Hæstiréttur íslands
Mál nr. 201/2000
Lykilorð
- Handtaka
- Miskabætur
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 30. nóvember 2000. |
|
Nr. 201/2000. |
X(Björn Ólafur Hallgrímsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Einar Karl Hallvarðsson hrl.) |
Handtaka. Miskabætur. Gjafsókn.
X var handtekinn, grunaður um kynferðisbrot gegn þroskaheftri konu. Tæpum sólarhring eftir handtökuna var honum sleppt, enda brostinn grundvöllur fyrir sakargiftum á hendur honum. Hann krafðist miskabóta á þeim forsendum að honum hefði, fyrir yfirsjón lögreglu, verið gert að þola niðurlægjandi rannsókn og verið haldið í gæslu að ósekju í nærfellt sólarhring. Héraðsdómur hafnaði kröfu X um bætur, en Hæstiréttur dæmdi honum 30.000 krónur í miskabætur þar sem unnt þótti að fallast á það með honum að hann hefði verið sviptur frelsi lengur en efni stóðu til.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. maí 2000. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. janúar 1999 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjandi dæmdur til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður falli niður.
I.
Eins og greinir í héraðsdómi kom þroskaheft kona á lögreglustöðina í Reykjavík kl. 18.15 sunnudaginn 23. ágúst 1998 í fylgd systur sinnar og þroskaþjálfa, sem var umsjónarmaður hennar á sambýli. Tjáðu fylgdarkonur hennar varðstjóra að hún hefði sagt þeim að seint kvöldið áður hefði henni tvívegis verið nauðgað af sama manni, fyrst við leikskóla í námunda við Hlemmtorg og síðan á nánar tilgreindum stað við Vesturgötu. Hefðu þær farið í framhaldi af því á síðarnefnda staðinn og talið sig finna einhver ummerki eftir þennan atburð, en síðan ekið um borgina. Við Hlemmtorg hefði konan bent á mann, sem þar var á bekk, og sagt hann hafa drýgt þessi brot. Í skýrslu varðstjóra um þetta var tekið fram að hann hefði ekki átt orðaskipti við konuna sjálfa um kæruefnið að öðru leyti en því að hann hefði spurt hvort hún hefði baðast eftir atburðinn, sem hún kvað vera. Að þessu fram komnu voru lögreglumenn sendir á vettvang við Vesturgötu og var jafnframt boðuð koma konunnar á neyðarmóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur. Um leið voru tveir lögreglumenn sendir á Hlemmtorg í fylgd þroskaþjálfans og benti hún þar á manninn, sem hún kvað konuna hafa vísað á. Reyndist það vera áfrýjandi. Hann var handtekinn kl. 18.25 og færður á lögreglustöðina. Samkvæmt skýrslu varðstjórans fór konan á neyðarmóttöku ásamt fylgdarkonum sínum um líkt leyti, eða kl. 18.35. Er óumdeilt að leiðir hennar og áfrýjanda lágu ekki saman á lögreglustöðinni áður en hún hélt þaðan. Í skýrslu um handtöku áfrýjanda var meðal annars greint frá því að hann hafi verið mjög drukkinn. Sagði að öndunarsýni hafi verið tekið af honum og það sýnt vínanda, sem svaraði 2,55 í blóði. Honum hafi verið kynnt sakarefnið og gerð grein fyrir réttarstöðu sinni, en hann hafi ekki óskað eftir réttargæslumanni.
Fyrir liggur í málinu að rannsóknarlögreglumaður var kvaddur til skömmu eftir handtöku áfrýjanda og tók hann við meðferð málsins. Hann kallaði til héraðslækni, sem kom á lögreglustöðina og hóf réttarlæknisfræðilega skoðun á áfrýjanda um kl. 21.30 í samræmi við skriflega beiðni rannsóknarlögreglumannsins. Hefur sú beiðni verið lögð fram í málinu. Í viðeigandi reit þar er merkt við að áfrýjandi samþykkti að gangast undir skoðunina. Aftan við reitinn er undirskrift, sem stefndi kveður stafa frá áfrýjanda. Fram er komið að rannsóknarlögreglumaðurinn kvaddi að eigin frumkvæði til lögmann til að gerast réttargæslumaður áfrýjanda áður en skoðunin fór fram, svo og að lögmaðurinn hafi verið staddur við hana. Samkvæmt vottorði héraðslæknisins var áberandi áfengislykt af áfrýjanda. Segir að hann hafi verið lítið eitt óstöðugur við gang og stöðu og hafi allar hreyfingar borið vott um áfengisáhrif. Hafi ekki verið unnt að „halda uppi vitrænum samræðum við hann” þann tíma, sem skoðunin stóð yfir, og hafi tilraunum til þess fljótlega verið hætt. Hafi héraðslæknirinn tekið nánar tilgreind sýni af líkama áfrýjanda, svo og blóðsýni. Fyrir liggur að rannsókn á þeim sýnum hafi á síðari stigum leitt í ljós að ekkert væri þar að finna, sem tengt gæti áfrýjanda við áðurgreind atvik. Þá er hermt að við rannsókn á blóðsýni hafi komið fram að áfengismagn í blóði áfrýjanda hafi verið 3,52.
