Hæstiréttur íslands
Mál nr. 196/2015
Lykilorð
- Lánssamningur
- Ábyrgð
- Tilkynning
- Málsástæða
|
|
Fimmtudaginn 29. október 2015. |
|
Nr. 196/2015.
|
Brynhildur Ásgeirsdóttir og Guðni Þór Þorsteinsson (Daníel Isebarn Ágústsson hrl.) gegn Lánasjóði íslenskra námsmanna (Stefán A. Svensson hrl.) |
Lánssamningur. Ábyrgð. Tilkynning. Málsástæða.
L höfðaði mál gegn B og G til heimtu skuldar samkvæmt skuldabréfi sem S gaf út árið 2005 og B og G gengu í sjálfskuldarábyrgð fyrir. Um var að ræða endurnýjun á fjórum eldri lánum sem S hafði verið veitt á árinu 2001, einnig með sjálfskuldarábyrgð B og G. Ekki var fallist á með B og G að víkja bæri til hliðar ábyrgðarskuldbindingu þeirra á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga þar sem L hefði ekki framkvæmt mat á greiðslugetu S, eins og kveðið hefði verið á um í samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 2001, enda hefði umrætt samkomulag ekki gilt fyrir L. Öðrum málsástæðum, sem B og G studdu kröfu sína við fyrir Hæstarétti og tengdust áðurnefndri lagagrein, hafði ekki verið haldið fram í héraði. Var því ekki litið til þeirra við úrlausn málsins, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Talið var að L hefði fyrst tilkynnt B og G um vanefndir S árið 2012, en þá hafði verið búið að gjaldfella lánið á grundvelli heimildar í skuldabréfinu frá 2005. Með hliðsjón af 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn og atvikum málsins að öðru leyti var ekki litið svo á að um verulega vanrækslu á tilkynningarskyldu L hefði verið að ræða. Í 4. mgr. sömu greinar er kveðið á um að lánveitandi geti ekki þannig að gildi hafi gagnvart ábyrgðarmanni gjaldfellt lán í heild sinni nema ábyrgðarmanni hafi áður verið gefinn kostur á að greiða gjaldfallnar afborganir lánsins. Talið var að B og G hefðu með stoð í málsgreininni getað boðið fram greiðslu á þeim afborgunum, sem hefðu verið í gjalddaga fallnar samkvæmt skuldabréfinu á þeim tíma þegar tilkynningin barst, ásamt áföllnum vöxtum, verðbótum og kostnaði. Þar sem þau hefðu ekki gert það var talið að þau hefðu firrt sig rétti til að bera umrætt ákvæði fyrir sig. Loks var ekki fallist á með B og G að útreikningar L á dómkröfu hans væru rangir sem leiða ætti til lækkunar eða niðurfellingar hennar. Samkvæmt öllu framansögðu var B og G gert að greiða gjaldfallinn höfuðstól skuldabréfsins ásamt dráttarvöxtum frá og með þingfestingardegi til greiðsludags.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 12. mars 2015. Þau krefjast sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti óskipt úr hendi áfrýjenda.
Í hinum áfrýjaða dómi er rakið efni skuldabréfs þess sem dóttir áfrýjandans Brynhildar og systir áfrýjandans Guðna Þórs gaf út til stefnda 10. október 2005 og áfrýjendur gengust í sjálfskuldarábyrgð fyrir, svo og breytingar sem gerðar voru á skilmálum bréfsins 14. september 2007 og 15. júlí 2009. Eins og greinir í dóminum var um að ræða endurnýjun á fjórum eldri lánum, sem lántakanum höfðu verið veitt á árinu 2001, einnig með sjálfskuldarábyrgð áfrýjenda, en á þeim tíma sagði í 3. mgr. 12. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna að stjórn sjóðsins væri heimilt að veita venjuleg skuldabréfalán sem væru verðtryggð og bæru vexti sem væru sambærilegir við almenna útlánavexti banka á hverjum tíma. Samkvæmt gögnum, sem stefndi hefur lagt fyrir Hæstarétt, var bú lántakans tekið til gjaldþrotaskipta 25. janúar 2013 og skiptum lokið 26. júní sama ár án þess að greiðsla hafi fengist upp í lýstar kröfur.
