Hæstiréttur íslands
Mál nr. 523/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Kæra
- Frávísun frá Hæstarétti
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með tilkynningu til héraðsdóms um kæru 21. ágúst 2017, en það skjal barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. ágúst 2017 þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 15. september 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Í 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 er svo fyrir mælt að í skriflegri kæru til héraðsdómara skuli greint frá því hvaða úrskurður sé kærður, kröfu um breytingu á honum og ástæður sem kæran er reist á. Í svonefndri tilkynningu varnaraðila um kæru, sem barst héraðsdómi innan tilskilins kærufrests, er í engu vikið að þeim ástæðum, sem kæran er reist á, en ekki stoðar að þær komi fram í greinargerð varnaraðila sem ranglega er nefnd kæra og barst Hæstarétti 22. ágúst 2017. Samkvæmt þessu eru slíkir annmarkar á kærunni að vísa verður málinu frá Hæstarétti.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 18. ágúst 2017
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], með dvalarstað við [...], Reykjavík, verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 15. september 2017 kl. 16.00.
Í greinargerð sóknaraðila kemur fram að kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 22. júlí sl., sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá [...]/2017 til dagsins í dag að telja. Lögregla sé nú að ljúka rannsókn málanna og verði þau send héraðssaksóknara á næstu dögum til meðferðar. Kærði sé undir sterkum grun um tvö brennubrot, sbr. 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Mál lögreglu númer [...] Hér kemur fram að föstudaginn 21. júlí sl. um kl. 14.23 hafi lögreglu borist tilkynning um að kveikt hafi verið í bifreið fyrir utan sjúkrahúsið [...] við [...] í Reykjavík. Þegar lögregla og slökkvilið hafi komið á vettvang hafi tvær bifreiðar verið alelda á bifreiðastæði við hliðina á [...]. Bifreiðarnar séu taldar gjörónýtar eftir eldinn. Þar sem bifreiðin hafi verið staðsett hefðu eldtungurnar hæglega geta náð í húsnæðið að [...] samkvæmt upplýsingum vitna og lögreglu og hefði almannahætta getað skapast að mati lögreglu. Bifreiðinni hafi verið lagt um 5 metrum frá sjúkrahúsinu. Samkvæmt vitnum hafi þau séð mann hlaupa af vettvangi og segist eitt vitnið hafa heyrt að kærði hafi sagst ætlað að kveikja í bifreið þar sem hann hafi ekki fengið innlögn á [...]. Annað vitni segist hafa verið á bifreið sem lagt hafi verið við hliðina á annarri bifreiðinni sem hafi brunnið, [...] en lögregla hafi mætt því vitni á vettvangi, en vitnið, sem var kona, hefði forðað sér á bifreiðinni ásamt ungum syni með hraði svo eldurinn læstist ekki bifreið hennar. Segðist hún hafa séð kærða, en hann hafi fært bifreiðina, opnað alla glugga hennar og síðan hafi kviknað í bifreiðinni og bifreiðin orðið alelda. Þá hafi kærði hlaupið í burtu, en vitnið náð að forða sér ásamt ungum syni. Annað vitni á vettvangi kvæðist hafa séð mann á bifreiðastæðinu sem hafi hent einhverju inn í bifreiðina og síðan hafi eldur blossað upp og kærði hlaupið burt.
Mál lögreglu númer [...] Hér kemur fram að sama dag, 21. júlí sl. kl.16.15, hafi verið beðið um aðstoð lögreglu að [...] í Reykjavík, en þar hefði aðili reynt að kveikja í mottu í anddyrinu að [...], sem sé fjölbýlishús. Þar hafi vitni sem hafi verið að koma að anddyri hússins orðið var við reyk í anddyrinu og séð þar loga í upprúllaðri mottu í anddyrinu. Vitnið hafi dregið mottuna út úr fjölbýlishúsinu og náð að slökkva í henni. Kvæðist vitnið hafa séð mann sem hann hafi gefið lögreglu lýsingu á og kvæði hann þann mann hafa tekið á rás burt frá vettvangi. Sú lýsing fari saman við lýsingu á manni sem lagt hafi eld að bifreið við [...] fyrr um daginn. Í kjölfarið hafi kærði verið handtekinn um kl. 16.56 í gær við [...] við [...].
Sóknaraðili tekur fram að [...] sé fjölbýlishús með fjölda íbúa og sé það mat lögreglu að hefði eldur orðið laus hefði meiriháttar hættuástand getað skapast vegna elds og reyks fyrir íbúa hússins, en hending hafi ráðið því að vitni hafi komið að og náð að slökkva eldinn í mottunni í anddyri hússins.
Fram kemur í greinargerð sóknaraðila að kærði hafi viðurkennt að hafa kveikt í bifreiðinni [...] (sem skráð sé á móður hans), sem hafi verið á bifreiðastæði við [...] að [...]. Kvæðist hann hafa hellt bensíni yfir sæti í bifreiðinni og einnig hafa reynt að kveikja í mottu inn í fjölbýlishúsinu [...] í Reykjavík með því að leggja eld að mottunni með eldfærum. Kærði hafi ekki gefið neinar haldbærar skýringar á þessari hegðan sinni annað en það að hann hafi verið ósáttur að hafa ekki fengið innlögn á [...] og því hafi hann gripið til þess að kveikja í bifreiðinni og í mottunni í blokkinni að [...].