Konan kom á ný fyrir lögregluna að kvöldi 23. ágúst 1998 og með henni lögmaður og fyrrnefndur þroskaþjálfi. Við skýrslutöku, sem hófst kl. 22.15, greindi hún nánar frá atvikum. Hún tók einnig fram að þá um daginn hafi hún verið í ökuferð með systur sinni og þroskaþjálfanum. Hafi hún þá séð manninn, sem hún taldi hafa drýgt brotin gagnvart sér, sofandi á bekk við Hlemmtorg og bent fylgdarkonum sínum á hann. Hún lýsti einnig lítillega klæðaburði mannsins. Skýrslutökunni var lokið kl. 23.25. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að reynt hafi á hvort hún bæri kennsl á áfrýjanda, hvorki af ljósmynd né á annan hátt.
Rannsóknarlögreglumaðurinn, sem annaðist málið á því stigi sem að framan greinir, bar fyrir héraðsdómi að vegna ölvunar áfrýjanda hafi ekki verið fært að taka af honum skýrslu um kvöldið 23. ágúst 1998. Áfrýjandi hafi hins vegar óskað þá eftir að skýrslur yrðu teknar af tveimur nánar tilgreindum vitnum. Hann minntist þess ekki með vissu hvort reynt hafi verið að ná til þessara vitna strax um kvöldið, en skýrslur hafi hins vegar verið teknar af þeim daginn eftir. Hafi og verið liðið langt fram á kvöld þegar lokið hafi verið að taka skýrslu af brotaþola.
Að morgni næsta dags kl. 10.50 tók annar rannsóknarlögreglumaður skýrslu af áfrýjanda, sem hafði gist í fangageymslu fram að því. Áfrýjandi bar að öllu leyti af sér sakir. Hann greindi frá ferðum sínum dagana tvo á undan og gat um kærustu sína og bróður hennar, sem gætu staðfest frásögn hans í tilteknum atriðum. Var skýrslutöku lokið kl. 12.05 og áfrýjandi færður aftur í fangageymslu. Þennan dag kl. 14.20 tók sami rannsóknarlögreglumaður skýrslu af öðru vitninu, sem áfrýjandi hafði vísað á, og af hinu vitninu í beinu framhaldi. Var skýrslugjöf síðara vitnisins lokið kl. 15.52. Þau staðfestu frásögn áfrýjanda. Honum var síðan sleppt úr haldi kl. 17.09. Við málflutning fyrir Hæstarétti bar áfrýjandi því við að lögreglan hafi þá haldið fatnaði hans, en lagt honum til í staðinn önnur föt úr ýmsum áttum, meðal annars kvenmannsföt. Hafi hann verið látinn laus svo á sig kominn og lögreglan neitað að aka honum heim. Um þetta liggur ekkert annað fyrir í málinu en framburður áfrýjanda fyrir héraðsdómi.
Lögreglustjórinn í Reykjavík sendi ríkissaksóknara gögn málsins til ákvörðunar 8. október 1998. Með bréfi þess síðarnefnda 15. sama mánaðar var lögreglustjóra tilkynnt að málið væri fellt niður, þar sem það, sem fram væri komið, væri ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis. Í bréfinu kom fram að samrit þess væri meðal annars sent áfrýjanda. Hann kveður bréfið ekki hafa borist sér.
Fram er komið í málinu að síðar á árinu 1998 hafi komið út tiltekið tölublað tímaritsins Bleikt og blátt, þar sem birtar hafi verið ljósmyndir af hluta þeirra atvika, sem kæra konunnar laut að. Sérstök athugun lögreglunnar mun hafa tekið af tvímæli um að maðurinn, sem sæist á þessum myndum með konunni, hafi ekki verið áfrýjandi.
