Hæstiréttur íslands
Mál nr. 214/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Fimmtudaginn 29. mars 2012. |
|
Nr. 214/2012. |
Sýslumaðurinn
á Akureyri (Eyþór Þorbergsson fulltrúi) gegn X (Arnar Sigfússon hdl.) |
Kærumál.
Gæsluvarðhald. A. og c. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um
að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. og c. liða 1. mgr. 95. gr.
laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. mars 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 25. mars 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til 18. apríl 2012 klukkan 14.30 og einangrun allt til 4. apríl 2012 klukkan 14.30. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldstími verði styttur og einnig sá tími sem varnaraðila verði gert að sæta einangrun.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 25. mars 2012.
Mál
þetta var tekið til úrskurðar á dómþingi í dag.
Rannsóknari, sýslumaðurinn á Akureyri, krefst
þess að sakborningur, X, kt. [...], [...], [...],
verði hnepptur í gæsluvarðhald allt til 18. apríl nk., klukkan 14:30. Þá er þess krafist að heimilað verði að hafa
hann í einangrun í varðhaldinu, allt til 4. apríl nk., klukkan 14:30. Vísað er til a- og c- liða 1. mgr. 95. gr.
laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og einnig 2. mgr. 98. gr. sömu laga.
Sakborningur
krefst þess að kröfunni verði hafnað, en til vara að varðhaldi verði markaður
skemmri tími og kröfu um einangrun hafnað, en henni ella markaður skemmri tími
en krafist er.
Í
kröfu rannsóknara er rakið að lögregla rannsaki nú
nokkurn fjölda mála, sem hafi komið upp á tímabilinu frá 12. október 2011 fram
til dagsins í gær, þar sem grunur sé um að sakborningur eigi hlut að máli. Í gær hafi hann ráðist með hamri að nánar
greindri konu, sem mun vera barnsmóðir hans, og veitt henni áverka. Hafi hann verið handtekinn í gær vegna þess,
með heimild dómara.
Í
fyrradag hafi lögreglu verið tilkynnt að sakborningur hefði um hádegi rokið úr
viðtali hjá Fjölskyldudeild Akureyrarbæjar og í leiðinni brotið gler í
myndaramma. Um klukkan 14:00 hafi verið
tilkynnt frá sömu deild að sakborningur hefði hringt þangað grátandi og viljað
tala við tiltekna starfsmenn. Þegar
honum hefði verið tjáð að þeir væru ekki við hafi hann sagt að hann myndi drepa
þau öll. Rétt fyrir klukkan 18 um daginn
hafi íbúi við [...] tilkynnt að sakborningur hefði komið út úr íbúð sinni með
hafnaboltakylfu og lamið með henni í hliðarrúðu bifreiðar tilkynnandans, sem
hefði setið í henni.
Þá
segir að starfsfólk verslunar við [...] hafi orðið sakbornings vart um klukkan
14 þennan sama dag fyrir utan verslunina, þar sem hann hafi verið viðskotaillur,
gengið um og barið og sparkað í allt sem fyrir hafi orðið. Þau hafi einnig orðið vitni að því er hann
hafi ráðist að bifreiðinni. Þau hafi
verið óttaslegin og fundist öryggi sínu ógnað.
Þá
kemur fram að 12. mars sl. hafi nánar greindur maður haft samband við lögreglu
og sagt að sakborningur hafi verið að heimta fé af syni hans vegna fíkniefna. Hafi sonurinn verið búinn að greiða
sakborningi 7-800.000 krónur frá því haustið 2011. Sakborningur hafi haft í hótunum við
fjölskyldu hans, yrði ekki greitt.
Við
húsleit hjá sakborningi 29. febrúar 2012 hafi fundist ætluð fíkniefni,
skuldalisti, grammavogir og tveir ólöglegir hnífar.
Sakborningur
sé grunaður um hlutdeild í ráni sem hafi verið framið í [...] á Akureyri 23.
febrúar sl.
Lögreglan
á höfuðborgarsvæðinu hafi haft afskipti af sakborningi 29. janúar sl., vegna
aksturs bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, sviptur ökurétti. Hafi fundist fíkniefni við leit í
bifreiðinni.
Hinn
1. febrúar sl. hafi bæjarlögmaður Akureyrarbæjar kært hótanir sakbornings í
garð starfsmanna barnaverndar Eyjafjarðar hinn 29. nóvember 2011.
