Hæstiréttur íslands

Mál nr. 155/2004


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Frelsissvipting
  • Eignaspjöll
  • Þjófnaður
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 23

 

Fimmtudaginn 23. september 2004.

Nr. 155/2004.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Kynferðisbrot. Frelsissvipting. Eignaspjöll. Þjófnaður. Ítrekun. Skaðabætur.

X var ákærður fyrir nauðgun, frelsissviptingu, eignaspjöll og þjófnað, með því að hafa haldið fyrrverandi sambýliskonu sinni nauðugri í íbúð hennar, þröngvað henni til holdlegs samræðis, valdið ýmsum skemmdum á eignum hennar og stolið svonefndu „heimabíói“ úr íbúð hennar. X átti langan sakarferil að baki og höfðu eldri auðgunarbrot ítrekunaráhrif á þjófnaðarbrot hans. Þótti refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði. Hafði X ítrekað beitt konuna ofbeldi og hafði hún gengist undir sálfræðimeðferð vegna þessa. Var staðfest ákvörðun héraðsdóms um bætur að fjárhæð 1.380.000 krónur henni til handa.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 29. mars 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu, en jafnframt þyngingar á refsingu og greiðslu miskabóta að fjárhæð 2.000.000 krónur auk vaxta og dráttarvaxta.

Ákærði krefst aðallega sýknu af 1., 2. og 4. tölulið ákæru 10. desember 2003, en til vara að refsing verði lækkuð frá því sem dæmt var í héraðsdómi. Hann krefst þess og, að bótakröfu verði hafnað eða henni vísað frá dómi, en til vara að dæmdar bætur verði lækkaðar.

Eftir áfrýjun héraðsdóms mætti brotaþoli hjá lögreglu 20. apríl 2004 og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir að hafa fyrr um morguninn með ofbeldi og hótunum látið hana nauðuga undirrita yfirlýsingu um að hún drægi til baka kæru á hendur honum fyrir nauðgun 31. maí 2003, en yfirlýsinguna afhenti ákærði á skrifstofu ríkissaksóknara kl. 13 sama dag. Vegna þessa hefur ríkissaksóknari höfðað mál á hendur ákærða 2. júní 2004 fyrir brot á 108. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði heldur því fram, að ekki sé unnt að fella dóm á 2. tölulið ákæru 10. desember 2003 meðan ódæmt er í því máli. Ekki verður séð, að þetta breyti neinu um sakfellingu í máli því, sem hér er til meðferðar.

Með skírskotun til forsendna héraðsdóms er staðfest niðurstaða hans um sakfellingu og heimvísun brota til refsiákvæða.

Eins og fram kemur í héraðsdómi hefur ákærði hlotið 22 refsidóma frá árinu 1991, þar af 4 dóma fyrir líkamsárásir og 14 dóma fyrir auðgunarbrot. Hann var dæmdur fyrir auðgunarbrot í fjögurra mánaða fangelsi 7. apríl 2000 og tveggja mánaða 2. október sama ár. Við ákvörðun refsingar verður litið til þess, að framangreindir dómar hafa ítrekunaráhrif á þjófnað hans 31. maí 2003, sbr. 4 lið ákæru 10. desember 2003. Ber því að ákveða honum refsingu með vísan til 71. gr. og 255. gr. almennra hegningarlaga. Einnig verður litið til 72. gr. og 77. gr. sömu laga. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin í hinum áfrýjaða dómi  fangelsi í þrjú ár og sex mánuði.

Ákærði var dæmdur í 6 mánaða fangelsi vegna tveggja líkamsárása gegn brotaþola 21. mars 2003, tveimur mánuðum áður en brot þau voru framin, sem um ræðir í ákæru 10. desember 2003. Hefur brotaþoli verið í sálfræðilegri meðferð vegna afleiðinga alls þessa. Samkvæmt vottorðum sálfræðingsins 21. nóvember 2003 og 6. september 2004 hafa afleiðingar þessa ofbeldis, sem brotaþoli hefur búið við, leitt til breytinga á persónuleika hennar. Hún sé stöðugt óörugg og hrædd og eigi erfitt með að njóta sín og sjálfsmat hennar hafi beðið hnekki. Hún sé að niðurlotum komin og örmagna andlega. Búast megi við, að það taki hana langan tíma að jafna sig eftir að hafa búið lengi við ógnandi aðstæður. Hún þurfi stuðning og sértæka sálfræðiaðstoð. Þegar til þessa er litið er rétt að staðfesta ákvörðun héraðsdóms um miskabætur, svo og ákvæði hans um bætur að öðru leyti.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.

Samkvæmt framansögðu skal héraðsdómur vera óraskaður.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns A, Sifjar Konráðsdóttur hæstaréttarlögmanns, 80.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. mars 2004.

Málið er höfðað með ákæru útgefinni 10. desember 2003 á hendur: ,,X, kennitala […], Reykjavík, fyrir eftirtalin brot framin laugardaginn 31. maí 2003 í fjölbýlishúsinu […], Reykjavík:

 

1.             Fyrir frelsissviptingu með því að hafa haldið A nauðugri í húsinu  frá því um kl. 13.00 fram yfir kl. 19.30, lengst af í íbúð hennar nr. 6A, og þá beitt hana líkamlegu ofbeldi, hótað að beita hana líkamlegu ofbeldi og ógnað henni með hnífum.  Á meðan á frelsissviptingu stóð kom ákærði í veg fyrir að A hringdi eftir aðstoð lögreglu úr síma nærliggjandi íbúðar sem hún hafði leitað í og eftir hún yfirgaf íbúðina réðst hann á hana með líkamlegu ofbeldi á stigagangi hússins og dró hana á hárinu aftur inn í íbúð hennar þar sem hann tók hana hálstaki og ógnaði henni með hnífi.

                Þessi háttsemi ákærða þykir varða við 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en til vara við 225. gr. sömu laga.

 

2.             Fyrir kynferðisbrot með því að hafa í íbúð A í þrjú aðgreind skipti á ofangreindu tímabili þröngvað henni með ofbeldi eða hótun um að beita hana ofbeldi til holdlegs samræðis.  Í öll skiptin beitti ákærði m.a. hnífi til að hóta A með.

                Þessi brot ákæru þykja varða við 194. gr. almennra hegningarlaga.

 

3.             Fyrir eignaspjöll með því að hafa á ofangreindu tímabili eyðilagt og valdið skemmdum á ýmsum eigum A sem voru í íbúð hennar, en ákærði braut þar blómasúlu úr gleri og spegil, stakk hnífi í sófasett, í rúmdýnu, lak og kodda, reif í sundur brjóstahaldara og bol og olli frekari skemmdum á hlutum og fatnaði þannig að heildartjón nam kr. 407.000 að mati tjónþola.

