Hæstiréttur íslands
Mál nr. 314/2016
Lykilorð
- Skuldabréf
- Handveð
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Karl Axelsson og Viðar Már Matthíasson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. apríl 2016. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 3.371.972 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. nóvember 2012 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Áfrýjandi og Bryndís Ann Brynjarsdóttir gáfu út skuldabréf til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis 27. maí 2008 að jafnvirði 36.000.000 krónur með þeirri „upphafsmyntsamsetningu“ að 50% skyldu vera í svissneskum frönkum og sama hlutfall í japönskum jenum. Skuldabréfið fékk númerið 1688 og er óumdeilt að til tryggingar skuld samkvæmt bréfinu settu skuldarar veðtryggingu. Við fall fjármálakerfisins í október 2008 hækkaði skuld samkvæmt bréfinu verulega og greiðslubyrði jókst. Var skilmálum skuldabréfsins breytt 5. nóvember 2008 og þá meðal annars á þann hátt að greiðslum af því var frestað tímabundið frá 3. nóvember 2008 til 1. október 2009. Á meðan á umræddri frestun stóð skyldu skuldarar greiða mánaðarlega 250.000 krónur inn á reikning 1163-18-250094 hjá SPRON hf. Innstæða á reikningnum skyldi vera „handveðsett til tryggingar á greiðslu á skuldabréfi þessu.“ Þá kom fram að áður en fyrsti gjalddagi vaxta og afborgana yrði reiknaður út eftir frestunartímann skyldi innstæðu á handveðsetta reikningnum ráðstafað sem innborgun inn á „skuld skuldara skv. skuldabréfi þessu“. Fyrir liggur að greiðslur þessar voru inntar af hendi á umræddu tímabili en 5. janúar 2009 var innstæða á reikningnum flutt yfir á reikning 0338-13-205012 á nafni áfrýjanda hjá Arion banka hf. Ekki hefur fengist upplýst af hvaða ástæðum þetta var gert en á hinn bóginn liggur fyrir að áfrýjandi greiddi áfram mánaðarlega greiðslu inn á hinn nýja reikning allt til loka umsamins tímabils. Eftir að síðasta greiðslan hafði verið innt af hendi 1. október 2009 sýnist ekki hafa verið greitt af skuldabréfinu.
Bryndís Ann gaf út nýtt skuldabréf til stefnda 25. maí 2011 og nam höfuðstólsfjárhæð þess 41.147.775 krónum sem óumdeilt er að svaraði til uppgreiðslufjárhæðar skuldar samkvæmt bréfinu sem Bryndís Ann og áfrýjandi gáfu út 27. maí 2008. Lánið var veitt til 28 ára og 9 mánaða. Það skyldi bera breytilega vexti, upphaflega 5,25%, og þeir reiknast frá 1. maí 2011. Til tryggingar setti Bryndís Ann að veði fasteign sína Víghólastíg 9, Kópavogi. Skuldabréfið fékk númerið 16105. Á bakhlið skuldabréfsins kom fram í áritun Arion banka hf. að þetta lán kæmi „í staðinn fyrir neðangreint erlent lán lántaka hjá Dróma hf.“ Var það lán sagt vera samkvæmt skuldabréfi útgefnu 28. maí 2008, að upphaflegri fjárhæð 36.000.000 krónur en að eftirstöðvum 41.147.775 krónur og væri númer þess 10881.
Ekki kom til þess áður en skuldabréfið var gefið út 25. maí 2011 að innstæðu á fyrrgreindum reikningi nr. 205012 hjá Arion banka hf. væri ráðstafað til greiðslu inn á skuld samkvæmt eldra skuldabréfinu svo sem fyrrnefndur handveðssamningur ráðgerði. Áfrýjandi óskaði eftir því með tölvubréfi til starfsmanns Arion banka hf. 5. nóvember 2012 að innstæða á reikningnum yrði færð á annan reikning hans hjá sama banka. Í tölvubréfinu kom fram að þess væri beiðst að „öll heildar upphæðin“ yrði millifærð „þar sem búið er að semja um og ganga frá því máli er veðið var útaf í reikningnum“. Þessari beiðni hafnaði Arion banki hf. 19. sama mánaðar og var því borið við að „slitastjórn SPRON samþykkir ekki losun á handveðsreikningi 0338-13-205012.“ Í framhaldi af þessu var öll innstæðan millifærð 21. nóvember 2012 á reikning stefnda.
