Hæstiréttur íslands
Mál nr. 253/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Kröfugerð
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Mánudaginn 22. apríl 2013. |
|
Nr. 253/2013.
|
Héðinshöfði ehf. (Þorbjörg I. Jónsdóttir hrl.) gegn Mostri ehf. og (Björgvin Þorsteinsson hrl.) Kiðá ehf. (Bergþóra Ingólfsdóttir hrl.) |
Kærumál. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Með kaupsamningi 27. janúar 2006 seldi H ehf. M ehf., sem síðar varð K ehf., 70% hlut í félaginu L ehf. Í tengslum við kaupin var undirritað hluthafasamkomulag þar sem m.a. var kveðið á um gagnkvæman forkaupsrétt o.fl. Með skiptaáætlun í nóvember 2009 var samþykkt að skipta K ehf. á grundvelli 107. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög þannig að nýstofnað félag, tæki við hluta af eignum og skuldum K ehf., þ. á m. eignarhlut K ehf. í L ehf. H ehf. hélt því fram að við skiptinguna hefði ákvæði hluthafasamkomulagsins um forkaupsrétt orðið virkt. Krafðist H ehf. þess að afsal hlutaeignar K ehf. í L ehf. yrði ógilt og að viðurkenndur yrði með dómi forkaupsréttur H ehf. að hlutum í L ehf. Talið var að kröfugerð H ehf. uppfyllti ekki skilyrði d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og var málinu því vísað frá dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. apríl 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. mars 2013, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast hvor fyrir sitt leyti staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Héðinshöfði ehf., greiði varnaraðilum, Mostri ehf. og Kiðá ehf., hvorum fyrir sig 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. mars 2013.
Mál þetta var þingfest 20. september 2012 og tekið til úrskurðar um frávísunarkröfur stefndu 20. febrúar 2013. Stefnandi er Héðinshöfði ehf., Furuvölllum í Mosfellsbæ, en stefndu eru Mostur ehf., Laxnesi, Mosfellsbæ, og Kiðá ehf., Bifröst, Borgarnesi.
Dómkröfur stefnanda eru þær að ógilt verði afsal hlutaeignar Kiðár ehf., áður Mosturs ehf., kt. 490905-1700, í Laxnesbúinu ehf., til stefnda, Mosturs ehf., og að viðurkenndur verði með dómi forkaupsréttur stefnanda að hlutum í Laxnesbúinu ehf. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu in solidum að skaðlausu að mati dómsins, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Stefndi, Kiðá ehf., gerir þær dómkröfur aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi en til vara að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum er farið fram á málskostnað, að viðbættum virðisaukaskatti að skaðlausu að mati dómsins.
Stefndi, Mostur ehf., gerir þær dómkröfur aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að mati dómsins. Til vara er þess krafist að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.
Í þessum þætti málsins eru til úrlausnar kröfur beggja stefndu um frávísun málsins og málskostnað. Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfum stefndu verði hafnað og að honum verði dæmdur málskostnaður að skaðlausu.
I.
Stefnandi lýsir málavöxtum svo í stefnu að stefnandi, þá eini eigandi Laxnesbúsins ehf., hafi hinn 27. janúar 2006 sem seljandi gert kaupsamning við Mostur ehf., kt. 490905-1700, um kaup félagsins á 70% hluta í Laxnesbúinu ehf. Jafnframt hafi verið gert hlutahafasamkomulag, dagsett sama dag, milli stefnanda, Mosturs ehf. og Laxnesbúsins ehf. um hvernig eigendur ættu að stjórna Laxnesbúinu ehf. og hafi þar m.a. verið ákvæði um hvernig stjórn félagsins skyldi skipuð, hluthafafundi, helstu ákvarðanatökur og fleira, svo og ákvæði um gagnkvæman forkaupsrétt þessara eigenda hluta í Laxnesbúinu ehf.
