Hæstiréttur íslands
Mál nr. 634/2006
Lykilorð
- Börn
- Forsjá
- Dómsátt
|
|
Fimmtudaginn 14. júní 2007. |
|
Nr. 634/2006. |
Reykjavíkurborg(Lára V. Júlíusdóttir hrl. Hulda Rós Rúriksdóttir hdl.) gegn A (Sigurður Sigurjónsson hrl. Ólafur Thóroddsen hdl.) |
Börn. Forsjá. Dómsátt.
R höfðaði mál gegn A í janúar 2005 og krafðist þess að hún yrði svipt forsjá tveggja barna sinna. Því máli lauk með dómsátt þess efnis að L veitti samþykki sitt fyrir því að barnaverndarnefnd R tæki við forsjá barna hennar með því skilyrði að þeim yrði ekki komið fyrir hjá uppeldisföður sínum. Með máli þessu krafðist R þess að dómsáttin yrði ógilt að hluta með því að fellt yrði niður ákvæði hennar um þetta skilyrði að því er varðar son A, en að öðru leyti yrði sáttin látin standa óröskuð. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að til að dómsátt yrði ógilt af ástæðum, sem vörðuðu efni hennar, þyrfti í það minnsta að koma til atvik sem leitt gætu til ógildingar samnings aðila um sömu hagsmuni. R hafði ekki skýrlega vísað til slíkra atvika í málatilbúnaði sínum, en líta varð svo á að hann væri reistur á þeirri grunnreglu að samningur um forsjá barns bindi ekki aðila hans ef í ljós væri leitt að önnur skipan en hann kvæði á um væri barninu fyrir bestu. Ekki var fallist á með R að sýnt hefði verið fram á að högum sonar A væri betur komið með því að hann færi í fóstur til uppeldisföður síns í stað þeirrar skipunar, sem nú var við lýði. Þegar af þeirri ástæðu var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að hafna kröfu R og var þá ekki þörf á að taka afstöðu til þess hvort R hefði af efnisástæðum verið fært að gera aðeins kröfu um ógildingu umrædds ákvæðis dómsáttarinnar í stað þess að leita ógildingar hennar í heild.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. desember 2006. Hann krefst þess að ógilt verði að hluta dómsátt, sem gerð var 2. febrúar 2005 í máli hans á hendur stefndu, með því að fella niður ákvæði sáttarinnar um að barni stefndu, C, verði ekki komið fyrir hjá uppeldisföður sínum, B.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt.
Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi höfðaði áfrýjandi mál gegn stefndu í janúar 2005 með kröfu um að hún yrði svipt forsjá tveggja barna sinna. Því máli lauk 2. febrúar sama ár með dómsáttinni, sem fyrrgreind kröfugerð áfrýjanda varðar, en meginefni sáttarinnar var svohljóðandi: „Stefnda veitir samþykki sitt fyrir því að Barnaverndarnefnd Reykjavíkur taki við forsjá barna hennar, C... og D, ... með því skilyrði að börnunum verði ekki komið fyrir hjá uppeldisföður þeirra, B “. Með máli þessu leitast áfrýjandi við að fá hnekkt ákvæðum um þetta tilgreinda skilyrði í sáttinni að því er varðar son stefndu, en að öðru leyti verði sáttin látin standa óröskuð, þar á meðal ákvæði hennar um forsjá barna stefndu.
Samkvæmt 1. mgr. 110. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er heimilt að höfða dómsmál til að fá dómsátt ógilta að hluta eða öllu leyti. Þótt þess sé ekki getið í ákvæði þessu verður að líta svo á að til þess að dómsátt verði ógilt af ástæðum, sem varða efni hennar, þurfi í það minnsta að koma til atvik, sem leitt gætu til ógildingar samnings aðilanna um sömu hagsmuni. Áfrýjandi hefur ekki skýrlega vísað til slíkra atvika í málatilbúnaði sínum, en líta verður svo á að hann sé reistur á þeirri grunnreglu að samningur um forsjá barns bindi ekki aðila hans ef í ljós er leitt að önnur skipan en hann kveður á um sé barninu fyrir bestu. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður ekki fallist á með áfrýjanda að sýnt hafi verið fram á að högum sonar stefndu væri betur komið með því að hann færi í fóstur til B í stað þeirrar skipunar, sem nú er við lýði. Þegar af þessari ástæðu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest og er þá ekki þörf á að taka afstöðu til þess hvort áfrýjanda hafi af efnisástæðum verið fært að gera aðeins kröfu um ógildingu þess ákvæðis dómsáttarinnar, sem að framan er getið, í stað þess að leita ógildingar hennar í heild.
