Hæstiréttur íslands
Mál nr. 348/2004
Lykilorð
- Sjúkrahús
- Læknir
- Skaðabætur
- Örorka
- Læknaráð
|
|
Mánudaginn 21. mars 2005. |
|
Nr. 348/2004. |
Íslenska ríkið(Skarphéðinn Þórisson hrl. Sigurður B. Halldórsson hdl.) gegn Baldri Ólafssyni (Dögg Pálsdóttir hrl.) og Baldur Ólafsson gegn íslenska ríkinu og Læknisfræðilegri myndgreiningu ehf. (Gestur Jónsson hrl. Gísli Guðni Hall hdl.) |
Sjúkrahús. Læknar. Skaðabætur. Örorka. Læknaráð.
Íslenska ríkið bar ábyrgð á mistökum sem talið var að hafi átt sér stað við meðferð B á Sjúkrahúsi Akraness og síðar eftirliti með honum þar. Mistökin voru talin hafa leitt til þess að beinsýking greindist svo seint að hálsliður B var eyddur og ekki annað unnt en að spengja háls og höfuð B með þeim afleiðingum að hann hlaut varanlega örorku. Gat álitsgerð læknaráðs engu breytt um úrlausn málsins. L ehf. sem annaðist tilteknar rannsóknir á B, var ekki talið bera ábyrgð á tjóni hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. ágúst 2004 og krefst þess að hann verði sýknaður af kröfu gagnáfrýjanda og sér dæmdur málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 17. desember 2004. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjandi og gagnstefndi Læknisfræðileg myndgreining ehf. verði in solidum dæmdir til að greiða sér 6.992.307 krónur með vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 27. október 1997 til 30. apríl 2000 og með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt III. og V. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, svo og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst gagnáfrýjandi þess að aðaláfrýjandi greiði sér sömu fjárhæð og í aðalkröfu greinir, svo og málskostnað á báðum dómstigum, en málskostnaður milli hans og gagnstefnda falli þá niður. Til þrautavara krefst hann staðfestingar hins áfrýjaða dóms um annað en skyldu sína til að greiða gagnstefnda málskostnað. Í því tilviki krefst hann þess að málskostnaður falli niður milli sín og gagnstefnda á báðum dómstigum, en að aðaláfrýjandi greiði sér málskostnað fyrir Hæstarétti.
Gagnstefndi Læknisfræðileg myndgreining ehf. krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Svo sem í héraðsdómi greinir telur gagnáfrýjandi að bótaskyld mistök hafi verið gerð hjá gagnstefnda og af starfsmönnum Landspítala háskólasjúkrahúss og Sjúkrahúss Akraness við sjúkdómsgreiningu, í læknismeðferð og við eftirlit og eftirmeðferð vegna veikinda hans, sem hófust í lok október 1997 og leiddu til þess að gerð var á honum hálsspenging 23. janúar 1998. Málavextir eru raktir í hinum áfrýjaða dómi og eru þeir óumdeildir.
Í niðurstöðu héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, var í fyrsta lagi komist að þeirri niðurstöðu að gagnstefndi hafi ekki gert mistök, sem leitt gætu til skaðabótaskyldu hans. Var hann því sýknaður af kröfu gagnáfrýjanda, sem leitast við að fá þeirri niðurstöðu breytt. Í öðru lagi rakti héraðsdómur ýtarlega læknismeðferð á gagnáfrýjanda eins og henni er lýst í gögnum málsins og komst að þeirri niðurstöðu að ekkert hafi verið athugavert við greiningu og meðferð hans er hann lá á Sjúkrahúsi Akraness frá 27. til 30. október 1997 og á Landspítala háskólasjúkrahúsi frá síðastnefndum degi til 12. nóvember sama ár. Hins vegar voru gerðar athugasemdir við meðferð gagnáfrýjanda er hann lá á Sjúkrahúsi Akraness frá 12. til 25. nóvember 1997 og eftirlit með honum eftir að hann útskrifaðist þann dag uns hann lagðist þar inn að nýju 28. desember sama ár. Var í héraðsdómi komist að þeirri niðurstöðu að læknar, sem þá komu að meðferð gagnáfrýjanda og eftirliti, hafi sýnt af sér gáleysi, sem leitt hafi til þess að beinsýking greindist ekki fyrr en svo seint að hálsliður var eyddur og ekkert annað unnt að gera en að spengja háls hans og höfuð með þeirri örorku, sem af hlaust. Aftur á móti þóttu ekki næg efni til að fella ábyrgð á lækna Landspítala háskólasjúkrahúss vegna þáttar þeirra í meðferð gagnáfrýjanda og eftirliti með honum. Aðaláfrýjandi og gagnáfrýjandi sætta sig hvorugur við þessa niðurstöðu og leitast við að fá henni breytt.
Með úrskurði 4. febrúar 2003 leitaði héraðsdómur umsagnar læknaráðs um nánar tiltekin atriði málsins. Í áliti læknaráðs 13. maí sama ár var komist að þeirri niðurstöðu að vísbendingar um beinsýkingu, sem komu fram í svokölluðu beinaskanni 30. desember 1997, hefðu átt að kalla á þau viðbrögð að frekari myndgreining yrði strax gerð á hálsi gagnáfrýjanda. Slík rannsókn hafi ekki verið gerð fyrr en 12. janúar 1998. Á hinn bóginn hafi gagnáfrýjandi fengið sýklalyfjameðferð frá 28. desember 1997 og hafi hún átt jafnt við beinsýkingu og blóðsýkingu, sem þá hafi verið talið að hrjáði hann. Því var og lýst að læknismeðferð gagnáfrýjanda teldist vera í samræmi við fyrirliggjandi greiningar og voru ekki að öðru leyti gerðar athugasemdir við eftirlit og eftirmeðferð hans. Í forsendum héraðsdóms er ekki sérstaklega vikið að þessari álitsgerð, en eins og röksemdafærslu fyrir niðurstöðu hennar er hagað getur hún engu breytt við úrlausn málsins.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sýknu gagnstefnda af kröfu gagnáfrýjanda.
Í forsendum héraðsdóms er með ýtarlegum læknisfræðilegum rökstuðningi komist að þeirri niðurstöðu að mistök hafi átt sér stað fyrir gáleysi lækna þeirra, sem komu að meðferð gagnáfrýjanda á Sjúkrahúsi Akraness og síðar eftirliti með honum þar. Aðaláfrýjandi hefur ekki aflað neinna sönnunargagna til að hnekkja þeirri niðurstöðu. Með því að leggja verður af þessum sökum niðurstöðu héraðsdóms til grundvallar um að mistök þessi hafi verið gerð, hvílir á aðaláfrýjanda að sýna fram á að ekki séu orsakatengsl milli þeirra og tjóns gagnáfrýjanda. Það hefur aðaláfrýjanda ekki tekist og verður því bótaábyrgð felld á hann vegna þess tjóns, sem gagnáfrýjandi varð fyrir, en um fjárhæð þess er ekki deilt fyrir Hæstarétti. Gagnáfrýjanda er ekki þörf á að fá frekari viðurkenningu á ábyrgð aðaláfrýjanda á tjóni sínu og eru því ekki efni til að fjalla nánar um þátt starfsmanna Landspítala háskólasjúkrahúss í meðferð hans. Samkvæmt þessu verður niðurstaða héraðsdóms um skaðabótaskyldu aðaláfrýjanda við gagnáfrýjanda staðfest á þann hátt, sem í dómsorði segir.
Eftir þessum úrslitum verður gagnáfrýjanda gert að greiða gagnstefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Einnig verður aðaláfrýjanda gert að greiða gagnáfrýjanda málskostnað á báðum dómstigum, allt eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Gagnstefndi, Læknisfræðileg myndgreining ehf., er sýkn af kröfu gagnáfrýjanda, Baldurs Ólafssonar.
Aðaláfrýjandi, íslenska ríkið, greiði gagnáfrýjanda 6.992.307 krónur með 2% ársvöxtum frá 27. október 1997 til 30. apríl 2000, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 og samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Gagnáfrýjandi greiði gagnstefnda samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. maí 2004.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 20. apríl sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Baldri Ólafssyni, [...], á hendur Læknisfræðilegri myndgreiningu ehf., kt. 601092-2129, og heilbrigðis- og trygginga-málaráðherra, f.h. Landspítala, háskólasjúkrahúss, kt. 500300-2130, og Sjúkrahúss Akraness (nú Heilbrigðisstofnunar Akraness), kt. 580269-1929, með stefnu birtri 15. maí 2002.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefnanda 9.036.307 kr. með vöxtum samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993 frá 27. október 1997 til 30. apríl 2000, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 til 1. júlí 2001 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. og V. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. júlí 2001 til greiðsludags.
Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu að viðbættum 24,5% virðisaukaskatti.
Dómkröfur stefnda íslenska ríkisins vegna heilbrigðis- og trygginga-málaráðherra, f.h. Landspítala, háskólasjúkrahúss og Sjúkrahúss Akraness, eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda íslenska ríkinu málskostnað samkvæmt mati réttarins. Til vara krefst stefndi lækkunar á dómkröfum stefnanda en í því tilfelli verði málskostnaður látinn niður falla.
