Hæstiréttur íslands

Mál nr. 256/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Málshöfðunarfrestur
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


Mánudaginn 1

 

Mánudaginn 1. september 2003.

Nr. 256/2003.

Þrotabú Jóns Bjargmundssonar

(Sigurbjörn Þorbergsson hdl.)

gegn

Sveini B. Steingrímssyni

(Grétar Haraldsson hrl.)

 

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Málshöfðunarfrestur. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

Þrotabú J kærði úrskurð héraðsdómara þar sem máli þess á hendur S var vísað frá dómi sökum þess að það hafði verið höfðað að liðnum málshöfðunarfresti samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Fyrir lá að kröfulýsingarfresti við gjaldþrotaskipti þrotabúsins lauk 18. febrúar 2002. Samkvæmt síðari málslið 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991 getur sá sex mánaða frestur, sem þar um ræðir og þrotabúið naut til að höfða mál þetta, fyrst hafa byrjað að líða þann dag en ekki yrði annað ráðið af því, sem fram er komið í málinu, en að á þeim tíma hafi þrotabúið ekki haft handbært fé til að standa að málsókn á hendur S. Slík málsókn væri þannig háð því að lánardrottnar, einn eða fleiri, tækju að sér að standa straum af kostnaði af henni. Ekki voru efni til að taka afstöðu til þess atriðis fyrr en á fyrsta skiptafundi í þrotabúinu 16. apríl 2002, sem undir þessum kringumstæðum yrði að marka upphaf málshöfðunarfrests samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991. Var því fallist á það með þrotabúinu að frestur til að höfða málið hafi ekki verið liðinn 24. september 2002 þegar stefna í því var birt S. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. júní 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. júlí sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms  Reykjavíkur 3. júní 2003, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður.

I.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði gaf Jón Bjargmundsson út fjögur samhljóða skuldabréf til handhafa, en hvert þeirra var að fjárhæð 750.000 krónur. Báru skuldabréfin útgáfudaginn 15. febrúar 2001. Fjárhæð skuldarinnar átti að greiða með átta jöfnum afborgunum á sex mánaða fresti, í fyrsta sinn 15. ágúst 2001, ásamt nánar tilgreindum vöxtum. Til tryggingar skuldinni var sett að veði með fyrsta veðrétti sumarhús á lóð nr. 35 í landi Kiðjabergs, en tekið var fram að því fylgdu engin lóðarréttindi. Skuldabréf þessi voru afhent sýslumanninum á Selfossi til þinglýsingar 10. apríl 2001 og voru þau innfærð í lausafjárbók sama dag.

Samkvæmt gögnum málsins tók Jón áðurnefnda lóð í landi Kiðjabergs á leigu til 70 ára af Meistarafélagi húsasmiða með samningi 19. júlí 1990. Í sameiginlegri yfirlýsingu Jóns og félagsins 28. mars 2001 var greint frá því að samkomulag hafi tekist milli þeirra um að „ógilda“ þann samning. Sama dag gerði félagið nýjan leigusamning um lóðina við Rakel Björgu Jónsdóttur, Bjargmund Jónsson og Steingrím Má Jónsson, sem munu öll vera börn Jóns Bjargmundssonar.

Bú Jóns mun hafa verið tekið gjaldþrotaskipta 12. september 2001. Skiptastjóri, sem skipaður var til að fara með skiptin, sagði sig nokkru síðar frá starfinu og var annar skipaður í hans stað 15. nóvember 2001. Innköllun þess skiptastjóra birtist fyrra sinni í Lögbirtingablaði 18. desember 2001 og lauk því kröfulýsingarfresti í þrotabúinu 18. febrúar 2002. Í innkölluninni var jafnframt boðað til fyrsta skiptafundar í þrotabúinu, sem haldinn skyldi 16. apríl 2002.

