Hæstiréttur íslands

Mál nr. 619/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vátryggingarsamningur
  • Varnarþing
  • Lagaskil
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


                                              

Mánudaginn 5. nóvember 2012.

Nr. 619/2012.

Þrotabú Baugs Group hf.

(Erlendur Gíslason hrl.)

gegn

Liberty Mutual Insurance Europe Limited

Novae Corporate Underwriting Limited og

SCOR Underwriting Limited

(Baldvin Björn Haraldsson hrl.)

Kærumál. Vátryggingarsamningur. Varnarþing. Lagaskil. Frávísunarúrskurður staðfestur. 

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli þb. BG hf. gegn tryggingarfélögunum L Ltd, N Ltd. og S Ltd. var vísað frá dómi. Í málinu krafðist þb. BG hf. greiðslu úr hendi tryggingarfélaganna á grundvelli stjórnendatryggingar sem tryggt hafði stjórnarmenn og yfirmenn félagsins, sem og félagið sjálft, vegna tjóns eða málskostnaðar sem þessir aðilar gætu orðið fyrir, vegna ólögmætra athafna stjórnarmanna. Talið var að BG hf. og tryggingarfélögunum hefði verið heimilt að semja um lögsögu í málum sem kynnu að rísa vegna vátryggingarsamningsins og að samið hefði verið þeirra á milli að ágreiningur vegna umrædds vátryggingarsamnings ætti undir lögsögu enskra dómstóla. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Árni Kolbeinsson og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. september 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. september 2012, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði staðfestur, en til vara að hann verði staðfestur um annað en málskostnað. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.

I

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 13. mars 2009 var bú Baugs Group hf. tekið til gjaldþrotaskipta. Þrotabúið, sóknaraðili máls þessa, höfðaði mál á hendur Jóni Ásgeiri Jóhannessyni fyrrum stjórnarformanni félagsins 15. desember 2010. Gerir búið aðallega kröfu um greiðslu skaðabóta að fjárhæð 15.058.128.810 krónur úr hendi Jóns Ásgeirs vegna ráðstöfunar á hluta söluandvirðis Haga hf., dótturfélags Baugs Group hf., til kaupa Baugs Group hf. á hlutabréfum í sjálfu sér á árinu 2008. Sóknaraðili telur að hlutabréfin hafi verið verðlaus og að Jón Ásgeir beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem félagið hafi orðið fyrir við þessi kaup. Málið var þingfest 10. febrúar 2011. 

Baugur Group hf. hafði keypt ábyrgðartryggingu vegna stjórnenda félagsins fyrir milligöngu sænska félagsins UIB Nordic AB vegna tímabilanna 1. júlí 2006 til 1. júlí 2007, 1. ágúst 2007 til 1. ágúst 2008 og 1. ágúst 2008 til 1. ágúst 2009. Ábyrgðartryggingin var samkvæmt skilmálum vegna greiðslu bóta að fjárhæð 1.000.000.000 krónur vegna hverrar einstakrar kröfu á vátryggingartímabili og var ábyrgðinni samkvæmt skilmálunum skipt hlutfallslega milli vártryggjenda, sem voru annars vegar varnaraðilinn Liberty Mutual Insurance Europe Limited með 50% ábyrgðar en hins vegar Lloyd‘s Underwriters með 50%. Að baki helmingshlutdeildar Lloyd‘s Underwriters stendur hópur vátryggjenda, sem bera einnig hlutfallslega ábyrgð innbyrðis og eru varnaraðilarnir Novae Corporate Underwriting Limited og SCOR Underwriting Limited meðal þeirra. Sóknaraðili höfðaði mál á hendur varnaraðilum með sakaukastefnu 21. nóvember 2011 og krafðist greiðslu bóta úr ábyrgðartryggingunni. Sakaukastefnan var birt 8. desember 2011 og málið þingfest 26. janúar 2012. Sakaukastefndu tóku til varna og kröfðust aðallega frávísunar málsins. Með hinum kærða úrskurði var fallist á þá kröfu.

II

Málsaðila greinir í fyrsta lagi á um hvort komist hafi á samningur milli Baugs Group hf. og vátryggjenda um lögsögu enskra dómstóla kæmi upp ágreiningur milli þeirra og í öðru lagi ef svo verður talið hvort slíkt samkomulag sé gilt að lögum.

Samkvæmt gögnum málsins virðast aðilar hafa samið um lögsögu dómstóla í heimalandi tryggingartaka vegna fyrsta tryggingartímabilsins frá 1. júlí 2006 til jafnlengdar á árinu 2007. Innbyrðis ósamræmis gætir á hinn bóginn um þetta atriði í ákvæðum tryggingarskírteina og almennra skilmála vegna seinni tveggja tryggingartímabilanna.

Eins og að framan getur hafði sænska félagið UIB Nordic AB milligöngu um að koma á  samningum um vátrygginguna. Meðal gagna málsins eru skjöl vegna hvers vátryggingartímabils sem bera enska heitið „Evidence of Cover“ eða vátryggingarskírteini. Þessi skjöl eru í formi bréfs til Baugs Group hf. frá sænska félaginu. Þar kemur í upphafi fram að félagið hafi í samræmi við fyrirmæli Baugs Group hf. og fyrir þess hönd komið á eftirfarandi vártyggingu. Er síðarnefnda félagið beðið að yfirfara efnisatriði skjalsins og láta vita án tafar séu þau ekki í samræmi við fyrirmæli. Síðan eru tiltekin nokkur meginatriði tryggingarinnar svo sem nafn hins tryggða, vátryggingarfjárhæð, tryggingartímabil og vátryggjendur. Í þessum skjölum er, varðandi síðari tvö tryggingartímabilin, sérstakt ákvæði um að ágreiningur milli tryggjenda og tryggingartaka skuli leystur á grundvelli laga Englands og Wales og fyrir þarlendum dómstólum.. Á eftir þeim stað þar sem gert er ráð fyrir undirritun af hálfu UIB Nordic AB er í skjölunum tekið fram að tryggingin sem komi fram í þessari sönnun fyrir henni víki fyrir öllum skilmálum, ákvæðum, skilyrðum, takmörkunum og undantekningum sem felist í formlegu orðalagi vártyggingarskilmálanna. Þá er tekið fram að sérhver hlutaðeigandi vátryggjandi geti hvenær sem er að beiðni hins vátryggða gefið út slíkt formlegt orðalag vátryggingarskilmálanna „í stað þessarar sönnunar fyrir tryggingu.“ Í lok skjalsins er Baugur Group hf. beðinn að kanna tryggingarskírteinið vandlega til að tryggja að ákvæði þess séu í samræmi við fyrirmæli félagsins og að félagið samþykki vátryggjendur. Verði tryggingin talin í réttu lagi ef ekki berist tilkynning um hið gagnstæða frá félaginu innan 45 daga.

 Af orðalagi tryggingarskírteinanna verður ótvírætt ráðið að við samningsgerðina hefur UIB Nordic AB komið fram sem fulltrúi eða umboðsaðili Baugs Group hf. Fær það frekari stoð af gögnum sem fram hafa verið lögð í málinu um samskipti UIB Nordic AB og UIB Limited, sem mun vera vátryggingamiðlari á markaði í London. Af áður tilvitnuðu orðalagi vátryggingarskírteinanna er einnig ljóst að ákvæði þeirra víkja fyrir ákvæðum umsaminna vártyggingarskilmála ef þau samræmast ekki.

Í málinu hafa verið lögð fram gögn um skilmála vátryggingarinnar fyrir tímabilið 1. ágúst 2008 til jafnlengdar 2009, sem undirritaðir eru fyrir hönd vátryggjenda og staðfestir af hinum breska vátryggingamiðlara. Verður við það miðað að þetta séu þeir skilmálar sem um vátrygginguna gilda. Í I. lið VII. þáttar almennra skilmála tryggingarinnar er ákvæði þess efnis að um túlkun skilmálanna gildi lög heimaríkis tryggingartaka og lögsaga þarlendra dómstóla. Aftan við almennu skilmálana eru síðan sérstaklega umsamdir viðaukar (endorsement) í tíu liðum. Í hinum níunda þeirra er ákvæði um að ágreiningur milli tryggjenda og tryggingartaka skuli leystur á grundvelli laga Englands og Wales og fyrir þarlendum dómstólum. Almennt verður talið að sérstaklega umsamin ákvæði í samningum gangi framar ákvæðum staðlaðra samningsskilmála ef þau verða ekki samrýmd. Samkvæmt því verður talið að í skilmálunum felist að samið hafi verið um lögsögu dómstóla í Englandi og Wales. Fær sú niðurstaða stuðning af samhljóða ákvæði í vátryggingarskírteini fyrir þetta tímabil sem að framan er rakið, en með því kynnti UBI Nordic AB Baugi Group hf. efni þeirra skilmála sem hið sænska félag hafði samið um fyrir þess hönd. Í vátryggingarskilmálum fyrir tímabilið 1. ágúst 2007 til jafnlengdar 2008 gætir sams konar misræmis milli almennra skilmála tryggingarinnar  og sérstaklega umsaminna skilmála og hafa ákvæði sérskilmálanna um lögsögu enskra dómstóla forgang með sama hætti vegna þess tímabils.