[...]
barnaverndar Eyjafjarðar tilkynnti lögreglu þrívegis í janúar sl. um ferðir
manns, sem hann taldi vera sakborning, fyrir utan heimili forstöðumannsins.
Þann
20. janúar tilkynnti starfsmaður fjölskyldudeildar Akureyrarbæjar um að
sakborningur hefði ruðst þar inn á kaffistofu, hitt [...] og hótað honum og
fjölskyldu hans. Annar starfsmaður
tilkynnti þann 9. janúar að sakborningur hefði hótað henni símleiðis. [...] hefði tilkynnt 28. desember sl. um
hótanir sakbornings símleiðis.
Þann
10. desember sl. hafi lögregla hitt tvo bræður við [...] á Akureyri. Þeir hafi greint frá því að sakborningur
hefði ógnað þeim með keðjusög og hótað þeim ef skuld yrði ekki greidd.
Þann
6. desember sl. hafi lögreglu verið tilkynnt um fjóra ,,handrukkara“ og
sakborningur verið þar á meðal. Nokkrar
húsleitir hafi verið framkvæmdar í tengslum við þetta og hafi fundist fíkniefni
og peningar.
Þann
5. desember sl. hafi 15. ára gömul stúlka verið staðin að fíkniefnaneyslu á
heimili sakbornings.
Þann
12. október sl. hafi lögregla verið að fylgjast með heimili sakbornings. Hún
hafi veitt athygli manni sem hafi farið inn í íbúð hans. Leitað hafi verið á manninum og smáræði af
fíkniefnum fundist. Í framhaldinu hafi
verið leitað í íbúð sakbornings og nokkurt magn fíkniefna fundist.
Rannsóknari vísar til þess að verið sé að
rannsaka margvísleg brot sakbornings gegn 106. gr., 218. gr., 257. gr. o.fl.,
almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá
sé verið að rannsaka brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974. Liggi fangelsisrefsing við þessum
brotum. Þá verði ekki komist hjá því að
ætla að sakborningur muni halda áfram brotum með hliðsjón af málavaxtalýsingu
hér að framan. Telur rannsóknari að beita beri c-lið
1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og úrskurða kærða í gæsluvarðhald. Þá megi ætla að hann muni torvelda rannsókn
málsins, haldi hann óskertu frelsi, með því að afmá ummerki, skjóta undan munum
og hafa áhrif á vitni eða samseka, sbr. a-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr.
88/2008. Sé einangrunar krafist til að
koma í veg fyrir að hann hafi áhrif á samseka og vitni.
Samkvæmt
framansögðu er rökstuddur grunur um að sakborningur hafi ráðist að barnsmóður
sinni og veitt henni áverka með aðferð sem kann að varða við 2. mgr. 218. gr.
almennra hegningarlaga. Rannsókn þessa
máls er á frumstigi. Þá liggur hann auk
annars undir rökstuddum grun um hótanir í garð opinberra starfsmanna, þannig að
varðað getur við 1. mgr. 106. gr. sömu laga.
Rannsókn þessara mála er mislangt komin.
Þá grunar lögregla sakborning um hlutdeild í ráni, sem var framið í [...]
þann 23. febrúar sl. Kemur fram í
rannsóknargögnum að lögregla telur nauðsynlegt að geta handtekið og yfirheyrt
samtímis aðra sakborninga um meinta aðild sakbornings.
Samkvæmt
framansögðu verður fallist á það með rannsóknara að
skilyrði séu uppfyllt til þess að sakborningur sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli
a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Jafnframt verður fallist á það, með vísan til þess sem að framan er
rakið um kærur til lögreglu á hendur sakborningi undanfarið, svo og afskipti
lögreglu af honum, og sérstaklega þegar litið er til framferðis hans í gær og
fyrradag, að ætla megi að hann muni halda áfram brotum meðan máli hans er ekki
lokið. Eru skilyrði c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 því einnig
uppfyllt. Eftir þessu verður fallist á
kröfu rannsóknara um gæsluvarðhald allt til 18. apríl
nk. klukkan 14:30 og heimilað að hafa sakborning í einangrun í varðhaldinu allt
til 4. apríl nk. klukkan 14:30.
Erlingur
Sigtryggsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Sakborningur,
X, sæti gæsluvarðhaldi allt til 18. apríl nk., klukkan 14:30. Heimilt er að hafa hann í einangrun í
varðhaldinu allt til 4. apríl nk., klukkan 14:30.