Í málinu liggur fyrir að skiptastjóri tók skýrslu af þrotamanninum 17. desember 2001, þar sem meðal annars var upplýst að þrotabúið ætti áðurnefnt sumarhús í landi Kiðjabergs, sem væri án lóðarréttinda. Kvaðst þrotamaðurinn jafnframt telja að á húsinu „hvíli veð sem þinglýst sé í lausafjárbók Árnessýslu.“ Þrotamaðurinn gaf aftur skýrslu hjá skiptastjóra 26. febrúar 2002, þar sem fram kom að umrætt veð væri nánar tiltekið fyrir fjórum skuldabréfum, hverju að fjárhæð 750.000 krónur.

Skiptastjórinn í þrotabúi Jóns ritaði 25. mars 2002 undir kaupsamning og afsal fyrir áðurnefndu sumarhúsi, en kaupendur þess voru fyrrgreindir nýir leigutakar að lóðinni, sem húsið var á. Samkvæmt þessu skjali var umsamið kaupverð 5.000.000 krónur, en af því bar þá þegar að greiða 500.000 krónur með peningum. Að öðru leyti skyldu kaupendurnir greiða fyrir húsið með því að taka að sér skuld samkvæmt fyrrnefndum veðskuldabréfum, sem var sögð nema orðið alls 4.474.452 krónum með áföllnum vöxtum og kostnaði, og taka að sér að greiða áfallin fasteignagjöld, vátryggingariðgjöld og lóðarleigu, sem ekki var þó greint nánar frá.

Á kröfulýsingarfresti í þrotabúinu var lýst 16 kröfum á hendur því að fjárhæð samtals 77.860.798 krónur. Á skiptafundi, sem haldinn var 16. apríl 2002 í samræmi við áðurnefnt fundarboð í innköllun, var aðeins mætt af hendi eins lánardrottins af þeim fjórtán, sem lýstu fyrrgreindum kröfum. Samkvæmt fundargerð frá fundinum var meðal annars rætt þar um ráðstafanir skiptastjóra, en af henni verður ekki ráðið að komið hafi til umræðu hvort freista ætti riftunar á framangreindum ráðstöfunum þrotamannsins. Á hinn bóginn liggur fyrir að annar lánardrottinn, Húsasmiðjan hf., gerði í orðsendingu til skiptastjórans 4. maí 2002 verulegar athugasemdir við þessar ráðstafanir ásamt sölu sumarhússins til barna þrotamannsins og krafðist þess „að málinu verði sinnt með viðeigandi hætti.“ Með bréfi til skiptastjóra 22. sama mánaðar ítrekaði Húsasmiðjan hf. þetta erindi sitt og krafðist þess meðal annars að samningur um sölu sumarhússins yrði „ógiltur“ og veðsetningu þess með áðurnefndum skuldabréfum rift. Samkvæmt fundargerð, sem lögð hefur verið fram í málinu, hélt skiptastjóri skiptafund samkvæmt kröfu Húsasmiðjunnar hf. 19. september 2002. Var þar ákveðið að höfðað yrði mál í nafni þrotabúsins gegn varnaraðila „til riftunar á ráðstöfunum í tengslum við 4 veðskuldabréf samtals að nafnverði kr. 3.000.000,-.“ og nafngreindum lögmanni falið að fara með það.

Í samræmi við framangreinda ákvörðun höfðaði sóknaraðili mál þetta gegn varnaraðila 24. september 2002. Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði gerði sóknaraðili aðallega þá kröfu að rift yrði gjöf þrotamannsins til varnaraðila á þeim fjórum veðskuldabréfum, sem áður er getið, til vara að rift yrði veðsetningu samkvæmt þessum skuldabréfum, en til þrautavara að rift yrði greiðslu, sem innt hafi verið af hendi með skuldabréfunum, á skuld þrotamannsins við varnaraðila. Í öllum tilvikum krafðist sóknaraðili þess jafnframt að varnaraðila yrði gert að greiða sér 4.474.452 krónur ásamt nánar tilteknum dráttarvöxtum. Með hinum kærða úrskurði féllst héraðsdómari á kröfu varnaraðila um að málinu yrði vísað frá dómi sökum þess að það hafi verið höfðað að liðnum málshöfðunarfresti samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

II.