Þar sem Baugi Group hf. var gerð sérstök grein fyrir breyttum skilmálum varðandi lagaval og lögsögu með vátryggingarskírteini vegna tímabilsins 1. ágúst 2007 til jafnlengdar 2008 eins og að framan er rakið verður ekki talið að ákvæði 3. mgr. 18. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga standi í vegi gildistöku breyttra skilmála.

Í annan stað greinir aðila á um hvort ákvæði 44. gr. laga nr. 30/2004 og ákvæði 3. kafla áður gildandi laga nr. 68/1995 um Lúganósamninginn um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum standi því í vegi að framangreindum ákvæðum vátryggingarskilmálanna um lögsögu verði beitt. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest niðurstaða hans um að svo sé ekki.

Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Þrotabú Baugs Group hf., greiði varnaraðilum, Liberty Mutual Insurance Europe Limited, Novae Corporate Underwriting Limited og SCOR Underwriting Limited hverjum um sig 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. september 2012.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 31. ágúst sl., er höfðað af þrotabúi Baugs Group hf., Efstaleiti 5, Reykjavík, með sakaukastefnu birtri 8. desember 2011, á hendur Liberty Mutual Insurance Europe Ltd., 3rd floor, Two Minster Court Minicing Lane, London, Englandi, Novae Corp Underwriting Ltd., 71 Fenchurch Street, London, Englandi, og Scor Underwriting Ltd., 10 Lime Street, London, Englandi.

Sakaukastefnandi gerir aðallega eftirfarandi dómkröfur á hendur sakaukastefndu:

Að sakaukastefnda, Liberty Mutual Insurance Europe Limited, verði gert að greiða sakaukastefnanda vátryggingarbætur að fjárhæð 500.000.000 króna in solidum með stefnda, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðbætur nr. 38/2001 frá 11. júlí 2008 til greiðsludags.

Að sakaukastefnda, Novae Corporate Underwriting Limited, verði gert að greiða stefnanda vátryggingarbætur að fjárhæð 469.966.144 krónur in solidum með stefnda, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, með dráttarvöxtum  samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðbætur nr. 38/2001 frá 11. júlí 2008 til greiðsludags.

Að sakaukastefnda, SCOR Underwriting Limited, verði gert að greiða stefnanda vátryggingarbætur að fjárhæð 27.777.788 krónur in solidum með stefnda, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, með dráttarvöxtum  samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðbætur nr. 38/2001 frá 11. júlí 2008 til greiðsludags.

Að sakaukastefndu verði gert sameiginlega að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins í samræmi við hagsmuni málsins, vinnu málflytjanda og annan kostnað af málinu.

Jafnframt er gerð krafa um sameiningu máls þessa við héraðsdómsmálið nr. E-00627/2011, þb. Baugs Group hf. gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni.

Sakaukastefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur til vara:

Að viðurkennd verði greiðsluskylda sakaukastefndu, Liberty Mutual Insurance Europe Limited, Novae Corporate Underwriting Limited og SCOR Underwriting Limited gagnvart stefnanda úr vátryggingu sem Baugur Group hf. hafði hjá sakaukastefndu fyrir tímabilið 1. ágúst 2008 til 1. ágúst 2009, auðkennd með númerinu 20080801024, vegna tjóns þess sem stefndi, Jón Ásgeir Jóhannesson, olli í starfi sínu sem stjórnarmaður Baugs Group hf. með ákvörðun sinni um kaup Baugs Group hf. á alls 314.000.000 eigin bréfum Baugs Group hf. hinn 30. júní 2008.

Að sakaukastefndu verði gert sameiginlega að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins í samræmi við hagsmuni málsins, vinnu málflytjanda og annan kostnað af málinu.

Sakaukastefndu gera þá dómkröfu aðallega að öllum kröfum stefnanda á hendur þeim verði vísað frá dómi. Til vara er krafist sýknu af öllum kröfum sakaukastefnanda og til þrautavara að kröfur sakaukastefnanda verði lækkaðar verulega.

Þá er krafist málskostnaðar í öllum tilfellum úr hendi sakaukastefnanda að viðbættum virðisaukaskatti samkvæmt málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins.            Í þessum þætti málsins er til meðferðar krafa sakaukastefndu um frávísun málsins og málskostnað. Sakaukastefnandi krefst þess að frávísunarkröfunni verði hafnað.

I.

Sakaukastefnandi lýsir helstu málsatvikum þannig, að Baugur hafi um nokkurt skeið keypt stjórnendatryggingu í gegnum sænsku vátryggingarmiðlunina UIB Nordic AB, þ.e. á tímabilinu 1. júlí 2006-1. júlí 2007, 1. ágúst 2007-1. ágúst 2008 og 1. ágúst 2008 til 1. ágúst 2009. Vátryggjendur voru annars vegar Liberty Mutual Insurance Europe Limited með 50% ábyrgðar og hins vegar Lloyd‘s Underwriters með 50% ábyrgðar. Samkvæmt skilmálum vátryggingarinnar er ábyrgð vátryggjenda hlutfallslega skipt (pro rata) og þannig ber hver vátryggjandi um sig ábyrgð á þeirri fjárhæð sem hann hefur skrifað sig fyrir. Á bak við vátryggjendur, sem tilgreindir eru sem Lloyd‘s Underwriters („Syndicate“), er hópur vátryggjenda. Bera þeir jafnframt skipta ábyrgð (pro rata) og ber sakaukastefndi Novae Corporate Underwriting Limited 93,99322887526% þess hluta ábyrgðarinnar og SCOR Underwriting Limited 5,55555762346% þess hluta.

Stjórnendatryggingin var samkvæmt orðalagi sínu ábyrgðartrygging vegna greiðslu bóta, allt að fjárhæð 1.000.000.000 króna vegna hverrar einstakrar kröfu á vátryggingartímabili. Samkvæmt skilmálum vátryggingarinnar hafi hún tryggt stjórnarmenn og yfirmenn Baugs, sem og félagið sjálft, vegna tjóns eða málskostnaðar sem framangreindir aðilar gætu orðið fyrir vegna m.a. lögsóknar vegna meintrar saknæmrar háttsemi á meðan stjórnarmenn og yfirmenn gegndu starfi sínu hjá Baugi. Vátryggjendum hafi samkvæmt vátryggingunni borið að greiða fyrir hönd stjórnarmanna Baugs allt það tjón sem yrði vegna kröfu sem er grundvölluð á sérhverjum ólögmætum athöfnum (e. Wrongful Act) stjórnarmanna sem vátryggingin tekur til.

Samkvæmt skilmálum tryggingarinnar taki hún til krafna sem tilkynntar eru á gildistíma tryggingar. Jafnframt taki hún til þeirra krafna, sem eigi rót sína að rekja til einhvers sérstaks atviks, hafi slíkt atvik verið tilkynnt á gildistíma tryggingar, enda þótt málshöfðun eða aðrar aðgerðir hefjist ekki fyrr en eftir gildistíma tryggingar, sbr. skilmála vátryggingar 2008-9.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 13. mars 2009 var bú Baugs tekið til gjaldþrotaskipta og Erlendur Gíslason hrl. og Anna Kristín Traustadóttir, löggiltur endurskoðandi, skipuð skiptastjórar í þrotabúinu. Frestdagur við gjaldþrotaskiptin er 4. febrúar 2009.

Gildistími vátryggingarinnar, sem síðast var gefin út, var frá 1. ágúst 2008 til 31. júlí 2009. Áður en gildistími tryggingarinnar rann út, þ.e. 27. júlí 2009 var vátryggingarmiðluninni UIB Nordic AB tilkynnt um kröfu vegna svonefnds Project Polo. Í tilkynningunni kom fram að skiptastjórar mætu athafnir stjórnarmanna Baugs Group í tengslum við Project Polo sem ólögmætar í skilningi vátryggingarsamningsins og því yrði krafist greiðslu úr tryggingunni. Vátryggjendum var með tölvupósti frá systurfélagi UIB Nordic (UIB Limited) til lögmanna vátryggjenda, Reynolds Porter Chamberlain LLP, tilkynnt um kröfur þessar hinn 30. júlí 2009, sbr. dskj. 6. Í tölvupósti 29. janúar 2010 kom fram sú afstaða vátryggjenda að þeir litu á bréf skiptastjóra sem fyrirhugaða tilkynningu. Hvorki var tekin afstaða til ábyrgðar vátryggjenda né gildi vátryggingarinnar af hálfu vátryggjenda.

