Hæstiréttur íslands
Mál nr. 33/2012
Lykilorð
- Líkamsárás
- Hættubrot
- Brot gegn valdstjórninni
- Eignaspjöll
- Umferðarlagabrot
- Fíkniefnalagabrot
- Refsiheimild
- Málshraði
- Verjandi
|
|
Fimmtudaginn 24. maí 2012. |
|
Nr. 33/2012.
|
Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari) gegn Herði Þráinssyni (Kristján Stefánsson hrl.) |
Líkamsárás. Hættubrot. Brot gegn valdstjórninni. Eignaspjöll. Umferðarlagabrot. Fíkniefnalagabrot. Refsiheimild. Málshraði. Verjandi.
H var auk fíkniefnabrota sakfelldur fyrir tilraun til hættulegrar líkamsárásar, hættubrot, brot gegn valdstjórninni, eignaspjöll og umferðarlagabrot með því að hafa ekið á lögreglubifreið, hurðir á slökkvistöð og síðan á ofsahraða undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Með hliðsjón af því að óhæfilegur dráttur hafði orðið á meðferð málsins var refsing H ákveðin fangelsi í 2 ár og 6 mánuði þrátt fyrir að Hæstiréttur teldi efni til að dæma hann til þyngri refsingar meðal annars í ljósi þess að hluti þeirra brota sem hann var sakfelldur fyrir hafi verið stórfelld og stofnað lífi og heilsu fjölda fólks í hættu. H var að auki sviptur ökurétti ævilangt og gert að sæta upptöku á fíkniefnum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 11. janúar 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru, refsing hans þyngd og hann sviptur ökurétti ævilangt.
Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað frá héraðsdómi, en til vara að því verði vísað heim í hérað. Að þessu frágengnu krefst ákærði sýknu af a. lið 3. töluliðar ákæru og sakargiftum samkvæmt c. og d. liðum sama töluliðar sem taldar eru varða við 168. gr. og 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Einnig er krafist sýknu af sakargiftum samkvæmt 4. og 5. töluliðum ákæru sem sagðar eru varða við 1. mgr. 106. gr., 2. mgr. 218. gr., sbr. 20. gr., og 257. gr. almennra hegningarlaga. Loks krefst ákærði þess að refsing hans verði milduð, svipting ökuréttar verði tímabundin og að upphafstími hennar verði frá 19. febrúar 2010.
I
Ákæra í máli þessu var gefin út 12. nóvember 2009 og var það þingfest 26. nóvember sama ár. Hinn 19. janúar 2010 fór fram aðalmeðferð og var málið tekið til dóms við lok hennar. Dómur var hins vegar ekki kveðinn upp fyrr en 19. febrúar sama ár þegar meira en fjórar vikur voru liðnar frá dómtöku. Var dóminum áfrýjað til Hæstaréttar sem ómerkti hann og vísaði málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju vegna þess hve lengi dómsuppkvaðning hafði dregist, án þess að málið væri flutt aftur eða því verið lýst yfir af dómara eða aðilum að þeir teldu það óþarft, sbr. dóm 23. september 2010 í máli nr. 283/2010. Í kjölfarið var kveðinn upp dómur í málinu sem áfrýjað var til Hæstaréttar. Þessi dómur var einnig ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar enn á ný þar sem dómari og málflytjendur höfðu talið að ekki væri „þörf á fullkomnum málflutningi“ áður en málið var dómtekið öðru sinni, sbr. dóm 27. október 2011 í máli nr. 27/2011.
Málið var næst tekið fyrir í héraði 16. og 23. nóvember 2011. Í síðara þinghaldinu óskaði ákærði eftir því að Jóhannes Albert Sævarsson hæstaréttarlögmaður, sem skipaður hafði verið verjandi hans við þingfestingu málsins, yrði leystur frá þeim starfa og annar nafngreindur lögmaður skipaður í hans stað. Einnig var þess krafist af hálfu ákærða að ný aðalmeðferð færi fram í málinu. Héraðsdómur hafnaði þessum kröfum ákærða með úrskurði 24. nóvember 2011. Var úrskurðurinn kærður til Hæstaréttar sem vísaði kærumálinu frá réttinum, sbr. dóm 30. nóvember sama ár í máli nr. 634/2011. Í framhaldinu var málið tekið fyrir 8. desember 2011 þar sem ákærði gaf skýrslu að nýju. Síðan fór fram munnlegur málflutningur og var málið tekið til dóms að honum loknum. Hinn 16. desember 2011 var kveðinn upp sá dómur sem hér er til úrlausnar.
II
Ákærði krefst þess eins og áður greinir að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað frá héraðsdómi, en til vara að því verði vísað heim í hérað. Hefur hann ekki fært nein haldbær rök fyrir aðalkröfunni, en skilja verður málatilbúnað hans svo að varakrafa hans sé einkum byggð á því að ekki hafi farið fram aðalmeðferð í málinu að nýju og honum hafi að ósekju verið synjað um að fá skipaðan nýjan verjanda eftir að Hæstiréttur hafði tvívegis ómerkt héraðsdóm í málinu. Ennfremur hafi héraðsdómarinn, sem kveðið hafði upp fyrri dómana, verið vanhæfur til að leggja dóm á málið í þriðja sinn, auk þess sem héraðsdómur hafi átt að vera fjölskipaður samkvæmt 3. gr. laga nr. 88/2008.
Í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, er mælt svo fyrir að sérhver, sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi, eigi rétt á að leyst sé úr máli hans innan hæfilegs tíma. Samkvæmt framansögðu er ljóst að meðferð þessa máls hefur dregist óhæfilega fyrir dómi án þess að ákærða verði um það kennt. Þegar málið var tekið fyrir í nóvember 2011 voru liðin tæp tvö ár frá því að það hafði verið þingfest. Af þeim sökum var brýnt að meðferð þess yrði hraðað svo sem kostur væri, þó þannig að það bitnaði ekki á réttindum ákærða sem honum er tryggð í fyrrgreindum ákvæðum stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu. Að teknu tilliti til fyrrgreindrar meginreglu um hraða málsmeðferð og vegna þess að aðalmeðferð í málinu hafði verið háð fyrir héraðsdómaranum 19. janúar 2010 verður fallist á þá niðurstöðu hans að óþarft hafi verið að endurtaka hana, heldur var nægilegt að ákærða gæfist kostur á að gefa skýrslu fyrir dómi að nýju svo sem hann gerði. Af gögnum málsins verður heldur ekki séð að farið hafi verið fram á það af hans hálfu að ný vitni yrðu leidd eða vitni, sem áður höfðu gefið skýrslu við aðalmeðferð, kæmu aftur fyrir dóm.
Eins og áður segir var Jóhannes Albert Sævarsson skipaður verjandi ákærða við þingfestingu málsins. Verður að líta svo á að það hafi verið gert að ósk ákærða þótt það hafi ekki sérstaklega verið fært til bókar þar sem lögmaðurinn var mættur með honum. Þegar ákærði óskaði eftir að verjandinn yrði leystur frá störfum og annar skipaður í hans stað fórust ákærða meðal annars svo orð þegar hann var inntur eftir því hver væri ástæðan fyrir þeirri beiðni: „Ég bara tel manninn ekkert getað gefið mér fullnægjandi varnir í svona máli ... hefur hann mætt ... og sagst vera fyrir mína hönd án þess að ég hafi vitað af ...“ Við meðferð málsins hér fyrir dómi var því lýst yfir af hálfu ákærða að verjandinn hafi ekki brotið gegn starfsskyldum sínum, heldur hafi orðið trúnaðarbrestur milli þeirra. Með því að synja ákærða um að fá skipaðan annan verjanda í hans stað hafi verið brotið gegn rétti hans til að halda uppi vörnum með aðstoð verjanda að eigin vali sem meðal annars sé mælt fyrir um í c. lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
Samkvæmt 1. mgr. 34. gr. laga nr. 88/2008 skal verða við ósk sakaðs manns um að skipun verjanda hans verði afturkölluð og nýr verjandi skipaður í hans stað nema hætta sé á að mál tefjist af þeim sökum. Fyrir liggur að hefði verið fallist á ósk ákærða um skipun nýs verjanda hefði verið óhjákvæmilegt að efna til nýrrar aðalmeðferðar í málinu með enn frekari drætti á meðferð þess. Að því gættu og með vísan til þess að ekkert bendir til þess að verjandinn, sem skipaður var til að gegna þeim starfa að ósk ákærða, hafi ekki sinnt starfsskyldum sínum með fullnægjandi hætti verður ekki talið að gengið hafi verið gegn rétti ákærða til að halda uppi vörnum í málinu þótt ósk hans hafi verið synjað.
Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaði dómi er sakfelling ákærða reist að verulegu leyti á játningu hans sjálfs og sýnilegum sönnunargögnum. Af þeim sökum hefur niðurstaða um sakfellingu einungis ráðist öðrum þræði af mati héraðsdómara á sönnunargildi munnlegs framburðar ákærða og vitna fyrir dómi. Meðal annars í því ljósi verður ekki litið svo á að ástæða hafi verið til að víkja í þessu máli frá þeirri meginreglu 2. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008 að einn héraðsdómari skuli skipa dóm í hverju máli. Sökum þess að dómarnir, sem héraðsdómarinn hafði áður kveðið upp, höfðu ekki verið ómerktir fyrir þá sök að niðurstaða hans um sönnunargildi munnlegs framburðar kynni að hafa verið röng, sem er skilyrði þess að niðurlagsákvæðið í 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 eigi við, var ekkert tilefni til að hann viki sæti við áframhaldandi meðferð málsins. Þá hafa heldur ekki verið færð rök fyrir því að hann hafi verið vanhæfur til að fara með málið af öðrum ástæðum, sbr. 6. gr. sömu laga.
Með skírskotun til þess, sem að framan er rakið, verður ekki fallist á kröfu ákærða um ómerkingu hins áfrýjaða dóms.
III
Samkvæmt 1. og 2. töluliðum ákæru eru ákærða gefin að sök fíkniefnabrot. Í 3., 4. og 5. töluliðum hennar er hann talinn hafa gerst sekur um margvísleg brot að kvöldi 21. júní 2009, þar á meðal tilraunir til sérstaklegra hættulegra líkamsárása, atlögur að opinberum starfsmönnum, eignaspjöll og hættubrot þar sem lífi og velferð fjölda fólks hafi verið stofnað í hættu að ástæðulausu.
Í c. lið 3. töluliðar ákæru er ákærði sagður hafa ekið á allt að 140 kílómetra hraða á klukkustund norður Bústaðaveg og Snorrabraut þar sem hámarkshraði var 50 kílómetrar á klukkustund. Ekki verður talið fullsannað að bifreið ákærða hafi verið ekið svo hratt umrætt sinn, en hins vegar er hafið yfir skynsamlegan vafa að hraði hennar hafi verið langt yfir 100 kílómetrar á klukkustund. Þar sem ákærði ók í umrætt skipti sannanlega meira en tvöfalt hraðar en heimilt var skiptir það atriði máli við ákvörðun um sviptingu ökuréttar, sbr. til hliðsjónar 4. mgr. 101. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 7. gr. laga nr. 69/2007.
Háttsemi sú, sem ákærða er gefin að sök í 3. tölulið ákæru, er meðal annars talin varða við 1. mgr. 4. gr. umferðarlaga. Samkvæmt því ákvæði skal vegfarandi sýna tillitssemi og varúð svo að eigi leiði til hættu eða valdi tjóni eða óþægindum, og þannig að eigi trufli eða tefji umferð að óþörfu. Einnig skal hann sýna þeim, sem búa eða staddir eru við veg, tillitsemi. Ákvæði þetta er svo almennt orðað að það getur ekki talist viðhlítandi refsiheimild að íslenskum rétti, sbr. 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Sökum þess verður ákærða ekki refsað fyrir brot á því.
Samkvæmt 4. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga skal því aðeins höfða mál út af broti á 1. mgr. sömu lagagreinar að sá, sem misgert var við, hafi krafist þess. Ekki kemur fram í gögnum málsins að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu eða annað til þess bært stjórnvald hafi krafist þess að höfðað væri mál á hendur ákærða vegna skemmda á lögreglubifreiðinni 07-211 sem honum er gefið að sök í 5. tölulið ákæru að vera valdur að svo að varði við 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga. Með vísan til 4. mgr. þeirrar lagagreinar, sbr. 1. mgr. 144. gr. laga nr. 88/2008, er þessum þætti ákærunnar því vísað frá héraðsdómi.
Að því virtu, sem að framan segir, og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er fallist á þá niðurstöðu hans að sakfella beri ákærða fyrir þá refsiverðu háttsemi, sem hann er ákærður fyrir, að undanskildum eignaspjöllum á lögreglubifreiðinni 07-211 samkvæmt 5. tölulið ákæru. Eru brot hans að öðru leyti réttilega færð til refsiákvæða, að því undanskildu að honum verður ekki refsað fyrir brot á 1. mgr. 4. gr. umferðarlaga samkvæmt 3. tölulið ákæru.
Brotin sem ákærði er sakfelldur fyrir samkvæmt 3., 4. og 5. töluliðum ákæru eru stórfelld og stofnaði hann með þeirri háttsemi, sem þar er lýst, lífi og heilsu fjölda fólks í hættu að tilefnislausu og á einkar ófyrirleitinn hátt. Ásetningur hans til að fremja brotin var einbeittur og mikil mildi að ekki fór mun verr. Með hliðsjón af því hve þung refsing er lögð við þessum brotum og að teknu tilliti til brota ákærða samkvæmt 1. og 2. töluliðum ákæru, svo og þess brots sem hann var sakfelldur fyrir með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 30. september 2011, eru efni til að dæma hann til þyngri refsingar en gert var í hinum áfrýjaða dómi. Sé hins vegar litið til þess óhæfilega dráttar, sem orðið hefur á meðferð máls þessa og gerð hefur verið grein fyrir, verður ákvörðun héraðsdóms um fangelsisrefsingu hans staðfest. Frá refsingunni skal draga gæsluvarðhald sem ákærði sætti frá 22. til 29. júní 2009.
Með vísan til stórfelldra brota ákærða á ákvæðum umferðarlaga, þar á meðal brots á 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. og ítrekaðra brota á 45. gr. a., skal hann sviptur ökurétti ævilangt á grundvelli 101. gr., sbr. 3. og 6. mgr. 102. gr. laganna. Eru því ekki efni til að ákveða upphafstíma sviptingarinnar.
Staðfest er ákvörðun hins áfrýjaða dóms um eignaupptöku.
Samkvæmt 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 skal ákærði greiða allan sakarkostnað í héraði, 677.998 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns sem ákveðin voru með hinum áfrýjaða dómi. Ennfremur skal ákærði greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um refsingu ákærða, Harðar Þráinssonar, skal vera óraskað. Frá refsingunni dregst gæsluvarðhald sem hann sætti frá 22. til 29. júní 2009.
Ákærði skal sviptur ökurétti ævilangt.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um eignaupptöku skal vera óraskað.
Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins, þar á meðal þann sakarkostnað sem ákveðinn var í héraði, svo og áfrýjunarkostnað, 473.839 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. desember 2011.
Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 12. nóvember 2009, á hendur:
,,Herði Þráinssyni, kennitala [...],
[...].
1. Fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa laugardaginn 15. nóvember 2008 haft í vörslu sinni á heimili sínu að [...], [...], 1,81 g af hassi, 600,62 g af kannabislaufum og 38 kannabisplöntur sem ákærði hafði ræktað um nokkurt skeið.
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 4., 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 með áorðnum breytingum, og 2. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.
2. Fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa föstudaginn 5. mars 2009, í bifreiðinni [...], þar sem henni var lagt fyrir utan lögreglustöðina á Blönduósi, Hnjúkabyggð 33, haft í vörslu sinni 4,84 g af marihuana, sem lögregla fann við leit.
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 með áorðnum breytingum, og 2. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.
3. Fyrir umferðar- og hegningarlagabrot að kvöldi sunnudagsins 21. júní 2009 er ákærði ók jeppabifreiðinni [...] undir áhrifum áfengis (alkóhólmagn í blóði 1,79 °/oo) og ávana- og fíkniefna (tetrahydrókannabínól í blóði 4,4 ng/ml), án þess að sinna stöðvunarmerkjum lögreglu sem gefin voru með forgangsljósum og hljóðmerkjum, á köflum langt yfir leyfilegum hámarkshraða, um götur í Reykjavík þar sem talsverð umferð var, rigning og götur blautar, og þannig raskað umferðaröryggi á alfaraleið og á ófyrirleitinn hátt stofnað lífi eða heilsu vegfarenda á akstursleiðinni í augljósan háska. Ákærði ók sem hér greinir:
a. Frá heimili sínu að [...], eftir Flugvallarvegi og inn á bifreiðastæði við slökkvistöðina Skógarhlíð 14 án þess að sinna stöðvunarmerkjum lögreglu.
b. Frá Skógarhlíð og suður Bústaðaveg á móts við verslunina Select en ákærði bakkaði síðan bifreiðinni á mikilli ferð í norður áttina að lögreglubifreiðinni 06-296 sem ekið var á eftir bifreið ákærða með ljós- og hljóðmerkjum í því skyni að stöðva akstur ákærða, yfir umferðareyju sem aðskilur akstursstefnur á Bústaðavegi eftir að sjúkrabifreið hafði verið ekið inn í hlið bifreiðarinnar [...] í því skyni að stöðva akstur ákærða.
