Hæstiréttur íslands
Mál nr. 213/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbússkipti
- Kæra
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Mánudaginn 18. júní 2001. |
|
Nr. 213/2001. |
Snorri Sigfússon(sjálfur) gegn Jóhannesi Magnússyni og (enginn) Grétari Indriðasyni (Þorsteinn Einarsson hrl.) |
Kærumál. Dánarbússkipti. Kæra. Frávísun máls frá Hæstarétti.
S kærði úrskurð héraðsdóms, þar sem leyst var úr ágreiningi málsaðila um frumvarp til úthlutunar úr dánarbúum tveggja einstaklinga. Í kæru S var engin krafa gerð um breytingu á hinum kærða úrskurði og þótti með öllu óljóst að hverju hann stefndi með málatilbúnaði sínum. Voru því slíkir brestir á kærunni að málinu var vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. maí 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. júní sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 18. maí 2001, þar sem leyst var úr ágreiningi málsaðila um frumvarp til úthlutunar úr dánarbúi Ólafar Guðmundsdóttur og Sigfúsar Baldvinssonar. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.
Varnaraðilinn Jóhannes Magnússon hefur ekki látið málið til sín taka.
Varnaraðilinn Grétar Indriðason krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Hann krefst einnig kærumálskostnaðar.
Fyrrnefnd kæra sóknaraðila er svohljóðandi:
„Við undirritaðir Snorri Sigfússon kennitala 081120-3159 til heimilis að Gránufélagsgötu 48 600 Akureyri og Brynjólfur Snorrason kennitala 070250-6839 til heimilis að Mið-Samtúni 601 Akureyri viljum hér með kæra úrskurð í máli nr. Q-00001/2000 sem tekið var fyrir hjá Héraðsdómi Norðurlands eystra. Ástæða kærunnar er eftirfarandi.
Nr. 1. Dómur nær aðeins til eins atriðis í umræddu máli í stað fimm atriða.
Nr. 2. Ekki er tekið tillit til kröfu sóknaraðila um að dánarbúin yrðu tekin öll til skifta með skuldum, eignum og gjörðum eða látið standa eins og erfingjar voru sáttir um.
Nr. 3. Varnaraðili sótti um upptöku dánarbúanna og tilgreindi fleiri en eina ástæðu til þess. Ásakaði varnaraðili sóknaraðila um fjárdrátt. Bústjóri tók tillit til greinargerða varnaraðila en ekki sóknaraðila, og jafnframt tók bústjóri upp aðeins eitt atriði út úr dánarbúunum, þó svo að sóknaraðili hafi hafnað gjörðum bústjóra og óskað eftir upptöku á fleiri liðum í máli dánarbúanna.
Nr. 4. Sóknaraðili áskilur sér rétt til að leggja fram ný gögn, máli sínu til stuðnings.“
Af gögnum málsins verður ekkert ráðið um ástæðu þess að Brynjólfur Snorrason standi að kæru þessari ásamt sóknaraðila.
Samkvæmt 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 gilda um kæru í máli, sem rekið hefur verið fyrir héraðsdómi á grundvelli XVI. og XVII. kafla laganna, sömu reglur og um kæru í almennu einkamáli, þar á meðal um kæruna sjálfa. Gilda því um efni kæru í máli sem þessu ákvæði 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt því ber að greina í kærunni þá dómsathöfn, sem er kærð, kröfu um breytingu á dómsathöfninni og ástæður, sem kæran er reist á. Í fyrrgreindri kæru sóknaraðila er getið hins kærða úrskurðar. Þar er á hinn bóginn engin krafa gerð um breytingu á honum. Verður að ætla að efni kærunnar lúti að öðru leyti að þeim ástæðum, sem sóknaraðili reisir hana á. Eins og þær eru fram settar er með öllu óljóst að hverju sé stefnt með málatilbúnaði sóknaraðila. Eru því slíkir brestir á kærunni að málinu verður sjálfkrafa vísað frá Hæstarétti.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðilanum Grétari Indriðasyni kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði, en á milli sóknaraðila og varnaraðilans Jóhannesar Magnússonar fellur kærumálskostnaður niður.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Sóknaraðili, Snorri Sigfússon, greiði varnaraðila, Grétari Indriðasyni, 40.000 krónur í kærumálskostnað. Að öðru leyti fellur kærumálskostnaður niður.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 18. maí 2001.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 20. f.m., er tilkomið vegna ágreinings samkvæmt 122. gr. laga um dánarbússkipti o.fl. nr. 20, 1991, en með bréfi dagsettu 14. júlí 2000 vísar skiptastjórinn Benedikt Ólafsson hdl. til dómsins ágreiningi erfingjanna Snorra Sigfússonar, kt. 081120-3159, Gránufélagsgötu 48 A, Akureyri, Jóhannesar Magnússonar, kt. 200525-2489, Sveinagörðum Grímsey og Grétars Indriðasonar, kt. 250755-4579, Klausturhvammi 28, Hafnarfirði, vegna skipta á dánarbúi hjónanna, Ólafar Guðmundsdóttur, kt. 191084-0398, er lést hinn 19. janúar 1981 og Sigfúsar Baldvinssonar, kt. 240993-1988, er lést hinn 3. júní 1969 og tekið var til opinberra skipta þann 22. janúar 1999.