                Þetta brot ákærða þykir varða við 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga.

 

4.             Fyrir þjófnað með því að hafa stolið svonefndu ,,heimabíói” A úr íbúð hennar.  ,,Heimabíóið” telur tjónþoli að verðmæti kr. 130.000.

                Þetta brot ákærða þykir varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.

                Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

 

                Af hálfu A, kennitala [...], er krafist skaðabóta samtals að fjárhæð krónur 2.537.000 auk vaxta frá 31. maí 2003 til 30. júní 2003 en dráttarvaxta frá þeim degi til greiðsludags, samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur.”

 

                Önnur ákæra var gefin út á hendur ákærða 14. janúar 2004 og er þar ákært ,,fyrir eftirtalda þjófnaði framda í Reykjavík árið 2003:

1.  Með því að hafa þriðjudaginn 24. júní á bensínafgreiðslustöð Essó við Borgartún í Reykjavík, dælt bensíni að verðmæti kr. 4.001 á bifreiðina UH-991 og ekið á brott án þess að greiða fyrir það.

 

2.  Með því að hafa laugardaginn 28. júní á bensínafgreiðslustöð Essó við Geirsgötu í Reykjavík dælt bensíni að verðmæti kr. 4.002 á sömu bifreið og ekið á brott án þess að greiða fyrir það.

 

                Brot ákærða þykja varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

                Af hálfu Olíufélagsins hf., kennitala 541201-3940, er krafist skaðabóta samtals að fjárhæð krónur 4.002.”

 

                Málin voru sameinuð.

                Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu af 1., 2. og 4. tl. ákærunnar frá 10. desember 2003. Til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa.  Bótakröfu er mótmælt og þess er krafist að miskabótakröfunni vísað frá dómi. Málsvarnarlauna er krafist að mestu leyti úr ríkissjóði samkvæmt reikningi eða að mati dómsins.

 

                Ákæra dags. 10. desember 2003.

                Málavextir eru þeir að laugardaginn 31. maí sl. kl. 19.38 var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna heimilisófriðar að [...], en ráða má af skýrslu lögreglunnar, sem dagsett er sama dag, að upphaflega var það talið tilefni afskipta lögreglunnar.  Í skýrslunni segir á öðrum stað að verkefni lögreglunnar hafi verið að sinna útkalli vegna kynferðisbrots og nauðgunar.  Á vettvangi hittust fyrir íbúar hússins og gestur hans, sem kváðu A, kæranda máls þessa, og ákærða hafa rifist.  Rifrildi þeirra hafi borist fram á gang og hafi A verið að reyna að flýja ákærða.  Hann hafi rifið í hár hennar og hálfháttað hana frammi á gangi.  Lögreglan knúði dyra á íbúð A, sem kom til dyra og hafi þá komið í ljós að eitthvað hafði gengið á í íbúðinni.  Ákærði hafi verið þar staddur og var hann einungis klæddur í dökka, þunna peysu og undir henni hvítum nærbol.  Hafi hann verið mjög ölvaður, þvoglumæltur og óstöðugur á fótum.  Í skýrslunni segir að A hafi legið mjög á að komast út úr íbúðinni og kvað hún ákærða hafa lagt á sig hendur fyrr um daginn. 

Á vettvangi var hnífur liggjandi á gólfinu við anddyrið.  Þá mátti sjá brotna glerhluti í stofu og hafi verið glerbrot á gólfinu og húsgögn færð úr stað.  Kvað A ákærða hafa stungið og skorið sófasett í stofu, brotið spegil inn í stofu og hótað að eyðileggja heimabíókerfi hennar. 

Er lögreglan ók A áleiðis að heimilu systur hennar í Kópavogi greindi hún frá því að ákærði hefði neytt hana til samræðis við sig og við skoðun hafi komið í ljós smááverki á andliti hennar og einnig hefði hún sýnt lögreglu mar á mjöðm.  Þá hafi hún verið aum í vinstra fæti og haltrað er hún gekk.  Í skýrslunni er lýst viðbrögðum lögreglu við þessari frásögn A og ráðstöfunum til að skoða vettvang. Farið var með hana á slysadeild Landspítalans til aðhlynningar.  Þar skýrði hún lögreglu svo frá að ákærði hefði verið staddur á heimili hennar um kl. 12.30 þennan dag og hafi hann verið mjög ölvaður frá því kvöldinu áður.  Þar hafi einnig verið staddur um tíma S, vinur ákærða.  A lýsti því að eftir að S, kunningi ákærða, yfirgaf íbúðina hafi ákærði tekið að hóta henni og beita hana ofbeldi.  Hann hafi rifið í hár hennar, dregið hana um og tekið hana hálstaki, otað að henni hnífi og rifið af henni fötin.  Á þessum tíma hafi ákærði neytt hana til samræðis.  Ákærði hafði rifið af henni bol og brjóstahaldara, er þau voru inni í íbúðinni og þá hafi buxur hennar rifnað svo hún þurfti að halda þeim upp um sig með nælu.  A kvað systur sína, G, hafa hringt dyrabjöllunni og síðan hefði G hringt á lögreglu, sem hafi komið skömmu síðar og knúið dyra.  Hafi ákærði þá dregið hana inn í herbergi og læst hana þar inni. 

Fram kemur í skýrslu lögreglu að lögreglan hafi verið kvödd á vettvang þarna fyrr sama dag, en þá hafi þeir ekki heyrt neinn hávaða koma frá íbúðinni.  Kvað A sér hafa tekist að flýja fram á stigagang skömmu eftir að lögreglan fór og til nágrannakonu sinnar, en ákærði hafi þá komið á eftir henni og nánast rifið af henni fötin, hrint henni þannig að hún missteig sig, sparkað í hana og dregið inn í íbúðina og neytt sig tvisvar sinnum til samræðis eftir þetta.  Ákærði hafi þannig neytt hana þrisvar sinnum til samræðis á þessum tíma.

                Mánudaginn 2. júní sl. kom A á skrifstofu rannsóknardeildar lögreglu og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir ofbeldi og kynferðisbrot. 

Ákærði hefur frá upphafi neitað kynferðisbrotum, sem ákært er fyrir, en játar eignaspjöll.

                Nú verður rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi og hjá lögreglu eftir því sem ástæða þykir.

 

                Ákæruliðir 1 og 2.

                Ákærði neitar sök.  Hann lýsti erfiðri sambúð þeirra A.  Þau hafi verið saman af og til um þriggja ára skeið, en hún hafi verið 16 ára gömul er hann kynntist henni og ákærði hafi þá verið 26 ára gamall. 

