Hæstiréttur íslands

Mál nr. 95/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Endurupptaka
  • Gjaldþrotaskipti


Þriðjudaginn 2. mars 2010.

Nr. 95/2010.

A

(sjálfur)

gegn

sýslumanninum á Selfossi

(enginn)

Kærumál. Endurupptaka. Gjaldþrotaskipti.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var endurupptöku á máli þar sem  A var úrskurðaður gjaldþrota. Beiðni A var ekki talin uppfylla kröfur 2. málsliðar 1. mgr. 138. gr. laga nr. 91/1991 og var hinn kærði því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. febrúar 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 27. janúar 2010, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um endurupptöku á máli um töku bús hans til gjaldþrotaskipta að kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í q. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hann krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að endurupptaka framangreint mál og að gjaldþrotaúrskurður yfir honum frá 4. nóvember 2009 verði þar með ógiltur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Í 2. málslið 1. mgr. 138. gr. laga nr. 91/1991 er kveðið á um hvert vera skuli efni beiðni um endurupptöku máls í héraði. Beiðni sóknaraðila 12. janúar 2010 uppfyllir ekki þessar kröfur lagaákvæðisins. Með vísan til þess verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 27. janúar 2010.

Með beiðni, dagsettri 12. janúar 2010, sem móttekin var 13. janúar s.á., krafðist A, kt. [...],[...], þess að kveðinn yrði upp úrskurður um synjun dómsins á beiðni hans, dagsettri 15. desember 2009, sem móttekin var 17. desember s.á., um endurupptöku máls þessa.

Málavextir eru þeir að með beiðni, dagsettri 6. ágúst 2009, sem móttekin var 7. ágúst s.á., krafðist sóknaraðili, Sýslumaðurinn á Selfossi, kt 461278-0279, Hörðuvöllum 1, Selfossi, þess að bú varnaraðila, A, yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Málið var þingfest 7. október sl., og var ekki mætt af hálfu varnaraðila og var málið því tekið til úrskurðar að kröfu sóknaraðila. Við vinnslu úrskurðar kom í ljós sá galli á fyrirkalli að málið yrði tekið fyrir miðvikudaginn 10. október 2009 kl. 10.00 en ekki miðvikudaginn 7. október 2009 kl. 10.00. Vegna þessa var gefið út nýtt fyrirkall þar sem varnaraðili var boðaður á ný til að mæta fyrir dóm miðvikudaginn 4. nóvember 2009, kl. 10.00. Var fyrirkallið birt að [...], af stefnuvotti þann 28. október sl. Viðtakandi, B, neitaði móttöku. Var fyrirkallið skilið eftir á birtingarstað. B afhenti skrifstofu dómsins 30. október 2009 bréf þar sem hún kvað varnaraðila hafa flutt lögheimili sitt og hefði hún tjáð stefnuvottinum það ásamt því jafnframt að neita að taka við fyrirkallinu. Málið var tekið fyrir að nýju 4. nóvember 2009 og var ekki mætt af hálfu varnaraðila og var málið því tekið til úrskurðar að kröfu sóknaraðila. Úrskurður var kveðinn upp samdægurs þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila og Sigurður Sigurjónsson hrl., Lögmönnum Suðurlandi, skipaður skiptastjóri í þrotabúinu. Varnaraðili kærði úrskurð dómsins til Hæstaréttar með kæru, dagsettri 18. nóvember 2009, sem móttekin var samdægurs. Með dómi Hæstaréttar 27. nóvember 2009 í máli nr. 671/2009 var málinu vísað frá Hæstarétti. Í dóminum kemur fram að allt frá dómi réttarins 9. desember 1992 sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 2028, hafi ítrekað verið slegið föstu í dómum réttarins að skýra verði kæruheimild 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 með hliðsjón af 4. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þannig að úrskurður um gjaldþrotaskipti verði ekki kærður til Hæstaréttar ef útivist hafi orðið af hálfu skuldarans í héraði, heldur verði hann að leita endurskoðunar slíks úrskurðar með kröfu um endurupptöku máls fyrir héraðsdómi samkvæmt 1. mgr. 137. gr. síðarnefndu laganna. Hæstiréttur taldi af þeim sökum að kæruheimild væri ekki til staðar í máli þessu. Með beiðni, dagsettri 15. desember 2009, sem móttekin var 17. desember s.á., bað varnaraðili um endurupptöku málsins. Með bréfi dómsins, dagsettu 28. desember 2009, var beiðni varnaraðila hafnað með vísan til 2. mgr. 138. gr. laga nr. 91/1991. Beiðni varnaraðila um uppkvaðningu úrskurðar um synjun dómsins á endurupptökubeiðni hans barst dóminum 13. janúar sl.

