Hæstiréttur íslands

Mál nr. 700/2010


Lykilorð

  • Opinberir starfsmenn
  • Kjarasamningur
  • Ráðningarsamningur


                                     

Fimmtudaginn 10. nóvember 2011.

Nr. 700/2010.

Friðbert Jónasson

(Þórunn Guðmundsdóttir hrl.)

gegn

Landspítala

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

og gagnsök

Opinberir starfsmenn. Kjarasamningur. Ráðningarsamningur.

F höfðaði mál gegn L og gerði kröfu um vangoldin laun og dráttarvexti á þeim grunni að L hefði einhliða breytt starfshlutfalli hans úr 100% í 80% þann 1. júní 2006. Hvorki lá fyrir að F hefði veitt samþykki sitt fyrir þessari lækkun né að L hefði sagt upp starfshlutfalli F samkvæmt ráðningarsamningi. Í ljósi þessa var talið að einhliða breyting á starfshlutfalli F í tímaskráningarkerfi L hefði ekki verið lögmætur grundvöllur skerðingar á launum F frá 1. júní 2006 þar til F fór í tímabundið leyfi frá störfum 1. júlí 2007. F og L höfðu gert með sér samkomulag um leyfi F frá störfum frá þeim degi til 31. desember 2007. Með vísan til samkomulagsins var talið að F gæti ekki átt kröfu um laun fyrir 100%  starfshlutfall í leyfinu heldur einungis fyrir 80% starfshlutfall eins og þar var kveðið á um. Samkomulagið var ekki talið geta haft afturvirk áhrif en það var engu að síður talið skírskota til þeirra launakjara sem F hafði þegar leyfi hans hófst. Þótti samkomulagið bera með sér samþykki beggja aðila fyrir því að vinnuskylda F næmi 80% af fullri dagvinnu og að laun hans skyldu taka mið af því frá 1. júlí 2007 og að vinnuskylda og laun F myndu haldast í því hlutfalli eftir að hann kæmi aftur til starfa úr leyfi. Einnig var talið að miklu skipti að af framlögðum yfirlitum úr tímaskráningarkerfi L mætti ráða að eftir að F kom úr leyfi hefði hann dregið úr skráningu vinnustunda. Var því fallist á kröfu F varðandi vangoldin laun fyrir tímabilið frá 1. júní 2006 til 1. júlí 2007 en kröfum hans hafnað að öðru leyti. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. desember 2010. Hann krefst þess að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 4.485.704 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. júní 2006 til greiðsludags. Einnig að viðurkennt verði að gagnáfrýjanda sé óheimilt á grundvelli gildandi kjarasamnings og án samþykkis aðaláfrýjanda að greiða honum 80% laun fyrir 100% starf hans á augnlækningadeild gagnáfrýjanda samkvæmt ráðningarsamningi 7. nóvember 2000. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 24. febrúar 2011. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að héraðsdómur verði staðfestur og málskostnaður felldur niður á báðum dómstigum.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Til samræmis við framangreinda dómkröfu gagnáfrýjanda verður hvor aðili látinn bera sinn málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. nóvember 2010.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var 27. október 2010, var höfðað 1. mars sama ár af Friðberti Jónassyni, Fífuhvammi 3 í Kópavogi, gegn Landspítala, Eiríksgötu 5 í Reykjavík.

Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur:

