Hæstiréttur íslands
Mál nr. 463/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Fimmtudaginn 6. september 2007. |
|
Nr. 463/2007. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu(Jón H.B. Snorrason, saksóknari) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. september 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. september 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, en þó eigi lengur en til fimmtudagsins 11. október 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. september 2007.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt fram kröfu þess efnis að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til 11. október nk. kl. 16.
Í greinargerð kemur fram að þann 26. júní sl. hafi ákærði verið úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi til 7. ágúst sl. á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur nr. R-310/2007, sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar Íslands nr. 346/2007. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur nr. R-388/2007 hafi gæsluvarðhaldinu verið framlengt til dagsins í dag kl. 16.
Með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 7. ágúst sl. hafi verið höfðað opinbert mál á hendur ákærða. Í ákæruskjali sé honum gefið að sök fjórtán brot, ellefu auðgunarbrot, tvö fíkniefnalagabrot og eitt umferðarlagabrot. Flest þessara brota séu framin eftir að ákærði lauk afplánun 2. maí sl., þar á meðal séu mörg innbrot inn á heimili fólks og í fyrirtæki.
Málið hafi verið þingfest 21. ágúst sl. og muni aðalmeðferð þess fara fram 20. september nk.
Í greinargerð lögreglustjórans kemur fram það mat að ákærði sé vanaafbrotamaður í skilningi 72. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en hann hafi hlotið síðast sex mánaða fangelsisdóm 12. júlí sl. sbr, dóm Héraðsdóms Reykjaness nr. 64/2007, en sá dómur sé ekki fullnustuhæfur. Kemur fram í greinargerðinni að við rannsókn mála ákærða hafi komið í ljós að ákærði hafi verið í óreglu og án atvinnu. Brotaferill hans hafi verið samfelldur og sé það mat lögreglustjóra að hann muni halda áfram afbrotum verði hann látinn laus. Nauðsynlegt sé því að ákærði sæti áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gangi í máli hans. Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c.-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Samkvæmt ákæru á hendur ákærða sem þingfest hefur verið, er honum gefið að sök að hafa brotið gegn almennum hegningarlögum, fíkniefnalögum og umferðarlögum í samtals 14 skipti í desember sl. og janúar, maí og júní á þessu ári. Síðustu brotin samkvæmt ákærunni voru framin 23. 26. júní sl. en ákærði var úrskurðaður í gæsluvarhald 26. júní 2007 og hefur setið í gæsluvarðhaldi frá þeim tíma þar til nú. Með vísan til þessa og þess sem fram kemur í greinargerð lögreglustjóra er fallist á það mat hans að hætta sé á að ákærði haldi áfram brotum gangi hann laus. Þykja því skilyrði c liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 vera uppfyllt. Ákæra hefur verið gefin út og málið þingfest og er aðalmeðferð fyrirhuguð hinn 20. september n.k. Að þessu virtu verður fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til 11. október n.k. kl. 16,00.