Áfrýjandi höfðaði málið 21. apríl 1999 til heimtu bóta fyrir ólögmæta handtöku. Í málinu dregur stefndi ekki í efa að áfrýjandi hafi saklaus mátt þola þá rannsókn og frelsissviptingu, sem áður er getið.
II.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður ekki fallist á með stefnda að áfrýjandi hafi höfðað málið að liðnum fresti, sem um ræðir í 181. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Þá verður og með vísan til forsendna héraðsdóms að leggja til grundvallar að eins og á stóð hafi verið fullnægt skilyrðum 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991 til að handtaka áfrýjanda þegar í stað, svo og að lögreglan hafi haft nægilegt tilefni til að hlutast til um réttarlæknisfræðilega skoðun á áfrýjanda og vista hann síðan vegna verulegrar ölvunar næturlangt í fangageymslu án þess að skýrsla væri áður tekin af honum vegna málsins. Með sama hætti verður að leggja til grundvallar að lögreglan hafi réttilega kvatt til lögmann til að gæta réttar áfrýjanda og að fyrrnefndar aðgerðir hafi ekki verið framkvæmdar á óþarflega særandi eða móðgandi hátt.
Til þess verður hins vegar að líta að lögreglan handtók áfrýjanda eftir ábendingu áðurnefnds þroskaþjálfa, sem vísaði um sakargiftir á hendur honum til frásagnar umræddrar konu. Þrátt fyrir þennan aðdraganda að handtöku áfrýjanda lét lögreglan eftir gögnum málsins hjá líða þegar konan gaf skýrslu að kvöldi sama dags að leitast við að afla staðfestingar hennar á því að áfrýjandi væri sá maður, sem hún teldi sig hafa borið kennsl á við Hlemmtorg fyrr um daginn. Þá kom fram í áðurnefndum framburði rannsóknarlögreglumanns fyrir dómi að áfrýjandi hefði fljótlega eftir handtöku borið því við að tvö nánar tilgreind vitni gætu staðfest fjarvist hans frá vettvangi brotanna þegar þau voru framin. Þótt lögreglan hafi vegna ölvunar áfrýjanda ekki haft ástæðu til að kveðja þessi vitni þegar í stað til skýrslugjafar, var fullt tilefni til að hefjast þegar handa morguninn eftir að taka skýrslu af áfrýjanda og leggja nauðsynleg drög að kvaðningu þeirra ef áfrýjandi myndi allsgáður bera þetta fyrir sig á ný. Í stað þess var ekki byrjað að taka skýrslu af áfrýjanda fyrr en kl. 10.50 um morguninn. Hafði honum þá verið haldið föngnum í meira en sextán klukkustundir, en ekkert hefur komið fram um að ástand hans hafi staðið í vegi því að til þessara aðgerða kæmi fyrr. Komu vitnin fyrst fyrir lögreglu þremur og hálfri klukkustund eftir að byrjað var að taka skýrslu af áfrýjanda, en með framburði þeirra var brostinn grundvöllur fyrir sakargiftum á hendur honum. Að öllu þessu virtu verður að fallast á með áfrýjanda að hann hafi verið sviptur frelsi mun lengur en efni stóðu til. Með vísan til 2. mgr. 175. gr. og 176. gr. laga nr. 19/1991 á hann rétt til miskabóta af þeim sökum.
Þegar gætt er að atvikum málsins í heild og þeim atriðum, sem leiða samkvæmt framansögðu til bótaskyldu stefnda, eru miskabætur handa áfrýjanda hæfilega ákveðnar 30.000 krónur. Ber stefnda að greiða honum þá fjárhæð með dráttarvöxtum frá 30. janúar 1999, en þann dag var mánuður liðinn frá því að áfrýjandi krafði stefnda fyrst um bætur, sbr. 15. gr. vaxtalaga.
Stefnda verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði, eins og mælt er fyrir um í dómsorði. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Stefndi, íslenska ríkið, greiði áfrýjanda, X, 30.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 30. janúar 1999 til greiðsludags.
Stefndi greiði áfrýjanda 150.000 krónur í málskostnað í héraði.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 150.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. desember 2000.
I
Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 21. apríl 1999 og dómtekið 9. þ.m.
Stefnandi er X, [...]. Stefndi er íslenska ríkið, kt. 540269-6459, og er dómsmálaráðherra og fjár-málaráðherra stefnt fyrir hönd þess.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að upphæð 500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. janúar 1999 til greiðsludags og til greiðslu málskostnaðar.
Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans en til vara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði látinn niður falla.
II
Samkvæmt handtökuskýrslu lögreglunnar í Reykjavík var stefnandi handtekinn á Hlemmtorgi kl. 18.25 þ. 23. ágúst 1998 og færður í fangamóttöku lögreglustöðvar á Hverfisgötu. Samkvæmt verknaðarlýsingu í skýrslunni var um að ræða kynferðisbrot, misneytingu, framið 22. ágúst 1998 að Vesturgötu 7 og við Hlemm. Stefnandi er sagður hafa verið mjög drukkinn og hafi hann blásið í SD-2 mæli sem hafi sýnt 2,55 . Hann er sagður hafa verið í dökkbrúnum/svörtum leðurjakka, svartri og rauðri prjónaðri peysu, svörtum gallabuxum, svörtum skóm og hvítum sokkum. Þá er í skýrslunni merkt í reit sem sýnir að stefnandi hafi ekki óskað eftir réttargæslumanni.
Í skýrslu Guðmundar Fylkissonar lögreglumanns greinir frá tildrögum á þá leið að sunnudaginn 23. ágúst 1998 kl. 18.15 hafi Y, [...], komið á lögreglustöðina Hverfisgötu 113 115. Hún sé þroskaheft og hafi verið í fylgd umsjónarkonu sinnar, A, og systur sinnar, B.
Í skýrslu Guðmundar segir síðan: „Að sögn A mun Y hafa sagt þeim að seint í gærkvöldi hafi maður nauðgað henni við leikskóla ofan við Hlemm. Hann hafi síðan farið með hana að Vesturgötu 7 og þar hafi hann einnig komið fram vilja sínum þrátt fyrir andmæli hennar. A sagði að þær væru búnar að fara að Vesturgötu 7 og þar væru ummerki um eitthvað, m.a. blóð. Einnig hafi þær ekið um borgina og hafi Y bent þeim á karlmann, sem var á bekk við Hlemm, og sagt að hann væri gerandinn í málinu. Undirritaður ræddi þetta ekkert við Y sjálfa að öðru leyti en því að spyrja hana hvort hún hafi farið í bað eftir að þetta hafi gerst. Hún hafi sagt að svo væri. Haft var samband við stjórnanda rannsóknardeildar vegna málsins og hann settur inn í það. Lögreglumenn voru sendir að Vesturgötu 7 til að vernda vettvang ásamt því að tæknideildarmaður var sendur þangað. Haft var samband við neyðarmóttöku á Sjúkrahúsi Reykjavíkur og koma Y boðuð. A fór með lögreglumönnum út á Hlemm til að benda á þann sem Y hafði bent á. Þar var X handtekinn og færður á lögreglustöð. Hann var ölvaður og sýndi öndunarpróf 2.55 kl. 19.15. Kl. 18.35 fóru Y, A og B á neyðarmóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur.“
Lúðvík Ólafsson, héraðslæknir í Reykjavík, kom að fengnu samþykki stefnanda á lögreglustöðina til að framkvæma líkamsskoðun á honum. Eyðublað vaðandi beiðni um skoðunina er útfyllt og undirrituð af Kristjáni Inga Kristjánssyni rannsóknarlögreglumanni. Í skýrslu læknisins, dags. 26. ágúst 1998, kemur fram að skoðunin hafi hafist kl. 21.30 og ástæða hennar verið grunur um kynferðisafbrot gagnvart vangefinni stúlku. Þar segir að áberandi áfengislykt hafi verið úr vitum stefnanda og allar hreyfingar borið vott um áfengisáhrif. Ekki hafi verið hægt að halda uppi vitrænum samræðum við hann þann tíma sem skoðunin stóð yfir. Af því sem hann sagði verði ekki ráðið hvort ætlaðir atburðir hafi átt sér stað eða ekki og skoðun læknisins styðji hvorki né mæli því í gegn.
