Hæstiréttur íslands

Mál nr. 599/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dánarbú
  • Opinber skipti
  • Kröfugerð


Föstudaginn 13

 

Föstudaginn 13. nóvember 2009.

Nr. 599/2009.

Sigurður Kristján Hjaltested

Karl Lárus Hjaltested og

(Sigmundur Hannesson hrl.)

Sigríður Hjaltested

(Valgeir Kristinsson hrl.)

gegn

Kristrúnu Ólöfu Jónsdóttur

Þorsteini Hjaltested

Vilborgu Hjaltested

Marteini Hjaltested og

Sigurði K. Hjaltested

(Sigurbjörn Þorbergsson hrl.)

 

Kærumál. Dánarbú. Opinber skipti. Kröfugerð.

 

S o.fl. kærðu úrskurð héraðsdóms um að hafna því að taka dánarbú SH, sem lést árið 1966, til opinberra skipta. Var krafan reist á því að nánar tilgreindar athuganir hafi ekki leitt til annarrar niðurstöðu en að dánarbúið hafi verið tekið til opinberra skipta en jafnframt að skiptum hafi ekki lokið. Talið var að óhjákvæmilegt væri að gæta að því að væri rétt með farið að opinberum skiptum á dánarbúi SH hafi aldrei verið lokið leiði af sjálfu sér að þau stæðu enn yfir, sbr. og 148. gr. laga nr. 20/1991. Við svo búið væri útilokað að taka dánarbúið með dómsúrlausn aftur til opinberra skipta. Þegar af þeirri ástæðu var niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 12. október 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. september 2009, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, sem lést 13. nóvember 1966, verði tekið til opinberra skipta. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að lagt verði „fyrir héraðsdóm að verða við beiðni/kröfu sóknaraðila um að dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, sem lést 13. nóvember 1966, síðast til heimilis á Vatnsenda, Kópavogi, verði tekið til opinberra skipta og skipaður verði skiptastjóri til að annast opinber skipti á dánarbúinu.“ Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Samkvæmt gögnum málsins var Sigurður Kristján Lárusson Hjaltested fæddur 11. júní 1916 og búsettur að Vatnsenda í Kópavogi þegar hann lést árið 1966, en þá jörð hafði hann eignast samkvæmt erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested frá 4. janúar 1938 eftir að sá síðarnefndi lést 31. október 1940. Til arfs eftir Sigurð stóðu eftirlifandi maki hans, Margrét Guðmundsdóttir Hjaltested, tveir synir þeirra, sóknaraðilarnir Sigurður Kristján Hjaltested og Karl Lárus Hjaltested, fæddir 1962 og 1963, og þrjú börn Sigurðar af fyrri hjúskap, Magnús Hjaltested, fæddur 1941, Markús Ívar Hjaltested, fæddur 1944, og sóknaraðilinn Sigríður Hjaltested, fædd 1951. Margrét Guðmundsdóttir Hjaltested mun hafa látist á árinu 2004, en Magnús Hjaltested 1999. Eftirlifandi maki Magnúsar er varnaraðilinn Kristrún Ólöf Jónsdóttir og eru aðrir varnaraðilar börn þeirra.

Fyrir liggur í málinu að aðgerðir við opinber skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested hófust fyrir skiptarétti Kópavogs 25. febrúar 1967 eftir fyrirmælum þágildandi laga nr. 3/1878 um skipti á dánarbúum og félagsbúum o.fl. Í hinum kærða úrskurði er í meginatriðum greint frá því, sem ráðið verður af gögnum málsins um framvindu þeirra opinberu skipta allt til miðs árs 1969, en í tengslum við þau voru meðal annars rekin nokkur ágreiningsmál fyrir dómstólum, einkum að því er varðaði jörðina Vatnsenda. Á grundvelli dóma Hæstaréttar í tveimur af þeim málum, annars vegar frá 5. apríl 1968 í máli nr. 110/1967 og hins vegar frá 30. maí 1969 í máli nr. 99/1968, skyldi jörðin koma í hlut Magnúsar Hjaltested við skiptin, en samkvæmt framlögðu veðbókarvottorði frá árinu 1976 var hann á þeim tíma þinglýstur eigandi hennar á grundvelli heimildarbréfs frá 30. maí 1969. Í málinu hafa á hinn bóginn ekki verið lögð að öðru leyti fram gögn til staðfestingar því að opinberum skiptum á dánarbúi Sigurðar hafi verið lokið og þá eftir atvikum hvernig það var gert.