Óumdeilt er að mat fór ekki fram á greiðslugetu lántakans, hvorki á árinu 2001 né 2005. Með vísan til forsendna héraðsdóms gilti samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 2001 ekki um stefnda. Í greinargerð áfrýjenda í héraði var því ekki haldið fram að víkja bæri til hliðar ábyrgðarskuldbindingu þeirra á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga af annarri ástæðu en þeirri að stefndi hafi ekki fylgt ákvæðum fyrrgreinds samkomulags. Aðrar málsástæður, sem áfrýjendur styðja kröfu sína hér fyrir dómi og tengjast áðurnefndri lagagrein, eru því of seint fram komnar og verður ekki litið til þeirra við úrlausn málsins, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Í 4. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn er kveðið á um að lánveitandi geti ekki þannig að gildi hafi gagnvart ábyrgðarmanni gjaldfellt lán í heild sinni nema ábyrgðarmanni hafi áður verið gefinn kostur á að greiða gjaldfallnar afborganir lánsins. Eins og gerð er grein fyrir í héraðsdómi verður litið svo á að stefndi hafi fyrst tilkynnt áfrýjendum um vanefndir lántakans 16. október 2012, en þá var búið að gjaldfella lánið á grundvelli heimildar í skuldabréfinu frá 10. október 2005. Með stoð í fyrrgreindu lagaákvæði hefðu áfrýjendur getað boðið fram greiðslu á þeim afborgunum, sem voru í gjalddaga fallnar samkvæmt skuldabréfinu á þeim tíma, ásamt áföllnum vöxtum, verðbótum og kostnaði. Þar sem þau gerðu það ekki hafa þau firrt sig rétti til að bera umrætt ákvæði fyrir sig í þessu máli.
Samkvæmt öllu framansögðu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur, þar á meðal um upphafstíma dráttarvaxta, en stefndi hefur ekki áfrýjað dóminum fyrir sitt leyti.
Áfrýjendum verður gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjendur, Brynhildur Ásgeirsdóttir og Guðni Þór Þorsteinsson, greiði óskipt stefnda, Lánasjóði íslenskra námsmanna, 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. desember 2014.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var 18. nóvember sl., höfðaði Lánasjóður íslenskra námsmanna, Borgartúni 21, Reykjavík, á hendur Brynhildi Ásgeirsdóttur, Kaplaskjólsvegi 61, Reykjavík, og Guðna Þór Þorsteinssyni, Engihjalla 9, Kópavogi, með stefnu birtri 4. mars 2013.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda óskipt 2.197.590 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. febrúar 2011 til greiðsludags.
Stefndu krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda, en til vara að dómkröfur verði lækkaðar og að upphafsdagur dráttarvaxta miðist við dómsuppsögu. Þá krefjast þau þess að stefnanda verði gert að greiða þeim málskostnað að skaðlausu að mati dómsins.
II.
Hinn 10. október 2005 ritaði Sigríður Sara Þorsteinsdóttir undir skuldabréf til viðurkenningar á skuld sinni við stefnanda að fjárhæð 1.606.794 krónur. Í bréfinu kemur fram að um sé að ræða endurnýjun á fjórum eldri lánum. Var þar kveðið á um að skuldina skyldi endurgreiða með 96 afborgunum á eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn 1. september 2007, og að fjárhæðin skyldi breytast í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs. Ársvextir af skuldinni skyldu vera jafnháir vegnu meðaltali vaxta af almennum verðtryggðum skuldabréfum viðskiptabanka og sparisjóða sem Seðlabanki Íslands tilkynnir á hverjum tíma, auk 2% vaxtaálags, á þeim tíma samtals 6,15%. Til tryggingar endurgreiðslu á höfuðstól lánsins, ásamt vöxtum, verðbótum, dráttarvöxtum og öllum kostnaði ef vanskil yrðu, staðfestu stefndu Brynhildur og Guðni Þór með undirritun sinni sama dag að þau tækjust á hendur sjálfskuldarábyrgð á greiðslu lánsins. Gerðar voru skilmálabreytingar á láninu 14. september 2007 og 15. júlí 2009, með samþykki ábyrgðarmannanna. Kom fram í yfirlýsingu um seinni skilmálabreytinguna að höfuðstóll lánsins miðað við 14. júlí 2009 væri 2.382.446 krónur og skyldi sú fjárhæð greiðast með 120 mánaðarlegum afborgunum, í fyrsta sinn 1. ágúst sama ár, og vextir þá reiknast frá 14. júlí 2009.