1. Að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 5.202.902 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 113.886 krónum frá 1. júní 2006 til 1. júlí 2006, frá þeim degi af 227.772 krónum til 1. ágúst 2006, frá þeim degi af 341.658 krónum til 1. september 2006, frá þeim degi af 455.544 krónum til 1. október 2006, frá þeim degi af 569.430 krónum til 1. nóvember 2006, frá þeim degi af 683.316 krónum til 1. desember 2006, frá þeim degi af 797.202 krónum til 1. janúar 2007, frá þeim degi af 911.088 krónum til 1. febrúar 2007, frá þeim degi af 1.028.277 krónum til 1. mars 2007, frá þeim degi af 1.145.466 krónum til 1. apríl 2007, frá þeim degi af 1.262.655 krónum til 1. maí 2007, frá þeim degi af 1.379.844 krónum til 1. júní 2007, frá þeim degi af 1.499.377 krónum til 1. júlí 2007, frá þeim degi af 1.618.910 krónum til 1. ágúst 2007, frá þeim degi af 1.738.443 krónum til 1. september 2007, frá þeim degi af 1.857.976 krónum til 1. október 2007, frá þeim degi af 1.977.509 krónum til 1. nóvember 2007, frá  þeim degi af 2.097.042 krónum til 1. desember 2007, frá þeim degi af 2.216.575 krónum til 1. janúar 2008, frá þeim degi af 2.338.499 krónum til 1. febrúar 2008, frá þeim degi af 2.460.423 krónum til 1. mars 2008, frá þeim degi af 2.582.347 krónum til 1. apríl 2008, frá þeim degi af 2.704.271 krónu til 1. maí 2008, frá þeim degi af 2.826.195 krónum til 1. júní 2008, frá þeim degi af 2.948.119 krónum til 1. júlí 2008, frá þeim degi af 3.070.043 krónum til 1. ágúst 2008, frá þeim degi af 3.191.967 krónum til 1. september 2008, frá þeim degi af 3.313.891 krónu til 1. október 2008, frá þeim degi af 3.435.815 krónum til 1. nóvember 2008, frá þeim degi af 3.557.739 krónum til 1. desember 2008, frá þeim degi af 3.684.290 til 1. janúar 2009, frá þeim degi af 3.810.841 krónu til 1. febrúar 2009, frá þeim degi af 3.937.392 krónum til 1. mars 2009, frá þeim degi af 4.063.943 krónum til 1. apríl 2009, frá þeim degi af 4.190.494 krónum til 1. maí 2009, frá þeim degi af 4.317.045 krónum til 1. júní 2009, frá þeim degi af 4.443.596 krónum til 1. júlí 2009, frá þeim degi af 4.570.147 krónum til 1. ágúst 2009, frá þeim degi af 4.696.698 krónum til 1. september 2009, frá þeim degi af 4.823.249 krónum til 1. október 2009, frá þeim degi af 4.949.800 krónum til 1. nóvember 2009, frá þeim degi af 5.076.351 krónu til 1. desember 2009, frá þeim degi af 5.202.902 krónum og til greiðsludags.

2. Að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé óheimilt á grundvelli gildandi kjarasamnings og án samþykkis stefnanda, að greiða stefnanda 80% laun fyrir 100% starf hans sem augnlæknis á augnlækningadeild stefnda samkvæmt ráðningarsamningi dags. 7. nóvember 2000.

3. Stefnandi gerir enn fremur kröfu um málskostnað að skaðlausu úr hendi stefnda að teknu tilliti til skyldu stefnanda til greiðslu virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda auk þess sem hann krefst málskostnaðar að mati réttarins. Til vara krefst stefndi að hann verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.499.377 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 113.886 krónum frá 1. júní 2006 til 1. júlí 2006, frá þeim degi af 227.772 krónum til 1. ágúst 2006, frá þeim degi af 341.658 krónum til 1. september 2006, frá þeim degi af 455.544 krónum til 1. október 2006, frá þeim degi af 569.430 krónum til 1. nóvember 2006, frá þeim degi af 683.316 krónum til 1. desember 2006, frá þeim degi af 797.202 krónum til 1. janúar 2007, frá þeim degi af 911.088 krónum til 1. febrúar 2007, frá þeim degi af 1.028.277 krónum til 1. mars 2007, frá þeim degi af 1.145.466 krónum til 1. apríl 2007, frá þeim degi af 1.262.655 krónum til 1. maí 2007, frá þeim degi af 1.379.844 krónum til 1. júní 2007, frá þeim degi af 1.499.377 krónum til greiðsludags. Með varakröfunni er þess krafist að málskostnaður verði felldur niður.

Við aðalmeðferð skýrði stefndi varakröfu sína á þá leið að hún svaraði einungis til fyrsta töluliðar í dómkröfum stefnanda. Eftir sem áður væri krafist sýknu af viðurkenningarkröfu í öðrum tölulið kröfugerðar stefnanda. Af hálfu stefnanda voru ekki gerðar athugasemdir við þetta.

