Hæstiréttur íslands
Mál nr. 562/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald
- Kæra
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Föstudaginn 28. ágúst 2015. |
|
Nr. 562/2015.
|
Lögreglustjórinn á Suðurlandi (Margrét Harpa Garðarsdóttir fulltrúi) gegn X (Guðmundur St. Ragnarsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. Kæra. Frávísun máls frá Hæstarétti.
Í kæru X til Hæstaréttar voru ekki greindar þær ástæður sem hún var reist á og fullnægði kæran því ekki skilyrðum 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008. Var málinu því vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. ágúst 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 21. ágúst 2015 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til föstudaginn 18. september 2015 klukkan 15. Þá var honum gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur til þriðjudagsins 1. september 2015 klukkan 15. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími, en að því frágengnu að honum verði gert að sæta farbanni. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar lýsti varnaraðili því yfir að hann tæki sér lögbundinn frest til þess að taka ákvörðun um hvort hann kærði úrskurðinn til Hæstaréttar. Í 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 kemur fram að vilji maður kæra úrskurð eftir þann tíma skuli hann afhenda héraðsdómara skriflega kæru þar sem greint skal frá því hvaða úrskurður sé kærður, kröfu um breytingu á honum og ástæður sem kæra er reist á. Í kæru sóknaraðila eru ekki greindar þær ástæður sem hún er reist á og fullnægir kæran því ekki síðastnefndu skilyrði. Samkvæmt því verður máli þessu vísað frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 21. ágúst 2015.
Lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur gert þá kröfu að X, kt. [...], til lögheimilis að [...] Kópavogi, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi á meðan mál hans eru til meðferðar hjá lögreglu og uns dómur gengur í málunum, en þó eigi lengur en til kl. 15:00 föstudaginn 18. september nk. Þá er þess krafist að kærða verði gert með úrskurði að sæta einangrun í meðan á gæsluvarðhaldinu stendur, skv. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Lögreglustjóri vísar til a- og c-liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Kærði krefst þess að kröfunni verði hafnað en til vara að kröfunni verði markaður skemmri tími og til þrautavara að vægara úrræði skv. 100. gr laga nr. 88/2008 verði beitt og gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Í greinargerð lögreglu segir að Lögreglan á Suðurlandi hafi til rannsóknar fjölda mála þar sem kærði sé grunaður um umferðarlaga- og hegningarlagabrot. Kærði sé undir rökstuddum og sterkum grun um fjölda afbrota framin á tímabilinu 8.7.2015-20.8.2015. Brot þau sem kærði sé grunaður um verði m.a. heimfærð undir: 106. gr. (brot gegn valdstjórninni), 217. gr. (líkamsárás), 231. gr. (húsbrot), 233. gr. (hótun), 244. gr. (þjófnað), eignaspjöll (257. gr.), 259. gr. (nytjastuldur bifreiðar) og 45. gr. a. umferðarlaga nr. 50/1987. Sum hver framangreindra brota jafnvel ítrekuð. Brot þau sem kærði sé grunaður um, sbr. framgreint varði allt að sex ára fangelsi.
Kærði hafi verið handtekinn í gær, þann 20. ágúst 2015 kl. 18:00 í kjölfar þess að upp hafi komist að hann hafi verið ökumaður bifreiðar er tilkynnt hafi verið stolin, en mynd af honum hafi náðst á hraðamyndavél við akstur bifreiðarinnar við [...] í Ölfusi, aðfaranótt þess dags.
Eftirfarandi mál kveður lögregla að séu til rannsóknar hjá lögreglustjóranum á Suðurlandi:
Mál lögreglu nr. 318-2015-[...]. Dagsetning brots sé þann 8.7.2015. Kærði sé grunaður um þjófnað úr bifreiðum. Lögreglu hafi verið tilkynnt um að farið hafi verið inn í tvær bifreiðar og þaðan stolið ýmsum munum. Tilkynningin hafi borist lögreglu í kjölfar þess að lögregla hafi haft samband við tilkynnanda í kjölfar máls nr. 318-2015-[...], vegna muna sem fundist hafi í vörslu kærða og raktir hafi verið til tilkynnanda. Úr annarri bifreiðinni hafi verið stolið: skíðagleraugum, Sony MP3 spilara, vinnuvettlingum, FM sendi og lyklum. Úr hinni bifreiðinni hafi verið stolið: fjarstýringu og lykli af bifreið. Allir framangreindir munir, utan fjarstýringar, hafi fundist í vörslu kærða og verið haldlagðir í máli nr. 318-2015-[...].