Samkvæmt yfirlýsingu skiptastjóra í þrotabúi Jóns Bjargmundssonar 23. maí 2003, sem lögð hefur verið fram í málinu, er það eignalaust ef frá eru talin réttindi, sem það kann að geta unnið sér með máli þessu. Tekið var fram í yfirlýsingunni að 500.000 krónur, sem skiptastjóri hafi fengið við áðurnefnda sölu á sumarhúsi 25. mars 2002, hafi gengið upp í áfallinn skiptakostnað og hrökkvi ekki fyrir honum. Þá liggur fyrir að Húsasmiðjan hf. ábyrgist greiðslu kostnaðar sóknaraðila af rekstri málsins, þar á meðal málskostnaðar, sem kann að verða felldur á hann.

Kröfulýsingarfresti við gjaldþrotaskipti sóknaraðila lauk sem áður segir 18. febrúar 2002. Samkvæmt síðari málslið 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991 getur sá sex mánaða frestur, sem þar um ræðir og sóknaraðili naut til að höfða mál þetta, fyrst hafa byrjað að líða þann dag. Ekki verður annað ráðið af því, sem fram er komið í málinu, en að á þeim tíma hafi sóknaraðili ekki haft handbært fé til að standa að málsókn á hendur varnaraðila. Slík málsókn var þannig háð því að lánardrottnar, einn eða fleiri, tækju að sér að standa straum af kostnaði af henni. Ekki voru efni til að taka afstöðu til þess atriðis fyrr en á fyrsta skiptafundi í þrotabúinu. Sá fundur var sem áður segir haldinn 16. apríl 2002, sem undir þessum kringumstæðum verður að marka upphaf málshöfðunarfrests samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar í dómasafni 1997, bls. 4.

Að framangreindu virtu verður að fallast á með sóknaraðila að frestur til að höfða mál þetta hafi ekki verið liðinn 24. september 2002, þegar stefna í því var birt varnaraðila. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili, Sveinn B. Steingrímsson, greiði sóknaraðila, þrotabúi Jóns Bjargmundssonar, samtals 200.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júní 2003.

I.

         Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda föstudaginn 23. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af þrotabúi Jóns Bjargmundssonar, kt. 050149-3829, Kirkjutorgi 4, Reykjavík, með stefnu birtri 24. september 2002 á hendur Sveini B. Steingrímssyni kt. 271236-4769, Kaplaskjólsvegi 63, 107 Reykjavík.

         Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að rift verði með dómi gjöf til stefnda í formi afhendingar Jóns Bjargmundssonar, kt. 050149-3829, til stefnda á fjórum veðskuldabréfum, hverju um sig að fjárhæð kr. 750.000,­ með útgáfudegi 15. febrúar 2001, samtals öll fjögur að nafnverði kr. 3.000.000.  Hvert bréfanna er til fjögurra ára með gjalddaga á 6 mánaða fresti, þeim fyrsta 15. ágúst 2001.  Hvert bréfanna er tryggt samhliða hinum, með l. veðrétti í sumarhúsi, án lóðaréttinda, á lóð nr. 35 í landi Kiðjabergs, fastanr. 220-7709.  Þinglýsinganúmer skuldabréfanna eru B367, B368, B369 og B370, og eru þau færð í lausafjárbók sýslumannsins á Selfossi.  Þá krefst stefnandi þess, að stefnda verði gert að greiða stefnanda kr. 4.474.452, auk dráttarvaxta samkvæmt l. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 25. marz 2002 til greiðsludags auk málskostnaðar að skaðlausu að mati réttarins.  Til vara gerir stefnandi þær kröfur, að rift verði með dómi veðsetningu á eignarhluta Jóns Bjargmundssonar kt. 050149­3829 í sumarhúsi, staðsettu á lóð nr. 35, merktri 169851, í landi Kiðjabergs í Árnessýslu, fastanúmer 220-7709, með fjórum veðskuldabréfum, hverju um sig að fjárhæð kr. 750.000, með útgáfudegi 15. febrúar 2001, samtals öll fjögur að nafnverði kr. 3.000.000.  Hvert bréfanna er til fjögurra ára, með gjalddaga á 6 mánaða fresti, þeim fyrsta 15. ágúst 2001.  Hvert bréfanna er tryggt samhliða hinum, með l. veðrétti í eigninni.  Þinglýsingarnúmer skuldabréfanna eru B367, B368, B369 og B370, og eru þau færð í lausafjárbók sýslumannsins á Selfossi.  Þá krefst stefnandi þess, að stefnda verði gert að greiða stefnanda kr. 4.474.452, auk dráttarvaxta samkvæmt l. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 25. marz 2002 til greiðsludags auk málskostnaðar að skaðlausu að mati réttarins.  Til þrautavara gerir stefnandi þær kröfur, að rift verði með dómi greiðslu skuldar Jóns Bjargmundssonar, kt. 050149-3829, við stefnda með óvenjulegum greiðslueyri í formi afhendingar þrotamanns til stefnda á fjórum veðskuldabréfum, hverju um sig að fjárhæð kr. 750.000, með útgáfudegi 15. febrúar 2001, samtals öll fjögur að nafnverði kr. 3.000.000.  Hvert bréfanna er til fjögurra ára með gjalddaga á 6 mánaða fresti, þeim fyrsta 15. ágúst 2001.  Hvert bréfanna er tryggt samhliða hinum með 1. veðrétti í sumarhúsi, án lóðaréttinda, á lóð nr. 35 í landi Kiðjabergs, fastanr. 220-7709.  Þinglýsingarnúmer skuldabréfanna eru B367, B368, B369 og B370 og eru þau færð í lausafjárbók sýslumannsins á Selfossi. Þá krefst stefnandi þess, að stefnda verði gert að greiða stefnanda kr. 4.474.452, auk dráttarvaxta samkvæmt l. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 25. marz 2002 til greiðsludags auk málskostnaðar að skaðlausu að mati réttarins.

         Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að málinu verði vísað frá dómi, en til vara, að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda, og til þrautavara, að dómkröfurnar verði lækkaðar.  Í öllum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar, að viðbættum virðisaukaskatti.

II.

Málavextir:

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 12, september 2001 var bú Jóns Bjargmundssonar, kt. 050149-3829, tekið til gjaldþrotaskipta.  Í framhaldi af því var Sigurður Georgsson hrl. skipaður skiptastjóri þrotabúsins.  Frestdagur við skiptin var 17. ágúst 2001 og rann kröfulýsingafrestur út 18. febrúar 2002.  Lýstar kröfur í þrotabúið voru samtals að fjárhæð kr. 77.860.798.  Fyrsti skiptafundur var haldinn 16. apríl 2002.

         Í skýrslu þrotamanns við gjaldþrotaskiptin kom fram að eignir hans voru 50 % eignarhluti í yfirveðsettri fasteign við Bogahlíð í Reykjavík og sumarbústaður án lóðarréttinda í Kiðjabergslandi.  Fram kom við skýrslutökuna að þrotamaður teldi að á á sumarbústaðnum hvíldi veð sem þinglýst væri í lausafjárbók sýslumannsins á Selfossi.

         Við skoðun skiptastjóra kom í ljós að þann 10. apríl 2001 hafði fjórum veðskuldabréfum, hvert um sig að fjárhæð kr. 750.000 að nafnverði, eða samtals að fjárhæð kr. 3.000.000 að nafnverði, verið þinglýst á 1. veðrétt umrædds sumar­bústaðar og að þinglýsingin hafði verið færð inn í lausafjárbók sýslumannsins á Selfossi.  Skuldabréfin eru dagsett 15. febrúar 2001.  Jafnframt leiddi athugun skiptastjóra í ljós að þann 28. marz 2001 hafði þrotamaður skilað inn lóðaréttindum sínum í Kiðjabergi til landeiganda og að sama dag höfðu aðilar nákomnir þrotamanni tekið við lóðarréttindunum.