Áfrýjanda verður gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti, sem rennur í ríkissjóð, en um hann og gjafsóknarkostnað stefndu hér fyrir dómi fer samkvæmt því, sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Reykjavíkurborg, greiði í ríkissjóð 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 400.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2006.
Mál þetta var dómtekið 26. október sl. að loknum munnlegum málflutningi.
Stefnandi er Reykjavíkurborg vegna barnaverndarnefndar Reykjavíkur.
Stefnda er A.
Dómkröfur
Dómkröfur stefnanda eru þær að ógilt verði dómsátt frá 2. febrúar 2005 í héraðsdómsmálinu nr. E-806/2005, Reykjavíkurborg vegna barnaverndarnefndar Reykjavíkur gegn A frá 2. febrúar 2005 að hluta til og fellt niður það skilyrði í dómsáttinni að barninu C verði ekki komið fyrir hjá uppeldisföður sínum, B, kt. [...].
Dómkröfur stefndu eru þær að hún verði sýknuð af dómkröfu stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál að viðbættum virðisaukaskatti.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 7. september sl., var máli þessu vísað frá dómi. Með dómi Hæstaréttar Íslands var frávísunardómurinn felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Málavextir
Stefnandi, Reykjavíkurborg vegna barnaverndarnefndar Reykjavíkur, höfðaði forsjársviptingarmál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur stefndu sem lauk með sátt 2. febrúar 2005. Var sáttin svohljóðandi:
„Stefnda veitir samþykki sitt fyrir því að Barnaverndarnefnd Reykjavíkur taki við forsjá barna hennar, C kt. [...] og D, kt. [...], með því skilyrði að börnunum verði ekki komið fyrir hjá uppeldisföður þeirra, B, kt. [...].“
Mál þetta höfðar stefnandi nú til ógildingar á hluta þeirrar sáttar og gerir kröfu til þess að fellt verði niður það skilyrði að drengnum verði ekki komið fyrir hjá B.
Af hálfu stefndu er kröfum stefnanda mótmælt og byggir stefnda á því að það hafi verið afdráttarlaust skilyrði af hennar hálfu fyrir gerð sáttar að börnunum yrði ekki komið fyrir hjá B.
Stefnda hóf sambúð með B haustið 1998. Á sambúðartímanum fæddust þrjú börn, C, [...] 1999, D Ellý, [...] 2001 og E, [...] 2002. B var tilgreindur faðir barnanna og undirritaði hann faðernisviðurkenningu hjá sýslumanninum í Reykjavík. Stefnda höfðaði síðar mál til vefengingar á faðerni barnanna. Niðurstaða þess var að B væri einungis faðir E.
Stefnda og sambýlismaður hennar voru í fíkniefnaneyslu og hafði barnaverndarnefnd Reykjavíkur ítrekuð afskipti af heimili þeirra. Börnin þrjú voru tekin af þeim í desember 2003 vegna óviðunandi heimilisaðstæðna og þau vistuð utan heimilis. Um sama leyti slitu stefnda og B samvistum. Í byrjun janúar 2004 varð ljóst að ekki yrði unnt að vista systkinin áfram á fósturheimilinu eftir 23. janúar 2004 vegna orlofstöku heimilismanna. Stefnda fór þá fram á það við barnaverndarnefnd að börnunum þremur yrði komið fyrir hjá hjónum á norður í landi er fóstruðu tvo eldri syni stefndu frá fyrri hjónaböndum. Barnaverndarnefnd hafnaði því. Þrátt fyrir andstöðu stefndu voru börnin, í samræmi við úrskurð barnaverndarnefndar 24. janúar 2004, vistuð á heimili B fram í september 2004.