Dómkröfur stefnda Læknisfræðilegrar myndgreiningar ehf. eru þær að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda. Til vara er þess krafist að stefnukröfur verði lækkaðar. Í báðum tilvikum er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins, þ.m.t. kostnað af virðisaukaskatti á lögmannsþjónustu.
Málsatvik
Föstudaginn 24. október 1997 var stefnandi ásamt konu sinni á ferð úti á landi á leið til Egilsstaða. Þegar leið á ferðina fór stefnanda að líða illa, fékk köldu og fann að hann var kominn með hita. Stefnandi taldi um flensu að ræða og hélt ferðinni áfram. Er stefnandi kom til Egilsstaða reyndist hann með 39ºC hita. Stefnandi var einnig með verki í baki, en þá verki hafði hann verið með um nokkurn tíma. Hann hafði leitað til lækna út af þessum verkjum og fengið við þeim sprautur. Frá því að stefnandi var skorinn upp við brjósklosi 1966, 1968, 1973 og 1975 hefur hann átt vanda til að fá verki í bak, einkum í mjóhrygg.
Stefnandi leitaði læknis á Egilsstöðum, sem einnig sprautaði hann í bakið eftir að stefnandi hafði sagt honum sjúkrasögu sína. Stefnandi taldi hins vegar ljóst að hitinn var ekki vegna bakverkjanna.
Aðfaranótt 27. október, en þá var stefnandi kominn heim til Akraness, var hann lagður inn á Sjúkrahús Akraness (SA) með háan hita og verki aðfaranótt 27. október 1997. Reyndist hann vera með sýkingu af völdum Staphylococcus aureus (klasasýklar) og var strax hafin sýklalyfjameðferð. Segulómun af hálsi, sem gerð var á Landspítala, háskólasjúkrahúsi (LSH) 29. október 1997, sýndi abscess (graftarkýli) í vöðva aftanvert á hálsi og var því stefnandi lagður inn á LSH 30. október til frekari meðferðar. Beinaskann 30. október 1997 sýndi ekki merki um osteomyelitis (beinsýkingu). Sýklalyfjameðferð var haldið áfram á LSH og 5. nóvember 1997 voru tæmd út graftarkýli á útlimum. Stefnandi fékk nýrnabólgu af sýklalyfinu (Ekvacillin) og var því settur á annað lyf (Velosef). Hinn 10. nóvember 1997 var gerð ástunga á hálsi og tæmdur út gröftur. Hinn 12. nóvember 1997 var stefnandi útskrifaður af LSH yfir til SA og var sýklalyfjameðferð haldið þar áfram til 25. nóvember 1997. Þá útskrifaðist stefnandi af SA og sýklalyfjameðferð var hætt eftir alls 30 daga meðferð, eða sem svarar 4 vikum og 2 dögum. Hann kom áfram í umbúðaskiptingar á sárum á göngudeild SA. Ekki liggja fyrir upplýsingar um neitt skipulagt lækniseftirlit eftir útskrift stefnanda af SA. Stefnandi heldur því fram að hann hafi haft verki allan tímann og þeir farið versnandi. Hann segist hafa þrábeðið lækna á SA um frekari rannsókn vegna verkjanna og nánast þurft að heimta slíka rannsókn. Fram kemur að hann var með hækkandi hvít blóðkorn á þessu tímabili eða 9. desember og 15. desember 1997. Segulómun af hálsi var því gerð á LSH 16. desember 1997 á vegum Sigurðar B. Þorsteinssonar, smitsjúkdómasérfræðings á LSH, og var niðurstaða hennar túlkuð þannig að graftarkýlið væri horfið og ekki sæjust nein merki um beinsýkingu og því ekki þörf frekari sýklalyfjameðferðar. Stefnandi var síðan aftur lagður inn á SA 28. desember 1997 með sýkingareinkenni. Var hann þá aftur kominn með sýkingu af völdum Staphylococcus aureus. Sýklalyfjameðferð var hafin að nýju. Daginn eftir var gert beinaskann á LSH, aftur í samráði við Sigurð B. Þorsteinsson, sem sýndi aukna upphleðslu í mjúkvefja- og beinafasa. Það gaf til kynna að til staðar væri sýking bæði í mjúkvefjum og beini. Aftur voru tæmd graftarkýli á útlimum og nú einnig í öxl. Hinn 12. janúar 1998 var tekin röntgenmynd af hálsliðum er sýndi niðurbrot og eyðingu að hluta á C-1 (fyrsta hálslið). Stefnandi var því aftur lagður inn á LSH hinn 14. janúar 1998 og tölvusneiðmynd af hálsi hinn 16. janúar 1998 sýndi niðurbrot og eyðingu á C-1 (dens, fyrsta hálslið). Hinn 23. janúar 1998 var gerð spenging á hálsliðum á bæklunardeild LSH og stefnandi var aftur fluttur á SA hinn 28. janúar 1998. Sýklalyfjameðferð var síðan haldið áfram í alllangan tíma þar á eftir.
Embætti landlæknis kannaði mál stefnanda og komst að þeirri niðurstöðu að hæpið hefði verið að hætta sýklagjöf eins og gert var 16. desember 1997 með hliðsjón af endurskoðaðri segulómun frá þeim degi. Jafnframt taldi embættið að ekki hefði að öllu leyti verið staðið tilhlýðilega að greiningu þá.
Stefnandi fól lögmanni að kanna hvort hann ætti rétt á skaðabótum vegna mistaka við greiningu, í læknismeðferð og við eftirlit og eftirmeðferð.
Sigurði B. Þorsteinssyni lækni var ritað bréf dags. 11. nóvember 1998 vegna málsins. Í svari Sigurðar kemur fram að talsverður grunur var um beinsýkingu hjá stefnanda þótt röntgenrannsóknir hafi ekki sýnt nein slík merki. Því hafi meðferð á stefnanda beinst að því að meðhöndla greinda blóðsýkingu en ekki sýkingu í beini. Jafnframt telur læknirinn að ef greiningin beinsýking hefði legið fyrir hefði sýklalyfjameðferð stefnanda án efa orðið lengri en hún var þótt hann treysti sér ekki til að fullyrða að lengri meðferð hefði breytt einhverju um sjúkdómsgang stefnanda.
Með bréfi dags. 24. júní 1999 hafnaði stefndi Læknisfræðileg myndgreining ehf. því að hugsanlega ranga meðferð við sýkingu stefnanda megi rekja til mistaka fyrirtækisins við greiningu á segulómun hinn 16. desember 1997.
Gert var örorkumat á stefnanda 12. febrúar 2000 af Magnúsi Guðmundssyni dr. med. Niðurstaða matsins var sú að varanlegur miski stefnanda væri 35%, vegna spengingar 25% og vegna slappleika í vörum 10%. Varanleg örorka stefnanda var metin 40%.
Embætti ríkislögmanns var ritað bréf dags. 31. mars 2000 þar sem gerð var krafa um bætur f.h. stefnanda vegna mistaka við læknismeðferð hjá stefnda Landspítala, háskólasjúkrahúsi og stefnda, Sjúkrahúsi Akraness.
Með bréfi dags. 11. maí 2001 hafnaði ríkislögmaður bótaskyldu ríkisins vegna stefndu Landspítala háskólasjúkrahúss og Sjúkrahúss Akraness. Niðurstöðuna byggði ríkislögmaður m.a. á áliti landlæknis frá 15. mars 2001.
Þar sem stefnandi telur að bótaskyld mistök hafi orðið hjá stefndu við greiningu, í læknismeðferð og við eftirlit og eftirmeðferð vegna veikinda hans, sem hófust í lok október 1997 og lauk með því að hann þurfti að fara í hálsspengingu 23. janúar 1998, er mál þetta höfðað.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir bótakröfu sína á hendur stefndu á því að orðið hafi skaðabótaskyld mistök við greiningu, í læknismeðferð og við eftirlit og eftirmeðferð vegna veikinda hans. Veikindin hófust í lok október 1997 og lauk með því að 30. desember 1997 kom í ljós beinsýking og um miðjan janúar 1998 reyndist standliður stefnanda ónýtur vegna hennar. Hann þurfti í kjölfarið að gangast undir hálsspengingu. Stefnandi telur orsök hálsspengingarinnar og þeirrar örorku sem hann fékk vegna hennar mega rekja til gáleysis starfsmanna stefndu.
Stefnandi byggir á því að stefndu, Læknisfræðileg myndgreining ehf., Landspítalinn, háskólasjúkrahús og Sjúkrahús Akraness, beri ábyrgð á skaðaverkum sem starfsmenn þeirra unnu við greiningu, meðferð, eftirlit og eftirlitsmeðferð stefnanda á grundvelli reglna um húsbóndaábyrgð. Stefnandi telur starfsmenn allra þessara aðila hafa sýnt af sér gáleysi sem urðu þess valdandi að gangur veikinda hans varð með þeim hætti sem raun ber vitni og leiddi til þess skaða sem hann varð fyrir. Ómögulegt sé að segja til um hvort einn aðili beri meiri ábyrgð en annar þar sem það tjón sem stefnandi varð fyrir megi rekja til afleiðinga raða saknæmra mistaka þessara starfsmanna. Því er á því byggt að stefndu, Læknisfræðileg myndgreining ehf., Landspítalinn, háskólasjúkrahús og Sjúkrahús Akraness beri solidariska ábyrgð á tjóni stefnanda nema stefndu, einn eða fleiri, sanni með ótvíræðum, skjalfestum hætti að viðkomandi beri ekki ábyrgð á tjóni stefnanda.