II
Áfrýjandi byggir á því að stefndi hafi ekki notið handveðréttar í innstæðu á reikningi áfrýjanda nr. 205012 hjá Arion banka hf. 21. nóvember 2012 þegar hún var færð af þeim reikningi yfir á reikning stefnda. Beri stefnda því að greiða sér fjárhæð sem svari til innstæðu reikningsins á nefndum degi auk dráttarvaxta frá þeim tíma.
Fyrir Hæstarétti byggir stefndi kröfu sína um staðfestingu héraðsdóms fyrst og fremst á tveimur málsástæðum. Í fyrsta lagi að hvað sem liðið hafi upphaflegri handveðsetningu reikningsins hjá SPRON hf. hafi handveðsetningin jafnframt náð til reiknings nr. 205012 hjá Arion banka hf. eftir að innstæða fyrrnefnda reikningsins var flutt yfir í þann banka. Í öðru lagi hafi umræddur samningur um handveðsetningu reiknings áfrýjanda frá 5. nóvember 2008 jafnframt staðið til tryggingar skuld samkvæmt skuldabréfinu sem gefið var út af Bryndísi Ann 25. maí 2011.
Hér að framan er rakin tilurð handveðssamningsins 5. nóvember 2008 og grein gerð fyrir millifærslu 5. janúar 2009 af handveðsetta reikningnum hjá SPRON hf., nr. 250094, inn á nýjan reikning á nafni áfrýjanda hjá Arion banka hf., nr. 205012. Þó svo að engin haldbær skýring hafi fengist á því af hverju kom til þessa er hins að gæta að áfrýjandi greiddi áfram og athugasemdalaust mánaðarlega inn á reikninginn hjá Arion banka hf. til enda umsamins tímabils eða til 1. október 2009. Þá er áður rakin sú afstaða hans sem fram kom í tölvubréfinu til starfsmanns Arion banka hf. 5. nóvember 2012 þar sem hann vísaði beinlínis til þess að búið væri að ljúka máli því sem „veðið var útaf í reikningnum“. Er því fallist á með stefnda að handveðsamningurinn 5. nóvember 2008 hafi náð til innstæðu á reikningi nr. 205012 hjá Arion banka hf. sem stofnaður var á nafni áfrýjanda í byrjun janúar 2009.
Í umræddum handveðssamningi var sem fyrr segir tekið fram að innstæða á reikningnum væri veðsett til tryggingar „skuldabréfi þessu“ og var þá óumdeilanlega vísað til upphaflega skuldabréfsins frá 27. maí 2008, hvers skilmálum verið var að breyta. Þá liggur fyrir að stefndi nýtti ekki heimild samkvæmt samningnum til að ráðstafa innstæðunni inn á skuld samkvæmt skuldabréfinu að loknu því tímabili sem aðilar sömdu um að fresta bæri reglulegum greiðslum afborgana og vaxta af bréfinu. Með útgáfu Bryndísar Ann á skuldabréfi til stefnda 25. maí 2011 var samið um nýja skilmála lánveitingar, þar með talda fjárhæð, vexti, lánstíma og form tryggingar. Þá var Bryndís Ann einn skuldari samkvæmt skuldabréfinu og stefndi kröfuhafi í stað Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis áður. Hvergi í skuldabréfinu sjálfu var að því vikið að það kæmi í stað eldra skuldabréfs eða fæli í sér skilmálabreytingu þess, en í áritun Arion banka hf. á bakhlið skuldabréfsins kom sem fyrr greinir fram að lán samkvæmt því kæmi í stað eldra erlends láns. Að teknu tilliti til þessa er fallist á það með áfrýjanda að um nýtt lán hafi verið að ræða og að handveð það sem samið var um 5. nóvember 2008 hafi ekki náð til tryggingar skuldar samkvæmt yngra skuldabréfinu.
Skilja verður málatilbúnað stefnda fyrir Hæstarétti á þann veg að hann mótmæli því ekki sérstaklega að krafa áfrýjanda nái fram að ganga ef komist verði að þeirri niðurstöðu að stefndi hafi ekki notið handveðréttar í reikningi áfrýjanda í Arion banka hf. til tryggingar kröfu samkvæmt skuldabréfinu frá 25. maí 2011. Því til samræmis verður fallist á dómkröfu áfrýjanda, sem nemur innstæðu á reikningi hans 21. nóvember 2012 þegar henni var ráðstafað til stefnda, svo og kröfu áfrýjanda um vexti.
Eftir þessum úrslitum verður stefnda gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðst í einu lagi á báðum dómstigum eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Stefndi, Drómi hf., greiði áfrýjanda, Eiríki Óla Árnasyni, 3.371.972 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. nóvember 2012 til greiðsludags.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 1.200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. janúar 2016.
Mál þetta sem höfðað var 20. maí 2015 af Eiríki Óla Árnasyni, Kambsvegi 19, 104 Reykjavík gegn Dróma hf., Laugavegi 182, 105 Reykjavík, var dómtekið að lokinni aðalmeðferð sem fram fór 12. janúar sl.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 3.371.972 krónur auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga, nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 21. nóvember 2012 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar að skaðlausu.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar.
I.
Stefnandi og Bryndís Ann Brynjarsdóttir gáfu út skuldabréf hinn 27. maí 2008 til Spron, upphaflega að jafnvirði 36.000.000 króna í erlendri mynt, annars vegar 254.921,40 í svissneskum frönkum og hins vegar 25.754.757 í japönskum jenum. Lánið fékk númerið 1688. Að fyrirspurn dómsins var upplýst við upphaf aðalmeðferðar málsins og er ágreiningslaust að lánið hafi verið veitt með tryggingu í fasteigninni við Víghólastíg 9, Kópavogi, samkvæmt tryggingarbréfi, en það bréf hefur ekki verið lagt fram í málinu. Við gengisfall íslensku krónunnar eftir fall helstu viðskiptabanka landsins 2008 hækkaði skuldin og tvöfaldaðist, að sögn stefnanda, hið minnsta. Vegna stóraukinnar greiðslubyrði varð úr að greiðsluskilmálum bréfsins var þann 5. nóvember 2008 breytt til samræmis við það sem tíðkaðist á þeim tíma, með svokallaðri frestun afborgana og vaxtagreiðslna gegn því að stefnandi greiddi mánaðarlega 250.000 krónur inn á reikning í Spron nr. 1163-18-250094. Greiðslur samkvæmt þessu hófust 3. nóvember 2008 og þeim skyldi ljúka 1. október 2009. Ekki er ágreiningur um að skuldarar bréfsins stóðu við þessa skuldbindingu, en svo virðist sem greiðslur hafi eingöngu borist frá stefnanda. Uppsöfnuð innstæða á þessum reikningi skyldi handveðsett til tryggingar greiðslu á skuldabréfinu. Samkomulag við bankann ráðgerði að að þessum tíma loknum yrði fjárhæðinni ráðstafað inn á lánið. Það var hins vegar ekki gert vegna óvissu um lögmæti gengistryggðra lánssamninga. Eftir að fordæmi Hæstaréttar lágu fyrir um ólögmæti gengistryggingar, sem náði m.a. til lánsins, var það endurreiknað og gefið út nýtt skuldabréf 25. maí 2011 að fjárhæð 41.147.775 krónur, sem var uppgreiðslufjárhæð hins upphaflega láns. Bryndís Ann var hins vegar einn skuldari þess láns, og lánið var nú tryggt með 1. veðrétti í Víghólastíg 9, Kópavogi, sem var eign hennar, en var áður sameign hennar og stefnanda.
