Hæstiréttur íslands
Mál nr. 141/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Ógilding
- Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi
- Fjárnám
- Ábyrgð
|
|
Þriðjudaginn 17. apríl 2012. |
|
Nr. 141/2012. |
Íslandsbanki hf. (Stefán BJ. Gunnlaugsson hrl.) gegn Sigurbirni
Jóhannesi Björnssyni (Björgvin Jónsson hrl.) |
Kærumál. Fjárnám. Ábyrgð. Ógilding. Úrskurður héraðsdóms felldur úr
gildi.
Að beiðni Í hf. var aðför gerð í tveimur fasteignum S,
á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar sem hinn síðarnefndi hafði gengist í við
lántöku. S höfðaði mál gegn Í hf. til ógildingar aðfarargerðarinnar með vísan
til þess að forveri Í hf. hefði ekki fullnægt skyldum sínum samkvæmt
samkomulagi samtaka banka og verðbréfafyrirtækja um notkun ábyrgða á skuldum
einstaklinga við lántökuna, þar sem greiðslugeta aðalskuldara hefði ekki verið
metin. Hæstiréttur taldi að forveri Í hf. hefði fullnægt skyldum sínum samkvæmt
samkomulaginu og hafnaði því að ógilda aðfarargerðina.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. febrúar 2012 sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 2. mars sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 15. febrúar 2012, þar sem ógilt var aðfarargerð sýslumannsins í Hafnarfirði 17. október 2011 nr. 036-2011-03239. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess aðallega að staðfest verði áðurgreind aðfarargerð sýslumannsins í Hafnarfirði. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði var gert fjárnám í tveimur fasteignum varnaraðila á grundvelli skuldabréfs að fjárhæð 1.290.000 krónur, sem gefið var út 29. maí 2006 af Skarphéðni Orra Björnssyni, bróður varnaraðila, til Sparisjóðs Hafnarfjarðar. Varnaraðili tókst á hendur sjálfskuldarábyrgð á skuldinni samkvæmt bréfinu með nafnritun sinni. Er óumdeilt í málinu að andvirði bréfsins var varið til kaupa á lóð að Seljuskógum 18, Akranesi, en Skarphéðinn Orri mun hafa ætlað að reisa þar hús og selja að því loknu. Afborganir af skuldabréfinu voru mánaðarlegar, í fyrsta sinn 1. júní 2008. Bréfið fór í vanskil 1. október 2009 og var bú Skarphéðins Orra tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 8. október 2009. Skiptum lauk 28. desember 2009 og fundust engar eignir í búinu. Sparisjóður Hafnarfjarðar mun hafa sameinast Byr hf., og þá hafa hinn síðarnefndi og sóknaraðili runnið saman undir heiti sóknaraðila samkvæmt 106. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Fyrir Hæstarétt hafa verið lagðar útskriftir með skjámyndum úr tölvu sóknaraðila sem hann kveður sýna að Skarphéðinn Orri hafi staðist greiðslumat á árinu 2006.
II
Svo sem nánar greinir í hinum kærða úrskurði reisir varnaraðili kröfu sína um ógildingu framangreinds fjárnáms á því að sóknaraðili hafi ekki metið greiðslugetu aðalskuldarans Skarphéðins Orra samkvæmt skuldabréfinu eftir þeim aðferðum sem greinir í samkomulagi 1. nóvember 2001 um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga sem að stóðu Samtök banka og verðbréfafyrirtækja f.h. aðildarfélaga sinna, Samband íslenskra sparisjóða f.h. sparisjóða, Neytendasamtökin og viðskiptaráðherra af hálfu stjórnvalda. Tiltekur hann sérstaklega að hann hafi aldrei séð greiðslumatið sjálft heldur einungis framangreint skjal um niðurstöðu matsins.