Er því lýst í sakaukastefnu að skiptastjórar Baugs hafi jafnframt strax gripið til aðgerða til þess að rifta gerningnum gagnvart hluthöfum á grundvelli laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991. Hinn 14. september 2009 hafi skiptastjóri sent riftunarbréf til Gaums, Gaums Holding, ISP, Bague og Nýja Kaupþings banka hf. (nú Arion banka hf.) þar sem framangreindum greiðslum Baugs fyrir hlutabréf félaganna í Baugi var rift með vísan til ákvæða gjaldþrotalaga. Hinn 21. desember 2009 hafi skiptastjóri sent riftunarbréf til Bague, Havilland og Pillar Securitisation S.á.r.l., sem tekið hefðu við réttindum og skyldum Kaupþings Lux þar sem framangreindri greiðslu Baugs til Bague fyrir hlutabréf félagsins í Baugi hafi verið rift með vísan til gjaldþrotalaga. Hinn 30. desember 2009 hafi kröfum sakaukastefnanda verið lýst í þrotabú Kaupþings. Hafi sakaukastefnandi talið málshöfðun nauðsynlega til staðfestingar framangreinds. Krafist hafi verið tjónsbóta en til vara auðgunar hluthafanna Gaums, Gaums Holding, ISP, Bague, auk Pillar og Havilland og hafi málið verið þingfest 23. mars 2010. Sakaukastefnandi hafi jafnframt byggt á bótaábyrgð þeirra hluthafa, sem komið hafi að ákvörðun um framangreind kaup á hlutabréfum Baugs.

Stefna vegna bótaábyrgðar stjórnarmanna var birt fyrrum stjórnarformanni Baugs, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, hinn 15. desember 2010 og var málið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 10. febrúar 2011 (mál nr. E-00627/2011). Sakaukatefnandi telur Jón Ásgeir bera bótaábyrgð vegna ráðstöfunar á söluandvirði Haga til tjóns fyrir félagið. UIB Nordic AB var tilkynnt um málshöfðunina gegn Jóni Ásgeiri 15. desember og kom þar jafnframt fram að skiptastjórar hygðust stefna vátryggjendum beint samkvæmt heimild íslenskra vátryggingarsamningalaga. Jafnframt var óskað eftir upplýsingum um hvort UIB Nordic AB væri heimilt að taka við stefnu fyrir hönd vátryggjanda og ef ekki, hverjir Lloyds Underwriters væru, svo unnt væri að stefna þeim. Hinn 19. janúar 2011 barst stefnanda svar frá lögmönnum vátryggjenda þar sem sjónarmið vátryggjanda í málinu komu fram en ekki var upplýst hverjir Lloyds Underwriters væru. Í megindráttum kom þar fram að UIB væri ekki heimilt taka við stefnu fyrir hönd vátryggjenda. Jafnframt var því haldið fram að vátryggingin væri undir enskum lögum og lögsögu. Meðfylgjandi svarbréfi fylgdi viðauki við vátrygginguna „Endorsement 9“, sem sakaukastefnandi kveðst ekki hafa verið kunnugt um og hefði ekki fundist í gögnum þrotabúsins. Var þar mælt fyrir um að bresk lög og lögsaga gilti um vátrygginguna. Í bréfi, dagsettu 4. ágúst 2011 koma fram upplýsingar um auðkenni Lloyds Underwriters. 

II.

Krafa stefnanda er í meginatriðum á því byggð að stjórnarmaðurinn Jón Ásgeir Jóhannesson hafi valdið Baugi Group hf. tjóni með tilteknum athöfnum sínum. Á þessu tjóni beri sakaukastefndu ábyrgð á grundvelli vátryggingar, sem félagið hafði í gildi á þeim tíma, og geti stefnandi gert kröfu í þá ábyrgð. Að öllu leyti er byggt á sömu málsástæðum og byggt er á í aðalsök, einkum hvað varðar stöðj Baugs, tjón félagsins og skaðabótaskyldu Jóns Ásgeirs, stefnda í aðalsök.

Baugur hafi keypt stjórnendatryggingu (ábyrgðartryggingu) og vátryggjendur tryggingarinnar, sem Baugur hafi keypt af vátryggingarmiðluninni UIB Nordic AB í Svíþjóð á tímabilinu 1. júlí 2006-1. júlí 2007, 1. ágúst 2007-1. ágúst 2008 og 1. ágúst 2008 til 1. ágúst 2009, hafi að langstærstum hluta verið sakaukastefndu. Í vátryggingu frá 2006-7 hafi ekki verið kveðið á um það í vátryggingarskírteini (e. Evidence of Cover) (nr. 200607101033) hvaða lög og lögsaga ætti við. Í almennum skilmálum vátryggingar frá 2006-2007 hafi verið kveðið á um í hluta VII, lið I, að vátryggingin skyldi túlkuð og eiga undir lögsögu þess ríkis, sem vátryggingartaki, í þessu tilviki Baugur, væri skráður. Þannig sé ljóst að vátryggingin átti, á árunum 2006-2007, undir íslensk lög og lögsögu.

Vátryggingin hafi verið framlengd og í vátryggingarskírteini (e. Evidence of Cover) (nr. 20070701020) fyrir tímabilið 2007-8 hafi verið að finna ákvæði þar sem komið hafi fram annars vegar að í ágreiningi milli vátryggingartaka og vátryggjenda skyldi vátryggingin eiga undir ensk lög og lögsögu en í ágreiningi milli vátryggingartaka og þriðju aðila gæti vátryggingin átt undir hvaða lög og lögsögu sem er, að undanskildum Bandaríkjunum/Kanada. Í skírteininu komi jafnframt fram að form vátryggingarinnar sé almennir skilmálar og „endorsements“, eins og fyrri trygging með númerinu B0902/06N647301251/20060701033. Virðist þar vera vísað til tryggingarinnar frá 2006-7. Í almennum skilmálum vátryggingar frá 2007-8 hafi hins vegar verið kveðið á um í hluta VII, lið I, að vátryggingin skyldi túlkuð og eiga undir lögsögu þess ríkis, sem vátryggingartaki, í þessu tilviki Baugur, væri skráður, þ.e. íslensk lög og lögsögu.

Vátryggingin hafi verið framlengd á ný og hvað tímabilið frá 2008-9 varðar, hafi í vátryggingarskírteini (e. Evidence of Cover) (nr. 20080801024) verið að finna ákvæði þar sem fram hafi komið annars vegar að í ágreiningi á milli vátryggingartaka og vátryggjenda skyldi vátryggingin eiga undir ensk lög og lögsögu en í ágreiningi á milli vátryggingartaka og þriðju aðila gæti vátryggingin átt undir hvaða lög og lögsögu sem er, að undanskildum Bandaríkjunum/Kanada. Í skírteininu komi jafnframt fram að form vátryggingarinnar sé almennir skilmálar og „endorsements“, eins og fyrri trygging með númerinu B0902/07N647301338/20070701020. Í almennum skilmálum vátryggingar frá 2008-2009 hafi hins vegar verið kveðið á um í hluta VII, lið I, að vátryggingin skyldi túlkuð og eiga undir lögsögu þess ríkis sem vátryggingartaki, í þessu tilviki Baugur, væri skráður, þ.e. íslensk lög og lögsögu.

Sakaukastefnandi hafi ekki séð skjal, sem kallaðist UIB 0902, og  meintan viðauka við vátrygginguna, þ.e. „Endorsement 9“, fyrr en 19. janúar 2011 og mótmæli gildi þeirra.

Um varnarþing vátryggjenda vísar sakaukastefnandi til þess að hann sé með lögheimili á Íslandi en sakaukastefndu séu vátryggingarfélög með aðsetur í Bretlandi.

Í V. kafla einkamálalaga nr. 91/1991 sé kveðið á um varnarþingsreglur sem gilda á Íslandi. Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. verði ákvæðum kaflans beitt til að sækja félag, sem er búsett erlendis, nema annað leiði af samningi við erlent ríki. Nýr þjóðréttarsamningur um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum hafi verið undirritaður af hálfu Íslands í Lúganó hinn 30. október 2007. Samningurinn komi í stað sambærilegs eldri samnings, sem undirritaður hafi verið 16. september 1988 og staðfestur með lögum nr. 68/1995. Með lögum nr. 7/2011 hafi verið veitt heimild til þess að fullgilda Lúganósamninginn og hafi ákvæðum samningsins og þeirra þriggja bókana, sem honum fylgja, enn fremur verið veitt gildi hér á landi sem lög. Samningurinn hafi verið fullgiltur af Íslands hálfu 1. maí 2011. Af ofangreindu sé ljóst að reglur Lúganósamningsins komi í stað samsvarandi reglna í landsrétti á Íslandi þegar og ef mál fellur undir hann. Samningurinn hafi tekið gildi hvað ríki Evrópusambandsins varðar, þ. á m. Bretland, hinn 1. janúar 2010.