Stefnda höfðaði mál á hendur B og krafðist þess að viðurkennt yrði fyrir dómi að hann væri ekki kynfaðir eldri barna þeirra tveggja, C og D. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 6. ágúst 2004 var staðfest að hann væri ekki kynfaðir þeirra barna. Þrátt fyrir þá staðreynd krafðist hann þess fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur að börnin fengju að búa áfram hjá sér og hann lýsti sig reiðubúinn til þess að annast þau sem sín eigin, eins og hann hefði gert fram að þessu. Móðir barnanna var þessu andvíg og fór fram á það við barnaverndarnefnd Reykjavíkur að börnunum yrði ráðstafað í varanlegt fóstur til 18 ára aldurs með því skilyrði að þau færu til hjóna sem fóstra tvö eldri börn hennar. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur samþykkti þessa ráðstöfun á fundi sínum 21. september 2004. B var ekki veitt aðild að málum barnanna fyrir barnaverndarnefnd Reykjavíkur þar sem hann var ekki kynfaðir barnanna og kærði hann þessa ákvörðun barnaverndarnefndar til kærunefndar barnaverndarmála og krafðist þess m.a. að vera viðurkenndur aðili að málum barnanna. Kærunefndin taldi, sbr. úrskurð uppkveðinn 21. október 2004, að kærandi ætti svo ríkra lögvarinna hagsmuna að gæta í málum barnanna að óhjákvæmilegt væri að telja að hann ætti aðild að því og nyti réttinda sem við aðild eru bundin. B sótti 16. september 2004 um leyfi hjá Barnaverndarstofu til þess að gerast fósturforeldri. Niðurstaða Barnaverndarstofu var sú að hann var talinn hæfur til að taka börnin tvö í fóstur og var honum veitt leyfi til þess 20. maí 2005.
Eftir að börnin C og D höfðu dvalið hjá B, eða í lok september 2004, var þeim komið fyrir í reynslufóstur norður í landi hjá fyrrnefndum fósturforeldrum eldri bræðra þeirra. Eftir nokkurra vikna fóstur treystu fósturforeldrarnir sér ekki til þess að hafa C. Í kjölfar fósturrofsins var leitað til ömmu barnanna, F sem tók þau bæði til sín og hjá henni bjuggu þau fram í apríl 2005. Þá tók við fósturheimili í Hveragerði. Erfiðleikar komu upp varðandi C og í ágúst 2005 var honum komið fyrir á vistheimili barna. Er ömmu drengsins varð kunnugt um það sótti hún drenginn og hefur hann búið hjá henni síðan. Hafa hún og sambýlismaður hennar sótt um að gerast fósturforeldrar C og hafa þau verið metin hæf sem slík.
Samkvæmt athugun Páls Magnússonar sálfræðings á þroska og sálrænum högum C mælist hann með greindarþroska á stigi jaðargreindar, á við ADHD að stríða með ráðandi einkennum ofvirkni/hvatvísi en einnig hegðunarvanda að því marki að greinast með mótþróaþrjóskuröskun. Að mati Páls er mikilvægt að þeir sem komi til með annast uppeldi hans í framtíðinni fái sérhæfða aðstoð við að fást við erfiðleika hans. Þá megi búast við að í skóla þurfi hann verulegan stuðning við nám og aðlögun bæði vegna greindarþroska og vegna þeirra hegðunareinkenna sem hér hefur verið lýst.
Á sama tíma og rannsókn var hafin hjá barnaverndarnefnd Reykjavíkur á því hvort B teldist hæfur fósturfaðir, eða í desember 2004, hafði barnaverndarnefnd höfðað forsjársviptingarmál á hendur móður barnanna. Því máli lauk með dómsáttinni 2. febrúar 2005 þar sem samþykkt var að barnaverndarnefnd Reykjavíkur tæki við forsjá barnanna með því skilyrði að börnunum yrði ekki ráðstafað til B.
Á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur 2. desember 2005 var tekin sú ákvörðun að synja B um að taka börnin, D og C, í fóstur og ráðstafa börnunum í fóstur til móðurömmu þeirra, D, og sambýlismanns hennar, G. B kærði þessa ákvörðun til kærunefndar barnaverndar sem með úrskurði sínum 22. júní 2006 hratt ákvörðun nefndarinnar og vísaði málinu aftur til meðferðar nefndarinnar.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi kveðst höfða mál þetta með vísan 1. mgr. 110. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafist sé ógildingar á dómsátt frá 2. febrúar 2005 í héraðsdómsmálinu nr. E-806/2005, Reykjavíkurborg vegna barnaverndarnefndar Reykjavíkur gegn A frá 2. febrúar 2005 að hluta til og fellt verði niður það skilyrði í dómsáttinni að barninu C verði ekki komið fyrir hjá uppeldisföður sínum, B, kt. [...].
Sé niðurfelling þessa skilyrðis nauðsynleg svo hægt sé að koma C í fóstur til B. Að mati kærunefndar barnaverndarmála, svo og barnaverndarnefndar Reykjavíkur, sé sú ráðstöfun barninu fyrir bestu.