Var mál þetta þingfest 15. september s.l. og ákvað dómari að sóknaraðiljinn yrði Snorri Sigfússon og varnaraðiljar, Jóhannes Magnússon og Grétar Indriðason.
Er sóknaraðilji máls þessa, Snorri Sigfússon, sonur beggja hinna látnu og varnaraðiljinn, Jóhannes Magnússon, vegna dánarbús Guðrúnar Sigfúsdóttur, sem var dóttir beggja hinna látnu, en Jóhannes er eftirlifandi maki Guðrúnar og situr í óskiptu búi, en varnaraðiljinn, Grétar Indriðason, er dóttursonur beggja hinna látnu, sonur Guðlaugar Sigfúsdóttur.
Í bréfi skiptastjórans til dómsins segir að sóknaraðilji geri ágreining um fyrirliggjandi frumvarp til úthlutunar dagsett 30. mars 2000. Telji hann að eignir sem tilheyri búinu vanti eftirgreint: Ótilgreindan hlut í Söltunarstöð Sigfúsar Baldvinssonar h.f. á Siglufirði og ótilgreindan hlut í Söltunarstöð Sigfúsar Baldvinssonar s.f. á Eskifirði, ótilgreindan hlut í Garði h.f. og ótilgreindan hlut í skipinu Sædísi og krefjist sóknaraðilji að þessi verðmæti verði dregin undir skiptin. Þá telji sóknaraðilji að hlutabréf í Íslenskri endurtryggingu h.f., að nafnverði kr. 1.061.424, séu ekki eign dánarbúsins, eigi sóknaraðilji sjálfur helming hlutabréfanna en hinn hlutann, þ.e.a.s. helminginn á móti sér, hafi Sigfús Baldvinsson gefið sonarsyni sínum og syni sóknaraðilja, Brynjólfi Snorrasyni, á dánarbeði sínu. Segi Snorri mörg vitni að þessum gerningi.
Upphaflega fór Knútur Bruun hrl. með málið fyrir hönd sóknaraðilja, en sagði sig síðan frá málinu og það sama gerði Hreinn Pálsson hrl., en málið hefur síðan rekið fyrir sóknaraðilja sonur hans, Brynjólfur Snorrason, kt. 070250-6839.
Varnaraðiljinn Jóhannes Magnússon hefur engar kröfur uppi í málinu og hefur aldrei sótt þing.
Lögmaður varnaraðilja, Grétars Indriðasonar, er Þorsteinn Einarsson hrl.
Endanleg krafa sóknaraðilja er fram kom við aðalflutning málsins er að óhögguð standi dánargjöf Sigfúsar Baldvinssonar, sbr. bréf sóknaraðilja dagsett 21.12.1999 á dskj. nr. 21 og 64, um að hlutabréf að nafnvirði kr. 13.000 í Íslenskri stríðstryggingu, nú Íslenskri endurtryggingu h.f., til Brynjólfs Snorrasonar, nú alls að nafnverði kr. 1.061.424, en helmingi hennar - 50% - hafi hann, Brynjólfur, afsalað til sóknaraðilja, Snorra Sigfússonar, vegna erfiðs fjárhags hans. Einnig krefst hann þess að aðrar tilgreindar dánargjafir standi óhaggaðar, þ.e.a.s. andvirði söltunaráhalda, sem voru í eigu Sigfúsar Baldvinssonar s.f. á Eskifirði, er gefið var Ásgerði Snorradóttur. Skrifstofuáhöld, sem voru í eigu „umræddrar skipaútgerðar“ og Söltunarstöðvar Sigfúsar Baldvinssonar h.f. á Siglufirði, sem gefin voru Ólafi Jóhannessyni og helmingseign Sigfúsar Baldvinssonar í bifreið er hann átti á móti Guðlaugu Sigfúsdóttur, móður Grétars Indriðasonar varnaraðilja, sem gefin hafi varið Grétari, auk áðurnefndrar dánargjafar til Brynjólfs Snorrasonar í Íslenskri stríðstryggingu. Einnig krefst hann málskostnaðar að mati dómsins.