Mál lögreglu nr. 318-2015-[...]. Dagsetning brots sé þann 9.7.2015. Kærði sé grunaður um þjófnað úr bifreiðum og líkamsárás. Mál þetta sé komið upp þannig að lögreglu hafi borist tilkynning um yfirstandandi slagsmál á bifreiðastæði á Selfossi. Er lögregla hafi komið á vettvang hafi tveir aðilar staðið á bifreiðastæðinu, kærði og annar maður, A að nafni. A hafi sagst hafa hlaupið kærða uppi eftir að hann hafi staðið kærða að verki við að róta í munum inni í bifreið A. Hafi A sagt kærða hafa streist við og kýlt sig hnefahöggi í andlitið skömmu áður en lögregla kom á vettvang og hafi kærði viðurkennt það strax á vettvangi að hafa slegið A utan undir. Á vettvangi hafi verið tveir pokar sem hafi innihaldið: gps tæki, sólgleraugu, hleðslutæki, peninga og lykla. Kærði hafi sagst eiga alla þá muni, bent á nokkrar bifreiðar á bifreiðastæðinu sem hann hafi sagst eiga og að þetta væru munir úr þeim bifreiðum. Hafi hann benti lögreglu sérstaklega á eina bifreið sem hann hafi sagt vera í hans eigu, þar sem eitt gps tæki til viðbótar hafi fundist og aðrir munir. Grunur hafi vaknað hjá lögreglu um að um væri að ræða þýfi og verið lagt hald á alla muni sem hafi verið í vörslu kærða og bifreið hans. Við könnun hafi A borið kennsl á nokkra muni þar sem verið hafi í vörslu kærða, sem hann hafi staðfest að hafi verið í bifreið hans sem hann hafi séð kærða róta í umrætt sinn. Þá hafi aðrir munir sem hafi verið í vörslu kærða verið raktir til annarra mála lögreglu, sjá m.a. mál nr. 318-2015-[...] og 318-2015-[...].
Mál lögreglu nr. 318-2015-[...]. Dagsetning brots sé þann 9.7.2015. Kærði sé grunaður um eignaspjöll og þjófnað úr bifreið. Mál þetta sé komið upp þannig að lögreglu hafi borist tilkynning um að brotist hafi verið inn í bifreið með því að brjóta rúðu og þaðan stolið pentax myndavél, peningum bæði ISK og EUR, þremur sólgleraugum, lesgleraugum, veski með skilríkjum, Samsung Galaxy S3 síma í leðurhulstri og Samsung Galaxy Note 3. Skömmu síðar hafi vegfarandi komið á lögreglustöð með handtösku með munum og hafi vaknað grunur um að um væri að ræða þá muni sem tilkynnt hafði verið að stolið hefði verið. Tilkynnendur í málinu hafi verið boðaðir á lögreglustöð og þeir borið kennsl á handtöskuna og innihald hennar, auk þess sem þau hafi einnig borið kennsl á aðra muni sem fundist hafi í vörslu kærða í máli nr. 318-2015-[...]. Skömmu síðar hafi lögregla fengið ábendingu um að B væri með ætlað þýfi frá kærða og hafi lögregla gert húsleit á heimili B þar sem ætlað þýfi hafi fundist, þ.á m. myndavélin sem stolið hafi verið í umrætt sinn ásamt handtöskunni sem vegfarandi hafi fundið og afhent lögreglu. Við lok húsleitar hafi kærði komið þar að og verið handtekinn í stigagangi fjölbýlishússins. Á kærða hafi fundist peningar sem hafi samræmst því sem komið hafi fram af hálfu tilkynnenda að hefði verið stolið frá þeim í umrætt sinn.