Skýrsla var tekin af Y frá kl. 22.15 til kl. 23.25 þ. 23. ágúst um kynferðisafbrot sem hún hefði orðið fyrir kvöldið eða nóttina áður. Í upphafi skýrslunnar er tekið fram að Y sé þroskaheft, hún búi á sambýli og kunni ekki að lesa eða skrifa. Viðstaddar voru Helga Leifsdóttir, lögmaður Neyðarmóttöku, og A þroskaþjálfi. Y kvaðst hafa hitt karlmann við Hlemmtorg og með honum hafi verið félagi hans, C að nafni, sem hafi boðið þeim vín að drekka. Hún kvaðst hafa farið til foreldra sinna í [...] og verið þar nokkra stund en farið aftur í strætó niður á Hlemm og hitt sama mann aftur. Hún kvað hann hafa verið í svörtum jakka, síðerma bol og svörtum buxum. Frásögn hennar var síðan á þá leið að hún hefði farið með manninum inn á róluvöll bak við Austurbæjarbíó. Hann hafi hjálpað henni úr buxum og sagt henni að leggjast á grasið. Síðan hafi hann haft við hana munnmök og reynt að setja liminn inn í kynfæri hennar en ekki tekist það. Hún kvaðst hafa viljað fara heim eftir þetta en hann hafi þá rifið í hönd sér og leitt sig áfram. Þau hafi síðan gengið að Vesturgötu 7. Þar hafi hann afklæðst jafnframt því að hátta hana og sett fingur inn í kynfæri hennar þrátt fyrir andmæli. Hún kvaðst þá um daginn hafa sagt A og B frá því hvað komið hefði fyrir. Hún hafi farið með þeim í bíltúr til að lýsa því sem gerst hafði. Hún hafi séð manninn sofandi á bekk við Hlemmtorg og bent þeim A og B á hann.
Y kvað sér hafa liðið illa líkamlega og andlega. Helga Leifsdóttir og A lögðu fram kæru á hendur manninum fyrir kynferðisbrot gagnvart Y.
Mánudaginn 24. ágúst kl. 10.50 var stefnandi færður til skýrslutöku að viðstöddum réttargæslumanni. Yfirheyrslu var lokið kl. 12.05 og var stefnandi þá færður aftur í fangageymslu á meðan kölluð voru til vitni sem hann hafði nefnt við yfirheyrsluna. Að loknum skýrslutökum vitna og annarri rannsókn um ferðir stefnanda á þeim tíma, sem ætlað brot var framið, var hann látinn laus kl. 17.09 eftir því sem segir í greinargerð Óskars Þórs Sigurðssonar lögreglufulltrúa.
Stefnandi skýrði svo frá að hann hefði verið á fylliríi þessa helgi. D, bróðir E kærustu sinnar, sem hann mundi ekki hvers dóttir er, hefði ekið sér að Hlemmi um kl. 3 eða 4 á laugardeginum. Eftir að hafa verið við drykkju á Keisaranum í um tvo til þrjá tíma hafi hann farið heim til E. Giskaði hann á að það hafi verið um níuleytið og hafi hann verið þar um nóttina. Um tvöleytið á sunnudeginum hafi hann farið í verslun með E sem hafi síðan ekið sér niður að Hlemmi. Hann kvaðst hafa farið á Keisarann og verið þar við drykkju í um tvo eða þrjá tíma. Skömmu síðar hafi lögreglan handtekið hann. Hann kvaðst ekki hafa drukkið með neinum sérstökum á laugardeginum og ekki kannast við neinn C en vildi sjá hann áður en hann fullyrti um það. Stefnandi kvað framburð Y, sem var kynntur honum, vera alrangan að því er hann varðaði og kvaðst aldrei hafa hitt hana eða haft þau samskipti við hana sem hún lýsti.
E skýrði svo frá að hún hefði verið heima hjá kærasta sínum, stefnanda máls þessa, að [...] fram til um kl. 17.00 umræddan laugardag. Þá hafi D bróðir hennar komið og sótt þau; ekið sér heim til sín að [...] og stefnanda niður í bæ. Hún kvaðst hafa farið í matarboð um kvöldið en komið heim um kl. 23.00 og þá hafi stefnandi verið þar steinsofandi. Hún kvað sér hafa skilist á honum að hann hefði komið löngu fyrr. Þau hafi síðan sofið saman alla nóttina. Hann hafi farið heim til sín um morguninn og hún sótt hann þangað í bíl upp úr hádeginu en skilið hann eftir við Hlemm klukkan rétt rúmlega tvö. Hún kvað hann hafa verið í sömu fötunum alla helgina.
D kvaðst umræddan laugardag hafa sótt E systur sína og stefnanda, kærasta hennar, að [...], ekið E heim að [...] og skilið stefnanda eftir á Rauðarárstíg við Laugaveg. Hann kvaðst hafa komið heim að [...] rétt eftir miðnættið þetta kvöld og séð stefnanda þar ásamt E vera að horfa á sjónvarpið.
