Hæstiréttur íslands

Mál nr. 820/2017

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Guðmundur Þórir Steinþórsson aðstoðarsaksóknari)
gegn
X (Lilja Margrét Olsen hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. desember 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 18. janúar 2018 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að honum verði gert að sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds, en að því frágengnu að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.                            

                                              

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur fimmtudaginn 21. desember 2017

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi til fimmtudagsins 18. janúar 2018 kl. 16:00.

Í greinargerð sækjanda kemur fram að klukkan 23:56 í gærkvöldi hafi maður óskað eftir aðstoð lögreglu að Laugavegi [...]. Þegar lögreglumenn hafi mætt á vettvang til að aðstoða manninn hafi þeir tekið eftir brotaþola sem hafi setið út í horni og búin að vefja viskastykki yfir höfuð sitt. Hann kvaðst finna til í höfðinu og kallað hafi verið á sjúkrabifreið. Brotaþoli hafi átt erfitt með gang, bæði svimaði hann og þá hafi hann verið mjög ölvaður. Aðspurður um hvað hafði gerst kvað brotaþoli kærða hafi lamið sig með hamri. Samkvæmt lögreglumönnum á vettvangi virtist brotaþoli vera hræddur við kærða og vildi sem minnst segja. Brotaþoli hafi verið fluttur með sjúkrabifreið á bráðamóttökuna í Fossvogi. Kærði hafi síðan verið handtekinn, grunaður um alvarlega líkamsáras. Hann hafi neitað sök í skýrslutöku hjá lögreglu. Málið sé í rannsókn, sbr. mál lögreglu nr. 007-2017-[...].

Auk þessa máls séu til meðferðar hjá lögreglu eftirfarandi mál á hendur kærða er varði meint brot framin á undanförnum vikum og mánuðum:

007-2017-[...] – Líkamsáras

Þriðjudaginn 12. desember 2017 var lögreglu tilkynnt um líkamsárás að Laugavegi [...]. Maður hafði verið sleginn í höfuð með rörbút. Brotaþoli kveður kærða hafa slegið sig þungu höggi með röri. Sauma þurfti 7 spor í vinstra eyra brotaþola. Framburður þriggja vitna styðja framburð brotaþola. Rannsókn málsins er vel á veg komin.

007-2017-[...]

X var ásamt öðrum aðila handtekin fyrir brot á lögreglusamþykkt Reykjavíkurborgar þann 22. október sl. í kjölfar þess að lögreglu var tilkynnt um hópslagsmál á Ingólfstorgi í Reykjavík. Á vettvangi benti nafngreindur aðili á kærða og félaga hans og kvað þá hafa ráðist á sig og kýlt í andlitið. Málið er til rannsóknar.

007-2017-[...] – Þjófnaður

X er grunaður um að hafa, laugardaginn 16. september 2017, í verslun [...] við [...] 4, Kópavogi, í félagi við tvo aðila, tekið ýmsar vörur úr versluninni að verðmæti kr. 18.081 og gengið með út, án þess að greiða fyrir. Kærði þekkti sig er upptökur úr eftirlitsmyndavélum úr versluninni voru bornar undir hann. Hann kvaðst hins vegar ekki geta svarað fyrir meintan þjófnað þar sem hann myndi ekki eftir neinu honum tengdum. Rannsókn málsins er lokið.

007-2017-[...] – Þjófnaður

Mánudaginn 28. ágúst 2017 hafi lögreglu borist tilkynning þess efnis að brotist hefði verið inn í geymslu að [...], [...]. Áætlað verðmæti þess sem stolið hafi verið úr geymslunni sé um 800.000 kr. Kærði sé grunaður um verknaðinn en kennsl hafi verið borin á hann á myndbandsupptöku úr eftirlitsmyndavél. Kærði hafi neitað sök í skýrslutöku vegna málsins. Rannsókn málsins sé vel á veg komin.

