Hæstiréttur íslands
Mál nr. 292/2009
Lykilorð
- Líkamsárás
- Skilorð
- Skaðabætur
- Dómur
- Ómerkingu héraðsdóms hafnað
|
|
Fimmtudaginn 10. desember 2009. |
|
Nr. 292/2009. |
Ákæruvaldið(Daði Kristjánsson settur saksóknari) gegn Sigþóri Magnússyni(Sveinn Andri Sveinsson hrl.) Ingva Þór Þráinssyni og(Ólafur Örn Svansson hrl.) Baldri Þór Ragnarssyni(Helgi Birgisson hrl.) (Óskar Sigurðsson hrl. réttargæslumaður) |
Líkamsárás. Skilorð. Skaðabætur. Dómar.Ómerkingu héraðsdóms hafnað.
S, I og B voru sakfelldir fyrir líkamsárás með því að hafa sameiginlega veist harkalega að A, slegið hann ítrekað í höfuð og andlit þannig að hann féll í jörðina þar sem ákærðu börðu og spörkuðu í A, meðal annars í höfuð hans, allt með þeim afleiðingum að A nefbrotnaði og hlaut ýmis meiðsli. I og B kröfðust fyrir Hæstarétti ómerkingar héraðsdóms, þar sem í forsendum dómsins hafði ákærðu verið gert að greiða A 814.831 krónu ásamt vöxtum en í dómsorði var á hinn bóginn ekkert ákvæði um þessa kröfu. Ekki þóttu efni til að ómerkja héraðsdóm enda hefði enginn vafi leikið á því að S, I og B hefði með dóminum verið gert að greiða A skaðabætur og gat vörn þeirra fyrir Hæstarétti ekki orðið áfátt af þessum sökum. Með játningu S og framburðum vitna og I og B þótti fram komin sönnun um að S hefði ráðist á A með höggum og spörkum á þann hátt sem í ákæru greindi. Þá þótti ennfremur hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærðu hefðu allir í meira eða minna mæli tekið þátt í árásinni á A í greint sinn. Yrði hlutur hvers þeirra ekki greindur sérstaklega heldur þótti verða við það að miða að þeir hefðu sameiginlega ráðist á A. Var brot S, I og B talið varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var S dæmdur í 8 mánaða fangelsi, I í 4 mánaða skilorðsbundið fangelsi og B í 3 mánaða skilorðsbundið fangelsi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 6. maí 2009 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur.
A krefst þess að ákærðu verði gert að greiða sér 1.395.676 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. desember 2007 til 7. febrúar 2008, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði Sigþór Magnússon krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð.
Ákærði Ingvi Þór Þráinsson krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til dómsálagningar á ný, en til vara að hann verði sýknaður og skaðabótakröfu vísað frá héraðsdómi. Að því frágengnu krefst hann þess að refsing verði milduð.
Ákærði Baldur Þór Ragnarsson krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til dómsálagningar á ný, en til vara að hann verði sýknaður og skaðabótakröfu vísað frá héraðsdómi.
Í forsendum hins áfrýjaða dóms var meðal annars tekin afstaða til einkaréttarkröfu, sem A hafði uppi óskipt á hendur ákærðu, og komist þar að þeirri niðurstöðu að ákærðu bæri að greiða honum 814.831 krónu „ásamt vöxtum eins og greinir í dómsorði.“ Í dómsorði var á hinn bóginn ekkert ákvæði um þessa kröfu, en í greinargerðum til Hæstaréttar krefjast ákærðu Ingvi Þór og Baldur Þór ómerkingar hins áfrýjaða dóms á þessum grunni. Eftir að þessar kröfur ákærðu voru fram komnar sendi héraðsdómari ríkissaksóknara bréf 29. september 2009, þar sem tilkynnt var að komið hafi í ljós „bersýnileg villa“ í dómsorði hins áfrýjaða dóms með því að þar hafi fallið niður að greina frá niðurstöðu um fyrrnefnda einkaréttarkröfu og hafi villan verið leiðrétt með heimild í 3. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Með bréfinu fylgdi jafnframt nýtt endurrit úr dómabók, þar sem ákvæði um kröfuna hafði verið bætt í dómsorð. Samkvæmt 3. mgr. 183. gr. sömu laga skulu niðurstöður máls dregnar saman í dómsorði. Þótt það hafi ekki að þessu leyti verið gert í dóminum, sem héraðsdómari lét í upphafi frá sér fara, var í forsendum hans tekin afstaða til einstakra liða í einkaréttarkröfunni og komist að niðurstöðu um fjárhæð hvers liðar, sem síðan var dregin saman eins og áður greinir. Verjendur ákærðu Ingva Þórs og Baldurs Þórs sendu ríkissaksóknara 28. og 29. apríl 2009 efnislega samhljóða tilkynningar um áfrýjun héraðsdóms, þar sem sagði meðal annars að þeim hafi verið gert ásamt öðrum ákærðu „að greiða skaðabætur samtals kr. 814.831, auk vaxta.