Af hálfu varnaraðilja, Jóhannesar Magnússonar, eru engar kröfur uppi.
Grétar Indriðason krefst þess að kröfum sóknaraðilja verði hafnað og staðfest verði frumvarp skiptastjóra dagsett 30. mars 2000, með þeirri breytingu að varnaraðilja verði úthlutað hlutabréfum í Íslenskri endurtryggingu að nafnverði kr. 353.808 og að hann fái greiddar kr. 661.887 að viðbættri hlutdeild í vöxtum af peningaeign dánarbúsins frá 30. mars 2000. Þá krefst hann að sóknaraðilji greiði málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi samtals kr. 634.268.
Málsatvik eru þau að í árslok 1992 var lokið einkaskiptum á dánarbúi Ólafar Guðmundsdóttur, er fædd var 19. október 1884 og andaðist þann 19. janúar 1981, en hún var eiginkona Sigfúsar Baldvinssonar, er fæddur var 24. september 1893 og lést þann 3. júní 1969 og sat Ólöf í óskiptu búi eftir eiginmann sinn.
Samkvæmt erfðafjárskýrslu í dánarbúi Ólafar sem dagsett er á Akureyri 24. apríl 1992 og undirrituð af sýslumanni 31. desember s.á., þá kemur til skipta hrein eign kr. 12.378 þar af hlutabréf í Netagerðinni Odda h.f. kr. 1.000, í Nótastöðinni Odda h.f. kr. 1.000 og hlutabréf í Íslenskri endurtryggingu h.f. kr. 5.460. Innbú var metið á kr. 5.000 og peningaleg staða búsins var skuld upp á kr. 82.
Erfingjar voru sóknaraðilji, Snorri Sigfússon, varnaraðilji, Grétar Indriðason sonur Guðlaugar Sigfúsdóttur og Guðrún Sigfúsdóttir. Engin skrifleg skiptagerð liggur fyrir.
Árið 1996 kveðst varnaraðilji hafa fengið upplýsingar um að eignir dánarbúsins hefðu verið stórlega vantaldar í erfðafjárskýrslunni og ekki hefði verið gerð grein fyrir öllum hlutabréfum dánarbúsins í Íslenskri endurtryggingu h.f. Með bréfi félagsins dagsettu 24. janúar 1997 hafi verið upplýst að hlutabréf dánarbúsins væru þá að nafnvirði kr. 884.520. Hafi hann krafist þess að fá afhentan þriðjung hlutabréfanna í krafti erfðaréttar síns sem erfingi eins þriðja hluta búsins.
Með bréfi dagsettu 25. mars 1998 hafi félagið tilkynnt erfingjum að félagið hefði í hyggju að skipta hlutabréfum á nafni dánarbús Sigfúsar Baldvinssonar jafnt á milli erfingja í dánarbúi Ólafar Guðmundsdóttur.
Eftir það hafi félagið upplýst að sóknaraðilji hefði lýst því yfir að hann einn ætti hlutabréfin sem væru skráð á nafn dánarbúsins og hann hefði krafist afhendingar hlutabréfanna. Upplýsti félagið að það hefði hafnað þeirri kröfu þar sem að sóknaraðilji hefði ekki sannað eignarétt sinn að bréfunum.
Með bréfi dagsettu 22. maí 1998 hafi félagið tilkynnt erfingjum að það myndi ekki afhenda einstökum erfingjum dánarbúsins hlutabréfin nema fyrir lægi samþykki erfingja um skiptin eða úrskurður eða dómur.
Hafi samningar ekki tekist við sóknaraðilja og því hafi varnaraðilji óskað eftir því við sýslumanninn á Akureyri að einkaskipti á dánarbúi Ólafar Guðmundsdóttur yrðu tekin upp á ný. Hafi sýslumaður fallist á það 23. nóvember 1998 og veitt erfingjum frest til 1. mars 1999 að ljúka skiptum.
Þann 18. desember 1998 beindi varnaraðilji kröfu til Héraðsdóms Norðurlands eystra með vísan til 1. mgr. 38. gr. laga nr. 20, 1991 að dánarbú Ólafar Guðmundsdóttur og Sigfúsar Baldvinssonar yrði tekið til opinberra skipta. Með úrskurði dómsins uppkveðnum 22. janúar 1999 var fallist á kröfuna og var Benedikt Ólafsson hdl. skipaður skiptastjóri búsins.