Fræðiritum beri saman um það að greining á beinsýkingu geti verið mjög erfið. Vísbendingar um sjúkdóminn séu stundum takmarkaðar við bólgu á nærliggjandi svæði, hita, staðbundna beinverki og hækkun hvítra blóðkorna. Hvít blóðkorn séu þó ekki alltaf hækkuð en sökk og C-Reactive protein (CRP) sé það venjulega. Talið sé að mæling á CRP gefi betri vísbendingu um sýkingu en mæling á sökki. Röntgenmyndir geti verið eðlilegar uns beineyðing hefjist. Beinaskönnun geti sýnt beinsýkingu en hún greini oft ekki á milli beinsýkingarinnar og sýkingar í mjúkvefjum á nærliggjandi svæðum. Afdráttarlaus greining kalli á ræktun úr beinasýni. Meðferð við beinsýkingu sé sýklalyfjagjöf og opnun sýkinga í mjúkvef. Fræðiritum beri saman um að því fyrr sem beinsýking sé greind þeim mun meiri líkur séu á því að hana takist að lækna.
Bótakröfu á hendur stefnda Læknisfræðilegri myndgreiningu ehf. byggir stefnandi á því að starfsmenn hans, læknarnir Einar Steingrímsson og Jörgen Albrechtsen, hafi sýnt af sér gáleysi við úrlestur segulómunar sem gerð var annars vegar 29. október 1997 og hins vegar 16. desember 1997.
Í svari vegna rannsóknar 29. október 1997 segir Einar Steingrímsson læknir að beinsýking sé mjög ólíkleg. Þá fullyrðingu telur stefnandi mjög óvarlega í ljósi viðurkenndrar þekkingar á gangi beinsýkingar. Rannsóknin hafi heldur ekki gefið tilefni til þessarar fullyrðingar. Þvert á móti sýni rannsóknin að ígerð sé í yfirborði sem gangi inn að standlið. Rannsóknin hafi þannig borið með sér vísbendingar um beinsýkingu í hálsi. Afdráttarlaus fullyrðing í svarinu hafi orðið til þess að læknar stefnda, Landspítala, háskólasjúkrahúss, hafi ekki verið eins á verði gagnvart beinsýkingu, eins og stefnandi telur að þeir hefðu átt að vera.
Í svari vegna rannsóknar 16. desember 1997 hafi Jörgen Albrechtsen lækni, yfirsést greinilega bólga við standlið sem benti til ígerðar. Stefnandi telur þannig að ógætilegar fullyrðingar starfsmanna stefnda, Læknisfræðilegrar myndgreiningar ehf. við úrlestur rannsóknar hinn 29. október 1997 og mistök starfsmanns hans við úrlestur rannsóknar hinn 16. desember 1997 hafi haft afdrifaríkar afleiðingar varðandi þá meðferð sem starfsmenn stefnda Landspítala, háskólasjúkrahúss töldu hann þurfa.
Bótakröfu á hendur stefnda Landspítala, háskólasjúkrahúsi byggir stefnandi á því að læknar sem komu að meðferð og síðar eftirliti stefnanda hafi sýnt af sér gáleysi sem varð til þess að beinsýking sú sem hann var með greindist ekki fyrr en svo seint að standliður hans var eyddur og ekkert annað hægt að gera en framkvæma á honum hálsspengingu, með þeirri örorku sem það hefur valdið stefnanda.
Stefnandi var lagður inn hjá stefnda Landspítala, háskólasjúkrahúsi vegna grunsemda um að stefnandi væri með beinsýkingu. Allar klínískar vísbendingar hafi bent til þess að stefnandi væri með beinsýkingu. Stefnandi hafi verið sýktur af einni þeirra baktería er valda beinsýkingu, þ.e. S. aureus. Stefnandi hafi kvartað stöðugt um verki í hálsi og þar var hann með bólgu í mjúkvef. Blóðrannsókn sem gerð var við innlögn hjá stefnda Landspítala, háskólasjúkrahúsi, 30. október 1997, sýndi að hvít blóðkorn voru talsvert hækkuð, sem og neutrófílar og CRP. Öll þessi gildi séu vísbendingar um sýkingu. Yfirlit um blóðrannsóknir sem gerðar voru á stefnanda beri ekki með sér að CRP gildi hans hafi verið mælt aftur eftir 30. október 1997, sem verði að teljast gáleysi í ljósi þeirrar vísbendingar sem í því gildi felst varðandi beinsýkingu. Við útskrift höfðu hvít blóðkorn lækkað en neutrófílar voru enn talsvert hækkaðir. Ýmis gildi í blóðrannsóknum bentu þannig til að stefnandi hafi enn verið með virka sýkingu þegar hann útskrifaðist 12. nóvember 1997.
Aðrar rannsóknir sem gerðar voru hjá stefnda Landspítala, háskólasjúkrahúsi hafi og verið handahófskenndar að mati stefnanda, og ekki í samræmi við þekkta vitneskju um gang sjúkdómsins og greiningaraðferðir. Hinn 31. október 1997 hafi verið gerð þriggja fasa beinaskönnun sem sýni greinilega bólgu í mjúkvef í hálsi. Fullyrt sé í niðurstöðu að ekki séu merki um beinsýkingu sem sé óvarkár fullyrðing í ljósi vitneskju um það hvenær beinsýking komi fram við beinaskönnun. Hinn 3. nóvember 1997 hafi verið gerð segulómun af hálshrygg en niðurstaða úr henni sé svo óljóst orðuð að erfitt sé að vita hvert svarið raunverulega sé. Þar segir í öðru orðinu að ekki séu merki um beinsýkingu í diskum eða liðbolum en í hinu segir að það gæti verið aukið segulskin í beini aðlægt facettuliðum vinstra megin. Aftur sjáist greinileg merki um bólgu um mjúkvef í hálsi. Gögn í sjúkraskrá beri þess ekki merki að röntgenmynd eða segulómun hafi verið tekin á ný. Hins vegar var tekin sneiðmynd af hálsi stefnanda 10. nóvember 1997 en þar sé í engu vikið að ástandi hálsliða hans.
Stefnandi telur því að það hafi verið gáleysi hjá læknum stefnda Landspítala, háskólasjúkrahúss að fylgjast ekki betur með ástandi hans í ljósi grunsemda um beinsýkingu og í ljósi þeirra sterku klínísku vísbendinga um að hann væri með beinsýkingu. Stefnandi telur að hér hafi meðferð hans verið verulega ábótavant. Rannsóknir sem gerðar voru hafi aldrei útilokað með vissu beinsýkingu en meðferð hans og eftirlitið með honum hafi verið í samræmi við að beinsýking hefði verið útilokuð. Þá hafi ekki verið talin ástæða til að hreinsa sýkingu á hálsi með sama hætti og gert hafi verið við sýkingar á öðrum stöðum. Þá telur stefnandi að beita hefði átt sérstakri aðgæslu í ljósi sögu hans um áfengisneyslu þar sem vitað sé að slík saga geti haft áhrif á sýkingar og kvartanir.
Þá telur stefnandi að ógætilega hafi verið staðið að útskrift hans frá stefnda Landspítala, háskólasjúkrahúsi 12. nóvember 1997. Læknabréf vegna dvalarinnar sé sent heilsugæslulækni stefnanda 5. janúar 1998, tæpum tveimur mánuðum eftir að stefnandi var útskrifaður. Þar komi fram að læknirinn ætli að vera í sambandi við yfirlækni stefnda Sjúkrahúss Akraness sem muni bera ábyrgð á framhaldsmeðferð og eftirliti. Stefnandi telur greinilegt að þarna hafi orðið óljós skil milli þess hver hafi borið ábyrgð á áframhaldandi meðferð, eftirmeðferð og eftirliti hans. Læknir stefnda Landspítala, háskólasjúkrahúss hafi talið ábyrgðina komna yfir til stefnda, Sjúkrahúss Akraness. Stefnandi telur að uppi hafi verið óvissa um hver fylgdist með eftirmeðferð hans og eftirliti vegna sjúkdómsins og það hafi orðið til þess að hvorugur aðilinn hafi í raun fylgst með honum með þeim hætti sem eðlilegt og tilhlýðilegt hefði verið miðað við alvarleika sjúkdómsins.
Í ljósi alvarleika sjúkdómsferils stefnanda hafi verið sérstaklega rík ástæða fyrir lækna stefnda Landspítala, háskólasjúkrahúss að ganga skýrt frá því við lækna stefnda Sjúkrahúss Akraness hvernig haga skyldi áframhaldandi meðferð, eftirmeðferð og eftirliti þannig að engin óvissa ríkti um það atriði.