         Stefnandi kveður skuldheimtumenn hafa sótt mjög hart að þrotamanni fyrri part ársins 2001, og hafi sumarbústaðurinn, ásamt fleiri eignum þrotamanns, verið kyrrsettur að kröfu Húsasmiðjunnar hf. þann 5. apríl 2001.  Sama dag hafi verið gert fjárnám í sumarbústaðnum að kröfu Járnbendingar ehf.  Ekki hafi verið unnt að þinglýsa þessum skjölum, þar sem þrotamaður hafi ekki lengur reynzt vera þinglýstur eigandi lóðarinnar, sem sumarbústaðurinn stóð á.

         Þann 25. marz 2002 hafi skiptastjóri ákveðið að selja börnum þrotamanns sumar­bústaðinn fyrir kr. 5.000.000 og hafi kaupverðið greiðzt þannig:  Kr. 500.000 með peningum og kr. 4.474.452 með yfirtöku á þeim 4 veðskuldabréfum, sem að ofan sé lýst, en miðað hafi verið við stöðu þeirra bréfa samkvæmt greiðsluáskorun Helgu Leifsdóttur hdl., dags. 25. feb. 2002.  Þegar Húsasmiðjan hf. varð áskynja um þessa ráðstöfun skiptastjóra hafi félagið gert athugasemd við þennan gerning, sem ekki hafi verið kynntur kröfuhöfum fyrirfram á skiptafundi.

         Á skiptafundi 19. september 2002 hafi verið ákveðið, að kröfu Húsasmiðjunnar hf., að höfða mál til riftunar á umræddum ráðstöfunum þrotamanns.  Jafnframt hafi verið ákveðið, að Sigurbirni Þorbergssyni hdl., yrði falið að reka mál þetta af hálfu þrotabúsins.

III.

Málsástæður stefnanda:

Aðalkrafa:

Stefnandi kveður kröfu um riftun á gjafagerningi til stefnda byggða á ákvæði l. mgr. 130. gr. l. nr. 21/1991, sbr. 140. gr. 1. nr. 21/1991.  Byggt sé á því, að um riftanlegan gjafagerning sé að ræða, enda komi hvergi fram, að nokkur verðmæti hafi komið í stað veðskuldabréfanna til þrotamanns.  Ekki komi fram á bankareikningum þrotamanns, að verðmæti hafi komið í stað skuldabréfanna.  Þrotamaður hafi ekki lýst því, hvað hann hafi fengið fyrir bréfin í skýrslutökum hjá skiptastjóra, eða gert grein fyrir ráðstöfun meintra verðmæta.  Sé á því byggt, að um málamyndagerning sé að ræða, sem leitt hafi til skerðingar á eignamassa þrotabúsins til tjóns fyrir kröfuhafa.  Sé á því byggt, að stefndi hafi auðgazt við móttöku umræddra fjögurra skuldabréfa, þar sem ekki verði séð, að hann hafi látið nokkur verðmæti af hendi rakna til þrotamanns, en stefndi beri sönnunarbyrði um það atriði.  Sé á því byggt, að þar sem eignamassi þrotamanns hafi skerzt og stefndi auðgazt að sama skapi við löggerning þennan, sé í ljós leiddur gjafatilgangur þrotamanns með ráðstöfun þessari.  Sé því öllum efnis­legum skilyrðum 1. mgr. 131. gr. l. nr. 21/1991 fullnægt.