Ákærði kvaðst hafa komið heim til A um kl. 08.00 um morguninn og hafi hann ekki verið ölvaður.  Í frumskýrslu lögreglunnar segir um ástand ákærða, að hann hafi verið mjög ölvaður, óstöðugur á fótum og þvoglumæltur.  Ákærði kvað þessa lýsingu ,,algjört rugl“.  Síðar við skýrslutökuna greindi ákærði svo frá að hann hafi ekki verið ,,svo rosalega ölvaður“.  Hann hafi verið þreyttur ,,ég var búinn að vera á fylliríi áður um nóttina og skemmta mér með vinum mínum“.  Ákærði kvaðst hafa talað við A í síma eftir heimkomu og sofnað síðan.  Einhverjum klukkustundum seinna hafi hún komið heim.  Þau hafi rifist og hann hafi farið inn í svefnherbergi, þar sem hann hafi ,,stútað“ blómasúlu og spegli.  Ákærði kvað A hafa komið inn á eftir sér, en hann hafi verið með læti. Síðan hafi þau sæst og haft samfarir.  Lögreglan hafi komið og bankað á dyrnar.  Ákærði hafi ætlað að opna fyrir lögreglunni, en A hafi ekki viljað það, því hún væri í félagslegri íbúð og þau ákærði væru ekki skráð í sambúð.  Hún ætti á hættu að missa íbúðina, ef ákærði væri þarna staddur. Lögreglan hafi síðan farið í burtu og þau A tekið að ræða saman og allt verið ,,í góðu”.   

Vinur þeirra, S, hafi komið og hafi þau öll þrjú rifist.  Systir A hafi einnig komið með son þeirra A að heimilinu og hafi hún heyrt rifrildi milli þeirra A gegnum síma.  Ákærði hafi viljað fá son þeirra A upp í íbúðina og ætlað að fara niður og sækja hann, en A hafi ekki viljað að hann færi og því hafi hann sent S til þess að sækja barnið, en það hafi ekki gengið eftir.  Ákærði kvaðst hafa verið reiður vegna þessa og hafi þau A haldið áfram að rífast, en ákærði kvað S hafa komið aftur upp í íbúðina eftir árangurslausa ferð niður til að sækja barnið. 

Ákærði kvað rifrildi þeirra A hafa haldið áfram og lýsti hann því er hann tók hníf og stakk í sófann svo hnífurinn brotnaði.  Hann hafi ekki lagt hendur á A.  Hann kvað þau hafa staðið á tali inn í eldhúsi, en A hafi skyndilega hlaupið fram á gang og bankað upp á í næstu íbúð.  Ákærði kvaðst ekki hafa vitað hvað væri í gangi, en A hafi verið ákveðin í því að hringja í lögregluna. Ákærði kvaðst hafa farið á eftir henni og meinað henni það, þar sem hann kvað þau hafi verið búin að ná sáttum.  Ákærði kvað A hafa tekið að ,,lemja sig“, en ákærði kvaðst ekkert hafa gert henni.  Frammi á ganginum hafi A reynt að hringja, en ákærði kvaðst þá hafa tekið undir hendur henni og reynt að draga hana inn í íbúðina aftur.  Ákærði lýsti því, er þau hafi fallið, svo: ,,Fljúgum við bæði á rassgatið og það rifnað þarna bolurinn og allt saman fyrir framan alla“.  Ákærði kvaðst þá hafa dregið hana inn í íbúðina og skellt dyrunum og spurt A að því hvað hún væri að reyna að gera honum. 

Ákærði kvað þetta einu ,,harkalegu” átökin milli þeirra þennan dag og vísaði hann því á bug að vera valdur að þeim áverkum, sem fram komu í læknisfræðilegum gögnum málsins og síðar verður vikið að. 

Ákærði kvaðst ekki hafa dregið A á hárinu það væri ,,tómt rugl”.  

Ákærði kvað lögregluna hafa komið skömmu síðar og hafi A farið með henni á brott. 

Ákærði kvaðst hafa haft samfarir við A tvisvar sinnum þennan dag, en hann hafi hvorki beitt ofbeldi, né hótað að beita því við samfarirnar eða við að koma þeim í kring. 

Eins og rakið var lýsti ákærði því er hann stakk hnífnum í sófann.  Á ljósmyndum meðal gagna málsins sést annar hnífur, eins konar veiðihnífur.  Ákærði kvaðst hafa verið með þennan hníf um morguninn, þegar hann var einn heima og þá hafi hann skorið gat á rúmdýnu með hnífnum.  Hann gaf þá einu skýringu á því háttalagi að hann hafi verið vondur. 

Ákærði neitaði því að hafa á þessum tíma haldið A nauðugri í íbúðinni. 

Ákærði lýsti samskiptum þeirra A eftir atburð þann, sem hér um ræðir.  Ákærði lýsti sms skilaboðum, sem gengu á milli þeirra, og heimsóknum hennar til sín, bæði þangað sem ákærði leigði herbergi hér í borg og einnig meðan ákærði afplánaði refsivist.  Hann kvað þau hafa haft samfarir í mörgum þessara heimsókna. 

Gögn liggja frammi um heimsóknir til ákærða í refsivist og einnig um sms skilaboð milli ákærða og A.  Ekki þykir ástæða til að rekja þau hér.

                Vitnið, A, lýsti í stuttu máli sambúð þeirra ákærða, sem hafi gengið illa. 

Hún kvað aðdraganda þessa atburðar hafa verið þann að ákærði hefði ekki komið heim að [...] aðfaranótt 31. maí sl.  Hún kvað sig þá hafa grunað að ákærði væri að ,,fá sér í glas“.  Hún kvaðst vita hvernig ákærði yrði daginn eftir að þannig stæði á, en hann væri yfirleitt ekki edrú, er hann kæmi heim, og hún hafi því ekki treyst sér til þess að vera heima með son þeirra ákærða.  Hún kvaðst því hafa hringt í systur sína og beðið hana um að sækja sig, sem hún gerði.  Eftir dvöl hjá systur sinni kvaðst A hafa haldið í Smáralind í fylgd vinkonu sinnar, sem ráða má af gögnum málsins að heiti M.  Er hún var stödd í Smáralindinni hafi ákærði tekið að hringja og hafi hann verið pirraður og með læti í símanum.  Hún kvaðst þá hafa beðið M um að keyra sig heim, sem hún gerði.  Áður en leiðir þeirra skildu kvaðst A hafa beðið M um að hringja í sig eftir stutta stund. Ef hún hvorki svaraði síma né dyrabjöllu ætti M að hringja í lögregluna.  Þetta kvaðst A hafa gert vegna þess að ákærð væri í hennar augum ,,brjálaður með víni“ og að hún hafi gert ráð fyrir því að eitthvað líkt því sem gerðist gæti átt sér stað. Hún hafi reynslu af þessu. 

