Hæstiréttur íslands
Mál nr. 300/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Endurupptaka
|
|
Miðvikudaginn 31. ágúst 2005. |
|
Nr. 300/2005. |
Guðrún Bjarnadóttir. (Erlendur Þór Gunnarsson hdl.) gegn Landssíma Íslands hf. (Bjarni Þór Óskarsson hrl.) |
Kærumál. Endurupptaka.
G krafðist endurupptöku á máli L á hendur sér, sem lokið hafði með áritun stefnu um aðfararhæfi vegna útivistar G. Við fyrirtöku fjárnámsgerðar hjá sýslumanni vegna málsins þann 29. mars 2005 var mætt af hálfu G, en hún hélt því fram að sér hefði ekki orðið kunnugt um fyrirtökuna fyrr en daginn áður. Í málinu lá hins vegar fyrir birtingarvottorð vegna boðunar til fjárnáms, sem samkvæmt efni sínu hafði verið birt fyrir nafngreindum manni, sem sagður var í sömu íbúð og G, þann 9. mars 2005. Þótti birtingarvottorðið veita löglíkur fyrir því að G hefði orðið kunnugt um lyktir héraðsdómsmálsins síðastnefndan dag og töldust fullyrðingar G einar og sér ekki nægja til að velta sönnunarbyrði um þetta atriði yfir á L. Þegar beiðni G um endurupptöku barst héraðsdómi 27. apríl 2005 var því liðinn sá mánaðar frestur sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 137. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 til að beiðast endurupptöku málsins og var kröfunni því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. júní 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. júlí sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2005 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um endurupptöku máls varnaraðila á hendur sóknaraðila, sem lauk með áritun stefnu um aðfararhæfi 4. febrúar 2005. Kæruheimild er q. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að málið verði endurupptekið og að honum verði dæmdur kærumálskostnaður.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðila hefur ekki tekist að hnekkja því að stefnuvottur hafi birt boðun til fjárnáms á heimili hennar miðvikudaginn 9. mars 2005 kl. 19:40 fyrir manni sem sagður er heita Ingvi Svavarsson og búa í sömu íbúð. Veitir vottorðið löglíkur fyrir því að sóknaraðila hafi þannig orðið kunnugt um fyrirtöku málsins hjá sýslumanni og þar með lyktir héraðsdómsmálsins. Fullyrðingar sóknaraðila um að sér hafi ekki borist fyrrnefnd boðun fyrr 28. mars 2005 nægja ekki einar og sér til að velta sönnunarbyrði um þetta atriði yfir á varnaraðila. Skjöl sóknaraðila, meðal annars úr þjóðskrá, varðandi nafnið Ingi Svavarsson, skipta hér ekki máli. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Guðrún Bjarnadóttir, greiði varnaraðila, Landssíma Íslands hf., 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2005.
Sóknaraðili (stefnda) málsins er Guðrún Bjarnadóttir, [kt.], Sæviðarsundi 25, Reykjavík, en varnaraðili (stefnandi) er Landssími Íslands hf., [kt.], Ármúla 27, Reykjavík.
Stefnda og Árni Svavarsson, eiginmaður hennar óskuðu eftir því við Héraðsdóm Reykjavíkur með beiðni dags. 27. apríl. sl., sem móttekin var sama dag, að héraðsdómsmálið nr. 426/2005 yrði endurupptekið og niðurstaða málsins tekin til endurskoðunar. Málið var tekið fyrir á dómþingi, sem háð var 20. maí sl. Lögmaður stefnanda, Landssíma Íslands, mótmælti því að veitt yrði heimild til endurupptöku málsins. Munnlegur málflutningur fór fram um þennan ágreining málsaðila hinn 6. þessa mánaðar og var málið tekið til úrskurðar að því búnu.
Dómkröfur:
Stefnda krefst þess að veitt verði heimild til þess, að framangreint héraðsdómsmál nr. 426/2005 verði endurupptekið, þar sem hún hafi ranglega verið dæmd til að greiða dómkröfur málsins. Stefnandi gerir þær kröfur að beiðni stefndu um endurupptöku málsins verði hafnað og stefndu gert að greiða stefnanda málskostnað í þessum þætti málsins.
Málavextir, málsástæður og lagarök málsaðila.
Málið var höfðað gegn stefndu Guðrúnu með stefnu dagsettri 15. desember 2004, sem birt var á lögheimili hennar 27. sama mánaðar. Það var þingfest hér í dómi 13. janúar sl. Stefnandi krafðist þess, að stefnda yrði dæmd til að greiða honum 47.625 krónur, auk dráttarvaxta frá 10. ágúst 2004 til greiðsludags og málskostnaðar að mati dómsins. Ekki var mætt af hálfu stefndu, þegar málið var þingfest, og var það því dómtekið að kröfu stefnanda. Fallist var á dómkröfur stefnanda og stefna málsins árituð um aðfararhæfi hinn 4. febrúar sl. og stefnanda tildæmdar 22.000 krónur í málskostnað.