Í endurupptökubeiðni varnaraðila er málavöxtum lýst svo að hann hafi verið úrskurðaður gjaldþrota 4. nóvember 2009 en hafi ekki fengið boðun til dómþings. Varnaraðili hafi fengið vitneskju um gjaldþrot sitt 18. nóvember 2009 þegar Landsbankinn hafi bent honum á að bankareikningur hans væri læstur sökum gjaldþrots hans. Varnaraðili, sem sé ólöglærður, hafi leitað leiðsagnar héraðsdómara og fengið þær leiðbeiningar að eina úrræði hans væri að kæra úrskurð dómsins til Hæstaréttar innan tveggja vikna frá úrskurðardegi. Varnaraðili hafi kært úrskurðinn samdægurs til Hæstaréttar. Hæstiréttur hafi vísað málinu frá á þeirri forsendu að úrskurður um gjaldþrotaskipti verði ekki kærður til Hæstaréttar ef útivist hafi orðið af hálfu skuldara í héraði, heldur verði hann að leita endurskoðunar slíks úrskurðar með kröfu um endurupptöku málsins fyrir Héraðsdómi samkvæmt 1. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991. Málsástæðum varnaraðila er þannig lýst að hann hafi ekki haft vitneskju um að til stæði að taka bú hans til gjaldþrotaskipta 4. nóvember 2009. Engin boðun eða tilkynning um þessa fyrirætlun hafi borist á lögheimili varnaraðila að [...], hvorki frá Héraðsdómi Suðurlands né frá sóknaraðila. Eftirgrennslan varnaraðila hafi leitt í ljós að reynt hafi verið að birta fyrirkall á fyrrverandi lögheimili hans. B, sem þar búi, hafi bent boðunarmanni á að varnaraðili væri fluttur, en boðunarmaður hafi hent boðuninni inn fyrir dyrnar. B hafi endursent gögnin til Héraðsdóms Suðurlands. Varnaraðila hafi því aldrei borist fyrirkallið. Fyrirkallið sé dagsett 19. október 2009 en varnaraðili hafi flutt af fyrra heimili sínu til núverandi heimilis síns 1. október s.á. og sé færsla í þjóðskrá dagsett 10. október s.á. Varnaraðili kveðst vísa til 1. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 um beiðni sína um endurupptöku.

Í bréfi varnaraðila, mótteknu 13. janúar 2010, kemur fram að Hæstiréttur hafi í dómi réttarins í máli nr. 671/2009 gefið varnaraðila þá leiðbeiningu að nægjanlegt sé að vísa til 1. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 til að fá úrskurð dómsins um gjaldþrotaskipti á búi hans endurupptekinn. Farið hafi verið að þessum leiðbeiningum í endurupptökubeiðni varnaraðila og byggt á þeirri málsástæðu að varnaraðili hafi ekki verið boðaður til dómþings. Nauðsynlegt skilyrði fyrir dómsuppkvaðningu um gjaldþrot einstaklings sé að honum hafi verið gert viðvart og honum gefinn kostur til andsvara á dómþingi áður en úrskurður sé kveðinn upp. Þetta skilyrði sé ekki uppfyllt og sé það nægjanlegt skilyrði samkvæmt a-lið 2. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 til endurupptöku. Varnaraðili vísar til 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Niðurstaða.