Sóknaraðilar lögðu 23. desember 2008 beiðni fyrir Héraðsdóm Reykjaness um að dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested yrði tekið til opinberra skipta, en til þeirrar kröfu var tekin afstaða með hinum kærða úrskurði. Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila er þessi krafa reist á því að nánar tilgreindar athuganir þeirra hafi „ekki leitt til annarrar niðurstöðu en að dánarbúið hafi verið tekið til opinberra skipta en jafnframt að skiptum hafi ekki lokið.“ Án tillits til þess hvort þessi ályktun sóknaraðila geti talist á rökum reist er óhjákvæmilegt að gæta að því að sé rétt með farið að opinberum skiptum á dánarbúi Sigurðar hafi aldrei verið lokið leiðir af sjálfu að þau stæðu enn yfir, sbr. og 148. gr. laga nr. 20/1991. Við svo búið væri útilokað að taka dánarbúið með dómsúrlausn aftur til opinberra skipta. Þegar af þeirri ástæðu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Sigurður Kristján Hjaltested, Karl Lárus Hjaltested og Sigríður Hjaltested, greiði í sameiningu varnaraðilum, Kristrúnu Ólöfu Jónsdóttur, Þorsteini Hjaltested, Vilborgu Hjaltested, Marteini Hjaltested og Sigurði K. Hjaltested, hverjum fyrir sig 50.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. september 2009.

Með beiðni, sem móttekin var hjá Héraðsdómi Reykjaness 23. desember 2008, var þess óskað af hálfu sóknaraðila að bú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, sem lést 13. nóvember 1966, síðast til heimilis að Vatnsenda, Kópavogi, yrði tekið til opinberra skipta. Málið var þingfest 11. febrúar 2009 og tekið til úrskurðar 16. september sl.

Sóknaraðilar eru Sigurður Kristján Hjaltested, Karl Lárus Hjaltested og Sigríður Hjaltested en varnaraðilar eru Kristrún Ólöf Jónsdóttir, Þorsteinn Hjaltested, Vilborg Hjaltested, Marteinn Hjaltested og Sigurður K. Hjaltested.

Af hálfu varnaraðila er þess krafist að framkominni kröfu sóknaraðila um opinber skipti verði hafnað og að sóknaraðilum verði in solidum gert að greiða varnaraðilum málskostnað.

I.

Magnús Einarsson Hjaltested eignaðist jörðina Vatnsenda 1914. Hann var ókvæntur og barnlaus og gerði erfðaskrá 4. janúar 1938 þar sem hann arfleiddi bróðurson sinn, Sigurð Kristján Lárusson Hjaltested, að öllum eignum sínum. Í erfðaskránni segir m.a. að allar eigur Magnúsar skuli renna til Sigurðar með nánar greindum takmörkunum og skilyrðum sem voru m.a. þau að Sigurður mátti ekki selja eignina og skyldi búa á eigninni sjálfri. Að Sigurði látnum skyldi jörðin ganga að erfðum til elsta sonar hans og svo til niðja hans í beinan legg. Í erfðaskránni segir ennfremur að skyldi einhver erfingjanna hætta búskap að Vatnsenda missti hann rétt sinn samkvæmt erfðaskránni og að sérhver erfingi sé skyldugur að halda öll þau skilyrði sem Sigurði hafði verið sett. Vanræki einhver það varði það tafarlaust réttindamissi fyrir hlutaðeigandi.

Sigurður Kristján Lárusson Hjaltested lést 13. nóvember 1966. Elsti sonur hans, Magnús Hjaltested, tók við jörðinni samkvæmt erfðaskránni og eftir lát Magnúsar  1999 tók sonur hans, Þorsteinn Hjaltested, við jörðinni.

Sóknaraðilar málsins, Sigurður Kristján, Karl Lárus og Sigríður, eru börn Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Móðir Sigurðar Kristjáns og Karls Lárusar var Margrét Guðnadóttir en móðir Sigríðar var Sigurlaug Árnadóttir Knudsen. Sigríður er alsystir Magnúsar Hjaltested og Markúsar Ívars Hjaltested.

Varnaraðili málsins, Kristrún Ólöf Jónsdóttir er ekkja Magnúsar Hjaltested, elsta sonar Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Varnaraðilar Þorsteinn, Vilborg, Marteinn og Sigurður eru börn Magnúsar og Kristrúnar Ólafar.

Í málinu deila aðilar um hvort að bú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested hafi verið tekið til skipta eftir lát hans 13. nóvember 1966. Halda sóknaraðilar því fram að svo hafi ekki verið gert en varnaraðilar eru á andstæðri skoðun og hafa lagt fram ýmis gögn máli sínu til stuðnings.