Í veðskuldabréfi því, sem um ræðir í málinu, segir að gera megi aðför til fullnustu skuldarinnar án undangengis dóms eða réttarsáttar hjá skuldara og sjálfskuldarábyrgðarmönnum samkvæmt 7. tölulið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989. Samkvæmt dómi Hæstaréttar 31. mars 2000 í máli nr. 87/2000 verður ákvæðum XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ekki beitt þegar leitað er fullnustu án undangenginnar málsóknar á kröfu samkvæmt skuldabréfi með fjárnámi í skjóli fyrrgreindrar lagaheimildar. Sæta varnir, sem varnaraðila er heimilt að hafa uppi gegn kröfu sóknaraðila, því ekki takmörkunum samkvæmt 118. gr. laga nr. 91/1991. Af þeim sökum verður sóknaraðili að sæta því að varnaraðili fá að koma að í málinu mótbárum þeim sem hann hefur teflt fram.
III
Í málinu liggur fyrir skjal með yfirskriftinni „Niðurstaða greiðslumats“ þar sem segir að undirritaður ábyrgðarmaður „óski eftir að gangast í ábyrgð (sjálfskuldarábyrgð) eða veita veð í fasteign“ sinni fyrir lántakanda. Síðan er nafn Skarphéðins Orra ritað í tilgreindan reit fyrir lántakanda og merkt í sérstakan reit að „tegund láns“ sé skuldabréf. Þá segir undir liðnum greiðslumat: „Samkvæmt samkomulagi banka og sparisjóða, Félagsmálaráðuneytisins og Neytendasamtakanna um ábyrgðir á skuldum einstaklinga, eða vegna eigin ákvörðunar hefur sparisjóðurinn metið getu ofangreinds lántakanda til að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Greiðslumatið byggir á gögnum sem sparisjóðurinn hefur aflað sér eða lántakandi hefur látið í té. Niðurstaða greiðslumats er byggð á upplýsingum um framfærslukostnað og önnur föst útgjöld, meðaltekjur heimilisins og greiðslubyrði lána. Framfærslukostnaður og önnur föst útgjöld miðast að lágmarki við fjárhæðir sem gefnar eru út af Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Sparisjóðurinn ber ekki ábyrgð á greiðslumatinu ef lántakandi hefur veitt rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um fjárhag sinn. Jákvæð niðurstaða greiðslumats felur ekki í sér tryggingu fyrir því að skuldari efni skyldur sínar.“ Síðan segir: „Niðurstaða greiðslumats bendir til þess að lántakandi geti efnt skuldbindingar sínar miðað við núverandi fjárhagsstöðu.“ Þá segir: „Útdráttur úr 3. mgr. 4. gr. samkomulags um notkun ábyrgða. Tryggt skal að ábyrgðarmaður geti kynnt sér niðurstöðu greiðslumats áður en hann gengst í ábyrgðina, enda liggi fyrir að greiðandi hafi samþykkt það. Ef niðurstaða greiðslumats bendir til að greiðandi geti ekki efnt skuldbindingar sínar en ábyrgðarmaður óskar eftir að lán verði veitt engu að síður, skal hann staðfesta það skriflega.“ Loks segir undir liðnum yfirlýsing og undirskriftir að sjálfskuldarábyrgðarmaður staðfesti með undirskrift sinni að hann hafi fengið bækling um sjálfskuldarábyrgðir og lánsveð. Undir þetta skjal ritaði varnaraðili 29. maí 2006, sama dag og hann tókst ábyrgðina á hendur.
IV
Í framangreindu samkomulagi um notkun ábyrgða og skuldbindinga er ekki kveðið á um skyldu lánveitanda til að kynna ábyrgðarmanni í öllum tilvikum gögn til grundvallar niðurstöðu greiðslumats. Á hinn bóginn var varnaraðila með fyrrgreindu skjali um niðurstöðu greiðslumats bent á þann möguleika að kynna sér niðurstöðu þess að fengnu samþykki aðalskuldara. Í málinu liggur fyrir að sóknaraðili hafði látið fara fram mat á greiðslugetu aðalskuldara, að virtum tilgreindum gögnum, áður en hinn fyrrnefndi tók ákvörðun um lánveitinguna til aðalskuldarans Sigurbjörns Orra Björnssonar. Var varnaraðila með skjalinu kynnt „jákvæð niðurstaða“ greiðslumats, jafnframt því sem sem tilgreint var að slík niðurstaða fæli ekki í sér tryggingu fyrir því að aðalskuldari gæti efnt skyldur sínar. Verður ekki fallist á með varnaraðila að á sóknaraðila hafi hvílt sú skylda að geyma undirgögn til stuðnings matinu svo þau mættu vera aðgengileg varnaraðila rúmum fimm árum síðar. Þá ber skjalið með sér að varnaraðila var einnig afhentur bæklingur um þýðingu þess að gangast undir sjálfskuldarábyrgð og undirritaði hann yfirlýsingu þess efnis að hafa „fengið og kynnt sér bækling um sjálfskuldarábyrgðir og lánsveð.“ Samkvæmt þessu fullnægði sóknaraðili skyldum sínum samkvæmt samkomulaginu frá 1. nóvember 2001 og verður hvorki fallist á með varnaraðila að ógilda beri umþrætt fjárnám á grundvelli 33. gr. eða 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga né samkvæmt óskráðum reglum kröfuréttar um forsendubrest. Verður því hafnað kröfu varnaraðila um ógildingu umræddrar aðfarargerðar.
