Hæstiréttur íslands
Mál nr. 311/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
|
|
Miðvikudaginn 13. júní 2007. |
|
Nr. 311/2007. |
Kolbrún Guðmundsdóttir(Magnús B. Brynjólfsson hdl.) gegn Reynald Jónssyni og Búafli ehf. (Kristján Þorbergsson hrl.) |
Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.
R og B ehf. kröfðust dómkvaðningar matsmanns til að meta nánar tilgreind atriði varðandi frágang á svölum húseignar en K taldi þær vera gallaðar. K mótmælti dómkvaðningunni og vísaði til þess að spurningar í matsbeiðninni hefðu hlotið umfjöllun í eldri matsgerð, sem lá fyrir í málinu, svo og að ekki væri unnt að leggja fyrir matsmann að meta tiltekið atriði. Vísað var til þess að í lögum nr. 19/1991 væri ekki girt fyrir að afla nýrrar matsgerðar til viðbótar við eldri matsgerð þó að hún tæki að einhverju leyti til sömu atriða og sú eldri. Þá lytu athugasemdir K við matsspurningarnar að efnisatriði málsins, en ekki yrði fullyrt á þessu stigi að matsgerð samkvæmt beiðninni skipti ekki máli eða væri tilgangslaus til sönnunar í málinu. Var úrskurður héraðsdóms, þar sem dómkvaðningin var heimiluð, því staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. maí 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. júní sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. maí 2007, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að dómkveðja matsmann samkvæmt matsbeiðni þeirra 27. mars 2007. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Málavextir er raktir í hinum kærða úrskurði. Athugasemdir sóknaraðila við dómkvaðningu matsmanns beinast annars vegar að því að spurningar í matsbeiðninni hafi í ýmsu hlotið umfjöllun í matsgerð frá 12. febrúar 2007 og hins vegar að ekki sé unnt að leggja fyrir matsmann að meta kostnað við að breyta samþykktum teikningum, sem ekki verði gert nema með samþykki sóknaraðila. Eins og rakið er í dómi Hæstaréttar 7. nóvember 2000 í málinu nr. 400/2000, á bls. 3517 í dómasafni, eru engar sérstakar hömlur í lögum nr. 91/1991 við að dómkvaddur verði maður til að meta atriði, sem matsgerðar hefur þegar verið aflað um. Enn síður er girt fyrir það að til viðbótar eldri matsgerð sé aflað nýrrar matsgerðar, sem taki að einhverju leyti til annarra atriða en sú fyrri eða sé ætlað að gefa ítarlegri upplýsingar um matsefni en áður hafi fengist, en það á við um þá matsgerð sem varnaraðilar vilja nú afla. Að öðru leyti lúta athugasemdir sóknaraðila við matspurningar að efnisatriðum málsins, en ekki verður fullyrt á þessu stigi að matsgerð samkvæmt beiðninni skipti ekki máli eða sé tilgangslaus til sönnunar, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Verða varnaraðilar að bera áhættu af notagildi matsgerðarinnar til sönnunar í málinu samhliða kostnaði af öflun hennar. Að þessu gættu eru ekki efni til að meina varnaraðilum að afla matsgerðar um þau atriði sem greinir í matsbeiðninni. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Rétt er að aðilar beri sinn kostnað af rekstri kærumálsins fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. maí 2007.
Mál þetta, sem tekið var til úrskuðar 23. apríl sl., er höfðað 31. október 2006 af Kobrúnu Guðmundsdóttur, Ægisgötu 5, Reykjavík gegn Reynald Jónssyni, Þrastarlundi 18, Garðabæ, persónulega og fyrir hönd Búafls ehf., sama stað.
Aðalstefnandi krefst skaðabóta úr hendi stefndu að fjárhæð 5.000.000 króna vegna afhendinardráttar á íbúð sem stefnandi keypti af stefnda Búafli ehf. með kaupsamningi, dags. 3. júní 2005. Þá krefst stefnandi einnig skaðabóta vegna meintra galla á umræddri íbúð en hún telur að íbúðin uppfylli ekki áskilda kosti.
Aðalstefndi hefur höfðað gagnsök í málinu til greiðslu á eftirstöðvum kaupverðs samkvæmt kaupsamningi.
Aðalstefnandi lagði fram beiðni, dags. 24. október 2006, í Héraðsdómi Reykjavíkur um að dómkvaddur yrði matsmaður til þess að skoða og meta orsakir meintra galla, vöntun áskilinna kosta, vinnu- og efniskostnað við málningarfrágang, flísalagnir o.fl. Til að framkvæma umbeðið mat kvaddi dómurinn til Hjalta Sigmundsson, byggingatæknifræðing og húsasmíðameistara. Er matsgerð hans dags. 12. febrúar 2007.