Loks telur stefnandi að læknir stefnda Landspítala, háskólasjúkrahúss hafi, í ljósi gangs sjúkdóms hans, sýnt af sér gáleysi þegar hann taldi ekki ástæðu til frekari meðferðar eða eftirlits með stefnanda eftir rannsóknina 16. desember 1997 og sinnti í engu alvarlegum kvörtunum stefnanda um viðvarandi verk í hálsi. Stefnandi telur að kvörtun hans um hálsverki hefði átt að gefa lækni stefnda Landspítala, háskólasjúkrahúss, m það að hann þyrfti að skoða nánar, ekki síst í ljósi þess að beinsýking hafði aldrei verið útilokuð. Með því að sinna í engu þessu kvörtunum stefnanda hafi dregist á langinn að beinsýking hans uppgötvaðist með þeim afleiðingum fyrir stefnanda sem áður hafa verið raktar.
Bótakröfu á hendur stefnda Sjúkrahúss Akraness byggir stefnandi á því að læknar sem þessi stefndi beri húsbóndaábyrgð á, sem hafi komið að meðferð og síðar eftirliti stefnanda hafi sýnt af sér gáleysi sem varð til þess að dregist hafi óhóflega að brugðist væri við kvörtunum hans bæði áður en hann útskrifaðist 25. nóvember 1997 og eins viðvarandi kvörtunum hans eftir þá útskrift og þar til hann var lagður inn á ný 28. desember 1997. Gáleysi þetta hafi leitt til þess að beinsýking sú sem hann var með hafi ekki greinst fyrr en svo seint að standliður hans var eyddur og ekkert annað hægt að gera en framkvæma á honum hálsspengingu, með þeirri örorku sem það hafi valdið stefnanda.
Gögn úr sjúkraskrá stefnanda frá þessari legu sýna að við blóðrannsóknir hafi ekki verið mæld þau gildi sem gefa vísbendingu um hvort sýking sé ennþá í gangi. Þannig hafi aldrei frá 12. 25. nóvember verið mælt sökk eða CRP, eins og eðlilegt hefði verið. Á þessu tímabili hafi aldrei verið teknar röntgenmyndir eða aðrar rannsóknir gerðar til að kanna stöðu mála. Stefnandi hafi verið útskrifaður 25. nóvember 1997 án þess að viðhlítandi rannsóknir væru gerðar til að kanna hvert raunverulegt ástand hans var. Hann hafi kvartað um verki í hálsi sem ákveðið hafi verið, án skoðunar, að væri vöðvabólga. Blóðrannsóknir sem stefnandi var sendur í 9. og 15. desember hafi hvorki mælt sökk né CRP. Í bæði skiptin hafi komið í ljós að hvít blóðkorn voru að hækka, en þeirri vísbendingu um að sýking væri enn í gangi hafi í engu verið sinnt. Þá hafi læknar stefnda, Sjúkrahúss Akraness í engu sinnt margítrekuðum kvörtunum stefnanda í desember 1997 um mikla verki í hálsi, heldur gefið honum eingöngu verkjalyf. Í ljósi alvarlegs sjúkdómsferils stefnanda hefðu viðvarandi kvartanir stefnanda átt að vekja uppi grunsemdir hjá þessum læknum um það að sjúkdómsferlinu væri ekki lokið, eins og talið hafði verið. Sömuleiðis hefði hækkun hvítra blóðkorna átt að vekja sömu grunsemdir.
Þá telur stefnandi að viðbrögð lækna stefnda Sjúkrahúss Akraness hafi verið gáleysisleg þegar hann var lagður inn á ný 28. desember 1997. Sjúkraskrá beri þess merki að margítrekaðar kvartanir hans um viðvarandi verki í hálsi hafi verið teknar léttilega og jafnvel látið að því liggja að stefnandi væri að kvarta til að fá sterk verkjalyf og að hann væri orðin sólginn í þau. Verkjalyf sem stefnandi hafi fengið á þessu tímabili hafi verið þau sem sömu læknar gáfu honum vegna kvartananna. Úrlestur röntgenrannsóknar sem gerð var 30. desember 1997 hafi bent til að um beinsýkingu væri að ræða. Þrátt fyrir það sé ekkert gert fyrstu dagana á árinu 1998 annað en að setja stefnanda á sýklalyf á ný. Segulómun til að kanna nánar ástand stefnanda hafi ekki verið gerð fyrr en 14. janúar 1998, eða hálfum mánuði seinna. Þessa háttsemi telur stefnandi saknæma af hálfu starfsmanna stefnda Sjúkrahúss Akraness. Stefnandi telur einnig að saga hans um áfengisneyslu hefði átt að kalla á sérstaka aðgæslu vegna sýkingarinnar og kvartana hans, bæði við innlögnina í nóvember og innlögnina í lok desember 1997, þar sem vitað sé að slík forsaga geti skipt máli í tilvikum sem þessum.
Undir rekstri málsins féll stefnandi frá upphaflegri aðal- og varakröfu í málinu.
Stefnandi miðar útreikning kröfu sinnar við ákvæði skaðabótalaga nr. 50/1993 og sundurliðar hana þannig:
Bætur fyrir þjáningar:
Rúmliggjandi frá 29. október 1997 17. febrúar 1998
Samtals 112 dagar á 1730 kr.: 193.760 kr.
Veikindi án þess að vera rúmliggjandi: sex mánuðir
Samtals 180 dagar á 930 kr.: 167.400 kr.
Varanlegur miski:
35% af 5.339.500 kr. ((4.000.000:3282)x4381) 1.868.825 kr.
Lækkun vegna aldurs 25% - 467.206 kr.
Samtals varanlegur miski 1.401.619 kr.
Varanleg örorka:
40% af 44.514.450 (4.451.445x10)=((17.805.780):3580)x 4381:
21.789.698 kr.
Lækkun á varanlegri örorku vegna aldurs 76% 16.560.170 kr.
Samtals varanleg örorka 5.229.528 kr.
Annað fjárhagslegt tjón
Vegna breytinga á húsnæði 2.000.000 kr.
Krafa nemur samtals 9.036.307 kr.
Í öllum tilvikum er krafist greiðslu á útlögðum kostnaði, samtals 44.000 kr., og er sú fjárhæð innifalin í kröfufjárhæðum.
Stefnufjárhæð kröfu byggist á matsgerð Magnúsar Guðmundssonar dr. med. dags. 20. febrúar 2000.
Um lagarök vísar stefnandi til almennu skaðabótareglunnar, sérstaklega reglna um ábyrgð atvinnurekenda á skaðaverkum starfsmanna sinna, þ.e. reglum um húsbóndaábyrgð. Um bótakröfu stefnanda er vísað til skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum 1. 4. gr., sbr. 26. gr. laganna.
Krafa um vexti byggist á 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og um dráttarvexti á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. 10. og 14. gr. og á III. og V. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Upphafstími vaxta miðist við fyrstu innlögn stefnanda hjá stefnda Sjúkrahúsi Akraness og upphafstími dráttarvaxta við þann dag þegar mánuður var liðinn frá því að stefndu fengu í hendur rökstudda skaðabótakröfu stefnanda og fullnægjandi gögn til að taka afstöðu til hennar. Krafa um vexti og dráttarvexti feli í sér að vextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti og sé þar miðað við tímasetningu bótakröfu gagnvart stefndu Landspítala, háskólasjúkrahúsi og Sjúkrahúsi Akraness og njóti stefndi Læknisfræðileg myndgreining ehf. góðs af því.
Krafa stefnanda um málskostnað byggist á XXI. kafla laga 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. gr. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun byggist á lögum 50/1988 þar sem lögmönnum sé gert að innheimta og skila virðisaukaskatti af tekjum vegna þjónustu sinnar. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir þessum hluta kröfu sinnar úr hendi stefndu.