II.

Eftir andlát Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested 13. nóvember 1966 kom upp ágreiningur um skipti á dánarbúi hans. Í skiptarétti Kópavogs þann 25. febrúar 1967 var bókað, samkvæmt endurriti úr gerðabók embættisins, að ekkja Sigurðar, Margrét Hjaltested, og Magnús Hjaltested, elsti sonur Sigurðar, óskuðu eftir uppskrift að dánar- og félagsbúinu og að því yrði skipt.

Þann 4. apríl 1967 lá fyrir uppskrift og verðmat á innbúi dánar- og félagsbúsins og þann 8. sama mánaðar var Unnsteini Beck, sem setuskiptaráðanda, falið að fara með skipti á dánar- og félagsbúinu.

Þann 10. maí 1967 var málið tekið fyrir á skrifstofu borgarfógetans í Reykjavík, sem var starfsstöð setuskiptaráðandans, og þá lögð fram uppskrift innbús auk þess sem skrifað var upp og virt bifreiðin Y-8, 46 ær, 22 gemlingar og 380 hænsn. Í sömu fyrirtöku var bókað um ágreining milli Margrétar Hjaltested og Magnúsar Hjaltested og ákveðið að sérstakt mál yrði rekið um þann ágreining þar sem sátt hefði ekki tekist.

Skiptamálið var síðan tekið fyrir þann 17. maí 1967 og aftur 24. maí 1967 þar sem m.a. var lögð fram yfirlýsing Margrétar um andmæli gegn framangreindri erfðaskrá sem mælti fyrir um að Magnús Hjaltested, elsti sonur Sigurðar, skyldi einn erfa jörðina. Í kjölfar þess var rekið ágreiningsmál um gildi erfðaskrárinnar og gekk dómur skiptaréttar í málinu 24. júlí 1967. Samkvæmt úrskurði skiptaréttar var fallist á rétt Magnúsar til jarðarinnar á grundvelli umþrættrar erfðaskrár og sú niðurstaða  staðfest með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 110/1967 frá 5. apríl 1968. Í úrskurði skiptaréttar kom m.a. fram yfirlýsing Magnúsar um að hann gerði ekki tilkall til lausafjár eða búfénaðar dánarbúsins.

Þann 28. nóvember 1967 var bókað eftir Magnúsi að hann færi fram á það við skiptaráðanda að birt yrði innköllun til kröfuhafa. Þann 14. mars 1968 var skiptamálið tekið fyrir og kemur þar fram að ekkjan hafði gert nokkra skriflega samninga um leigu á lóðum úr jörðinni.

Á skiptafundi 23. apríl 1968 kom fram krafa Margrétar Hjaltested um að hún fengi lausafé og búfé lagt sér út á því verði sem metið var í uppskriftargerð. Magnús Hjaltested gerði þá kröfu að honum yrði afhent umráð jarðarinnar eigi síðar en 14. maí 1968.

Skiptamálið var tekið fyrir 26. apríl 1968 og aftur 4. maí 1968 þar sem Magnús ítrekaði kröfu sína um afhendingu jarðarinnar. Þá var ennfremur bókuð krafa Margrétar um útlagningu á lausafé dánarbúsins. Því var ekki mótmælt af hálfu Magnúsar en krafa kom fram um yfirmat á eignum. Yfirmatsmenn voru skipaðir 7. maí 1968 til að virða lausafé búsins. Á þessum skiptafundi var jörðinni Vatnsenda úthlutað til Magnúsar Hjaltested með þeim orðum að honum væru afhent umráð og afnot fasteignarinnar Vatnsenda í Kópavogskaupstað.

Þann 27. maí 1968 áfrýjaði Margrét til Hæstaréttar útlagningu og afhendingargerð frá 7. maí 1968 og krafðist ómerkingar og heimvísunar.

Skiptamálið var því næst tekið fyrir 28. maí 1968 og þá lögð fram yfirmatsgerð. Ákveðið var að halda næsta skiptafund að Vatnsenda og var það gert 4. júní 1968. Var þá skrifað upp lausafé, sem Margrét mótmælti.