II.

Málsatvik

Stefnandi starfaði sem yfirlæknir á augndeild Landakotspítala þar til spítalinn sameinaðist Ríkisspítölum árið 1996. Við það fluttist deildin til stefnda og hann varð yfirlæknir á augndeild Landspítalans. Í málinu liggur fyrir skriflegur ráðningar-samningur milli Ríkisspítala og stefnanda, dags. 14. janúar 1997 með gildistöku frá 1. nóvember 1996. Samkvæmt ráðningarsamningnum var starfshlutfall hans 70%. Þetta starfshlutfalla var hækkað í 100% með skriflegu samkomulagi, dags. 7. nóvember 2000, um breytingu á ráðningarsamningnum. Samhliða starfi sínu á spítalanum hefur stefnandi rekið eigin læknastofu. Ekki er um það deilt í málinu að þegar starfshlutfall stefnanda hækkaði í 100% í nóvember 2000 dró hann jafnframt úr eigin rekstri. Upplýst var við skýrslutökur að á tímabilinu frá 1. júní 2006 til dagsins í dag hafi hann sinnt störfum á eigin stofu fyrir hádegi tvo daga vikunnar.

Í kjarasamningi milli fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og St. Franciskuspítala annars vegar og Læknafélags Íslands hins vegar, sem undirritaður var 2. maí 2002 með gildistímann frá 1. apríl 2002 til 31. desember 2005, var gerð sérstök bókun, bókun 2, er tók til þeirra lækna sem ráku læknastofur jafnhliða starfi sínu. Skyldu þeir eiga val um hvort þeir lækkuðu starfshlutfall sitt um fimmtung eða tækju laun samkvæmt launatöflu sem væri 20% lægri en launatafla í grein 3.1.1. Ef læknir veldi að lækka starfshlutfall sitt átti sú ákvörðun að taka gildi frá og með næstu mánaðamótum eftir að tilkynning um það bærist yfirmanni hans.

Stefnandi mun ekki hafa óskað eftir að starfshlutfall hans lækkaði. Í samræmi við ofangreinda bókun fékk hann því greidd laun er tóku mið af 80% starfshlutfalli eftir gildistöku kjarasamningsins 2002.

Nýr kjarasamningur milli sömu aðila var undirritaður í mars 2006 með gildistöku frá 1. febrúar sama ár til 30. apríl 2008. Þar var ekki fjallað sérstaklega um launa-greiðslur eða starfshlutfall lækna sem ráku eigin læknastofur samhliða starfi hjá stefnda.

Frá 1. júní 2006 var starfshlutfalli stefnanda breytt í tímaskráningakerfi Landspítalans (Vinnustund) úr 100% í 80%. Fyrir liggur að frá og með þeim degi hafa launagreiðslur til stefnanda tekið mið af þessu starfshlutfalli.

Hinn 12. janúar 2007 ritaði Læknafélag Íslands Landspítala bréf þar sem fram kom að Einar Stefánsson, sem er einnig yfirlæknir á augndeild Landspítalans, og stefnandi hefðu leitað til félagsins og óskað aðstoðar þess við að fá fram leiðréttingu á starfshlutfalli þeirra. Kom þar fram sú afstaða félagsins að slíkar einhliða breytingar á gagnkvæmum ráðningarsamningi væru með öllu óheimilar og var þess krafist að starfshlutfall læknanna yrði fært í fyrra horf og viðeigandi kjaraleiðréttingar gerðar.