c. Yfir gatnamót Bústaðavegar og Skógarhlíðar án þess að sinna stöðvunarmerkjum lögreglu, norður Bústaðaveg og Snorrabraut á allt að 140 kílómetra hraða á klukkustund (km/klst) þar sem hámarkshraði var 50 km/klst, yfir gatnamót Hringbrautar og Bústaðavegar án þess að sinna stöðvunarmerkjum lögreglu, yfir gatnamót Snorrabrautar og Bergþórugötu svo óvarlega að ákærði ók utan í bifreiðina [...] sem þar var kyrrstæð, en í bifreiðinni voru ökumaður og tveir farþegar. Við áreksturinn kastaðist bifreiðin [...] yfir á bifreiðina [...] sem í var ökumaður, og varð talsvert tjón á báðum bifreiðunum. Ákærði ók bifreiðinni [...] viðstöðulaust áfram þrátt fyrir áreksturinn.
d. Gegn rauðu umferðarljósi yfir gatnamót Snorrabrautar og Laugavegs og gatnamót Snorrabrautar og Hverfisgötu á allt að 100 km/klst þar sem hámarkshraði var 50 km/klst., en akstri ákærða lauk í innkeyrslu athafnasvæðis lögreglunnar bakatil við lögreglustöðina á Hverfisgötu þar sem hann missti stjórn á bifreiðinni [...] sem var mikið skemmd eftir framangreindan háskaakstur ákærða.
Telst þetta varða við 1. mgr. 4. gr., 1. og 3. mgr. 5. gr., 1. mgr. 10. gr., 1. og 2. mgr. 36. gr., 1. mgr. 37. gr., 1. og 3. mgr. 45. gr., 1. og 2. mgr. 45. gr. a., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, 1. mgr. 168. gr. og 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
4. Fyrir brot gegn valdstjórninni, tilraun til sérstaklega hættulegrar líkamsárásar og eignaspjöll að kvöldi sunnudagsins 21. júní 2009 með því að hafa ekið bifreiðinni [...] á fimm útkeyrsluhurðir á húsnæði Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins við Skógarhlíð í Reykjavík en fjórir starfsmenn slökkviliðsins sem voru inni á slökkvistöðinni, þeir A, B, C og D komust naumlega undan bifreið ákærða er hann ók henni inn á stöðina í því skyni að valda þeim líkamstjóni. Tjónið sem ákærði olli á hurðum slökkvistöðvarinnar nam kr. 2.575.822.
Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr., 2. mgr. 218. gr., sbr. 20. gr., og 2. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga en til vara við 1. mgr. 106. gr., 4. mgr. 220. gr. og 2. mgr. 257. gr. sömu laga.
5. Fyrir brot gegn valdstjórninni, tilraun til sérstaklega hættulegrar líkamsárás og eignaspjöll að kvöldi sunnudagsins 21. júní 2009 með því að hafa á Flugvallarvegi á móts við slökkvistöðina bakkað bifreiðinni [...] á mikilli ferð framan á lögreglubifreiðina 07-211 sem í voru lögreglumennirnir E og F, í því skyni að valda þeim líkamstjóni. Ákærði ók því næst á eftir lögreglubifreiðinni sem bakkað var inn á bifreiðastæði framan við slökkvistöðina og gerði sig líklegan til að aka aftur á hana en lögreglumennirnir komust við illan leik út úr stórskemmdri lögreglubifreiðinni og inn á slökkvistöðina.
Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr., 2. mgr. 218. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr., og 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara við 1. mgr. 106. gr., 4. mgr. 220. gr. og 1. mgr. 257. gr. sömu laga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga, og greiðslu alls sakarkostnaðar. Jafnframt er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að sæta upptöku á 1,81 g af hassi, 4,84 g af mariuhana, 600,62 g af kannabislaufum og 38 kannabisplöntum, samkvæmt 5. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/1998.“
Verjandi ákærða krefst sýknu af a-, c- og d-lið 3. töluliðar ákæru og af 4. og 5. tölulið ákæru. Að öðru leyti er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og að sviptingartíma ökuréttar verði markaður eins skammur tími og lög heimila. Málsvarnarlauna er krafist úr ríkissjóði skv. framlagðri tímaskýrslu.
Mál þetta er nú dæmt eftir heimvísun. Ákærði óskaði eftir því að verjandinn, sem upphaflega var skipaður að hans ósk, yrði leystur frá verjandastarfanum og annar skipaður í hans stað. Leyst var úr kröfunni í réttarhaldi í málinu. Þar kom fram að ekki væru lagaskilyrði til þess að verða við kröfunni. Þá kom fram krafa um nýja aðalmeðferð í málinu. Kveðinn var upp úrskurður og kröfunni hafnað. Þar var tekið fram að ekki væri loku fyrir það skotið að ákærði og/eða einstök vitni gæfu skýrslu fyrir dómi áður en til munnlegs málflutnings kæmi, þætti ástæða til. Ákærði gaf stutta skýrslu. Ekki komu fram kröfur frá málflytjendum um frekari skýrslutökur. Að mati dómsins eru þær óþarfar.
Ákæruliðir 1 og 2.
Sannað er með skýlausri játningu ákærða fyrir dómi og með öðrum gögnum málsins að ákærði hafi gerst sekur um háttsemi þá sem í þessum ákæruliðum greinir og eru brot hans þar rétt færð til refsiákvæða. Skírskotað er til ákæruliðanna um lýsingu málavaxta.
Ákæruliður 3, a-d.
Ákærði játar ölvunarakstur og að hafa ekið eins og lýst er í a-lið þessa kafla ákærunnar. Hann kvaðst hins vegar ekki hafa neytt kannabis þennan dag. Það sem mældist í blóði ákærða hljóti að vera frá því fyrir nokkrum dögum að sögn ákærða. Hann kvaðst hafa ,,panikkað“ eftir að sjúkrabifreiðin ók á hann eins og lýst er í d-lið þessa kafla ákæru. Framburður ákærða um einstaka liði 3. tl. ákærunnar er mjög óljós og erfitt að henda reiður á framburði hans.
a-liður.
Ákærði kveðst hafa ekið leiðina sem lýst er í þessum ákærulið. Hann neitaði því að hafa ekki sinnt stöðvunarmerkjum lögreglu eins og lýst er í þessum ákærulið. Hann kvað lögregluna ekki hafa reynt að stöðva aksturinn.
b-liður.
Ákærði kvaðst hafa verið að reyna að stöðva bifreið sína á þeirri stundu er sjúkrabifreiðinni var ekið á bifreið hans, en hann hafi þá bakkað bifreið sinni í áttina að lögreglubifreiðinni númer 06-296. Ákærði kvað ekki hafa vakað fyrir sér að aka á lögreglubifreiðina er hann bakkaði bifreið sinni í áttina að henni áður en sjúkrabifreiðin ók á hann. Eftir áreksturinn kvaðst ákærði hafa ekið yfir umferðareyjuna eins og lýst er í ákærunni.
c-liður.
Ákærði kvaðst hafa ekið leiðina sem í c-lið ákæru greinir, en hann kvaðst ekki viss um ökuhraðann. Hann muni ekki eftir því að hafa ekið á jafnmikilli ferð og lýst er í ákærunni. Á upptöku I-vitness búnaðar í lögreglubifreiðinni, sem ók á eftir ákærða þessa leið kemur fram að lögreglumennirnir, sem voru í þeirri bifreið, nefna að lögreglubifreiðinni hafi verið ekið á 140 km hraða á kafla sem lýst er í ákærunni. Ákærði kvaðst hafa ekið langt á undan lögreglubifreiðinni og kvaðst ekki viss um ökuhraða sinn, en hann gæti hafa ekið á 90 km hraða á þessum tíma. Hann kvaðst hafa verið í panikk og hann hafi reiknað með hinu versta frá lögreglunni að sögn.
d-liður.
Ákærði kvaðst ekki geta svarað því hvort hann hafi ekið gegn rauðu umferðarljósi eins og lýst er í c- og d-liðum þessa kafla ákærunnar.