         Byggt sé á því, að formlegt skilyrði 1. mgr. 131. gr. l. nr. 21/1991 um, að riftanleg ráðstöfun hafi farið fram innan 6 mánaða fyrir frestdag sé uppfyllt.  Samkvæmt 140. gr. l. nr. 21/1991 beri að miða upphafstímamark við þinglýsingu eða aðra tryggingarráðstöfun, sem hindri, að betri réttur fáist með fullnustugerð.  Frestdagur við skiptin hafi verið 17. ágúst 2001, en skuldabréfin hafi verið afhent til þinglýsingar þann 10. apríl 2001.  Afhending skuldabréfanna til þinglýsingar marki fyrsta mögulega viðmið, og sé það innan 6 mánaða frests 131. gr. 1. nr. 21/1991.

         Einnig sé sérstaklega á því byggt, að útgáfudagsetning bréfanna standist ekki skoðun og sé röng, enda beri efni bréfsins það með sér.  Þessi aðstaða styðji enn frekar, að um hreinan málamyndagerning sé að ræða, sem sé riftanlegur.  Skuldabréfin séu öll fjögur dagsett 15. febrúar 2001.  Þrotamaður hafi skilað inn lóðarréttindum sínum 28. marz 2001.  Á skuldabréfunum segi, að hinn veðsetti sumarbústaður sé án lóðarleiguréttinda.  Hann hafi hins vegar verið á árituðum útgáfudegi skuldabréfsins með full lóðarleiguréttindi.  Þessi staða leiði líkum að því, að dagsetningin á umræddum veðskuldabréfum sé röng og til málamynda.

         Verði talið, að dagsetning veðskuldabréfsins sé rétt, hafi réttarvernd gagnvart þriðja manni verið fallin niður þegar á þinglýsingardegi vegna þess, að þriggja vikna tímafrestur frá útgáfudegi, sem 48. gr. l. nr. 39/1979 kveði á um, hafi verið löngu liðinn, þegar skuldabréfunum var þinglýst 10. apríl 2001.  Veðsetningin hafi þ.a.l. ekki notið réttarverndar gagnvart þriðja manni þegar af þeirri ástæðu, hvorki fyrir né eftir frestdag.

         Einnig sé byggt á því, að umræddum skuldabréfum hafi verið þinglýst í röngu umdæmi, en þrotamaður hafi átt lögheimili í Reykjavík og hafi því borið að þinglýsa skuldabréfunum í lausafjárbók sýslumannsembættisins í Reykjavík, sbr. 47. gr. 1. nr. 39/1979.  Þar sem það var ekki gert, sé ljóst, að ráðstöfunin hafi ekki notið réttarverndar fyrir frestdag gagnvart þriðja manni, sbr. 140. gr. l. nr. 21/1991.

         Einnig sé á því byggt, að bréfum með þinglýsingarnúmer B 368 og B 369 hefði átt að vísa frá þinglýsingu, og að þinglýsing þeirra sé markleysa, þar sem fastanúmer hins veðsetta sumarhúss sé ranglega tilgreint í lýsingu á veðandlagi.  Aldrei hefði í raun verið hægt að tryggja réttarvernd gagnvart þriðja aðila vegna þessara tveggja skulda­bréfa.

         Krafa um greiðslu á kr. 4.474.452 byggi á því, að hin riftanlega ráðstöfun hafi komið stefnda að notum sem svari þessari fjárhæð.  Eins samsvari þessi fjárhæð fjártjóni þrotabúsins, þar sem veðskuldabréfin hafi verið yfirtekin af kaupendum sumar­hússins miðað við, að staða þeirra væri þessi tiltekna stefnufjárhæð.  Fjárkrafan byggi á reglu 142. gr. 1. nr. 21/1991.