Rétt er að hvor aðila beri sinn kostnað af rekstri málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu varnaraðila, Sigurbjörns Jóhannesar Björnssonar, um ógildingu aðfarargerðar sýslumannsins í Hafnarfirði númer 036-2011-03239, sem fram fór 17. október 2011 að kröfu BYR hf. í tveimur fasteignum varnaraðila að Hverfisgötu 35, íbúð 01-0101, Hafnarfirði, með fasteignanúmer 224-1251 og Skólabraut 1, íbúð 01-0101, Hafnarfirði, með fasteignanúmer 207-8790.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 15. febrúar 2012.
Mál þetta var þingfest 6.
desember 2011 og tekið til úrskurðar 19. janúar sl.
Sóknaraðili er Sigurbjörn
Jóhannes Björnsson, Hjallabraut 39, Hafnarfirði. Varnaraðili er Íslandsbanki
hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík (áður BYR hf.).
Sóknaraðili krefst þess
að ógilt verði aðfarargerð Sýslumannsins í Hafnarfirði númer 036-2011-03239,
sem fram fór hinn 17. október 2011 að kröfu BYR hf. í tveimur fasteignum
sóknaraðila, að Hverfisgötu 35, íbúð 01-0101, Hafnarfirði, með fasteignanúmer
224-1251 og Skólabraut 1, íbúð 01-0101, Hafnarfirði, með fasteignanúmer
207-8790.
Varnaraðili krefst þess
að staðfest verði aðfarargerð Sýslumannsins í Hafnarfirði í aðfararmálinu númer
036-2011-03239, sem fram fór hinn 17. október 2011 í fasteignum sóknaraðila að
Hverfisgötu 35, Hafnarfirði, með fasteignanúmer 224-1251 og Skólabraut 1,
Hafnarfirði, með fasteignanúmer 207-8790.
Við þingfestingu málins
lagði sóknaraðila fram tilkynningu, dagsetta 28. nóvember 2011, með kröfu um
ógildingu framangreinds fjárnáms. Sóknaraðili skilaði ekki sérstakri
greinargerð í málinu, en vísaði til tilkynningar sinnar og fylgigagna.
Varnaraðili óskaði eftir fresti til að skila greinargerð í málinu. Þegar málið
var tekið fyrir 21. desember sl. lagði varnaraðili fram greinargerð sína og
óskaði eftir því að bókað yrði að BYR hf. hefði sameinast Íslandsbanka hf. með
samruna sem tekið hafi gildi 29. nóvember 2011. Samkvæmt því tæki Íslandsbanki
hf. við aðild varnaraðila í máli þessu. Að svo búnu var gagnaöflun lýst lokið
og málinu frestað til munnlegs málflutnings sem fram fór 19. janúar 2012.