Málsástæður og lagarök stefnda íslenska ríkisins
Stefndi krefst sýknu í málinu og fullyrðir að stefnandi hafi fengið góða og eðlilega meðferð á lyflækningadeildum Sjúkrahúss Akraness og Landspítala Háskólasjúkrahúsi á þeim tímabilum sem um ræðir. Sýking og sjúkdómsgangur stefnanda hafi um margt verið óvenjulegur. Eins og skýrlega komi fram í gögnum málsins hafi verið gerðar umfangsmiklar rannsóknir á stefnanda. Allar þessar rannsóknir hafi leitt í ljós að eingöngu hafi verið um að ræða sýkingu í mjúkvefjum. Fyrstu einkenni um sýkingu í beini hafi ekki komið ótvírætt í ljós fyrr en með röntgenmyndum sem teknar voru af stefnanda 12. janúar 1998 og voru tveimur dögum síðar staðfestar án vafa. Ekkert í öðrum rannsóknum hafi heldur sýnt einkenni um sýkingu í beinum þótt eftir hafi verið leitað. Eftir á að hyggja megi þó sjá við endurskoðun á segulómunarmyndum frá 16. desember 1997, sem unnar voru á vegum Læknisfræðilegrar myndgreiningar ehf., einhver merki um vökvaviðbrögð umhverfis standliðinn sem síðar reyndist sýktur. Landlæknir telur í áliti sínu að erfitt sé þó að áfellast röntgenlækninn sem úr myndunum las. Breytingarnar hafi verið ógreinilegar, ekki í samræmi við þá klínísku spurningu sem lögð var fyrir hann og auðvelt hafi verið að greina breytingarnar með seinni vitneskju í huga, eins og landlæknir orðar það í áliti sínu. Stefndi geti ekki dregið aðrar ályktanir af þessu en þær, að ósannað sé að starfsmönnum þeirra sjúkrahúsa sem hann beri ábyrgð á hafi orðið á bótaskyld mistök við greiningu og við meðferð á stefnanda á því tímabili sem um ræðir. Með góðri samvisku telur stefndi að viðbrögð starfsmanna sjúkrahúsanna gagnvart stefnanda hafi verið skjót, fagleg og ætíð miðuð við þá þekkingu sem starfsmenn vissu besta á hverjum tíma. Starfsmenn sjúkrahúsanna hafi rannsakað stefnanda ítrekað með tilliti til sýkingar í beinum en hafi þrátt fyrir það ekki komið auga á það. Ástæða þess að ekki hafi tekist að greina þetta mein stefnanda sé eflaust sú, að beinsýking í hryggsúlu sé mjög erfiður og lúmskur sjúkdómur og það sé vel þekkt að sýkingin geti dulist mönnum þótt eftir sé leitað. Þetta verði að hafa í huga við sakarmat málsins.
Í niðurstöðu álits landlæknis segir orðrétt:
„Sjúkdómsferill Baldurs er mjög alvarlegur, óvenjulegur og sérstakur. Hugsanlegt er að uppruna megi rekja til stungumeðferðar vegna bakóþæginda en úr því verður aldrei skorið. Miðað við vitneskju um gang mála var tæplega fimm vikna sýklalyfjameðferð sem lauk síðla nóvember 1997 eðlileg og í samsæmi við venjulegar vinnuvenjur. Efni voru til að gera segulómun í kjölfar beinaskanns um áramót 1997/1998 vegna endurkomu sjúkdómsins og þess sem vitað var um sýkingarstað áður. Mjög er ólíklegt að það hefði breytt einhverju um gang mála eða forðað endanlegri niðurstöðu. Minna verður á að aðgerð var ekki gerð fyrr en rúmri viku eftir að greining lá fyrir.“
Sigurður Guðmundsson, núverandi landlæknir, sé eini hlutlausi aðilinn sem látið hafi uppi álit í máli þessu, ef frá sé talið órökstutt álit eldri landlæknis Ekki sé annað að sjá við lestur álits núverandi landlæknis en að meðferð stefnanda hafi verið að öllu leyti eðlileg fram að áramótum 1997/1998. Eftir beinaskannið 30. desember 1997 telur landlæknir að efni hafi verið til að gera segulómun vegna endurkomu sjúkdómsins og þess sem vitað hafi verið um sýkingarstað áður. Hér verði þó að líta til þess að á þessum tímamörkum hafi lyfjameðferð stefnanda verið hafin að nýju og beinaskannið 30. desember 1997 veitti engar nýjar upplýsingar og ekkert benti þá til að sýking hefði grafið um sig efst í hálsi stefnanda eins og skömmu síðar hafi þó komið í ljós. Engin sýnileg eða knýjandi ástæða hafi því verið til þess að senda stefnanda í segulómun enda var talið með góðum rökum að blóðsýking hefði tekið sig upp aftur og hana þyrfti að meðhöndla á sama hátt og áður hafði verið gert. Hér verði líka að hafa í huga að almennt ástand stefnanda hafi þrátt fyrir allt farið batnandi í byrjun árs 1998. Til dæmis mun hann hafa verið hitalaus frá 4. janúar 1998 og talinn batnandi og verkir minni í sjúkraskýrslum 7. janúar þar á eftir. Stefndi komi því ekki auga á, að viðbrögð lækna á Sjúkrahúsi Akraness frá 28. desember 1997, þegar stefnandi var lagður þar inn á ný, hafi verið gáleysisleg eins og stefnandi heldur fram. Þvert á móti er því haldið fram að læknar og annað starfsfólk spítalans hafi reynt allt til þess að greina og meðhöndla sjúkdóm stefnanda á eðlilegan og faglegan hátt.
Að mati stefnda leiðir allt framangreint til þess að sýkna beri stefnda af öllum dómkröfum stefnanda.
Stefndi mótmælir harðlega þeirri fullyrðingu stefnanda, að 30. desember 1997 hafi komið í ljós beinsýking í beinaskanni sem tekið var af stefnanda þann dag. Þessi fullyrðing sé ekki í samræmi við gögn málsins og sé einungis fullyrðing stefnanda sjálfs, órökstudd með öllu. Bendir stefndi aftur á álit landlæknis, þar sem beinlínis sé fjallað um þetta tiltekna atriði.
Stefnandi fullyrði í stefnu að við innlögn hans á Landspítala, háskólasjúkrahús hafi „allar klínískar vísbendingar bent[u] til þess að stefnandi væri með beinsýkingu.“ Þessi fullyrðing sé einfaldlega ekki rétt og þaðan af síður studd gögnum. Hins vegar hafi beinsýking verið hugsanleg við þessar aðstæður og hafi stefnandi því verið rannsakaður með tilliti til þess, en án þess að beinsýking greindist. Á þessu tvennu sé augljós munur.
Stefnandi telur ýmislegt annað hafa farið úrskeiðis við rannsókn og meðferð stefnanda á Landspítala Háskólasjúkrahúsi. Öllum þessum fullyrðingum er mótmælt sem ósönnuðum. Aftur er vakin athygli á því að enginn þeirra fái hljómgrunn í áliti landlæknis.
Á sama hátt mótmælir stefndi harðlega öllum fullyrðingum stefnanda um að meint gáleysisleg meðhöndlun starfsmanna Sjúkrahúss Akraness hafi leitt til örorku stefnanda. Allar þessar fullyrðingar stefnanda séu órökstuddar og fái hvergi stoð í framlögðum gögnum málsins. Stefndi verði hér að vekja athygli á því að stefnandi rekur mál þetta á grundvelli almennu skaðabótareglunnar. Slíkum málatilbúnaði fylgir sú skylda að stefnanda beri að sýna fram á og sanna bótaskylt tjón til þess að dómstóll geti dæmt um slíka kröfu. Fullyrðingin ein nægir ekki og að mati stefnda séu ekki lagaskilyrði til þess að dómendur meti sök einir og óstuddir að álitum. Meira þurfi að koma til. Sá sem haldi fram sök og bótaskyldu verði að sýna fram á það á grundvelli viðurkenndra sönnunarreglna einkamálaréttarfarsins. Að mati stefnda hafi stefnandi ekki uppfyllt þetta skilyrði. Með öðrum orðum, allar kröfur stefnanda gagnvart stefnda séu órökstuddar og því ósannaðar og af þeirri ástæðu beri að sýkna stefnda af öllum dómkröfum stefnanda.
Stefndi mótmælir ekki framlögðu örorkumati stefnanda. Æskilegra hefði þó verið að bera mál þetta undir örorkunefnd eins og skaðabótalögin nr. 50/1993 gerðu ráð fyrir á þeim tíma sem hér um ræðir.
Tölulegri kröfugerð stefnanda er mótmælt að svo komnu í heild sinni. Ef fallist verði á bótaskyldu mun stefndi ekki mótmæla að bætur verði dæmdar á grundvelli örorkumats sem reiknað verði út og dæmt á grundvelli ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993 sem í gildi voru á því tímabili sem mál þetta snúist um.
Málsástæður og lagarök stefnda Læknisfræðilegrar myndgreiningar ehf
Samkvæmt stefnunni sé bótakrafa stefnanda á hendur stefnda byggð á því að læknarnir Einar Steingrímsson og Jörgen Albrechtsen, sem báðir eru starfandi sérfræðingar hjá stefnda, hafi sýnt af sér gáleysi við úrlestur segulómrannsókna sem gerðar voru 29. október 1997 og 16. desember 1997.
Rannsókn 29. október 1997
Í svari Einars Steingrímssonar sé skýrt tekið fram að rannsóknin hafi ekki tekist sem skyldi, myndirnar séu með talsverðri hreyfióskerpu og eingöngu hafi tekist að fá fáeinar seríur. Ástæðan hafi verið sú að sjúklingur hafi ekki getað verið kyrr vegna verkja. Lýst sé þeim myndum sem hafi náðst og sagt að „við þessar aðstæður” sjáist ekki nein merki um intraspinal process og það sem til beinastructure sjáist sé innan eðlilegra marka og hvergi að sjá signalaukningu svarandi til beina á STIR-myndum, þannig að osteomyelites sé mjög ólíklegur.
Kröfur stefnanda eru byggðar á því að með framangreindu svari hafi læknirinn sett fram „fullyrðingu” sem sé mjög óvarleg í ljósi viðurkenndrar þekkingar á gangi beinsýkingar. Rannsóknin hafi ekki gefið tilefni til „þessarar fullyrðingar”.