007-2017-[...] – Þjófnaður

Miðvikudaginn 16. ágúst 2017 mætti kona á lögreglustöðina við Hverfisgötu, Reykjavík og tilkynnti um þjófnað. Gluggi á heimili hennar hafði verið brotinn upp og fartölvu stolið. Konan kvað kærða hafa brotist inn og stolið fartölvunni. Kærði neitaði sök skýrslutöku vegna málsins. Málið er enn í rannsókn.

Auk framagreinds er kærði með tíu mál er varða meint umferðarlagabrot á tímabilinu 8. apríl  2017 til 11. nóvember 2017 Í málunum er hann grunaður um að hafa ekið bifreið án ökuréttar og óhæfur um að stjórna henni örugglega vegna áhrifa áfengis og ávana- og fíkniefna,sbr. mál lögreglu nr. 007-2017-[...], 007-2017-[...], 007-2017-[...], 007-2017-[...], 007-2017-[...], 007-2017-[...], 007-2017-[...], 007-2017-[...], 007-2017-[...], 007-2017-[...]. Rannsókn málanna er lokið.

Þá er kærði í máli lögreglu nr. 007-2017-[...] m.a undir grun um ofbeldi gegn opinberum starfsmanni þann 24. apríl 2017 og í máli nr. 007-2017-[...] um líkamsárás þann 22. maí 2017. Mál nr. 007-2017-[...] hefur verið sent embætti héraðssaksóknara til meðferðar en mál 007-2017-[...] er til meðferðar á ákærusviði lögreglustjóra.

Með vísan til brotaferils kærða á undanförnum vikum og mánuðum sé það mat lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að kærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna en nauðsynlegt sé að ljúka þeim málum sem séu til meðferðar hjá lögreglu sem fyrst.

Þá hafi kærði hlotið dóm í Héraðsdómi Reykjavíkur þann [...] maí sl., sbr. dóm S-[...]/2017 þar sem hann hafi verið dæmdur til 30 daga fangelsisvistar, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir ítrekuð fjársvik. Að mati lögreglustjóra sé ljóst að kærði muni hljóta óskilorðsbundna fangelsisrefsingu fyrir þau brot sem reifuð séu í kröfugerð en kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið tvær alvarlegar líkamsárásir, þjófnaði og ítrekuð umferðarlagabrot á skilorðstímanum og þar með rofið í verulegum atriðum skilyrði þau sem honum hafi verið sett í framangreindum héraðsdómi frá [...]. maí sl.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna, c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Niðurstaða:

Með vísan til þess sem fram kemur í greinargerð lögreglu og hér að framan er rakið og að virtum þeim rannsóknargögnum sem lögð hafa verið fyrir dóminn um framangreind sakarefni, er fyrir hendi rökstuddur grunur um að kærði hafi ítrekað gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Þá liggur fyrir að kærði var dæmdur til fangelsisrefsingar hinn [...] maí sl. en fullnustu refsingar var í dóminum frestað skilorðsbundið í tvö ár. Fyrir hendi er rökstuddur grunur um að kærði hafi rofið í verulegum atriðum skilyrði sem honum voru sett með þeim dómi.

Þegar litið er til ferils kærða, sem rakinn er í greinargerð lögreglustjóra og framangreindra upplýsinga um hegðun hans að undanförnu er fallist á það mat lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að kærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna. Fallist er á að nauðsyn beri til að kærði sæti gæsluvarðhaldi meðan málum hans er ólokið hjá lögreglu.

          Skilyrðum c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er samkvæmt framansögðu fullnægt. Í ljósi alls framangreinds þykir farbann ekki tækt úrræði í þessu  máli, svo sem varakrafa kærða lýtur að. Þá þykja heldur engin efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en lögreglustjóri hefur krafist. Verður krafa lögreglustjóra því tekin til greina eins og í úrskurðarorði greinir. 

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi til fimmtudagsins 18. janúar 2018 kl. 16:00.