Sóknaraðili tekur fram að það sé mat lögreglu að hér hefði getað stofnast til eldsvoða sem haft hefði í för með sér almannahættu með ófyrirsjáanlegum afleiðingum, þar sem eldurinn hefði getað borist í húsnæðið að [...]. Jafnframt telji lögregla að mikil hætta hefði getað skapast vegna reyks og elds að [...], hefði þar orðið laus eldur, en tilviljun hafi ráðið því að vitni hafi náð að slökkva þann eld.
Þá er þess getið að læknir, sem athugað hafi ástand kærða og rætt við hann, kvæði kærða ekki í bráðaþörf fyrir afeitrun eða meðferð, né að kærði hafi verið í geðrofi þegar atvikin hafi átt sér stað. Lögregla hefur einnig aflað bráðabirgðamats A verkfræðings hjá mannvirkjastofnun og í mati hans, er varði brennubrotið við [...], telji hann víst að um almannahættu hafi verið að ræða og það hefði getað valdið eyðileggingu á bifreiðunum, og einnig þriðju bifreiðinni sem ekið hafi verið á brott en í henni hafi verið kona og barn hennar.
Í bráðabirgðamati A, er varði íkveikjuna að [...], kemur fram að A telji að ekki hafi verið um að ræða almannahættu, en hins vegar hefði þetta getað leitt til þess að anddyrið hefði fyllst af reyk og valdið reykskemmdum. Samkvæmt upplýsingum lögreglu hafi mottan verið upprúlluð og í mati A sé nefnt að með því hafi eldur átt greiðari aðgang að mottunni og hún brunnið hraðar en ef hún hefði verið lögð flöt á gólfið.
Sóknaraðili tekur fram að það sé mat lögreglu að um hafi verið að ræða tvö mjög alvarleg ásetningsbrot, framin með skömmu millibili, sem hefði getað stofnað til eldsvoða með ófyrirsjáanlegum afleiðingum bæði í tilviki bifreiðanna við sjúkrastofnunina [...] og að [...]. Það sé mat lögreglu að nauðsyn sé til að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna þar sem hann sé undir sterkum grun um að hafa lagt eld að bifreið við [...] og anddyri að [...], þar sem fjöldi fólks sé í báðum húsunum og allt með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Einnig sé það mat lögreglu að óeðlilegt sé að kærði gangi laus þar sem hann hafi framið gróf brennubrot/almannahættubrot og að réttarvitund almennings krefjist þess að sakborningur sæti gæsluvarðhaldi allt til að ákæra verði gefin út og dómur fellur vegna eðli brotsins.
Að mati ákæruvaldsins sé því uppfyllt skilyrði ákvæðis 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88, 2008, þar sem um sterkan grun sé að ræða. Einnig sé það mat ákæruvaldsins að almannahagsmunir krefjist þess að maður undir sterkum grun um að hafa gerst sekur um jafn alvarleg brennubrot, sem varði allt að 16 ára fangelsi og eftir atvikum ævilöngu fangelsi, sæti gæsluvarðhaldi allt þar til máli hans sé lokið hjá lögreglu, ákæruvaldi og fyrir dómi.
Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og loks með vísan til 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88, 2008 sé þess farið á leit að krafan verði tekin til greina eins og hún sé sett fram.
Niðurstaða:
Af hálfu sóknaraðila, lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, er þess krafist að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Tilefni kröfugerðarinnar er rakið í kröfugerð sóknaraðila en efni hennar hefur verið lýst. Samkvæmt framangreindu ákvæði má úrskurða sakborning í gæsluvarðhald ef sterkur grunur leikur á því að hann hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.
Samkvæmt rannsóknargögnum málsins hefur kærði játað við yfirheyrslu hjá lögreglu að hafa 21. júlí sl. lagt eld að bifreið sem lagt var við meðferðarheimilið [...]við [...] í Reykjavík. Hann hefur einnig játað að hafa sama dag reynt að kveikja í mottu í fjölbýlishúsi að [...]. Fyrir liggur bráðabirgðamat verkfræðings hjá Mannvirkjastofnun um að íkveikjan við meðferðarheimilið hafi valdið almannahættu þar sem það hafi getað valdið yfirgripsmikilli eyðileggingu á bifreiðinni sem kveikt var í sem og bifreið sem lagt var við hlið þeirrar bifreiðar. Þá hefði eldurinn einnig valdið eyðileggingu þriðju bifreiðarinnar ef henni hefði ekki verið ekið brott. Enginn hafi hins vegar verið í bráðri lífshættu því auðvelt hafi verið fyrir nærstadda að forða sér. Samkvæmt framansögðu er á það fallist að kærði sé undir sterkum grun um að hafa framið brot sem varðað getur meira en 10 ára fangelsi, sbr. 1. eða 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga.
Kærði er undir sterkum grun um tvær íkveikjur sama daginn sem hann kveðst hafa gripið til vegna óánægju með að komast ekki á [...]. Þó að ætla megi að síðara brotið hafi ekki valdið almannahættu er til þess að líta að það átti sér stað í fjölbýlishúsi. Brot þessi eru að mati dómsins þess eðlis að ætla verður varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Fyrrgreindum skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 er samkvæmt þessu fullnægt. Krafa sóknaraðila verður því tekin til greina.
Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, kt. [...], með dvalarstað við [...], Reykjavík, skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 15. september 2017 kl. 16.00.