Barnið hafi búið við mikið óöryggi fyrstu æviár sín og hafi ítrekað þurft að þola fósturrof. Sálfræðipróf bendi til að drengurinn virðist viðkvæmur fyrir hvers kyns öryggisleysi og hafi sýnt einkenni um að taka tengslaraskanir mjög nærri sér. Faðir barnanna, B, hafi þá verið aðalumönnunaraðili drengsins um hríð og þyki honum greinilega vænt um öll börnin og leggi sig fram um að skilja þau og mæta þörfum þeirra. Það sé mat kærunefndar barnaverndarmála að afar brýnt sé að fóstri C verði hagað með þeim hætti að sem minnst hætta sé á að tengsl hans við umönnunaraðila rofni aftur.
B hafi verið metinn hæfur sem fósturfaðir drengsins og hann sé sá eini faðir sem drengurinn þekki. Hann hafi annast uppeldi hans fyrstu æviár drengsins og líti á hann sem sitt barn. Hann hafi barist mjög fyrir því að fá að taka drenginn í fóstur og virðist bera hagsmuni hans fyrir brjósti framar öðru. Hann hafi að mati kærunefndar barnaverndarmála til að bera þá þrautseigju og úthald sem til þurfi til að mæta þörfum drengsins og vilja til að hlíta þeim fyrirmælum sem barnaverndarnefnd setji hverju sinni um fóstrið, þar á meðal um umgengni við nánustu ættingja drengsins.
Málsástæður og lagarök stefndu
Sýknukrafa stefndu byggist í fyrsta lagi á því að úrskurður kærunefndar barnaverndarmála frá 22. júní 2006 sé ólögmætur.
Samkvæmt 2. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga geti kærunefnd barnaverndarmála ýmist staðfest úrskurð að niðurstöðu til eða hrundið honum að nokkru eða öllu leyti. Kærunefndin hafi því ekki lagalega heimild til að taka efnislega á málum sem fyrir hana eru lögð líkt og um barnaverndarnefnd væri að ræða. Þrátt fyrir það úrskurði kærunefndin efnislega og beinlínis skipi barnaverndarnefnd Reykjavíkur að höfða dómsmál til ógildingar á dómsátt sem barnaverndarnefndin hafi sjálf staðið að af fúsum og frjálsum vilja.
Í öðru lagi er á því byggt að engin þau atvik hafi komið upp á núverandi fósturheimili C sem réttlæti ógildingu skilyrðis dómsáttarinnar. Drengurinn C hafi átt heimili hjá móðurömmu sinni í rúmlega eitt ár þar sem vel sé hugsað um hann. Óhætt sé að fullyrða að drengurinn, sem hafi mátt þola ótrúlega mikið harðræði á sinni stuttu ævi, hafi aldrei áður búið við jafn mikið öryggi og núna.
Á bls. 10 í greinargerð sem lögð var fyrir fund barnaverndarnefndar Reykjavíkur 14. júlí 2006 komi fram að próf sem Þorgeir Magnússon sálfræðingur hafi lagt fyrir drenginn bendi til þess að C sé viðkvæmur fyrir hvers kyns öryggisleysi og hafi sýnt einkenni um að taka tengslaraskanir mjög nærri sér. Önnur sálfræðipróf hafi sýnt að tengsl C við móðurömmu sína séu honum mjög mikilvæg og að hún sé sá aðili sem hann er hvað tengdastur. Það sé því mikil ábyrgð af hálfu stefnanda að rjúfa þau tengsl.
Í þriðja lagi er á því byggt að rökstuðning skorti bæði í úrskurði kærunefndar barnaverndarmála, bókun barnaverndarnefndar Reykjavíkurborgar og í stefnu fyrir því hvers vegna það þjóni hagsmunum drengsins best að dómsáttin verði ógilt að hluta til þess að unnt verði að koma honum fyrir í fóstur hjá B auk þess sem kærunefnd barnaverndarmála reifi órökstuddar efasemdir um einkamál móðurömmu drengsins.
Þá byggir stefnda á því í fjórða lagi að ógilding dómsáttarinnar hafi það afdrifaríkar afleiðingar í för með sér að ekki sé unnt að fallast á dómkröfu stefnanda nema dómurinn láti fara fram faglegt mat á félagslegum, efnahagslegum og fjárhagslegum aðstæðum B og hæfni hans sem uppalanda. B sé ekki talinn uppfylla að öllu leyti viðmið um fósturforeldra.