Þessu bréfi var svarað með bréfi framkvæmdastjóra lækninga 17. janúar 2007. Þar kemur fram að við breytingu á launakerfum við gerð síðasta kjarasamnings 5. mars 2006 hafi sá launaflokkur fallið niður sem Einar og stefnandi höfðu verið skráðir í. Þar sem þeir hafi báðir rekið stofu hafi þeir verið „skráðir í 80% starfshlutfalla í launakerfi stofnunarinnar, sbr. 3. mgr. yfirlýsingar LSH vegna kjarasamnings við sjúkrahús-lækna, dags. 2. maí 2002 með áorðnum breytingum frá 5. mars 2006, sem enn er í gildi“. Fram kemur í bréfinu að þetta hafi vissulega verið gert án samráðs við þá en laun þeirra hafi ekkert breyst. Einungis hafi verið um að ræða „tæknilega breytingu á skráningu í launakerfi stofnunarinnar til að koma réttum launum til skila“. Með þessu er í bréfinu ekki talið að ráðningarkjörum þeirra eða umsömdu starfshlutfalli þeirra hafi verið breytt. Í niðurlagi svarbréfsins kemur síðan fram að dregist hafi að leita leiða til að færa skráningu þessa til betri vegar en að úr því yrði bætt „hér með og verða þeir framvegis skráðir í 100% starfshlutfall í launakerfinu en fá 80% laun skv. fyrrgreindri bókun“. Kom þar fram að fyrirmæli hefðu verið gefin til launabókhalds um þessa breytingu. Ekki er að sjá að í kjölfar þessa bréfs hafi breytingar orðið á starfshlutfalli stefnanda í tímaskráningarkerfi stefnda (Vinnustund).

Hinn 5. júní 2007 undirritaði stefnandi samkomulag við Landspítala um leyfi frá störfum. Samkvæmt því fékk stefnandi leyfi frá störfum sem yfirlæknir frá 1. júlí 2007 til 31. desember sama ár. Fram kemur í samkomulaginu að á leyfistímanum haldi stefnandi „föstum grunnlaunum yfirlæknis samkvæmt kjarasamningi Læknafélags Íslands, sem nema launum í 80% starfshlutfalli í launaflokki 400, 4. þrepi, auk 4% viðbótarþáttar í samræmi við ákvæði um greiðslur vegna doktorsprófs“. Þá er þar kveðið á um að greiðslur skuli inntar af hendi mánaðarlega eins og verið hafi um launagreiðslur og að þær taki hugsanlegum breytingum samkvæmt kjarasamningi.

Einar Stefánsson höfðaði mál 10. janúar 2008 á hendur stefnda þar sem m.a. var gerð krafa um vangoldin laun og dráttarvexti frá 1. febrúar 2006 til 1. júlí 2007 á þeim grunni að stefndi hefði einhliða breytt starfshlutfalli hans úr 100% í 80% eftir að nýr kjarasamningur fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og St. Franciskuspítala annars vegar og Læknafélags Íslands hins vegar tók gildi 1. febrúar 2006. Með dómi Hæstaréttar Íslands 24. september 2009 í máli nr. 596/2008 var fallist á þessa kröfu Einars.

Með bréfi til stefnda 14. desember 2009 var þess krafist að stefndi greiddi stefnanda vangreidd laun að fjárhæð 8.477.274 krónur með vísan til framangreindrar niðurstöðu Hæstaréttar Íslands. Í svarbréfi stefnda, dags. 21. janúar 2010, var greiðsluskyldu stefnda hafnað þar sem atvik væru ekki sambærileg og í máli Einars. Þar var því haldið fram að stefnandi hefði skilað 80% vinnuframlagi og laun hans verið í samræmi við það.

Með bréfi lögmanns stefnanda 27. janúar 2010 til stefnda var því mótmælt að atvik væru ekki sambærileg í málunum og krafan ítrekuð.

III.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi kveðst byggja fjárkröfu sína á hendur stefnda á því að honum beri óskertar launagreiðslur frá stefnda frá og með 1. júní 2006. Engin bókun hliðstæð þeirri sem var í kjarasamningnum frá 2002 sé í núgildandi kjarasamningi og því eigi skerðing á launum hans, sem hafi verið gerð einhliða með lækkun á starfshlutfalli hans úr 100% starfi í 80% frá og með 1. júní 2006, sér enga stoð í gildandi kjarasamningi eða öðrum réttarheimildum.