Í bréfinu sagði að auki meðal annars að lánið yrði gjaldfellt án sérstakrar uppsagnar stæði lántakandi ekki í skilum með greiðslu afborgana og ef mál risi út af skuldabréfinu væri heimilt að reka það fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Lyti málsmeðferðin þá reglum XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
III.
Stefnandi kveðst byggja kröfu sína á yfirlýsingu stefndu um sjálfskuldarábyrgð á greiðslu umræddrar skuldar. Segir hann lánið hafa verið gjaldfellt 1. febrúar 2011 og hafi eftirstöðvar þá numið samtals 2.197.590 krónum. Vegna vanskila allt frá gjalddaga hinn 1. febrúar 2011 hafi málssókn verið óhjákvæmileg og sundurliðist stefnukrafa málsins þannig:
Gjaldfelldur höfuðstóll 2.185.388 krónur
Samningsvextir til 1. febrúar 2011 12.202 krónur
Samtals 2.197.590 krónur
Stefnandi tekur fram að aðalskuldari samkvæmt umræddu skuldabréfi, Sigríður Sara Þorsteinsdóttir, hafi verið úrskurðuð gjaldþrota og hafi kröfu vegna skuldabréfsins verið lýst í þrotabú hennar. Sé henni því ekki stefnt í málinu.
Um lagarök tekur stefnandi fram að mál þetta sé höfðað og rekið skv. 17. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafan um dráttarvexti styðjist við lög nr. 38/2001 og krafan um málskostnað við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Þá sé vísað til 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991 varðandi varnarþing, sbr. sérstakt ákvæði í skuldabréfinu sjálfu.
IV.
Stefndu byggja sýknukröfu sína aðallega á því að krafa stefnanda sé með öllu ósönnuð. Ekkert samræmi sé milli dómkrafna stefnanda og framlagðra dómskjala sem stefnandi byggi kröfur sínar á og geti skjölin ekki talist færa sönnur á þá skuld sem stefnanda krefji stefndu um. Jafnframt sé ósannað hver fjárhæðin sé sem stefndu séu sögð skulda stefnanda. Þá komi ekkert fram um það hvort eitthvað hafi verið greitt af láninu og þá hvenær og hversu mikið. Upphafstíma dráttarvaxta sé og mótmælt enda sé verulega ósanngjarnt að krefjast dráttarvaxta þrjú ár aftur í tímann án þess að gefa ábyrgðaraðilum svo mikið sem tækifæri til að takmarka tjón sitt.
Einnig sé á því byggt að stefnandi hafi hvorki framkvæmt greiðslumat á skuldara lánsins né hafi hann kynnt stefndu slíkt mat. Hafi stefnandi þannig vikist undan skyldum sínum samkvæmt svokölluðu Samkomulagi um notkun sjálfskuldaábyrgða, sem undirritað hafi verið 1. nóvember 2001 af þáverandi viðskiptaráðherra, fyrir hönd stjórnvalda. Hafi samkomulagi þessu verið ætlað að setja meginreglur til verndar ábyrgðarmönnum í þeim tilvikum er sjálfskuldarábyrgð væri sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu og sé í 3. gr. þess kveðið á um mat á greiðslugetu. Komi þar fram að lánveitendum sé gert skylt að greiðslumeta lántaka þegar óskað sé sjálfskuldarábyrgðar til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu sem nemi meira en einni milljón króna. Þar segi jafnframt að tryggt skuli að ábyrgðarmaður geti kynnt sér niðurstöðu greiðslumats áður en hann gangist í ábyrgðina, enda liggi fyrir að greiðandi hafi samþykkt það. Loks beri lánveitanda að upplýsa ábyrgðarmann ef niðurstaða greiðslumats bendi til þess að greiðandi geti ekki efnt skuldbindingar sínar. Þá komi fram í 4. gr. samkomulagsins að fjármálafyrirtækjum beri að gefa út upplýsingabæklinga um sjálfskuldarábyrgðir og dreifa með skjölum sem afhent séu ábyrgðarmönnum til undirritunar.