Þann 6. júní 1968 var skiptamálið tekið fyrir aftur og ítrekuð krafa Margrétar um að úttekt færi fram á jörðinni. Á skiptafundi 9. júlí 1968 gerði skiptaráðandi grein fyrir lýstum kröfum í dánarbúið. Bókað var að skiptaráðandi afhenti Magnúsi jörðina með húsum og mannvirkjum með ákvörðun réttarins þann 7. maí 1968. Á skiptafundi 30. ágúst 1968 gerði skiptaráðandi aftur grein fyrir lýstum kröfum í dánarbúið og skýrði frá bréfi sem borist hefði frá skattstofu Reykjanesumdæmis. Benti skiptaráðandi á að áætlaður skattur væri til stórtjóns fyrir dánarbúið og skoraði á aðila að gera grein fyrir tekjum búsins á árunum 1966 og 1967.

Fram kom krafa um útburð á Margréti og eignum hennar. Þann 4. júní 1968 var  skipaður setufógeti til að fara með útburðarmálið. Var kveðinn upp úrskurður 25. júní 1968 um að útburður skyldi fara fram og útburðarmálið var tekið fyrir á jörðinni þann 28. júní 1968 og lauk fyrirtökunni með sátt með þeim hætti að trygging var lögð fram til fógeta og gerðinni frestað til 2. september 1968. Málsmeðferð útburðarmálsins fyrir Hæstarétti var frestað að beiðni Margrétar m.a. vegna þess að hún hafði óskað eftir lögreglurannsókn vegna meintrar fölsunar erfðaskrárinnar en einnig vegna úttektar á endurbótum á jörðinni. Þann 2. september 1968 krafðist Margrét þess að setufógeti viki sæti vegna meintrar misbeitingar á valdi sínu og vanhæfni en þann dag rann frestur hennar út til að rýma jörðina. Setufógeti hafnaði kröfunni 16. september 1968 og var sá úrskurður staðfestur með dómi Hæstaréttar í máli nr. 53/1969. Þann 30. maí 1969 var með dómi Hæstaréttar í máli nr. 99/1968 staðfest úthlutunargerð skiptaréttar á jörðinni Vatnsenda til Magnúsar Hjaltested. Sama dag var staðfestur úrskurður fógetaréttar um útburð með dómi í málinu nr. 117/1968. Útburðarmálið var næst tekið fyrir 14. júlí 1969 og þá framangreindir dómar Hæstaréttar lagðir fram. Margrét mótmælti því að gerðin næði fram að ganga og óskaði eftir fresti, sem henni var synjað um. Margrét lagði þá fram yfirlýsingu um að hún lofaði að flytja skilyrðislaust af jörðinni fyrir hádegi mánudaginn 21. júlí 1969. Var fallist á það af hálfu Magnúsar og er talið að Margrét hafi flust af eigninni 29. júlí 1969. Margrét kærði samt framangreindan úrskurð fógetadóms Kópavogs frá 14. júlí 1969 en með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 171/1969 var kærunni vísað frá.

Þann 10. mars 2007 höfðuðu sóknaraðilar þessa máls, þeir Sigurður Kristján Hjaltested og Karl Lárus Hjaltested, mál á hendur Þorsteini Hjaltested, Vatnsenda, Kópavogi, þar sem þess var krafist að erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested frá 4. janúar 1938 yrði felld úr gildi og eignum samkvæmt erfðaskránni skipt eftir almennum skiptareglum erfðalaga. Máli þessu var vísað frá dómi 5. október 2007. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti 6. nóvember 2007 í máli nr. 560/2007, sagði m.a. að hin umdeilda erfðaskrá hefði þegar verið lögð til grundvallar við skipti á þremur dánarbúum. Andmælum gegn gildi hennar hefði verið hafnað við arftöku Magnúsar Hjaltested fyrir tæpum 40 árum. Þá hefðu engin andmæli komið fram gegn gildi erfðaskrárinnar við skipti á dánarbúi Magnúsar árið 2000. Samkvæmt 47. gr. erfðalaganna nr. 8/1962 skuli andmæli gegn gildi erfðaskrár berast jafnskjótt og tilefni verði til. Stefnendur hafi í engu leitast við að gera fyrir því grein að þrátt fyrir allt framangreint stæðu til þess heimildir að lögum að ógilda erfðaskrána með þeim réttarverkunum sem í kröfugerð þeirra fælust.