Stefnandi vísar til þess að samkvæmt almennum reglum vinnuréttarins ráðist kaup og kjör starfsmanna af ákvæðum kjarasamninga. Í gildandi kjarasamningi sé ekki mælt fyrir um sérstök kjör til lækna sem stundi sjálfstæðan stofurekstur utan sjúkrahússins auk þess að gegna stöðu yfirlæknis hjá stefnda. Hafi íþyngjandi ákvæði eins og var í bókun við eldri kjarasamning átt að binda aðila eftir gildistöku nýs kjarasamnings hafi verið nauðsynlegt að það kæmi fram í nýja kjarasamningnum eða í bókun við hann. Telur stefnandi að fyrrgreind bókun í eldri kjarasamningi geti ekki haft nokkra þýðingu við túlkun gildandi kjarasamnings. Þá vísar stefnandi enn fremur til þess að ef kjör starfsmanns séu lakari en samkvæmt kjarasamningi brjóti það gegn 24. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Stefnandi telur að atvik séu að þessu leyti alveg þau sömu og í máli Einars Stefánssonar er lauk með dómi Hæstaréttar í máli nr. 596/2008 þar sem fallist var á kröfu Einars úr hendi Landspítala.

Samkvæmt framangreindu krefst stefnandi greiðslu úr hendi stefnda á 20% launa samkvæmt launatöflu 3.1.1 í gildandi kjarasamningi á tímabilinu frá 1. júní 2006 til 31. desember 2009 auk dráttarvaxta samkvæmt 5. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags.

Fram kemur í stefnu að viðurkenningarkrafan sé gerð sökum þess að fyrirkomulagið sé enn í framkvæmd hjá stefnda. Honum sé því nauðsynlegt að gera kröfuna vegna skerðingar á launum frá 1. janúar 2010 sem sé sambærileg þeirri sem hann hafi sætt frá 1. júní 2006.

Um lagarök er vísað til 24. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna og kjarasamnings aðila auk almennra reglna kröfuréttar. Um lagarök fyrir kröfu um dráttarvexti er vísað til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá er vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um lagarök fyrir málskostnaðarkröfu.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir á því að starfshlutfall stefnanda hafi lækkað í 80% þann 1. júní 2006. Vinnuframlag stefnanda samkvæmt framlögðum vinnuskýrslum á þessu tímabili sé almennt í samræmi við vinnuskyldu stefnanda miðað við 80% starf. Jafnframt hafi stefnandi sjálfur staðfest skriflega, sbr. samkomulagið frá 5. júní 2007, að starfshlutfall hans hafi á tímabili samningsins og væntanlega áður verið 80%. Eftir 1. janúar 2008 hafi engar breytingar orðið á starfshlutfalli stefnanda. Kveðst stefndi byggja sýknukröfu sína fyrst og fremst á þessum atriðum.

Í greinargerð stefnda er bent á að vinnuskylda læknis í fullu starfi sé 173,33 vinnustundir á mánuði meðan vinnuskylda læknis í 80% starfi sé 138,66 vinnustundir. Telur hann að þegar vinnuskil stefnanda séu skoðuð í heild séu þau á tímabilinu frá júní 2005 til júní 2006 í samræmi við almenn vinnuskil starfsmanns í 100% starfi. Að mati stefnda hafi stefnandi aftur á móti skilað vinnuframlagi sem samsvari 80% starfshlutfalli frá 1. júní 2006 til dagsins í dag. Stefnandi hafi einungis í einn mánuð eftir 1. júní 2006 skilað vinnuframlagi sem nær lágmarksvinnuskilum starfsmanns í 100% starfi, þ.e. í janúar 2007, en þá hafi stefnandi skilað rúmlega 185 klukkustundum. Af þeim hafi tæplega 28 klukkustundir verið unnar heima. Þá megi mögulega líta á vinnuskil stefnda sem 100% vinnuframlag í febrúar og mars 2007 en þó bendir stefndi á að um 29 klukkustundir séu þá skráðar sem unnar heima í hvorum mánuði fyrir sig.