“ Af hálfu ákærða Sigþórs sendi skipaður verjandi hans í héraði yfirlýsingu um áfrýjun héraðsdóms til ríkissaksóknara 4. maí 2009, þar sem vísað var til þess að með dóminum hafi Sigþór verið dæmdur ásamt öðrum ákærðu til að greiða A „skaðabætur að fjárhæð kr. 814.831.- ásamt ótilgreindum vöxtum.“ Lögmaður sá, sem síðar var skipaður verjandi ákærða Sigþórs fyrir Hæstarétti, sendi ríkissaksóknara aðra tilkynningu um áfrýjun 6. maí 2009, þar sem tekið var fram að „áfrýjun málsins lýtur ekki að bótaþætti enda var ákærði í dómsorði ekki dæmdur til greiðslu skaðabóta. Fram kemur í niðurstöðukafla dómsins að ákærðu eru dæmdir til greiðslu skaðabóta en þess er hins vegar í engu getið í dómsorði.“ Þótt með þessu hafi verið vakin athygli á þeirri misfellu, sem var á dómsorði hins áfrýjaða dóms, verður að gæta að því að þessi yfirlýsing um áfrýjun var í raun óþörf vegna fyrri tilkynningar og því ekki efni til að ætlast til að frekar yrði litið til hennar. Í öðrum tilkynningum ákærðu um áfrýjun lék enginn vafi á því að þeim hafi með héraðsdómi verið gert að greiða 814.831 krónu í skaðabætur ásamt vöxtum og gat vörn þeirra fyrir Hæstarétti ekki orðið áfátt af þessum sökum. Þótt leiðrétting héraðsdóms hafi ekki borist fyrr en raun varð á og þá fyrst komið nánar fram hvernig færi um vexti af skaðabótunum áttu ákærðu kost á að hreyfa athugasemdum um það atriði málsins við munnlegan flutning þess fyrir Hæstarétti. Að þessu öllu virtu eru ekki efni til að ómerkja hinn áfrýjaða dóm.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur með þeirri leiðréttingu, sem héraðsdómari hefur gert á dómsorði og getið er um hér að framan.
Ákærðu verður gert að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjenda sinna og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærðu, Sigþór Magnússon, Ingvi Þór Þráinsson og Baldur Þór Ragnarsson, greiði hver fyrir sig málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, hæstaréttarlögmannanna Sveins Andra Sveinssonar, Ólafs Arnar Svanssonar og Helga Birgissonar, 311.250 krónur í hlut hvers. Ákærðu greiði í sameiningu annan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 152.528 krónur, þar með talda þóknun réttargæslumanns brotaþola, Óskars Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 8. apríl 2009.
Með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á Selfossi 26. ágúst 2008 á hendur Sigþóri Magnússyni, kt. 200385-2179, Sambyggð 12, Þorlákshöfn, Ingva Þór Þráinssyni, kt. 090589-2299, Heinabergi 8, Þorlákshöfn, og Baldri Þór Ragnarssyni, kt. 230290-2029, Eyjahrauni 11, Þorlákshöfn, var ákærðu gefið að sök að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 27. desember 2007, fyrir utan skemmtistaðinn Hvíta húsið á Selfossi, sameiginlega veist harkalega að A, kt. [...], slegið hann ítrekað í höfuð og andlit þannig að hann féll í jörðina þar sem ákærðu börðu og spörkuð í A, m.a. í höfuð hans, allt með þeim afleiðingum að A nefbrotnaði, hlaut mikil eymsli við nefrót, blóðnasir, skrámur á enni og eymsli í hægri olnC.
Er brot þetta talið varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.
Einkaréttarkrafa
Í málinu gerir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. brotaþola, kröfu um að ákærðu verði gert að greiða samtals 1.395.676 krónur í skaðabætur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 27. desember 2007 til 7. febrúar 2008, en dráttarvaxta samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.
Af hálfu ákærða Sigþórs er þess krafist að hann verði sýknaður af því að hafa sparkað í kæranda liggjandi en að öðru leyti verði honum gerð vægasta refsing sem lög leyfi. Þá krefst hann sýknu af bótakröfu en annars að henni verði vísað frá dómi. Loks er krafist hæfilegrar málflutningsþóknunar.
Af hálfu ákærða Ingva Þórs er krafist sýknu en að öðrum kosti vægustu refsingar sem lög leyfi. Þá er þess krafist að bótakröfu verði vísað frá dómi. Loks er krafist hæfilegra málsvarnarlauna úr ríkissjóði.
Af hálfu ákærða Baldurs Þórs er krafist sýknu og að bótakröfu verði vísað frá dómi. Þá er krafist hæfilegra málsvarnarlauna úr ríkissjóði.