I
Sóknaraðili kveður helstu
málsatvik þau að 29. maí 2006 hafi hann tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á
láni sem bróðir hans, Skarphéðinn Orri Björnsson, hafi fengið hjá Sparisjóði
Hafnarfjarðar með skuldabréfi nr. 1101-74-67516, upphaflega að fjárhæð
1.290.000 krónur. Skarphéðni Orra hafi verið veitt lánið til kaupa á lóðinni að
Seljuskógum 18, Akranesi. Skuldabréfið hafi verið til sjö ára, með fyrsta
gjalddaga 1. júní 2008, þ.e. tveimur árum eftir útgáfu þess. Hafi aðfararbeiðni
BYR hf., varðandi það fjárnám sem krafist sé ógildingar á, stuðst við
skuldabréfið. Sjálfskuldarábyrgð sóknaraðila á láninu sé sú fyrsta af þremur
sem hann hafi tekist á hendur fyrir Skarphéðinn Orra við varnaraðila og forvera
hans í tengslum við lán sem veitt hafi verið Skarphéðni Orra vegna
byggingarframkvæmda við einbýlishúsið að Seljuskógum 18, Akranesi. Húsið hafi
Skarphéðinn Orri áformað að selja að lokinni byggingu þess. Hinar tvær sjálfskuldarábyrgðirnar
hafi verið vegna yfirdráttarheimildar á tékkareikningi, allt að fjárhæð
5.000.000 króna, sem hafi verið gefin út 29. nóvember 2006 og síðan til
hækkunar um 2.000.000 króna, sbr. ábyrgð sem hafi verið gefin út 7. mars 2007.
Auk sóknaraðila hafi amma þeirra bræðra, sem hafi verið á níræðisaldri, einnig
gengist í sjálfskuldarábyrgð í þeim tilvikum. Í öllum tilvikum hafi sóknaraðila
verið kynnt skjöl frá varnaraðila sem beri yfirskriftina ,,Niðurstaða
greiðslumats” og hafi hann undirritað þau. Engar tölulegar útlistanir um
greiðslugetu séu í þessu skjali, en í niðurstöðudálki segi í öllum tilvikum:
,,Niðurstaða greiðslumats bendir til þess að lántakandi geti efnt
skuldbindingar sínar miðað við núverandi fjárhagsstöðu.”
Samkvæmt aðfararbeiðni
frá BYR hf. sé ofangreint skuldabréf í vanskilum frá gjalddaga 1. október 2009.
Sóknaraðili kveður Skarphéðinn Orra hafa verið úrskurðaðan gjaldþrota í
Héraðsdómi Reykjaness 8. október 2009. Samkvæmt auglýsingu skiptastjóra
þrotabúsins í Lögbirtingablaði hafi skiptum verið lokið 28. desember 2009,
þannig að engar eignir hafi fundist í búinu, en lýstar kröfur hafi numið alls
41.616.570 krónum.
Þá kveðst sóknaraðili af
ofangreindum ástæðum hafa óskað eftir upplýsingum og gögnum yfir þá útreikninga
sem legið hafi til grundvallar niðurstöðum í greiðslumati bankans vegna
ábyrgðarskuldbindinganna þriggja. Engin svör hafi borist frá BYR hf. önnur en
munnleg um að hann telji sér ekki skylt að geyma greiðslumöt.
Um málsatvik vísar
varnaraðili til þess að sóknaraðili hafi gengist í ábyrgð fyrir bróður sinn
eins og lýst sé í kröfu sóknaraðila. Lánsformið hafi verið skuldabréf númer
1101-74-67516 að fjárhæð 1.290.000 krónur. Í gildi hafi verið samkomulag banka,
sparisjóða, verðbréfafyrirtækja, Neytendastofu og viðskiptaráðherra um notkun
ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001. Varnaraðili hafi látið
greiðslumeta Skarphéðinn Orra vegna láns sem sóknaraðili hafi gengist í ábyrgð
fyrir. Sóknaraðila hafi verið tilkynnt um það mat og hafi hann staðfest matið
með undirritun sinni.
II
Um kröfur sínar vísar
sóknaraðili til þess að samkvæmt samkomulagi banka, sparisjóða,
verðbréfafyrirtækja, Neytendastofu og viðskiptaráðherra um notkun ábyrgða á
skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001, beri að framkvæma mat á greiðslugetu
einstaklings sem lántaka, sé ábyrgðarskuldbinding hærri en 1.000.000 krónur,
eftir þeim aðferðum sem greini í samkomulaginu. Varnaraðili hafi ekki sýnt fram
á að hann hafi metið greiðslugetu Skarphéðins Orra í samræmi við reglur
samkomulagsins, þegar stofnað hafi verið til ábyrgðarskuldbindingar
sóknaraðila. Sóknaraðili telji vafasamt
að reglum samkomulagsins hafi verið fylgt við ofangreint greiðslumat, miðað við
það sem honum hafi síðar verið tjáð um fjárhagsstöðu Skarphéðins Orra á þessum
tíma.