Úrskurður þessi er kveðinn upp á grundvelli 2. mgr. 138. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í úrskurðinum verður einungis fjallað um það hvort synja beri um endurupptöku máls nr. G-83/2009 við Héraðsdóm Suðurlands. Umrætt mál er krafa sóknaraðila um að bú varnaraðila verði tekið til gjaldþrotaskipta. Úrskurður var kveðinn upp í málinu 4. nóvember 2009 og fallist á kröfu sóknaraðila. Ákvæði 23. kafla laga nr. 91/1991 um endurupptöku útivistarmáls í héraði gilda um endurupptöku úrskurðar um gjaldþrotaskipti, sbr. 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991, sbr. einnig áðurnefndan dóm Hæstaréttar í máli nr. 671/2009.

Í bréfi varnaraðila sem móttekið var 17. desember 2009 kemur fram að varnaraðili hafið fengið vitneskju um töku bús síns til gjaldþrotaskipta 18. nóvember 2009. Þar sem bréf varnaraðila er móttekið 17. desember 2009 eru uppfyllt skilyrði um tímafrest sem fram koma í 1. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt 1. mgr. 138. gr. laga nr. 91/1991 skal í beiðni m.a. ,,greint skýrlega frá því hverra breytinga stefndi krefjist á fyrri málsúrslitum og á hverjum málsástæðum, réttarheimildum og sönnunargögnum það sé byggt ...” Í bréfi varnaraðila er þessara atriða í engu orði getið. Ekki kemur skýrlega fram hverra breytinga varnaraðili krefjist á fyrri málsúrslitum. Þær málsástæður, réttarheimildir og sönnunargögn sem tilgreind eru í bréfinu sýnast einvörðungu lúta að því að varnaraðili hafi ekki haft vitneskju um að fram væri komin krafa um að bú hans yrði tekið til gjaldþrotaskipta og hvenær sú krafa yrði tekin fyrir á dómþingi. Samkvæmt framansögðu eru ekki uppfyllt skilyrði 1. mgr. 138. gr. laga nr. 91/1991 fyrir því að ofangreint mál verði endurupptekið.

Eins og framar greinir vísar varnaraðili til þess, í bréfi sínu sem móttekið var 13. janúar sl., að Hæstiréttur hafi í dómi réttarins í máli nr. 671/2009 gefið varnaraðila þá leiðbeiningu að nægjanlegt sé að vísa til 1. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 til að fá úrskurð dómsins um gjaldþrotaskipti á búi hans endurupptekinn. Skilja verður þessi orð varnaraðila á þann veg að hann túlki forsendur dómsins svo að honum hafi verið nægjanlegt að byggja beiðni sína um endurupptöku einvörðungu á ákvæði 1. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991, án tillits til annarra ákvæða 23. kafla sömu laga. Forsendur umrædds dóms Hæstaréttar eru raktar hér að framan. Orðalag dómsins um að skuldari verði að leita endurskoðunar úrskurðar með kröfu um endurupptöku máls fyrir héraðsdómi ,,samkvæmt 1. mgr. 137. gr.“ laga nr. 91/1991 verða ekki túlkuð eins þröngt og varnaraðili byggir á. Umrætt ákvæði 1. mgr. 137. gr. laga nr. 91/1991 er upphafsákvæði 23. kafla þeirra laga. Kaflinn ber fyrirsögnina ,,Endurupptaka útivistarmáls í héraði.“ Í kaflanum eru sex greinar, 137. til 142. gr. Varnaraðila mátti vera það ljóst við lestur fyrirsagnar 23. kafla og 137. gr. að sú grein væri einungis upphafsákvæði kaflans og að í kaflanum kynnu að vera önnur ákvæði sem skipt gætu máli fyrir beiðni hans um endurupptöku máls þessa. Beiðni varnaraðila verður því ekki tekin til greina á þessum grundvelli.

Varnaraðili vísar einnig, í bréfi sínu sem móttekið var 13. janúar sl., til 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Varnaraðili rökstyður þó ekki hvernig þessi ákvæði skipti máli fyrir úrlausn máls þessa og verður ekki frekar litið til þeirra við úrlausn málsins.

Með vísan til þess sem framar greinir er óhjákvæmilegt að hafna beiðni varnaraðila um endurupptöku máls þessa. Heimilt er að kæra úrskurð þennan til Hæstaréttar samkvæmt 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991, sbr. q-lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991.

Ástríður Grímsdóttir, héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Beiðni varnaraðila, A, um endurupptöku máls nr. G-83/2009, er hafnað.