Stefnandi sé stjórnvald og sé hann því bundinn af framangreindu samkomulagi, með vísan til undirritunar tilgreindra ráðherra, fyrir hönd stjórnvalda. Meginreglur fjármunaréttar, viðskiptavenja og almennar reglur um vandaða stjórnsýsluhætti leiði til sömu niðurstöðu, enda beri að gera sömu kröfur til stefnanda hvað varði ábyrgðarmenn og gerðar séu til annarra lánastofnana. Stefnandi heyri undir mennta- og menningarmálaráðuneytið og hafi verið stofnaður með lögum nr. 21/1992 og starfræktur eftir opinberum réttarreglum. Þá sé stefnandi háður eftirliti sérstakrar málskotsnefndar, sbr. 5. gr. a í tilvitnuðum lögum. Loks hafi þetta verið ítrekað staðfest í álitum umboðsmanns Alþingis. Fyrir liggi að umrædd sjálfskuldarábyrgð nemi alls 1.606.794 krónum, bundið við vísitölu neysluverðs og sé hún því hærri en lágmarksfjárhæð samkomulagsins. Með hliðsjón af þessu sé þess krafist að ábyrgð stefndu verði vikið til hliðar með vísan til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936, enda sé ósanngjarnt af stefnanda að bera fyrir sig og byggja rétt á henni.
Jafnframt sé á því byggt að stefnandi hafi ekki sinnt tilkynningarskyldu sinni skv. 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn, sbr. einnig þær reglur sem gilt hafi fyrir gildistíð laganna, og hafi með því sýnt af sér verulegt tómlæti. Af þeim sökum telji stefndu sig óbundin af undirritun sinni á umrædda sjálfskuldarábyrgð.
Í e-lið 2. gr. laga nr. 32/2009 komi skýrt fram að lögin gildi um stefnanda. Samkvæmt 12. gr. sömu laga gildi 7. gr. um ábyrgðir sem stofnað hafi verið til fyrir gildistöku þeirra. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. sömu laga sé með ábyrgðarmönnum átt við einstakling sem gangist persónulega í ábyrgð eða veðsetji tilgreinda eign sína til tryggingar efndum lántaka, enda sé ábyrgðin ekki í þágu atvinnurekstrar ábyrgðarmanns eða í þágu fjárhagslegs ávinnings hans.
Samkvæmt a-lið 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 skuli lánveitandi senda ábyrgðarmanni skriflega tilkynningu svo fljótt sem kostur sé þegar um sé að ræða vanefndir lántaka. Samkvæmt d-lið skuli lánveitandi með sama hætti tilkynna ábyrgðarmanni eftir hver áramót um stöðu láns sem ábyrgð standi fyrir og senda honum jafnframt yfirlit yfir ábyrgðir. Samkvæmt athugasemdum í greinagerð með frumvarpi til laganna sé meginsjónarmiðið að baki 7. gr. það að lánveitandi tilkynni ábyrgðarmanni um öll þau atvik sem áhrif geta haft á forsendur ábyrgðar, ábyrgðarmanni í óhag. Ákvæðum 7. gr. er meðal annars ætlað að tryggja að ábyrgðarmaður eigi þess ávallt kost að grípa inn í aðstæður og greiða gjaldfallna afborgun eins og hún standi á gjalddaga, en 4. mgr. kveði á um að lánveitandi geti ekki, þannig að gildi hafi gagnvart ábyrgðarmanni, gjaldfellt lán í heild sinni nema ábyrgðarmanni hafi áður verið gefinn kostur á að greiða gjaldfallnar afborganir lánsins. Þá sé forsenda þess að lánveitandi geti innheimt dráttarvexti og vanskilakostnað sú að hann hafi tilkynnt ábyrgðarmanni með hæfilegum fyrirvara um vanefndir lántaka, sbr. 3. mgr. Í greinagerð frumvarpsins sé einnig áréttað að það sé lánveitandi sem beri sönnunarbyrðina fyrir því að tilkynningaskyldu hafi verið gætt, enda standi það honum nær en ábyrgðarmanni. Ljóst sé að stefnandi hafi ekki fært sönnur á að hann hafi gætt að hinni lögbundnu tilkynningaskyldu sem á honum hvíli samkvæmt ákvæðum a-, c- og d-liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009. Verði vanræksla stefnanda í þessum efnum að teljast veruleg, sem leiða eigi til þess að sjálfskuldarábyrgð stefndu teljist niður fallin, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009.