Þessari framsetningu stefnanda er mótmælt sem rangri. Það sé augljós mistúlkun á niðurstöðum Einars Steingrímssonar að í þeim hafi falist fullyrðingar. Þvert á móti sé settur skýr fyrirvari um takmarkað gildi rannsóknarinnar vegna tæknilegra erfiðleika við gerð hennar sem tengdust ástandi sjúklingsins. Eins sé það rangt að einhver fullyrðing sé um að beinsýking sé ekki fyrir hendi. Einungis sé sagt að beinsýking (osteomyelites) sé mjög ólíkleg og gerð grein fyrir forsendum þeirrar ályktunar. Sú fullyrðing stefnanda að „afdráttarlaus fullyrðing” Einars Steingrímssonar hafi orðið til þess að aðrir læknar hafi ekki verið nægjanlega á verði gagnvart beinsýkingu sé að mati stefnda órökstudd, röng og tilefnislaus. Að mati stefnda hafi rannsóknarniðurstaða Einars Steingrímssonar verið að öllu leyti í samræmi við fyrirliggjandi gögn og því engri sök til að dreifa.
Rannsókn 16. desember 1997
Stefnandi byggir á því að Jörgen Albrechtsen hafi greinilega yfirsést bólga við ant.arcus.svæði atlas sem hafi bent til ígerðar.
Það sé rangt að lækninum hafi yfirsést bólga. Í niðurstöðu rannsóknarinnar komi fram að bólga hafi hjaðnað frá því sem var í rannsókninni 29. október 1997 („Regression á abcess”). Því sé lýst að 2 cm abcessinn sem áður sást í musculus semi spinalis vinstra megin, sé nú hjaðnaður. Það greinist ekki lengur vökvi centralt, en örlítið þykkildi sé í vöðvanum.
Við mat á svarinu verði að líta til rannsóknarbeiðninnar. Í rannsóknarbeiðninni sé beðið um segulómun á hálsi í því skyni að fá stöðu (status) á bólgu (abcess) í hálsi. Engin beiðni sé um könnun á hugsanlegri beinsýkingu eða nýrri sýkingu í hálsi.
Svar Jörgens Albrechtsen sé að öllu leyti rétt og rannsóknin sem gerð var í samræmi við rannsóknarbeiðnina. Svarað hafi verið þeirri klíniskri spurningu sem lögð var fyrir lækninn um stöðu abcess á hálsi. Niðurstaðan hafi verið sú að ígerðin væri að hjaðna. Þessi niðurstaða hafi verið rétt. Það sé því rangt að halda því fram að Jörgen Albrechtsen hafi gert mistök eða sýnt af sér gáleysi þegar hann svaraði rannsóknarbeiðni Sigurðar B. Þorsteinssonar. Þegar af þeirri ástæðu geti ekki komið til bótaábyrgðar stefnda vegna rannsóknarinnar 16. desember 1997.
Að auki er á það bent að meðferðarlæknir dregur ekki ályktun um sýkingu eingöngu út frá útliti bólgunnar. Sýking gat verið fyrir hendi þótt bólga greindist ekki og því þurfti fyrst og fremst að gera blóðrannsóknir, sýklaræktanir- og vefjarannsóknir til að ganga úr skugga um hvort sýkingin væri enn fyrir hendi eða hvort náðst hefði að uppræta hana.
Í þessu sambandi beri að hafa í huga að hlutverk röntgenlækna sé að taka og túlka myndir fyrir þá lækna sem taka ákvörðun um rannsóknir, meðferð og umönnun sjúklings. Lækni, sem ákvarðar meðferð sjúklings, beri að safna saman tiltækum upplýsingum um sjúkdóminn, svo sem um sögu sjúklings, sjúkdómseinkenni og niðurstöður úr klíniskri skoðun á sjúklingnum, svo og upplýsingum úr eigin rannsóknum, blóðrannsóknum, sýklaræktunum, vefjasýnum og myndatökum. Það séu ekki röntgenlæknar sem taki ákvörðun um að hefja eða hætta við lyfjagjöf, slíkar ákvarðanir taki meðferðarlæknarnir á grundvelli upplýsinga sem aflað sé úr mörgum áttum.
Hlutverk röntgenlæknis sé fyrst og fremst að svara þeim spurningum sem fyrir hann séu lagðar. Að sjálfsögðu greinir hann einnig frá öðrum atriðum sem fram komi við rannsókn sem hann telur að geti haft þýðingu fyrir meðferð viðkomandi sjúklings. Þetta feli ekki í sér að röntgenlækni beri að gera alhliða rannsókn á sjúklingi sem til hans sé sendur. Í þessu tilviki hafi rannsóknartilefnið verið skýrt afmarkað og því engin sérstök ástæða til ítarlegri rannsókna þegar fyrir lágu niðurstöður sem nægðu til þess að svara rannsóknartilefninu. Rannsóknin beindist að því að finna aftur þekkta ígerð (abcess) og leggja mat á hvort ígerðin væri óbreytt, meiri eða minni (status).
Stefnandi hafi enn verið til rannsóknar hjá stefnda 14. janúar 1998. Hafi þá verið beðið um segulómun af hálsi með áherslu á C1. Í rannsóknarbeiðninni komi fram að á RTG degi fyrr hafi komið fram beineyðing á C1 og spurning um structur á dens axis.
Í rannsóknarniðurstöðu 14. janúar 1998 komi fram að í retrospect sjáist við fyrri rannsókn frá 16. desember 1997 lítils háttar vökva-reaction umhverfis dens. Stefnandi byggir á því að bótaskylda stefnda sé vegna þess að honum hafi yfirsést þetta atriði og ekki gert grein fyrir því í rannsóknarniðurstöðunni 16. desember 1997.
Stefndi mótmælir því að hér hafi verið um gáleysi að ræða. Fyrst sé til að taka að rannsóknarbeiðnin hafi lotið að öðru atriði eins og að framan er lýst. Stefndi vekur athygli á umsögn Sigurðar Guðmundssonar landlæknis, um þetta atriði þar sem segir:
„...Við endurskoðun á þessum myndum mánuði síðar mátti afturvirkt greina lítilsháttar vökvaviðbragð umhverfis standlið (dens axis). Eftir þessu var hins vegar ekki tekið við skoðun myndarinnar um miðjan desember 1997.”
Umsögn landlæknis um þetta atriði sé svohljóðandi:
„Unnt er að sjá við endurskoðun á segulómmyndum teknum 16.12.1997 að einhver vökvaviðbrögð eru umhverfis standliðinn. Erfitt er hins vegar að áfellast röntgenlækninn sem úr myndunum las, breytingarnar eru ógreinilegar, ekki í samræmi við þá klínísku spurningu sem lögð var fyrir hann og auðvelt að greina breytingarnar með seinni vitneskju í huga”.
Það sé því mat landlæknis að Jörgen hafi ekki sýnt gáleysi við úrlestur myndanna og því engar forsendur skaðabótaskyldu fyrir hendi.
Að auki sé þess að geta að lítilsháttar vökva-reaction í eða við lið geti sést við segulómrannsókn af mörgum öðrum ástæðum en sýkingu. Þótt greind sé vökva-reaction í eða við lið sé það sjaldnast merki um sýkingu.
Krafa stefnanda sé byggð á almennu skaðabótareglunni. Stefndi hafi að framan gert grein fyrir þeim sjónarmiðum sínum að læknarnir Einar Steingrímsson og Jörgen Albrechtsen hafi unnið störf sín af kostgæfni og ekki sýnt af sér saknæma háttsemi sem geti orðið grundvöllur bótaábyrgðar. Engin sönnunargögn séu lögð fram í málinu til stuðnings þeirri skoðun stefnanda að starfsmenn stefnda hafi sýnt af sér gáleysi. Sé þó ljóst að stefnandi hafi sönnunarbyrðina fyrir því að bótaskilyrði um sök sé uppfyllt. Til þess sé að líta að álitaefnið, hvað varðar meinta sök starfsmanna stefnda, varði mjög sérhæft læknisfræðilegt efni. Sakarmatið í þessu tilviki sé því ekki á færi dómara á grundvelli eigin þekkingar. Gera verður þá kröfu til þess sem gerir bótakröfu af þessu tagi að hann undirbyggi kröfu sína með öðru en eigin staðhæfingum. Þegar af þessari ástæðu beri að sýkna stefnda af bótakröfum stefnanda.
Þá telur stefndi að verulega vanti upp á að stefnandi hafi gert grein fyrir því hvernig önnur skilyrði almennu skaðabótareglunnar en sakarþátturinn teljist uppfyllt. Að mati stefnda vanti útskýringu á orsakatengslum milli hinnar meintu saknæmu hegðunar og tjónsins. Sömu sjónarmið eigi við um skilyrðið um sennilega afleiðingu (vávæni).
Niðurstaða
Bótakröfu á hendur stefnda Læknisfræðilegri myndgreiningu ehf. byggir stefnandi á því að starfsmenn stefnda röntgenlæknarnir Einar Steingrímsson og Jörgen Albrechtsen, hafi sýnt af sér gáleysi við úrlestur segulómunar sem gerð var annars vegar 29. október 1997 og hins vegar 16. desember 1997.