Krafa sóknaraðila um
ógildingu aðfarargerðarinnar sé á því byggð að umrædd ábyrgðarskuldbinding hans
samkvæmt skuldabréfi nr. 1101-74-67516, sé ógild og því eigi varnaraðili ekki
þann rétt sem skuldabréfið beri með sér. Sóknaraðili byggir á því að ekki liggi
fyrir að mat hafi farið fram á greiðslugetu aðalskuldara eftir þeim aðferðum
sem greini í samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1.
nóvember 2001, í tengslum við undirritun sjálfskuldarábyrgðar sóknaraðila, en
BYR hf. hafi verið skylt að framkvæma slíkt mat samkvæmt ákvæðum
samkomulagsins, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli númer 163/2005 og dóm
Héraðsdóms Vestfjarða frá 4. apríl 2011 í máli númer E-113/2010. Að varnaraðila
hafi verið skylt að framkvæma greiðslumat sé væntanlega óumdeilt þegar litið sé
til þess varnaraðili hafi látið sóknaraðila undirrita skjal sem beri
yfirskriftina ,,Niðurstaða greiðslumats,” þar sem þær reikniforsendur, lágmörk
o.fl., sem greiðslumat skuli byggt á séu tíundaðar.
Sóknaraðili kveðst byggja
á því að þar sem bönkum og sparisjóðum beri að meta greiðslugetu aðalskuldara
fjárhagslegrar skuldbindingar samkvæmt ,,samkomulagi um notkun ábyrgða á
skuldum einstaklinga” frá 1. nóvember 2001, sé sjálfskuldarábyrgð sett til
tryggingar henni og fylgja aðferðum sem mælt sé fyrir um í 2. mgr. 3. gr.
samkomulagsins, þurfi bankar og sparisjóðir að geta sýnt fram á að réttum
aðferðum samkvæmt 2. mgr. 3. gr. samkomulagsins hafi verið fylgt, ef ætlun
verði síðar að ganga að ábyrgðarmanni. Af því leiði og að bönkum og sparisjóðum
sé nauðsynlegt að varðveita gögn sem notuð hafi verið við gerð mats á
greiðslugetu, svo að tiltækar séu upplýsingar um hvernig niðurstaða þess hafi
verið fengin. Gagnstæð túlkun myndi ennfremur leiða til þess að engin trygging
væri fyrir því að greiðslumat hafi verið unnið af bankanum með faglegum hætti.
Þannig gæti lánveitandi þá til dæmis fullnægt 3. gr. samkomulagsins með því
einu að haka við á ,,niðurstöðublaðið” að niðurstaða greiðslumats bendi til að
aðalskuldari geti staðið við skuldbindingar sínar, án þess að nokkrir
útreikningar hafi í raun farið fram varðandi greiðslugetu aðalskuldara eða þó
niðurstaðan hafi verið fengin með allsendis röngum útreikningi. Að sjálfsögðu
skipti það meginmáli fyrir þann sem íhugi að gangast í sjálfskuldarábyrgð að
hann geti treyst því að greiðslumat sé réttilega unnið. Sóknaraðili fullyrði að
hann myndi ekki hafa gengist í umrædda sjálfskuldarábyrgð, ef mat á
greiðslugetu Skarphéðins Orra hefði bent til þess að Skarphéðinn Orri gæti ekki
efnt skuldbindingar sínar. Sóknaraðila hafi aldrei verið sýndir neinir
útreikningar eða gögn varðandi mat bankans á greiðslugetu Skarphéðins Orra,
heldur einungis umrætt niðurstöðublað greiðslumats. Um þetta hafi hann treyst á
útreikninga bankans. Vísað sé til þess að samkvæmt dómaframkvæmd séu gerðar
strangar kröfur um að allt vinnulag sé vandað og faglegt þegar um banka eða
fjármálastofnanir sé að ræða. Sóknaraðili taki fram að hann hafi einskis notið
af umræddum lánveitingum.