Er A kom upp í íbúð sína milli kl. 12.00 og 13.00 þennan dag hafi ákærði verið þar fyrir með veiðihníf í hendi og landabrúsa.  Hann hafi sveiflað hnífnum í hluti, meðal annars í gardínur, og hafi hún tekið til við að reyna að róa hann.  Hún kvaðst hafa spurt ákærða út í óreglu hans og hafi þau þá tekið að rífast.  Ákærði hafi rifið hana úr fötum og pínt hana með því að slá hana í hné og klípa hana.  Hún kvað ákærða hafa dregið sig inn í herbergi og hafi hún náð af honum hnífnum, en í millitíðinni hafi M, vinkona hennar,  hringt eins og áður var um rætt þeirra á milli.  Hún hafi þá spurt ákærða hvort hún mætti fara með henni og hafi  ákærði jánkað því.  Er hún hugðist fara hafi ákærði ekki heimilað henni það.  Hún kvaðst hafa verið dauðhrædd við ákærða, er hér var komið sögu, en hún kvaðst hafa sagt vinkonu sinni að fara. 

A lýsti því er hún kastaði veiðihnífnum, sem ákærði var með, inn í barnaherbergið og að ákærði hafi eftir þetta þvingað hana til samræðis inni í svefnherberginu og lýsti hún því og að ákærði hafi séð að hún vildi þetta ekki. 

A var spurð hvort ákærði hefði hótað henni er þetta átti sér stað.  Hún kvað, að meðan á þessu stóð hafi ákærði haldið á hnífi, heldur minni en þeim, sem brotnaði og síðar verður vikið að, og hafi hann sífellt verið með hnífinn og hnefann á lofti á þessum tíma.

Eftir þetta hafi S, kunningi ákærða, komið og hafi ákærði þá leyft henni að klæðast aftur.  Hún lýsti því að hún hafi talið að ákærði ætlaði að stinga hana, þar sem hann hafi leikið sér að því að meiða hana og hann hafi stungið með hníf í skóna hennar.  Þá hafi S horft á það er ákærði kýldi hana í höfuðið og hafi S beðið ákærða um að hætta þessu.  Þá hafi hann stungið með hnífnum í sófann, þar sem hún sat. 

Um þetta leyti hafi systir hennar hringt og beðið hana um að koma og gista hjá sér.  A kvaðst ekki hafa þorað að segja ákærða að þetta vekti fyrir henni og því hafa spurt hann hvort þetta væri í lagi.  Ákærði hafi þá orðið reiður og pirraður og tekið að skvetta einhverju á hana og hafi þetta orðið til þess að hún jánkaði í símann við systur sína.  Þetta hafi gengið áfram um hríð uns systir hennar hafi komið að [...] og hringt úr bíl sínum fyrir utan húsið og beðið A um að koma niður.  Hún kvaðst hafa jánkað, en systir hennar hafi heyrt lætin, meðal annars brothljóð, en ákærði braut á þessum tíma muni í íbúðinni.  Hún kvað systur sína þá hafa áttað sig á því að hlutirnir voru ekki eins og þeir áttu að vera.  Hún hafi þá ætlað að sækja barnið til systur sinnar, en ákærði hafi ekki leyft henni það. Ákærði hafi heimilað S að sækja barnið, en systir hennar hafi ekki látið S fá barnið, enda hafi hún ekki þekkt hann neitt. 

A kvaðst hafa talið að ekki þýddi að biðja S um aðstoð vegna þess að hann væri dauðhræddur við ákærða, sem væri búinn að lemja hann nokkrum sinnum, að hennar sögn. 

A var spurð að því hvort hún hafi ekki greint systur sinni frá því að henni væri meinuð útganga.  Kvaðst hún ekki hafa gert það til að æsa ákærða ekki meira en orðið var, en S hafi verið í íbúðinni á þessari stundu.  A kvað systur sína hafa sagt að ef hún kæmi ekki niður, myndi hún hringja í lögregluna.  Þessu kvaðst A hafa jánkað og hafi systir hennar haldið á brott með barnið eftir þetta og þau ákærði verið tvö ein eftir, því S hafi ekki komið upp í íbúðina eftir að hafa farið niður þeirra erinda að sækja barnið, eins og rakið var. 

Eftir þetta hafi hún verið stödd í eldhúsinu er ákærði bað hana um að koma aftur inn í herbergi.  Hún hafi neitað því.  Hann hafi þá snúið upp á handlegg hennar og dregið hana inn í herbergi.  Hún lýsti því sem þar gerðist og meðal annars því, að ákærði hafi viljað að hún tæki vínsopa og hafi hann reynt að hella einhverju upp í hana.  Þau hafi haft samfarir í herberginu. 

Aðspurð um ofbeldi af hálfu ákærða kvað hún, eins og rakið var, ákærða hafa dregið hana inn í herbergið og þá hafi hann verið ,,alveg brjálaður“ vegna þess að hún neitaði að fara með honum inn í herbergið, en hann hafi dregið hana þangað. 

Hún lýsti því að meðan á samförunum stóð, eða um svipað leyti, hafi ákærði séð að lögreglan bankaði á dyrnar, en ákærði hafi ekki viljað svara og sagði hann henni að hafa hljótt.  Síðan hafi ákærði læst hana inn í herbergi og hótað að fleygja lyklinum út, en hann hafi hætt við það er hún spurði hann að því hvernig hann ætlaði sjálfur að komast út. 

A var spurð út í framburð ákærða þess efnis að hún hefði ekki viljað að lögreglunni yrði svarað af ástæðum, sem raktar voru er framburður ákærða var rakinn. Hún kvað þetta rangt hjá ákærða. Hún hafi viljað komast út úr húsinu. 

Er þau ákærði hafi verið stödd inni í herberginu, er lögreglan var við dyrnar, hafi ákærði orðið stressaður og brjálaður.  Hann hafi tekið að skera dýnuna, koddann og sængurverið.  Hann hafi sagt henni að setjast og hafi hann haldið á hníf á þessum tíma.  Hann hafi þá sagt við hana að lögregla megi ekki trufla samfarir og hafi þær þá byrjað í þriðja sinn, að hún taldi, en A tók fram að erfitt væri að muna þessa atburði nákvæmlega í tímaröð, sökum þess að hún hafi reynt að gleyma atburðunum.  Lýsti hún því er ákærði hefði verið mjög harðhentur við hana og meitt hana og hafi hún tekið að tárfella er hér var komið sögu, en hnífurinn hafi verið við hlið ákærða á meðan á samförunum stóð.  Hún lýsti því einnig að hún hafi grátið í eitt skipti er þau ákærði settust í rúmið. 