3. kafli Lúganósamningsins lúti að varnarþingum í vátryggingarmálum. Samkvæmt b-lið 1. mgr. 9. gr. megi lögsækja vátryggjanda, sem á heimili í samningsríki, í öðru samningsríki í þeim tilvikum þegar mál er höfðað af vátryggingartaka, vátryggðum eða öðrum rétthafa, fyrir dómstóli þess staðar sem stefnandi á heimili. Sé þetta ein aðalregla Lúganósamningsins en markmið með varnarþingsreglum þessu sé að vernda vátryggingartaka og aðra rétthafa. Frá framangreindri reglu og öðrum ákvæðum kaflans megi aðeins víkja í ákveðnum tilvikum, sem séu tæmandi talin í 13. gr. samningsins. Eigi þau ekki við í tilviki sakaukastefnanda. Sé sakaukastefnanda því heimilt að stefna sakaukastefndu sem vátryggjendum þar sem stefnandi á heimili, þ.e. fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á Íslandi. Engu máli skipti um hvað samið var í samningi aðila, enda reglurnar ófrávíkjanlegar.

Þá byggir sakaukastefnandi á því að íslensk lög gildi um trygginguna. Vátryggingin hafi samkvæmt upphaflegum skilmálum sínum fyrir árið 2006-7 heyrt undir íslenskum lög og lögsögu. Engar breytingar hafi verið gerðar á skilmálunum við framlengingu tryggingarinnar fyrir tímabilin 2007-2008 og 2008-2009. Ætlað „Endorsement 9“ hafi enga þýðingu í málinu, þar sem ekkert liggi fyrir um að Baugur hafi samþykkt gildistöku þess eða yfirhöfuð verið tilkynnt um hana. Hafi slík skilmálabreyting því í öllu falli ekki samræmst 3. mgr. 18. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga.

Sakaukastefnandi vísar til þess að mál hafi þegar verið höfðað gegn framangreindum stjórnarmanni, sem vátryggður sé. Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga um vátryggingasamninga nr. 30/2003 geti tjónþoli krafist bóta beint frá vátryggingarfélagi ef vátrygging tekur til tjóns vátryggðs vegna skaðabótaábyrgðar sem hann ber. Sé því heimilt að höfða mál þetta á hendur sakaukastefndu í samræmi við hlutfallslega ábyrgð þeirra samkvæmt skilmálum tryggingarinnar.

Sakaukastefnandi byggir á því að ábyrgðartryggingin hafi samkvæmt skilmálum sínum tryggt stjórnarmenn og yfirmenn Baugs, sem og félagið sjálft, vegna tjóns eða málskostnaðar, sem framangreindir aðilar gætu orðið fyrir, m.a. vegna lögsóknar vegna meintrar saknæmrar háttsemi á meðan stjórnarmenn og yfirmenn gegndu starfi sínu hjá Baugi. Samkvæmt I. hluta skilmála ábyrgðartryggingar Baugs Group hf. (Directors and Officers Policy Wording), lofi vátryggjandi að greiða fyrir hönd stjórnarmanna Baugs allt það tjón vegna kröfu sem er grundvölluð á sérhverri ólögmætum athöfnum þeirra sem vátryggingin tekur til.

Í II. hluta skilmálanna sé að finna skilgreiningar á hugtökum. „Wrongful act“ sé skilgreint í vátryggingunni m.a. sem meint eða staðreynd yfirsjón, rangfærsla, athöfn, vanræksla, brot á starfsskyldu, trúnaðarskyldubrot sem stjórnarmaður og eða yfirmaður gera tilraun til eða eru sagður hafa valdið í starfi sínu sem stjórnarmenn eða yfirmenn. Verði við framangreinda skilgreiningu miðað, þótt notast verði við íslenska orðið „ólögmæt athöfn“. Ljóst sé að athafnir stefnda í aðalsök, Jóns Ásgeirs, í tengslum við Project Polo falli undir ólögmæta athöfn í skilningi tryggingarinnar, enda hafi verið um brot á lögum, starfsskyldu og trúnaðarskyldu að ræða o.fl. Vísar stefnandi í umfjöllun um málsástæður í aðalsök hvað þetta varðar.

Hugtökin „stjórnarmaður og yfirmaður“ séu í vátryggingunni 2008-9 bls. 10-11 skilgreind m.a. sem sérhver einstaklingur sem var, er nú eða verður stjórnarmaður, yfirmaður, framkvæmdastjóri eða starfsmaður. Vátryggingin nái aðeins til þeirra stjórnarmanna og yfirmanna, sem viðhaft hafi hina ólögmætu athöfn í starfi sínu. Í þessu tilviki hafi það verið háttsemi Jóns Ásgeirs á meðan hann gegndi starfi sem stjórnarformaður og ákvarðanir, sem hann tók í krafti starfa sinna, sem valdið hafi sakaukastefnanda tjóni.

Greiðsluskylda hinna sakaukastefndu tryggingarfélaga byggi á skaðabótaskyldri háttsemi Jóns Ásgeirs í starfi sínu sem stjórnarmaður í Baugi og vátryggingarsamningi félagsins við hin sakaukastefndu tryggingarfélög. Vátryggingarsamningurinn taki samkvæmt 1. lið 1. kafla almennra skilmála tryggingarinnar til tjóns sakaukastefnanda. Samkvæmt A-lið hluta V í almennum skilmálum tryggingarinnar tryggi hún 100% tjóns þess sem um ræðir, þ.e. upp að hámarksfjárhæð tryggingarinnar sem nefnd er í vátryggingarskírteini.

Baugur sé vátryggður samkvæmt skilmálum tryggingarinnar fyrir tímabilið 2008-2009 og hafi því verið lýst yfir fyrir hönd sakaukastefndu að félagið sé aðili að tryggingunni. Sakaukastefnandi hafi tekið við öllum réttindum félagsins, sbr. 72. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti, þar með talið samkvæmt vátryggingarsamningi þessum. Sé stefnanda því heimilt að hafa uppi kröfuna.

Samkvæmt sérstöku orðalagi vátryggingarinnar, gegni UIB Nordic AB hlutverki milligönguaðila en öll samskipti aðila eigi að fara gegnum það félag, enda ekki ljóst af skilmálum tryggingarinnar hvert eigi að senda tilkynningar til Liberty Mutual Fund, og óljóst hverjir Lloyds Underwriters eru á hverjum tíma. Eins og fram komi í málavaxtalýsingu sakaukastefnanda hafi vátryggjendum verið tilkynnt með sannarlegum hætti um kröfu í skilningi VI. kafla skilmála vátryggingarinnar, innan gildistíma vátryggingarinnar.

                Sakaukastefnandi krefst sameiningar máls þessa við héraðsdómsmálið nr. E-00627/2011, þb. Baugs Group hf. gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, þar sem byggt er á því að Jón Ásgeir beri bótaábyrgð vegna ákvörðunar stjórnar um ráðstöfun á söluandvirði Haga til tjóns fyrir félagið en sú ráðstöfun hafi m.a. í bága við reglur hlutafélagalaga nr. 2/1995 um úthlutun fjármuna úr félögum og trúnaðarskyldu félagsstjórnar. Vísar sakaukastefnandi til ákvæða c-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr.. 91/1991 að þessu leyti. Geti dómari, þyki hann það til skýringar eða hagræðis, ákveðið að ósk aðila að sameina tvö mál, ef höfða hefði mátt eitt mál um kröfurnar samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laganna. Samkvæmt ákvæðinu megi sækja fleiri en einn í sama máli ef dómkröfur eiga rætur að rekja til sama atviks. Málið nr. E-00627/2011 sé byggt á sama grunni og mál þetta gegn sakaukastefndu sem vátryggjendum og ljóst að dómkröfurnar eigi rætur að rekja til sama atviks. Þá sé nokkuð hagræði af því að sameina málin, enda sé dómkrafa á hendur sakaukastefndu um greiðslu in solidum með Jóni Ásgeiri, á hluta þeirrar kröfur sem gerð sé á hendur honum í máli nr. E-00627/2011.

Sakaukastefnandi byggir á því að það verði ekki metið honum til vanrækslu að hafa ekki stefnt sakaukastefndu til fullrar aðildar að málinu við þingfestingu þess. Ekkert hafi legið fyrir um það, hverjir þeir voru sem keypt höfðu hlut í tryggingunni, og hafi sakaukastefnandi ekki verið upplýstur um það fyrr en með bréfi, dagsettu 4. ágúst 2011. Fram að því hafi sakaukastefnanda verið ómögulegt að höfða mál þetta. Stefnanda hafi hins vegar verið nauðsynlegt að höfða mál á hendur Jóni Ásgeiri fyrir lok árs 2010 vegna eldra ákvæðis 136. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög. Á þeim tíma hafi sakaukastefnanda ekki verið kunnugt um hverjir vátryggjendur væru. Skilyrði 3. mgr. 19. gr. l. nr. 91/1991 fyrir sakaraukningu séu því uppfyllt.