Samkvæmt þessu telur stefndi að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi skilað 100% vinnuframlagi á því tímabili sem um ræðir í máli þessu. Þvert á móti sé vinnuframlag hans á þessu tímabili mjög nálægt 80% vinnuframlagi eins og stefndi haldi fram. Þar að auki hafi stefnandi sjálfur staðfest með samkomulaginu frá 5. júní 2007 það fyrirkomulag sem stefndi byggi á.

Ef fallist verður á að stefnandi eigi að einhverju leyti kröfu til 100% launa fyrir 80% starf, þá telur stefndi að það eigi einungis við um tímabilið frá 1. júní 2006 til 31. júní 2007. Um þetta atriði vísar stefndi til samkomulagsins frá 5. júní 2007 en með því hafi stefnandi fallist á þá skýringu stefnda, að hann skilaði 80% vinnuframlagi og væri því í 80% starfshlutfalli og að laun hans væru í samræmi við það. Samkomulagið hafi því falið í sér breytingu á ráðningarsamningi stefnanda við stefnda frá 1. júlí 2007. Stefnandi hafi enn fremur skuldbundið sig til að koma aftur til starfa sem yfirlæknir augndeildar eigi síðar en 1. janúar 2008 og starfa þar í a.m.k. tvö ár. Í því ljósi telur stefndi að hafna beri viðurkenningarkröfu stefnanda.

Þá vísar stefndi til þess að þrátt fyrir samkomulagið frá 5. júní 2007 um laun er nemi 80% starfshlutfalli á leyfistímanum frá 1. júlí 2007 til 31. desember 2007 krefjist stefnandi 100% launa á sama tíma. Telur stefndi að dómkrafa stefnanda sé að þessu leyti í skýrri andstöðu við samkomulagið.

IV.

Niðurstaða

Stefnandi gaf skýrslu í málinu við aðalmeðferð. Þá gaf Einar Stefánsson skýrslu í málinu en hann er yfirlæknir augndeildar með stjórnunarskyldur.

Ágreiningur aðila snýst fyrst og fremst um það hvort heimilt hafi verið að skerða laun stefnanda með því að lækka starfshlutfall hans frá 1. júní 2006 í tímaskráningarkerfi stefnda úr 100% í 80%. Málatilbúnaður stefnanda byggist á því að sú skerðing hafi verið óheimil meðan stefndi telur hana hafa verið heimila.

Af gögnum málsins, einkum ráðningarsamningi og framlögðum launaseðlum, og framburði aðila og vitnis, verður ráðið að stefnandi hafi verið ráðinn í fast starf hjá stefnda með þeim skilmálum að stefnandi ætti rétt á fullum launum fyrir dagvinnu er tækju mið af starfshlutfalli án tillits til tímamælinga á viðverustundum hans. Í ráðningarsamningi aðila er kveðið á um að starfshlutfall stefnanda sé 100%, sbr. breytingu á samningnum 7. nóvember 2000, en engar breytingar voru gerðar á samningi þessum í kjölfar kjarasamnings Læknafélags Íslands við fjármálaráðherra sem var undirritaður 2. maí 2002. Ráðningarsamningurinn hefur að geyma ákvæði þess efnis að hann sé uppsegjanlegur með þriggja mánaða fyrirvara. Í samræmi við almennar reglur samninga- og vinnuréttar, sem og 19. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og 4. gr. reglna nr. 351/1996 um form ráðningarsamninga og um skyldu til að upplýsa starfsmenn um ráðningarkjör, verður að telja að stefndi hafi ekki getað breytt einhliða þessu umsamda starfshlutfalli nema með því að segja upp þeim þætti ráðningarsamningsins enda leiddi hún til skerðingar á launum eða öðrum starfskjörum stefnanda. Slíka breytingu mátti einnig gera með samkomulagi milli samningsaðila.

