Hæstiréttur íslands
Mál nr. 60/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Farbann
|
|
Föstudaginn 16. febrúar 2001. |
|
Nr. 60/2001. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík (Egill Stephensen saksóknari) gegn A (Magnús Björn Brynjólfsson hdl.) |
Kærumál. Farbann.
A kærði þá ákvörðun héraðsdóms að banna honum för frá Íslandi allt til 2. apríl 2001. A var sakaður um að hafa ráðist á karlmann og veitt honum tvö stungusár með hnífi. A, sem var alsírskur ríkisborgari, var atvinnulaus og átti ekki fjölskyldu hér á landi. Þá hafði hann um nokkurn tíma haft hug á að halda af landi brott. Fallist var á að nauðsynlegt væri að tryggja nærveru hans til að ljúka mætti rannsókn málsins og taka ákvörðun um hvort af saksókn yrði. Voru því talin fyrir hendi skilyrði til að neyta heimildar í 110. gr. laga nr. 19/1991 til að banna A för úr landi. Var hin kærða ákvörðun því staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. febrúar 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærð er ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 12. febrúar 2001, þar sem varnaraðila var bönnuð för frá Íslandi allt til mánudagsins 2. apríl nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.
Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun héraðsdómara verði staðfest.
Varnaraðili var handtekinn 5. janúar 2001, grunaður um að hafa fyrr þann dag ráðist á Redouane Adam Anbari fyrir utan veitingastaðinn Hróa Hött í Faxafeni í Reykjavík og veitt honum tvö stungusár með hnífi. Varnaraðila, sem neitar sök, var með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 6. janúar 2001, sem var staðfestur með dómi Hæstaréttar 9. sama mánaðar, gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til 6. febrúar 2001. Þann dag var gæsluvarðhald yfir varnaraðila framlengt með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur allt til 6. mars nk. Með dómi Hæstaréttar 9. febrúar 2001 var sá úrskurður felldur úr gildi. Sóknaraðili krafðist 12. sama mánaðar að varnaraðila yrði bönnuð för úr landi allt til 2. apríl nk. Sú krafa var tekin til greina með hinni kærðu ákvörðun.
Í áðurnefndum dómi Hæstaréttar 9. febrúar sl. var ekki fallist á með sóknaraðila að þörf væri á gæsluvarðhaldi yfir varnaraðila vegna rannsóknar á sakargiftum á hendur honum. Þá var heldur ekki fallist á að skilyrði væru til gæsluvarðhalds samkvæmt b. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 þótt varnaraðili sé erlendur ríkisborgari, sem hvorki stundi atvinnu né eigi fjölskyldu hér á landi. Var því og hafnað að ákvæði 2. mgr. sömu lagagreinar gæti átt um kröfu sóknaraðila. Af þeim sökum var úrskurður héraðsdóms um gæsluvarðhald felldur úr gildi. Með þessu var hins vegar ekki tekin afstaða til þess hvort til greina kæmi að beita öðrum og léttbærari aðgerðum til að takmarka frelsi varnaraðila, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar í dómasafni 1995, bls. 2377. Verður því ekki fallist á mótmæli varnaraðila á þessum grunni gegn kröfu sóknaraðila um farbann.
Fyrir liggur að varnaraðili er alsírskur ríkisborgari. Hann hefur ekki andmælt áðurgreindum staðhæfingum sóknaraðila um að hann hafi hvorki atvinnu né fjölskyldu hér á landi. Í málinu liggja fyrir gögn, sem hníga að því að hann hafi um nokkurn tíma haft hug á að halda af landi brott. Fallast verður á með sóknaraðila að nauðsynlegt sé að tryggja nærveru varnaraðila til að ljúka megi rannsókn málsins og taka ákvörðun um hvort af saksókn verði. Samkvæmt þessu eru fyrir hendi skilyrði til að neyta heimildar í 110. gr. laga nr. 19/1991 til að banna varnaraðila för úr landi. Verður hin kærða ákvörðun því staðfest.
Dómsorð:
Hin kærða ákvörðun er staðfest.
Ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 12. febrúar 2001.
Ár 2001, þriðjudaginn 12. febrúar, er dómþing Héraðsdóms Reykjavíkur háð í Dómhúsinu við Lækjartorg af Ragnheiði Bragadóttur héraðsdómara.