Um lagastoð fyrir kröfum
sínum vísar sóknaraðili til 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda
löggerninga nr. 7/1936. Sóknaraðili telji að með vísan til 36. gr. laga nr.
7/1936, beri að víkja til hliðar umræddri sjálfskuldarábyrgð sem sóknaraðili
undirgekkst samkvæmt skuldabréfi nr. 1101-74-67516 útgefnu 29. maí 2006, sbr.
til dæmis dóm Hæstaréttar Íslands númer 163/2005. Af því leiði að varnaraðili
eigi ekki þann rétt á hendur sóknaraðila sem skuldabréfið beri með sér og því
beri að taka til greina kröfu sóknaraðila um ógildingu á umræddri aðfarargerð
sem fram hafi farið hjá sóknaraðila að kröfu varnaraðila þann 17. október 2011.
Ennfremur kveðst
sóknaraðili vísa til réttarreglna um brostnar forsendur þar sem ljóst sé að mat
á greiðslugetu aðalskuldara hafi haft afgerandi áhrif um þá afstöðu sóknaraðila
að samþykkja að gangast í sjálfskuldarábyrgð á umræddri fjárskuldbindingu.
Sóknaraðili byggi á því að sönnunarbyrði um að faglega og réttilega hafi verið
staðið að gerð greiðslumats aðalskuldara hvíli á varnaraðila, enda sé það honum
í lófa lagið að varðveita sönnun um það. Ljóst megi vera að reglur
samkomulagsins missi marks ef bankinn þurfi ekki að varðveita forsendur
matsins, enda sé þá engin vissa fyrir því að greiðslumatið hafi verið faglega
unnið, eða jafnvel að nokkrir útreikningar standi að baki niðurstöðunni. Það
hljóti því að vera á áhættu varnaraðila og að hann hafi sönnunarbyrði fyrir því
að réttilega hafi verið staðið að mati á greiðslugetu skuldara, og beri
sönnunarhallann ef að undirliggjandi gögn að niðurstöðu matsins séu ekki tiltæk
vegna ákvörðunar bankans um að geyma þau ekki.
Um lagarök vísar
sóknaraðili til ákvæða laga um aðför nr. 90/1989, til meginreglna kröfu- og
samningaréttar um ógilda samninga, forsendubrest og vanefndir, sem og um
gagnkvæma tillitsemi. Þá vísar sóknaraðili sérstaklega til laga nr. 7/1936 um
samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga með áorðnum breytingum, einkum 36. og
33. gr. laganna. Þá sé einnig byggt á samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum
einstaklinga sem Samtök banka og verðbréfafyrirtækja fyrir hönd aðildarfélaga sinna,
Samband íslenskra sparisjóða fyrir hönd sparisjóða, Neytendasamtökin og
viðskiptaráðherra af hálfu stjórnvalda hafi gert sín á milli og tekið gildi 1.
nóvember 2001. Vísað sé til dóms Hæstaréttar Íslands í máli númer 163/2005 og
dóms Héraðsdóms Vestfjarða frá 4. apríl 2011 í máli númer E-113/2010. Varðandi kröfu um málskostnað vísast til 129.
gr. og 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og varðandi kröfu
um virðisaukaskatt á málskostnaðarfjárhæð vísast til laga um virðisaukaskatt
nr. 50/1988 ásamt síðari breytingum.
III
Varnaraðili kveðst
mótmæla málatilbúnaði og málsástæðum sóknaraðila og byggja kröfu sínar um
staðfestingu aðfarargerðarinnar á eftirfarandi rökum:
Í fyrsta lagi séu ákvæði
í skuldabréfinu sem aðfarargerðin sé byggð á sem takmarki þær varnir sem komist
að í málinu. Varnir séu takmarkaðar við XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð
einkamála, sbr. 5. tölulið skuldabréfsins, en varnaraðili telji að þær varnir
sem sóknaraðili hafi uppi í málinu komist ekki að með vísan til XVII. kafla
laga nr. 91/1991. Með vísan til þess telji varnaraðili að staðfesta beri
aðfarargerð sýslumannsins frá 17. október sl.