Í fimmta lagi er á því byggt að í hvert skipti sem fósturúrræði stefnanda hafi brugðist hafi verið leitað til móðurömmu C með vistun hans og hafi heimili hennar alla tíð staðið honum opið. Engin óregla sé á heimilinu. Móðuramma drengsins sé mjög tengd honum og hafi hún fengið flest skilaboð í alls kyns sálfræðiprófum á C. Virðist hún vera sá aðili í lífi drengsins sem honum er hvað tengdastur.
Niðurstaða
Stefnandi höfðaði mál gegn stefndu til sviptingar forsjár tveggja barna hennar. Málinu lauk með sátt 2. febrúar 2005 þess efnis að stefnda samþykkti að barnaverndarnefnd Reykjavíkur taki við forsjá barna hennar, C og D, með því skilyrði að börnunum verði ekki komið fyrir hjá fyrrum uppeldisföður þeirra, B.
Eins og fram er komið var það forsenda stefndu fyrir því að afsala sér forsjá barnanna til stefnanda að þeim yrði ekki ráðstafað til B. Liggur ekki annað fyrir en að báðir aðilar hafi verið sammála um þessi lok máls. Krafa stefnanda nú um ógildingu sáttarinnar að hluta byggist á því að hagsmunir drengsins, C, krefjist þess og það sé honum fyrir bestu í dag að honum verði komið í fóstur til B.
Fyrir liggur að á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur 2. desember 2005 var sú ákvörðun tekin varðandi drenginn C að hann skyldi fara í varanlegt fóstur til móðurforeldra sinna, F og G, en hann hafði þá dvalist hjá þeim frá því í ágúst s.á. Í gögnum sem lögð voru fyrir nefndina kemur fram að B hafi krafist þess að fá C og systur hans, D, í varanlegt fóstur. Kosti þeirrar ráðstöfunar taldi nefndin vera að systkinin þrjú gætu alist upp saman. Hins vegar taldi nefndin það ekki mögulegt vegna þeirrar sáttar sem gerð var 2. febrúar 2005 auk þess sem nefndin taldi að það myndi klárlega raska núverandi jafnvægi barnanna en langur tími hafði þá liðið frá því að börnin bjuggu hjá B og samkvæmt tengslamati reyndust tengsl barnanna við hann afar takmörkuð. Talið var að móðurforeldrar drengsins væru til þess fallin að ala hann upp til 18 ára aldurs með markvissri sérfræðiaðstoð.
Eins og rakið er hér að framan kærði B þennan úrskurð til kærunefndar barnaverndarmála. Telja verður, hvað sem líður rökstuðningi kærunefndarinnar í niðurstöðu í úrskurði sínum, að úrlausn kærunefndarinnar hafi verið í samræmi við 2. mgr. 51. gr. laga nr, 80/2002, en kærunefndin hrundi úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur og vísaði málinu aftur til meðferðar nefndarinnar, sem nú hefur höfðað mál þetta. Er því ekki fallist á með stefndu að úrskurður kærunefndarinnar sé ólögmætur.
Í stefnu er því haldið fram að það sé drengnum C fyrir bestu komist hann í fóstur til fyrrum uppeldisföður síns, B. Hins vegar er ekki að finna í stefnu rökstuðning fyrir þessari fullyrðingu eða að hvaða leyti B er hæfari til þess að sinna þörfum drengsins en afi hans og amma sem hann hefur verið í fóstri hjá síðan í ágúst 2005. Vísað er í stefnu til úrskurðar kærunefndar barnaverndarmála frá 22. júní sl. en þar kemur m.a. fram það mat nefndarinnar að drengnum C sé betur borgið hjá B en hjá núverandi fósturforeldrum, móðurömmu sinni og afa. Telur kærunefndin B hafa til að bera þá þrautseigju og úthald sem þurfi til að mæta þörfum drengsins og vilja til að hlíta fyrirmælum barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Hafi B það fram yfir núverandi fósturforeldra að hann virðist skilja betur þörf þess að drengurinn fái notið jákvæðrar og eðlilegrar umgengni við nánustu ættingja sína, auk þess sem efasemdir voru um stöðugleika fósturs hjá núverandi fósturforeldrum einkum þegar litið væri til þess að þau hafi skilið að skiptum og tekið saman á ný en núverandi sambúð hafi varað stutt.
Fyrir dómi fóru fram skýrslutökur. Auk H, verkefnastjóra hjá stefnanda, og stefndu gáfu skýrslu þau F, F, B, I, skólastjóri [...], J kennari, K skólahjúkrunarfræðingur og L sálfræðingur.