Við skiptameðferð dánarbúanna krafðist varnaraðilji þess að hlutabréf dánarbúanna í Íslenskri endurtryggingu h.f. og arður af þeim hlutabréfum kæmi til skipta í dánarbúunum. Einnig krafðist hann þess að skiptastjóri krefði sóknaraðilja um endurgreiðslu arðgreiðslna sem hann hefði móttekið vegna hlutabréfa dánarbúsins í Íslenskri endurtryggingu h.f., auk dráttarvaxta.
Skiptastjóri féllst á kröfur varnaraðilja og var frumvarp skiptastjóra til úthlutunar úr dánarbúunum, dagsett 30. mars 2000, lagt fram á skiptafundi þann 10. apríl 2000. Samkvæmt frumvarpi skiptastjóra voru eignir dánarbúanna eftirtaldar:
Hlutabréf í Íslenskri endurtryggingu h.f. nafnverð kr. 1.061.424 á genginu 4, kr. 4.245.696. Arðgreiðsla í ágúst 1999 kr. 305.691, arðgreiðsla í desember 1999 kr. 955.282. Arður greiddur á tímabilinu 1987 til 1996 kr. 517.740. Vextir á arð greiddan á tímabilinu 1987 til 1996 kr. 599.123.
Samkvæmt frumvarpi skiptastjóra var verðmæti hlutabréfa í Íslenskri endurtryggingu h.f. byggt á tilboði félagsins sjálfs um kaup á hlutabréfum af almennum hluthöfum. Segir í frumvarpi til úthlutunar að við dánarbússkiptin sem lauk 30. júní 1992 hafi hlutabréf í Íslenskri endurtryggingu h.f. verið metin á kr. 5.460 og mun Snorri Sigfússon hafa innleyst bréfin á því verði. Hafi hann jafnframt móttekið arð sem þau hafa gefið á tímabilinu 1987 til 1996, samtals kr. 517.740, en þeirrar arðgreiðslna virðist að engu getið við skiptin. Telur skiptastjóri rétt að arðgreiðslur þessar falli til dánarbúsins og jafnframt að reikna á þær eðlilega vexti, miðað er við vegið meðaltal óverðtryggðra útlánsvaxta banka og sparisjóða og nema vextirnir þannig útreiknaðir kr. 599.193. Til viðmiðunar getur hann þess að útreiknaðir dráttarvextir miðað við sömu forsendur eru kr. 589.552.
Á skiptafundi þann 10. apríl 2000 samþykkti varnaraðilji í meginatriðum frumvarp skiptastjóra og með þeirri breytingu að hann fengi úthlutað þriðjung hlutabréfa að nafnvirði kr. 353.808 og fengi greitt í peningum kr. 661.887 svo og að erfðafjárskattur yrði reiknaður af nafnvirði hlutabréfa. Skiptastjóri samþykkti kröfur varnaraðilja.
Á skiptafundinum þann 10. apríl 2000 gerði sóknaraðilji ekki ákveðnar kröfur um breytingar á frumvarpi skiptastjóra en mótmælti frumvarpi skiptastjóra með vísan til bréfs er hann hafði ritað honum 21. desember 1999 og rakið er að hluta hér að framan í kröfugerð sóknaraðilja.
Skiptastjóri boðaði til skiptafundar þann 28. apríl 2000 með bréfi dagsettu 11. s.m. til að fjalla um ágreining hverjar væru eignir búsins, þ.e.a.s. í fyrsta lagi hugsanlega vantaldar eignir í frumvarpinu um eignarhluti í Söltunarstöð Sigfúsar Baldvinssonar h.f. á Siglufirði, Söltunarstöð Sigfúsar Baldvinssonar s.f. á Eskifirði, Garði h.f. og skipinu Sædísi. Í öðru lagi varðandi ágreining um eignarhald á hlutabréfum í Íslenskri endurtryggingu h.f., þar sem sóknaraðilji telji helming hlutabréfa þessa sína eign, en hlutann hafi Sigfús Baldvinsson gefið sonarsyni sínum, Brynjólfi Snorrasyni, á dánarbeði. Segðu þeir feðgar mörg vitni að þeim gerningi.
