Hæstiréttur íslands
Mál nr. 461/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Ráðgefandi álit
- EFTA-dómstóllinn
|
|
Föstudaginn 12. desember 2003. |
|
Nr. 461/2003. |
Halldór Baldvinsson (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) gegn Ræsi hf. (Gunnar Jónsson hrl.) |
Kærumál. Ráðgefandi álit. EFTA-dómstóllinn.
Staðfest var sú niðurstaða héraðsdóms að ekki yrði aflað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um túlkun á ákvæðum reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1400/2002.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. nóvember 2003 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. desember 2003. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. nóvember 2003, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um túlkun á ákvæðum reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1400/2002. Kæruheimild er í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Sóknaraðili krefst þess „að EFTA dómstóllinn verði beðinn um ráðgefandi álit á því hvort aðgerðir stefnda stangist á við tilgang, anda og ákvæði reglugerðar nr. 1400/2002.“
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Fallist verður á með héraðsdómara að ekki verði séð á hvern hátt reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1400/2002, sbr. reglugerð nr. 217/2003, hafi þýðingu fyrir niðurstöðu málsins þannig að nauðsyn beri til að afla ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins áður en dómur verður á það lagður. Verður niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Staðfest er sú niðurstaða héraðsdóms að ekki verði aflað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um túlkun á ákvæðum reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1400/2002.
Sóknaraðili, Halldór Baldvinsson, greiði varnaraðila, Ræsi hf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. nóvember 2003.
I
II
Málavextir eru þeir að aðilar málsins flytja inn Mercedes Benz bifreiðar, stefnandi flytur inn nýjar bifreiðar en stefndi notaðar. Stefnandi kveðst hafa umboð frá fyrirtækinu Daimler Chrysler til að skrá lénið mercedes.is í eigin nafni, en Daimler Chrysler sé eigandi vörumerkisins Mercedes á Íslandi og víðs vegar um heim. Kveðst stefnandi hafa gert tilraunir til þess að fá lénið skráð á árinu 1997 en þá hafi því verið hafnað þar sem hann hefði ekki skriflegt umboð frá eiganda vörumerkisins. Leyfið hafi hann svo fengið 1. desember 1999 en beiðni stefnanda um að fá að skrá lénið mercedes.is hafi hins vegar verið hafnað aftur og í þetta skiptið vegna þess að stefnandi hefði þegar fyllt leyfilegan kvóta af lénum.
Stefnandi kveður að þann 1. desember 2000 hafi reglum um skráningu léna og stjórnun á léninu.is verið breytt og gildi nú sú meginregla við úthlutun léna að fyrstur komi fyrstur fái og hafi stefndi fengið úthlutað hinu umdeilda léni á grundvelli þessarar breyttu reglu.
Stefndi kveðst hafa um langt árabil verið umsvifamesti innflytjandi Mercedes Benz bifreiða á Íslandi og kveðst hann sérhæfa sig í slíkum innflutningi. Telur stefndi mikilvægan hluta þessara viðskipta vera heimasíðan mercedes.is. Hann kveðst, öfugt við stefnanda, starfrækja söluskrifstofu fyrir notaðar bifreiðar og hafi stefndi útvegað viðskiptavinum sínum tilteknar tegundir Benz bifreiða sem stefnandi hafi ekki getað útvegað. Sé stefndi því að sinna mikilvægri þjónustu sem stefnandi sinni ekki.
III
Stefnandi kveðst hafa umboð frá rétthafa vörumerkisins Mercedes til að skrá lénið mercedes.is á sitt nafn hér á landi og njóti þetta vörumerki mjög víðtækrar verndar hér á landi á grundvelli laga nr. 45/1997 um vörumerki. Stefndi sé ekki eigandi vörumerkisins Mercedes og hafi ekki fengið leyfi hjá stefnanda til að nota vörumerki hans með þeim hætti sem hann geri.
Í grein 8.5 í reglum um skráningu léna og stjórnun á léninu.is segi að réttur yfir léni falli niður ef úrskurðarnefnd léna eða dómstólar komist að þeirri niðurstöðu að annar aðili eigi betri rétt til léns en sá sem sé skráður fyrir léninu í rétthafaskrá.