Varakrafa:

Krafa um riftun á veðrétti byggi á 2. málslið 1. mgr. 137 gr. l. nr. 21/1991, þar sem segi að rifta megi veðrétti, ef slíkum réttindum sé ekki þinglýst, eða þau séu ekki tryggð á annan hátt gegn fullnustugerðum án ástæðulauss dráttar, eftir að skuldin varð til og ekki fyrr en á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag.  Skuldabréfin séu öll dagsett 15. febrúar 2001.  Þeim hafi ekki verið þinglýst fyrr en 10. apríl 2001.  Frestdagur sé 17. ágúst 2001.  Þinglýsingin eigi sér því stað innan 6 mánaða fyrir frestdag.  Raunar hafi réttarverndar gagnvart þriðja manni aldrei verið aflað, þar sem bréfunum hafi verið þinglýst á röngu varnarþingi eftir lögbundinn þriggja vikna frest, sbr. 47. og 48. gr. 1. nr. 39/1978, og sé sérstaklega á því byggt.

         Ástæðulaus dráttur hafi orðið á þinglýsingunni, þar sem tveir mánuðir liðu frá dags. útgáfu bréfanna til þinglýsingardags, en þinglýsingalög geri ráð fyrir, að sjálfsvörslu­veði í lausafé sé þinglýst innan þriggja vikna frá útgáfudegi.  Efnislegum og formlegum riftunarskilyrðum 1. mgr. 137 gr. 1. nr. 21/1991 sé því fullnægt.  Riftunarreglan sé hlutlæg og nægi að sýna fram á, að formleg skilyrði fyrir beitingu ákvæðisins séu til staðar.  Þá beri einnig að líta til þess, að öll umgjörð og frágangur þessa máls beri með sér, að um málamyndagerning sé að ræða.

         Krafa um greiðslu á kr. 4.474.452 byggir á því, að hin riftanlega ráðstöfun hafi komið stefnda að notum sem svari þessari fjárhæð.  Eins samsvarar þessi fjárhæð fjártjóni þrotabúsins, þar sem veðskuldabréfin hafi verið yfirtekin af kaupendum sumarhússins miðað við að staða þeirra væri þessi tiltekna stefnufjárhæð.  Fjárkrafan byggi á reglu 142. gr. 1. nr. 21/1991.

Þrautavarakrafa:

Þessi kröfuliður sé settur fram til öryggis og byggi á ákvæði 134. gr. l. nr. 21/1991, beri stefndi því við, að hann hafi móttekið umrædd skuldabréf til greiðslu á eldri skuld. Ekkert bókhald hafi komið fram af hálfu þrotamanns, og raunar hafi þrotamaður veitt afar óskýr svör hjá skiptastjóra.  Jafnframt hafi engin skýrsla verið tekin af stefnda hjá skiptastjóra.  Stefnanda þyki því rétt að hafa þessa kröfugerð uppi til öryggis.  Viðurkennt sé í dómaframkvæmd, að veðskuldabréf teljist óvenjulegur greiðslueyrir, og að stefnda beri að sanna, að slíkur greiðslumiðill teljist venjulegur í innbyrðis viðskiptum þessara aðila.

         Krafa um greiðslu á kr. 4.474.452 byggi á því, að hin riftanlega ráðstöfun hafi komið stefnda að notum sem svari þessari fjárhæð.  Eins samsvari þessi fjárhæð fjártjóni þrotabúsins, þar sem veðskuldabréfin hafi verið yfirtekin af kaupendum sumar­hússins miðað við, að staða þeirra væri þessi tiltekna stefnufjárhæð.  Fjárkrafan byggi á reglu 142. gr. l. nr. 21/1991.

         Stefnandi vísar til ákvæða 131., 134., 137., 140., 141. og 142. gr. l. nr. 21/1991.  Varðandi kröfu um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti er vísað til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.  Um varnarþing er vísað til 31. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um málskostnað er studd við 130. gr. sömu laga.

Málsástæður stefnda:

Aðalkrafa stefnda er sú, að málinu verði vísað frá dómi, og er einungis sá þáttur málsins hér til úrlausnar.  Frávísunarkröfu sína byggir stefndi á því, að kröfulýsingarfrestur hafi runnið út 18. febrúar 2002.  Samkvæmt l. mgr. 148. gr. gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991 hafi málshöfðunarfrestur verið runninn út, þegar mál þetta var höfðað.