Mál lögreglu nr. 318-2015-[...]. Dagsetning brots sé þann 10.7.2015. Kærði sé grunaður um húsbrot, hótanir og eignaspjöll. Tvær tilkynningar hafi borist til lögreglu um mann með háreysti við fjölbýlishús á Selfossi. Skömmu síðar hafi borist tilkynning frá húsráðanda íbúðar í fjölbýlishúsinu, um að maður hefði sparkað þar upp útidyrahurð. Umræddur húsráðandi hafi verið sá sami og hlaupið hafi kærða uppi daginn áður í tengslum við þjófnað úr bifreiðum, sjá mál nr. 318-2015-[...]. Hafi húsráðandi borið kennsl á viðkomandi sem kærða, þ.e. um sama mann hefði verið að ræða og hann hafði hlaupið uppi í fyrra máli. Lögregla hafi haft uppi á kærða í nágrenninu og handtekið hann.
Mál lögreglu nr. 318-2015-[...]. Dagsetning brots sé einhvern tíma á tímabilinu 22.6.2015-10.7.2015. Kærði sé grunaður um þjófnað úr bifreið. Lögregla hafi látið rekja númer símkorts úr síma sem hafi verið hluti meints þýfis er fundist hafi í máli nr. 318-2015-[...]. Komið hafi í ljós að síminn væri skráður á [...] og hafi síminn síðast verið í vörslu fyrirtækisins þann 22.6.2015, þá í bifreið sem staðið hafi fyrir framan starfsstöð fyrirtækisins á Selfossi.
Mál lögreglu nr. 318-2015-[...]. Dagsetning brots sé þann 25.7.2015. Kærði sé grunaður um eignaspjöll og líkamsárás. Lögregla hafi verið kölluð á vettvang í íbúð í fjölbýlishúsi. Á vettvangi hafi fundist fyrir húsráðandi sem hafi sagt kærða hafa lamið í hurðina og reynt að brjóta sér leið inn í íbúð hans. Skemmdir hafi mátt sjá á hurðinni. Lögregla hafi rætt við vitni sem búi í nærliggjandi íbúð og hafi vitnið sagst hafa séð kærða ráðast á og hóta húsráðanda umrætt sinn.
Mál lögreglu nr. 318-2015-[...]. Dagsetning brots sé þann 18.8.2015. Kærði sé grunaður um fíkniefnaakstur. Lögregla hafi stöðvað kærða við akstur bifreiðar. Þvagpróf hafi sýnt jákvæða svörun við AMD og THC.
Mál lögreglu nr. 318-2015-[...] og [...]. Dagsetning brots sé þann 13.8.2015. Kærði sé grunaður um húsbrot, eignaspjöll og þjófnað, í [...] á Selfossi. Lögreglu hafi borist tilkynning frá manni sem hafi sagst vera að hlaupa uppi kærða, sem hann hafi komið að þar innanhúss í óleyfi húsráðanda. Lögregla hafi komið á vettvang og handtekið kærða. Í kjölfarið hafi verið gerð húsleit í íbúð þar sem kærði búi, þar sem hafi fundist sími og strætómiðar. Hvort tveggja hafi verið haldlagt og aðilar á vettvangi handteknir, þ.á m. kærði. Í ljós hafi komið að síminn væri í eigu aðila sem tilkynnt hafi um innbrot og stolna muni í máli nr. 318-2015-[...].
Mál lögreglu nr. 318-2015-[...]. Á meðan lögregla hafi sinnt útkalli vegna m.a. húsbrots í [...] á Selfossi, sjá mál nr. 318-2015-[...], hafi lögreglu borist tilkynning um að bláum bakpoka hefði verið stolið þar í nágrenninu. Í málinu liggi fyrir myndbandsupptökur sem sýni innbrotsþjófinn í framangreindu máli með umræddan bakpoka meðferðis, en vert sé að geta þess að kærði hafi verið handtekinn á vettvangi í því máli.