Þegar segulómrannsóknir eru framkvæmdar eru þær skipulagðar fyrirfram með tilliti til þess hvaða klínísku spurningum á að svara. Þannig geta rannsóknir af sama svæði verið framkvæmdar með mismunandi hætti eftir því hvaða sjúkdómsgreining þykir líklegust.
Í fyrra tilvikinu, hinn 29. október 1997, var gerð segulómrannsókn af hálsliðum, sem Einar Steingrímsson las úr. Sú rannsókn var framkvæmd með fullnægjandi hætti til þess að svara þeim klínísku spurningum sem spurt var um þ.e., annars vegar um beinsýkingu og hins vegar um graftarkýli í mænugöngum. Úrlestur og túlkun var í réttu samræmi við það myndefni sem lá fyrir.
Í síðara tilvikinu, hinn 16. desember 1997, var gerð segulómrannsókn af hálsi, sem Jörgen Albrechtsen las úr. Sú rannsókn var einnig framkvæmd með fullnægjandi hætti til þess að svara þeirri klínísku spurningu sem spurt var um, þ.e. ástands graftarkýlis í mjúkpörtum á hálsi. Úrlestur varðandi það atriði var í samræmi við fyrirliggjandi myndefni. Ekki var getið um lítils háttar vökvaviðbragð framan við standlið. Þær breytingar eru ógreinilegar og verður það ekki metið röntgenlækninum til gáleysis að geta þess ekki enda var sérstök skoðun á því ekki í samræmi við þá klínísku spurningu sem fyrir hann var lögð. Samkvæmt framansögðu verður ekki talið að um bótaskyld mistök hafi verið að ræða af hálfu stefnda Læknisfræðilegrar myndgreiningar ehf. við úrlestur framangreindra segulómrannsókna og verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnda í málinu.
Bótakröfu á hendur stefndu, Landspítala háskólasjúkrahúsi og Sjúkrahúsi Akraness byggir stefnandi á því að læknar stefndu, sem komu að meðferð og síðar eftirliti stefnanda, hafi sýnt af sér gáleysi sem varð til þess að beinsýking sú sem hann var með greindist ekki fyrr en svo seint að standliður hans var eyddur og ekkert annað hægt að gera en framkvæma á honum hálsspengingu, með þeirri örorku sem það hefur valdið stefnanda.
Þegar læknismeðferð stefnanda er virt samkvæmt gögnum máls og í ljósi sjúkrasögu hans verður að telja að meðferð og eftirfarandi eftirlit hafi ekki verið fullnægjandi.
Hvað snertir greiningu og meðferð stefnanda er hann lá á Sjúkrahúsi Akraness frá 27. október til 30. október 1997 eru engar athugasemdir gerðar.
Hvað snertir greiningu og meðferð stefnanda er hann lá á Landspítala Háskólasjúkrahúsi 30. október til 12. nóvember 1997 verður ekki séð að við útskrift þaðan 12. nóvember 1997 hafi komið fram sérstakar leiðbeiningar um lengd meðferðar eða frekara eftirlit.
Hvað snertir meðferð stefnanda er hann lá á Sjúkrahúsi Akraness frá 12. nóvember til 25. nóvember 1997 eru eftirfarandi athugasemdir gerðar.
Þegar sýking er greind og þegar metinn er árangurinn af meðferð við henni er aðallega stuðst við eftirfarandi:
1. klínísk einkenni (hiti, bólga, verkur, roði o.s.frv.)
2. niðurstöður sýklaræktana
3. blóðrannsóknir (fjöldi hvítra blk., deilitalning og CRP)
4. myndrannsóknir (Rtg., CT, MRI og ísótópaskönn).
Eftir að meðferð stefnanda var hafin á Landspítala Háskólasjúkrahúsi var áætlun um að meðferðin stæði í 4 til 6 vikur sem er í samræmi við það sem tíðkast og mælt er með við slíkar sýkingar. Í slíkum tilfellum er það metið út frá ofannefndum þáttum hve löng meðferðin þurfi að vera, þ.e. hvort 4 vikur nægja eða hvort meðferðin þurfi að vera lengri eða allt að 6 vikum. Stefnandi fékk sýklalyfjameðferð í alls 30 daga, eða 4 vikur og 2 daga. Í læknabréfi um legur stefnanda á Sjúkrahúsi Akraness frá 27. október 1997 til 30. október 1997 og frá 12. nóvember 1997 til 25. nóvember 1997 kemur ekki fram hvers vegna 4 vikur voru taldar nægjanlega löng meðferð og ákveðið að hætta þá. Fram kemur að stefnandi hafi verið hitalaus síðustu vikuna fyrir útskrift og að hann hafi verið með tvö opin sár sem þurfti áfram að skipta um umbúðir á. Útskriftardaginn, 25. nóvember 1997, var hann með væga hækkun á hvítum blk. eða 11.000 (N 5.000 10.000) en CRP virðist ekkert hafa verið mælt alla sjúkdómsleguna. Þótt vissulega hafi sýking stefnanda verið alvarleg þá hafði hvorki verið sýnt fram á osteomyelitis (beinsýking) né endocarditis (hjartaþelsbólga). Það getur þó orkað tvímælis hvort rétt hafi verið að hætta meðferð á þessu stigi án þess að kanna frekari vísbendingar um árangur hennar og hvort sýkingin væri að fullu upprætt með athugun á CRP og myndrannsóknum.
Hvað snertir sjúkdómsferil stefnanda eftir útskrift frá Sjúkrahúsi Akraness 25. nóvember 1997 uns hann lagðist þar inn að nýju 28. desember 1997 eru eftirfarandi athugasemdir gerðar.
Æskilegt hefði verið að fylgjast náið með ástandi stefnanda eftir lok meðferðar með það fyrir augum að sýkingin væri örugglega að fullu upprætt. Mundi þá vera stuðst við þá þætti sem nefndir voru hér að ofan, ekki einn heldur alla. Hins vegar munu hvít blóðkorn fyrst hafa verið mæld 2 vikum eftir lok meðferðar eða 9. desember 1997 og voru þá töluvert hækkuð eða 14.400 (N 5000 1000). CRP var aldrei mælt. MRI (segulómun) var síðan gerð 16. desember 1997 (að því er stefnandi heldur fram fyrir tilstuðlan hans sjálfs) og aðalniðurstaða þeirrar rannsóknar var ,,regression á abscess”. Niðurstaða þessarar rannsóknar var þó alls ekki ákvarðandi um lok meðferðar þar sem læknar á Sjúkrahúsi Akraness luku meðferðinni u.þ.b. 3 vikum áður, eða 25. nóvember 1997. Þetta MRI svar virðist hafa verið túlkað af meðhöndlandi lækni (sem á þessu stigi málsins var Sigurður B. Þorsteinsson, smitsjúkdómasérfræðingur á LSH) sem svo að sýkingin væri upprætt og ekki þörf frekari sýklalyfjameðferðar, þrátt fyrir að daginn áður, eða 15. desember 1997, væri stefnandi enn með hækkun á hvítum blk. og nú ívið hærri eða 14.900. Þessi blóðrannsókn var gerð á Sjúkrahúsi Akraness og ekki kemur fram að læknar þar hafi tilkynnt Sigurði B. Þorsteinssyni um þessa niðurstöðu er hann mat árangur meðferðarinnar. Ekki virðist því hafa verið tekið tillit til þessara rannsóknarniðurstaðna. Engar frekari rannsóknir eða skoðanir virðast síðan hafa verið gerðar til þess að fylgjast með ástandi stefnanda í tæpar 2 vikur, eða þar til hann lagðist aftur inn á Sjúkrahús Akraness, þá orðinn veikur aftur með hvít blk. 19.900 og CRP 334 (N <10). Ábyrgur læknir á SA, Ari Jóhannesson, gaf þá skýringu fyrir dómi að eftirlit með stefnanda hefði ekki verið nákvæmara vegna þess að ástand hans hefði verið talið stöðugt og ekki merki um sýkingu. Lá þó fyrir að stefnandi væri með slæma verki á fyrrum sýkingarstað og blóðprufuniðurstöður áttu að geta vakið grun um að sýking gæti enn verið til staðar. Ef eftirlit með ástandi stefnanda eftir lok sýklalyfjameðferðarinnar hefði verið nákvæmara og þéttara, þar sem tekið hefði verið tillit til allra þeirra þátta sem slíkt eftirlit byggist á, þ.e. klínískum einkennum, hvítum blóðkornum og CRP ásamt myndrannsóknum, þá er líklegt að gripið hefði verið inn í fyrr með nýrri sýklalyfjameðferð. Endanleg útkoma þessa sjúkdómsferlis hefði þá mögulega getað orðið önnur en raun varð á. Tveir þessara þátta, þ.e. verkir frá þekktum sýkingarstað og hækkandi hvít blk. hefðu getað vakið vissan grun um að sýking gæti enn verið til staðar. Einn þáttur, þ.e. CRP, sem er nokkuð næm vísbending um tilveru sýkingar, var aldrei athugaður. MRI rannsóknin staðfesti ekki, og gæti í raun ekki staðfest ein og sér, að sýkingin væri að fullu upprætt. Læknum þeim sem meðhöndluðu stefnanda bar að byggja ákvarðanir sínar á öllum tiltækum upplýsingum sem þeir gátu aflað sér.