Samkvæmt hluthafasamkomulaginu og 2.4. gr. samþykkta félagsins, hafi hluthafar átt forkaupsrétt að öllum hlutum í Laxnesbúinu ehf. og hafi Mostri ehf. því borið að bjóða stefnanda forkaupsrétt, kæmi til sölu á hlutum í félaginu. Samkvæmt 5.2. gr. í hluthafasamkomulagi vegna Laxnesbúsins ehf. hafi jafnframt verið ákvæði um að nafn nýs hluthafa skyldi ekki fært í hlutaskrá fyrr en lögleg eigendaskipti samkvæmt ákvæðum samþykktar hefðu verið tilkynnt og hafi réttindi hluthafa átt að miðast við hluthafaskrá eins og hún væri á hverjum tíma. Í 2.8. gr. samþykkta félagsins sé síðan kveðið á um hvers konar eignatilfæringar á hlutum virkjuðu ekki forkaupsrétt og sé þar aðeins vísað til eigendaskipta vegna erfða eða búskipta.
Með skiptingaráætlun, dagsettri 26. nóvember 2009, hafi verið samþykkt að skipta Kiðá ehf., kt. 490905-1700, á grundvelli 107. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, en nafni félagsins hefði rétt áður verið breytt úr Mostri ehf. í Kiðá ehf. Ákveðið hafi verið að skipta félaginu þannig að nýstofnað félag Mostur, kt. 661109-1220, tæki við hluta af eignum og skuldum Kiðár ehf. og hafi verið tekið fram í áætluninni að skiptingin kæmi til framkvæmda 1. ágúst 2009. Skiptingin hafi verið auglýst af Hlutafélagaskrá með auglýsingu birtri í Lögbirtingablaði, útgefnu 5. mars 2010. Hafi skiptingunni síðan verið lokið á hluthafafundi í Kiðá ehf. hinn 6. apríl 2010 og með henni hafi eign Kiðár ehf., áður Mosturs ehf., færst til nýstofnaðs Mosturs ehf. með kennitöluna 661109-1220. Stefnanda hafi ekki verið tilkynnt um skiptingu þessa eða yfirfærslu eignarhlutar í Laxnesbúinu ehf. milli gamla og nýja félagsins og þá hefði honum ekki verið boðinn forkaupsréttur að hlutunum, svo sem hann telur að hluthafasamkomulagið geri ráð fyrir. Þá hafi stefnandi aldrei fengið tækifæri til að meta hvort eignarhlutum í Laxnesbúinu ehf. væri þar með stefnt í hættu og þar með hagsmunum stefnanda, sem eiganda 30% eignarhluta, gagnvart félaginu. Um leið og stefnanda hafi orðið þetta ljóst, hafi hann beint andmælum til Hlutafélagaskrár vegna málsins og gert þá kröfu að ekki yrði leyfð skráning á nýrri stjórn í Laxnesbúinu ehf., sem stefndi, Mostur ehf., hafi staðið fyrir og auk þess beint kvörtun vegna málsins til efnahags- og viðskiptaráðuneytis en án árangurs.
Þá hafi einnig orðið ágreiningur milli aðila um stjórnun Laxnesbúsins ehf. og meðferð eigna félagsins, einkum sölu á landi í Laxnesi 2, sem hafi verið í eigu Laxnesbúsins ehf. en hafi verið afsalað til stefnanda með kaupsamningi, dagsettum 6. apríl 2009. Hafi Laxnesbúið ehf. gert kröfu um lögbann vegna þess hjá sýslumanni hinn 7. ágúst 2011 og sé nú rekið dómsmál milli aðila um það. Ágreiningur aðila sé umfangsmikill og lúti einkum að því hver fari með yfirráð yfir landareign að Laxnesi 2 í Mosfellsdal, sem sé nú eign stefnanda, en hafi áður verið í eigu Laxnesbúsins ehf. Sé mál þetta aðeins hluti af ágreiningi aðila sem þetta varðar.
Stefnandi telur að með skiptingu stefndu á félaginu Kiðá ehf., sem hafi verið lokið í apríl 2010, hafi verið brotið á forkaupsrétti hans að hlutum í Laxnesbúinu ehf. með afsali á hlutunum frá eldra félaginu til þess nýrra. Höfðaði hann því mál þetta á hendur stefndu með stefnu áritaðri um birtingu 5. og 14. september 2012.
II.
Stefnandi byggir á því að hann hafi átt forkaupsrétt á hlutum í Laxnesbúinu ehf. sem hafi átt að koma til framkvæmda við yfirfærslu á hlutaeign í Laxnesbúinu ehf. frá Kiðá ehf. til Mosturs ehf. með skiptingunni í apríl 2010. Þar sem stefnanda hafi ekki verið boðið að neyta forkaupsréttar síns, sé yfirfærslan á hlutunum milli félaganna óheimil og ógild, enda séu forkaupréttarákvæði í samþykktum Laxnesbúsins ehf. og hluthafasamkomulagi aðila bæði skýr og fortakslaus.