H, verkefnastjóri hjá stefnanda, bar að samvinna við F, ömmu C, hafi gengið vel að sumu leyti en verr að öðru. F sé að gera það sem hún geti en ákveðnir erfiðleikar í samvinnu tengist B sem aðila að málinu. Hafi henni og gengið illa að fara eftir leiðbeiningum um að ræða ekki viðkvæm málefni í nærveru drengsins. Reynt hafi verið að setja börnin í fóstur á tveimur stöðum eftir að þau voru hjá B, en stefnt hafi verið að því að systkinin yrðu saman. Fram er komið að það gekk ekki upp. Aðspurð um meint ofbeldi B gagnvart C bar H að eftir að C fór að fara í umgengni til B hafi báðir talað um eitt skipti þar sem slíkt hafi gerst og kveður hún B tilbúinn til þess að vinna með þætti í sínu fari sem geri hann hæfari uppeldisaðila. Fram hefur komið að C er því andvígur að fara til B. Aðspurð um það kvað H það mat starfsmanna barnaverndar Reykjavíkur að honum hafi verið gert erfitt fyrir að eiga eðlileg samskipti við B, hann hafi gengið í gegnum tíð tengslarof auk þess að eiga við sértæka erfiðleika að stríða. Þá hafi hann alist upp við það að illa sé talað um B. Drengurinn hafi upplifað strangleika hjá B en þegar sátt sé milli B og ömmunnar líði drengnum vel. B hafi atvinnu og engar upplýsingar liggi fyrir um að hann selji eiturlyf, eins og stefnda haldi fram.
H bar að unnið væri í því að drengurinn fari til B. Telur H B hæfan til fósturs með ákveðnum stuðningi og hann sé tilbúinn til slíkrar samvinnu. Amma drengsins hafi tjáð sig um að hún eigi erfitt með að hafa stjórn á drengnum og sé þreytt og reynt hafi á samvinnu við hana. B sé yngri og tilbúinn til samvinnu. Amma drengsins virði ekki ákvarðanir barnaverndarnefndar varðandi umgengni við B og rædd séu viðkvæm mál í návist drengsins.
Stefnda, A, kom fyrir dóminn. Lýsti hún því að ástæða þess að hún vill ekki að börnin fari í fóstur til B sé sú að þegar þau voru í sambúð hafi hann beitt sig og börnin harðræði og ofbeldi. Hann hafi ekki verið góður við börnin. Hann hafi oft slegið á höfuð þeirra og hrætt þau er þau vöknuðu á nóttunni. Hafi hún einnig grun um að hann sé að selja eiturlyf eins og hann hafi gert er þau voru saman. Lýsti stefnda þeirri ósk sinni að C alist upp hjá móður hennar.
C hefur verið í fóstri hjá móðurömmu sinni og afa, F og G, frá því í ágúst 2005, en áður í fimm mánuði til apríl 2005 hjá ömmu sinni. Við skýrslutökur fyrir dómi kom fram að F og G hefðu gifst á árinu 1979 og áttu þau því að baki yfir 25 ára hjónaband þegar þau skildu, vegna mikils álags að sögn. Stóð sá skilnaður í tæpt ár en þau telja sambúðina hafa gengið vel síðan. Fram kom að þau sóttu um að vera fósturforeldrar og hafa fengið samþykki Barnaverndarstofu til þess. G lýsti því yfir að hún væri tilbúin að axla ábyrgð á drengnum og að hún treysti sér til þess að hafa hann. Kom fram að þau hjálpist mikið að með drenginn sem á við ýmsa erfiðleika að stríða eins og áður segir. G kveðst vinna frá kl. 10.00 til 14.00 og sé laus þegar C komi úr skóla og geti hún þá komið honum í fótbolta tvisvar í viku. C kveðst ekki geta stundað fulla vinnu. Hún þurfi að vera laus við því fyrir komi að hún þurfi að sækja drenginn í skóla ef erfiðleikar komi upp. Aðspurð hvort hún talaði óvarlega gagnvart barninu svo að það fengi að heyra neikvæða hluti um B vildi F ekki kannast við það en kvaðst frekar reyna að hafa jákvæð áhrif á hann. Aðspurð um það sem fram hefur komið að hún tálmi umgengni kvaðst hún verða að viðurkenna að drengurinn vilji ekki fara til B. Hann sé með kvíða áður en hann eigi að fara til hans. B hafi lagt hendur á hann, samt sé hann látinn fara þangað. Ekki sé hægt að treysta B til að sækja hann á réttum tíma. Hann vinni á Skaganum og sé ekki heima þegar komið sé með barnið heldur taki fóstra eða vinnukona á móti honum. Þess vegna gangi þetta ekki. Samskipti kvað hún þó ganga betur í dag en áður, þá hafi B bara verið heiftugur.