Málavextir
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu voru lögreglumennirnir Rúnar Oddgeirsson og Jóhanna Eyvinsdóttir á eftirlitsferð um Hrísmýri á Selfossi, aðfaranótt fimmtudagsins 27. desember 2007, kl. 03.35, er þau sáu þrjá menn ráðast þar á þann fjórða. Kemur fram að þau hafi séð mennina kýla hann í það minnsta fjórum sinnum í andlitið þannig að hann féll til jarðar. Árásarmennirnir hafi svo látið höggin dynja á manninum og sparkað í hann liggjandi. Hafi þau greinilega séð þegar ákærði Sigþór Magnússon sló og sparkaði í höfuð mannsins. Hafi þau handtekið hann þegar þau komu á staðinn en hinir tveir hafi náð að hlaupast á brott. Hafi Sigþór verið blóðugur á hnúum og með blóðbletti á buxum. Hafi hann verið áberandi ölvaður og viðurkennt að hafa verið í slagsmálum. Hafi hann gefið upp nöfn þeirra sem með honum voru, en það hafi verið ákærðu Ingvi Þór Þráinsson og Baldur Þór Ragnarsson. Kemur og fram að aðrir lögreglumenn hafi rætt við árásarþolann, A, á staðnum.
A lagði fram kæru hjá lögreglu um hádegisbil sama dag og lýsti hann því þá að ákærðu hefðu allir ráðist á sig og bæði slegið og sparkað í sig hvað eftir annað þar til lögreglan kom á staðinn.
Fram kemur í fyrirliggjandi vottorði frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands að A hafi leitað þar á bráðamóttöku aðfaranótt fimmtudagsins 27. desember 2007 og hafi Jórunn Viðar Valgarðsdóttir skoðað hann. Segir svo í vottorðinu um þá áverka sem greindust á A við skoðun: „... mikil eymsli við nefrót, nefið var ekki talið teljandi skakkt og öndun gekk greiðlega. Nefslímhúðir með roða og storknað blóð í báðum nösum, ekki skekkja í septum nasale eða miðnesi. Greinilega blóðnasir sem hafa átt sér stað en voru hættar á þessari stundu. Það mátti sjá skrámur á enninu. Viðkomandi talað um eymsli við skoðun yfir ytri hluta hægri olnC, við skoðun var ekki grunur um brot. Jórunn læknir sendi hann í röntgen af andlitsbeinum og mátti sjá nefbrot sem var ekki úr lagi gengið. Viðkomandi var upplýstur um þetta og honum sagt að þetta myndi gróa og ekki þyrfti að gera að þessu broti enda góð lega. Ofannefndur var sem sagt nefbrotinn og getur áverkinn alveg passað við lýsingar hans þessa nóttina.“ Þá segir svo: „Þann 10. janúar í eftirlit, greinir viðkomandi frá því að hann hafi náð sér þokkalega en finni af og til fyrir höfuðverk sem afleiðingu slyssins. Væntanlega mun ofannefndur ná sér að fullu eftir þetta slys.“
Skýrslur ákærðu og vitna
Ákærði Sigþór lýsti því að hann hefði í umrætt sinn verið, ásamt meðákærðu Ingva Þór og Baldri Þór, fyrir utan Hvíta húsið á Selfossi þegar A hefði verið hrint á sig. Við það hefði A snúið sér við og slegið til ákærða í leiðinni. Kvaðst ákærði þá hafa misst stjórn á sér og ráðist á hann. Hafi hann slegið hann á vangann og í kviðinn „bara eitthvað“. Beðinn um að lýsa höggunum nánar sagði hann: „Ja, ég bara veit ekkert hvar ég var að slá hann, þar er vandamálið í þessu.“ Hefði þetta endað með því að A féll í jörðina. Í framhaldi hefðu einhverjir farið að sparka í A. Spurður nánar út í það sagði ákærði að félagar hans og meðákærðu, Ingvi Þór og Baldur Þór, hefðu þar átt hlut að máli. Hefði hann séð þá báða sparka í A. Sjálfur hefði hann hins vegar ekki sparkað í A. Spurður hvort rétt sé sem lýst er í lögregluskýrslu að hann hafi verið blóðugur á báðum hnúum kvaðst hann ekki muna það fullkomlega en hann drægi það ekki mikið í efa. Spurður nánar út í framburð sinn sagði ákærði að meðákærðu hefðu báðir sparkað í A nokkrum sinnum, bæði í kvið og höfuð.