Í öðru lagi telji
varnaraðili að fullnægt hafi verið skilyrðum sem samkomulag banka og sparisjóða
leggi á lánastofnanir um greiðslumat. Greiðslumat hafi verið framkvæmt og hafi
sóknaraðili staðfest það með undirritun sinni og hafi getað kynnt sér það og
þau gögn sem hafi legið fyrir þegar það hafi verið framkvæmt. Varnaraðila beri
ekki lagaskylda til að geyma gögn sem varði framkvæmd greiðslumats og
samkomulagið leggi ekki þá skyldu á lánastofnanir. Geti lánastofnanir ekki
geymt öll slík gögn. Framkvæmdur sé fjöldinn allur af greiðslumötum og séu þau
ekki geymd. Með vísan til þess telji varnaraðili að staðfesta beri aðfarargerð sýslumannsins
frá 17. október sl.
Í þriðja lagi byggi
varnaraðili á því að sóknaraðili hafi glatað rétti sínum sökum tómlætis.
Varnaraðili telji að sóknaraðili hafi haft nægan tíma til að skjóta máli þessu
til dómstóla en skuldabréfið hafi verið í vanskilum frá 1. október 2009. Þá
hafi hann einnig getað skotið málinu til úrskurðarnefndar um fjármálafyrirtæki,
en það hafi hann ekki gert. Því telji varnaraðili að sóknaraðila hafi glatað
rétti sínum, hafi hann þá einhvern tímann haft rétt til að krefjast ógildingar
á grundvelli greiðslumats.
Þá kveðst varnaraðili
telja tilvísanir sóknaraðila til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð
og ógildalöggerninga ekki eiga við í málinu og tilvísanir til dóma ekki heldur.
Varnaraðili kveður dómkröfur sínar byggja á ákvæðum laga nr. 90/1989 um aðför,
á ákvæðum laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sérstaklega 17. kafla laganna.
Þá kveður varnaraðili kröfu um málskostnað styðjast við 1. mgr. 130. gr. laga
nr. 91/1991.
IV
Þegar sóknaraðili gekkst í
ofangreinda sjálfskuldarábyrgð var í gildi samkomulag það sem að framan greinir
um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Ákvæði 3. mgr. 4. gr. samkomulagsins
var ritað á skjal það sem sóknaraðili undirritaði, en í ákvæðinu segir: „Tryggt
skal að ábyrgðarmaður geti kynnt sér niðurstöðu greiðslumats áður en hann
gengst í ábyrgðina, enda liggi fyrir að greiðandi hafi samþykkt það. Ef
niðurstaða greiðslumats bendir til að greiðandi geti ekki efnt skuldbindingar
sínar en ábyrgðarmaður óskar eftir því að lán verði veitt engu að síður, skal
hann staðfesta það skriflega.“
Varnaraðili byggir á því að ákvæði
skuldabréfsins og XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála takmarki
þær varnir sem unnt sé að hafa uppi gegn skyldum samkvæmt skuldabréfinu. Í 5.
tölulið staðlaðs texta bréfsins segir: „Rísi mál út af skuld þessari má reka
það fyrir Héraðsdómi Reykjaness samkvæmt reglum 17. kafla laga nr. 91/1991 um
meðferð einkamála.“ Er því ljóst að ákvæði skuldabréfsins veitir val um fyrir
hvaða dómstól og eftir hvaða málsmeðferðarreglum slík mál verða rekin. Hins
vegar er hvorki kveðið á um skyldu til að reka málið fyrir tilteknum dómstól eða
samkvæmt tilteknum málsmeðferðarreglum. Eftir stefndur því að sóknaraðili í
málinu getur hagað málsókn sinni á grundvelli almennra reglna um meðferð
einkamála og er ekki bundinn af því að reka málið samkvæmt XVII. kafla nr.
91/1991 um meðferð einkamála. Auk þess verður ekki séð að sóknaraðili hafi
hagað málatilbúnaði sínum í andstöðu við ákvæði tilvitnaðs kafla laga nr.
91/1991.