Í þinghaldi 27. mars sl. lögðu aðalstefndu fram matsbeiðni. Af hálfu aðalstefnanda var því mótmælt að matsbeiðnin næði fram að ganga.
Hinn 23. apríl sl. fór fram munnlegur málflutningur um þetta ágreiningsefni.
Af hálfu aðalstefndu er gerð sú krafa að dómkvaðning matsmanns nái fram að ganga. Í matsbeiðni sé óskað mats á atriðum sem ekki hafi verið metin áður og 64. gr. laga nr. 91/1991 komi í veg fyrir að óskað verði yfirmats.
Af hálfu aðalstefnanda er þess krafist að matsbeiðni nái ekki fram að ganga og synjað verði um dómkvaðningu matsmanns. Byggir aðalstefnandi þessa kröfu sína á því að þegar hafi verið metið það sem nú er óskað mats á og telur hann matsgerð þá sem aðalstefnandi hefur þegar lagt fram í málinu svara þeim spurningum er fram komi í matsbeiðni aðalstefndu.
Í umdeildri matsbeiðni aðalstefndu er þess óskað að matsmaður leggi mat á og svari eftirfarandi spurningum.
1. Hvort sú útfærsla sem er á svölum í íbúð 502 að Ægisgötu 5, Reykjavík sé sambærileg þeirri sem teiknuð er á samþykktum teikningum: Ef svo sé hver sé kostnaður að breyta teikningum til samræmis við framkvæmd.
2. Hvort frágangur á svölum sé að öðru leyti sé gallaður. Ef svo sé er þess óskað að matsmaður komi með tillögur að úrbótum og meti kostnað við þær.
Í matsbeiðni sem lögð var fram af aðalstefnanda er því haldið fram að svalagólf, sem er hellulagt, sé ójafnt munstrað og óslétt. Fúgufyllingu, hellulögn eða annan faglega viðurkenndan frágang vanti upp við vegg, m.a. til að halda hellum föstum og til að halda frá óhreinindum við vegg. Einnig vanti fúgur með öllum hellum/flísum en þær muni ella fyllast af óhreinindum með tímanum. Hellur séu brotnar. Svalakantur og frágangur upp við vegg sé ekki í samræmi við fyrirliggjandi teikningar arkitekta. hellur séu með tjöruslettum eftir vinnu við kant og séu óþrifnar. Þess er óskað að matsmaður meti eðlilegt og sanngjarnt verð efni og vinnu við lagfæringu og frágang framangreindra atriða.
Í matsgerð dómkvadds matsmanns kemur fram að á matsfundi hafi lögmaður matsbeiðanda, þ.e. aðalstefnanda, lagt áherslu á að matsmaður mæti kostnað við að gera svalir til samræmis við það sem sýnt er á samþykktum teikningum.
Í niðurstöðu matsmanns varðandi þennan matslið segir að matsmaður staðfesti að frágangur svala sé ekki í samræmi við samþykktar teikningar sem matsmaður fékk hjá byggingarfulltrúanum í Reykjavík. Uppbygging sé þó sambærileg að áliti matsmanns en frágangur á ýmsan hátt ekki í samræmi við teikningar og ófullnægjandi. Metinn sé hæfilegur kostnaður við að færa svalir til þess horfs sem sýnt er á teikningum arkitekta. Nemur heildarkostnaður við þetta 1.269.000 krónum að mati matsmanns.
Ljóst þykir að niðurstaða matsmanns byggist að verulegu leyti á samanburði hans við samþykktar teikningar af svölum umrædds húss og hver kostnaður sé við að færa svalir til þess horfs sem sýnt sé á teikningum arkitekta. Enda þótt fyrri spurningu aðalstefndu í matsbeiðni sé að einhverju leyti svarað í framangreindri niðurstöðu matsmanns með því að hann telur uppbyggingu svala sambærilega þeirri sem fram kemur á teikningu þá er það ekki nánar útfært í matsgerðinni. Af þeim sökum þykir mega fallast á að aðalstefndu sé heimilt að óska svara við þessari spurningu sinni. Síðari hluti matsliðar nr. 1 hefur enga umfjöllun fengið í framlagðri matsgerð. Hvað varðar matslið 2 í matsbeiðni þykir ekki liggja fyrir hvort frágangur á svölum sé í raun gallaður heldur einungis að hvaða leyti matsmaður telur frágang ekki í samræmi við samþykktar teikningar. Að þessu virtu ber að fallast á kröfu aðalstefndu um að dómkvaðning matsmanns, samkvæmt matsbeiðni sem lögð var fram 27. mars sl., nái fram að ganga
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Fallist er á kröfu aðalstefndu um að dómkvaðning matsmanns, samkvæmt matsbeiðni aðalstefndu sem lögð var fram 27. mars sl., nái fram að ganga.