [...] 21. ágúst 2015 þess efnis að kærði væri talinn ganga undir nafninu [...], f.d. [...]. Enn fremur hafi komið fram að drengurinn [...] væri þekktur sem [...], f.d. [...], og að hann væri skráður af fjölskyldu sinni sem horfinn aðili (e. Missing person) síðan [...] 2015. Í svari Interpol hafi einnig sagt að kærði væri grunaður um að hafa numið barnið á brott [...] 2015. Svarinu hafi fylgt ljósmyndir af barninu sem tilkynnt hafi verið horfið og þeim aðila sem talinn væri hafa numið það á brott. Rannsókn skilríkjasérfræðings lögreglu hafi leitt í ljós að um væri að ræða sömu aðila og komið hefðu hingað til lands 20. ágúst sl.

                Við yfirheyrslur hafi kærði meðal annars haldið því fram að hann væri faðir drengsins og að hann hefði fulla heimild til að ferðast með hann. Það sé hins vegar mat lögreglu að skýringar þær sem kærði hafi gefið við yfirheyrslurnar séu ótrúverðugar. Þannig hafi kærði meðal annars, í skýrslutöku 21. ágúst sl., þurft að leiðrétta sig varðandi nafn meintrar barnsmóður sinnar. Hann hafi í fyrstu greint svo frá að barnsmóðir hans væri látin en síðar hefði hann dregið það til baka. Þá hafi móðir drengsins upplýst að kærði hefði ekki heimild foreldra drengsins til að ferðast með hann. Kærði hafi jafnframt greint frá því að hann hefði verið í reglulegu sambandi við drenginn frá því að hann fæddist. Móðir drengsins hafi hins vegar greint frá því að fjölskyldan hefði ekki kynnst kærða fyrr en árið 2013. Þá hafi drengurinn sjálfur greint frá því við skýrslutökur hjá lögreglu og fyrir dómi að kærði væri ekki faðir hans og að hann hefði kynnst kærða árið 2010. Lögreglustjóri telur ljóst, þrátt fyrir neitun kærða, samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggi í málinu, að kærði sé ekki faðir drengsins í neinum skilningi.

                Lögreglustjóri telur einnig að skýringar kærða á komu hans hingað til lands séu ótrúverðugar. Kærði hafi borið að hann væri hingað kominn til að hitta vin sinn og fyrrverandi nágranna frá [...], [...], en hann væri íslenskur ríkisborgari. Aðspurður um það hvernig kærði ætlaði sér að koma sér í samband við [...] kvaðst hann ekki hafa símanúmer eða heimilisfang hér á landi. Kærði ætlaði sér engu að síður að finna þennan vin sinn. Við eftirgrennslan lögreglu í þjóðskrá hafi komið í ljós að enginn hér á landi sé skráður með þessu nafni.

                Þá hafi kærði við upphaf málsins greint vísvitandi ranglega frá réttu nafni drengsins. Drenginn hafi kærði sagst heita [...]. Þegar lögregla hafi borið undir hann að það væri ekki það nafn sem lögregla taldi eiga við drenginn heldur [...] hafi kærði breytt frásögn sinni og sagt það vera rétt nafn drengsins. Í þessu sambandi kveðst lögreglustjóri meðal annars vísa til haldlagðs fæðingarvottorðs í málinu.

                Í ljósi alls framangreinds og með vísan til þeirra gagna sem fyrir liggi í málinu telji lögregla ljóst að kærði hafi hvað eftir annað gefið lögreglu vísvitandi rangar upplýsingar um atvik málsins, sjálfan sig og drenginn sem með var honum í för.

                Hinn 22. ágúst 2015 hafi kærði verið úrskurðaður í gæsluvarðhald með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness til 4. september sl. Úrskurður héraðsdóms hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. [...]/2015. Hinn 4. september sl. hafi kærði verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald með úrskurði héraðsdóms og hafi sá úrskurður verið staðfestur 8. september sl. með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. [...]/2015.

II

Lögreglustjóri segir rannsókn málsins nú lokið og geri hann ráð fyrir því að gefin verði út ákæra í málinu strax eftir helgi. Þau brot sem kærði sé grunaður um að hafa framið, eða tekið þátt í fremja, varði að mati lögreglustjóra við 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og f- og h-liði 2. mgr. og 3. mgr. 57. gr. útlendingalaga nr. 96/2002. Við brotum gegn nefndum ákvæðum liggi allt að 8 ára fangelsi. Rannsókn lögreglu hafi um tíma einnig beinst að meintu broti kærða á 227. gr. a. almennra hegningarlaga en rannsókn þess þáttar málsins hafi verið hætt á grundvelli 4. mgr. 52. gr. sakamálalaga nr. 88/2008.

                Af hálfu lögreglustjóra er til þess vísað að svo virðist sem kærði, sem sé erlendur ríkisborgari, hafi engin tengsl við land og þjóð. Hann stundi hvorki atvinnu hér né eigi hér fjölskyldu eða vini. Af þeim sökum telji lögregla hættu á að kærði muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar gangi hann laus meðan mál hans er til meðferðar hjá lögreglu. Af þeim sökum telji lögregla að skilyrðum b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé fullnægt í málinu, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 595/2011.

                Fallist dómurinn ekki á að skilyrði séu fyrir áframhaldandi gæsluvarðhaldi kærða sé þess krafist að kærða verði gert að sæta farbanni.

                Með vísan til alls framangreinds, b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og f- og h-liði 2. mgr. og 3. mgr. 57. gr. útlendingalaga nr. 96/2002 telji lögreglustjóri öll skilyrði uppfyllt fyrir því að kærða verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 30. október 2015, kl. 16:00 en til vara farbanni til föstudagsins 30. október 2015 kl. 16:00.

III

Samkvæmt gögnum málsins og yfirlýsingu fulltrúa lögreglustjóra við fyrirtöku málsins fyrir dómi þykir upplýst og hafið yfir vafa að kærði í málinu sé X, fæddur [...].

Með vísan til alls framanritaðs, svo og gagna málsins, er fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við.

Kærði er erlendur ríkisborgari og ekkert haldbært liggur fyrir um að hann hafi tengsl við Ísland. Í ljósi þess þykir mega ætla að kærði muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar. Samkvæmt þessu telst fullnægt skilyrðum b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Fyrir liggur að rannsókn málsins er lokið og hefur lögreglustjóri boðað að ákæra verði gefin út á allra næstu dögum. Í ljósi atvika málsins og þeirra sakargifta á hendur kærða sem eftir standa, en hann er ekki lengur undir grun um að hafa framið brot sem varðað getur við 227. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þykir ekki nauðsynlegt að hann sæti gæsluvarðhaldi, enda verður að ætla að unnt sé að tryggja nærveru hans meðan á meðferð málsins stendur hjá ákæruvaldi og fyrir dómi með öðru og vægara úrræði, þ.e. með því að hann sæti farbanni, sbr. 100. gr. laga nr. 88/2008. Ekki verður því fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi heldur er honum bönnuð brottför af landinu með þeim hætti sem nánar greinir í úrskurðarorði.

                Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari. 

Úrskurðarorð:

Kærði, X, fæddur [..], skal sæta farbanni allt til föstudagsins 30. október nk., kl. 16:00.