Loks sé á því byggt að stefnandi hafi ekki uppfyllt skilyrði 4. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 um að lánveitandi geti ekki, þannig að gildi hafi gagnvart ábyrgðarmanni, gjaldfellt lán í heild sinni nema ábyrgðarmanni hafi áður verið gefinn kostur á að greiða gjaldfallnar afborganir lánsins. Liggi fyrir að stefnandi hafi sýnt af sér algert tómlæti í þeim efnum. Hafi stefndu því ekki fengið færi á að grípa inn í aðstæður og greiða gjaldfallnar afborganir lánsins, eins og þær hafi staðið á gjalddaga. Að framangreindu virtu telji þau því að gjaldfelling stefnanda á umræddu láni geti ekki haft gildi gagnvart þeim og beri af þeim sökum að fella niður hina umræddu sjálfskuldarábyrgð.
Verði ekki fallist á sýknukröfu stefndu geri þau þá kröfu að dómkrafa stefnanda verði lækkuð. Sé hvað það varði vísað til þess að stefnandi hafi á engan hátt sýnt fram á hvenær vanskil hafi hafist á láninu, hafi þau einhver verið, og hafi þau því með engu móti getað takmarkað tjón sitt. Jafnframt sé vegna lækkunarkröfunnar vísað til þess að stefnandi, hafi, eins og áður hefur verið rakið, vanrækt þá skyldu sína að gefa ábyrgðarmanni sannanlega kost á að greiða gjaldfallnar afborganir lánsins, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009. Þá liggi fyrir, með vísan til sama lagaákvæðis, að ábyrgðarmaður verði ekki krafinn um greiðslur á dráttarvöxtum eða innheimtukostnaði lántaka sem falli til eftir gjalddaga, nema liðnar séu tvær vikur frá því að ábyrgðarmanni hafi sannanlega verið gefinn kostur á að greiða gjaldfallnar afborganir lánsins. Hafi stefnandi á engan hátt sýnt fram á að þetta hafi verið gert.
Loks sé til stuðnings kröfu stefndu um lækkun dómkrafna vísað til 36. gr. laga nr. 7/1936.
V.
Niðurstöður
Stefnandi höfðar mál þetta sem skuldabréfamál á grundvelli XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála á hendur stefndu sem sjálfskuldarábyrgðarmönnum á framangreindu skuldabréfi, útgefnu af Sigríði Söru Þorsteinsdóttur 10. október 2005. Gegn mótmælum stefnanda geta stefndu einungis komið að þeim vörnum sem kveðið er á um í 118. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þar á meðal vörnum ef þau eiga ekki að sanna þær staðhæfingar sem varnir byggjast á eða unnt er að sanna þær með skjölum sem þau leggja fram, sbr. 3. tl. greinarinnar.
Stefndu byggja kröfur sínar í fyrsta lagi á því að stefnandi hafi ekki sýnt með gögnum fram á hver sé raunveruleg fjárhæð þeirrar skuldar sem stefnandi krefji þau um á grundvelli skuldabréfsins. Í málinu liggur í fyrsta lagi fyrir skilagrein frá innheimtuaðila bréfsins, Landsbankanum hf., yfir stöðu skuldarinnar eftir að bréfið fór í vanskil á gjalddaga lánsins hinn 1. febrúar 2011, en þar kemur fram að eftirstöðvar höfuðstóls skuldarinnar séu þá 2.025.074 krónur. Þá liggur fyrir yfirlit stefnanda um sundurliðun kröfunnar miðað við næsta gjalddaga bréfsins 1. febrúar sama ár og afrit innheimtubréfa, stíluð á stefndu, þar sem framangreind fjárhæð er tilgreind sem ógreiddur höfuðstóll lánsins, ógreidd hækkun vegna vísitölubreytingar 160.314 krónur og samningsvextir frá 1. janúar til 1. febrúar 2011, þegar lánið var gjaldfellt, 12.202 krónur. Samtals nemur gjaldfelldur höfuðstóll bréfsins því 2.197.590 krónum, sem er stefnufjárhæð málsins. Hafa stefndu ekki leitt neinar líkur að því að útreikningar stefnanda á framangreindum höfuðstólsfjárhæðum séu á einhvern hátt rangir, sem leiða eigi til lækkunar eða niðurfellingar á dómkröfu stefnanda gagnvart þeim. Verður staðhæfingum þeirra þar um því hafnað.