Á skiptafundinum 28. apríl 2000 áréttaði varnaraðilji fyrri kröfur sínar um breytingu á frumvarpinu og féllst skiptastjóri á þær. Telur varnaraðilji að á fundi þessum hafi sóknaraðilji ekki gert ákveðnar kröfur um breytingu á frumvarpinu og verði ekki séð að sóknaraðilji hafi mótmælt frumvarpinu á þeim fundi, en skiptastjóri hafi hins vegar bókað á fundinum að ekki hefði tekist að jafna ágreining um hvaða eignir tilheyrðu dánarbúinu og vísaði ágreiningi um það til héraðsdóms, sbr. 3. mgr. 79. gr. laga nr. 20, 1991.
Málsástæður og lagarök.
Sóknaraðilji lagð fram í þinghaldi 1. desember s.l. greinargerð sem dagsett er á Akureyri 24. nóvember 2000. Rekur hann þar útgerðarsögu föður síns svo og sinn þátt í henni svo og eigin atvinnusögu. Er ljóst að gengi síldarsöltunar og útgerðar föður sóknaraðilja hefur í áranna rás risið og hnigið eftir duttlungum Norðurlandssíldarinnar og reksturinn verið kominn mjög á fallandi fót er Sigfús Baldvinssonar fellur frá árið 1969, en honum hefur þó tekist með hyggindum að forðast sjálfur gjaldþrot að því er virðist, en ljóst er að reksturinn hefur oft staðið tæpt. Í greinargerðinni segir sóknaraðilji að hann hafi áður lýst fyrir skiptastjóra þeim gjöfum sem faðir hans hafi gefið á dánarbeði, en í greinargerðinni leiðir hann líkur að því að hlutabréfin í Íslenskri endurtryggingu h.f. hafi ranglega verið skráð á nafn föður síns, en þar segir hann að Sigfús Baldvinssonar, og sýnir með dæmum, að hann hafi skrifað undir flesta pappíra fyrir fyrirtækin sem hann rak eftir hvað honum kom best, svo sem Sigfús Baldvinsson, Sigfús Baldvinsson útgerðarmaður eða Sigfús Baldvinsson h.f. eða s.f. allt eftir hentugleikum.
Ættingjar Sigfúsar hafi alltaf haldið að hann hafi verið stóreignamaður og því hafi það komið þeim á óvart að eignastaða hans var skuldir einar og hafi þeir aldrei viljað viðurkenna að sóknaraðilji og síðari eiginkona hans hefðu átt í fyrirtækjum með honum. Hefur sóknaraðilji lagt fram fjölda skjala er tengst hafa atvinnurekstri föður hans. Í greinargerðinni kemur fram að Söltunarstöð Sigfúsar Baldvinssonar s.f. á Eskifirði og hafi verið tekin til gjaldþrotaskipta.
Í greinargerðinni segir að Brynjólfur Snorrason hafi fengið að dánargjöf hlutabréf í Íslenskri endurtryggingu h.f. að verðmæti 13.000 kr. og bendir sóknaraðilji á upphafsverð bréfanna á þessum tíma, en segir að Brynjólfur hafi ekki viljað taka við þeim öllum þar sem hann vissi að hluti þeirra væri eign sóknaraðilja. Nafnverð bréfanna í erfðafjárskýrslu Ólafar Guðmundsdóttur er kr. 5.460, þannig að hluta bréfanna var búið að taka út þar. Hinn hlutinn hafi verið sá hluti sem sóknaraðilji og Guðrún, systir hans, voru ásátt um að hann ætti.
Varnaraðilji bendir á að í greinargerð sóknaraðilji sé ekki gerð grein fyrir kröfum hans, né heldur málsástæðna eins og skylt sé samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 20, 1991. Varnaraðilji krefjist þó ekki frávísunar af þeim sökum og krefst þess að frumvarp skiptastjóra verði staðfest, með þeim breytingum sem greinir í kröfugerð varnaraðilja. Telur varnaraðilji að fallast beri á kröfur hans í málinu þegar af þeirri ástæðu að sóknaraðilji gerði ekki á skiptafundinum sem fjallaði um frumvarpið til úthlutunar ákveðnar breytingar á frumvarpinu, sbr. 79. gr. laga nr. 20, 1991. Telur varnaraðilji af þeim sökum geti sóknaraðilji ekki gert kröfur um breytingar á frumvarpi skiptastjóra nú. Óskýrt sé hverjar kröfur sóknaraðilji geri og á hverju meintar kröfur hans gætu byggst. Telur varnaraðilji að skilja megi málatilbúnað sóknaraðilja svo að hann krefjist þess að hlutabréf í Íslenskri endurtryggingu h.f. sem skráð er á dánarbú Sigfúsar Baldvinssonar og arðgreiðslur vegna þeirra hlutabréfa skuli ekki koma til skipta í dánarbúunum. Virðist sem sóknaraðilji byggi á því að hlutabréfin séu í eigu hans og sonar hans, Brynjólfs