Í beiðni sóknaraðila kemur fram að sóknaraðilar hafi um nokkurn tíma reynt að afla upplýsinga um skipti á dánarbúi föður þeirra í því skyni að fá staðfestingu á því hvaða eignum var skipt og hvernig skiptin hafi farið fram. Þrátt fyrir eftirgangsmuni og fyrirspurnir hjá sýslumönnum í Kópavogi og Reykjavík og ennfremur á Þjóðskjalasafni hafi viðleitni þeirra ekki leitt til annarrar niðurstöðu en að dánarbúið hafi verið tekið til opinberra skipta en skiptum ekki verið lokið. Hafa sóknaraðilar lagt fram bréf sýslumanns í Kópavogi frá 29. maí 2008 þar sem segir m.a. að ekki hafi fundist bréf hjá embættinu eða gögn frá setuskiptaráðanda þar sem hann gerir grein fyrir skiptalokum. Rétt sé þó að taka fram að á þessum tíma hafi ekki verið haldin bréfabók í embættinu fyrir innkomin eða útfarin bréf. Því sé ekki unnt að fullyrða að gögn þessi hafi ekki borist. Þá sé ekki útilokað að setuskiptaráðandi hafi lokið skiptum án þess að senda embættinu gögn um það.

Þá hafa sóknaraðilar lagt fram bréf sýslumannsins í Reykjavík, dags. 30. nóvember 2007, þar sem segir að samkvæmt bókum sýslumannsins í Reykjavík sé dánarbú Sigurðar K. Hjaltested, sem lést 13. nóvember 1966, skráð eignalaust. Þá liggur ennfremur fyrir í málinu bréf sýslumannsins í Reykjavík, dags. 9. maí 2008, þar sem segir að samkvæmt bókum sýslumannsins í Reykjavík hafi dánarbúið verið skráð eignalaust þar sem prestur hafi tilkynnt andlát og ekkert hafi verið aðhafst af hálfu erfingja vegna skipta. Engin dagsetning sé skráð um hvenær dánarbúinu hafi verið lokið sem eignalausu samkvæmt 26. gr. skiptalaga.

III.

Sóknaraðilar staðhæfa að niðurstaða í Hæstaréttarmálinu 560/2007 sé bersýnilega byggð á röngum forsendum hvað varðar þá staðhæfingu að erfðaskráin hafi verið lögð til grundvallar við skipti á þremur dánarbúum.

Vatnsendajörðin sé fyrir löngu komin úr búrekstri og búið sé að skipuleggja hana undir íbúðarbyggð eins og landkostir frekast leyfa. Hafi Þorsteinn Hjaltested, barnabarn Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, þegar selt úr jörðinni lönd og spildur fyrir hundruð milljóna króna. Því sé fullt tilefni til að endurmeta og taka upp nefnda arfleiðsluskrá í ljósi þess að efni hennar hafi ekki verið framfylgt. Taka beri dánarbú Sigurðar Kristjáns til skipta og skipta eignum eftir almennum reglum. Samkvæmt erfðaskránni hafi Þorsteinn ekki mátt selja fasteignina né heldur veðsetja hana. Þessi fyrirmæli séu bindandi í erfðaskránni og telja sóknaraðilar að skipa þurfti skiptastjóra til að skipta búinu opinberum skiptum þar sem skiptum hafi aldrei lokið.

Þar sem ekkert bendi til þess að skipti hafi farið fram samkvæmt 4. eða 5. kafla eldri skiptalaga nr. 3/1978 telja sóknaraðilar að ætla verði að skipta hefði átt dánarbúi Sigurðar eftir 2. kafla laganna nr. 3/1978 um skipti á dánarbúum.

Sóknaraðilar taka sérstaklega fram að þeir hafi lögvarða hagsmuni af því að dánarbúið verði tekið til opinberra skipta, sbr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Formlegt skipti hafi ekki farið fram sbr. 4. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Máli sínu til stuðnings vísa sóknaraðilar ennfremur til 38. gr., sbr. 41. og 42. gr. laga nr. 20/1991.

IV.

Varnaraðilar benda á að þeir hafi lagt fram gögn um að opinber skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested hafi farið fram og ekki sé rétt að ætla annað en að þeim hafi verið lokið. Jörðinni Vatnsenda hafi verið úthlutað til Magnúsar á skiptafundi og úthlutunargerð staðfest með dómi Hæstaréttar. Skiptaráðandi hafi fundað í húsnæði borgarfógeta og ekki séð ástæðu til að vefengja skráningu um skiptalok, sbr. framlagt skjal þar að lútandi. Í áðurnefndu bréfi sýslumannsins í Kópavogi komi fram að ekki sé unnt að útiloka að setuskiptaráðandi hafi lokið skiptum án þess að senda embættinu bréf um það.