Stefnda Guðrún var boðuð til fjárnáms með tilkynningu, sem birt var á lögheimili hennar af stefnuvotti hinn 9. mars sl. Fjárnám var síðan gert til tryggingar tildæmdum fjárhæðum 29. mars sl. Þar mætti Árni Svavarsson, eiginmaður stefndu. Bókað er eftir honum í gerðarbók sýslumanns, að hann geri þær athugasemdir við kröfu gerðarbeiðanda (stefnanda), að hún sé tilkomin vegna auglýsingar í símaskrá á fyrirtækið Skúf teppahreinsun sem rekið sé á hans ábyrgð og hafi annað aðsetur. Auglýsingin hafi verið pöntuð af honum í nafni fyrirtækisins og hafi nafn Guðrúnar Bjarnadóttur hvergi komið nærri. Reikningurinn hafi ekki átt að skrifast á nafn Guðrúnar Bjarnadóttur og hafi hann margoft gert athugasemdir við reikninginn og talið að málið væri úr sögunni. Árni samþykkti að fjárnám yrði gert í bifreið, sem hann var skráður eigandi að.
Stefnda byggir á því, að hún hafi ekki mætt við þingfestingu málsins, þar sem tilgreindir starfsmenn stefnanda og lögmaður hans hafi viðurkennt að mistök hafi átt sér stað í sambandi við skráningu skuldarinnar á stefndu og þessir sömu menn hafi sagt henni að þetta yrði leiðrétt og gefið henni til kynna að málið yrði ekki þingfest. Hún hafi því verið í góðri trú og ekki áttað sig á því hvað skeð hafði fyrr en við fjárnámið í lok mars sl. Málsatvik séu með þeim hætti, að eiginmaður hennar starfræki félagið teppahreinsunarfyrirtækið Skúf og reki það undir eigin kennitölu. Hann hafi pantað auglýsingu í símaskrá. Beiðni þar að lútandi sé dagsett 22. febrúar 2004 og sé undirrituð af honum. Sá starfsmaður stefnanda, sem tók niður pöntun hans, hafi ranglega skráð niður kennitölu félags með nafnið Skúfur ehf. Þegar þessu hafi verið breytt hafi nafn stefndu verið skráð í staðinn en skýringin sé líklega sú, að sími teppahreinsunarinnar sé skráð á hennar nafn, þótt auglýsingin hafi átt að tengjast teppahreinsuninni.
Því sé ljóst, að stefnda eigi ekki að greiða umstefnda kröfu heldur eiginmaður hennar. Engin fyrirstaða hafi verið um greiðslu kröfu stefnanda en á hinn bóginn sé forsenda greiðslu, að reikningur sé skráður með réttum hætti.
Stefnandi (varnaraðili) krefst þess, að beiðni stefndu verði hafnað en auk þess krefst hann málskostnaðar úr hendi stefndu.
Stefnandi byggir aðeins á því, að beiðni stefndu um endurupptöku málsins hafi borist dóminum of seint. Ljóst sé, að stefnda hafi verið boðuð til fjárnáms 9. mars sl. en jafnljóst að beiðni stefndu barst dóminum 27. apríl sl. eða meira en hálfum öðrum mánuði eftir að henni var sannanlega kunnugt um að stefna málsins hafði verið árituð um aðfararhæfi. Í 137. gr. 1. og 2. tl. laga nr. 91/1991 (eml.) sé það skilyrði sett, að stefndi þurfi að óska eftir endurupptöku máls innan mánaðar frá því að honum urðu málsúrslit kunn. Þetta hefði stefndu láðst að gera og hafi hún því fyrirgert rétti sínum til að fá málið endurupptekið.
Álit dómsins.
Heimila má endurupptöku útivistarmáls að beiðni stefnda/u að uppfylltum ákveðnum ólíkum skilyrðum, eftir því hvenær beiðni berst hlutaðeigandi héraðsdómi.
Samkvæmt 1. tl. 137. gr. eml. má leyfa endurupptöku máls, án þess að efnisatriði þess séu könnuð, eða afstaða stefnanda til endurupptöku þess, ef beiðni þar að lútandi berst dóminum innan þriggja mánaða frá dómsuppsögu eða áritun dómara á stefnu um aðfararhæfi og málskostnað átti sér stað og innan mánaðar frá því stefnda urðu málsúrslit kunn. Í 2. tl. sama lagaákvæðis er lýst þeim skilyrðum, sem stefndi þarf að uppfylla til að fá mál endurupptekið eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því dómur gekk eða áritun dómara á stefnu átti sér stað. Í þessu lagaákvæði er einnig miðað við að stefndi hefjist handa innan mánaðar frá því honum var kunnugt um úrslit máls.
Í tilviki stefndu ber að beita ákvæði 1. tl. 137. gr. eml., þar sem ekki voru þrír mánuðir liðnir frá því stefna málsins var árituð um aðfararhæfi.
Boðun sýslumanns í fjárnám til tryggingar skuld þeirri, sem hér er til umfjöllunar, var birt á lögheimili stefndu 9. mars sl. Eiginmaður stefndu mætti í boðað fjárnám, sem fram fór 29. mars sl., sem sýnir að mati dómsins, að boðun sýslumanns komst til skila. Beiðni stefndu til dómsins var á hinn bógin móttekin 27. apríl sl. Þá var meira en mánuður liðinn frá því stefnda fékk vitneskju um úrslit þessa máls.
Þegar af þeirri ástæðu verður að hafna kröfu stefnu um endurupptöku málsins.
Rétt þykir að hvor málsaðila beri sinn kostnað af málinu í þessum þætti þess.
Úrskurðarorð.
Hafnað er beiðni stefndu, Guðrúnar Bjarnadóttur, um endurupptöku málsins nr. 426/2005, sem barst dóminum 27. apríl þessa árs.
Málskostnaður fellur niður.