Hún kvað hafa hvarflað að sér að kalla á hjálp er lögreglan kom.  Hún kvaðst hins vegar hafa verið svo hrædd að hún hafi ekki komið upp orði. 

A lýsti því er hún náði að ýta ákærða af sér og eftir það hafi þau farið fram í eldhús.  Þaðan hafi hún fylgst með ákærða, sem hafi tekið heimabíóið, en hún hafi verið byrjuð að tína saman dót í tösku sína.  Hún lýsti því er hún hljóp út úr íbúðinni og bankaði upp á hjá nágrannakonu sinni í íbúðinni við hliðina, en tvær konur hafi verið í þeirri íbúð.  Þar hafi hún farið inn og ákærði á eftir.  Hún hafi beðið konuna um að hringja á lögregluna, en konan hafi spurt hvort þau vildu ekki fremur reyna að sættast.  Hún hafi þá sjálf reynt að hringja frá nágrannakonu sinni, en ákærði hafi ýtt takkanum á símanum niður svo hún gat ekki hringt. 

Er hún hafi verið stödd frammi á gangi eftir dvölina í nærliggjandi íbúð, hafi ákærði rifið í hárið á henni, þannig að hún hafi fallið í gólfið.  Ákærði hafi dregið hana á hárinu á teppinu að íbúð sinni, en á leiðinni hafi hann misst takið og þá rifið í brjóstahaldara og bol hennar, sem hvort tveggja hafi skemmst við þetta.  Hún kvað íbúa í húsinu hafa orðið vitni að þessu.  Hún kvað ákærða hafa tekið að draga hana inn í íbúðina og er þangað var komið hafi hann tekið hana hálstaki og einnig verið með hníf í höndunum.  Stuttu síðar hafi lögreglan komið öðru sinni.  Hún hafi svarað og það eina sem hún hafi viljað var að komast út og til systur sinnar, sem var með barn hennar.  Hún kvaðst hafa farið á neyðarmóttöku síðar þennan dag. 

A kvað ákærða hafa verið buxnalausan meðan þessi atburðarrás varði og hann hafi verið ölvaður, en hún kvað sig gruna að hann væri á fleiru en áfengi, eins og hún lýsti. 

A kvað ákærða hafa beitt sig öllu því ofbeldi og hótunum um ofbeldi, sem lýst er í ákæruliðum 1 og 2 og var farið yfir einstaka efnisþætti þeirra ákæruliða og vísaði A um þetta til samfelldrar frásagnar sinnar, sem rakin hefur verið. A lýsti þessu efnislega á sama veg hjá lögreglunni. 

Hún lýsti slæmri líðan sinni eftir þessa atburði og að hún hafi notið aðstoðar lækna og sálfræðinga vegna þessa. 

A lýsti samskiptum þeirra ákærða eftir þessa atburði.  Hún staðfesti að hafa heimsótt hann, meðal annars meðan á refsivist hans stóð, en ekki eftir að hann gekk laus.  Hún skýrði ástæður heimsóknar sinnar til ákærða og að þær hafi helgast af tilfinningum, sem hún bar til hans.

                Vitnið, M, kvaðst hafa verið í för með A í Smáralind laugardaginn 31. maí sl.  Hún lýsti  því er A bað vitnið um að keyra sig heim, sem hún gerði, en áður hefði A rætt símleiðis við ákærða.  M kvað A hafa beðið sig um að hringja í sig eftir svona hálftíma og ef hún svaraði ekki átti vitnið að hringja í lögregluna.  Hún kvaðst ekki hafa fengið skýringu á því hvers vegna hún átti að gera þetta.  M kvaðst hafa hringt og fengið þau svör hjá A að allt væri í lagi.

                Vitnið, S, kvaðst hafa komið á heimili A að [...] eftir hádegi 31. maí sl. um klukkan fimm, en hann virtist ekki muna tímasetninguna vel.  Ákærði og A hafi bæði verið heima og þau eins og venjulega verið að rífast.  Ákærði hafi verið búinn að drekka um nóttina og örugglega verið þunnur og þreyttur að sögn vitnisins og vissi hann ekki hvort ákærði hefði drukkið meira frá því að þeir vitnið drukku saman um nóttina. 

Ákærði hafi sótt hníf fram í eldhús og stungið honum í sófann svo hnífurinn brotnaði, en ákærði og A hafi þá setið hvort á sínum enda hornsófa.  A hafi öskrað og hún hafi verið mjög hrædd meðan á þessu stóð. 

S kvaðst hafa reynt að róa ákærða, en það hafi ekki verið hægt, að sögn vitnisins. 

S kvað ákærða hafa haldið A í sófanum og á meðan hafi hann lamið sófann, en hann kvaðst ekki hafa tekið eftir því að hann lemdi A. 

S vissi ekki hvert tilefni þessa var, nema að A og ákærði voru að rífast. 

S kvaðst hafa stoppað í um 20 mínútur á staðnum og á meðan hafi hann heyrt ákærða segja að réttast væri að drepa A, en þessi ummæli hafi ákærði viðhaft eftir að hann hafi brotið húsmunina og stungið hnífnum í sófann.  S kvað systur A hafa verið fyrir utan húsið meðan hann dvaldi þarna og hafi hún beðið A að koma með sér út að borða.  S kvað ákærða ekki hafa verið sáttan við þetta. 

S kvað A hafa beðið sig um að fara að sækja barnið til systur sinnar, sem beið niðri.  Hann mundi ekki hvort ákærði hafi meinað A að sækja barnið sjálf.  Hann kvaðst hafa farið niður og ekki komið upp í íbúðina aftur, heldur haldið á brott. 

S kvað ekki hafa borið á góma meðan hann dvaldi þarna að A léti sig hverfa, eða yfirgæfi íbúðina. Hann lýsti því síðar að hann vissi ekki hvort ákærði hefði hleypt henni út, en vitnið taldi að erfitt væri fyrir hana að fara.  Síðar kvaðst vitnið ekki geta sagt til um það hvort A hafi verið haldið nauðugri í íbúðinni.  Hún hafi ekki reynt að fara út að því er vitninu virtist.