Ákæruliður 4
Ákærði kvaðst hafa ekið bifreið sinni á fimm hurðir slökkvistöðvarinnar og ekki keyrt á hurðirnar á fullri ferð, hann hafi ýtt á þær svo þær ýttust 10 til 15 cm inn undan bifreiðinni. Hann kvað ekki hafa vakað fyrir sér að valda neinum manni líkamstjóni með þessu háttalagi sínu. Ákærði kvað þannig lýsingu þessa ákæruliðar rétta, utan að hann hafi ekki ætlað að valda líkamstjóni og neitaði því tilraun til sérstaklega hættulegrar líkamsárásar eins og lýst er í ákærunni. Þá tók ákærði fram að hann hafi séð inn um allar dyrnar sem voru gegnsæjar og hann hafi því séð hvað væri fyrir innan hverja hurð. Ákærði mundi ekki eftir því að einar dyrnar hefðu verið opnar og að þar fyrir innan hefðu staðið fjórir starfsmenn slökkviliðsins og þeir hefðu komist naumlega undan bifreið ákærða eins og lýst er í þessum ákærulið. Ákærði tók fram að hafi þetta verið eins og lýst sé í ákærunni, hafi ekki vakað fyrir sér að valda mönnunum líkamstjóni. Spurður að því hvort hann myndi eftir því að hafa rætt við starfsmenn slökkviliðsins á þessum tíma, kvaðst hann muna eftir því að hafa öskrað eitthvað á þá. Hann myndi ekki hvað hann hefði sagt. Ákærða var kynntur vitnisburður um að hann hafi viðhaft þau ummæli að hann ætlaði að finna opinberan starfsmann og keyra á hann og drepa. Ákærði kvað ummæli sín vel geta verið á þessa leið, hann muni það ekki, en hann hafi verið mjög reiður á þessum tíma og látið ýmislegt fjúka. Þegar ákærði var spurður að því hvers vegna hann hefði farið að slökkvistöðinni, kom fram hjá honum að það hefði verið sökum þess að fyrr sama dag hefði hann verið í sambandi við fjarskiptamiðstöð lögreglu vegna þjófnaðar úr bát ákærða, sem staðsettur var í Hafnarfjarðarhöfn, og kvað hann erindi sínu ekki hafa verið sinnt. Því hafi hann reiðst mjög, en hann hafi verið ölvaður heima hjá sér og ekki vitað hvað hann ætti að taka til bragðs. Ástæða fararinnar í Skógarhlíðina hafi verið sú að ákærði hafi verið mjög reiður eða ,,brjálaður“ út í starfsmenn neyðarlínu og lögreglu, eins og hann lýsti fyrir dóminum. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa litið á starfsmenn slökkviliðsins sem neina óvini sína, en háttalag sitt skýrðist af því að hann hafi verið ,,fullur og vitlaus“. Hann kvaðst ekki geta svarað því hver hafi verið tilgangurinn með því að aka á hurðirnar á slökkviliðstöðinni. Hann skýrði það með því að hann hafi talið fyrrum samstarfsmann sinn hafa verið að eyðileggja bát sem hann átti og lögreglan hafi ekki sinnt erindi sínu er ákærði ræddi málin símleiðis við lögregluna fyrr sama dag. Reiði sín skýrðist að hluta af því og að hann hafi talið að verið væri að leggja lífsviðurværi fjölskyldunnar í rúst. Fram kom hjá ákærða að hann hafi ekki séð sér fært að fara í Hafnarfjarðarhöfn þar sem bátur hans lá, og taka á móti lögreglunni, en fram kom að lögreglan vissi ekki hvar báturinn var staðsettur.
Ákæruliður 5.
Ákærði játar að hafa bakkað á lögreglubifreiðina eins og hér er lýst. Hann kvaðst ekki hafa gert þetta í því skyni að valda lögreglumönnunum líkamstjóni, eins og lýst er í ákærunni og neitar hann þeim þætti ákærunnar. Hann vissi af lögreglubifreiðinni fyrir aftan, en kvaðst hafa talið lögreglumennina vera að færa sig. Ákærði kvaðst síðan hafa ekið á eftir lögreglubifreiðinni sem bakkað var inn á bifreiðastæði við slökkvistöðina eins og lýst var í ákærunni. Hann kvaðst þar enga tilraun hafa gert til að aka aftur á lögreglubifreiðina. Hann neitaði því að hafa gert sig líklegan til að aka á lögreglubílinn aftur, en kvaðst hafa séð úr bíl sínum að lögreglumennirnir í lögreglubifreiðinni voru eðlilega mjög hvumpnir. Þeir hafi verið að fara úr lögreglubílnum er ákærði kom að. Tilgangur eftirfararinnar inn á bifreiðastæði við slökkvistöðina hafi verið sá að hreyta frekari fúkyrðum í lögregluna, en ákærði kvaðst hafa öskrað eitthvað, en hann mundi ekki hvað. Spurður um minni sitt frá atburðum 21. júní 2009, sem lýst er í ákærunni, kvaðst hann muna eitthvað af þeim, hann muni þetta nokkuð heildstætt, en þó ekki fullkomlega.
Meðal gagna málsins er skýrsla af G, starfsmanni á Stöð 2, þess efnis að ákærði hafi þetta kvöld hringt í stöðina. Ákærði kvaðst muna eftir því að hafa hringt í einhvern, en mundi það ekki nánar. Honum var kynntur vitnisburður G og kvaðst ákærði ekki efast um að hann hafi viðhaft þau ummæli sem G lýsti.
Ákærði staðfesti að upptökur símtala meðal gagna málsins, væru upptökur af símtölum hans við fjarskiptamiðstöð og við lögreglu 21. júní 2009.
Vitnið G kvað ákærða hafa hringt í sig hinn 21. júní 2009 en vitnið var þá á vakt á Stöð 2. Ákærði hafi kvartað undan ofbeldi lögreglu í sinn garð og kvað lögreglu hafa lamið sig og gert að öryrkja. Maðurinn hafi þennan dag ekki fengið þá þjónustu sem hann taldi sig eiga rétt á. G kvaðst hafa bent manninum á að hafa samband daginn eftir. Sami maður hringdi aftur síðar sama kvöld og hafi honum verið enn heitara í hamsi en í fyrra samtalinu. Þá hafi maðurinn sagst vera að aka á trukki hratt inn í miðborgina. Honum hafi skilist á manninum að hann hafi ætlað að fjarskiptamiðstöð lögreglunnar og að hann hafi langað að valda lögreglu og fólki skaða. Hann kvað manninn hafa sagt að ef hann kæmi auga á lögreglubíl, þá myndi hann reyna að keyra á hann og að hann hafi notað stór orð, eins og að drepa eða myrða lögreglumenn eða opinbera starfsmenn. G hafi rætt við manninn og beðið hann um að fara heim til sín og hafa samband daginn eftir.
Vitnið A slökkviliðsmaður kvaðst hafa verið staddur á 2. hæð slökkvistöðvarinnar er hann ræddi við mjög æstan mann í símann og hafi maðurinn spurt hvort slökkviliðið væri í samstarfi við neyðarlínuna. Maðurinn hafi sagst ætla að koma inn og drepa opinberan starfsmann. Síðar hafi komið í ljós að maðurinn hafi verið fyrir utan húsið og þá heyrst mikið högg. Maðurinn hafi ítrekað í símanum að hann væri að koma inn og ætlaði að drepa opinberan starfsmann. A kvaðst þá hafa áttað sig á alvarleika málsins og hafi hann hlaupið niður ásamt B. Þá hafi hann séð jeppa á fullri ferð á bílaplani, norðan megin við slökkvistöðina, og bílnum hafi verið ekið á útkeyrsluhurð stöðvarinnar. A kvað næstystu dyrnar hafa verið opnaðar og þar fyrir innan hafi verið neyðarbíll sem vitnið var skráð á. Er vitnið stóð í dyrunum, rétt fyrir framan neyðarbílinn, hafi jeppinn komið að og ógnað þeim sem þarna stóðu og hafi þeir tvístrast um bílasalinn, en allir mennirnir, sem nefndir eru í ákærulið 4, hafi staðið þarna. A kvaðst ekki viss um að ákærði hefði séð þá sem þarna voru er hann ók að þeim. Hraðinn á jeppanum og stefna hafi gert það að verkum að þeim sem þarna voru fannst ökumaðurinn reyna að aka á þá og þeir vera í hættu af þessum sökum. Eftir þetta hafi jeppinn keyrt framan á neyðarbílinn, en bakkað frá og ekið á dyrnar við hliðina. Eftir ákeyrsluna ræddi bílstjórinn við starfsmenn slökkviliðsins sem þarna voru og ítrekaði maðurinn að hann ætlaði að finna lögreglumenn og opinbera starfsmenn í því skyni að drepa þá. C hafi reynt að róa manninn og fá hann til að drepa á bílnum og ræða við þá, en árangurslaust. Í sama mund heyrðist sírenuvæl og þá hafi maðurinn ekið í burtu og út flugvallarveginn og slökkvibíll á eftir. Síðan heyrðist högg og skömmu síðar kom lögreglubifreið bakkandi á fullri ferð inn á bílastæði við slökkvistöðina og jeppinn á eftir inn á planið og virtist ökumaður hika er hann sá sjúkrabíl ekið út úr húsinu. Vitnið kvað sér hafa virst sem ætlun ökumanns jeppans hafi verið sú að aka aftur á lögreglubifreiðina, en ökumaður hafi stöðugt gefið bílnum inn og vaggað honum þannig. A lýsti ökulagi ákærða eftir þetta og samskiptum við fjarskiptamiðstöðina. Hann lýsti því er ákærði ók upp Bústaðaveg og stöðvaði síðan og bakkaði í áttina að sjúkrabifreiðinni sem vitið ók. Vitnið kvað lögreglubifreið hafa verið fyrir aftan, en tekist hafi að koma í veg fyrir árekstur. Í því kom sjúkrabifreið sem ók inn í hlið jeppans og tókst að snúa honum. Jeppinn hafi þá farið yfir á akrein til vesturs og ekið á mikilli ferð niður Snorrabraut. Ákveðið var að fara á eftir og fylgjast með fólki. Tilgangur eftirfararinnar var að sinna fólki, hefði orðið slys á akstursleið jeppans. A lýsti umferð sem var á þessum slóðum á þessum tíma, en bæði bílaumferð og gangandi vegfarendur hafi átt leið um Snorrabrautina á þessum tíma.
