Hæstiréttur íslands
Mál nr. 832/2014
Lykilorð
- Fjársvik
- Dráttur á máli
- Aðfinnslur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. desember 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun að fengnu áfrýjunarleyfi. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærðu verði gerð refsing.
Ákærða krefst aðallega sýknu, en til vara staðfestingar héraðsdóms.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærða verður dæmd til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Það athugist að verulegar dráttur hefur orðið á meðferð málsins eftir að héraðsdómur var kveðinn upp 16. apríl 2014 og er hann að hluta að rekja til ástæðna sem ekki varða ákærðu. Þannig bárust dómsgerðir Hæstarétti fyrst 26. október 2015 eða rúmum átta mánuðum eftir að þær voru afgreiddar frá héraðsdómi til embættis ríkissaksóknara. Ekki hafa verið gefnar haldbærar skýringar á þessum drætti og er hann aðfinnsluverður.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærða, Ingibjörg Eva Löve, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 412.621 krónu, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 372.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. apríl 2014.
Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 9. apríl 2014, er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 12. febrúar 2014, á hendur X, kt. [...], með dvalarstað að [...], Ingibjörgu Evu Löve, kt. [...], Einholti 9, Akureyri og Y, kt. [...], með óþekktan dvalarstað.
I
-
Á hendur ákærðu öllum fyrir fjársvik framin við Hafnarbraut 11, í Kópavogi að kvöldi þriðjudagsins 22. janúar 2013, með því að hafa í félagi blekkt A, til að greiða ákærðu Ingibjörgu Evu 40.000 krónur í reiðufé undir því yfirskyni að hann væri að greiða henni fyrir að stunda kynlíf með honum, en ákærðu skipulögðu brotið í sameiningu og mælti ákærða Ingibjörg Eva sér mót við A á ofangreindum stað eftir að ákærðu settu auglýsingu um kynlífsþjónustuna í dagblað og tók við greiðslunni út um glugga bifreiðar hans, en saman nýttu þau ávinninginn til fíkniefnakaupa.
Brot ákærðu teljast varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
-
Á hendur ákærðu X og Y fyrir tilraun til ráns þegar þeir í félagi, í framhaldi af atvikum þeim sem lýst er að framan og eftir að meðákærða Ingibjörg var farin af vettvangi, settust upp í bifreið A, ákærði Y fram í, en ákærði X aftur í bifreiðina þar sem ákærðu hugðust ræna A, með því að ákærði X hótaði A með því leggja hníf að hálsi hans meðan meðákærði tæki af honum fjármuni. Fór tilraunin út um þúfur vegna áverka sem ákærði X veitti honum áður en brotið var full framið eins og lýst er síðar.
Brot ákærðu teljast varða við 252. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga.
-
Á hendur ákærða X fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því hafa í framhaldi af því er hann lagði hníf að hálsi A eins og lýst er að framan, skorið hann í hálsinn með þeim afleiðingum að A hlaut tvo skurði annan u.þ.b. 4 cm langan frá vinstra kjálkabarði yfir það og skáhallt niður á við í átt að hálsæðum en hinn svipað langan en dýpri flipaskurð þvert á hálsinn í átt að barkanum.
Brot ákærða telst varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.
II
-
Á hendur ákærða X fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa, að morgni þriðjudagsins 2. júlí 2013, veist að B á heimili hans að [...], með hnífi og veitt honum 10 cm langt skurðsár á hægri framhandlegg fyrir ofan úlnlið.
Brot ákærða telst varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
A, kt. [...], krefst þess að ákærða X verði gert að greiða honum bætur að fjárhæð 3.149.094 krónur, auk vaxta og dráttarvaxta samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.
B, kt. [...] krefst þess að ákærða X verði gert að greiða honum miskabætur að fjárhæð 1.500.000 krónur, auk vaxta og dráttarvaxta samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu.
Verjandi ákærða X krefst þess að ákærði verði sýknaður af ákærulið I.1, en dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa vegna háttsemi sem lýst er í öðrum ákæruliðum. Þá krefst hann þess að bætur í málinu verði lækkaðar.