                Vitnið, B, lýsti því er stúlka  bankaði upp á íbúð hennar í [...], laugardaginn 31. maí sl. og virtist stúlkan vera á flótta undan karlmanni, en komið hafi í ljós að hann var buxnalaus.  B lýsti því að maðurinn hafi stöðugt beðið stúkuna um að láta ekki svona og að vitninu hafi skilist að það væri eitthvað sem hann vildi, en hún ekki, og kvað B sér hafa skilist að þetta væri eitthvað í sambandi við kynferðissamband.

                Vitnið, Ó, kvaðst hafa verið stödd á heimili B þennan dag, er kona kom þar og bað um að hringt yrði á lögregluna, þar sem maðurinn væri búinn að brjóta og bramla í íbúð hennar.  Maðurinn hafi komið á eftir konunni, en hann hafi verið klæddur nærbol, en ber að neðan.  Ó kvað konuna hafa hringt í lögregluna, sem hafi verið lengi að koma á staðinn.  Hún lýsti því að maðurinn hafi beðið konuna um að hringja ekki, því hann elskaði hana.  Fólkið hafi síðan farið út úr íbúð B, en konan hafi hlaupið veinandi út og maðurinn á eftir.  Frammi á ganginum hafi maðurinn ráðist á konuna, rifið utan af henni bolinn og fötin og rifið í hár hennar og rifið hana á hárinu inn í íbúðina. 

                Vitnið, G, kvað A systur sína hafa hringt í sig um morguninn og spurt sig að því hvort hún gæti haft son hennar í pössun, sem varð úr.  Hún kvaðst síðan hafa hringt í A um kl. 15.00 eftirmiðdaginn 31. maí sl. og sagst vera á leiðinni til hennar með strákinn.  G kvaðst hafa heyrt á A að hún væri miður sín.  Hún hafi þá spurt A að því hvort hún vildi ekki gista hjá sér.  Fram kom hjá G að hún vissi hvernig ,,hann væri” og átti hún þá við ákærða, en þetta má ráða af samhenginu.  G kvað A hafa hringt í sig er hún var komin að heimili hennar í [...] og hafi A sagt að hún mætti ekki fara  út eða viðhaft álíka ummæli.  G lýsti síðan öðru símtali við systur sína stuttu síðar.  Þá hafi A verið grátandi og vitnið hafi heyrt læti, skarkala og brothljóð í símann.  Hún kvaðst þá hafa gert sér grein fyrir því, sem var að gerast, enda ekki í fyrsta skipti, að hennar sögn.  Hún hafi beðið A að koma út.  G kvaðst hafa heyrt A spyrja ákærða hvort hún mætti fara út til systur sinnar.  Hún kvaðst þá hafa heyrt öskur í ákærða og A hafi ekki þorað að ræða við sig í símann.  Hún hafi heyrt grát í systur sinni og sagt henni að hún myndi hringja í lögregluna, en í því hafi sambandið rofnað. 

Hún lýsti því er hún hringdi í lögregluna vegna þessa. 

G greindi frá því að S hefði komið niður og  ætlað að sækja barnið samkvæmt fyrirmælum ákærða, en hún hafi ekki afhent barnið, vitandi um lætin upp í íbúðinni.  Hún kvað S hafa farið í burtu eftir þetta og hann hafi ekki farið aftur upp í íbúðina.

                Vitnið, Ósk Ingvarsdóttir læknir, kom fyrir dóminn og skýrði og staðfesti skýrslu, sem hún ritaði eftir skoðun á A.  Í skýrslu Óskar um skoðun á A 31. maí sl. er haft eftir A að hún hafi sætt ofbeldi af hálfu ákærða og hann hafi nauðgað henni þrívegis um leggöng.  Hafi hún ekki veitt mótspyrnu, þar sem hún vissi að annars hlyti hún verra af.  Hún hafi verið hölt við komu vegna bólgu og eymsla í ökkla og taldi sig hafa misstigið sig, þegar henni var hrint af ákærða.  Um ástand stúlkunnar við skoðun segir að hún hafi verið mjög dugleg að segja frá og skýra málavöxtu.  Hún hafi verið einbeitt, en stundum fjarræn og annars hugar.  Áverkum hennar er lýst þannig að þeir væru staðsettir víða um líkamann.  Á andliti væri kúla vinstra megin á enni ofarlega, 3 x 3 cm.   Smásár 2 til 3 mm hafi verið á gagnauga vinstra megin, þá var roði á hægri kinn og 1 ½ x 1 ½ cm undir auganu á hákinnbeininu.  Roði sé beggja megin á hálsi og veruleg eymsli undir kjálkabörðum, meira hægra megin.  Þá væru rispur og þrjár húðblæðingar hægra megin neðarlega á hálsi.  Áverkar þessir kynnu að vera eftir högg eða kverkatak.  Á hvirfli stúlkunnar væri stór blæðing undir húð, kúla 4 x 5 cm.  Veruleg eymsli væru þar og víða í hársverði.  Þar sæjust roðablettir og smáblæðingar.  Einnig væri þar mikið af lausum hárflygsum.  Áverkar þessir kynnu að vera eftir högg og hárreytingu.  Á hægri upphandlegg væri að finna þrjá 1 x 1 cm stóra marbletti, væntanlega eftir þrýsting, til dæmis eftir fingur.  Á vinstri mjöðm og síðu og baki neðarlega væru rauð upphleypt svæði, eins og eftir bruna, til dæmis eftir núning af hörðu undirlagi.

Í niðurlagi skýrslu Óskar segir að stúlkan sé með áverka víðsvegar um líkamann, meðal annars ummerki sem kæmu heim og saman við lýsingu á kverkataki, höfuðhöggum og hárreytingum. 

Sýni hafi verið tekin til staðfestingar í DNA rannsókn. 

Fyrir dóminum kvað Ósk ekkert annað hafa komið fram við skoðun á A, en að áverkar sem lýst hafi verið væru af mannavöldum.  Ekkert hafi komið fram sem vekti grunsemdir um annað. 

Ósk lýsti blóðgúl á mjög stóru svæði á höfði A.  Ósk kvað svona áverka hljótast við þungt högg eða mikið tog. 

Ósk kvað A hafa verið auma viðkomu um allan skrokkinn og áverkarnir sem hún lýsti í gögnum málsins, og vikið var að hér að ofan, hafi allir verið ferskir og nýir.  Hún lýsti einstökum áverkum og staðfesti þetta álit sitt.

                Vitnið, Elísabet Benedikz, læknir, ritaði læknabréf, sem dags. er 3. júní sl., þar sem lýst er áverkum, sem hún greindi við skoðun á A sama dag.  Fyrir dóminum lýsti hún því að hún teldi áverkana koma heim og saman við frásögn A af því sem henti hana, en fram kemur í læknabréfinu að Elísabet vissi um tilefni komu A á neyðarmóttöku hinn 31. maí sl. 