Sakaukastefnandi byggir varakröfu sína á öllum sömu sjónarmiðum og aðalkrafan. Verði ekki fallist á að fjárhæð tjóns stefnanda sé sannað en fallist á málsástæður hans að öðru leyti, sé honum nauðsynlegt að fá niðurstöðu um skaðabótaskyldu sakaukastefndu.

Til stuðnings skaðabótakröfu stjórnarmanns Baugs vísar stefnandi til sakarreglu skaðabótaréttar, 68. gr., 72. gr., 76. gr. og 134. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995.

III.

Sakaukastefndu byggja frávísunarkröfu sína í fyrsta lagi á því, að sérstaklega hafi verið samið um enska lögsögu samkvæmt ákvæði í tryggingarsamningi aðila, sbr. svonefnt „Endorsement Number: 09“ sem hér eftir verður vísað til sem viðbótar 9. Sakaukastefndu byggja á því að viðbót 9 sé óaðskiljanlegur hluti af skilmálum tryggingarsamningsins, auk samningsins fyrir árið á undan. Með skírskotun til viðbótar 9, hafi verið samið sérstaklega um lögsögu milli UIB Limited, sem umboðsaðila sakaukastefnanda og stjórnenda hans, og sakaukastefndu, og sé því ljóst að óhrekjanlegur samningur hafi komist á milli sakaukastefnanda og stjórnenda hans annars vegar og sakaukastefndu hins vegar um að ágreining sem kæmi upp milli þeirra og í tengslum við tryggingarsamninginn ætti að leysa úr fyrir enskum dómstólum, auk þess sem ensk lög ættu að gilda um tryggingarsamninginn. Þetta eigi við óháð því hvort íslensk eða ensk lög væru talin gilda um samninginn.

Jafnvel þótt fallist yrði á með sakaukastefnanda að hann væri grandlaus um að UIB Limited hefði samið fyrir hönd hans um að um trygginguna færi samkvæmt enskum lögum og lögsögu enskra dómstóla, hefði það engin áhrif þar sem UIB Limited teljist hafa verið umboðsmaður sakaukastefnanda við tryggingartöku. Sakaukastefndu telji hins vegar málatilbúnað sakaukastefnanda um meint grandleysi hans með öllu haldlausan. Í tryggingarskírteini fyrir þessa tilteknu tryggingu, sem sakaukastefnandi hafi lagt var fram, komi skýrlega fram að samið hafi verið um að tryggingin heyrði undir ensk lög og lögsögu enskra dómstóla.

Sakaukastefndu benda enn fremur á framlagt dómskjal nr. 13, sem sé tryggingarskírteini fyrir árið 2007/8, þar sem fram komi með sama hætti að samið var um að tryggingin heyrði undir ensk lög og lögsögu enskra dómstóla. Sakaukastefndu vísa til samanburðar dómskjal nr. 22 sem feli í sér samningsskilmála tryggingarinnar fyrir það ár þar sem sama lagaval og lögsaga komi fram.

Sakaukastefndu byggja á því að aðilum hafi verið heimilt að semja sig undan lögsögu íslenskra dómstóla með vísan til Lúganósamningsins um dómsvald og fullnustu dóma í einkamálum sem veitt hafi verið lagagildi hér á landi með lögum nr. 7/2011. Samkvæmt 13. gr. samningsins sé aðilum að tryggingarsamningi heimilt að víkja frá hinum almennu varnarþingsreglum með samningi í nánar tilteknum tilvikum og með nánar tilteknum skilyrðum sem fram koma í ákvæðinu. Í 5. tölulið 1. mgr. 13. greinar sé aðilum heimilað að víkja frá ákvæðum kaflans með samningi „ef hann varðar vátryggingarsamning sem tekur til eins eða fleiri áhættuflokka sem nefndir eru í 14. gr.“ Í fyrstu fjórum töluliðum 14. gr. sé fjallað um áhættuflokka sem varða skip og loftför, en í þeim síðasta er kveðið á um hvers konar „stóráhættu.“ Umræddur tryggingarsamningur taki til „stóráhættu“ í skilningi 5. töluliðar 1. mgr. 14. gr. „Stóráhætta“ sé skilgreind í greinargerð með Lúganósamningnum en þar sé vísað til tilskipunar nr. 73/239/EEC eins og henni var breytt með tilskipunum nr. 88/357/EEC og nr. 90/618/EEC. Í tilskipun nr. 88/357/EEC segi:

„(d) „large risksmeans:

ii(i) risks classified under classes 4,5,6,7,11 and 12 of point A of the Annex;

i(ii) risks classified under classes 14 and 15 of point A of the Annex, where the policy-holder is engaged professionally in an industrial or commercial activity or in one of the liberal professions, and the risks relate to such activity;

(iii) risks classified under classes 8,9,13 and 16 of point A of the Annex in so far as the policy-holder exceeds the limits of at least two of the following three criteria:

First stage: until 31 December 1992:

-              balance sheet total: 12,4 million ECU,

-              net turnover: 24 million ECU,

-              average number of employees during the financial year: 500.

Second stage: from 1 January 1993:

-              balance sheet total: 6,2 million ECU,

-              net turnover: 12,8 million ECU

-              average number of employees during the financial year: 250.

If the policy-holder belongs to a group of undertakings for which consolidated accounts within the meaning of the Directive 83/349/EEC (7) are drawn up, the criteria mentioned above shall be applied on the basis of the consolidated accounts.”

Samkvæmt framangreindu teljist áhætta samkvæmt tryggingasamningi m.a. vera „stóráhætta“ ef um er að ræða aðra tryggingu en „motor vehicle liability“, „aircraft liability“ eða „liability for ships“ og hún uppfyllir þau viðbótarskilyrði sem tilskipun nr. 88/357/EEC kveður á um. Sú tilskipun hafi breytt 5. ákvæði tilskipunar nr. 73/239/EEC og breytingin hafi falið í sér framangreinda ítarlegu skilgreiningu á því hvað skyldi teljast til „large risks“.

Þegar stefnandi og sakaukastefndu sömdu um að allur ágreiningur milli þeirra varðandi trygginguna skyldi lagður fyrir enska dómstóla, hafi vátryggingarsamningur þeirra uppfyllt að minnsta kosti tvö af þremur skilyrðum, sem upp eru talin í d-lið, fyrrnefnds 5. ákvæðis tilskipunar nr. 73/239/EEC. Á árinu 2007 hafi hagnaður félagsins numið 17.903.000.000 króna, auk þess sem efnahagsreikningur samstæðunnar hafi verið 313.597.000.000 króna fyrir árið 2007 samkvæmt samstæðureikningi sakaukastefnanda fyrir efnahagsárið 2007. Þá sé vart umdeilt að starfsmenn samstæðunnar hafi verið fleiri en 250. Aðilar framangreinds tryggingasamnings hafi því með gildum hætti getað, bæði við gildistöku tryggingar fyrir árin 2007-2008, sem og við gildistöku tryggingar fyrir árin 2008-2009, hin viðeigandi trygging, samið um að vísa bæri ágreiningi vegna tryggingarinnar til úrlausnar annarra dómstóla en leiða myndi af ákvæðum 3. kafla Lúganósamningsins. Enn fremur byggja sakaukastefndu á meginreglum samningaréttar um samningsfrelsi aðila og að allar lagalegar takmarkanir á slíku samningsfrelsi skuli vera ótvíræðar og skýrar. Hér eigi ekki við sérstakar reglur um neytendur.

Sakaukastefndu byggja á því að 3. mgr. 18. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, eigi ekki við þar sem:

Jafnvel þó svo tryggingin fyrir tímabilið 2006/7 hafi ekki haft sérstök ákvæði um lögsögu enskra dómstóla og að ensk lög skyldu gilda um samninginn (ólíkt tryggingunum fyrir tímabilin 2007/8 og 2008/9), teljist slíkt ákvæði ekki vera varúðarregla eins og hún er skilgreind í 2. gr. laganna og þá kveði slíkt ákvæði ekki á um umfang tryggingarinnar en 3. mgr. 18. gr. laganna nái einungis til slíkra ákvæða.

Jafnvel þó svo að talið yrði að ákvæðin um lögsögu enskra dómstóla og um að ensk lög eigi við um trygginguna, væru talin falla undir undir 3. mgr. 18. gr., hafi ákvæðunum verið bætt við skilmála tryggingarinnar fyrir tímabilin 2007/8 og 2008/9 og sem slík sérstaklega samþykkt af hálfu sakaukastefnanda gegnum UIB Limited. Sakaukastefnanda hafi einnig verið sérstaklega tilkynnt um gildistöku þessara ákvæða líkt og fram komi í sönnunargögnum sakaukastefnanda í málinu, sbr. dskj. 13 og 14.

