Hæstiréttur íslands

Mál nr. 45/2011


Lykilorð

  • Fjárdráttur
  • Opinberir starfsmenn
  • Skilorð


                                                                                              

Fimmtudaginn 6. október 2011.

Nr. 45/2011.

Ákæruvaldið

(Hulda María Stefánsdóttir

settur saksóknari)

gegn

Guðnýju Ólöfu Gunnarsdóttur

(Brynjar Níelsson hrl.)

Fjárdráttur. Opinberir starfsmenn. Skilorð.

G var sakfelld fyrir fjárdrátt í opinberu starfi með því að hafa á sjö mánaða tímabili í starfi sínu sem sendiráðsfulltrúi í sendiráði Íslands í A og síðar stjórnarráðsfulltrúi og starfsmaður á rekstrar- og þjónustusviði utanríkisráðuneytisins dregið sér og notað heimildarlaust í eigin þágu samtals 335.768 evrur. Var brot hennar talið varða við 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 138. gr. sömu laga. Í hinum áfrýjaða dómi, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, var talið sannað með játningu G og öðrum gögnum málsins að hún væri sek um þá háttsemi sem henni var gefin að sök. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að um stórfellt brot var að ræða í opinberu starfi sem náði yfir sjö mánaða tímabil. G játaði brot sitt skýlaust og vísaði á gögn sem flýttu fyrir rannsókn málsins. Þá hafði hún greitt til baka 76.730 evrur. Var refsing G ákveðin fangelsi í 2 ár og voru 22 mánuðir af refsingunni bundnir skilorði vegna sérstakra aðstæðna hennar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. desember 2010 og krefst þess að refsing ákærðu verði þyngd.

Ákærða krefst þess að refsing verði milduð.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærðu, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

          Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

            Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 13. desember 2010.

Mál þetta, sem dómtekið var 2. desember 2010, er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 12. október 2010 á hendur Guðnýju Ólöfu Gunnarsdóttur, kt. [...], [...], [...], „fyrir fjárdrátt í opinberu starfi, með því að hafa á tímabilinu 2. mars til 6. október 2009, í starfi sínu sem sendiráðsfulltrúi í sendiráði Íslands í Vín í Austurríki og síðar stjórnarráðsfulltrúi og starfsmaður á rekstrar- og þjónustusviði utanríkisráðuneytisins, dregið sér og notað heimildarlaust í eigin þágu samtals, 335.768 EUR, með því að millifæra samtals 325.000 EUR í 193 skipti af reikningi nr. 100 106 720 53 í eigu íslenska sendiráðsins í Vínarborg hjá Bank für Arbeit und Wirtschaft und Österreichische Postsparkasse Aktiengesellschaft (BAWAG banka), sem hún hafði prókúru fyrir, yfir á eigin bankareikning nr. 100 100 66 340 hjá sama banka og með því að láta hjá líða að tilkynna að hún væri enn að fá staðaruppbót með sjálfvirkri millifærslu af sama reikningi í eigu íslenska sendiráðsins í Vínarborg og inn á eigin bankareikning í alls 8 skipti samtals 10.768 EUR sem ákærða síðar dró sér og notaði heimildarlaust í eigin þágu.“

Þetta er talið varða við 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 138. gr. sömu laga.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Í málinu gerir utanríkisráðuneytið kröfu um greiðslu skaðabóta á hendur ákærðu að fjárhæð 335.768 evrur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, að teknu tilliti til þeirra endurgreiðslna sem hún innti af hendi, 76.730 evrur, og að krafan beri dráttarvexti skv. 9. gr. sömu laga að liðnum einum mánuði frá birtingu kröfu til greiðsludags.

Ákærða krefst vægustu refsingar er lög leyfa og að hún verði skilorðsbundin að öllu leyti eða hluta. Ákærða samþykkir bótakröfu í málinu. Þá gerir verjandi ákærðu kröfu um hæfilega þóknun sér til handa.

Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærðu hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Ákærða hefur skýlaust játað brot sitt. Sannað er með játningu ákærðu og öðrum gögnum málsins að hún er sek um þá háttsemi sem henni er gefin að sök og er brot hennar rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru.