Fyrir er tekið:
Mál nr. R-56/2001:
Krafa lögreglustjórans í Reykjavík um
að A verði
gert að sæta farbanni.
Kl. 10:30 kemur í dóminn Elín Vigdís Hallvarðsdóttir, fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík, og leggur fram kröfu þess efnis að A, alsírskum ríkisborgara, til heimilis að [...], verði bönnuð för frá Íslandi allt til 2. apríl 2001.
Krafan er þingmerkt nr. 1.
Rannsóknargögn málsins liggja frammi. Einnig liggur frammi þýðing á bréfi kærða ásamt viðfestu bréfi hans á arabisku í desember 1999.
Á sama tíma mætir í dóminn kærði, A. Með honum mætir Magnús Brynjólfsson hdl., skipaður verjandi hans. Einnig er mættur í dóminn Ómar Samir sem mun túlka fyrir kærða á arabisku. Hann staðfestir að ofangreind þýðing á bréfi kærða frá desember 1999 sé rétt.
Kærða er bent á að honum sé óskylt að svara spurningum er varða brot það sem honum er gefið að sök, sbr. 3. mgr. 32. gr. laga nr. 19,1991 og er kærði ennfremur áminntur um sannsögli, sbr. 1. mgr. 33. gr. sömu laga. Kærða er jafnframt bent á að honum sé heimilt að ráðfæra sig við skipaðan verjanda á meðan á þinghaldi stendur, sbr. 3. mgr. 33. gr. laga nr. 19,1991.
Kærða er kynnt krafan á dskj. nr. 1. Kærði mótmælir kröfunni.
Sakarefnið er borið undir kærða. Hann neitar sök og kveðst engu hafa við fyrri framburð sinn í málinu að bæta. Kærði kveður það rétt vera að ofangreint bréf frá því í desember 1999 stafi frá sér og að hann hafi sent lögreglunni í Reykjavík bréfið. Það hafi hins vegar verið sent í tilefni af öðru máli.
Fulltrúi lögreglustjóra reifar málavexti og rökstyður kröfu sína með því að kærði sé erlendur ríkisborgari, sem kyrrsettur hafi verið af hér á landi árið 1996 þar sem vegabréf hans hafi reynst falsað, en kærði hafi verið á leið til Kanada. Kærði stundi ekki atvinnu hér á landi og eigi hér ekki fjölskyldu. Þá hafi hann engin önnur tengsl við landið. Þá hafi hann lýst því í samtölum við félagsráðgjafa og geðlækni að honum falli illa á Íslandi og vilji leita leiða til að komast úr landi. Sama viðhorf komi fram í ofangreindu bréfi hans til lögreglu frá desember 1999. Með tilliti til þessa sé nauðsynlegt að tryggja að kærði fari ekki úr landi. Fulltrúi lögreglustjóra ítrekar gerða kröfu um að kærða verði bönnuð brottför af landinu og leggur málið að svo búnu í úrskurð eða ákvörðun dómara með venjulegum fyrirvara.
Verjandi kærða ítrekar mótmæli við kröfunni. Hann bendir á að kærði sé án vegabréfs og hafi ekki fjárhagslega getu til að komast úr landi. Þá bendir hann á að í dómi Hæstaréttar frá 9. febrúar sl. hafi því verið hafnað að skilyrði b- liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála væru fyrir hendi og telur hann að sömu rök eigi við í máli þessu. Þá bendir verjandi á að kærði hafi komið hingað til lands árið 1996, og sé búinn að dvelja hér síðan og hafi ekki reynt að koma sér úr landi á þeim tíma. Að lokum mótmælir verjandi því að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið refsiverðan verknað. Að svo búnu leggur hann málið í úrskurð eða ákvörðun dómara.
Fulltrúi lögreglustjóra tekur aftur til máls og ítrekar gerðar kröfur og leggur málið í úrskurð eða ákvörðun dómara.
Verjandi kærða tekur aftur til máls og ítrekar gerðar kröfur og leggur málið í úrskurð eða ákvörðun dómara.
Málið er lagt í úrskurð eða ákvörðun dómara.
Upplesið, staðfest rétt bókað.
Í dóminum er nú skv. 110. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 tekin svohljóðandi
ákvörðun:
Kærða, A, er bönnuð för frá Íslandi. Bann þetta stendur til 2. apríl 2001 nema öðruvísi verði ákveðið.
Ragnheiður Bragadóttir settur héraðsdómari.