Í samantekt Kristjáns Inga Kristjánsson rannsóknarlögreglumanns, dags. 2. október 1998, um rannsókn málsins segir að í sýnum, sem stefnanda og Y voru tekin og send Rannsóknarstofu í réttarlæknisfræðum, hafi ekki fundist lífsýni sem væru nothæf til kennslagreiningar. Í niðurlagi skýrslunnar segir: „Ljóst er að ekki verður komist lengra í rannsókn þessari. Rannsóknarniðurstöður á sýnum benda ekki til þess að X hafi átt í hlut. Einnig fannst aldrei sá maður sem Y sagði að héti C.“
Í greinargerð Óskars Þórs Sigurðssonar lögreglufulltrúa um rannsókn málsins kemur fram að stefnanda hafi verið dregið blóð til alkóhólrannsóknar kl. 22.30 það kvöld er hann var handtekinn og sé niðurstaða þeirrar mælingar 3,52 . Vegna ölvunarástands hafi hann ekki verið færður til yfirheyrslu heldur vistaður í fangageymslu. Eftir að frá því hefur verið skýrt að ríkissaksóknari hafi fellt málið niður segir í greinargerðinni: „Í tímaritinu Bleiku og bláu nr. 46, 1998 þ.e. 5. tbl. 10. árg. sem gefið var út um mánaðamótin október nóvember 1998, birtust síðan ljósmyndir sem ætla má að séu af Y og geranda málsins þar sem þau eru að hafa samfarir á leikvelli þeim sem um er rætt í málinu. Í kjölfar þeirrar birtingar var rannsókn málsins fram haldið, málið er enn óupplýst, engar grunsemdir eru um að X sé viðriðinn málið.“
Lögreglustjórinn í Reykjavík sendi þ. 8. október 1998 ríkissaksóknara til ákvörðunar kæru Y á hendur stefnanda í máli þessu fyrir kynferðisbrot. Í bréfi ríkissaksóknara til Lögreglustjórans í Reykjavík, dags. 15. október 1998, segir að ekki verði talið með hliðsjón af rannsóknargögnum, sbr. 112. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19,1991, að það sem fram sé komið sé nægilegt eða líklegt til sakfellis og sé málið því fellt niður. Neðanmáls segir að samrit séu send stefnanda og Helgu Leifsdóttur hdl.
Lögmaður stefnanda ritaði lögreglustjóranum í Reykjavík bréf 30. desember 1998 og óskaði eftir afstöðu embættisins til bótaréttar stefnanda. Í svarbréfi, sem ríkislögmaður sendi 30. mars 1999, er ekki fallist á að bótaskilyrði samkvæmt 176. gr. laga nr. 19/1991 séu fyrir hendi.
III
Málsástæður stefnanda.
Á því er byggt af hálfu stefnanda að engin skýrsla hafi verið tekin af Y áður en til handtöku hans kom eða reynt að afla sjálfstæðs mats á lýsingu hennar á meintum brotamanni. Ekki hafi á nokkurn hátt verið reynt af hálfu lögreglunnar að fá fram lýsingu Y á brotamanni, svo sem hvort hann væri stór eða lítill, síðhærður eða stuttklipptur, gamall eða ungur, feitur eða grannur o. s. frv. Eingöngu hafi verið spurt um klæðaburð og það mjög ómarkvisst þannig að sú lýsing hafi getað átt við 90% allra karlmanna. Stefnandi hafi strax beðið um réttargæslumann en því ekki verið sinnt. Þá hafi hann þegar við handtöku nefnt að unnusta sín gæti borið að þau hafi verið saman seinni hluta kvölds 22. ágúst og aðfaranótt hins 23. Þessu hafi í engu verið sinnt fyrr en hún hafi verið kölluð fyrir 24. ágúst kl. 15:00.
Framangreindar yfirsjónir lögreglu hafi leitt til þess að stefnandi hafi verið saklaus handtekinn, þurft að þola afar niðurlægjandi rannsókn og verið haldið í gæslu að ósekju í nærfellt sólarhring. Með framferði sínu hafi lögreglan brotið gegn árvekni- og kostgæfnisreglum lögreglulaga og valdið stefnanda tjóni, óhagræði og miska umfram það sem efni stóðu til.
Kröfur sínar styður stefnandi við það að lögreglan hafi brotið gegn fyrirmælum 1. og 2. tölul. 13. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og ennfremur gegn 1. tl. 97. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Þá styður stefnandi kröfur sínar við 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
IV
Málsástæður stefnda.