Vitnið H, varðstjóri hjá slökkviliðinu, lýsti því er hann heyrði hávaða í bíl fyrir utan slökkvistöðina á þessum tíma. Er hann leit út sá hann jeppabifreið og virtist honum eins og ökumaður hennar ætlaði að bakka inn um aðalinngang neyðarlínunnar. Hann kvaðst hafa farið niður þegar að hann sá þetta og er hann kom þangað hafi ökumaður jeppans verið að undirbúa akstur á útkeyrsludyr slökkviliðsins eins og lýst er í ákærunni. Hann kvaðst hafa heyrt ökumann jeppans eiga einhver orðaskipti við starfsmenn slökkviliðsins sem þarna voru. H lýsti ástandinu og að hann hafi metið það svo að best væri að bíða eftir lögreglunni. Hann lýsti því er lögreglubifreið kom bakkandi inn á bílastæði við slökkvistöðina, eftir að jeppabifreiðin hafi bakkað á lögreglubifreiðina. Hann kvað sér þarna hafa orðið ljós alvara málsins. Hann kvað lögreglumennina hafa komið út úr lögreglubifreiðinni skelfingu lostna og hafi hann þá talið að hann yrði að bregðast við. Hann hafi þá farið upp í vara sjúkrabíl og ekið af stað í því skyni að stöðva akstur jeppabifreiðarinnar. Hann lýsti því er jeppabifreiðinni var ekið frá slökkvistöðinni og upp Bústaðaveg og vitnið á eftir. Þá hafi verið komin á vettvang önnur lögreglubifreið. Jeppabifreiðin hafi stöðvað fyrir framan verslun Select á Bústaðavegi og lögreglubifreiðin stöðvað fyrir aftan. Jeppabifreiðinni hafi verið bakkað í átt að lögreglubifreiðinni sem tókst að bakka undan. Vitnið hafi talið að lögreglubifreið gæti ekki stöðvað akstur jeppans og hafi hann ákveðið að aka á jeppann í því skyni að stöðva akstur hans. Þetta hafi ekki tekist og jeppabifreiðinni hafi verið ekið yfir umferðareyju og leiðina sem lýst er í ákærunni, uns akstrinum lauk við lögreglustöðina.
Vitnið C slökkviliðsmaður lýsti því er hann sá jeppabifreið aka á útkeyrsluhurð slökkvistöðvarinnar. Hann hafi kallað í félaga sinn og hafi þeir hlaupið að þar sem jeppabifreiðinni var enn ekið á hurð stöðvarinnar. C kvað einar dyrnar hafa verið opnaðar og þeir 4 sem nafngreindir eru í ákærulið 4 hafi staðið í dyrunum er jeppanum var ekið þangað og að bíl sem þar var inni. Er jeppinn kom hafi allir sem þarna voru hlaupið frá og kvaðst hann ekki hafa viljað verða á milli jeppans og slökkvibifreiðarinnar sem ekið var á og þurft að forða sér undan jeppanum. Hann kvaðst telja að ökumaður jeppans hafi séð starfsmenn slökkviliðsins sem þarna voru í dyrunum, og hann viti ekki hvað hafi vakað fyrir ákærða. Hann lýsti því að eftir þetta hafi ökumaður jeppans ekið á eina hurð til viðbótar uns hann lagði jeppanum. Hann var mjög reiður og öskraði á starfsmenn slökkviliðsins sem þarna voru. Komið hafi fram hjá ákærða að hann ætlaði að finna opinberan starfsmann og drepa. Háttalag ákærða hafi verið þannig að starfsmenn slökkviliðsins hafi ekki tekið þá áhættu að nálgast bifreiðina frekar, en jeppanum hafi verið haldið á stöðugu iði. Reynt hafi verið að fá ökumanninn út en án árangurs. Ökumaðurinn hafi verið mjög æstur og um það leyti sem heyrðist í hljóðmerkjum lögreglu, hafi hann ekið í burtu. Hann lýsti því er lögreglubifreið sem komið hafi skömmu síðar, hafi verið bakkað skemmdri inn á bílaplan slökkvistöðvarinnar. Í humátt á eftir kom jeppabifreiðin aftur og lögreglumennirnir sem í bifreiðinni voru hafi hlaupið í skjól inn á slökkvistöðina. C kvað aðstæður hafa verið eins og jeppinn hafi ætlað að aka aftur á lögreglubifreiðina.
Vitnið B slökkviliðsmaður lýsti því er A kom hlaupandi og tilkynnti um mann sem ætlaði að keyra á slökkvistöðina. Er þeir hlupu niður hafi maðurinn verið að aka á útkeyrsludyr slökkvistöðvarinnar. B kvaðst hafa opnað einar dyrnar og eftir það hafi ákærði ekið þar inn og á sjúkrabifreið sem þar var. Þeir 4 sem í ákærulið 4 greinir, hafi staðið þarna í eða við dyrnar sem B opnaði. B kvaðst ekki hafa þurft að forða sér undan jeppanum og haldið sig við hurðarpóstinn og jeppinn ekki getað ekið á hann þar sem hann stóð og hann hafi ekki talið sig vera í hættu. B kvaðst ekki vita hvað vakti fyrir ökumanninum sem var í miklu uppnámi. Eftir þetta ók ökumaðurinn á einar dyr til uns hann sneri bílnum og kallaði á starfsmenn slökkviliðsins að hann vildi drepa opinberan starfsmann og að hann fengi ekki þjónustu hjá neyðarlínunni. Reynt hafi verið að tala ökumanninn til, en það reynst erfitt. Er heyrst hafi í lögreglubifreið nálgast, hafi hann ekið í burtu. B kvað hafa verið ákveðið að halda í humátt á eftir jeppanum í öryggisskyni. Í sama mund og sjúkrabifreið hafi ekið út hafi lögreglubifreið, mikið skemmdri, verið bakkað inn á plan slökkvistöðvarinnar og jeppinn komið á eftir. Lögreglumennirnir hafi hlaupið inn á slökkvistöðina, en ökumaður jeppans hafi stillt bifreiðinni upp eins og hann ætlaði að aka aftur á lögreglubifreiðina, en hann viti hins vegar ekki hug ökumannsins. Síðan ók ökumaðurinn burt. Hann lýsti því er ökumaður jeppans stöðvaði á Bústaðarvegi við verslunina Select og gerði sig líklegan til að bakka á sjúkrabifreiðina sem vitnið var í, en sjúkrabifreiðinni hafi verið ekið á undan og inn á plan við Select. Er lögreglubifreiðin kom aftan að jeppanum virtist eins og jeppanum hafi átt að bakka á lögreglubifreiðina. Í sama mund var sjúkrabifreið ekið á jeppann eins og áður hefur verið lýst í vitnisburði H. Þá hafi jeppanum verið ekið leiðina sem lýst er í ákæru og ökuferðin endað við lögreglustöðina.
Vitnið D slökkviliðsmaður lýsti því er hann heyrði mikinn dynk á slökkvistöðinni. Er hann fór inn í bílageymslu sá hann hvers kyns var, en þá var verið að aka á útkeyrsluhurðir slökkvistöðvarinnar. D kvaðst hafa forðað sér frá er hann sá aksturslag jeppans og hann mundi ekki hvort einhver hefði staðið á milli bíls og hurðar sem jeppanum var ekið á. Hann kvaðst sjálfur hafa farið frá hurðunum er hann sá það sem fram fór. Hann hafi vikið sér frá er hann sá jeppabifreiðinni ekið í átt að dyrunum þar sem hann stóð ásamt fleirum, en bíll hafi verið þar fyrir innan. Reynt var að ná sambandi við ökumann jeppans, en hann mundi ekki hvað þeim fór á milli. Hann lýsti því er gjörónýtum lögreglubíl var bakkað inn á stæði við lögreglustöðina. D kvað lögreglumennina sem í bílnum voru hafa átt fótum fjör að launa og þeir hafi forðað sér inn á slökkvistöðina. Hann kvaðst hafa verið í bifreiðinni sem H varðstjóri ók á jeppabifreiðina. Eftir það ók jeppabifreiðin niður Snorrabraut.
Vitnið I slökkviliðsmaður lýsti því er hann sá til bíls sem ók á útkeyrsluhurðir slökkvistöðvarinnar. Hann kvað hafa verið búið að opna einar dyrnar er hann kom og þar fyrir utan hafi verið aðrir starfsmenn slökkviliðsins að reyna að hafa samband við ökumann jeppans, róa hann og biðja hann um að ræða við sig. Ökumaður neitaði þessu og sagðist ætla að skaða opinberan starfsmann og að hann hefði ekki fengið sömu þjónustu og aðrir. Hann hafi síðan ekið í burtu og stuttu síðar hafi lögreglubifreið komið mikið skemmd, bakkað inn á bílaplan við slökkvistöðina og jeppinn á eftir. Kristinn kvaðst ekki muna hvort ökumaðurinn hafi gert sig líklegan til að aka aftur á lögreglubílinn eftir að hafa veitt honum eftirför inn á bílaplanið. Lögreglumaðurinn og konan hafi farið út úr bílnum og hafi verið kallað á þau að koma sér inn í hús, en hann kvað viðstadda varla hafa hætt sér út úr húsinu. Hann kvað lögreglumönnunum hafa verið mjög brugðið, en rætt var við þau og athugað hvort væri í lagi með þau. Ákærði ók síðan í burtu og tveir sjúkrabílar á eftir.
Vitnið J kvaðst hafa séð af svölum heiman frá sér, er svartur jeppi ók hratt inn á bílaplanið við slökkvistöðina, ók hratt að hurð, stöðvaði þar en ók síðan á hurðina. Þá hafi jeppanum verið bakkað og því næst ekið á aðra hurð. Næst sá hún er starfsmenn slökkviliðsins voru komir út. Þá hafi lögreglubifreið komið, ekið á eftir jeppanum og horfið henni sjónum. Síðan sá hún er lögreglubílnum, sem var mikið skemmdur, var bakkað á fullri ferð inn á bílastæðið við slökkvistöðina. Lögreglumennirnir fóru þar úr bílnum. Jeppinn kom á eftir en ók síðan í burtu. Hún lýsti því að á þeim tíma sem þetta átti sér stað hafi hún séð til gangandi vegfarenda á göngustíg nærri og er jeppanum var ekið frá hafi verið kallað á vegfarendur og þeir varaðir við.
Vitnið K kvaðst hafa heyrt hraðaksturshljóð þar sem hún var stödd á heimili sínu. Er hún fór út á svalir, sem snúa að slökkvistöðinni, hafi hún séð jeppa sem var ekið á mikilli ferð upp Skógarhlíð þar sem honum var snúið við og ekið á miklum hraða til baka. Þannig hafi þetta gengið í nokkur skipti uns ekið var að útkeyrsluhurð slökkviliðsins þar sem bíllinn var stöðvaður, en honum síðan ekið á hurðina og þannig koll af kolli uns slökkviliðsmennirnir komu út. Hún heyrði ekki orðaskil, en heyrði ökumann æsa sig, og að slökkviliðsmenn hafi verið að reyna að róa hann. Hún lýsti því er jeppinn ók í burtu og lögreglubíll á eftir. Nærri gatnamótum Bústaðavegar og Flugvallarvegar stöðvaði bifreiðin og ,,gefur síðan allt í botn og ekur á lögreglubílinn“ eins og vitnið bar. Lögreglubifreiðinni hafi síðan verið bakkað inn á bílastæði við slökkvistöðina þar sem lögreglumennirnir fóru úr bílnum. Hún kvað sér hafa virst slökkviliðsmennirnir hafa verið í hættu er jeppabifreiðinni var ekið á hurðir slökkvistöðvarinnar og það sama kvað hún eiga við um lögreglumennina sem voru í lögreglubifreiðinni.
Vitnið E lögregluvarðstjóri lýsti því er tilkynning barst um að verið væri að aka á innkeyrsluhurðir á slökkviliðsstöðinni við Skógarhlíð. Hann kvaðst hafa verið skammt frá og því mjög fljótur á staðinn. Hann lýsti því er hann sá til jeppabifreiðar ákærða og er henni var ekið frá slökkvistöðinni og út Flugvallarveg í átt að Bústaðavegi. Þar stöðvaði bifreiðin og kvaðst E hafa stöðvað lögreglubifreiðina með nokkuð góðu bili milli bifreiðanna. Notuð voru bæði ljós og hljóðmerki er jeppanum var fylgt eftir, en það hafi verið gert í því skyni að fá hann til að stöðva aksturinn. E hafi ætlað að átta sig á því hvað ökumaður jeppans ætlaðist fyrir, auk þess sem beðið var aðstoðar á vettvangi. Þá skyndilega bakkaði jeppinn að hann taldi 15-20 metra. E kvaðst hafa sett lögreglubifreiðina í bakkgír og ætlað í burtu. Er hann leit aftur fyrir sig, til að athuga umferð þar, fann hann skyndilega þungt högg og sá útundan sér að F, sem sat við hlið hans, kastaðist fram á mælaborðið. E kvað engan vafa á því að ásetningur ökumanns jeppans hafi verið að bakka á lögreglubifreiðina. Hann merkti þetta meðal annars á því að jeppinn hafi aðeins rásað til er honum var bakkað, en það gerist er bifreið sé bakkað mjög hratt. Ökumaður hafi reynt að toga eins mikið afl út úr jeppanum eins og unnt var að sögn E. Við áreksturinn gekk allt úr skorðum í lögreglubifreiðinni og lýsti hann erfiðleikum við að finna talstöð sem nota átti til að kalla á aðstoð. Eftir áreksturinn var jeppanum ekið áfram í átt að gatnamótum Bústaðavegar þar sem hann stöðvaði. Þá kvaðst hann hafa séð bakkljós á jeppanum í annað sinn og þegar gert sér grein fyrir því hvað ökumaður ætlaðist fyrir og þá hafi honum fundist lífi sínu ógnað og hann áttað sig á því að annað og meira vakti fyrir ákærða en að gera lögreglubifreiðina óökufæra. Þótt lögreglubifreiðin væri mikið skemmd og reyk legði inn í farþegarýmið kvaðst hann hafa getað bakkað og forðað sér undan jeppabifreiðinni. Hann sá síðar hvar jeppanum var snúið við og við það vannst tími til þess að bakka lögreglubifreiðinni inn á bílaplan slökkvistöðvarinnar. Þar sagði hann F að fara þegar út úr bílnum og hlaupa inn á slökkvistöðina í skjól, en slökkviliðsmenn stóðu þar inni. Í þessu hafi jeppinn komið inn á bílastæðið. E kvaðst sjálfur hafa ætlað að forða sér. Hann kvað þau F bæði hafa þurft að nota líkamsþyngd sína til að ná að opna dyr lögreglubifreiðarinnar og hafi bæði dottið í götuna við þetta. Hann kvað jeppabifreiðina hafa stöðvað er ökumaður sá að þau F voru komin í skjól. Hann kvað ekki hafa þurft að spyrja að leikslokum hefði honum ekki tekist að standa á fætur og forða sér. Hann kvað ökumann jeppans hafa gert sig líklegan til að keyra aftur á lögreglubifreiðina, en hann hafi snarstöðvað er hann sá að þau F höfðu forðað sér. E kvað sig hafa grunað að það sem gerðist hafi beinst gegn lögreglumönnunum og kvað að hann hefði fengið fullvissu fyrir því er hann kom inn á slökkvistöðina en honum var þar greint frá því að ákærði hefði sagt að hann ætlaði að drepa lögreglumenn sem fyrstir kæmu að. E kvaðst hafa fengið grun sinn staðfestan við þetta og sér hafi brugðið mjög og lýsti hann því. E kvaðst ekki hafa hlotið líkamlega áverka en hann lýsti áhrifum þessa á sig andlega og hvernig þessi atburður hafi áhrif á sig í starfi.
Vitnið F, fyrrverandi lögreglumaður, lýsti því er hún fór á vettvang ásamt E. Er hún kom að slökkvistöðinni sá hún jeppabifreiðinni ekið í burtu mjög skrykkjótt svo hún hélt að hún ylti. Þegar voru kveikt ljós og hljóðmerki á lögreglubifreiðinni og ekið á eftir jeppanum. Á Flugvallarvegi hafi jeppinn snarhemlað og kvaðst hún hafa talið að ökumaður hafi séð að sér og ætlað að stöðva aksturinn. Hún kvað E hafa sagt sér að vera tilbúin að hlaupa á eftir ökumanni jeppans ef hann hlypi í burtu og hún hafi því losað öryggisbeltið og ætlað út. Þá skyndilega kviknuðu bakkljós á jeppanum sem var stiginn í botn, og hafi það heyrst greinilega á vélarhljóði bílsins. Ljóst hafi verið að ásetningur ökumanns hafi verið að bakka á lögreglubifreiðina og valda þeim Ingólfi líkamstjóni. Hún kvaðst hafa reynt að komast aftur í öryggisbelti, en það ekki tekist áður en jeppinn hafnaði á lögreglubifreiðinni. Hún hafi borið fyrir sig hendurnar en kastast til inni í bílnum. Hún mundi ekki hvernig það gerðist að aftur myndaðist bil á milli bílanna. Eftir það sáu þau hvar jeppanum var snúið en E hafi náð að bakka lögreglubílnum inn á bílastæði við slökkvistöðina og jeppinn hafi komið á fleygiferð á eftir. Jeppinn hafi hægt ferðina og stöðvað í innkeyrslunni á bílaplani þar sem vélin var þanin eins og til að láta vita að ,,þetta væri búið“. E hafi skipað sér út úr bílnum og hann sjálfur komist út við illan leik. Hún hafi verið föst inni í bílnum þar sem bíllinn hafi skekkst við áreksturinn. Henni hafi tekist að opna dyrnar með því að sparka í þær eða á annan hátt sem hún mundi ekki, en á þessum tíma hafi jeppanum verið vaggað fram og aftur og taldi hún að hann hefði ekið sig, hefði henni ekki tekist að komast út úr bifreiðinni þar sem hún datt. Hún hafi á þessum tíma óttast um líf sitt. Hún hafi komist á fætur og forðað sér inn á slökkvistöðina þar sem greint var frá því að ákærði hefði áður tilkynnt að hann ætlaði að drepa lögreglumenn sem fyrstir kæmu á vettvang. Hún kvaðst hafa slasast við áreksturinn og lýsti hún því og vinnu við að reyna að fá bata. Þá lýsti hún nánar afleiðingum þessa og áhrifum á daglegt líf, m.a. alvarlegum bakverkjum sem leiddu til þess að hún hætti störfum sem lögreglumaður.
Vitnið L lögreglumaður lýsti för sinni á vettvang. Hann kvaðst ekki hafa fengið nákvæmar upplýsingar um atburði, en ekið var á vettvang með ljós og hljóðmerki. Er ekið var af Bústaðavegi inn í Skógarhlíð hafi hann mætt sjúkrabifreið með ljósmerki og er slökkviliðsmenn hafi komið út úr slökkvistöðinni og bent hafi honum orðið ljóst að hann hefði mætt ákærða á bifreiðinni skömmu áður. Hann hafi þá snúið við og ekið á eftir sjúkrabifreiðinni. Er hann ók suður Bústaðaveg kvaðst hann hafa verið búinn að átta sig á því hvaða bifreið tengdist málinu. Bifreiðin hafi stöðvað, en síðan bakkað á fullri ferð eins og ökumaðurinn hafi ætlað að bakka á lögreglubifreiðina. Hann kvaðst hafa bakkað undan bifreiðinni. Hann lýsti því að er ákærði ætlaði að bakka aftur, hafi sjúkrabifreið komið og ekið inn í hlið jeppans. Eftir þetta var jeppanum ekið á fullri ferð norður Bústaðaveg. Hófst þá eftirförin og upptaka úr upptökubúnaði lögreglubifreiðarinnar sýni atburði vel. L kvað sér ekki hafa tekist að opna fyrir radar lögreglubifreiðarinnar. Samstarfsmaður sinn hafi kallað að lögreglubifreiðinni hafi verið ekið með 140 km hraða á tímabili á Snorrabraut, ákærði hafi þá ekið sinni bifreið hraðar. Hann sá hvar ákærði ók utan í bifreið og þetta sjáist glöggt á upptökunni, eins hvar ákærði ók gegn rauðu umferðarljósi á þessari akstursleið. Töluverð umferð hafi verið og margir á ferli á þessum tíma og mikil hætta hafi skapast af akstri ákærða. Eftirförin endaði við port lögreglustöðvarinnar, þar sem vitnið talaði við ákærða og spurði hann hverju þetta sætti. Ákærði hafi verið mjög æstur og sagst hafa ætlað að drepa lögreglumenn og hótunum hafi hann haldið áfram um stund.
Vitnið M lögreglumaður bar um aðkomu lögreglunnar á sama veg og vitnið L, en vitnisburður L var rakinn að framan. M lýsti tilkynningu um að ökumaður hafi ætlað að drepa lögreglumenn í bifreið sem hann hafi ekið. Hann lýsti því er hann kom auga á bifreið ákærða. Lögreglubifreiðinni var ekið á eftir honum með ljós og hljóðmerki. Á móts við Select á Bústaðavegi hafi jeppinn hægt ferðina og lögreglubíllinn einnig. Þá hafi jeppinn bakkað á fullu og lögreglubifreiðin á undan til að koma í veg fyrir árekstur. Á þessari stundu kvaðst hann hafa áttað sig á að ásetningur ákærða var að keyra á lögreglubifreiðina. Í sama mund ók sjúkrabíll á jeppabifreiðina sem tók þá u-beygju, yfir á akrein í norður og ók svo Bústaðaveg og Snorrabraut eins og lýst er í ákærunni. Hraði jeppans hafi verið mikill og kvaðst M hafa sent út tilkynningu um að menn forðuðu sér þar sem ákærði hafi verið líklegur til að aka á næsta lögreglubíl miðað við það sem á undan var gengið. Ákærði hafi ekið hratt og glannalega norður Snorrabraut og utan í bíl þar, eins og lýst er í ákærunni og gegn rauðu ljósi á Snorrabraut og Laugavegi. Hann kvaðst hafa þurft að hugsa svo margt á þessum tíma að gleymst hafi að kveikja á radar lögreglubifreiðarinnar, en á Snorrabraut var lögreglubifreiðinni ekið á 140 km hraða og þá hafi ákærði ekið bifreið sinni mun hraðar og dregið hafi í sundur með bílunum. Á þessum tíma hafi verið talsverð umferð á akstursleið ákærða. Ákærði hafi misst stjórn á bifreiðinni við port lögreglustöðvarinnar, þar sem lögreglan skoðaði bifreið hans. Rúður bifreiðarinnar voru brotnar í því skyni að handtaka ákærða, ef bifreið hans yrði læst er lögregla kæmi að. Ákærði hafi hótað allan tímann að hann ætlaði að drepa lögregluna.
Vitnið N kvaðst hafa ekið bifreiðinni [...], norður Snorrabraut og á gatnamótum Snorrabrautar og Bergþórugötu hafi hún nánast verið stopp er jeppabifreið var ekið utan í bifreið vitnisins vinstra megin. Bifreið vitnisins kastaðist við áreksturinn á bifreiðina [...]. Bíllinn hafi skemmst mikið.
Vitnið O var farþegi í bifreiðinni [...]. Hún lýsti því er ekið var á bifreiðina á gatnamótum Snorrabrautar og Bergþórugötu eins og komið hefur fram.
Niðurstaða
Vísað er til þess sem rakið var að framan um 1. og 2. kafla ákæru en dómur er lagður á sakarefni þeirra kafla samkvæmt skýlausri játningu ákærða.
Ákæruliður 3. a-d.
Ákærði hefur að mestu leyti játað sök samkvæmt þessum liðum ákærunnar. Ákærði bar að hann hefði ekki ekið jafn hratt og honum er gefið að sök í ákærunni og taldi sig hafa ekið á 90 km hraða. Með vitnisburði L og M lögreglumanna, og með stuðningi af hljóðupptöku lögreglubifreiðar sem þeir voru í er þeir veittu ákærða eftirför, er sannað að ákærði ók greinda leið á þeim ökuhraða sem lýst er í ákærunni.
Ákærði játar að hafa ekið undir áhrifum áfengis eins og ákært er fyrir, en hann kvaðst ekki hafa neytt kannabis þennan dag og því hljóti tetrahydrókannabínólið sem mældist í blóði hans að vera vegna fyrri neyslu. Hvernig sem því er háttað liggur fyrir samkvæmt niðurstöðu Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði að blóðsýni sem tekið var úr ákærða eftir aksturinn innihélt það magn tetrahydrókannabínóls sem í ákæru greinir. Þótt ákærði neiti þessu broti ekki beinlínis er það sannað með framangreindri matsgerð og braut ákærði þannig gegn 45. gr. a umferðarlaga eins og lýst er í ákærunni. Að öðru leyti má vísa til vitnisburðar sem rakinn var að framan um þessa ákæruliði, en öll vitnin sem um þessa liði bera, bera efnislega á sama veg.