Ákærði Ingvi Þór kvaðst hafa verið að koma út af balli í Hvíta húsinu með meðákærða Baldri þegar hann hefði séð A þar fyrir utan. Kvaðst hann hafa spurt hann hvort hann vissi hvar strákur sem héti C væri. Hefði A þá strax spurt á móti: „Hvað ætlar þú að gera við C, ef þú kemur við C þá lem ég þig.“ Hefði A svo ýtt við honum með báðum höndum. Kvaðst ákærði þá hafa ýtt honum á móti og síðan hefði Baldur eitthvað hrint honum eitthvað. Í sömu andrá hefði meðákærði Sigþór allt í einu komið þar að. Hefði hann stokkið á A og byrjað eitthvað að kýla hann. Hefðu þeir svo eitthvað verið að kljást þarna í framhaldi og kvaðst ákærði þá einnig hafa blandað sér í átökin og „fór eitthvað og kýldi A svona tvisvar, þrisvar, um það bil, bara svona aftan í hann, þú veist, axlirnar og kannski var eitt aftan í hausinn á honum, en ekkert í andlitið á honum“. Eftir þetta hefðu þeir hætt og Sigþór þá gengið í burtu. Hefði A, sem þá hefði enn verið uppi standandi, kallað á eftir honum eitthvað á þá leið að hann ætti eftir að sjá eftir þessu. Hefði þá Sigþór snúið til baka, stokkið á A og byrjað að kýla hann. Hefði hann kýlt hann í jörðina og eftir það hefði hann kýlt hann, meðal annars í andlit hans, og sparkað í hann liggjandi. Taldi ákærði að Sigþór hefði slegið A þá um tuttugu sinnum. Spurður nánar um þetta sagði ákærði að hann hefði ekki beinlínis séð Sigþór sparka í A heldur hefði hann gefið honum hnéspark. Spurður nánar út í þátt meðákærða Baldurs Þórs í þessu sambandi sagði ákærði að hann hefði lítið komið að þessu, í raun hefði hann einungis ýtt A í upphafi átakanna. Kannaðist hann við að Baldur hefði á þessum tíma verið í göngugifsi. Hefði hann því ekki átt auðvelt með að hlaupa en hann hefði þó alveg getað skokkað. Hins vegar væri ekki rétt að þeir hefðu flúið þegar lögreglan kom á vettvang eins og kæmi fram í lögregluskýrslu.
Fyrir dómi skýrði ákærði Baldur Þór frá því að hann hefði verið á gangi í umrætt sinn með meðákærða Ingva Þór og hefði Ingvi þá gengið til A og spurt hann hvar C væri. Hefði A þá svarað: „Ef þú ætlar að lemja hann lem ég þig.“ Hefði hann svo hrint Ingva. Ingvi hefði þá hrint A á móti og einnig kvaðst ákærði þá hafa hrint A. Hefði meðákærði Sigþór þá komið fyrirvaralaust og byrjað að kýla A á fullu. Hefði Ingvi og kýlt hann eitthvað, kannski tvisvar eða þrisvar. Átökin hefðu svo stöðvast í smástund og haldið svo áfram aftur og Sigþór þá kýlt „hann á fullu þarna og hann dettur í jörðina“. Hefði Sigþór verið ofan á A að kýla hann en þeir Ingvi staðið í kring án þess að taka frekari þátt í slagsmálunum. Lögreglan hefði svo komið á vettvang og tekið Sigþór en sjálfur hefði hann farið aftur inn á ballið og verið þar í smástund. Spurður hvar höggin frá Ingva hefðu lent á A svaraði ákærði: „Bara í síðunni á honum og ég er ekki alveg með það á hreinu sko ...“ Spurður hvort Ingvi hefði sparkað í A svaraði ákærði: „Ekki svo, ég er ekki alveg viss með það sko, ég sá það ekki nógu vel.“ Ákærði neitaði því að hann hefði slegið eða sparkað í A. Hins vegar gæti vel verið að Sigþór hefði sparkað eitthvað í hann, hann hefði verið „alveg ofan á honum á fullu“. Aðspurður kvaðst ákærði telja að A hefði fengið blóðnasir í síðari atlögunni, en hann gæti þó engan veginn verið viss um það. Ákærði kvað ranga þá staðhæfingu lögreglu að hann hefði hlaupið af vettvangi, enda hefði hann verið fótbrotinn og í göngugifsi. Hann hefði verið á staðnum þegar Sigþór var handtekinn og í framhaldi hefði hann farið aftur inn á ballið.