18. gr. laga nr. 30/2004 eigi ekki við í málinu þar sem samið sé um trygginguna sem og endurnýjun hennar erlendis fyrir hönd tryggingartaka af hálfu tryggingarmiðlara. Þá hafi tryggingin verið tekin hjá erlendum tryggingarfélögum sem, vegna lögheimilis þeirra, hafi ekkert beint samband við tryggingartaka. Sakaukastefnandi hafi ákveðið að leita eftir tryggingu á tryggingarmarkaði í London fyrir tímabilin 2005/6, 2006/7, 2007/8 og 2008/9 og venjan á þeim markaði sé sú að allar samningaviðræður fari fram milli tryggingarfélaga og tryggingarmiðlara f.h. tryggingartaka.

Sakaukastefndu byggja á því, að engar takmarkanir hafi gilt um heimild sakaukastefnanda til þess að semja sig undan 44. gr. laga nr. 30/2004 á grundvelli 3. og/eða 46. gr. laganna og þar með að það geti ekki skipt máli þó svo sakaukastefnandi hafi sjálfur tekið ákvörðunina um lögsögu enskra dómstóla. Í 5. mgr. 44. gr. sé kveðið á um að íslenskir dómstólar hafi ekki lögsögu ef annað leiði af þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands. Þar með, og með tilliti til samningsins milli stefnanda og sakaukastefndu og „stóráhættu“ undanþágunnar samkvæmt Lúganósamningnum, teljist það til þjóðréttarlegrar skuldbindingar af hálfu Íslands að ætla sér ekki lögsögu í þessu máli. Enskir dómstólar hafi heimild til og myndu hiklaust leysa úr ágreiningi vegna kröfunnar samkvæmt ákvæðum enskra laga. Í framlögðu áliti Peter MacDonald Eggers QC komi fram að að því gefnu að stefnandi hefði réttilega stofnað til skaðabótakröfu á hendur Jóni Ásgeiri og að því marki sem Jón Ásgeir myndi ekki greiða kröfuna að fullu og yrði því gerður gjaldþrota, fengi stefnandi sjálfkrafa framselda kröfuna frá Jóni Ásgeiri um skaðabætur undir tryggingunni með tilliti til skaðabótaábyrgðar. Þar með sé sýnt fram á að sakaukastefnandi sé með engum hætti í verri aðstöðu fyrir enskum dómstólum heldur en ef íslenskir dómstólar ættu lögsögu í málinu.

Þótt ákvæði 3. og/eða 46. gr. laga nr. 30/2004 kveði á um að sakaukastefnandi hafi eingöngu haft heimild til að semja um lögsögu enskra dómstóla ef slíkt leiddi ekki til lakari stöðu hans, hvíli sönnunarbyrði um lakari stöðu á honum sjálfum en hann hafi ekki haft sig í frammi við að leggja fram sönnunargögn til að sýna fram á slíka lakari stöðu, né heldur rökstutt slíka stöðu með neinum hætti.

Telji dómurinn ekki að aðilar hafi samið sig frá lögsögu íslenskra dómstóla telja sakaukastefndu að engu að síður eigi að vísa máli þessu frá dómi, þar eð skilyrði til sakaraukningar séu ekki uppfyllt.

Í 3. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála sé að finna heimild til að stefna nýjum aðila til sakaraukningar eftir þingfestingu máls til að svara til sakar með þeim sem hann hefur þegar stefnt. Skilyrði fyrir slíkri sakaraukningu samkvæmt ákvæðinu sé að stefnanda verði ekki metið til vanrækslu að hafa ekki beint máli að sakaukastefnda frá upphafi. Sé þannig reynt að koma í veg fyrir að máli verði raskað með því að nýjum aðila sé bætt við, sem þurfi að koma að kröfum sínum, röksemdum og gögnum, nema stefnanda sé afsakanlegt að hafa ekki haft þann aðila með frá byrjun. Sú röskun á dómsmáli, sem talin er felast í sakaraukningu felist meðal annars í aukinni vinnu og óhagræði frumstefnda, sem neyðist til þess að taka tillit til málatilbúnaðar nýja aðilans við hlið sér, í flestum tilfellum eftir að frumstefndi hefur skilað inn greinargerð í málinu. Þá valdi sakaraukning einnig óhagræði fyrir þann dómstól, sem úr málinu leysi, enda verði málið þá umfangsmeira en lagt var upp með og meðferð málsins tefjist umfram það sem ætla mátti.

Samkvæmt réttarframkvæmd og skýringu á skilyrðunum samkvæmt orðanna hljóðan, verði slík röskun ekki réttlætt með því að vísa til mistaka eða vanrækslu stefnanda á að huga að augljósum atriðum fyrir höfðun máls. Aukinheldur verði sakaraukning ekki byggð á því að stefnanda snúist hugur um lagatúlkun eða telji eftir á að hyggja vissara að stefna öðrum inn til varnar. Samkvæmt 3. mgr. 19. gr. verði sakaraukning aðeins á því byggð að ný atvik eða nýjar upplýsingar komi í ljós eftir þingfestingu máls og jafnframt að þau séu þess eðlis að stefnanda hafi ekki borið að gæta að þeim fyrir höfðun málsins.

Benda sakaukastefndu enn fremur á regluna, sem komi fram í 3. mgr. 44. gr. laganna um að tjónþoli skuli höfða sakaraukningu á hendur þeim, sem skaðabótaábyrgðina ber, innan mánaðar frá því að til slíkrar kröfu stofnaðist en ella skuli málinu vísað frá dómi. Sakaukastefndu byggja á því að þessi regla geri auknar kröfur til aðila að ágreiningi til að sýna varfærni og bregðast tímanlega við.

Sakaukastefnandi hafi með einföldum hætti getað fengið að vita að tryggjendur samkvæmt tryggingunni væru Liberty (með 50% hluta) og meðlimir Lloyd´s samsteypunnar (þ.e. Novae syndicate) fyrir tímabilið 2008 (með hinn 50% hlutann). Auk þess hafi honum einnig verið í lófa lagið að fá upplýsingar um hvaða einstöku félög voru að baki samsteypunni (m.a. NCUL og SCOR). Megi leiða framangreint af því að UIB Limited, umboðsaðili sakaukastefnanda, vissi allan tímann að tryggjendurnir væru Liberty og meðlimir Novae samsteypunnar fyrir tryggingartímabilið 2008/9, þá einkum og sér í lagi þar sem umboðsaðilinn sjálfur samdi um trygginguna, auk tilkynningar vegna „Project Polo“. Auk þess hefði UIB Limited getað fengið upplýsingar um það, hvaða félög voru að baki samsteypunnar frá Lloyds félaginu, líkt og sakaukastefnandi sótti sjálfur á endanum hinn 18. júlí 2011. Hefði Lloyds félagið veitt slíkar upplýsingar tafarlaust til UIB Nordic, sem hefði getað upplýst stefnanda ef stefnandi hefði bara sóst eftir slíkum upplýsingum frá UIB Nordic.

Þá sé ljóst af bréfi sakaukastefnanda, dagsettu 15. desember 2010, til UIB Nordic, að hann vissi að tryggjendurnir væru Liberty (með 50% hluta) og „Lloyds Underwriters“ (með 50% hluta). Sakaukastefnandi segi ranglega í sakaukastefnu að í bréfinu hefði verið farið fram á að upplýst væri „hverjir Lloyds Underwriters væru“. Skiptastjórinn hafi í bréfinu beint spurningum til miðlara síns um það hvort UIB Nordic gæti tekið við stefnu í málinu og, ef ekki, hvaða einstaklingar það væru sem gætu tekið við stefnu fyrir hönd ofangreindra tryggjenda, sem og hvernig hægt væri að ná sambandi við þá einstaklinga. Þegar lögmenn vátryggjenda skrifuðu sakaukastefnanda bréf með vísan til þessa bréfs frá 19. janúar 2011, hafi þeir útvegað sakaukastefnanda afrit af yfirliti samningsskilmála þar sem auðséð var að Lloyd‘s Underwriters væru meðlimir í Novae samsteypunni fyrir árið 2008. Frá og með 19. janúar 2011 hafi sakaukastefnandi vitað eða mátt vita að Lloyd‘s Underwriters væru meðlimir samsteypunnar. Í raun hefði stefnandi átt að vita þetta, líkt og fram kemur að ofan, mun fyrr en 19. janúar 2011 þar sem stefnandi hefði getað, hvenær sem er frá því að gjaldþrotaúrskurður stefnanda gekk í mars 2009, beðið UIB Nordic að tilgreina hverjir hinir eiginlegu tryggjendur væru. UIB Nordic hefði með auðveldum hætti getað tilgreint þá aðila og látið stefnanda þær upplýsingar í té.