Snorrasonar. Þá verði af málatilbúnaðinum ráðið að hann krefjist þess að til skipta komi í dánarbúunum meintir ótilgreindir eignarhlutar í Söltunarstöð Sigfúsar Baldvinssonar h.f. á Siglufirði, Söltunarstöð Sigfúsar Baldvinssonar s.f. á Eskifirði, Garði h.f. og skipinu Sædísi. Varnaraðilji mótmælir því sem röngu og ósönnuðu að sóknaraðilji og/eða sonur hans séu eigendur hlutabréfa í Íslenskri endurtryggingu h.f. að nafnvirði kr. 1.061.424, sem skráð er á nafn dánarbús Sigfúsar Baldvinssonar. Varnaraðilji telur að sóknaraðilji hafi ekki sýnt fram á að fyrrgreind hlutabréf séu í hans eigu og/eða sonar hans og að skráning þeirra á nafn dánarbús Sigfúsar Baldvinssonar sé röng. Bendir varnaraðilji á að sóknaraðilji hafi sönnunarbyrði fyrir fullyrðingu sinni um eignarhald hans og sonar hans á fyrrgreindum hlutabréfum. Telur varnaraðilji að dánarbúin séu löglegir eigendur hlutabréfanna og vísar því til stuðnings til réttarreglna kröfuréttar um viðskiptabréf.
Varnaraðilji leggur áherslu á að óljóst sé á hverju kröfur sóknaraðilja hvíla. Þó megi helst ráða í það að sóknaraðilji byggi á því að hann hafi átt helming hlutabréfanna í sameign með föður sínum er hann lést og að faðir hans hafi á dánarbeði gefið syni sóknaraðilja, Brynjólfi Snorrasyni, helming hlutabréfanna. Varnaraðilji mótmælir því sem röngu að sóknaraðilji hafi átt helming hlutabréfanna í sameign með föður sínum er faðir hans lést. Þá er því mótmælt að sóknaraðilji hafi átt öll hlutabréfin er faðir hans lést. Bendir varnaraðilji á að sóknaraðilji hafi engin gögn lagt fram til stuðnings þessum órökstuddu fullyrðingum og telur að greinargerð sóknaraðilja á dskj. nr. 7 ekki varpa nokkru ljósi á meintar málsástæður sóknaraðilja og kröfur. Þá telur varnaraðilji að gögn þau sem sóknaraðilja hefur lagt fram séu óviðkomandi máli þessu og sanni ekki fullyrðingar hans um meint eignarhald á hlutabréfunum. Í greinargerðinni fari sóknaraðilji um víðan völl og fjalli um hluti sem enga þýðingu hafi í máli þessu. Telur varnaraðilji lýsingu sóknaraðilja á lífi og störfum föður hans, sóknaraðilja sjálfs o.fl. frá síðustu öld, engu skipta um þann ágreining er mál þetta fjallar um og alls ekki sannað að sóknaraðilji sé löglegur eigandi helmings hlutabréfa í dánarbúunum.
Mótmælir varnaraðilji lýsingu sóknaraðilja á meintum málavöxtum sem röngum í öllum atriðum og óviðkomandi málinu. Sérstaklega mótmælir hann fullyrðingum sóknaraðilji um að hann hafi greitt einhverjar óskilgreindar skuldir föður síns. Þá telur varnaraðilji engu máli skipta þó sannað væri að sóknaraðilji hefði greitt einhverjar skuldir föður síns, enda með öllu óviðkomandi máli þessu. Þá byggir varnaraðilji á því að málatilbúnaður sóknaraðilja sé svo vanreifaður að skýlaust beri að fallast á kröfur sínar í málinu. Áréttar varnaraðilji að kröfunnar sé a.m.k. mjög óljóst getið í greinargerð, svo ekki sé meira sagt, þá sé málsástæðna og röksemda ekki getið í greinargerð. Vegna málatilbúnaðar sóknaraðilja sé miklum vandkvæðum bundið fyrir varnaraðilja að halda uppi efnisvörnum í málinu. Þá telur hann að þegar beri að hafna kröfum sóknaraðilja hvað varðar meintan eignarrétt sonar hans, Brynjólfs Snorrasonar, á helmingi hlutabréfa í Íslenskri endurtryggingu h.f. Bendir hann á að sóknaraðilji sé ekki réttur aðilji að kröfum er varðar meintan eignarrétt Brynjólfs að helmingi hlutabréfanna, heldur Brynjólfur sjálfur, beri því að hafna kröfum sóknaraðilja hvað varðar þann meinta hluta Brynjólfs, sbr. meginreglu 16. gr. laga nr. 91, 1991. Bendir hann á að Brynjólfi Snorrasyni hafi verið kunnugt um skipti dánarbúsins og hafi mætti á skiptafundi til að fjalla um frumvarp til úthlutunar þann 11. og 28. apríl 2000. Bendir hann á að sóknaraðilji mótmælti ekki frumvarpi skiptastjóra að þeim skiptafundum og samþykkti í reynd frumvarp skiptastjóra, sbr. 79. gr. laga nr. 20, 1991.