Stefnandi heldur því fram að með hinu nýja láni hafi eldri skuldin verið gerð upp að fullu, enda hafi ekki komið til þess að gengið væri að framangreindu handveði. Stóð sú fjárhæð óhögguð allt til þess að stefndi millifærði fjárhæðina á annan reikning á nafni stefnanda nr. 338-13-205012 í Arion banka hf. Stefnanda var ekki kunnugt hverju þetta sætti. Engir samningar liggja fyrir um að nýi reikningurinn væri handveðsettur og stefnandi hafði litið svo á að honum væri einum heimil ráðstöfun af honum.
Stefnandi óskaði eftir því 11. nóvember 2012 við Arion banka hf. að inneign hans yrði færð á annan reikning í bankanum í hans eigu. Þessu var hafnað af Arion banka hf. með tölvuskeyti 19. nóvember 2012 á grundvelli fyrirmæla slitastjórnar SPRON. Tveimur dögum síðar, eða þann 21. nóvember, var öll fjárhæðin. samtals 3.371.972 krónur, millifærð inn á reikning hjá stefnda. Ekkert samráð var haft við stefnanda vegna þessa.
Þrátt fyrir tafarlaus mótmæli stefnanda við þessari ráðstöfun og lögmanns hans með bréfi 3. mars. 2015 bárust engar skýringar og erindum stefnanda var ekki svarað.
Í greinargerð sinni til héraðsdóms fullyrti stefndi að ofangreindri fjárhæð hefði verið ráðstafað til innborgunar inn á lánið, en það hefði ekki verið gert strax. Við aðalmeðferð var lögð fram ódagsett yfirlýsing frá Arion banka hf. sem staðfestir að sögn lögmanns stefnda að fjárhæð þeirri sem deilt er um í málinu hafi verið ráðstafað með þeim hætti sem hagfelldastur er skuldara.
II.
Stefnandi telur stefnda ekki hafa haft nokkra heimild til að láta millifæra eign stefnanda af reikningi hans inn á reikning Dróma hf. Reikningur stefnanda sem millifært var af hafi ekki verið veðsettur. Þessir fjármunir sem upphaflega voru á reikningi 250094 hjá Spron hafi verið þar á grundvelli sérstaks samnings og aðeins til tryggingar upphaflega skuldabréfinu. Sú skuld hafi hins vegar að fullu verið greidd með nýju láni, tryggðu með veði í fasteign. Því hafi ekki lengur verið hægt að ganga að veðinu og enda hafi það ekki verið gert. Á þessum tíma hafi enginn handveðssamningur verið í gildi milli aðila. Stefnandi telur að millifærslan hafi hugsanlega verið gerð á grundvelli rangs handveðssamnings sem hann fékk sendan frá Arion banka hf. þegar hann grennslaðist fyrir um málið.
Stefnandi byggir á skuldbindingargildi samninga og að stefndi geti ekki einhliða ákveðið sér rýmri rétt en kveðið var á um í handveðssamningi, einkum og sér í lagi þegar skuldin var að fullu greidd sem handveðinu var ætlað að tryggja. Stefndi hafi ekki mátt ráðstafa þessum fjármunum upp í aðra skuld stefnanda, ef hann taldi slíka fyrir hendi.
Stefnandi telur og að handveðið hafi fallið niður þegar stefndi hafi ónýtt handveðsetta reikninginn í Spron hf. Stefnda hefði þá borið að gera nýjan handveðssamning milli veðsala og veðhafa, enda þurfi handveð að vera sérgreint samkvæmt almennum reglum. Ríkari kröfur verði gerðar til stefnda, sem lánastofnunar á grundvelli opinbers leyfis, að tryggja sér skýrar og ótvíræðar sannanir fyrir tilvist veðréttinda sinna, umfangi þeirra og heimilda að öðru leyti. Beri stefndi að öðrum kosti halla af sönnunarskorti í þeim efnum.
Þá verði gerð krafa til stefnda um vandvirkni í vinnubrögðum, en stefndi hafi engar ráðstafanir gert til að halda uppi handveðsrétti gagnvart stefnanda við uppgjör lánsins. Stefndi hafi enda haft allt frumkvæði að millifærslum og án nokkurs samráðs eða aðkomu stefnanda.
Stefnandi byggir einnig á að stefndi hafi haft yfirburðastöðu gagnvart honum að öllu leyti, og yfir að ráða sérþekkingu á sviðinu. Því beri að leggja áhættu af óskýrleika og óvandvirkni á stefnda.
Stefnandi byggir á að veðrétti sé aðeins ætlað að tryggja að greiðsla tiltekinnar kröfu fari fram. Verði greiðslufall heimili veðrétturinn veðhafanum að leita fullnustu í veðandlaginu. Því hafi ekki verið til að dreifa í þessu tilviki og stefnda því beinlínis óheimilt að leysa til sín veðið löngu eftir að umrædd skuld sem veðið átti að tryggja var gerð upp.
Stefnandi byggir á því að á stefnda sem veðhafa hafi hvílt skilaskylda samkvæmt almennum reglum veðréttarins. Þegar veðréttur falli þannig niður, án þess að veðhafi hafi þurft að leita fullnustu í veðandlaginu, sé honum skylt að skila því til veðsala.
Stefnandi vísar til 72. gr. stjórnarskrárinnar þar sem fjármunir sem hann átti á reikningi nr. 205012 hafi verið sérgreind eign sín sem njóti öðrum þræði verndar samkvæmt eignaréttarákvæðinu.
Dráttarvaxtakröfu sína kveðst stefnandi byggja á lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, 1. mgr. 6. gr. og miði hann upphafsdag dráttarvaxta við þann dag er fjármunirnir voru millifærðir á reikning í eigu stefnda, eða 21. nóvember 2012.
Um lagarök vísar stefnandi einkum til almennra reglna kröfuréttar um skuldbindingargildi loforða og efndir þeirra; almennra reglna samninga- og veðréttar, þ.m.t. um handveð. Þá vísar hann til laga um samningsveð nr. 75/1997 og laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Um málskostnaðarkröfu vísast til XXI. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 1. mgr. 130. gr.
III.
Stefndi bendir á að handveðsettur reikningur stefnanda hjá Spron hf., hafi verið til tryggingar greiðslu skulda stefnanda við stefnda. Reikningurinn hafi verið fluttur til Arion banka hf. á grundvelli ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins þegar Spron var tekinn til slitameðferðar. Arion banki hf. hafi verið í fullum rétti að ráðstafa hinu handveðsetta fé til Spron. Telji stefnandi að svo hafi ekki verið þá hafi honum borið að stefna Arion banka hf. til að fá úr því skorið, enda átti stefnandi engan reikning hjá stefnda þegar ráðstöfunin fór fram. Því sé fyrir hendi aðildarskortur í málinu.
Stefndi segir óumdeilt að reikningur nr. 1163-18-250094 í Spron hafi verið handveðsettur, en hafnar alfarið að sú veðsetning hafi fallið niður við flutning innlánsreikninga frá Spron til Arion banka hf. vegna slitameðferðar þess fyrrnefnda. Þessi flutningur innstæðu af reikningi í Spron yfir á reikning Arion banka hf. hafi einfaldlega verið óhjákvæmileg afleiðing af slitameðferðinni og gerð að fyrirskipan Fjármálaeftirlitsins.
Stefndi hafnar og því að skuldabréf nr. 1688 hafi verið greitt upp með skuldabréfi nr. 16105. Hér hafi einfaldlega verið um númerabreytingu að ræða eftir endurútreikning á upphaflega láninu. Skuldin sé enn fyrir hendi og skorar stefndi á stefnanda að leggja fram upplýsingar um stöðu lánsins sem nú beri númerið 10881 hjá Arion banka hf.
Stefndi fullyrðir að stefnandi hafi verið mjög skuldsettur gagnvart stefnda þegar lán hans og fyrirtækis hans, Eigna og aura ehf., voru framseld og hafi skuldin þá numið eitt hundrað og fimmtíu milljónum króna.
Stefndi telur því engin efni til að verða við kröfum stefnanda og því beri að sýkna stefnda í málinu.
Um málskostnað vísar stefndi til 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
IV.
Til álita kemur hvort vísa beri máli þessu frá án kröfu með vísan til 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 vegna skorts á samaðild, en Bryndís Ann Brynjólfsdóttir á ekki aðild að málinu. Þar er einkum horft til þess að hún gaf ásamt stefnanda út upphaflega skuldabréfið og skrifaði jafnframt undir sem skuldari þegar breyting var gerð á greiðsluskilmálum bréfsins 5. nóvember 2008 og gerður samningur um innborgun á tiltekinn reikning sem skyldi handveðsettur til tryggingar greiðslu á bréfinu. Hins vegar liggur fyrir að allar greiðslur sem inn á þann reikning bárust í samræmi við samkomulagið, komu frá stefnanda málsins þrátt fyrir að samkvæmt orðanna hljóðan hafi skyldan einnig hvílt á Bryndísi Ann. Eftir að skuldin var endurreiknuð vegna ólögmætrar gengistryggingar gaf hún ein út nýtt skuldabréf en stefnandi kom ekki að útgáfu þess. Fyrir liggur í málinu að Arion banki hf. hafi nú ráðstafað þeim fjármunum sem deilt er um í máli þessu inn á skuldina, eða hafi slíkt a.m.k. í hyggju, með þeim hætti sem stefndi fullyrðir að sé skuldara hagfelldastur. Við aðalmeðferð orðaði lögmaður stefnda það svo að innstæðunni, sem sannanlega var á reikningi í eigu stefnanda, hafi verið ráðstafað með ívilnandi hætti fyrir stefnanda með því að ráðstafa henni með tileknum hætti inn á skuld Bryndísar Ann. Stefnandi upplýsti hins vegar í aðilaskýrslu sinni að hann hefði verið í óvígðri sambúð með henni, en fjárhagur þeirra hafi ætíð verið aðskilinn. Dómurinn lítur svo á, með tilliti til framangreinds, að þótt fallist yrði á kröfur stefnanda í þessu máli muni það ekki hagga sjálfkrafa þeirri ráðstöfun inn á skuldina. Því verður ekki talið að dómur í þá veru felli sérstakar skyldur á Bryndísi Ann eða sé bindandi úrlausn fyrir hana, og því ekki nauðsynlegt að hún eigi aðild að máli þessu.
Nokkurrar ónákvæmni gætir í málatilbúnaði stefnda. Í greinargerð sinni til dómsins greindi hann frá því að hann hefði kallað eftir innstæðunni frá Arion banka hf. 21. nóvember 2012 vegna mikilla vanskila. Einnig var þess getið að þessi fjármunir hafi ekki verið bókfærðir inn á lánið strax en það hefði verið leiðrétt. Af ódagsettu skjali sem lagt var fram við upphaf aðalmeðferðar og stafar frá Arion banka hf. virðist mega ráða að þessi bókfærsla, eins og stefndi kallar aðgerðina, hafi þó ekki farið fram fyrr en nýverið og þá hafi innstæðunni sem var á reikningi á nafni stefnanda verið ráðstafað inn á skuld Bryndísar Ann, sbr. framangreint. Þá liggur ekkert fyrir í málinu sem staðfestir vanskil á skuldinni. Af greinargerðinni má hins vegar ráða að stefndi virðist, a.m.k. á þeim tíma, hafa talið að hinir umdeildu fjármunir hafi staðið til tryggingar öðrum skuldum stefnanda og jafnvel fyrirtækis hans, og þar hafi vanskil verið fyrir hendi. Þannig er, án sjáanlegrar þýðingar fyrir sakarefnið, skorað í greinargerðinni á stefnanda að leggja fram heildaryfirlit yfir skuldir sínar og fyrirtækis síns. Það hefur enga þýðingu við úrlausn þessa máls hvernig skuldastöðu stefnanda og fyrirtækis hans hafi verið háttað á einhverjum tímapunkti. Hins vegar hefur stefndi ekki sýnt fram á hvaða vanskil það þá voru sem hann réttlætti innlausn á handveðinu með.
Þá er óútskýrt með hvaða hætti innstæðan er nýtt til niðurfærslu á skuld Bryndísar Ann við Arion banka hf. en í yfirlýsingu bankans segir að hann hafi „samþykkt að leiðrétta endurreikning láns nr. 10881 að teknu tilliti til greiðslna sem greiddar voru inn á handveðsettan reikning nr. 1163-18-250094.“ en þetta hafi bankinn gert samkvæmt beiðni fyrrverandi kröfuhafa. Bankinn mun hafa eignast skuldabréfið 1. janúar 2013, en af gögnum málsins má ráða að umdeild innstæða hafi þá ekki fylgt með. Ef stefndi taldi innstæðuna standa enn til tryggingar skuldinni hefði honum væntanlega borið að ráðstafa henni inn á hana fyrir framsal kröfunnar eða látið veðið fylgja með framsali hennar. Einnig vekur athygli að í yfirlýsingu Arion banka hf. segir að þessi leiðrétting, eins og það er kallað, skili lækkun á skuldinni um 1.805.317 kr. Engin gögn hafa verið lögð fram um stöðuna eftir þessa niðurfærslu eða skýringar gefnar á því ósamræmi sem er á milli niðurfærslunnar og þeirrar fjárhæðar sem handveðsett var.
Sá samningur sem gerður var um veðsetningu á innstæðu á reikningi nr. 250094 í Spron hf., kvað á um að: „Innstæða á reikningi þessum skal vera handveðsett til tryggingar á greiðslu á skuldabréfi þessu.“ Óumdeilt er að þar er átt við upphaflega skuldabréfið sem útgefið var 27. maí 2008, nr. 1688. Þá sagði í þessum samningi um handveð, að eftir að sá frestunartími, sem ákveðinn var við þessa breytingu á greiðsluskilmálum, væri liðinn, skyldi innstæðu á reikningnum ráðstafað með tilteknum hætti inn á skuldina. Einnig að ef skuldin yrði gjaldfelld sökum þess að ekki yrði staðið við greiðslur inn á handveðsetta reikninginn yrði fjárhæðinni ráðstafað inn á skuldina án þess að skuldurum yrði tilkynnt um slíkt sérstaklega.
Það er óumdeilt að ekkert samráð var haft við stefnanda um að handveðsetti reikningurinn stæði enn til tryggingar þótt gefið væri út nýtt skuldabréf, enda taldi stefndi enga þörf á slíku samráði. Eini veðsamningurinn sem var gerður er því sá upphaflegi frá 5. nóvember 2008.
Samkvæmt efni samningsins skyldi innstæðu hans ráðstafað inn á lánið strax eftir að fyrsti gjalddagi vaxta og afborgunar yrði reiknaður út eftir að fresttímabil liði sem var 1. október 2009. Það var ekki gert, að sögn stefnanda vegna óvissu um lögmæti gengistryggingar lánsins. Því var ekkert aðhafst fyrr en skuldin var endurreiknuð og gefið út nýtt skuldabréf 25. maí 2011. Þá var heldur ekkert gert með innstæðuna á reikningi stefnanda sem deilt er um, og hennar hvergi getið í nýja skuldabréfinu.
Skuldabréfið frá 25. maí 2011 er tilgreint sérstaklega sem endurreiknað erlent lán. Lögmaður stefnda staðfesti við upphaf aðalmeðferðar að fjárhæð þess miðaðist við stöðuna samkvæmt upphaflega skuldabréfinu, eftir að það hafði verið endurreiknað með tilliti til þeirrar dómaframkvæmdar sem þá lá fyrir. Ekki er þó hægt að fallast á með stefnanda að skuld samkvæmt upphaflega skuldabréfinu hafi verið greidd upp, og engin gögn staðfesta það með óyggjandi hætti. Ekki var um nýja lánveitingu að ræða og engir fjármunir skiptu um hendur, heldur var um að ræða skilmálabreytingu á eldra láni. Sú lánveiting hélt því gildi sínu sem slík en fjárhæð kröfunnar var lækkuð, greiðslufyrirkomulagi breytt og 1. veðréttur í fasteigninni Víghólastíg 9 nú tryggður beint í bréfinu sjálfu en ekki með tilvísun í tryggingarbréf. Dómurinn telur það og ekki skipta máli þótt krafan, þ.e. skuldabréfið, hafi fengið nýtt númer.