Af hálfu stefnda er vísað til þess að um rétt til bóta vegna handtöku eða aðgerða vegna rannsóknar í þágu opinberra mála fari eftir ákvæðum XXI. kafla laga nr. 19/1991. Í stefnu sé hvorki vísað til þess kafla né til almennra reglna skaðabótaréttar. Séu kröfur og málsástæður stefnanda óljósar og órökstuddar þannig að þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna stefnda.
Stefndi byggir á því að krafa stefnanda sé fallin niður vegna fyrningar, sbr. 181. gr. laga nr. 19/1991, enda verði að gera ráð fyrir að bréf ríkissaksóknara um niðurfellingu málsins, dags. 15. október 1998, hafi borist stefnanda fyrir 21. s.m. er hann höfðaði mál þetta.
Einnig styður stefndi sýknukröfu sína við það, með vísun til 97. gr. laga nr. 19/1991, að lögmæt skilyrði hafi verið til þess að handtaka stefnanda þar sem rökstuddur grunur hafi beinst að honum, tryggja hafi orðið návist hans og handtakan verið nauðsynleg til að ekki yrði spillt sönnunargögnum. Lögreglan hafi haft ástæðu til að taka ábendingu Y trúverðuga þótt hún sé þroskaheft og styðjast einnig við aðstoð þroskaþjálfa hennar og nákominna. Sjálfstætt mat hafi því farið fram á lýsingu Y áður en stefnandi var handtekinn en hún hafi bent á tiltekinn mann sem vitað var hvar var staddur og lýst honum. Við svo búið hafi verið óverjandi annað en að færa hann til skýrslutöku og rannsaka málið frekar, enda miklir rannsóknarhagsmunir vegna alvarlegs brots í húfi. Með vísun til þessa séu ekki uppfyllt skilyrði 175. gr. eða 176. gr. laga nr. 19/1991 og bresti því stoð fyrir bótakröfum stefnanda.
Því er haldið fram af hálfu stefnda að handtaka stefnanda hafi ekki verið framkvæmd á særandi eða móðgandi hátt eða að lögreglumenn hafi að öðru leyti orðið uppvísir að yfirsjónum í starfi þannig að varði við 13. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 eða 97. gr. laga nr. 19/1991, sbr. einnig 1. gr. og 16. gr. lögreglulaga um hlutverk lögreglu. Stefnandi hafi samþykkt skriflega réttarlæknisfræðilega rannsókn á sér vegna málsins og lögmæt skilyrði hafi verið til hennar. Er um þetta vísað til 93. gr. laga nr. 19/1991. Stefnanda hafi ekki verið haldið að ósekju. hann hafi verið mjög ölvaður og örðugt að taka skýrslu af honum. Nauðsynlegt hafi verið að hafa stefnanda í haldi fram á næsta dag í ljósi rannsóknarhagsmuna og þess hvort eða hvernig hann tengdist kæruefninu og hafi honum ekki verið haldið lengur en efni voru til.
Miskabótakröfu stefnanda er mótmælt. Ekki séu uppfyllt skilyrði 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 en ekki verði byggt sjálfstætt á því ákvæði og skilyrði til greiðslu miskabóta eftir XXI. kafla laga nr. 19/1991 séu ekki uppfyllt. Í þeim kafla sé um að ræða sérlagaákvæði sem gangi framar lögum nr. 50/1993.
Til stuðnings varakröfu stefnda er á því byggt að umkrafðar bætur séu allt of háar og í engu samræmi við dómvenju.
Upphafstíma dráttarvaxtakröfu er mótmælt og beri í fyrsta lagi að miða við dómsuppkvaðningu eða þingfestingu málsins.
V
Bréf ríkissaksóknara um niðurfellingu málsins er dagsett 15. október 1998. Frammi liggur bréf embættisins þess efnis að bréfið hafi ekki verið sent sem ábyrgðarbréf og því ekki unnt að fullyrða hvenær það hafi verið póstlagt en að öllu jöfnu fari bréf frá embættinu í póst sama dag eða daginn eftir að þau séu dagsett. Stefnandi hefur borið því í gegn að sér hafi borist bréfið og samkvæmt því sem að framan greinir eru ekki efni til að fallast á sýknukröfu stefnda á grundvelli fyrningar, sbr. 181. gr. laga nr. 19/1991.