Vitnið A kvaðst hafa verið á dansleik í Hvíta húsinu umrætt kvöld. Hefði hann skroppið út til að reykja eina sígarettu. Þar hefðu þá staðið saman allir ákærðu í máli þessu. Kvaðst hann hafa heyrt þá vera að ræða um að þeir ætluðu að fara og drepa einhvern sem væri inni á ballinu og hefði hann sagt við þá „í jóki“: „Ætlið þið að fara að drepa einhvern á jólunum?“ Hefði ákærði Sigþór þá slegið hann í hnakkann og svo í andlitið. Eftir það hefði hann fengið annað högg, annaðhvort frá ákærða Ingva eða ákærða Baldri, og hefði hann þá fallið í jörðina. Eftir að hann féll til jarðar hefðu ákærðu allir sparkað í hann liggjandi og gætu spörkin hafa verið á milli 15 og 20 talsins. Hann hefði hniprað sig saman og reynt að verja höfuðið á sér, sem hefði að mestu tekist. Sigþór hefði auk þess reynt að kýla hann í höfuðið þar sem hann lá en það hefði ekki tekist. Rétt áður en lögreglan hefði komið á vettvang, líklega innan við 20 sekúndum eftir að hann féll í jörðina, hefðu hinir tveir, Ingvi og Baldur, hlaupið í burtu en lögreglan hefði svo komið að og handtekið Sigþór. Sjálfur kvaðst vitnið hafa eftir þetta fengið að fara inn í húsið til að þrífa þar blóð úr andlitinu og síðan farið heim til sín. Hann hefði svo leitað til læknis og hefði þá, auk marbletta á líkama, greinst nefbrot. Væri sprunga í nefinu sem ekki hefði gróið og fyndi hann til í því. Að öðru leyti væri hann búinn að ná sér af afleiðingum árásarinnar. Spurður um nefbrot sem hann hefði hlotið á árinu 2006 sagði hann að það brot hefði alveg gróið, öfugt við brotið eftir árásina sem hér um ræðir. A var sérstaklega spurður hvort hann hefði séð hverjir spörkuðu í hann. Sagðist hann þá ekki hafa getað fylgst með því nákvæmlega hverjir spörkuðu en ekki væri neinn vafi á að það hefðu verið allir ákærðu sem þar voru að verki. Aðspurður hvenær hann teldi sig hafa fengið áverkann á nefið sagði vitnið það hafa gerst í höggi númer tvö þegar Sigþór hefði slegið hann í andlitið.
Lögreglumaðurinn Rúnar Oddgeirsson kvaðst hafa verið í eftirlitsferð umrædda nótt, ásamt Jóhönnu Eyvinsdóttur lögreglumanni. Hefðu þau lagt bifreiðinni við hús Frumherja, skáhallt á móti Hvíta húsinu. Hefðu þau þá orðið vör við slagsmál fyrir utan skemmtistaðinn. Eftir að árásarþolinn féll til jarðar hefðu allir þrír árásarmennirnir svo sparkað í manninn liggjandi. Kvaðst vitnið þá hafa, ásamt Jóhönnu, hlaupið á vettvang. Hefðu þá tveir árásarmannanna hlaupið í burtu en sá þriðji, ákærði Sigþór, hefði haldið áfram. Kvaðst vitnið hafa séð Sigþór sparka í höfuð þess sem lá í jörðinni og slá hann tvö högg í andlitið, allt þar til þau komu þar að og handtóku Sigþór. Hefði hann verið blóðugur á hnúum hægri handar og eins hefði blóð verið á skóm hans. Vitnið kvaðst ekki hafa séð hina tvo sem hefðu verið þátttakendur í árásinni á A þannig að hann næði að bera kennsl á þá, en þeir hefðu einnig tekið þátt í að slá og sparka í A. Hann hefði heldur ekki náð að greina hver gerði hvað, utan það sem hann hefði séð Sigþór gera þegar þau voru að koma á staðinn. Sigþór hefði svo gefið þeim upp nöfnin á hinum tveimur sem tekið hefðu þátt með honum í árásinni, vitneskjan um hverjir þar voru á ferðinni hefði verið frá honum komin. Vitnið kvaðst aðspurt ekki minnast þess að ákærði Baldur hefði verið í göngugifsi eða eitthvað lemstraður, alla vega hefði það þá ekki heft hann mikið.
Lögreglumaðurinn Jóhann Eyvinsdóttir Christiansen kvaðst hafa verið stödd í lögreglubifreið, við skoðunarstöð Frumherja umrætt sinn. Hefði hún þá séð hvar þrír menn réðust á þann fjórða með höggum og spörkum þar til hann féll í jörðina. Hefði félagi hennar þá ekið lögreglubifreiðinni nær og síðan hefðu þau hlaupið í áttina að mönnunum. Þegar þau hefðu nálgast hefðu tveir árásarmannanna hlaupið í burtu en einn þeirra, ákærði Sigþór, hefði ekki séð þau fyrr en þau voru komin alveg að. Kvaðst hún hafa séð hann áfram sparka í A þar sem hann lá liggjandi. Hefði ákærði hætt árásinni þegar þau komu að en A þá gengið í burtu og hefðu einhverjir aðrir lögreglumenn talað við hann. Kvaðst vitnið ekki hafa borið kennsl á hina tvo sem hlaupið hefðu í burtu en ákærði Sigþór hefði upplýst þau um hverjir það væru.