Með því að ekki hafi verið bókað um ábyrgð erfingja á skuldum búsins, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1978, virðist hafa verið farið með búið eftir 3. kapítula skiptalaganna. Innköllun til skuldheimtumanna hafi t.d. verið birt, sbr. 20. gr. laga nr. 3/1878. Engin lagaskylda hafi verið til þess að auglýsa skiptalok sérstaklega samkvæmt eldri skiptalögum nr. 3/1878.

Fyrir liggi að helstu eign búsins hafi verið úthlutað til Magnúsar Hjaltested og hafi sú úthlutunargerð verið staðfest með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 99/1968. Í bókun á skiptafundi hafi verið tekið fram hvernig farið skyldi með erfðafjárskatt og ábyrgð á greiðslu hans.

Lausafé dánarbúsins hafi verið skrifað upp og verðmetið og fyrir liggi að Margrét Hjaltested hafi gert kröfu um að fá lausafé búsins lagt sér út á matsviði. Ekki sé ástæða til annars en að ætla að svo hafi verið gert.

Þá telja varnaraðilar að þeir hafi sýnt fram á að dánarbúið hafi ekki átt fyrir skuldum þegar litið sé til þess að jörðin Vatnsendi hafi ekki staðið skuldheimtumönnum til reiðu. Verðmæti uppskrifaðra eigna hafi numið 306.125 krónum. Taka hafi þurft tillit til búshluta ekkjunnar að fjárhæð 153.063 krónur. Skattskuldir dánarbúsins hafi hins vegar numið 421.907 krónum og til viðbótar hafi komið aðrar lausaskuldir. Tekjur af lóðarleigu og veiðileyfasölu hafi runnið til Margrétar að mestu leyti þau ár sem hún hafi setið jörðina. Þá hafi ekki verið tekið tillit til útfararkostnaðar og annars kostnaðar vegna skiptanna. Setuskiptaráðandi hafi því lokið skiptum á búinu sem eignalausu skuldafrágöngubúi.

Varnaraðilar byggja á því að dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested hafi verið skipt eftir reglum 3. kafla laga nr. 3/1878, enda hafi opinber innköllun til kröfuhafa verið gefin út og erfingjar eigi gengist við skuldum. Að auki hafi nokkrir erfingjar verið ólögráða og hafi skiptaráðanda því borið að gæta hagsmuna þeirra, sbr. síðasti málsliður 16. gr. laga nr. 3/1878. Á því er byggt að jörðinni Vatnsenda hafi  með lögmætum hætti verið úthlutað til Magnúsar Hjaltested á skiptafundi 7. maí 1968, sem staðfest hafi verið með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 99/1968 frá 30. maí 1969. Varnaraðilar telja að með þessu hafi jörðinni endanlega verið úthlutað úr dánarbúi Sigurðar. Jörðin hafi komist í eigu Magnúsar með lögmætum hætti og geti þar af leiðandi ekki komið aftur til skipta. Í fyrirtökunni 7. maí 1968 hafi verið kveðið á um ábyrgð á greiðslu erfðafjárskatts og engin tilefni til að draga í efa að uppgjör hafi farið fram.

Á því er byggt af hálfu varnaraðila að leitt sé í ljós að Margrét Hjaltested hafi fengið í sinn hlut lausafé dánarbúsins. Vísa varnaraðilar til kröfu hennar um útlagningu lausafjárins sér til handa. Einnig vísa varnaraðilar til bókunar hennar og yfirlýsingar þar sem hún tvívegis vísar til lausafjár búsins sem sinnar eignar. Loks vísa varnaraðilar til þess að bifreið með skráningarnúmerið Y8 hafi orðið eign sonar Margrétar, Finns Gíslasonar.

Samkvæmt framansögðu telja varnaraðilar ótvírætt að erfingjaskipti hafi farið fram á árinu 1967-1969 að því er jörðina Vatnsenda varðar. Úthlutun jarðarinnar til Magnúsar, sem staðfest hafi verið með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 99/1968, hafi verið endanlegur skiptagerningur. Margrét Hjaltested hafi vikið af jörðinni í samræmi við sáttagerð í fógetarétti Kópavogs í lok júlí 1969.

Varnaraðilar byggja á því að eftir að Magnúsi Hjaltested hafi með dómi Hæstaréttar verið úthlutað jörðinni þá hafi honum ekki borið sérstök skylda til að gera reka að kröfu um frekari skiptalok hvað hann varðaði. Margréti Hjaltested hafi hins vegar verið í lófa lagið að stuðla að búskiptum og ýta á eftir þeim teldi hún eitthvað vanrækt þar um. Ekki liggi fyrir að það hafi verið gert og verður því að líta svo á að skiptalok hafi farið fram.