Stefndu byggja í öðru lagi á því að stefnandi hafi hvorki framkvæmt greiðslumat vegna aðalskuldarans og útgefanda skuldabréfsins, Sigríðar Söru Þorsteinsdóttur, né kynnt stefndu slík mat, en stefnanda hafi verið þetta skylt samkvæmt Samkomulagi um notkun sjálfskuldarábyrgða, dags. 27. janúar 1998. Eins og áður hefur verið rakið voru aðilar umrædds samkomulags Samband íslenskra viðskiptabanka, f.h. viðskiptabanka, Samband íslenskra sparisjóða, f.h. sparisjóða, Kreditkort hf., Greiðslumiðlun hf., Neytendasamtökin og viðskiptaráðherra og félagsmálaráðherra af hálfu stjórnvalda. Þrátt fyrir aðkomu framangreindra ráðherra, fyrir hönd stjórnvalda, að samkomulaginu verður af efni þess ráðið að því var einungis ætlað að taka til framangreindra íslenskra fjármálafyrirtækja en ekki að binda lánasjóði ríkisins, eins og stefnanda. Auk þess er hér til þess að líta að samkomulag þetta var ekki undirritað af menntamálaráðherra og gat því ekki bundið stefnanda sem stjórnvald sem undir það ráðuneyti heyrir. Með hliðsjón af þessu verður ekki fallist á það með stefndu að stefnandi hafi við útgáfu skuldabréfsins verið skuldbundinn til að láta framkvæma greiðslumat fyrir aðalskuldarann Sigríði Söru og kynna þeim það mat. Er þessari málsástæðu stefndu því hafnað. Af því leiðir og að ekkert hald er í þeirri málsástæðu stefndu að víkja beri sjálfskuldarábyrgðinni til hliðar með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, þar sem ósanngjarnt sé, með tilliti til brota stefnanda á samkomulaginu, að bera ábyrgðina fyrir sig og byggja á henni rétt. Þá verður ekki fallist á að stefndu hafi sýnt fram á að önnur atvik hafi verið til staðar við samningsgerðina sem leitt gætu til þess að skuldbindingu þeirra yrði vikið til hliðar eða krafan vegna hennar lækkuð með vísan til tilvitnaðs ákv. 36. gr., enda hefur skuldbindingin samkvæmt skuldabréfinu sjálfu síðan þá verið staðfest af stefndu í tvígang með undirritun þeirra á framangreindar yfirlýsingar um skilmálabreytingar lánsins.
Stefndu byggja og á því að stefnandi hafi ekki sinnt tilkynningarskyldu sinni skv. ákv. a-, c- og d-liðar 1. mgr. og 4. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Hafi stefnandi með þessu sýnt af sér verulegt tómlæti sem eigi að leiða til þess að þau séu óbundin af ritun sinni undir sjálfskuldarábyrgðaryfirlýsinguna, sbr. 2. mgr. 7. gr., en að öðrum kosti að gjaldfelling lánsins teljist ólögmæt, sbr. 4. mgr. sömu lagagreinar. Fram kemur í 2. gr. laga nr. 32/2009 að lögin taki til stefnanda og samkvæmt 12. gr. þeirra verður ákvæðum 7. gr. laganna beitt um ábyrgð stefndu enda þótt þau hafi gengist undir hana fyrir gildistöku laganna. Samkvæmt a-, b- og d-liðum 1. mgr. 7. gr. skal lánveitandi senda ábyrgðarmanni tilkynningu skriflega svo fljótt sem kostur er um vanefndir lántaka, um andlát lántaka eða að bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta og eftir hver áramót með upplýsingum um stöðu láns sem ábyrgð standi fyrir og yfirliti yfir ábyrgðir. Þá segir í 4. mgr. 7. gr. að lánveitandi geti ekki þannig að gildi hafi gagnvart ábyrgðarmanni gjaldfellt lán í heild sinni nema ábyrgðarmanni hafi áður verið gefinn kostur á að greiða gjaldfallna afborgun.