I, skólastjóra [...], og J, kennara í sama skóla, bar saman um að öll samskipti við F hafi gengið vel og bregðist hún vel við öllum óskum skólans. Bar I að F standi með drengnum og ráði vel við hann. J bar að hún hefði kennt C síðan í haust. Hafi gengið upp og ofan hjá honum að aðlagast og eigi hann sína góðu og slæmu daga. Kvaðst hún hafa orðið vör við breytingar hjá honum í haust. Kvað hún drenginn hafa tjáð sig um að B lemji ekki D, bara sig og E. Kvað J drenginn þurfa staðfestu og öryggi og að hann hafi tjáð sig um að vilja búa hjá ömmu sinni, þar hitti hann fjölskyldu sína sem hann tali um. Hann beri mikla virðingu fyrir ömmu sinni og vilji gera eins og hún segi en hann ráði ekki alltaf við það.
L sálfræðingur vinnur að því að styðja aðlögun drengsins C til B. Telur L mikilvægt að koma C í varanlegt umhverfi. Hann eigi ekki að þurfa að búa við óöryggi. Kvaðst L fara til B þegar hann sé með öll börnin um helgar. Taldi L að sú depurð sem hefði orðið vart við hjá C stafaði af óöryggi. Aðspurður um það að móðuramma eigi erfitt með að aga drenginn og ráða við hann þá taldi hann að aðrir ættu við sama vanda að etja bæði heima og í skóla. Drengurinn þurfi sérstaka aðstoð. Kvað L það sterkan vilja hjá drengnum að vera áfram hjá ömmu sinni.
B bar fyrir dómi að hann sæktist eftir að fóstra drenginn C vegna þess að hann hafi alltaf talið hann sinn, líti á hann sem sinn son. Hann kveðst starfa við flísalagnir. Hann hafi verið illa settur fjárhagslega en sé núna búinn að vinna sig út úr langflestum skuldum, eigi 200 fermetra hús og reki sitt eigið fyrirtæki. Hann kvaðst vinna mikið en vera með ráðskonu á heimilinu sem þrífi og hugsi um mat en hann stefni að því að stytta vinnutímann og breyta um starfsvettvang til að geta sinnt drengnum betur. Hann lýsti því að samskiptin við F hefðu ekki verið til fyrirmyndar í gegnum tíðina en með skársta móti núna undanfarið. Hún hafi verið að svíkja hann um að fá drenginn til sín. Hann lýsti ánægju sinni með samstarf við L sálfræðing. Hann sjálfur sé eina foreldrið sem drengurinn hafi og ekki sé sambærilegt sem hann geti boðið eða amman og afinn. Hann kveðst hafa verið í fjögur ár frá hassneyslu.
Eins og áður er fram komið hefur C verið í fóstri hjá F og G, ömmu sinni og afa, frá því í ágúst 2005. Þrátt fyrir skilnað þeirra hjóna og aðskilnað í nokkra mánuði þykir ekki sýnt fram á annað en að samband þeirra sé tryggt og að þau séu samhent við að hugsa um C. Öll samskipti þeirra við [...]skóla virðast til fyrirmyndar og hefur ekki komið fram annað en að þau sjái vel fyrir daglegum þörfum drengsins. Fram hefur komið að drengurinn á við ýmsa erfiðleika að stríða sem F hefur átt í vanda með. Af framburði L sálfræðings verður þó ekki ráðið að F eigi í meiri erfiðleikum en aðrir sem þurfa að hafa afskipti af drengnum og þykir ljóst samkvæmt gögnum málsins að þeir sem koma að uppeldi hans þurfa á mikilli aðstoð að halda svo vel sé. Ekkert þykir fram komið sem bendir til að F og G muni standa í vegi fyrir að C geti umgengist systkini sín. Fram er hins vegar komið að erfiðleikar koma upp í samskiptum F og G við B sem F skýrir með því að drengurinn vilji ekki fara til B. Virðast samskiptaerfiðleikar þó hafa minnkað eftir að L sálfræðingur kom að málinu sem stuðningsaðili fyrir C og ráðgjafi fyrir B.