Verjandi ákærðu Ingibjargar Evu krefst þess aðallega að ákærða verði sýknuð af kröfum ákæruvalds, til vara að ákærðu verði ekki dæmd refsing, en til þrautavara að dæmd refsing verði bundin skilorði.
Verjandi ákærða Y krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, en til vara að honum verði ekki gerð refsing samkvæmt ákærulið I.1, en hann dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa vegna ákæruliðar I.2.
Loks krefjast verjendur hæfilegra málsvarnarlauna, sem greiðist úr ríkissjóði.
I. kafli ákæru
Samkvæmt skýrslu lögreglu barst Neyðarlínunni símtal frá A þriðjudagskvöldið 22. janúar 2013. A kvaðst vera staddur við Hamarsbraut 11 í Kópavogi og óskaði eftir aðstoð þar sem hann hefði verið skorinn. Lögreglumenn fóru á vettvang og hittu þar A, sem reyndist vera alblóðugur og virtist vera töluvert stórt sár á hálsi hans, undir höku og blóðlifrar þar um, auk þess sem blóð var í bifreið hans. A greindi frá því að hann hefði komist í kynni við stúlku í gegnum smáauglýsingu í Fréttablaðinu. Hefði hann mælt sér mót við stúlkuna þetta kvöld á þessum stað og hringt í símanúmer sem hún hefði áður gefið upp þegar þangað kom. Stúlkan hefði komið út að bifreið hans og hefði hann greitt henni 40.000 krónur fyrir kynlífsþjónustu, en hún hefði þá sagst þurfa að skreppa aðeins. Hefði stúlkan gengið í burtu, en tveir menn komið að bifreiðinni og hefði annar sest í farþegasæti fram í en hinn í aftursæti. Hefði maðurinn sem sat í aftursætinu stungið hann eða skorið í hálsinn svo að honum fossblæddi, en hann hefði forðað sér út úr bifreiðinni og mennirnir horfið brott af vettvangi. Var A fluttur á slysa- og bráðadeild Landspítala.
Samkvæmt vottorði C sérfræðilæknis á slysa- og bráðadeild reyndist A vera með um fjögurra cm langan skurð á vinstra kjálkabarði sem byrjaði við höku en lá síðan skáhallt niður á við í átt að hálsæðum. Neðar á hálsinum var annað skurðsár þar sem skorist hafði inn í húðina nokkuð dýpra inn í átt að barkanum. Voru sárin saumuð með 14 til 15 sporum. Læknisvottorðinu fylgja ljósmyndir af áverkum.
Símanúmerið sem A sagðist hafa hringt í til að ná sambandi við stúlkuna, sem að framan greinir, reyndist tengjast ákærða Y. Voru ákærðu Y og X handteknir nokkrum dögum eftir atvikið og ákærðu yfirheyrð í kjölfarið. Þau játuðu aðild sína að málinu og vísaði ákærði X á hnífinn, sem hann hefði notað við verknaðinn. Í málinu er skýrsla tæknideildar lögreglu um hnífinn, sem reyndist vera flökunarhnífur með 10 cm löngu blaði.
Verður nú gerð grein fyrir framburði ákærðu og vitna við aðalmeðferð málsins.
Ákærði X játaði þá háttsemi sem honum er gefin að sök í I. kafla ákæru, að öðru leyti en því að hann kvaðst ekki hafa komið að því að setja auglýsingu um kynlífsþjónustu í dagblað, eins og þar er rakið, heldur hefði nafngreind vinkona þeirra Y lesið inn auglýsingu á svonefndu Rauða torgi og dagblaðsauglýsing birst í framhaldi af því. Ákærði kvaðst hafa verið með hníf í fórum sínum umrætt sinn og hefði hann ætlað að nota hann til að ógna manninum í bifreiðinni í því skyni að hafa af honum fé. Hann kvað þá Y ekkert hafa rætt um þetta áður en þeir settust inn í bifreiðina. Þá kvaðst ákærði ekki hafa ætlað að skera manninn, heldur hefði hann byrjað að sprikla þegar ákærði lagði hnífinn við háls hans og skorist í látunum. Hefði Y öskrað: „Hvað ertu að gera maður“, þegar þetta gerðist. Borinn var undir ákærða framburður hans við yfirheyrslu hjá lögreglu 27. janúar 2013, þar sem meðal annars kom fram að þeir meðákærði hefðu verið búnir að ræða það áður en þeir settust inn í bifreiðina hvernig þeir ætluðu að stela frá manninum og hefði Y ætlað að fara í vasa mannsins á meðan hann beindi hnífnum að hálsi hans. Ákærði kvaðst fyrir dóminum ekki geta skýrt hvers vegna hann hefði borið á þennan veg við yfirheyrsluna og áréttaði að frásögn hans af atvikum við aðalmeðferðina væri rétt.