Ljóst sé því að sakaukastefnandi beið þangað til 18. júlí 2011 með að óska formlega eftir upplýsingum frá the Society of Lloyd‘s um það hverjir tryggjendur Novae samsteypunnar væru. Sakaukastefnandi hafi fengið þessar upplýsingar frá Society of Lloyd‘s með bréfi hinn 4. ágúst 2011. Sé ekkert sem réttlæti það, að sakaukastefndu var ekki stefnt samhliða Jóni Ásgeiri í aðalsök. Verði að meta það sakaukastefnanda til augljósrar vanrækslu að hafa ekki leitast við að afla sér upplýsinga um það, hverjir tryggjendurnir væru á þeim tíma sem Jóni Ásgeiri var stefnt í aðalsök, sem verið hafi löngu áður en sakaukastefndu var stefnt með sakaukastefnu. Sakaukastefndu benda jafnframt á að sakaukastefnandi, um eða stuttu eftir 4. ágúst 2011, aflað sér upplýsinga um alla tryggjendur en beið, þrátt fyrir það til 21. nóvember 2011, með að stefna sakaukastefndu til sakauka..

Sakaukastefndu byggja einnig á því, að verði talið að íslenskir dómstólar hafi lögsögu í málinu og skilyrðum sakaukastefnu sé fullnægt sé allsendis óljóst hvort sakaukastefnandi hafi orðið fyrir tjóni eða tapi vegna þeirra aðgerða, sem stefna í málinu byggist á. Því beri að vísa máli þessu frá þar sem málatilbúnaður stefnanda uppfyllir ekki skilyrði e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Sakaukastefndu benda á að sakaukastefnandi hafi höfðað riftunarmál vegna þeirra aðgerða, sem kröfur sakaukastefnanda byggja á. Tíminn muni leiða í ljóst hvort stefnandi fái riftunarkröfur þessar viðurkenndar af dómstólum og þá hvort og hversu mikið fæst endurgreitt af þeim fjármunum, sem sakaukastefnandi telur sig hafa orðið af vegna aðgerða Jóns Ásgeirs. Sakaukastefndu byggja á því að á þessu stigi liggi ekkert fyrir um það hvort tjón hafi orðið af umræddum aðgerðum og því sé algerlega ótímabært að stefna sakaukastefndu til greiðslu úr tryggingunni.

Jafnvel þótt talið yrði að íslenskir dómstólar hefðu lögsögu í málinu, skilyrðum sakaukastefnu væri fullnægt og talið ljóst að sakaukastefnandi hafi orðið fyrir tjóni, byggja sakaukastefndu á því að vísa beri málinu frá þar sem tryggingin lúti enskum lögum, sem leiði til þess að sakaukastefnandi verði fyrst að fá skorið úr um bótaskyldu Jóns Ásgeirs áður en hann getur byggt rétt á 44. gr. laga nr. 30/2004.

Sérstaklega hafi verið samið um það með endorsement 9 að um trygginguna færi samkvæmt enskum lögum. Fyrir tilstilli endorsement 9, sem sérstaklega hafi verið samið um milli UIB Limited fyrir hönd sakaukastefnanda og stjórnenda hans og sakaukastefndu, sé sérstakur samningur milli aðila um að tryggingin skyldi lúta enskum lögum og að deilur skyldu leystar fyrir enskum dómstólum. Um lagavalið fari þannig samkvæmt íslenskum lögum og, þegar við eigi, eftir enskum lögum.

Sakaukastefndu vísa til þess, að í 6. mgr. 145. gr. laga nr. 30/2004 sé tiltekið að þegar áhætta í tryggingum er svokölluð „stóráhætta“, sbr. 8. gr. eldri laga um tryggingastarfsemi nr. 60/1994, geti aðilar að tryggingarsamningi ávallt valið þá löggjöf, sem beita skuli um tryggingarsamninginn, með þeim takmörkunum sem fram koma í 143. grein.

Hugtakið „stóráhætta“ hafi verið skilgreint þannig í 8. grein eldri laga um vátryggingastarfsemi nr. 60/1994, sem í gildi hafi verið þegar tryggingarsamningurinn tók gildi og var endurnýjaður, eins og henni var breytt með lögum nr. 63/1997 sem tóku gildi hinn 14. maí 1997:

„Með stóráhættu er í lögum þessum átt við greinaflokka vátrygginga er tengjast atvinnurekstri og stærri fyrirtækjum sérstaklega. Greinaflokkar skv. 1. mgr. 22. gr. nr. 4, 5, 6, 7, 11, 12, 14 og 15 teljast stóráhætta. Einnig teljast skaðatryggingar stórfyrirtækja í greinaflokkum nr. 3, 8, 9, 10, 13 og 16 til stóráhættu. [Stórfyrirtæki teljast þau fyrirtæki sem uppfylla a.m.k. tvö eftirfarandi skilyrða: að niðurstöðutala efnahagsreiknings nái 6,2 milljónum ecu, að ársvelta nái 12,8 milljónum ecu og að ársverk á reikningsárinu séu a.m.k. 250. Sé fyrirtæki hluti félagasamstæðu skal miða við samstæðuna í heild á grundvelli samstæðureiknings. [Fjármálaeftirlitið]1) getur heimilað að litið sé á starfsgreinasamtök, sameiginleg verkefni eða fyrirtæki sem tímabundið mynda hóp sem eitt fyrirtæki í skilningi þessarar málsgreinar.]2)“

Ákvæði 13. töluliðar 1. mgr. 22. gr. þágildandi laga nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi, hljóði svo: „Almennar ábyrgðartryggingar. Hvers konar ábyrgð önnur en skv. 10., 11. og 12. flokki.“ Í 10, 11 og 12. flokki sé talað um ábyrgðartryggingar ökutækja, skipa og loftfara. Eins og fyrr hafi verið sýnt fram, hafi sakaukastefnandi uppfyllt öll þessi skilyrði. Sakaukastefndu telji því fullvíst að sakaukastefnandi hafi, bæði við gildistöku tryggingar ársins 2007-2008 og ársins 2008-2009, svo og við gildistöku endorsement 9 hinn 1. ágúst 2008, uppfyllt þau skilyrði, sem þágildandi lög um vátryggingastarfsemi nr. 60/1994, með vísan til ákvæða 145. greinar laga nr. 30/2004, settu fyrir því að heimilt væri að velja aðra löggjöf, sem gilti um tryggingarsamninginn, en íslenska löggjöf.

Sakaukastefndu vísa jafnframt til þess, að samkvæmt enskum lögum þurfi sakaukastefnandi að fá dóm á hendur Jóni Ásgeiri áður en til greiðsluskyldu stofnast á hendur sakaukastefndu. Samkvæmt enskum lögum beri sakaukastefndu engin skylda til að halda Jóni Ásgeiri skaðlausum gegn bótaskyldu fyrr en slík bótaskylda hafi verið „held to exist in a specified amount by the judgment of a competent court of the award of an arbitration tribunal or [under]…a compromise or settlement agreement“ á milli Jóns Ásgeirs og sakaukastefnanda. Enn fremur eigi Jón Ásgeir „no cause of action [legal basis for a claim for indemnity under the policy] against the [additional defendants]“. Þetta skipti lykilmáli þar sem málatilbúnaður sakaukastefnanda grundvallist á 44. gr. laga nr. 30/2004. Krafa sakaukastefnanda sé sú, að ef Jón Ásgeir sé bótaskyldur gagnvart honum, verði sakaukastefndu að greiða sakaukastefnanda beint þar sem tryggingin nái yfir bótaskyldu Jóns Ásgeirs. Samkvæmt enskum lögum getur slík krafa ekki náð fram að ganga þar sem bótaskylda Jóns Ásgeirs sé einungis „meint bótaskylda“ þar sem hún hafi ekki verið fastákveðin af dómi. Þar sem sakaukastefnandi hafi ekki aflað sér slíks dóms á hendur Jóni Ásgeiri, verði að vísa málatilbúnaði stefnanda frá dómi.

Sakaukastefndu byggja jafnframt á því að sakaukastefnandi geti ekki, með vísan til þess að 44. gr. laga nr. 30/2004 sé ófrávíkjanleg regla, stefnt sakaukastefndu í sama máli og aðalstefnda í aðalsök. Ákvæði 44. gr. kveði á um ákveðið réttarhagræði fyrir þriðja aðila, sem ekki er aðili að tryggingarsamningi, sem felist í því að slíkur þriðji aðili geti gert kröfur á hendur tryggingafélagi í sama máli og á hendur tjónvaldi. Geti sakaukastefnandi ekki nýtt sér þetta hagræði, enda sé vernd þessi ekki ætluð aðilum að tryggingarsamningi, sem hafi með gildandi hætti samið sig undan beitingu íslenskra laga og aukinheldur sérstaklega samið um lögsögu enskra dómstóla. Því geti stefnandi í öllu falli ekki beitt 44. gr. til að gera kröfur í trygginguna á hendur sakaukastefndu fyrr en skorið hefur verið úr um bótaskyldu Jóns Ásgeirs með dómi, gerðadómi eða bindandi samkomulagi. Samkvæmt enskum lögum gildi tryggingin ekki um bótaskyldu Jóns Ásgeirs fyrr en þá og því verði að vísa máli þessu frá dómi.