Framlagðir launaseðlar gefa til kynna að stefnandi hafi fengið greidd laun fyrir 100% starf frá gildistöku nýs kjarasamnings milli Læknafélags Íslands og fjármálaráðherra 1. febrúar 2006 til 1. júní sama ár. Þetta hlutfall var lækkað í tímaskráningarkerfi stefnda frá 1. júní 2006 og eftir það hafa laun stefnanda tekið mið af 80% starfshlutfalli. Ekki liggur fyrir að stefnandi hafi veitt samþykki sitt fyrir þessari lækkun áður en hún tók gildi. Þá verður ekki séð að stefndi hafi sagt upp starfshlutfalli stefnanda samkvæmt ráðningarsamningi, en slíka breytingu varð að tilkynna með skriflegum hætti og með þeim fyrirvara sem gilti um uppsögn viðkomandi ráðningarsamnings þar sem hún leiddi til skerðingar á launakjörum stefnanda. Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að einhliða breyting á skráðu starfshlutfalli stefnanda í tímaskráningarkerfi stefnda, er tók gildi 1. júní 2006, hafi ekki verið lögmætur grundvöllur skerðingar á launum stefnanda.

Eins og framlagðar upplýsingar úr tímaskráningarkerfi stefnda um vinnu stefnanda bera með sér hefur stefnandi skráð umtalsverða vinnu á laugardögum á tímabilinu frá 1. júní 2006 til 31. maí 2007. Skráðar vinnustundir á þessu tímabili virðast í heildina svara til um 95% af fullri dagvinnuskyldu ef horft er fram hjá þeim dögum þar sem vinnutími hans var skráður sjálfvirkt í kerfið miðað við 80% starfshlutfall eins og í orlofi, veikindum o.s.frv. Samrýmist þetta framburði stefnanda og vitnisins Einars um að stefnandi hafi bætt upp fyrir þá tíma sem fóru í eigin stofurekstur fyrir hádegi tvo virka daga vikunnar með vinnuframlagi utan reglulegs vinnutíma.

Í málinu liggur fyrir að stefnandi undirritaði samkomulag við stefnda 5. júní 2007 um leyfi frá störfum frá 1. júlí 2007 til 31. desember 2007. Vikið er að orðalagi þessa samkomulags í málsatvikakafla dómsins. Stefnandi telur að þetta samkomulag hafi átt að tryggja honum þau laun sem hann sannanlega hafði á þessum tíma, þ.e. laun fyrir 80% starf, og hafi það verið óviðkomandi þeim ágreiningi sem þá var uppi um heimild stefnda til að skerða laun stefnanda með einhliða lækkun á starfshlutfalli. Það ágreiningmál hafi þá verið í öðrum farvegi. Af þessum sökum telur hann sig eiga kröfu um sömu leiðréttingu launa til sín á þessu tímabili og hann á rétt á fyrir tímabilið áður en samkomulagið var gert.

Á þetta sjónarmið er ekki unnt að fallast. Ekki er að sjá að stefnandi hafi gert fyrirvara við það sem fram kemur í samkomulaginu um að launagreiðslur til hans á leyfistímanum skuli nema launum í 80% starfshlutfalli. Með því að veita skýrt samþykki sitt fyrir því að launagreiðslum til hans yrði hagað með þeim hætti sem samkomulagið kvað á um er ljóst að stefnandi getur ekki átt kröfu um laun er taki mið af 100% starfshlutfalli frá 1. júlí 2007 til ársloka 2007 eins og hann krefst. Ekki er því unnt að fallast á að stefnandi eigi vangoldin laun frá þessu tímabili.

Ljóst er að samkomulag þetta getur ekki haft afturvirk áhrif á réttarsamband samningsaðila. Kemur þá til álita hvort stefnandi hafi með samkomulaginu samþykkt breytingu á starfskjörum sínum sem hafi einnig átt að hafa þýðingu eftir að hann kom aftur til starfa í ársbyrjun 2008.