Á því er byggt af hálfu varnaraðila að sóknaraðilar verði að sýna fram á að eignir hafi ekki komið til skipta og að þær séu til staðar í dag. Varnaraðilar benda á að með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 560/2007 hafi ágreiningsmálið um erfðaskrána verið vísað frá dómi. Fráleitt sé að gera varnaraðilum að flytja ágreiningsmálið aftur þar sem áðurnefndur dómur hafi res judicata áhrif um sakarefnið. Engar nýjar málsástæður séu settar fram í skiptabeiðni sóknaraðila.

Þá mótmæla varnaraðilar fyrri málsástæðu sóknaraðila að niðurstaða Hæstaréttar í málinu nr. 560/2007 hvíli á röngum forsendum. Þannig sé óhrakin sú forsenda Hæstaréttar að erfðaskráin hafi verið lögð til grundvallar við skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested og sú forsenda Hæstaréttar að erfðaskráin hafi jafnframt verið lögð til grundvallar skiptum á dánarbúi Magnúsar Hjaltested.

Varnaraðilar telja að sóknaraðilar verði að bera hallann af tómlæti Margrétar Hjaltested að halda fram rétti sínum og síðar þeirra sjálfra við að gera reka að frekari skiptum á lausafé dánarbúsins, hafi þau í raun og veru talið að skiptum hafi ekki verið lokið hvað þennan þátt málsins varðar.

Varnaraðilar telja sig hafa leitt líkur að því að búið hafi ekki átt fyrir skuldum og að skiptum hafi verið lokið með vísan til 42. eða 43. gr. laga nr. 3/1878. Varnaraðilar telja að vegna þessa sé ekki unnt að taka bú Sigurðar aftur til opinberra skipta líkt og hin fyrri skipti hafi aldrei farið fram. Varnaraðilar telja að þeim verði ekki gert að bera hallann af því að öll gögn skiptamálsins finnist ekki nú þegar sóknaraðilum þóknist, meira en 40 árum eftir andlát Sigurðar, að krefjast aftur opinberra skipta.

Á því er ennfremur byggt að skilyrðum 84. gr., sbr. 82. og 83. gr., laga nr. 20/1991 fyrir endurupptöku skipta sé ekki fullnægt. Auk þess standi 84. gr. laga nr. 20/1991 í vegi fyrir kröfu sóknaraðila.

Varnaraðilar vilja í lokin hnykkja á því að skiptameðferð eftir lögum nr. 3/1878 hafi verið dómsathöfn og ákvarðanir skiptaráðanda bindandi sem slíkar. Ákvörðun um skiptalok hafi verið færð til bókar hjá sýslumanninum í Reykjavík, sbr. framlögð gögn.

Varnaraðilar vísa til laga nr. 3/1878, aðallega 16., 18., 19., 20., 21., 23., 32., 35.,37., 42., 43., 44. og 49. gr. Þá vísa varnaraðilar til reglna réttarfars um tómlæti og tómlætisáhrif, til ákvæða 84. gr., sbr. 82. gr. og 83. gr. og til 155. gr. laga nr. 20/1991. Vísað er til 47. gr. laga nr. 8/1962, til res judicata réttaráhrifa dóma Hæstaréttar í máli nr. 110/1967, nr. 99/1968 og nr. 560/2007. Þá er ennfremur vísað til annarra dómsathafna sem gengið hafa í málinu og til fordæmis í máli Hæstaréttar nr. 261/1981.

V.