Þá telji sakaukastefndu að þótt talið yrði að ákvæði 44. gr. gætu nýst stefnanda að þessu leyti, þurfi stefnandi þó að uppfylla önnur skilyrði lagagreinarinnar til þess að ná kröfum sínum fram í máli þessu.

IV.

Eins og áður er rakið byggja sakaukastefndu frávísunarkröfu sína í fyrsta lagi á því, að sérstaklega hafi verið samið um enska lögsögu samkvæmt ákvæði í tryggingarsamningi aðila og vísa einkum til efnis viðbótar 9, þar sem fram komi samningur aðila, og til ákvæða 3. kafla laga nr. 7/2011, um Lúganósamninginn um dómsvald og um viðurkenningu og fullnustu dóma í einkamálum, þar sem sé að finna heimild til að semja um lögsögu. Sakaukastefnandi mótmælir þessari málsástæðu með þeim rökum í fyrsta lagi að óheimilt hafi verið að semja um lögsögu enskra dómstóla samkvæmt þágildandi 3. kafla laga nr. 68/1995, um Lúganósamninginn. Bendir sakaukastefnandi á að lögin nr. 7/2011 hafi tekið gildi gagnvart Íslandi 1. maí 2011 og gagnvart Bretlandi 1. janúar 2010. Samningsákvæði, sem sé óheimilt samkvæmt þeim lögum sem gilda þegar um það er samið, geti ekki orðið lögmætt vegna ákvæða nýrra laga. Verði því ekki byggt á ákvæðum nýrri laganna nr. 7/2011.

Sakaukastefnandi höfðaði aðalsök í málinu á hendur Jóni Ásgeiri með birtingu stefnu í máli nr. E-627/2011 hinn 15. desember 2010. Sakaukastefna máls þessa var hins vegar gefin út 21. nóvember 2011 og birt 8. desember sama ár. Ljóst er að nýjum eða yngri lögum verður ekki beitt um lögskipti, sem lokið er, eða atvik, sem gerst hafa áður en lögin gengu í gildi. Hins vegar hefur verið litið svo á að löggjöf á sviði réttarfars verður almennt beitt eftir að þau öðlast gildi þótt um sé að ræða réttarstöðu sem á rót í eldri lögum og jafnvel þótt nýju réttarfarsákvæðin kunni að íþyngja mönnum. Eins og að framan greinir var sakaukastefna í máli þessu gefin út í nóvember 2001 og birt í desember sama ár. Að þessu virtu verður að fallast á það með sakaukastefndu að við mat á því, hvort málsaðilar hafi í vátryggingarsamningi sín á milli mátt semja um lögsögu, kæmi til ágreinings vegna samningsins, sé rétt að líta til ákvæða laga nr. 7/2011 sem tóku gildi áður en mál þetta var höfðað.

Í 44. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, er að finna ákvæði um stöðu tjónþola við ábyrgðartryggingu. Þar segir í 5. mgr. að mál á hendur félaginu skuli höfða á Íslandi ef annað leiði ekki af þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands. Samkvæmt 9. gr. laga nr. 7/2011, um Lúganósamninginn, má lögsækja vátryggjanda fyrir dómstólum í því ríki þar sem hann á heimili eða í öðru ríki, sem er bundið af þessum samningi, í þeim tilvikum þegar mál er höfðað af vátryggingartaka, vátryggðum eða öðrum rétthafa, fyrir dómsóli þess staðar þar sem stefnandi á heimili, eða sé hann samvátryggjandi, fyrir dómstóli í ríki, sem er bundið af þessum samningi, þar sem mál er höfðað gegn vátryggjanda. Ákvæðin eru bindandi en samkvæmt 13. gr. má aðeins víkja frá þeim með samningi ef uppfyllt eru tilgreind skilyrði. Í 5. tölulið lagagreinarinnar kemur fram að aðilar geti samið sig undan ákvæðunum, ef samningurinn varðar vátryggingarsamning, sem tekur til eins eða fleiri áhættuflokka sem nefndir eru í 14. gr. Í síðarnefndri lagagrein eru raktir ýmsir áhættuflokkar en í 5. tölulið til vísað til áhættuflokks er varðar mikla áhættu hvers konar, „þrátt fyrir 1.-4. tölul.“, eins og þar segir orðrétt. Þegar litið er til gagna málsins um stærð og veltu tryggingartakans, Baugs Group, og jafnframt með hliðsjón af tryggingarfjárhæð þess vátryggingarsamnings aðila, sem mál þetta snýst um, verður að fallast á það með sakaukastefndu að umræddur vátryggingarsamningur taki til mikillar áhættu í skilningi 5. töluliðar 14. gr. laga nr. 7/2011. Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða dómsins að aðilum hafi verið heimilt að semja um lögsögu í málum sem rísa kynnu vegna umrædds samnings þeirra.       

Kemur þá næst til skoðunar hvort aðilar hafi samið um lögsögu í þeim vátryggingarsamningi, sem mál þetta snýst um. Af hálfu sakaukastefnanda er byggt á því að slíkur samningur hafi ekki komist á milli aðila. Vísar hann til þess að milli framlagðra gagna, sem byggt sé á í málinu að myndi vátryggingarsamning aðila, sé mikið innra ósamræmi og sé hvergi tekið fram í skjölunum hvor ákvæðin gangi framar öðrum.

Ljóst er að ýmis gögn hafi verið lögð fram sem lúta að tryggingarskilmálum vegna stjórnendatryggingar Baugs Group, sem virðast ekki öll hafa að geyma sömu ákvæði um lögsögu í deilumálum samningsaðila. Hins vegar er í svonefndu „Evidence of Cover“ vegna stjórnendatryggingar fyrir tímabilið 1. ágúst 2008 til 1. ágúst 2009, sem sakaukastefnandi lagði sjálfur fram og byggir á, mælt fyrir um að mál vegna samningsins skuli rekin fyrir dómstólum í Englandi og Wales. Þá er í svonefndri viðbót við samninginn, á dómskjali nr. 21, að finna viðbót 9 þar sem segir í íslenskri þýðingu löggilts skjalaþýðanda: „Hér með er tekið fram og samþykkt að þessi trygging skal heyra undir lögsögu og lagatúlkun samkvæmt lögum Englands og Wales og hver aðili samþykkir að gangast undir lögsögu dómstóla Englands og Wales.“ Að þessu virtu verður að fallast á það með sakaukastefndu að um það hafi verið samið milli aðila að ágreiningur vegna umrædds vátryggingarsamnings heyrði undir breska lögsögu, svo sem þeim var heimilt eins og áður er rakið. Með vísan til þess, sem rakið er hér að framan um efni lögsöguákvæðis svonefnds „Evidence of Cover“, sem virðist stafa frá vátryggjendum og stílað er á Baug Group og sakaukastefnandi byggir mál sitt á, verður ekki talin tæk sú málsástæða sakaukastefnanda að UIB Nordic AB hafi hvorki verið umboðsmaður Baugs Group hf. né samið fyrir þess hönd. Með sömu rökum verður heldur ekki fallist á að ákvæði 3. mgr. 18. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, hafi áhrif á niðurstöðu málsins að þessu leyti. Af hálfu sakaukastefnanda hafa ekki verið færð rök fyrir því að önnur ákvæði laga nr. 30/2004 standi í vegi fyrir því að óheimilt sé að líta til samnings aðila um lögsögu og hefur sakaukastefnandi ekki fært rök fyrir því að sá samningur hafi leitt til lakari stöðu hans.  Að öllu framangreindu virtu verður að fallast á kröfu sakaukastefndu um frávísun málsins frá dómi þegar af þeirri ástæðu að málsaðilar höfðu samið um lögsögu breskra dómstóla kæmi til ágreinings vegna umrædds vátryggingarsamnings.

Eftir niðurstöðu málsins og með vísan til ákvæða 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður sakaukastefnanda gert að greiða sakaukastefndu hverjum fyrir sig 350.000 krónur í málskostnað.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Máli þessu er vísað frá dómi.

Sakaukastefnandi, þrotabú Baugs Group hf., greiði sakaukastefnda, Liberty Mutual Insurance Europe Ltd., 350.000 krónur í málskostnað.

Sakaukastefnandi, þrotabú Baugs Group hf., greiði sakaukastefnda, Novae Corp Underwriting Ltd., 350.000 krónur í málskostnað.

Sakaukastefnandi, þrotabú Baugs Group hf., greiði sakaukastefnda, Scor Underwriting Ltd., 350.000 krónur í málskostnað.