Telja verður að Guðmundur Fylkisson lögreglumaður, sem tók við kærunni frá A og B, systur Y, sem þær báru fram fyrir hönd hins þroskahefta þolanda ætlaðs kynferðisbrots og að henni viðstaddri, hafi ekki haft ástæðu til að efast um trúverðugleika kærenda. Það voru eðlileg og rétt viðbrögð er hann gerði þegar í stað ráðstafanir til að stefnandi yrði handtekinn í stað þess að verja tíma í að leita frekari upplýsinga í því skyni að staðreyna sannleiksgildi kærunnar og eiga það á hættu að hinn grunaði væri horfinn af Hlemmtorgi, þar sem hann var sagður vera, þegar til ætti að taka.
Handtakan var framkvæmd af Hjálmari Kristjánssyni lögreglumanni sem fór á vettvang með A. Hann bar fyrir dóminum að hún hefði bent strax á stefnanda og verið viss í sinni sök. Stefnandi hafi verið mjög ölvaður en ekki sýnt mótþróa og ekki verið handjárnaður. Hann kvað hann ekki hafa óskað eftir réttargæslumanni og hafi Guðmundur Fylkisson tekið við honum í fangamóttöku.
Guðmundur Fylkisson bar að Y hefði verið farin (ásamt fylgdarkonum sínum) á neyðarmóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur þegar komið var með stefnanda. Hann kvað stefnanda haf verið ölvaðan og órólegan og því hefði hann verið handjárnaður. Hann kvað stefnanda ítrekað aðspurðan ekki hafa óskað eftir réttargæslumanni. Að gefnu tilefni frá stefnanda viðurkenndi hann að hafa neitað honum um að fara á salerni til að kasta af sér vatni og kvaðst hafa talið að það yrði að bíða þess að „tæknirannsókn“ hefði farið fram. Guðmundur staðfesti skýrslu sína, sem tilgreind er í II. kafla dómsins, og kom fram í vætti hans að hann hefði ekki talið rétt að hann hefðist frekar að en þar er getið, en Kristján Ingi Kristjánsson rannsóknarlögreglumaður hafi síðan tekið við rannsókninni.
Vitnið Kristján Ingi Kristjánsson rannsóknarlögreglumaður kvað stefnanda strax hafa óskað eftir því að teknar yrðu skýrslur af unnustu sinni og bróður hennar. Hann kvað sig minna að það hefði verið reynt þegar um kvöldið en ekki náðst til þeirra, en venju samkvæmt hafi fyrst verið tekin skýrsla af brotaþola og því hafi ekki verið lokið fyrr en langt var liðið á kvöld. Hann kvað stefnanda hafa verið óstýrilátan og ekki skýrsluhæfan vegna ölvunar. Þrátt fyrir að hann væri drukkinn hefði hann gefið samþykki til réttarlæknisfræðilegrar rannsóknar og undirritað skjal þess efnis að sér viðstöddum. Hann kvaðst hafa átt fumkvæði að því að kveðja til réttargæslumann fyrir stefnanda, þ.e. þann lögmann sem rekur mál þetta fyrir hann og hafi hann komið um svipað leyti og Lúðvík Ólafsson héraðslæknir og verið viðstaddur hina réttarlæknislegu rannsókn. Lögmaðurinn hafi talað við stefnanda og ekki haft uppi neinar óskir.
Lögmæt skilyrði og nægilegt tilefni voru til að handtaka stefnanda, sbr. 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991, óháð því að síðar leiddi rannsókn sakleysi hans í ljós. Handtakan var ekki framkvæmd á hættulegan, særandi eða móðgandi hátt. Við úrlausn málsins ber einnig að hafa í huga alvarleika sakargifta, það að aðgerðir hlutu í fyrstu að beinast að líkamsrannsókn og öflun lífsýna og að vegna ölvunar stefnanda var ekki unnt að taka skýrslu af honum fyrr en daginn eftir handtökuna. Að þessu gættu verður ekki talið að stefnanda hafi verið haldið föngnum óþarflega lengi.
Krafa stefnanda er um miskabætur enda er ekki sýnt fram á fjártjón hans. Samkvæmt framangreindu eru ekki uppfyllt skilyrði eftir 176. gr. laga nr. 19/1991 til að dæma stefnanda bætur á grundvelli 175. gr. sömu laga. Það athugast að krafa stefnanda er ranglega studd við 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Niðurstaða málsins er sú að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda. Ákveðið er að málskostnaður skuli falla niður.
Mál þetta dæmir Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefndi, íslenska ríkið, er sýknaður af kröfum stefnanda, X.
Málskostnaður fellur niður.