                Sóknaraðilar krefjast þess að búi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, sem lést 13. nóvember 1966, verði skipt. Af hálfu varnaraðila er kröfunni mótmælt og því haldið fram að dánarbúinu hafi þegar verið skipt. Hér að framan er rakið hvernig skipti hófust á dánar- og félagsbúi Sigurðar með bókun í skiptarétti Kópavogs þann 25. febrúar 1967 en þá var óskað eftir uppskrift og skiptum. Setuskiptaráðandi var skipaður og fór fram uppskrift á lausafjármunum og þeir virtir. Sérstakt ágreiningsmál var rekið um gildi erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested frá 4. janúar 1938 og gekk dómur í skiptarétti um þann ágreining 24. júlí 1967. Fallist var á rétt Magnúsar Hjaltested, sonar Sigurðar, til jarðarinnar á grundvelli erfðaskrárinnar og sú niðurstaða staðfest með dómi Hæstaréttar 5. júlí 1968 í máli nr. 110/1967. Fyrir liggur samkvæmt gögnum málsins að Magnús Hjaltested gerði aldrei tilkall til lausafjár eða búfénaðar dánarbúsins. Innköllun fór fram og á skiptafundi 9. júlí 1968 gerði skiptaráðandi grein fyrir lýstum kröfum.  Á sama skiptafundi var bókað að Magnúsi væri afhent jörðin og með dómi Hæstaréttar 30. maí 1969 var staðfest úthlutunargerð skiptaréttar á jörðinni og sama dag var staðfestur úrskurður fógetaréttar um útburð af jörðinni. Margrét Hjaltested flutti af eigninni 29. júlí 1969. Sóknaraðilar Sigurður Kristján Hjaltested og Karl Lárus Hjaltested höfðuðu mál á hendur Þorsteini Hjaltested, syni Magnúsar Hjaltested, þar sem þess var krafist að umrædd erfðaskrá yrði úr gildi felld og eignum skipt samkvæmt almennum skiptareglum erfðalaga. Málinu var hins vegar vísað frá 5. október 2007 og sá úrskurður staðfestur í Hæstarétti 6. nóvember 2007.

                Málatilbúnaður sóknaraðila verður ekki skilinn á annan hátt en að nú sé þess freistað að ná fram opinberum skiptum í þeim tilgangi að fá erfðaskrána ógilta og skipta jörðinni upp að nýju milli erfingja. Málsástæður sóknaraðila hvíla því á sama grunni og í síðast greindu dómsmáli, sbr. dóm Hæstaréttar frá 6. nóvember 2007, en þá var þessum málsástæðum hafnað með frávísun þar sem krafan var talin allt of seint fram komin, sbr. 47. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Skilja má greinargerð sóknaraðila svo að þeir telji sér þetta heimilt þar sem niðurstaða Hæstaréttar í frávísunarmálinu hafi byggst á röngum forsendum.

                Í þessu máli er það eitt til úrlausnar hvort taka eigi búið til opinberra skipta á ný þar sem skiptum hafi ekki verið lokið með lögformlegum hætti. Krafa sóknaraðila byggist ekki á því að einhverjum eignum hafi verið haldið utan skipta og þess vegna beri að taka skipti upp að nýju. Óumdeilt er að Magnús Hjaltested fékk jörðina út úr skiptunum og Margrét Hjaltested allt lausafé og búfénað. Hér að framan er það rakið að skipti hófust og var þeim framhaldið. Mörg ágreiningsmál komu upp sem úrskurðað var í, þ. á m. um gildi erfðaskrárinnar. Með dómi Hæstaréttar 30. maí 1969 var jörðinni endanlega úthlutað úr dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Jörðin komst í eigu Magnúsar Hjaltested með lögmætum hætti og getur þar af leiðandi ekki komið aftur til skipta. Litið verður svo á að þar sem ekki var bókað í skiptarétti um ábyrgð erfingja á skuldum búsins, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 31/1878, hafi verið farið með búið eftir 3. kapítula laganna, enda fór innköllun fram. Fallist er á með varnaraðilum að líklegt sé að skiptum hafi lokið eftir 42. gr. eða 43. gr. laga nr. 3/1878 en ekki var lagaskylda að auglýsa skiptalok sérstaklega.

                Samkvæmt öllu framansögðu verður talið að eignaskipti hafi farið fram á dánar- og félagsbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested á árunum 1967 og 1968. Geta þau rök, sem sóknaraðilar færa fram fyrir kröfum sínum um algjörlega nýja skiptameðferð, ekki leitt til þess að unnt sé að líta þannig á að engin skipti hafi farið fram á búinu. Kröfur sóknaraðila verða því ekki teknar til greina.

                Eftir þessari niðurstöðu verða sóknaraðilar úrskurðaðir til að greiða varnaraðilum málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 1.200.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, en ljóst er að töluverð vinna hefur hvílt á lögmanni varnaraðila við gagnasöfnun í málinu og ritun greinargerðar.

                Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

                Hafnað er kröfu sóknaraðila, Sigurðar Kristjáns Hjaltested, Karls Lárusar Hjaltested og Sigríðar Hjaltested, um að dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, sem lést 13. nóvember 1966, verði tekið til opinberra skipta.

                Sóknaraðilar greiði in solidum varnaraðilum, Kristrúnu Ólöfu Jónsdóttur, Þorsteini Hjaltested, Vilborgu Hjaltested, Marteini Hjaltested og Sigurði K. Hjaltested, 1.200.000  krónur í málskostnað.