Hæstiréttur íslands

Mál nr. 642/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann


                                     

Þriðjudaginn 2. desember 2008.

Nr. 642/2008.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir, saksóknari)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hdl.)

 

Kærumál. Farbann.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta farbanni samkvæmt b. lið 1. mgr. 103. gr. og 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. nóvember 2008 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. nóvember 2008, þar sem varnaraðila var bönnuð för frá Íslandi allt til þriðjudagsins 23. desember 2008 kl. 16.  Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að farbanni verði markaður skemmri tími. 

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Fyrir liggur að 21. nóvember 2008 sendi dómsmálaráðherra bréf til pólskra yfirvalda þar sem gerð var grein fyrir skorti á gögnum frá Póllandi. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykja­víkur 26. nóvember 2008.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess með vísan til 15. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum og b-liðar 1. mgr. 103. gr., sbr. 110. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991,  X, kt. [...], verði með úrskurði gert að sæta áfram farbanni meðan framsalsmál hans er til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 23. desember nk. kl. 16:00.

Hinn 11. ágúst sl. barst dómsmálaráðuneyti beiðni pólskra yfirvalda um framsal varnaraðila, sem er pólskur ríkisborgari.  Framsals er krafist til að fullnusta megi refsingu samkvæmt dómi frá 24. janúar 2005.  Var varnaraðila þar gert að sæta fangelsi í eitt ár, er refsingin skilorðsbundin.  Með ákvörðun dóms 19. júlí 2007 var ákveðið að varnaraðili skyldi afplána refsinguna. 

Dómsmálaráðherra ákvað 13. október sl. að framselja skyldi varnaraðila.  Sú ákvörðun var felld úr gildi með dómi Hæstaréttar 7. nóvember sl., vegna formgalla.  Var erindi pólskra yfirvalda þá tekið á ný til meðferðar í ráðuneytinu og hefur ný ákvörðun ekki verið tekin. 

Fallast ber á að nauðsynlegt sé að tryggja nærveru varnaraðila á meðan leyst verður úr framangreindu erindi.  Ekki er unnt að skilja dóm Hæstaréttar svo að framsalsbeiðni hafi verið hafnað endanlega.  Samkvæmt b-lið 1. mgr. 103. gr., sbr. 110. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 15. gr. laga nr. 13/1984, verður varnaraðila bönnuð för af landi brott svo sem saksóknari krefst. 

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð

Varnaraðila, X, kt. [...], er bönnuð för frá Íslandi allt til þriðjudagsins 23. desember 2008 kl. 16.00.