Ákærði Y játaði rétta þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákærulið I.1, að öðru leyti en því að hann kvað þau ákærðu ekki hafa sett auglýsingu í dagblað, eins og þar er lýst, heldur hefði vinkona þeirra lesið inn á auglýsingu og gefið upp símanúmer hans í því sambandi. Að því er varðar ákærulið I.2 bar ákærði að hann hefði sest inn í bifreiðina með meðákærða til að hræða manninn, svo að hann myndi ekki elta Ingibjörgu af vettvangi. Þeir X hefðu ekkert rætt um að ræna manninn og hefði hann ekki vitað að X var með hníf meðferðis. Ákærði kvaðst hafa verið ósáttur við athafnir X í bifreiðinni og hefði hann gripið í hönd X þegar hann skar manninn, til að stöðva hann. Maðurinn hefði reynt að komast út úr bifreiðinni en verið fastur í öryggisbeltinu. Ákærði kvaðst hafa losað öryggisbeltið fyrir hann, kastað til hans símanum hans og sagt honum að hringja eftir aðstoð. Þá kvaðst ákærða ráma í að hann hefði boðist til að aka manninum á sjúkrahús.
Ákærða Ingibjörg kvað lýsingu atvika í 1. ákærulið vera rétta, að því undanskildu að hún hefði ekki komið að því að setja auglýsingu í dagblað, svo sem þar greinir. Ákærða kvaðst hafa blandast í þetta mál fyrir tilviljun. Hún hefði komið að hitta meðákærðu þennan dag í íbúð sem þeir dvöldu í við Hamarsbraut. Þeir hefðu verið að undirbúa þetta þegar hún kom og þurft á konu að halda til að ræða í síma við mann sem hefði svarað auglýsingunni. Ákærða kvaðst ekki hafa þorað annað en gera það sem þeir sögðu. Hefðu þau Y í sameiningu skrifað niður á blað það sem hún átti að segja við manninn. Hún hefði átt að mæla sér mót við hann og taka við peningum frá honum, en fara svo aftur inn í húsið. Ákærðu hefðu farið út með henni og beðið eftir manninum. Þeir hefðu ekki rætt um að þeir ætluðu í kjölfarið að reyna að ræna manninn. Þá kvaðst ákærða ekki hafa vitað að X var með hníf meðferðis. Ákærða kvaðst hafa hræðst Y, en það væri „löng saga“ á milli þeirra og hefði hún orðið fyrir ofbeldi af hans hálfu. Þá kvað hún ástand sitt hafa verið slæmt á þessum tíma, hún hefði verið í mikilli óreglu og heimilislaus.
Vitnið A kvaðst hafa hringt í símanúmer á Rauða torginu, eftir að hafa séð það auglýst í dagblaði. Hefði einhver stúlka lesið inn á auglýsingu sem þar var spiluð, en ekki kvaðst vitnið vita hvort það var stúlkan sem hann hitti síðar. Vitnið kvað sms skilaboð hafa gengið á milli þar sem ákveðið hefði verið hvað hann myndi greiða fyrir kynlíf með stúlkunni. Hann hefði síðan mælt sér mót við stúlkuna í því skyni að eiga við hana kynferðismök gegn greiðslu, eins og í ákæru greinir. Hann hefði ekið á mótsstaðinn við Hafnarbraut 11 og hitt þar stúlku, sem hann hefði rétt 40.000 krónur út um glugga bifreiðarinnar. Stúlkan hefði þá gengið á brott, en tveir menn sest inn í bifreiðina, annar við hlið hans, en hinn í aftursætið. Sá sem sat í framsætinu hefði spurt hann hvað hann hefði ætlað að gera með stúlkunni. Síðan hefði maðurinn sem sat í aftursætinu gripið í öryggisbeltið sem hann hafði um sig og stungið hann eða skorið með hnífi. Vitnið neitaði því að hann hefði verið að hreyfa sig þegar þetta gerðist. Hann kvað svo hafa virst sem manninum sem sat við hlið hans hefði brugðið við þetta og hefði hann sagt: „Það blæðir úr þér, farðu, flýðu í burtu.“ Hefði maðurinn síðan hent til hans símanum hans, sem hann hefði áður tekið af honum inni í bifreiðinni. Mennirnir hefðu síðan horfið á brott, en vitnið kvaðst hafa hringt í Neyðarlínuna.
D lögreglumaður kom fyrir dóminn sem vitni og gerði grein fyrir rannsókn málsins. Vitnið staðfesti meðal annars að hafa tekið skýrslu af stúlku, sem hefði kannast við að hafa lesið umrædda auglýsingu á hljóðupptöku á Rauða torginu. Hefði stúlkan sagst hafa gert þetta til að stríða ákærða Y.
Niðurstaða
Ákæruliður I.1. Ákærðu játa að hafa framið þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í ákærulið I.1, að öðru leyti en því að þau kannast ekki við að hafa sett auglýsingu um kynlífsþjónustu í dagblað, eins og þar greinir. Ákærðu bera hins vegar fyrir sig að þau beri ekki refsiábyrgð vegna háttseminnar, þar sem vændiskaup varði refsingu samkvæmt almennum hegningarlögum og geti sá sem uppvís verður að slíkri háttsemi ekki notið réttarverndar samkvæmt 248. gr. almennra hegningarlaga.
Með játningu ákærðu og gögnum málsins að öðru leyti er sannað að ákærðu hafi staðið saman að því að blekkja A með þeim hætti sem í ákæru greinir og að ásetningur þeirra hafi staðið til þess að hafa af honum fé, sem raunin varð. Sú háttsemi varðar ákærðu refsingu samkvæmt 248. gr. almennra hegningarlaga. Breytir ekki þeirri niðurstöðu að sá sem fyrir brotinu varð kunni með háttsemi sinni að hafa unnið sér til refsingar samkvæmt 206. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt framansögðu verða ákærðu sakfelld samkvæmt ákærulið I.1, að því undanskildu að ekki hefur verið sýnt fram á að þau hafi komið að dagblaðsauglýsingu, sem þar er lýst og ber að sýkna þau af ákæru að því leyti. Er háttsemin rétt færð til refsiákvæða í ákæru.
Ákæruliður I.2. Ákærði X játar sök samkvæmt ákærulið I.2. Með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins er sannað að hann er sekur um þá háttsemi sem honum er þar gefin að sök og er brot hans rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru.
Ákærði Y neitar sök samkvæmt sama ákærulið og kveður ásetning sinn ekki hafa staðið til þess að ræna A, heldur hafi hann sest upp í bifreiðina til hans til að varna því að hann fylgdi Ingibjörgu Evu eftir. Bar meðákærði X fyrir dóminum að þeir hefðu ekki rætt það sín á milli að ræna A og hefði Y ekki vitað um þá fyrirætlan sína. Samkvæmt framansögðu, og með vísan til 108. gr. og 109. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 telst ósannað að ákærði Y hafi haft í hyggju að ræna A, eins og honum er gefið að sök í ákæru og verður hann sýknaður af kröfum ákæruvalds að því leyti.
Ákæruliður I.3. Ákærði X hefur fyrir dómi játað sök samkvæmt ákærulið I.3, en bar þó að um óviljaverk hefði verið að ræða. Lýsti ákærði atvikum svo að A hefði byrjað að „sprikla“ þegar hann lagði hnífinn við háls hans og skorist við það. Framburður ákærða að þessu leyti er í ósamræmi við framburð A, sem neitaði að hafa hreyft sig umrætt sinn, sem og framburð meðákærða Y, sem kvaðst hafa gripið í hönd ákærða þegar hann skar manninn, til að stöðva hann. Svo sem rakið hefur verið hlaut A tvö skurðsár á kjálkabarð og undir háls og var um nokkuð djúpa áverka að ræða, svo sem vel sést á ljósmyndum sem liggja fyrir í málinu. Verður að telja ólíklegt að slíkir áverkar hafi orðið með þeim hætti sem ákærði hefur lýst. Samkvæmt framansögðu þykir verða að hafna sem ótrúverðugum framburði ákærða um að um óviljaverk hafi verið að ræða og verður verknaðurinn virtur honum til ásetnings. Ber því að sakfella ákærða samkvæmt þessum ákærulið og er háttsemi hans þar rétt færð til refsiðákvæða.
II. kafli ákæru
Ákærði X játar sök samkvæmt ákærulið II.4. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að hann er sekur um þá háttsemi sem honum er þar gefin að sök og er brot hans rétt fært til refsiákvæða í ákæru.
Viðurlög, skaðabætur og sakarkostnaður
Ákærða Ingibjörg Eva Löve er fædd í júlí 1993 og hefur hún ekki áður sætt refsingu. Ákærða hefur borið að tilviljun hafi ráðið því að hún kom að hitta meðákærðu þennan dag og hafi hún ekki þorað öðru en að fallast á að taka þátt í fjársvikabroti þeirra. Kom jafnframt fram hjá ákærðu að hún teldi sig hafa ástæðu til að óttast ákærða Y. Hefur framburði hennar um þetta ekki verið hnekkt. Með vísan til framangreinds þykir rétt að fresta ákvörðun refsingar ákærðu og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi hún almennt skilorð samkvæmt 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði Y er fæddur í [...] 1982 og nær sakaferill hans aftur til ársins 1998. Ákærði er í máli þessu sakfelldur fyrir fjársvik. Samkvæmt sakavottorði hefur hann 13 sinnum verið dæmdur til refsingar fyrir umferðarlagabrot, fíkniefnalagabrot, skjalafals, fjársvik, þjófnað, nytjastuld og líkamsárásir. Þá hefur hann þrívegis gengist undir lögreglustjórasáttir fyrir umferðarlagabrot og tvisvar gengist undir viðurlagaákvarðanir fyrir þjófnað, fíkniefnabrot og umferðarlagabrot. Síðast var ákærði dæmdur 29. nóvember 2013 til 16 mánaða fangelsisrefsingar fyrir brot gegn 244. gr., 244. gr. sbr. 20. gr. og 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga, auk brota gegn umferðarlögum og fíkniefnalögum, en 330 daga reynslulausn vegna eldri refsidóma var þá jafnframt dæmd upp. Verður refsing í máli þessu dæmd sem hegningarauki við síðastgreindan refsidóm, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Þótt jafnframt verði litið til ákvæða 2. mgr. 70. gr. og 255. gr. almennra hegningarlaga er það mat dómsins að brot það sem ákærði er nú sakfelldur fyrir hefði ekki leitt til þyngri refsingar en ákærða var gert að sæta með fyrrgreindum dómi. Verður ákærða því ekki gerð sérstök refsing í máli þessu.