Samkvæmt því sem fram kemur í niðurstöðum álitsgerðar Gunnlaugs Geirssonar, prófessors hjá Rannsóknarstofu í réttarlæknisfræði, má álykta að sáðfall hefði nýlega orðið í kynfæri þolandans.

Vitnið, Arnór Jónsson lögreglumaður, staðfesti frumskýrslu sem hann ritað og vitnað var til í upphafi.  Hann lýst því að lögreglan hafi verið send að [...] tvisvar sinnum þennan dag.  Fyrst hafi ekki verið svarað, en svarað var í síðara skiptið er vitnið fór á vettvang.  Hann lýsti því að í fyrstu hafi svo virst sem um hafi verið að ræða heimilisófrið, en er A var ekið áleiðis í Kópavog til systur sinnar, hafi hún greint frá kynferðisbroti gegn sér og þá hafi henni verið ekið á neyðarmóttöku.  Arnór kvað ákærða hafa verið mjög ölvaðan. Arnór lýsti ráðstöfunum sem gerðar voru vegna þessa.

Vitnið, Heiða Rafnsdóttir lögreglumaður, kvaðst hafa farið á vettvang ásamt Arnóri Jónssyni lögreglumanni.  Fram hafi komið hjá A að hún hefði viljað fara og á leiðinni hafi hún greint frá því sem gerst hefði.

 

Ákæruliður 3.

Ákærði játar sök samkvæmt þessum ákærulið, en tók fram að bolur og brjóstahaldari, sem lýst er í niðurlagi þessa ákæruliðar, hafi rifnað í sundur er ákærði féll aftur fyrir sig frammi á ganginum, er hann var að reyna að koma A aftur inn í íbúð hennar.  Þessu var lýst undir ákæruliðnum hér að framan og vísast til þess, sem þar var rakið.  Einnig er vísað til vitnisburðar A um það sem gerðist í íbúðinni umrætt sinn.

 

Ákæruliður 4.

Ákærði neitar sök samkvæmt þessum ákærulið.  Hann kvaðst eiga meirihlutann í heimabíóinu, en A hafi getað verið búin að sækja heimabíóið til ákærða fyrir löngu, sem hún hafi ekki gert.

Vitnið, A, kvaðst eiga heimabíóið, en ákærði hefði stolið því frá sér.

 

Ákæra dags. 14. janúar 2004.

Sannað er með skýlausri játningu ákærða fyrir dómi og með öðrum gögnum málsins, að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi, sem lýst er í báðum köflum þessarar ákæru og eru brot hans þar rétt færð til refsiákvæða. 

Skírskotað er til ákærunnar um lýsingu málavaxta.

 

Niðurstaða:

Ákæra dags. 10. desember 2003. 

Ákæruliður 1.

Vitnið A lýsti fyrir dómi og hjá lögreglunni að mestu leyti efnislega á sama veg hvernig ákærði beitti hana líkamlegu ofbeldi, hótaði að beita hana líkamlegu ofbeldi og ógnaði henni með hnífum.  Hún lýsti því hve ofsafenginn ákærði var meðan á þessu stóð og að hún hafi ekki komið upp orði er lögreglan kom í fyrra sinnið að heimili hennar þennan dag. 

A vísaði til fyrri reynslu sinnar af ofbeldi ákærða, er hún svaraði spurningum um viðbrögð hennar, til að mynda er hún ræddi við systur sína í símann.  Hún lýsti þessu einnig í viðtali við lækni á neyðarmóttöku og kvaðst ekki hafa veitt mótspyrnu, þar sem hún vissi að hún hlyti annars verra af.

Ákærði hefur sjálfur borið um skapofsa sinn á þessum tíma og má í því sambandi nefna eyðileggingu muna, sem ákærði vann með hnífum og á annan hátt, eins og lýst var. 

Þessu til staðfestingar liggja frammi ljósmyndir af vettvangi, sem sýna eyðilegginguna og hnífa sem ákærði notaði. 

Fyrir liggja gögn um samskipti ákærða og A eftir atburði þá, sem í ákæru greinir, og báru þau bæði um þau samskipti undir aðalmeðferðinni.  Það er álit dómsins að þessi samskipti ákærða og A séu ekki til þess fallin að draga úr trúverðugleika vitnisburðar hennar. 

Að virtum vitnisburði A og allra annarra vitna, sem komu fyrir dóminn og báru um ástand ákærða, skapofsa hans og háttalag eins og rakið var, en vitnið S bar um það, að ákærði hefði sagt að réttast væri að drepa A og að ekki hafi verið hægt að róa ákærða niður og með framburði ákærða sjálfs um skapofsa sinn og til þess að hnífar fundust á vettvangi, sem ákærði hefur viðurkennt að hafa beitt, eins og rakið var, og eyðilegging hans á verðmætum þykir einnig styðja þessa niðurstöðu, er það mat dómsins, að öllu þessu virtu, að aðstæður hafi verið þannig á heimili A frá því hún kom á heimili sitt um kl. 13.00 fram til kl. 19.38 er lögreglan kom á vettvang, að ákærði hafi á þann hátt, sem lýst er í ákærunni, haldið henni þar nauðugri.

Að mati dómsins þykir engu breyta um þessa niðurstöðu þótt S hafi komið á staðinn um kl. 17.00. Það er álit dómsins að A hafi verið svipt frelsi sínu þann tíma sem S dvaldi á heimilinu. Helgast þetta af þeirri ógn sem A stafaði af ákærða sem hótaði því meðan S dvaldi þarna að réttast væri að drepa hana. Á sama tíma beitti ákærði hnífum eins og rakið var. Þá þykir frelsissviptingin einnig hafa varað er A komst yfir í nærliggjandi íbúð. Þar kom ákærði í veg fyrir að hún hringdi á lögregluna og dró hana síðan á hárinu inn í íbúðina aftur. S og tvær eldri konur í umræddri íbúð voru þess ekki megnug að leggja A lið við að rjúfa það ófrelsisástand sem ákærði hafði skapað.

Háttsemi ákærða samkvæmt þessum ákærulið varðar við við 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga eins og lýst er í ákæru.

 

Ákæruliður 2.

Vísað er til vitnisburðar A, bæði hjá lögreglunni og fyrir dómi um atburði þá, sem hér um ræðir.  Ákærði beitti hana líkamlegu ofbeldi og hótaði henni, meðal annars með hnífum, sem fundust á vettvangi.  Því er einnig áður lýst hvernig ákærði beitti hnífunum, meðal annars skar hann rúmdýnu, þar sem hann hafði samræði við A og hafði hnífinn sér við hlið meðan á því stóð, eins og A hefur borið.  Einnig er vísað til læknisfræðilegra gagna, sem rakin hafa verið um ferska áverka, sem greindust á A við skoðun.