Þá mótmælir varnaraðilji því sem röngu og ósönnuðu að faðir sóknaraðilja hafi munnlega á dánarbeði gefið Brynjólfi Snorrasyni helming hlutabréfanna í Íslenskri endurtryggingu h.f., sóknaraðilji hafi sönnunarbyrði fyrir þeirri fullyrðingu sinni. Bendir hann á að um dánargjafir gildi ákvæði VI. kafla erfðalaga nr. 8, 1962, svo sem um arfleiðsluhæfi, arfleiðsluheimild og form erfðaskráa. Telur varnaraðilji meinta gjöf til Brynjólfs Snorrasonar ekki hafa fullnægt VI. kafla laga nr. 8, 1962 og því hafi meint gjöf verið ógild og marklaus, ef svo ótrúlega færi að sannað teldist að Sigfús Baldvinsson hefði gefið Brynjólfi helming hlutabréfanna. Bendir varnaraðilji á að samkvæmt 40. gr. laga nr. 8, 1962 skal dánargjöf vera skrifleg og vottuð af lögbókanda eða tveimur vottum sem skulu votta gerning með þeim hætti sem greinir í 42. gr. sömu laga. Óumdeilt sé að ekki liggi fyrir skriflegur gerningur er uppfylli fyrrgreind ákvæði erfðalaga um form erfðaskráa, þá er ekki á því byggt að fyrir hendi hafi verið aðstæður er greini í 44. gr. erfðalaga er heimilað hafi munnlegan gerning og að gerningur hafi síðar verið vottaður í samræmi við ákvæði erfðalaga. Með vísan til þessa beri þegar að hafna kröfu er varðar meintan eignarrétt Brynjólfs að helmingi hlutabréfanna, enda ljóst að ekki var gætt ákvæða laganna við meinta dánargjöf. Varnaraðilji bendir á að sóknaraðilji krefjist þess ekki sérstaklega að breytt verði frumvarpi skiptastjóra er varðar endurkröfu sóknaraðilja vegna arðgreiðslna sem hann móttók og um vexti af þeirri kröfu. Beri því ekki að fjalla sérstaklega um þann lið frumvarpsins fallist dómurinn á að hlutabréfin tilheyri dánarbúunum. Varnaraðilji telur að hafna beri meintum kröfum um að til skipta skuli jafnframt koma ótilgreindir eignarhlutir dánarbúanna í Söltunarstöð Sigfúsar Baldvinssonar h.f. á Siglufirði, Söltunarstöð Sigfúsar Baldvinssonar s.f. á Eskifirði, Garði h.f. og skipinu Sædísi. Telur varnaraðilji að ofangreindir meintir eignarhlutar tilheyri því miður ekki dánarbúinu og efast reyndar um að þær eignir sem vísað er til séu í raun og veru til. Mundi hann fagna því ef fleiri eignir kæmu fram, en telur að órökstutt sé að eignir þessar séu til, bendir hann á að auðvelt ætti að vera að endurupptaka skiptin ef síðar kæmi í ljós ef að þær meintu eignir fyndust fyrir og eftir atvikum aðrar eignir. Þá mótmælir hann sem ósönnuðu tilvist annarra meintra dánargjafa er sóknaraðilji tilnefni.
Til lagaákvæða vísar hann til ákvæða laga nr. 20, 1991 og til ákvæða erfðalaga nr. 8, 1962 og laga um hlutafélög nr. 2, 1995, þá vísar hann til reglna kröfuréttar, einkum viðskiptabréfsreglna. Málskostnaðarkrafan styðst við lög nr. 20, 1990, sbr. lög nr. 91, 1991.
Álit dómsins:
Við lestur málsskjala svo og að málflutningi loknum telur dómari sannað að undirliggjandi hafi verið sú krafa sóknaraðilja frá upphafi að hlutabréfin í Íslenskri endurtryggingu h.f. skyldu ekki koma til skipta við opinber skipti búanna.
Sóknaraðilji kom sjálfur aldrei fyrir dóm og er greinargerð hans á dskj. nr. 7 undirrituð af honum sjálfum, en bréf hans til skiptastjóra, dags. 21. desember 1999 á dskj. nr. 21 og 64 eru ekki undirrituð með eigin hendi.
Við úrlausn þessa máls verður ekki fjallað um aðrar meintar dánargjafir Sigfúsar Baldvinssonar, eða eignir þær er sóknaraðilji telur vantaldar, heldur en hlutabréfin í Íslenskri endurtryggingu h.f. þar sem það er eina eign búsins sem til er skjalleg heimild fyrir í gögnum málsins.
Á dskj. nr. 44-49 incl. er ljósrit hlutabréfa í Íslenskri endurtryggingu h.f. að nafnvirði samtals kr. 884.520 og stendur í meginmáli þeirra að eigandi sé dánarbú Sigfúsar Baldvinssonar. Samkvæmt bréfi Íslenskrar endurtryggingar h.f., dags. 24. janúar 1997 á dskj. 27, kemur fram að dánarabú Sigfúsar Baldvinssonar var skráð með hlutafé að fjárhæð kr. 884.520 er Íslenskri endurtryggingu var breytt í hlutafélag á árinu 1993. Á grundvelli skiptagerðar dánarbúsins, segir í bréfinu, var gefið út nýtt hlutabréf á nafn Snorra Sigfússonar í lok ársins 1994. Jöfnunarbréf var gefið út á árinu 1995 að fjárhæð kr. 176.904 einnig á nafni Snorra.
Á grundvelli upptöku á fyrri skiptum þá óskaði félagið eftir nýrri skiptagerð. Ekki liggur fyrir í málinu skiptagerð á dánarbúi Ólafar Guðmundsdóttur, sbr. áritun á erfðafjárskýrslu á dskj. nr. 35, en skýrslan er dagsett 24. apríl 1992 og undirrituð af Snorra Sigfússyni og Guðrúnu Sigfúsdóttur. Ekki verður því séð á hvaða grundvelli nýtt hlutabréf hefur verið útgefið á nafn Snorra Sigfússonar í lok ársins 1994 eða jöfnunarbréf árið 1995, sbr. dskj. nr. 27 og gengur dómurinn því út frá að heildarhlutafjáreign dánarbúsins í Íslenskri endurtryggingu h.f. sé kr. 1.061.424.
Dómurinn telur að sóknaraðilji hafi ekki fært sönnur á að hlutabréf þessi hafi Sigfús Baldvinsson á dánarbeði gefið sonarsyni sínum Brynjólfi Snorrasyni né heldur að sóknaraðilji hafi fært sönnur á eignarrétt sinn að helmingi bréfanna, hvorki með þátttöku í fyrirtækjarekstri með föður sínum né heldur leiði hann eignarrétt sinn að hluta bréfanna skv. skiptagerð hans og Guðrúnar systur hans. Fellst dómurinn því á kröfu varnaraðilja Grétars Indriðasonar að hafnað beri kröfum sóknaraðilja og staðfest verði frumvarp skiptastjóra, Benedikts Ólafssonar hdl., í dánarbúum Ólafar Guðmundsdóttur og Sigfúsar Baldvinssonar, dags. 30. mars 2000, með þeirri breytingu að honum verði úthlutað hlutabréfum í Íslenskri endurtryggingu h.f. að nafnverði kr. 353.808 og að hann fái greiddar kr. 661.887 að viðbættri hlutdeild í vöxtum af peningalegri eign dánarbúsins frá 30. mars 2000. Þá greiði sóknaraðilji Snorri Sigfússon varnaraðilja Grétari Indriðasyni kr. 200.000 í málskostnað auk virðisaukaskatts.
Úrskurð þennan kvað upp Ásgeir Pétur Ásgeirsson héraðsdómari.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Staðfest er frumvarp skiptastjóra, Benedikts Ólafssonar hdl., í dánarbúum Ólafar Guðmundsdóttur og Sigfúsar Baldvinssonar, dags. 30. mars 2000, með þeirri breytingu að varnaraðilja, Grétari Indriðasyni, verði úthlutað hlutabréfum í Íslenskri endurtryggingu h.f. að nafnverði kr. 353.808 og að hann fái greiddar kr. 661.887 að viðbættri hlutdeild í vöxtum af peningaeign dánarbúsins frá 30. mars 2000.
Sóknaraðilji, Snorri Sigfússon, greiði varnaraðilja, Grétari Indriðasyni, kr. 200.000 í málskostnað auk virðisaukaskatts.