Mál lögreglu nr. 318-2015-[...] og [...]. Dagsetning brots sé þann 15.8.2015. Kærði sé grunaður um hótun og fíkniefnaakstur. Lögregla hafi verið kvödd á heimili í Hveragerði vegna meintra ógnana og hótana kærða í garð bróður síns, sem þar sé búsettur ásamt fjölskyldu sinni. Er lögregla hafi komið á vettvang hafi kærði verið í þann mund að yfirgefa vettvang akandi, þ.e. verið að bakka bifreið sinni út úr bifreiðastæði. Hafi kærði verið handtekinn og fluttur á lögreglustöð til sýna- og skýrslutöku. Hafi prófun á þvagsýni reynst jákvæð á AMP og THC.
Mál lögreglu nr. 007-2015-[...]. Dagsetning brots sé þann 19.8.2015. Kærði sé grunaður um nytjastuld bifreiðar. Mál þetta sé tilkomið þannig að lögreglunni á Höfuðborgarsvæðinu hafi verið tilkynnt um þjófnað á bifreið (sjá mál nr. 313-2015-[...]) og við eftirgrennslan hafi komið í ljós að bifreiðin hafi verið mynduð af hraðamyndavél á austurleið við [...] í Ölfusi, aðfaranótt 20. ágúst 2015 kl. 02:03. Af ljósmynd úr hraðamyndavél hafi lögregla þekkt ökumanninn í bifreiðinni sem kærða og haft grun um hvar hann væri að finna á Selfossi. Lögregla hafi farið á dvalarstað kærða og hafi umrædd bifreið fundist á bifreiðastæði þar fyrir framan og sambýliskona kærða hafi afhent eiganda bifreiðarinnar kveikjuláslykla hennar. Hafi kærði verið handtekinn og fluttur á lögreglustöð.
Mál lögreglu nr. 318-2015-[...], -[...] og [...]. Dagsetning brota sé aðfaranótt 21.8.2015. Kærði sé grunaður um þjófnað úr þremur bifreiðum. Lögreglu hafi borist tilkynning um að farið hafi verið inn í þrjár bifreiðar og munum stolið.
Mál lögreglu nr. 318-2015-[...] og [...]. Dagsetning beggja brota sé þann 21.8.2015. Kærði sé grunaður um brot gegn valdstjórninni. Er kærði hafi verið vistaður í fangageymslu lögreglu á lögreglustöðinni á Selfossi hafi hann hrópað að lögreglukonu, sem hafi reynt að sinna þörfum kærða umrætt sinn, að hann ætlaði að fara heim til hennar og drepa hana. Skömmu síðar þá hafi kærði ítrekað heyrst hrópa úr fangaklefanum einnig að hann ætlaði sér að drepa nafngreindan rannsóknarlögreglumann og alla fjölskyldu hans einnig og kveikja í íbúðarhúsnæði hans.
Kveður lögreglustjóri að skýrslutaka hafi farið fram af kærða, sem neiti alfarið öllum sakargiftum. Um sé að ræða viðamikla rannsókn á fjölda brota af ólíkum meiði, rannsókn brota sé á misjöfnu stigi en flest þeirra eftir eðli sínu á viðkvæmu stigi og mörg hver á algjöru frumstigi ennþá. Fjölda vitna eigi eftir að yfirheyra, vettvangsrannsóknir séu eftir, afla matsgerða, rannsaka þurfi nánar meint þjófnaðarandlög sem haldlögð hafi verið þ.á m. greina verðmæti þeirra og tengja þau við brot og eftir atvikum við aðrar tilkynningar til lögreglu vegna brota sem á frumstigi séu í rannsókn.
Við rannsókn mála kærða hjá lögreglu hafi komið í ljós að hann sé í mikilli neyslu fíkniefna, án atvinnu og hafi ekki fasta búsetu. Þá eigi kærði langan sakarferil að baki eins og fyrirliggjandi sakavottorð sýni, þar sem komi fram að hann hafi verið dæmdur fyrir: fíkniefna- og umferðarlagabrot, nauðung, rán, tilraun til fjársvika, umboðssvik, þjófnað, nytjastuld bifreiða, hylmingu og hótanir. Flest þessara brota séu jafnframt ítrekuð, eins og greini í sakavottorði. Þá sé til þess að líta m.t.t. fyrirliggjandi sakavottorðs að lögregla hafi upplýsingar um að kærði hafi verið búsettur í Danmörku síðastliðin misseri og hafi lítið komið við sögu lögreglu í nokkurn tíma áður en brotahrina hans virðist hefjast þann 8. júlí síðstliðinn og staðið sleitulaust allt fram til þess að lögregla hafi handtekið hann á dvalarstað hans í gær, þann 20. ágúst 2015.