Að því er varðar meðferð stefnanda eftir að hann lagðist inn á Sjúkrahús Akraness 28. desember 1997 þá var gert beinaskann 30. desember 1997 sem sýndi merki um sýkingu í hálsi, bæði í mjúkvefjum og beini. Æskilegt hefði verið að meta þetta betur strax, með röntgenmynd, tölvusneiðmynd eða segulómun, frekar en að bíða með það í næstum tvær vikur. Vafasamt er þó hvort það hefði breytt nokkru um endanlega útkomu.
Þegar framangreind meðferð og eftirlit með stefnanda vegna sjúkdómsferils hans er virt eru það einkum eftirtalin atriði sem var ábótavant:
Ákvörðunin um að ljúka sýklalyfjameðferð eftir 30 daga var ekki byggð á nægilegu tilliti til allra þeirra þátta sem slík ákvörðun á að byggjast á, svo sem fyrr er rakið.
Eftirlit með stefnanda eftir að sýklalyfjameðferð hans lauk 25. nóvember 1997 var ábótavant. Það hefði átt að byggjast á læknisskoðunum og blóðprufum með ekki allt of löngu millibili. Betra eftirlit hefði getað afstýrt því að sýkingin tæki sig upp aftur og að fram kæmu þær alvarlegu afleiðingar sem síðar urðu af völdum hennar. Verður því að fallast á það með stefnanda að læknar þeir sem komu að meðferð og síðar eftirliti stefnanda á Sjúkrahúsi Akraness hafi sýnt af sér gáleysi sem leitt hafi til þess að beinsýking sú sem hann fékk eftir lok meðferðar greindist ekki fyrr en svo seint að standliður hans var eyddur og ekkert annað hægt að gera en framkvæma á honum hálsspengingu, með þeirri örorku sem það hefur valdið stefnanda. Ber því stefndi Sjúkrahús Akraness (nú Heilbrigðisstofnun Akraness) bótaábyrgð gagnvart stefnanda vegna þessa.
Smitsjúkdómasérfræðingar á Landspítala, háskólasjúkrahúsi tóku einnig þátt í meðferð og eftirliti með stefnanda. Ekkert liggur fyrir um mat þeirra eða ráðleggingar varðandi meðferðina og eftirlit eftir að henni lauk fyrir lækna á Sjúkrahúsi Akraness. Hvernig sem þeim samskiptum hefur verið háttað, þ.e. á milli ábyrgra lækna á Sjúkrahúsi Akraness og smitsjúkdómasérfræðinga á Landspítala Háskólasjúkrahúsi þá hefur það verið á ábyrgð lækna á Sjúkrahúsi Akraness að afla sér ráðlegginga varðandi meðferð og eftirlit stefnanda. Það liggja engin önnur skrifleg gögn fyrir um þátttöku smitsjúkdómasérfræðinga á Landspítala, en læknabréf Sigurðar B. Þorsteinssonar sem er þó ekki dagsett fyrr en 5. janúar 1998, þ.e. talsvert eftir að afleiðingarnar komu fram. Eins og þátttöku sérfræðinga á Landspítala Háskólasjúkrahúsi í meðferð stefnanda var háttað þykja ekki vera næg efni til að fella bótaábyrgð á stefnda Landspítala Háskólasjúkrahús vegna kröfu stefnanda og ber því að sýkna hann af kröfum stefnanda, en málskostnaður verður felldur niður að því er þann stefnda varðar.
Kröfugerð stefnanda í málinu er byggð á ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993 og er grundvölluð á örorkumati dr. med. Magnúsar Guðmundssonar, dags. 12. febrúar 2000. Í niðurstöðu örorkumatsins segir svo: “Um er að ræða 66 ára mann sem veikist heiftarlega í desember 1997 með háum hita og með ofsalegum höfuðkvölum og greindist með staphylokokka í blóði og var settur aftur á sýklalyf.”
Hafði verið greindur með stafylokokkasýkingu áður og fengið meðferð við því (var útskrifaður 25/11 ´97 án sýklalyfja) og farið í segulómun 16/12 ´97 og hafði þá absessinn hjaðnað. Fór í nýja segulómun 14/1 1998 og hafði bólgu-process umhverfis dens með reaction í beininu og vökvasöfnun fyrir framan C2 þar sem vökvasöfnun teygði sig frá retropherangealt hæ. megin. Við endurskoðun 14/1 ´98 á segulómun 16/12 ´97 sást við ítarlega endurskoðun lítilsháttar vökva-reaction umhverfis dens, en við seinni segulómskoðun (14/1 ´98) hafði bólguprocess aukist og þrýsti bólgu-process þessi á mænuna lítillega í hæð við C1.
Vegna eyðingar á banakringlu fór sjúklingur í spengingu 24/1 ´98. Var útskrifaður 17/2 ´98. Sýklalyfin þurfti hann að taka áfram en hætti í júní ´98.
Hefur átt við örkuml að stríða síðan og því dæmi ég:
1) Tímabundið atvinnutjón (2. gr. Skaðabótalaganna:
100% 29/10 1997 til loka mars 1998
50% í eitt ár.
2) Þjáningar (veikindi) (3. gr.):
a) Rúmliggjandi í byrjun nóv.´97-17/2 1998
b) Veikindi í 1/2 ár.
3) Varanlegur miski (4. gr.)
Vegna spengingar 25 %
Vegna slappleika í vörum 10 %
Varanlegur miski: 35 %
4) Varanleg örorka (5. gr.): Sem er 40 % “
Í samræmi við niðurstöðu örorkumatsins, sem ekki hefur verið mótmælt, og kröfugerð stefnanda reiknast bætur sem hér segir:
Bætur fyrir þjáningar:
Rúmliggjandi frá 29. október 1997 17. febrúar 1998
Samtals 112 dagar á 1730 kr.: 193.760 kr.
Veikindi án þess að vera rúmliggjandi: sex mánuðir
Samtals 180 dagar á 930 kr.: 167.400 kr.
Varanlegur miski:
35% af 5.339.500 kr. ((4.000.000:3282)x4381) 1.868.825 kr.
Lækkun vegna aldurs 25% - 467.206 kr.
Samtals varanlegur miski 1.401.619 kr.
Varanleg örorka:
40% af 44.514.450 (4.451.445x10)=((17.805.780):3580)x 4381:
21.789.698 kr.
Lækkun á varanlegri örorku vegna aldurs 76% -16.560.170 kr.
Samtals varanleg örorka 5.229.528 kr.
Útreikningur á kröfugerð stefnanda er í samræmi við ákvæði skaðabótalaga nr. 50/1993 á því tímabili sem tjón stefnanda tekur til og er fallist á þá fjárhæð bóta.
Kröfu stefnanda um bætur vegna breytinga á húsnæði að fjárhæð 2.000.000 kr. er hafnað, þar sem þau útgjöld verða ekki að lögum leidd af örorkutjóni stefnanda. Útlagður kostnaður að fjárhæð 44.000 kr. reiknast með málskostnaði með vísan til 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Samkvæmt framansögðu ber stefnda, íslenska ríkinu f.h. Sjúkrahúss Akraness, að greiða stefnanda 6.992.307 kr. (193.760+167.400+1.401.619+5.229.528) og með þeim vöxtum og dráttarvöxtum sem krafist er, sem ekki hefur verið mótmælt sérstaklega, eins og nánar greinir í dómsorði.
Þá ber að dæma stefnda, íslenska ríkið f.h. Sjúkrahúss Akraness, til að greiða stefnanda málskostnað, sem telst hæfilega ákveðinn 800.000 kr. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts og útlagðs kostnaðar að fjárhæð 44.000 kr.
Stefnanda ber að greiða stefnda, Læknisfræðilegri myndgreiningu ehf., 450.000 kr. í málskostnað, en málskostnaður er felldur niður að því er stefnda Landspítala, háskólasjúkrahús varðar. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Sigurði Heiðdal, sérfræðingi í lyflækningum og smitsjúkdómum, og Erni Orra Einarssyni, sérfræðingi í myndgreiningu.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, íslenska ríkið f.h. Sjúkrahúss Akraness, greiði stefnanda, Baldri Ólafssyni, 6.992.307 kr. með vöxtum samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993 frá 27. október 1997 til 30. apríl 2000, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 til 1. júlí 2001 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. og V. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. júlí 2001 til greiðsludags og 800.000 kr. í málskostnað.
Stefndu, Læknisfræðileg myndgreining ehf. og Landspítali Háskólasjúkrahús, skulu vera sýkn af kröfum stefnanda, Baldurs Ólafssonar, í máli þessu. Stefnandi greiði stefnda, Læknisfræðilegri myndgreiningu ehf., 450.000 kr. í málskostnað, en málskostnaður fellur niður að því er varðar stefnda, Landspítala, háskólasjúkrahús.