Sjónarmið stefnanda varðandi frávísunarkröfu stefnda:

Stefnandi krefst þess, að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað og stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins auk virðisaukaskatts, miðað við 8 klst. vinnuframlag og kr. 8.900 á klukkustund.

IV.

Forsendur og niðurstaða:

Stefndi byggir frávísunarkröfu sína á því, að samkvæmt 1. mgr. 148. gr. l. nr. 21/1991 hafi málshöfðunarfrestur verið útrunninn, þegar málið var höfðað, en ágreiningslaust er með aðilum, að kröfulýsingarfrestur hafi runnið út 18. febrúar 2002.

         Framangreind 1. mgr. 148. gr. gjaldþrotaskiptalaga hljóðar svo:

 

Ef höfða þarf dómsmál til að koma fram riftun skal það gert áður en sex mánuðir eru liðnir frá því skiptastjóri átti þess kost að gera riftunarkröfuna.  Frestur þessi byrjar þó aldrei að líða fyrr en við lok kröfulýsingarfrests.

        

         Samkvæmt þessu lagaákvæði rann málshöfðunarfrestur út í fyrsta lagi þann 18. ágúst 2002.

         Af hálfu stefnanda var við munnlegan málflutning um frávísunarkröfuna á því byggt, að skiptastjóri hafi orðið að taka ákvörðun um málshöfðun á skiptafundi; hann hafi ekki átt þess kost fyrr.  Þá komi fram á dskj. nr. 30, að hann hefði skort gögn til þess að geta tekið ákvörðun um málshöfðun fyrr en gert var.

         Í gögnum málsins kemur fram, að Björn L. Bergsson hrl. var upphaflega skipaður skiptastjóri búsins, en var leystur frá þeim störfum 15. nóvember 2001 og Sigurður Georgsson hrl. skipaður skiptastjóri í hans stað.  Fundur var haldinn á skrifstofu skiptastjóra þann 17. desember 2001, þar sem þrotamaður var mættur og gaf skýrslu.  Hann gaf á ný skýrslu hjá skiptastjóra þann 26. febrúar 2002, og þann 11. marz s.á. gaf Hilmar Viktorsson skýrslu í tengslum við umrædd gjaldþrotaskipti á skrifstofu skiptastjóra.  Fyrsti skiptafundur var síðan haldinn 16. apríl 2002, sbr. dskj. nr. 34.  Ákvörðun um málshöfðun þessa var fyrst tekin á skiptafundi þann 19. september 2002.  Kemur þar fram, að skiptastjóri telji sig skorta gögn frá þrotamanni svo að hann geti tekið afstöðu til málshöfðunar.  Að kröfu lögmanns Húsasmiðjunnar hf. féllst hann engu að síður á, að mál þetta skyldi höfðað í nafni þrotabúsins, án þess að nokkur ný gögn kæmu fram á þeim fundi.  Verður ekki séð, að nein gögn eða upplýsingar hafi borizt skiptastjóra búsins, sem skipt gátu máli varðandi ákvörðun skiptastjóra um málshöfðun, eftir 24. marz 2002, eða á síðustu 6 mánuðum fyrir höfðun máls þessa.  Þá verður ekki séð, að skiptastjóri hafi ekki átt þess kost að taka þá ákvörðun fyrr en í fyrsta lagi á fyrsta skiptafundi 16. apríl 2001, og hefur að auki ekki verið sýnt fram á, að ekki hafi mátt halda þennan fyrsta skiptafund fyrr.  Er því fallizt á frávísunarkröfu stefnda.  Eftir þessum úrslitum ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 75.000 og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. 

         Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Málinu er vísað frá dómi.

      Stefnandi, þrotabú Jóns Bjargmundssonar, greiði stefnda, Sveini B. Steingrímssyni, kr. 75.000 í málskostnað.