Samkvæmt ofanrituðu er sannað að mestu leyti með játningu ákærða að hann hefur gerst sekur um háttsemina sem lýst er í þessum kafla ákærunnar og fær niðurstaðan stoð í vitnisburði sem rakinn var um þessa ákæruliði, auk þess sem upptökubúnaður lögreglubifreiðarinnar talar sínum máli en þar kemur fram að þessi ákæruliður er réttur. Þá liggja einnig fyrir upptökur frá vegfaranda sem sýnir aksturslag ákærða er sjúkrabifreiðin ók á bifreið hans, í því skyni að stöðva aksturinn eins og lýst er í ákærulið 3 b.
Ákærði ók utan í bifreið á akstursleið sinni og vitni báru um umferð, bæði bílaumferð og gangandi vegfarendur, á þessum tíma. Með ofsaakstri sínum, raskaði ákærði umferðaröryggi á alfaraleið, eins og lýst er í 1. mgr. 168. gr. almennra hegningarlaga, auk þess sem hann stofnaði lífi eða heilsu vegfarenda á akstursleið sinni í augljósan háska, eins og lýst er í 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga.
Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið eru brot ákærða samkvæmt ákærulið 3 rétt færð til refsiákvæða í ákærunni.
Ákæruliður 4.
Með játningu ákærða, sem fær stoð í vitnisburði um þennan ákærulið, er sannað að ákærði ók bifreiðinni [...], á 5 útkeyrsluhurðir á húsnæði slökkvistöðvarinnar eins og í þessum ákærulið greinir. Mikið fjártjón hlaust af háttsemi ákærða og varðar háttsemin við 2. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði neitar því að fyrir honum hafi vakað að valda slökkviliðsmönnunum líkamstjóni. Þótt ákærði hafi verið ofsafenginn í öllum háttum á þessum tíma, virðist sem hann hafi ekki talið sig eiga neitt sökótt við slökkviliðsmennina. Framburður ákærða styður þessa niðurstöðu. Að þessu virtu er það mat dómsins að ósannað sé, gegn neitun ákærða, að fyrir honum hafi vakað að valda slökkviliðsmönnunum líkamstjóni og ber því að sýkna ákærða af tilraun til brots gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Á hinn bóginn er það mat dómsins, sem fær stoð í vitnisburði slökkviliðsmannanna sem báru um þetta fyrir dómi og með vitnisburði K, að ákærði hafi með aksturslagi sínu í greint sinn, stofnað lífi að minnsta kosti sumra slökkviliðsmannanna í augljósan háska á ófyrirleitinn hátt, sbr. 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga, en slökkviliðsmennirnir, sem þarna voru, voru að gegna skyldustarfi sínu, sbr. 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.
Brot ákærða samkvæmt þessum ákærulið er því heimfært til refsiákvæða í samræmi við varakröfu ákæruvaldsins.
Ákæruliður 5.
Ákærði játar að hafa bakkað á lögreglubifreiðina, en hann neitar að fyrir sér hafi vakað að valda lögreglumönnunum líkamstjóni. Meðal gagna málsins eru upptökur af samskiptum ákærða við fjarskiptamiðstöð og við lögreglu þennan dag. Af þessum gögnum má ráða mikla reiði ákærða, en hann hefur sjálfur borið um mikla reiði sína þennan dag. Samkvæmt vitnisburði slökkviliðsmannanna, sem ræddu við ákærða er hann ók á útkeyrsluhurðirnar, vakti fyrir ákærða að drepa opinberan starfsmann eða lögreglumann. Vitnið G bar um þetta á sama veg eftir samtal við ákærða, sem hefur ekki neitað því að hafa viðhaft þessi ummæli. Vitnin E og F báru ítarlega um háttsemi ákærða og hvað þau töldu hafa vakað fyrir honum. Þá liggur fyrir að ákærði ók á eftir lögreglubifreiðinni sem bakkaði inn á bílastæði við slökkvistöðina. Þetta gefur sterka vísbendingu um það hvað vakti fyrir ákærða. Þau E og F voru heldur ekki í vafa um hvað hafi vakað fyrir honum, en hann gerði sig líklegan til að aka aftur á lögreglubifreiðina, eins og vitnin A og C lýstu. Af upptökubúnaði lögreglubifreiðarinnar sést vel er ákærði bakkar á lögreglubifreiðina af öllu afli. Þegar ofangreind atburðarás er virt í heild og með vísan til vitnisburðar E og F og upptöku úr búnaði í lögreglubifreiðinni, telur dómurinn sannað að ákærði hafi gerst sekur um háttsemi þá sem honum er gefin að sök í þessum ákærulið og breytir neitun ákærða á tilraun til líkamsárásar engu um þá niðurstöðu.
Brot ákærða samkvæmt þessum ákærulið varða við þau lagaákvæði sem lýst er í ákæru og eru því heimfærð í samræmi við aðalkröfu ákæruvaldsins.
Ákærði hefur borið að ástæðu háttsemi sinnar, sem lýst er í 5. kafla ákæru, sé að leita í slæmri þjónustu sem hann taldi sig hafa fengið hjá lögreglu bæði þennan dag, þ.e. 21. júní 2009, og fyrr. Ekkert í upptökunum af samskiptum ákærða við lögreglu, eða fjarskiptamiðstöð 21. júní 2009, rennir stoðum undir fullyrðingar ákærða. Fyrri samskipti ákærða og lögreglu réttlæta ekki á nokkurn hátt háttsemi ákærða þennan dag.
Samkvæmt sakavottorði ákærða, dagsettu 4. nóvember 2011, gekkst hann undir viðurlagaákvörðun í maí 2003 fyrir umferðarlagabrot. Í ágúst 2007 hlaut hann sektardóm fyrir fíkniefnalagabrot og umferðarlagabrot. Loks hlaut ákærði hinn 30. september sl. dóm fyrir fíkniefnalagabrot en sá dómur var hegningarauki og var ákærða ekki gerð sérstök refsing. Refsing ákærða er ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga. Brot ákærða í 5. lið ákæru er mjög alvarlegt og hending virðist hafa ráðið að ekki hlaust af brotinu mikið líkamstjón. Ákærði játar brot sín í ákæruliðum 1 og 2 og að miklu leyti samkvæmt ákærulið 3. Er þetta virt honum til refsilækkunar. Að öðru leyti á ákærði sér engar málsbætur. Refsing hans þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í 2 ár og 6 mánuði. Þótt nokkur tími sé liðinn frá því að ákærði framdi brotin kemur skilorðsbinding refsivistar í heild eða að hluta ekki til álita eins og sakarefninu er háttað. Með vísan til 76. gr. almennra hegningarlaga skal draga frá refsivistinni gæsluvarðhald sem ákærði sætti vegna málsins.
Ákærði er nú í annað sinn frá árinu 2007 fundinn sekur um brot gegn 45. gr. a umferðarlaga. Auk þess er hann sakfelldur fyrir brot gegn 1. sbr. 3. mgr. 45 gr. umferðarlaga. Með vísan til tilvitnaðra ákvæða umferðarlaga í ákæru og ofsaaksturs ákærða skal hann sviptur ökurétti í 3 ár frá birtingu dómsins að telja.
Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 eru upptæk dæmd fíkniefnin sem í ákæru greinir og nánar er lýst í dómsorði.
Ákærði greiði 364.248 krónur í útlagðan sakarkostnað ákæruvaldsins.
Mál þetta er dæmt eftir að Hæstiréttur vísaði málinu heim, sbr. hæstaréttarmál nr. 27/2011. Er því rétt að ríkissjóður greiði 313.750 króna málsvarnarlaun Jóhannesar Alberts Sævarssonar hæstaréttarlögmanns að meðtöldum virðisaukaskatti.
Sigríður J Friðjónsdóttir ríkissaksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærði, Hörður Þráinsson, sæti fangelsi í 2 ár og 6 mánuði en frá refsivistinni skal draga gæsluvarðhald sem ákærði sætti vegna málsins.
Ákærði skal sviptur ökurétti í 3 ár frá birtingu dómsins að telja.
Ákærði sæti upptöku á 1,81 g af hassi, 4,84 g af mariuhana, 600,62 g af kannabislaufum og 38 kannabisplöntum.
Ákærði greiði 364.248 krónur í útlagðan sakarkostnað ákæruvaldsins.
Ríkissjóður greiði Jóhannesi Albert Sævarssyni hæstaréttarlögmanni 313.750 krónur í málsvarnarlaun að meðtöldum virðisaukaskatti.