Sóknaraðili byggir á því að
varnaraðili hafi ekki sýnt fram á að greiðslugeta bróður sóknaraðila hafi verið
metin eftir þeim aðferðum sem greinir í framangreindu samkomulagi. Hefur
sóknaraðili vísað til dómafordæma því til stuðnings að þegar greiðslumat hafi
ekki farið fram, beri að víkja sjálfskuldarábyrgð til hliðar á grundvelli 36.
gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Í ljósi þess
að varnaraðili kveður greiðslugetu aðalskuldara hafa verið metna skoraði
sóknaraðili á varnaraðila að leggja fram gögn til stuðnings þeirri
staðhæfingu. Varnaraðili byggir á því að
greiðslumat hafi farið fram og niðurstaða þess hafi verið kynnt sóknaraðila á
sínum tíma. Engin skylda hvíli á varnaraðila að geyma gögn sem varði framkvæmd
greiðslumats eftir að það hafi farið fram.
Óumdeilt er í málinu að aðilar eru
skuldbundnir af ákvæðum samkomulags um notkun á ábyrgðum á skuldum
einstaklinga. Því er ljóst að á Sparisjóði Hafnarfjarðar hvíldi sannarlega sú
skylda að framkvæma greiðslumat á aðalskuldara eftir þeim aðferðum sem greinir
í samkomulaginu, áður en að sóknaraðili gekkst í sjálfskuldarábyrgð á
skuldbindingum Skarphéðins Orra Björnssonar. Sóknaraðili kveðst hins vegar
aldrei hafa séð greiðslumatið sjálft heldur einungis skjalið „Niðurstaða
greiðslumats.“
Í málinu hefur hvorki komið fram að
sóknaraðili hafi haft fjárhagslega hagsmuni af því að gangast í sjálfskuldarábyrgðina
né að sóknaraðili hafi þekkt til fjárhagsstöðu Skarphéðins Orra. Því varðaði
það sóknaraðila miklu að réttilega væri staðið að framkvæmd greiðslumatsins, en
varnaraðili hefur engar sönnur fært fyrir því að svo hafi verið gert. Í samræmi
við almennar reglur einkamálaréttarfars verður varnaraðili að bera hallan af
þeim sönnunarskorti, enda er ljóst að ákvæði samkomulags um notkun á ábyrgðum
einstaklinga um framkvæmd greiðslumats væri til lítils ef ekki væri hægt að
staðreyna síðar að slíkt mat hafi sannarlega verið framkvæmt og réttileg að því
staðið. Óháð samnings- eða lagaskyldu um að geyma slíkt mat og/eða þau gögn sem
slíkt mat byggir á, verður varnaraðili því allt að einu að bera hallann af því
að geta ekki sýnt fram á að greiðslumat hafi sannarlega verði framkvæmt í
umrætt sinn. Verður að telja það sérstaklega mikilvægt í því ljósi að áðurnefnt
skjal „Niðurstaða greiðslumats“ hefur ekki að geyma neinar tölulegar
upplýsingar um fjárhagsstöðu aðalskuldara, heldur einvörðungu almenn fyrirmæli
um framkvæmd greiðslumats, sem ekkert liggur fyrir um að hafi verið framkvæmt.
Það er niðurstaða dómsins að framangreint skjal. „Niðurstaða greiðslumats“ sé
ófullnægjandi staðfesting þess að greiðslugeta aðalskuldara hafi verið metin en
samkvæmt framansögðu er það varnaraðila að sýna fram á að svo hafi verið gert.
Að þessu gættu verður ekki hjá því komist að fallast á það með sóknaraðila að
víkja beri til hliðar þeirri sjálfskuldarábyrgð sem hann gekkst undir með
áritun sinni á umrætt skuldabréf með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um
samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Eins og staðið var að málum af hálfu
varnaraðila getur hann ekki unnið betri rétt með því að byggja á meintu tómlæti
sóknaraðila. Því er fallist á kröfu sóknaraðila um að ógilt verði aðfarargerð
Sýslumannsins í Hafnarfirði númer 036-2011-03239, sem fram fór hinn 17. október
2011.
Í
samræmi við þessa niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991
um meðferð einkamála verður varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila
málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 350.000 krónur að meðtöldum
virðisaukaskatti.
Jón
Höskuldsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Aðfarargerð
nr. 036-2011-03239, sem fram fór hjá Sýslumanninum í Hafnarfirði 17. október
2011, er ógilt.
Varnaraðili,
Íslandsbanki hf., greiði sóknaraðila, Sigurbirni Jóhannesi Björnssyni, 350.000
krónur í málskostnað.