Stefnandi kveður kröfu sína um ógildingu afsals á hlutum í Laxnesbúinu ehf. til stefnda, Mosturs ehf., byggða á því að öll eignayfirfærsla, sem stríði gegn forkaupsrétti stefnanda, sé ógild og skipti þá engu máli hvort afsal á eignarréttinum hafi átt sér stað við skiptingu stefnda, Kiðár ehf., eða með öðrum hætti. Með skiptingunni hafi eignarrétturinn að hlutunum verið færður á milli stefndu og hafi það beinlínis verið tilgangur forkaupsréttarákvæða hluthafasamkomulags aðila að slíkt gæti ekki átt sér stað, án þess að aðrir hluthafar, s.s. stefnandi, gætu neytt forkaupsréttar. Þá liggi fyrir að stefndi, Mostur ehf., hafi tekið við þessari eign ásamt skuldum stefnda, Kiðár ehf., og þannig hafi komið verðmæti fyrir hlutina og hafi yfirfærslan sömu stöðu og sala. Hafi því átt að gefa stefnanda kost á að nýta forkaupsrétt sinn.
Stefnanda hafi aldrei verið tilkynnt um fyrirhugað afsal hlutanna til hins nýja Mosturs ehf. í samræmi við forkaupsréttarskilmála í samþykktum Laxnesbúsins ehf. og hafi stefnanda hvorki verið tilkynnt um eigendabreytingu að hlutunum né gefið færi á að nýta forkaupsrétt sinn. Mostur ehf. hafi nú kennitöluna 661109-1220 og sé þar af leiðandi nýr eigandi að hlutum í Laxnesbúinu ehf., án þess að stefnanda hafi á nokkrum tímapunkti verið boðinn forkaupsréttur eins og hluthafasamkomulag félagsins kveði á um. Byggir stefnandi á því að hið nýja Mostur ehf., kt. 661109-1220, sé ekki réttmætur eigandi hlutanna og sökum þess sé núverandi stjórn Laxnesbúsins ehf. ekki réttilega skipuð, enda séu allir stjórnarmenn skipaðir af hinu nýja Mostri ehf. sem ekki sé í samræmi við samþykktir félagsins.
Stefndi, Mostur ehf. með kennitöluna 661109-1220, hafi ekki verið stofnað fyrr en í lok nóvember 2009 og sé þar af leiðandi annar lögaðili en stefndi, Kiðá ehf., sem hafi verið samningsaðili stefnanda í hluthafasamkomulagi aðila. Þannig hafi verið um bein aðilaskipti að hlutunum í Laxnesbúinu ehf. að ræða þegar þeir voru færðir frá eldra félaginu til þess nýja og við það hafi átt að bjóða stefnanda forkaupsrétt, enda sé það ekki tiltekið í annars ítarlegu hluthafasamkomulagi aðila að skipting félaga falli undir undanþágur frá forkaupsréttinum, sem þar séu tilgreindar. Þegar af þeirri ástæðu hafi afsal á hlutaeigninni verið óheimilt og beri að ógilda það með dómi.
Jafnframt er byggt á því af hálfu stefnanda að fara hefði átt að ákvæðum 5.1. gr. hlutahafasamkomulags aðila við yfirfærslu á eignarhlutum í Laxnesbúinu ehf. á milli stefndu, þ. á m. með því að tilkynna stefnanda um fyrirhugaða skiptingu og færslu eigna milli félaganna. Þessar reglur gildi hvort sem um beina sölu hlutanna sé að ræða eða aðilaskipti, s.s. með skiptingu, enda sé þeim ætlað að vernda minnihlutaeiganda eins og einnig sé tekið fram í 5.4. gr. í hluthafasamkomulaginu en þessar greinar eigi sér lagastoð í ákvæðum laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Þannig hafi lögbundinni aðferðafræði ekki verið fylgt gagnvart stefnanda við yfirfærslu eignarinnar í Laxnesbúinu milli aðila og þegar af þeirri ástæðu eigi að ógilda hana.
Krafa stefnanda um viðurkenningu á forkaupsrétti hans á hlutum í Laxnesbúinu ehf. sé byggð á ákvæðum hluthafasamkomulags aðila og samþykktum félagsins þar sem segi að hluthafar eigi forkaupsrétt við aðilaskipti að hlutum, svo lengi sem tilgreindar undantekningar eigi ekki við. Yfirfærslan milli stefndu geti ekki fallið undir nefndar undantekningar og því eigi stefnandi rétt á að forkaupsréttur hans verði staðfestur með viðurkenningu fyrir dómi.
Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, einkum IV. kafla, svo og samþykkta Laxnesbúsins ehf. og hluthafasamkomulags. Krafa um málflutningsþóknun byggist á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og um varnarþing er vísað til 33. og 35. gr. sömu laga.
III.
Stefndi, Kiðá ehf., byggir aðalkröfu sína um frávísun á því að dómkrafa stefnanda, eins og hún sé sett fram og orðuð, sé óframkvæmanleg og svo óskýr að ekki verði lagður dómur á hana. Í dómkröfunni sé þess krafist að „ógilt verði afsal hlutaeignar Kiðár ehf.“ í Laxnesbúinu til Mosturs ehf. Hvorki sé tilgreint hvenær þetta afsal hafi átt að hafa farið fram, né sé afsalið, sem krafist sé ógildingar á, lagt fram í málinu. Ekkert slíkt afsal sé til. Eins og fram komi í gögnum málsins hafi eignarhald Mosturs ehf., kt. 661109-1220, á hlutum í Laxnesbúinu ehf. verið tilkomið vegna skiptingar félagsins Kiðár ehf. í tvö félög. Ekkert afsal sé til staðar og sé því dómkrafa stefnanda óframkvæmanleg, enda í andstöðu við málavöxtu. Hana sé því ekki hægt að taka upp í dómsorð.
Þá byggir stefndi á því, að málatilbúnaður stefnanda sé jafnframt vanreifaður þar sem hvorki sé gerð tilraun til þessi í stefnu að útskýra hvernig mögulegt sé að fallast á dómkröfuna, miðað við framangreint, né hvað sé átt við með nefndu afsali. Augljóst sé að ekki verði ógilt í dómsorði skjal, sem ekki sé til, og sé þar af leiðandi ekki lagt fram af þeim sem krefjist ógildingar á því. Geri slík dómkrafa stefnda í raun erfitt að taka til varna. Þá sé orðið „hlutaeign“ í dómkröfu einnig óskýrt. Geri slík óljós tilgreining eignar það einnig að verkum að nauðsynlegt sé að vísa málinu frá. Þá sé ekki tilgreint í síðari hluti dómkröfu hvort krafist sé viðurkenningar á forkaupsrétti samkvæmt framlögðu hluthafasamkomulagi eða samþykktum fyrir Laxnesbúið en ákvæði skjalanna teggja um forkaupsrétt séu ekki orðrétt eins.
Hafi ætlun stefnanda verið sú, að krefjast ógildingar einhvers hluta skiptingar Kiðár ehf., sé ljóst að slíkt verði ekki gert með dómkröfu stefnanda í máli þessu. Krafan sé því svo vanreifuð og óskýr að óhjákvæmilegt sé að vísa henni frá dómi með vísan til ákvæða e-liðar 80. gr. laga nr. 91/1991. Af því leiði jafnframt að vísa beri frá síðari hluta dómkröfu stefnanda þess efnis að viðurkenndur verði með dómi forkaupsréttur stefnanda í Laxnesbúinu ehf. Auk þess sé ekki útskýrt í stefnu hvernig hið stefnda félag Kiðá ehf. geti þolað slíkan dóm en félagið sé ekki hluthafi í Laxnesbúinu ehf. Úr þessum atriðum verði ekki bætt undir rekstri málsins.
IV.
Stefndi, Mostur ehf., byggir aðalkröfu sína um frávísun málsins á því að dómkröfur stefnanda séu þannig úr garði gerðar að ekki verði lagður á þær dómur. Krafist sé ógildingar á afsali, sem ekki sé til, og viðurkenningar á forkaupsrétti ótilgreindrar fjárhæðar hluta í Laxnesbúinu ehf. og sé ótilgreint á hvaða verði kaupin eigi að fara fram. Tekur stefndi, Mostur ehf., jafnframt undir öll þau rök, sem fram komi í greinargerð stefnda, Kiðár ehf., að því er varðar frávísunarkröfuna.