Í máli þessu liggja fyrir afrit af tilkynningum til stefndu sem ábyrgðarmanna, dags. 16. ágúst 2012, um vanskil afborgunar umrædds skuldabréfs með gjalddaga hinn 1. sama mánaðar. Er í bréfinu skorað á stefndu að greiða vanskilin vegna þessarar afborgunar. Ekki hafa verið lögð fram frekari gögn um tilkynningar stefnanda, eða Landsbankans hf. fyrir hans hönd, til stefndu, en hins vegar liggja fyrir afrit af viðvörunarbréfum innheimtufyrirtækis til stefndu, dags. 16. og 29. október 2012, þar sem fram kemur að umrætt skuldabréf sé í vanskilum frá 1. febrúar 2011. Eru stefndu í bréfinu krafin sem ábyrgðarmenn um greiðslu gjaldfellds höfuðstóls bréfsins, ásamt tilgreindum vöxtum, áföllnum dráttarvöxtum frá vanskiladegi og kostnaði. Stefndu neituðu því í skýrslum sínum fyrir dómi að þau hefðu fengið framangreindar eða einhverjar aðrar tilkynningar frá stefnanda um vanskil og gjaldfellingu bréfsins. Hins vegar verður af greinargerð stefndu ráðið að þau mótmæli því ekki að hafa fengið sent framangreint innheimtubréf frá innheimtufyrirtækinu. Samkvæmt þessu, og þar sem stefnandi sem lánveitandi ber sönnunarbyrði fyrir því að tilkynningarskyldu skv. tilvitnaðri 7. gr. hafi verið gætt gagnvart ábyrgðarmönnum, verður að líta svo á að ósannað sé að stefnandi hafi sent stefndu tilkynningar um vanefndir lántaka eða um gjaldfellingu lánsins fyrr en með fyrrgreindu innheimtubréfi innheimtufyrirtækisins, dags. 16. október 2012.
Stefnandi vísaði til þess við aðalmeðferð málsins að bú aðalskuldara skuldabréfsins, Sigríðar Söru Þorsteinsdóttur, hefði verið tekið til gjaldþrotaskiptameðferðar og að eigi síðar en við uppkvaðningu úrskurðar þar um hafi skuldabréfið fallið í gjalddaga, sbr. ákv. 99. gr. laga nr. 91/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Var málsástæðu þessari ekki mótmælt af hálfu stefndu sem of seint fram kominni. Hins vegar verður ekkert um þetta með vissu ráðið af fram lögðum gögnum og verður því ekki úr málinu leyst á þeim grundvelli.
Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 skal ábyrgðarmaður vera skaðlaus af vanrækslu lánveitanda á tilkynningarskyldu skv. 1. mgr. og ef vanræksla er veruleg skal ábyrgð falla niður. Í 3. mgr. sömu lagagreinar segir svo að ábyrgðarmaður verði ekki krafinn um greiðslur á dráttarvöxtum eða öðrum innheimtukostnaði lántaka sem fellur til eftir gjalddaga nema liðnar séu tvær vikur frá því að ábyrgðarmanni var sannanlega gefinn kostur á að greiða gjaldfallnar afborganir lánsins. Loks segir í 4. gr. sömu greinar að lánveitandi geti ekki þannig að gildi hafi gagnvart ábyrgðarmanni gjaldfellt lán í heild sinni nema ábyrgðarmanni hafi áður verið gefinn kostur á að greiða gjaldfallnar afborganir lánsins.
Eins og fyrr segir liggur ekkert fyrir um að stefndu hafi verið gefinn kostur á að greiða gjaldfallnar afborganir umrædds láns heldur voru þau einungis krafin um gjaldfellda fjárhæð þess, ásamt dráttarvöxtum og kostnaði, með innheimtubréfi, dags. 16. október 2012. Samkvæmt því og öðru því sem að framan er rakið, sbr. sérstaklega 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009, og þar sem með hliðsjón af aðstæðum öllum þykir eigi unnt að líta svo á að um verulega vanrækslu á tilkynningarskyldu stefnanda hafi verið að ræða, verða stefndu einungis krafin um greiðslu gjaldfallins höfuðstóls skuldabréfsins ásamt dráttarvöxtum frá og með þingfestingardegi málsins hinn 5. nóvember 2013 til greiðsludags.
Með hliðsjón af þessari niðurstöðu málsins þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Stefndu, Brynhildur Ásgeirsdóttir og Guðni Þór Þorsteinsson, greiði stefnanda, Lánasjóði íslenskra námsmanna, 2.197.590 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá og með 5. nóvember 2013 til greiðsludags.
Málskostnaður fellur niður.