Ákærði hefur orðið margsaga um samræðið. Hann bar fyrst hjá lögreglu að þau hafi haft samræði einu sinni þann tíma, sem hér um ræðir. Síðar bar hann að skiptin hafi verið tvö, en í bæði skiptin með samþykki A. 

Framburður ákærða um þetta er ótrúverðugur og rangur að mati dómsins. 

Vísað er til röksemda við ákærulið 1 um það sem gerðist í íbúðinni á því tímabili, sem hér um ræðir. 

Af vitnisburði A má ráða að ákærði hefur með skapofsa, sem hann hefur viðurkennt og S hefur staðfest, hótunum um ofbeldi og með ofbeldi, vakið með A slíkan ótta um líf sitt og heilsu að hún hafi verið ráðþrota gagnvart framferði ákærða og hafi ekki getað spornað við samræðinu sem ákærða mátti vera fullljóst að var gegn vilja hennar.

Með vísan til alls þessa, og til þess sem um þetta var rakið undir ákærulið 1, og til trúverðugs vitnisburðar A, sem fær stoð í vitnisburði þeirra, sem báru um háttalag ákærða fyrir dómi á þessum tíma og í læknisfræðilegum gögnum, sem lýst er, en gegn neitun ákærða, er sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi, sem honum er gefin að sök í þessum ákærulið og er háttsemi ákærða rétt færð til refsiákvæðis.

 

Ákæruliður 3.

Sannað er með skýlausri játningu ákærða fyrir dómi og með öðrum gögnum málsins að hann hafi gerst sekur um háttsemi þá, sem í þessum ákærulið greinir og er brot hans þar rétt fært til refsiákvæðis.

 

Ákæruliður 4.

Ákærði hefur borið að hann hafi tekið heimabíóið og það væri í sinni vörslu, en A hafi haft rétt til að sækja það.  Ákærði hefur jafnframt borið að hann eigi heimabíóið.  Ákærði tók munina af heimili A og hefur engin gögn lagt fram því til stuðnings að hann hafi átt það.  Engin gögn hafa verið færð fram þessu til stuðnings.  Er því sannað gegn neitun ákærða, en með vitnisburði A og því að ákærði tók heimabíóið, eins og hann hefur sjálfur borið, að hann hafi gerst sekur um háttsemi þá, sem um ræðir í þessum ákærulið og er brot hans rétt fært til refsiákvæðis.

 

Því er áður lýst að ákærði játar sök samkvæmt ákæru dags. 14. janúar 2004 og vísast til þess, sem að ofan greinir þar um.

 

Frá því á árinu 1991 hefur ákærði hlotið 22 refsidóma fyrir ýmiss konar afbrot.  Hann hefur fjórum sinnum hlotið dóma fyrir líkamsárásir og margsinnis fyrir auðgunarbrot.  Síðast hlaut ákærði dóm í mars 2003, 6 mánaða fangelsi fyrir líkamsárás, en þá var ákærði dæmdur fyrir tvær líkamsárásir gegn A.

Refsing ákærða, sem er vanaafbrotamaður, er ákvörðuð með hliðsjón af 71., 72., 77. og 255. gr. almennra hegningarlaga. Ákvæði 205. gr. almennra hegningarlaga koma ekki til álita eins og hér stendur á, en verjandi ákærða krafðist þess að tekið yrði mið af ákvæðinu við refsiákvörðun samkvæmt undirstöðurökum þess. Til rökstuðnings þessu vitandi verjandinn til náinna samskipta ákærða og A eftir atburði þá sem hér um ræðir.

Brot ákærða eru stórfelld og hrottafengin. Ákærði á sér engar málsbætur.  Refsing hans þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í 3 ár og 6 mánuði.

 

Skaðabótakrafa A er samansett í mörgum liðum, en krafist er 2.000.000 króna í miskabætur. A á rétt á miskabótum úr hendi ákærða, skv. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Eins og rakið var braut ákærði freklega gegn A og þykja miskabætur til hennar hæfilega ákvarðaðar 1.000.000 krónur auk vaxta eins og í dómsorði greinir, en vaxtakröfu hefur verið breytt þannig, að krafist er dráttarvaxta frá 7. ágúst 2003, en þá var mánuður liðinn frá því ákærða var birt krafan. Í kröfugerð kemur fram að krafist er vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 fram að upphafstíma dráttarvaxta. Er við þetta miðað í dómsorði. 

Í kröfugerðinni eru sextán kröfuliðir vegna munatjóns, samtals að fjárhæð 407.000 krónur. Þótt einstökum kröfuliðum fylgi ekki gögn hefur þeim ekki verið andmælt utan að krafist er lækkunar einstakra liða. Ákærði hefur viðurkennt að hafa unnið skemmdir á munum í eigu A og er skaðabótaskyldur vegna skemmda sem hann vann. Hluta skemmda má sjá á ljósmyndum meðal gagna málsins. Að öllu þessu virtu þykir rétt, eins og hér stendur á, að dæma A bætur að álitum. Þykja bæturnar hæfilega ákvarðaðar 250.000 krónur.

Loks er krafist 130.000 króna í bætur fyrir heimabíó, sem ákærði stal.  Er þessi krafa tekin til greina og verður ekki betur séð en að kröfunni sé í hóf stillt.

Ákærði er samkvæmt því sem nú hefur verið rakið, dæmdur til að greiða A 1.380.000 krónur auk vaxta eins og í dómsorði greinir. 

Ákærði greiði 100.000 krónur í réttargæsluþóknun til Jóns Ármanns Guðjónssonar héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns A.

Ákærði greiði Olíufélaginu hf. 4.002 krónur í skaðabætur.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með taldar 250.000 krónur í málsvarnarlaun til Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns.

Kolbrún Sævarsdóttir fulltrúi flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Guðjón St. Marteinsson, sem dómsformaður, Sigríður Ólafsdóttir og Sigurður T. Magnússon.

 

DÓMSORÐ:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 3 ár og 6 mánuði.

Ákærði greiði A, kt. [...], 1.380.000 krónur í skaðabætur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 31. maí 2003 til 7. ágúst 2003, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði Olíufélaginu hf., kt. 541201-3940, 4.002 krónur í skaðabætur.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með taldar 100.000 krónur í réttargæsluþóknun til Jóns Ármanns Guðjónssonar héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns A og 250.000 krónur í málsvarnarlaun til Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns.