Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-173

Ákæruvaldið (Einar Tryggvason saksóknari)
gegn
Pétri Péturssyni (Einar Gautur Steingrímsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skattalög
  • Bókhaldsbrot
  • Virðisaukaskattur
  • Staðgreiðsla opinberra gjalda
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 13. nóvember 2024 leitar Pétur Pétursson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 17. október sama ár í máli nr. 276/2023: Ákæruvaldið gegn Sigurbergi Inga Pálmasyni og Pétri Péturssyni. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum í rekstri nánar tilgreinds einkahlutafélags rekstrarárin 2018 og 2019. Þótti sannað að leyfisbeiðandi hefði sýnt af sér stórkostlegt hirðuleysi sem framkvæmdastjóri og stjórnarformaður félagsins. Refsing hans var ákveðin fangelsi í níu mánuði en fullnustu hennar frestað skilorðsbundið í tvö ár og honum gert að greiða sekt til ríkissjóðs en sæta ella fangelsi í 240 daga.

4. Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða Landsréttar sé ekki í samræmi við dómafordæmi Hæstaréttar í sambærilegum málum. Niðurstaðan sé reist á hlutlægri refsiábyrgð. Á undanförnum árum hafi dómaframkvæmd verið á þá leið að þegar sýnt hafi verið fram á að aðrir en skráðir stjórnarmenn og framkvæmdastjórar hafi annast skattskil hafi það leitt til sýknu skráðra stjórnenda. Um þetta vísar leyfisbeiðandi til dóma Hæstaréttar 12. desember 2013 í máli nr. 354/2013 og 27. október 2016 í máli nr. 321/2015. Þá telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni til enda sé leyfisbeiðandi sjálfur fórnarlamb ráðagerða tveggja annarra einstaklinga um refsivert athæfi.

5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar. Beiðninni er því hafnað.