Ákærða er fædd [...] [...] 1981. Samkvæmt sakavottorði ákærðu hefur hún ekki áður gerst sek um refsiverða háttsemi. Við ákvörðun refsingar er til þess að líta að hún hefur skýlaust játað brot sitt og vísað á gögn sem flýttu fyrir rannsókn málsins. Þá hefur hún greitt til baka 76.730 evrur. Til refsiþyngingar horfir að um stórfellt brot er að ræða í opinberu starfi sem náði yfir sjö mánaða tímabil. Ákærða hefur lýst því að hún hafi dregið sér fé vegna spilafíknar. Lagt hefur verið fram vottorð A, sérfræðilæknis á geðdeild við Landspítala háskólasjúkrahús, þar sem fram kemur að ákærða hafi verið til meðferðar hjá lækninum á tímabilinu 15. október 2009 til 24. febrúar 2010. Ákærða hafi lýst mikilli vanlíðan og sektarkennd og erfiðleikum vegna spilafíknar. Þá hafi hún orðið fyrir miklum áföllum er hún var 19 ára, [...]. Ákærða hafi verið greind þannig að hún hafi átt í erfiðleikum með að viðhalda eðlilegu lífi í kjölfar alvarlegs áfalls og væri með spilafíkn. Fyrir liggja gögn um að ákærða hafi leitað sér hjálpar vegna spilafíknar hjá S.Á.Á. Þótt erfiðleikar ákærðu réttlæti ekki háttsemi hennar þykir mega taka nokkurt tillit til þeirra. Þegar allt framangreint er virt þykir refsing ákærðu hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár. Við ákvörðun þess hvort skilorðsbinda eigi refsingu ákærðu hefur verjandi ákærðu vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 333/2003, en þar var refsing konu fyrir peningaþvætti og hlutdeild í stórfelldu fíkniefnalagabroti að öllu leyti skilorðsbundin. Fallast má á að aðstæður ákærðu og konunnar séu líkar að því leyti að ákærða á tæplega eins árs gamalt barn og annað á leiðinni. Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að skilorðsbinding í téðum dómi Hæstaréttar var jafnframt rökstudd með vísan til vandamála konunnar vegna þungunar og fósturláta. Þá verður að horfa til þess að í 23. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga er ákvæði sem heimilar dvöl ungbarna með móður í fangelsi. Að öllu þessu virtu og með hliðsjón af því hversu stórfellt brot ákærðu er þykir ekki unnt að skilorðsbinda refsingu hennar að öllu leyti, heldur skal fresta fullnustu 22 mánaða refsingarinnar og sá hluti hennar falla niður að liðnum þremur árum frá birtingu dómsins, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærða hefur samþykkt bótakröfu sem fyrir liggur í málinu. Rétt er að miða upphafsdag vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, við 6. október 2009, en dráttarvextir skulu reiknast frá 11. febrúar 2010 þegar liðinn var mánuður frá birtingu kröfunnar fyrir ákærðu hjá lögreglu, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001.

Með vísan til 218. gr. laga nr. 88/2008 ber að dæma ákærðu til að greiða sakarkostnað málsins. Um er að ræða þóknun verjanda ákærðu, Brynjars Níelssonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 251.000 krónur, að virðisaukaskatti meðtöldum, auk útlagðs kostnaðar hans að fjárhæð 36.000 krónur, vegna læknisvottorðs.

Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Ákærða, Guðný Ólöf Gunnarsdóttir, sæti fangelsi í tvö ár, en fresta skal fullnustu 22 mánaða refsingarinnar og sá hluti hennar falla niður að liðnum þremur árum frá birtingu dómsins, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærða greiði utanríkisráðuneytinu 335.768 evrur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, að teknu tilliti til þeirra endurgreiðslna sem hún innti af hendi, 76.730 evrur, frá 6. október 2009 til 11. febrúar 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim tíma til greiðsludags.

Ákærða greiði í sakarkostnað 251.000 króna þóknun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, auk útlagðs kostnaðar hans að fjárhæð 36.000 krónur.