Jórunn Viðar Valgarðsdóttir, heimilislæknir á Selfossi, kvaðst hafa skoðað A er hann kom á heilsugæslustöðina daginn eftir atvikið. Hefði hann reynst vera talsvert bólginn og aumur við nefrótina og greinilega haft nefblæðingu. Þá hefði hann verið með marbletti við olnboga. Við myndatöku af andlitsbeinum hefði komið í ljós brot í nefbeininu, í nefrótinni. Brotið hefði legið mjög vel þannig að ekki hefði þurft að rétta það. Enda þótt nefbrot gæti í sjálfu sér verið lífshættulegt þá hefðu afleiðingarnar í þessu tilviki ekki verið miklar og ætti A því að ná sér fullkomlega af þessum meiðslum. Spurð hvort sést hefði greinilega að um nýtt brot væri að ræða, með hliðsjón af því að fyrir lægi að A hefði á árinu 2006 verið greindur með nefbrot eftir aðra líkamsárás, sagði hún nýtt nefbrot vera allt öðruvísi útlits en gamalt brot. Röntgenlæknir hefði lýst því þannig að um ótilfært brot væri að ræða, það er sprunga í nefrótinni. Ef um gamalt brot væri að ræða væri yfirleitt tekið fram að svo væri, enda sæjust þá merki um beinmyndun þar sem brotið hefði orðið. Fyrst ekkert hefði verið tekið fram um þetta við röntgenskoðunina þá gerði hún algjörlega ráð fyrir að um nýtt brot hefði verið að ræða. Enda þótt hún hefði skoðað röntgenmyndirnar í samvinnu við röntgenlækni hefði hún í sjálfu sér ekki skoðað þær með tilliti til hins eldra brots, enda hefði hún ekki haft neina vitneskju um það. Teldi hún hins vegar að ef um gamalt brot hefði verið að ræða þá hefði röntgenlæknir nefnt það við sig og sagt það vera gamalt brot og gróið. Hljóti brotið því að hafa litið út eins og nýtt.
Niðurstaða
Ákærði Sigþór játaði við þingfestingu að hafa slegið kæranda, A, en neitaði sök að öðru leyti. Við skýrslugjöf fyrir dómi kannaðist hann við að hafa slegið A nokkrum sinnum í andlit og kvið, en neitaði að hafa sparkað í hann. A og lögreglumennirnir Rúnar Oddgeirsson og Jóhanna Eyvinsdóttir Christiansen hafa hins vegar borið að ákærði Sigþór hafi bæði slegið og sparkað í A eins og lýst er í ákæru. Þá kom einnig fram hjá meðákærða Ingva Þór að Sigþór hefði gefið A einhvers konar hnéspark og meðákærði Baldur Þór sagði að vel gæti verið að ákærði hefði sparkað eitthvað í hann. Með játningu ákærða Sigþórs og framburðum framangreindra vitna og meðákærðu þykir fram komin sönnun um að ákærði Sigþór hafi ráðist á A með höggum og spörkum á þann hátt sem í ákæru greinir.
Ákærðu Ingvi Þór og Baldur Þór hafa báðir neitað sök. A hefur lýst höggum bæði frá ákærða Sigþóri og annaðhvort frá Ingva Þór eða Baldri Þór. Eftir að hann féll til jarðar hefðu ákærðu allir sparkað í hann liggjandi. Lögreglumennirnir Rúnar og Jóhanna hafa lýst því að þau hafi séð þrjá menn ráðast að A með höggum og spörkum og að þeir hafi síðan allir sparkað í hann eftir að hann féll til jarðar. Enda þótt þau hafi aðeins séð Sigþór svo nálægt að þau bæru kennsl á hann hafi Sigþór skýrt þeim frá því strax á vettvangi að meðákærðu Ingvi Þór og Baldur Þór hefðu tekið þátt í árásinni með honum. Þá hefur Sigþór, bæði við skýrslugjöf hjá lögreglu og síðan fyrir dómi, skýrt frá því að Ingvi Þór og Baldur Þór hafi báðir sparkað í kvið og höfuð kæranda eftir að hann féll til jarðar. Við skýrslutöku hjá lögreglu skýrði Ingvi Þór frá því að eftir að Sigþór hefði slegið A nokkur högg í höfuð og andlit hefði hann sjálfur slegið A nokkur högg í líkama og andlit. Eftir að A hefði fallið til jarðar hefði Baldur Þór farið að sparka í A og hann minnti að hann hefði síðan sjálfur slegið A nokkur högg þar sem hann lá í jörðinni. Fyrir dómi skýrði Ingvi Þór frá því að hann hefði í upphafi ýtt við A, í framhaldi af því að A hefði ýtt við honum, og að Baldur Þór hefði þá einnig hrint A eitthvað. Eftir að Sigþór hefði svo stokkið á A og kýlt hann þá kvaðst Ingvi Þór hafa kýlt A tvisvar eða þrisvar, í axlir og aftan á höfuðið. Við skýrslugjöf hjá lögreglu lýsti Baldur Þór atvikinu á þann veg að Ingvi Þór hefði ýtt við A eftir að A hefði ýtt við honum. Í kjölfarið kvaðst Baldur Þór einnig hafa hrint A auk þess að slá hann eitt högg í bringuna. Sigþór hefði þá ráðist á A og slegið hann nokkur högg í andlit og höfuð. Hefði A þá fallið í jörðina og hefði þá allavega Ingvi Þór sparkað eitthvað í hann liggjandi. Sjálfur kvaðst Baldur Þór ekki hafa slegið eða sparkað í A umfram þetta eina högg sem hann sló í bringuna á honum. Fyrir dómi lýsti Baldur Þór upphafi átakanna nokkuð á sama veg og hjá lögreglu. Auk þess sem Sigþór hefði slegið A hefði Ingvi Þór kýlt hann eitthvað, kannski tvisvar eða þrisvar, og hefðu þau högg lent „... í síðunni á honum og ég er ekki alveg með það á hreinu sko ...“ Er hann var síðan spurður hvort Ingvi Þór hefði sparkað í A svaraði hann: „... ég er ekki alveg viss með það sko, ég sá það ekki nógu vel.“ Sjálfur neitaði Baldur Þór að hafa slegið eða sparkað í A.