Samkvæmt 1. tl. 2. gr. vörumerkjalaga nr. 45/1997 geti vörumerki verið hvers konar sýnileg tákn meðal annars orð eða orðasambönd. Sé Mercedes heimsþekkt vörumerki og vísi orðasambandið mercedes.is augljóslega til þess vörumerkis.
Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. vörumerkjalaganna felist í vörumerkjarétti að aðrir en eigandi vörumerkisins megi ekki heimildarlaust nota í atvinnustarfsemi tákn sem séu eins eða lík vörumerki hans, ef notkunin tekur til eins eða svipaðrar vöru og vörumerkjarétturinn nær til og hætt sé við ruglingi. Notkun stefnda á léninu mercedes.is taki til eins og svipaðrar vöru og vörumerkjaréttur stefnanda nái til þar sem stefndi hafi meðal annars með höndum sölu á Mercedes bílum. Notkun stefnda á léninu mercedes.is brjóti því gegn tilvitnaðri 1. mgr. 4. gr. laganna.
Þá telur stefnandi að í vörumerkjarétti eiganda vörumerkis felist heimild til að nota lén með heiti vörumerkis. Um leið og einhver aðili skrái lén með nafni vörumerkisins komi hann í veg fyrir að eigandi vörumerkisins geti nýtt sér vörumerkjarétt sinn með því að stofna heimasíðu með lénsheiti vörumerkisins. Þetta dragi mjög úr möguleikum eiganda vörumerkisins eða framsalshafa réttindanna til að hagnýta sér rétt sinn. Þessu til stuðnings megi benda á ákvæði 2.3.1 í reglum um skráningu léna og stjórnun á léninu.is en þar komi fram að erlendur lögaðili sem ekki hafi íslenska kennitölu geti sótt um lén á grundvelli skrásetts vörumerkis sem þegar sé skráð hjá Einkaleyfisstofu. Aðeins sé unnt að sækja um eitt lén með tilvísun í hvert vörumerki. Af þessu ákvæði leiði að erlendur lögaðili geti því aðeins sótt um lén hjá Interneti á Íslandi að hann eigi skráð vörumerki hér á landi. Sé tilgangur þessa ákvæðis að gera erlendum lögaðilum kleift að nýta þann rétt til skráningu léns sem felist í vörumerkjarétti þeirra. Telur stefnandi því ljóst að stefnda sé óheimilt á grundvelli 4. gr. vörumerkjalaga að nota lénið mercedes.is í atvinnustarfsemi sinni. Leiki enginn vafi á því að eigandi vörumerkisins Mercedes eigi betri rétt til lénsins en stefndi og beri því að fella rétt hans niður og dæma hann til að láta afskrá lénið.
Þá byggir stefnandi á því að háttsemi stefnda feli í sér óréttmælta viðskiptahætti sem skapi slæmt fordæmi í viðskiptum hér á landi, bæði vegna þess að hún sé villandi fyrir neytendur, og brjóti á rétti eigenda vörumerkja til að halda úti heimasíðum með nafni vörumerkis síns. Stefnandi hafi selt Mercedes bíla um árabil hér á landi við góðan orðstír og kaupi alla sína bíla af fyrirtækinu Daimler Chrysler og sé því öruggt að bílarnir uppfylli allar gæðakröfur og að fyrir liggi réttar upplýsingar um bílana. Felist í þessu mikið öryggi fyrir neytendur. Neytendur leiti mikið eftir upplýsingum á netinu og nærtækasta leitarorðið fyrir neytanda sem sé að leita sér að Mercedes bíl sé mercedes.is. Þegar sú slóð sé slegin inn opnist heimasíða með vörumerkinu Mercedes og myndum frá fyrirtækinu Daimler Chrysler. Treysti neytendur því að eigendur vörumerkja eða umboðsmenn þeirra haldi úti heimasíðu með léni vörumerkis síns en ekki einhverjir aðrir aðilar. Sé útlit heimasíðu stefnda til þess fallið að vekja þá trú hjá neytendum að þeir séu komnir inn á síðu hjá seljanda sem sé umboðsmaður fyrirtækisins Daimler Chrysler á Íslandi. Telur stefnandi því að háttsemi stefnda brjóti gegn ákvæðum VI. kafla samkeppnislaga nr. 8/1992, einkum ákvæða 20.gr., 20.gr. a aðallega liði a og d, 21. gr. og 25. gr. laganna.