V.
Eins og áður greinir var mál þetta flutt um frávísunarkröfur stefndu og er einungis sá þáttur málsins til úrlausnar hér.
Stefndu byggja frávísunarkröfur sínar í fyrsta lagi á því að dómkrafa stefnanda sé ódómtæk, eins og hún sé orðuð og sett fram. Í fyrsta lagi sé ekkert afsal lagt fram í málinu og því sé ekki hægt að ógilda það. Þá sé ekki gerð grein fyrir því hvað átt sé við með nefndu afsali. Stefnandi mótmælir þessari málsástæðu stefndu og vísar til þess að með orðinu afsal sé átt við þá eignayfirfærslu á hlutaeign Kiðár ehf., sem áður hét Mostur ehf., til stefnda, Mosturs ehf., og sé með kröfugerðinni freistað að fá þá eignayfirfærslu eða afsölun ógilta. Verður að fallast á það með stefnanda að líta verði svo á að með því að krefjast ógildingar á afsali sé stefnandi að krefjast ógildingar á þeirri eignayfirfærslu, sem lýst er í málavaxtakafla hér að framan. Verður því ekki fallist á með stefndu að umrædd orðnotkun ein og sér varði frávísun málsins.
Í þeim kafla stefnunnar, sem ber yfirskriftina „Málsástæður og önnur atvik“ er því lýst að stefnandi hafi selt Mostri ehf., sem síðar varð Kiðá ehf., 70% hlut í Laxnesbúinu ehf., sem stefnandi hafði verið eini eigandinn að. Er því jafnframt lýst að síðar hafi Mostri ehf., sem þá hét orðið Kiðá ehf., verið skipt og hafi þá nýstofnað félag með nýrri kennitölu, Mostur ehf., tekið við hluta af eignum og skuldum Kiðár ehf. Er því lýst að skiptingunni hafi lokið á hluthafafundi Kiðár ehf. og með henni hafi eign Kiðár ehf. færst yfir til nýja Mosturs ehf. Eins og áður er rakið er það krafa stefnanda í máli þessu að framangreind eignayfirfærsla á eignarhlutum verði ógilt og að viðurkenndur verði forkaupsréttur stefnanda að hlutum í Laxnesbúinu ehf. Hins vegar er í kröfugerð stefnanda ekki tilgreindur sá eignarhlutur sem kröfur stefnanda lúta að. Er það mat dómsins að nánari tilgreining að þessu leyti hefði þurft að koma fram í dómkröfu stefnanda, enda hefur í íslenskum rétti verið gengið út frá því að kröfugerð stefnanda í dómsmáli verði að vera svo ákveðin og skýr að taka megi hana óbreytta upp sem ályktunarorð í dómsniðurstöðu, ef til þess kemur að fallist er á kröfur hans. Kemur þessi meginregla fram í d-lið 80 gr. 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Verður að fallast á með stefndu að sú kröfugerð stefnanda, þar sem annars vegar er krafist ógildingar á afsali hlutaeignar í Kiðá ehf. án þess að tilgreint sé hver sá hlutur sé, og hins vegar að viðurkenndur verði forkaupsréttur að hlutum í Laxnesbúinu ehf., án þess að þar sé að finna afmörkun á þeim hlutum, sem stefnandi telur sig eiga rétt á að fá selda sér, uppfylli ekki skilyrði d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Þykir engu breyta um þá niðurstöðu þótt í öðrum kafla stefnu sé gerð grein fyrir umræddu eignarhlutfalli. Að þessu virtu verður, þegar af framangreindum ástæðum, ekki hjá því komist að vísa kröfum stefnanda frá dómi, eins og krafist er.
Eftir niðurstöðu málsins og með vísan til ákvæða 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefnanda gert að greiða stefndu hvorum um sig 250.000 krónur í málskostnað.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Héðinshöfði ehf., greiði stefnda, Kiðá ehf., 250.000 krónur í málskostnað.
Stefnandi, Héðinshöfði ehf., greiði stefnda, Mostri ehf., 250.000 krónur í málskostnað.