Eins og fram hefur komið undirritaði stefnandi samkomulagið fyrirvaralaust og ekkert liggur fyrir um að orðalag þess, um að stefnandi skyldi halda „föstum grunnlaunum yfirlæknis … sem nema launum í 80% starfshlutfalli“, hafi verið ákveðið í ljósi þess að ágreiningur virðist þá hafa verið uppi um heimild stefnda til að lækka starfshlutfall stefnanda. Samkomulagið skírskotar til þeirra launakjara sem stefnandi hafði er leyfið hófst. Virðist það bera með sér samþykki beggja samningsaðila fyrir því að vinnuskylda hans nemi 80% af fullri dagvinnu og að laun hans á leyfistímanum skuli taka mið af því. Hér skiptir einnig miklu að af framlögðum yfirlitum úr tímaskráningarkerfi stefnda má ráða að eftir að stefnandi hóf störf að nýju í ársbyrjun 2008 virðist hann hafa dregið umtalsvert úr skráningu vinnustunda utan reglulegs vinnutíma. Munar þar mestu um að frá 1. janúar 2008 til ársloka sama ár skráði stefnandi aðeins einu sinni vinnu á laugardegi. Liggur ekki fyrir að stefnandi hafi frá þeim tíma bætt upp þann tíma sem fór í eigin stofurekstur nema að takmörkuðu leyti með vinnu utan reglulegs vinnutíma ólíkt því sem hafði verið áður en samkomulagið var gert.

Þegar á framangreint er litið telur dómurinn rétt að leggja til grundvallar að stefnandi hafi með undirritun samkomulagsins 5. júní 2007 í raun samþykkt að vinnuskylda hans skuli ekki vera 100% frá 1. júlí 2007 heldur 80%. Í því ljósi er ekki unnt að fallast á að stefnandi eigi kröfu um laun fyrir 100% starf frá 1. júlí 2007 til ársloka 2009 eins og krafist er í fyrsta lið kröfugerðar stefnanda. Með sömu rökum kemur annar liður kröfugerðar stefnanda heldur ekki til álita og ber að sýkna stefnda af þeirri kröfu.

Hér hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að sú einhliða breyting sem var gerð 1. júní 2006 á starfshlutfalli stefnanda úr 100% starfi í 80% starf hafi ekki verið lögmætur grundvöllur skerðingar á launum stefnanda. Með samþykki stefnanda fyrir því að vinnuskylda hans skuli frá 1. júlí 2007 nema 80% varð breyting að þessu leyti á réttarsambandi aðila. Samkvæmt þessu verður fallist á að stefnandi eigi rétt á að fá þá skerðingu sem varð á launum hans frá 1. júní 2006 til 30. júní 2007 bætta með dráttarvöxtum. Ekki er tölulegar ágreiningur milli aðila en varakrafa stefnda samrýmist fyrsta tölulið kröfugerðar stefnanda með þeirri breytingu að þar er gengið út frá því að laun stefnanda hafi verið komin í lögmætt horf frá og með 1. júlí 2007. Verður því fallist á varakröfu stefnda eins og í dómsorði greinir.

Í ljósi þessarar niðurstöðu og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þykir rétt að stefndi greiði hluta af málskostnaði stefnanda og er hann hæfilega ákveðinn 400.000 krónur. 

Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Landspítali, greiði stefnanda, Friðberti Jónassyni, 1.499.377 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 113.886 krónum frá 1. júní 2006 til 1. júlí 2006, frá þeim degi af 227.772 krónum til 1. ágúst 2006, frá þeim degi af 341.658 krónum til 1. september 2006, frá þeim degi af 455.544 krónum til 1. október 2006, frá þeim degi af 569.430 krónum til 1. nóvember 2006, frá þeim degi af 683.316 krónum til 1. desember 2006, frá þeim degi af 797.202 krónum til 1. janúar 2007, frá þeim degi af 911.088 krónum til 1. febrúar 2007, frá þeim degi af 1.028.277 krónum til 1. mars 2007, frá þeim degi af 1.145.466 krónum til 1. apríl 2007, frá þeim degi af 1.262.655 krónum til 1. maí 2007, frá þeim degi af 1.379.844 krónum til 1. júní 2007, frá þeim degi af 1.499.377 krónum til greiðsludags.

Stefndi er sýkn af kröfu stefnanda um að viðurkennt verði að stefnda sé óheimilt á grundvelli gildandi kjarasamnings og án samþykkis stefnanda, að greiða stefnanda 80% laun fyrir 100% starf hans sem augnlæknis á augnlækningadeild stefnda samkvæmt ráðningarsamningi dags. 7. nóvember 2000.

Stefndi greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.