Þegar framangreindir framburðir ákærðu Ingva Þórs og Baldurs Þórs hjá lögreglu og fyrir dómi eru virtir saman, með hliðsjón af framangreindum vitnisburði kærandans A, lögreglumannanna Jóhönnu og Rúnars og meðákærða Sigþórs, þykir hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærðu hafi allir í meira eða minna mæli tekið þátt í árásinni á A í greint sinn. Verður hlutur hvers þeirra ekki greindur sérstaklega heldur þykir hér verða við það að miða að þeir hafi sameiginlega ráðist á A eins og í ákæru greinir. Verða þeir því sakfelldir fyrir þá háttsemi sem þar er lýst.
Samkvæmt fyrirliggjandi læknisvottorði Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, dags. 4. febrúar 2008, reyndist A nefbrotinn í kjölfar árásarinnar. Var sú niðurstaða staðfest með framburði Jórunnar Viðar Valgarðsdóttur heimilislæknis fyrir dóminum. Tók læknirinn fram að nýtt nefbrot væri allt öðru vísi útlits en gamalt brot og fyrst röntgenlæknir hefði ekki minnst á það við röntgenskoðunina að um gamalt brot kynni að vera að ræða, eins og ákærðu hafa haldið fram, þá gerði hún algjörlega ráð fyrir að brotið hefði verið nýtt. Með hliðsjón af þessu er það niðurstaða dómsins að ákærðu hafi gerst sekir um brot gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga með háttsemi sinni.
Refsiákvörðun o.fl.
Árás ákærðu var harkaleg, tilefnislaus og unnin af þremur mönnum í félagi.
Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði ákærða Sigþórs var hann með dómi hinn 13. júlí 2004 sakfelldur fyrir brot gegn 254. og 219. gr. almennra hegningarlaga, áfengislögum, umferðarlögum og lögum og reglugerðum um ávana- og fíkniefni. Var ákvörðun refsingar þá frestað skilorðsbundið í tvö ár. Með dómi Hæstaréttar uppkveðnum 25. janúar 2007 var ákærði sakfelldur fyrir brot gegn 217. gr. almennra hegningarlaga og honum gert að sæta fangelsi í fjóra mánuði, en þrír mánuðir af refsingunni voru bundnir skilorði til tveggja ára. Ákærði hefur með broti sínu nú rofið skilorð framangreinds dóms og verður það því tekið upp og dæmt með. Að framangreindu virtu þykir refsing ákærða Sigþórs hæfilega ákveðin fangelsi í átta mánuði.
Með dómi Héraðsdóms Suðurlands uppkveðnum 19. mars 2009 var ákærði Ingvi Þór fundinn sekur um líkamsárás skv. 1. mr. 218. gr. almennra hegningarlaga og gert að sæta 30 daga fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár. Brot það sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir í máli þessu var framið fyrir uppkvaðningu þess dóms. Ber því með vísan til 78. gr. almennra hegningarlaga að taka dóminn upp og ákvarða ákærða refsingu sem hegningarauka við refsingu samkvæmt greindum dómi. Að framangreindu virtu þykir refsing ákærða Ingva Þórs hæfilega ákveðin fangelsi í fjóra mánuði, sem bundin skal skilorði sem í dómsorði segir.
Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði hefur ákærði Baldur Þór ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað og að virtu framangreindu ákveðst refsing hans fangelsi í þrjá mánuði, sem bundin skal skilorði eins og greinir í dómsorði.
