Hæstiréttur íslands

Mál nr. 68/2016

A (Hrefna Dögg Gunnarsdóttir hdl.)
gegn
íslenska ríkinu (Óskar Thorarensen hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Hæfi dómara

Reifun

A kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu hans um að héraðsdómari viki sæti í máli sem hann hafði höfðað gegn Í. Í málinu krafðist A skaðabóta vegna tjóns sem hann varð fyrir vegna ólögmætrar meðferðar og notkunar læknis á viðkvæmum persónuupplýsingum úr sjúkraskrá hans og birtar höfðu verið í úrskurði siðanefndar Læknafélags Íslands í tengslum við ágreiningsmál tveggja lækna. Upplýst var að dómari í málinu væri núverandi formaður nefndarinnar en hefði hins vegar enga aðkomu átt að umræddu ágreiningsmáli. Talið var að eins og málið væri vaxið yrði ekki hægt að fallast á það með A að aðkoma siðanefndar að málinu væri til þess fallin að draga mætti óhlutdrægni dómarans í réttu með efa. Þá væru heldur ekki fyrir hendi önnur tilvik eða aðstæður sem væru til þess fallin. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. janúar 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 8. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. janúar 2016, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari viki sæti í máli sóknaraðila gegn varnaraðila. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa sín verði tekin til greina. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði höfðaði sóknaraðili mál þetta á hendur stefnda til greiðslu skaðabóta vegna ólögmætrar meðferðar og notkunar tiltekins læknis á viðkvæmum persónuupplýsingum úr sjúkraskrá sóknaraðila. Varnaraðili hefur viðurkennt bótaábyrgð af þeim sökum og snýst ágreiningur aðila einungis um fjárhæð skaðabóta.

Í því máli sem hér er til úrlausnar er sú aðstaða uppi að dómarinn er formaður siðanefndar Læknafélags Íslands. Telur sóknaraðili að sakarefni málsins sé því nátengt siðanefndinni auk þess sem ásýnd dómsins sé af þeim sökum til þess fallin að draga megi óhlutdrægni dómarans í efa. Þá sé traust sóknaraðila til dómara málsins rúið og réttmæt tortryggni hafi nú þegar skapast um óhlutdrægni hans.

Á árinu 2011 hafði siðanefnd Læknafélags Íslands til umfjöllunar ágreining milli tveggja lækna vegna ætlaðra ummæla sem annar þeirra viðhafði um hinn við sóknaraðila, en báðir læknarnir höfðu komið að meðferð sóknaraðila vegna slyss sem hann lenti í. Sóknaraðili var ekki aðili að þeim ágreiningi fyrir siðanefndinni. Úrskurður nefndarinnar var kveðinn upp [...] 2011 og var niðurstaðan sú að læknirinn hefði brotið gegn siðareglum lækna í samskiptum sínum við sóknaraðila, ummælum um hann og „kollega“ sína. Úrskurðurinn var síðan birtur í Læknablaðinu án þess að gætt væri að því að afmá úr honum viðkvæmar persónugreinanlegar upplýsingar um sóknaraðila.  Óumdeilt er að núverandi formaður siðanefndarinnar, dómari málsins í héraði, átti enga aðkomu að þessu ágreiningsmáli.

Með dómi Héraðsdóms Reykjaness [...] 2013 voru sóknaraðila dæmdar miskabætur úr hendi Læknafélags Íslands og ritstjóra og ábyrgðarmanns Læknablaðsins vegna framangreindrar birtingar á persónuupplýsingum um sóknaraðila.

II

Í máli þessu reisir sóknaraðili kröfur sínar á hendur varnaraðila á því að hann hafi orðið fyrir miska vegna ólögmætrar meðferðar læknisins á viðkvæmum persónuupplýsingum um sig og beri varnaraðili ábyrgð á því, en eins og fram er komið er ekki deilt um skaðabótaskyldu varnaraðila heldur einungis um fjárhæð bóta. Eins og mál þetta er vaxið verður ekki fallist á það með sóknaraðila að framangreind aðkoma siðanefndar Læknafélags Íslands sé til þess fallin að draga megi óhlutdrægni dómarans með réttu í efa. Þá eru ekki fyrir hendi í málinu önnur atvik eða aðstæður sem eru til þess fallin. Að þessu gættu verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

                                                

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. janúar 2016.

                Hinn 16. desember 2015 lagði stefnandi fram kröfu um að dómari málsins viki sæti í málinu. Krafan byggist á g-lið 1. mgr. 5. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Við munnlegan málsflutning var krafist málskostnaðar.

                Stefndi hafnar kröfum stefnanda.

                Ágreiningsefni málsins lýtur að því að stefnandi krefst skaðabóta úr hendi stefnda vegna tjóns er stefnandi varð fyrir vegna ólögmætrar meðferðar og notkunar á viðkæmum persónuupplýsingum úr sjúkraskrá hans. Stefndi hefur viðurkennt bótaábyrgð og snýr ágreiningurinn að fjárhæð skaðabótanna.

                Mál þetta á rætur að rekja til ágreinings tveggja lækna fyrir siðanefnd Læknafélags Íslands. Báðir læknarnir höfðu veitt stefnanda læknismeðferð. Annar þeirra notaði gögn úr sjúkraskrá stefnanda til að halda uppi vörnum fyrir siðanefndinni. Þessar upplýsingar voru teknar upp í úrskurð siðanefndarinnar. Siðanefndin birti síðar úrskurð sinn á heimasíðu læknafélagsins og í útgefnu riti, samanber nánar dóm Héraðsdóms Reykjaness í málinu nr. [...].

                Stefnandi telur ljóst að öll málsatvikin hafi náin tengsl við störf siðanefndar Læknafélagsins. Dómari málsins sé formaður siðarnefndarinnar nú, þótt hún hafi ekki farið með formennsku á meðan mál stefnanda var fyrir siðanefndinni. Stefnandi telur að vegna þess hve náin tengsl séu „á milli sakarefnis þessa máls og siðanefndar Læknafélags Íslands, hafi skapast aðstæður sem eru til þess fallnar að draga óhlutdrægni dómara í efa“. Því sé gerð sú krafa að dómari víki sæti í málinu og er vísað til dóma Hæstaréttar Íslands í málunum nr. 781/2009, 601/2010 og 511/2014.

Niðurstaða

                Rétt er að dómari er formaður siðanefndar Læknafélagsins en var það ekki er mál stefnanda var fyrir siðanefnd. Því varðar seta dómara nú í siðanefndinni ekki vanhæfi hennar í þessu máli. Þá er ekki fallist á að náin tengsl séu á milli sakarefnis þessa máls og siðanefndarinnar eins og stefnandi hefur haldið fram, þar sem stefndi málsins, íslenska ríkið, hefur viðurkennt skaðabótaábyrgð í málinu og verður því í málinu einungis kveðið á um fjárhæð skaðabóta. Í ljósi þessa fellst dómari ekki á að fyrir hendi séu aðstæður sem séu fallnar til þess að draga óhlutdrægni dómara með réttu í efa, samanber g-lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um málskostnað í þessum þætti málsins bíður efnisdóms.

                Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ

                Kröfu stefnanda um að dómari málsins víki sæti er hafnað.

Krafa um málskostnað bíður efnisdóms.