Með vísan til framangreinds og brotaferils kærða á undanförnum vikum sé það mat lögreglustjóra að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing sé lögð við, að hann muni næst hljóta óskilorðsbundinn dóm, og að yfirgnæfandi líkur séu á því að kærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna.
Með vísan til alls framangreinds, fyrirliggjandi gagna, rannsóknarhagsmuna og skilyrða um síbrotagæslu, svo og með vísan til a.- og c.-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sé þess farið á leit að framangreind krafa um gæsluvarðhald nái fram að ganga. Nái krafa þessi fram að ganga sé þess óskað að varnaraðila verði gert með úrskurði að sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu skv. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Forsendur og niðurstaða
Við fyrirtöku gæsluvarðhaldskröfu kvaðst kærði hafa kannast við sakargiftir að einhverju leyti og vísaði til gagna málsins um það. Samkvæmt rannsóknargögnum er það þó að óverulegu leyti.
Samkvæmt því sem að framan greinir og að virtum rannsóknargögnum verður fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé undir rökstuddum grun um aðild að þeim málum sem gerð er grein fyrir í framangreindri kröfu og greinargerð lögreglustjóra, og sem geta varðað allt að 6 ára fangelsi skv. XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Rannsókn flestra málanna er skammt á veg komin og ljóst að mati dómsins að kærði geti torveldað rannsókn málanna, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni, haldi hann frelsi sínu, en af því hefur hann augljósa hagsmuni sé hann sekur um þau brot sem hann er grunaður um. Er þannig fullnægt skilyrðum a liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Um er að ræða 13 mál sem eru til rannsóknar hjá Lögreglustjóranum á Suðurlandi og varða ætluð brot kærða, en elsta brotið er frá 8. júlí 2015 eð hð nýjasta frá deginum í dag. Má ætla að kærði muni halda áfram brotum meðan máli hans er ekki lokið og er fullnægt skilyrðum c liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Þá þykir ekki vera sýnt að kærða verði aðeins gerð fésektarrefsing eða skilorðsbundin fangelsisrefsing miðað við aðstæður, verði hann fundinn sekur um þau brot sem hann er grunaður um, sbr. 3. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, en kærði hefur umtalsverðan sakaferil skv. framlögðu sakavottorði.
Frá því að kærði var handtekinn leið 7 mínútum meira en 24 klukkustundir uns hann var leiddur fyrir dómara. Sá dráttur þykir þó hafa verið nægilega réttlættur af hálfu lögreglustjóra, en m.a. kom fram að það hafi verið vegna ástands kærða sjálfs, en drátturinn er óverulegur og ekki umfram þau tímamörk sem getið er í niðurlagsákvæði 94. gr. laga nr. 88/2008.
Ber því að fallast á kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti gæsluvarðhaldi eins og nánmar greinir í úrskurðarorði, en lengd gæsluvarðhaldsins þykir í hóf stillt. Vegna varakröfu kærða er þess að geta að farbann tryggir hvorki þá hagsmuni sem a né c liðum 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 er ætlað að vernda, en ekki hafa verið færð nein rök fyrir því að vistun á sjúkrahúsi eða viðeigandi stofnun eigi við í tilfelli kærða.
Að virtum rannsóknarhagsmunum ber að fallast á kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti einangrun í gæsluvarðhaldinu skv. 2. mgr. 98. gr. og b lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008, en nægilegt þykir að kærði sæti einangrun til þriðjudagsins 1. september nk. kl. 15:00 í síðasta lagi, en einangrun ber að aflétta þegar hennar er ekki lengur þörf.
Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi á meðan mál hans eru til meðferðar hjá lögreglu og uns dómur gengur í málunum, en þó eigi lengur en til kl. 15:00 föstudaginn 18. september 2015. Kærði sæti einangrun í gæsluvarðhaldinu allt til þriðjudagsins 1. september 2015 kl. 15:00.