Af hálfu brotaþola A er þess krafist að ákærðu verði dæmdir til að greiða honum in solidum skaðabætur samtals að fjárhæð 1.395.676 krónur, auk vaxta, meðal annars með vísan til matsgerðar, dags. 8. ágúst 2008, sem unnin var af Birni Daníelssyni lögfræðingi og Stefáni Dalberg lækni. Hafa allir ákærðu krafist frávísunar bótakröfunnar. Telja þeir hana almennt vanreifaða og ekki í samræmi við ákv. 170. gr. laga um meðferð opinberra mála. Þá telja þeir að fyrirliggjandi matsgerð verði ekki lögð til grundvallar við ákvörðun bóta vegna galla sem á henni séu og að hún sé óstaðfest. Á þetta verður ekki fallist. Hafa ákærðu ekki sýnt fram á slíka ágalla á matsgerðinni að á henni verði ekki byggt hvað þetta varðar. Enda þótt heppilegra hefði verið að matsmenn hefðu komið fyrir dóminn lá ekkert fyrir um það að hálfu ákærðu fyrir aðalmeðferð málsins að gildi matgerðarinnar væri dregið í efa eða að þess væri óskað að annar hvor matsmanna eða þeir báðir kæmu fyrir dóminn til skýrslugjafar. Verður matsgerðin því lögð til grundvallar niðurstöðu varðandi bótakröfu brotaþola.
Bótakrafan er sett fram með þeim hætti að í fyrsta lagi er gerð krafa um greiðslu á þjáningabótum að fjárhæð 38.850 krónur, auk vaxta, með vísan til 3. gr. skaðabótalaga og fyrirliggjandi matsgerðar. Er tekið fram að þjáningabætur reiknist í 30 daga frá árásinni, án rúmlegu. Fyrir hvern dag greiðist 1.295 krónur, eftir að fjárhæðir skv. 3. gr. skbl. hafi verið uppfærðar miðað við lánskjaravísitölu í ágúst 2008, 6.064 stig, sbr. 15. gr. skbl. Með vísan til matsgerðar verður fallist á þennan lið bótakröfunnar, enda liggur ekkert fyrir um þá staðhæfingu ákærðu að brotaþoli hafi á umræddu 30 daga tímabili verið byrjaður að vinna.
Í öðru lagi er gerð krafa um greiðslu á 369.531 krónu vegna varanlegs miska skv. 4. gr. skbl. Kemur fram að samkvæmt niðurstöðu matsgerðar hafi varanlegur miski reynst 5%. Taki fjárhæð bótanna mið af grunnfjárhæðinni 4.000.000 króna , uppfærðri miðað við lánskjaravísitölu í ágúst 2008, sbr. 15. gr. skbl., 7.390.615 krónur. Með vísan til matsgerðar er fallist á þennan lið bótakröfunnar.
Þá er í þriðja lagi gerð krafa um greiðslu miskabóta skv. a-lið 26. gr. skbl. að fjárhæð 800.000 krónur vegna andlegra áhrifa á brotaþola og þeirra óþæginda sem hann hafi orðið fyrir vegna hennar. Brotaþoli á rétt á miskabótum skv. 26. gr. skaðabótalaga úr hendi ákærðu vegna árásarinnar. Þykja þær hæfilega ákveðnar 200.000 krónur.
Þá er gerð krafa um greiðslu útlagðs kostnaðar vegna öflunar matsgerðar skv. meðfylgjandi reikningum að fjárhæð 86.450 krónur. Er fallist á þennan lið kröfugerðarinnar.
Loks er krafist bóta vegna lögmannsaðstoðar við að halda kröfunni fram og eru þær hæfilega ákveðnar 120.000 krónur.
Ákærðu brutu í sameiningu gegn brotaþola og samkvæmt framangreindu verða þeir því dæmdir til að greiða honum samtals 814.831 krónu ásamt vöxtum eins og greinir í dómsorði.
Ákærði Sigþór greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar Ágústssonar héraðsdómslögmanns, 300.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ákærði Ingvi Þór greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ólafs Arnar Svanssonar hæstaréttarlögmanns, 340.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og ferðakostnað hans að fjárhæð 10.488 krónur.
Ákærði Baldur Þór greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Helga Birgissonar hæstaréttarlögmanns, 340.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og ferðakostnað hans að fjárhæð 20.976 krónur.
Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Ákærði, Sigþór Magnússon, sæti fangelsi í 8 mánuði.
Ákærði, Ingvi Þór Þráinsson, sæti fangelsi í 4 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingar og hún niður falla að 2 árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði Baldur Þór Ragnarsson, sæti fangelsi í 3 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingar og hún niður falla að 2 árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærðu, Sigþór, Ingvi Þór og Baldur Þór, greiði A sameiginlega 814.831 krónu ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 af 608.381 krónu frá 27. desember 2007 til 26. október 2008, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 814.831 krónu frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði Sigþór greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar Ágústssonar héraðsdómslögmanns, 300.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ákærði Ingvi Þór greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ólafs Arnar Svanssonar hæstaréttarlögmanns, 340.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og ferðakostnað hans að fjárhæð 10.488 krónur.
Ákærði Baldur Þór greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Helga Birgissonar hæstaréttarlögmanns, 340.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og ferðakostnað hans að fjárhæð 20.976 krónur.