Ákærði X er fæddur í [...] 1992. Hann er í máli þessu sakfelldur fyrir fjársvik, ránstilraun og tvær sérstaklega hættulegar líkamsárásir þar sem hnífi var beitt gegn brotaþolum. Samkvæmt sakavottorði hefur hann frá árinu 2008 hlotið 11 refsidóma fyrir auðgunarbrot, rán, nytjastuld, brot gegn valdstjórninni, hótanir, frelsissviptingu og líkamsárásir, meðal annars brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Þá hefur hann þrívegis gengist undir lögreglustjórasáttir vegna fíkniefnialagabrota og einu sinni undir viðurlagaákvörðun vegna umferðar- og fíkniefnalagabrota. Síðast var ákærði dæmdur 14. febrúar 2014 til tveggja ára og sex mánaða fangelsisrefsingar fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. og 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga. Refsing ákærða verður tiltekin eftir reglum 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga. Til refsiþyngingar horfir að um samverknað var að ræða, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Þá hafa eldri refsidómar sem ákærði hefur hlotið fyrir ofbeldis- og auðgunarbrot ítrekunaráhrif í málinu, sbr. 1. mgr. 218. gr. b og 255. gr. almennra hegningarlaga. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár.
Af hálfu A er krafist skaðabóta úr hendi ákærða X að fjárhæð 3.149.094 krónur auk vaxta. Við aðalmeðferð málsins féll réttargæslumaður brotaþola frá bótakröfu á hendur ákærða Y. Krafist er miskabóta að fjárhæð 3.000.000 króna, auk málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti. Sú háttsemi ákærða að skera brotaþola tvívegis í háls var stórhættuleg og hlaut brotaþoli af þessu tvö djúp skurðsár, sem skilið hafa eftir sig áberandi ör. Brotaþoli á rétt á miskabótum úr hendi ákærða samkvæmt a-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 1.500.000 krónur, með vöxtum sem í dómsorði greinir, en það athugast að upphafsdagur vaxta sem krafist er í bótakröfu hefur misritast í ákæru. Brotaþola var skipaður réttargæslumaður við þingfestingu málsins og verður réttargæsluþóknun ákveðin í einu lagi vegna vinnu við gerð bótakröfu og við meðferð málsins fyrir dómi.
Af hálfu B er krafist miskabóta úr hendi ákærða X að fjárhæð 1.500.000 krónur auk vaxta, en réttargæslumaður lýsti því yfir við flutning málsins fyrir dómi að miskabótakrafa væri lækkuð frá því sem í ákæru greinir. Ákærði lagði til brotaþola með hnífi, með þeim afleiðingum sem í ákæru getur og lýst er í fyrirliggjandi læknisvottorðum. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga verða brotaþola dæmdar miskabætur, sem þykja hæfilega ákveðnar 1.000.000 króna, með vöxtum sem í dómsorði greinir.
Ákærða Ingibjörg Eva greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóhönnu Sigurjónsdóttur hdl., 690.250 krónur. Ákærði X greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Inga Freys Ágústssonar hdl., 690.250 krónur, þóknun réttargæslumanna brotaþola, Daníels Pálmasonar hdl., 313.750 krónur, Gunnhildar Pétursdóttur hdl., 323.163 krónur, og réttargæslumanns A við lögreglurannsókn málsins, Bjarna Haukssonar hrl., 25.100 krónur. Ákærði X greiði jafnframt 115.678 krónur í annan sakarkostnað. Ákærði Y greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., 690.250 krónur. Þóknun lögmanna er vegna vinnu á rannsóknarstigi málsins og við meðferð málsins fyrir dómi, að meðtöldum virðisaukaskatti.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari.
Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Ákvörðun refsingar ákærðu, Ingibjargar Evu Löve, er frestað og fellur hún niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði, X, sæti fangelsi í tvö ár.
Ákærða, Y, er ekki gerð sérstök refsing.
Ákærði X greiði A 1.500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 22. janúar 2013 til 6. apríl 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði X greiði B 1.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá 2. júlí 2013 til 6. apríl 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærða Ingibjörg Eva greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóhönnu Sigurjónsdóttur hdl., 690.250 krónur. Ákærði X greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Inga Freys Ágústssonar hdl., 690.250 krónur, þóknun réttargæslumanna brotaþola, Daníels Pálmasonar hdl., 313.750 krónur, Gunnhildar Pétursdóttur hdl., 323.163 krónur, og Bjarna Haukssonar hrl., 25.100 krónur. Ákærði X greiði 115.678 krónur í annan sakarkostnað. Ákærði Y greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., 690.250 krónur.