Stefnda heldur því fram að B hafi beitt börn hennar harðræði og ofbeldi. Þegar virt eru gögn málsins verður ekki fram hjá því litið að sú hafi verið raunin. Í álitsgerð Kolbrúnar Baldursdóttur frá því í febrúar 2004 er lýst óstöðugleika, eirðarleysi, pirringi og innibyrgðri reiði hjá B sem með aðstoð fagaðila verði hægt að beina í eðlilegan farveg. Í greinargerð L sálfræðings er greint frá því að B hafi nú í haust slegið drenginn í höfuðið en hafi séð eftir því. Kemur þar einnig fram að B sé undir miklu álagi vegna vinnu og kaupa á nýju húsi auk þess sem samskipti við barnaverndarstarfsmenn og lögfræðinga reyni á hann. Hefur hann af þessum sökum verið reiður út í kerfið og hefur þetta, samkvæmt því sem fram kemur, orsakað pirring og reiði meðan hann er að sjá um börnin. Hann hefur hins vegar lýst sig reiðubúinn að vinna með L sálfræðingi
Í greinargerð L frá 29. maí 2005 segir að ef drengurinn flytji til B þurfi að huga vel að þeim tíma sem hann ver með drengnum því ekki sé nóg fyrir drenginn að hafa tvær stúlkur og fagaðila til að passa hann. Hann þurfi fyrst og fremst stöðugt uppeldi frá einhverjum sem hann geti tengst og sá aðili þurfi að geta sinnt honum vel og gefið sér tíma í það. Samkvæmt fyrirliggjandi tengslaprófum eru sterkust tengsl C við ömmu sína en lítil sem engin við B. Samkvæmt framburði F hefur hún rúman tíma til að sinna drengnum og hann er eina barnið á heimilinu og fær því óskipta athygli fósturforeldra, en B virðist undir miklu vinnuálagi og treystir á ráðskonur sínar að einhverju leyti til þess að sinna börnunum sem ekki telst heppilegt, sbr. greinargerð L.
Ljóst þykir að C hefur verið að festa rætur hjá ömmu sinni og afa. Hann er að byrja sinn annan vetur í [...]kóla. Þótt námið gangi upp og niður er samstarf skólans og núverandi heimils hans gott. Hann hefur samkvæmt því sem fram hefur komið, eignast vini á þessum slóðum og stundar fótbolta tvisvar í viku með aðstoð ömmu sinnar. Í ljósi þess að drengurinn virðist mjög viðkvæmur fyrir tengslarofum og breytingum verður ekki séð að það verði honum til góðs að flytja í nýtt umhverfi og nýjan skóla þar sem hann þekkir engan. Þykir ekkert komið fram í málinu sem kalli á slíkar breytingar.
Eins og áður hefur verið rakið höfðar stefnandi mál þetta á grundvelli 1. mgr. 110. gr. laga nr. 91/1991 og krefst þess að sú sátt sem aðilar gerðu í forsjársviptingarmáli 2. febrúar 2005 verði ógilt að hluta vegna brostinna forsendna. Þegar virt er það sem fram hefur komið í máli þessu þykir stefnandi, gegn andmælum stefndu, ekki hafa sýnt fram á að þær forsendur er voru til staðar við gerð sáttarinnar hafi brostið. Þá þykir ekki sýnt fram á að brýnt sé, eða það þjóni hagsmunum drengsins C best að vera komið í fóstur til B. Er kröfu stefnanda um ógildingu sáttarinnar að hluta því hafnað.
Eftir þessari niðurstöðu ber stefnanda að greiða stefndu málskostnað sem ákveðst 400.000 krónur og greiðist í ríkissjóð.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 400.000 krónur, þ.e þóknun lögmanns hennar, Önnu Lindu Bjarnadóttur hdl., greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun málflutningsþóknunar er ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan ásamt meðdómendunum Gunnari Hrafni Birgissyni sálfræðingi og Valgerði Magnúsdóttur sálfræðingi.
D Ó M S O R Ð
Hafnað er kröfu stefnanda um að ógilt verði að hluta til dómsátt frá 2. febrúar 2005 í héraðsdómsmálinu nr. E-806/2005 Reykjavíkurborg vegna barnaverndarnefndar Reykjavíkur gegn A og fellt niður það skilyrði í dómsáttinni að barninu C verði ekki komið fyrir hjá uppeldisföður sínum, B.
Stefnandi greiði stefndu 400.000 krónur í málskostnað sem greiðist í ríkissjóð.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 400.000 krónur, þ.e þóknun lögmanns hennar, Önnu Lindu Bjarnadóttur hdl., greiðist úr ríkissjóði.