Hins vegar er það svo að upphaflega skuldabréfið, þ.e. skjalið sjálft, og önnur skjöl tengd upphaflegu lánveitingunni, þ.m.t. breyting sú sem gerð var á greiðsluskilmálum 5. nóvember 2008, misstu gildi sitt í skuldasambandinu að svo miklu leyti sem efni þeirra var ekki tekið upp í hið nýja skuldabréf eða vísað til þess. Stærsta breytingin varð sú að stefnandi var leystur undan ábyrgð á skuldinni og sú skuldbinding verður ekki endurvakin án atbeina stefnanda sjálfs. Jafnframt að fasteignaveð var nú að fullu í eigu fyrrum samskuldara stefnanda og engra frekari trygginga krafist samkvæmt bréfinu sjálfu. Því hefðu, án frekari ráðstafana, veðbönd á innstæðu stefnanda fallið niður undir þessum kringumstæðum við útgáfu nýs bréfs ef ekki væru fyrir þau ákvæði sem í handveðssamningnum voru.
Eins og að framan greinir var gert ráð fyrir að umræddri innstæðu yrði þegar ráðstafað með tilteknum hætti í kjölfar þess að fresttímabili væri lokið. Vanskil voru ekki skilyrði slíkrar ráðstöfunar. Fjárhæðinni skyldi varið til innborgunar á skuldina áður en fyrsti gjalddagi vaxta og afborgunar yrði reiknaður út. Því telur dómurinn að sá réttur sem stefnandi sannanlega veitti kröfuhafa með handveðssamningnum hafi orðið virkur á þeim tímapunkti sem greindi í samningnum. Miðað við gögn málsins, og það að aðilar aðhöfðust ekkert fyrr en með útgáfu bréfsins í maí 2011, verður að telja að eigi síðar en þann dag hafi réttur veðhafa til að leysa til sín veðið orðið virkur. Að mati dómsins skapar sú staðreynd að stefndi nýtti ekki með afdráttarlausum hætti þennan rétt sinn, þá þegar honum gafst kostur á því, skapi stefnanda nú ekki rétt til að fá veðbandslausn og veðið afhent. Hann hafi ekki getað haft réttmætar væntingar til þess að fjárhæðin yrði honum til frjálsrar ráðstöfunar við þessa breytingu. Óumdeilt er að allan tímann frá því að til veðsetningarinnar var stofnað var stefnandi sviptur vörslum veðsins. Þá er rétt að hafa í huga að samskuldari, samkvæmt upphaflegu skuldinni Bryndís Ann, eini skuldarinn eftir endurútreikning, var einnig aðili að veðsamningnum þótt innlánsreikningurinn sem veðsettur var hafi einungis verið á nafni stefnanda.
Stefndi hefur lýst því yfir fyrir dómnum að allri innstæðunni hafi verið ráðstafað til lækkunar á skuldinni og það hafi verið gert með þeim hætti sem hagfelldastur sé fyrir skuldara. Þótt ekki hafi í málinu verið lagður fram útreikningur eða skýringar gefnar á því með nákvæmum hætti hvernig þetta fór fram verður að leggja til grundvallar að þessi sé raunin og hægt sé að byggja rétt á þessari yfirlýsingu.
Með vísan til framangreinds verður stefndi því sýknaður af kröfu stefnanda. Með vísan til óskýrleika í málatilbúnaði stefnda, þeirra krafna sem gerðar verða til hans á grundvelli þeirrar starfsemi sem hann rak, þess tíma sem leið þar til hann ráðstafaði veðandlaginu inn á skuldina og algjörs samskiptaleysis við stefnanda þykir rétt að málskostnaður falli niður, með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Af hálfu stefnanda flutti málið Birgir Tjörvi Pétursson héraðsdómslögmaður og af hálfu stefnda Jóhann Pétursson hæstaréttarlögmaður.
Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. Dómari fékk málinu úthlutað 15. september sl. og hafði þá ekki komið að því áður.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Drómi hf. er sýknaður af kröfum stefnanda, Eiríks Óla Árnasonar.
Málskostnaður fellur niður.