Stefndi kveðst hafa lögmæta hagsmuni af notkun hins umdeilda léns þar sem hann starfræki umsvifamikla sölu og innflutning með Mercedes bifreiðar. Notkun lénsins tengist löglegri sölu notaðra Benz bifreiða. Innflutningur stefnda á notuðum Benz bifreiðum, útvegun fágætra Benz bifreiða og virk sala innanlands með notaðar Benz bifreiðar sé þjónusta sem stefnandi sinni ekki en hann flytji eingöngu inn nýjar bifreiðar og því sé ekki um raunverulega samkeppni að ræða.
Stefnandi mótmælir því að dómari leiti ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins. Reglugerð framkvæmdastjórnar EB nr. 1400/2002 sem stefndi virðist byggja á að geti skipt sköpum í málinu fjalli um beitingu 3. mgr. 81. gr. Rómarsáttmálans gagnvart tilteknum flokkum lóðréttra samninga og samstilltra aðgerða á sviði vélknúinna ökutækja. Skilgreindir séu flokkar lóðréttra samninga á þessu sviði sem teljist venjulega geta fullnægt skilyrðum þeim sem mælt sé fyrr um í 3. mgr. 81. gr. og eigi því að falla þar undir samkvæmt reglugerðinni. Í reglugerðinni séu nánari skilgreiningar á því hvers konar lóðréttir samningar á sviði vélknúinna samninga falli undir tilvitnaða 3. mgr. 81. gr. Rómarsáttmálans og séu því heimilir og hvers konar samningar skaði samkeppni og brjóti því í bága við 1. mgr. 81. gr. Rómarsáttmálans sbr. til dæmis 4. og 5. gr. reglugerðarinnar.
Stefnandi kveður hvergi í reglugerð nr. 1400/2002 vera fjallað um hvort öðrum en eiganda vörumerkis sé heimilt að skrá vörumerkið sem lén. Fái stefnandi því ekki séð að túlkun EFTA-dómstólsins á ákvæðum reglugerðarinnar sé nauðsynleg til að gera héraðsdómi mögulegt að kveða upp dóm í málinu.
Þá bendir stefnandi á að reglugerð nr. 1400/2002 hafi ekki verið innleidd í íslenskan rétt. Það leiði af 7. gr. EES-samningsins og bókun 35 við hann að EES-samningurinn feli ekki í sér framsal löggjafarvalds sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 236/1999. Hafi reglugerð nr. 1400/2002 því ekki bein réttaráhrif í íslenskum rétti og sé ekki bindandi fyrir aðila málsins og hafi því enga þýðingu við úrlausn málsins.
Í 34. gr. samnings milli EFTA ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls sé kveðið á um heimild dómstóla EFTA ríkjanna til að biðja um ráðgefandi álit frá EFTA-dómstólnum. Samkvæmt 2. mgr. 34. gr. hafi dómstólar aðildarríkjanna heimild til að biðja um ráðgefandi álit ef dómurinn áliti að álitið sé nauðsynlegt til að innanlandsdómstóllinn geti kveðið upp dóm í málinu. Hafnar stefnandi því alfarið að þessi skilyrði séu uppfyllt í málinu.
Þá vekur stefnandi athygli á því að hvergi í greinargerð stefnda séu hafðar uppi málsástæður þar sem reyni á túlkun reglugerðar nr. 1400/2002. Með því að leita álits EFTA-dómstólsins vegna álitaefna sem leysa eigi úr á grundvelli framangreindrar reglugerðar sé stefndi að tefla fram nýjum málsástæðum. Sé þeim mótmælt sem of seint fram komnum sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 og einnig á þeirri forsendu beri að hafna kröfu stefnda um að vísa málinu til EFTA-dómstólsins.
V
Í 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningsins) segir að ef mál sé rekið fyrir héraðsdómstóli þar sem þurfi að taka afstöðu til skýringa á samningi um Evrópska efnahagssvæðið, bókunum með honum, viðaukum við hann eða gerðum sem í viðaukunum sé getið, geti dómari í samræmi við 34. gr. samnings EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, kveðið upp úrskurð um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu á því.
Heimildin tekur til þess að leita ráðgefandi álits varðandi túlkun ákvæða sem er að finna í EES-samningnum og í þeirri löggjöf sem af honum leiðir hvort sem hana er að finna í almennum lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum og er þessi löggjöf í heild gjarnan kölluð EES-réttur. Með vísan til framangreinds orðalags ákvæðisins verður EFTA-dómstóllinn aðeins spurður um túlkun EES-reglna og verður beiðni um ráðgefandi álit að tengjast úrlausn dómsmáls.
Við mat á því hvort ástæða sé fyrir dómara að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins er nauðsynlegt að kanna hvort á hinar svokölluðu EES-reglur reyni við úrslausn málsins og skiptir þá ekki máli hvort aðilar beri fyrir sig EES-reglur enda verður dómari að meta hvort á slíkar reglur reyni við úrlausn máls óháð lagarökum aðila.
Umrædd reglugerð Framkvæmdastjórnar EB nr. 1400/2002 um beitingu 3. mgr. 81. gr. Rómarsáttmálans gagnvart tilteknum flokkum lóðréttra samninga og samstilltra aðgerða á sviði vélknúinna ökutækja, tók gildi hér á landi, með setningu reglugerðar nr. 217/2003, á grundvelli ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 136/2002 frá 27. september 2002, með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af XIV. viðauka við EES-samninginn um samkeppni, bókun I um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum samningsins. Reglugerð 217/2003 tók gildi 19. mars 2003.
Eins og rakið hefur verið lýtur ágreiningur máls þessa að því hvort stefnda beri að afskrá lénið mercedes.is þar sem stefnandi eigi betri rétt en stefndi til þess léns á þeim forsendum að hann hafi formlega heimild til að nota vörumerki fyrirtækisins Daimler Chrysler sem lén og að í vörumerkjarétti felist einkaréttur eiganda vörumerkis til slíkra nota.
Stefndi hefur í málatilbúnaði sínum ekki tilgreint sérstaklega hvaða ákvæði hinnar umdeildu reglugerðar þarfnist túlkunar EFTA-dómstólsins en nefnir í dæmaskyni 15. gr. reglugerðarinnar þar sem segi að réttur dreifingaraðila til að selja ný vélknúin ökutæki feli í sér rétt til að nota Netið eða vefsetur sem vísað sé til. Umdeild reglugerð er hins vegar aðeins 12 greinar en hefur að geyma athugasemdir í 38 töluliðum. Sýnist stefndi hér vísa til athugasemdar í greinargerðinni nr. 15, en þar kemur fram að réttur dreifingaraðila til að selja ný, vélknúin ökutæki eða varahluti eða réttur viðurkennds viðgerðaraðila til að selja notanda viðgerðar-og viðhaldsþjónustu óvirkt eða virkt, þar sem við á, ætti að fela í sér rétt til að nota Netið eða vefsetur sem vísað sé til. Hér er því ekki um að ræða ákvæði reglugerðarinnar sem slíkrar og vandséð hvernig tilvitnað ákvæði athugasemdarinnar snertir það sakarefni sem hér er til umfjöllunar.
Eins og mál þetta liggur fyrir dóminum verður ekki séð á hvern hátt umdeild reglugerð nr. 1400/2002 kann að hafa þá þýðingu fyrir niðurstöðu máls þessa að nauðsyn beri til að leita álits EFTA dómstólsins á túlkun hennar og er kröfu stefnda þess efnis því hafnað.
Af hálfu stefnanda flutti málið Margrét Einarsdóttir hdl. en af hálfu stefnda flutti málið Sveinn Andri Sveinsson hrl.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ekki verður aflað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um túlkun á ákvæðum reglugerðar nr. 1400/2002.