Hæstiréttur íslands

Mál nr. 516/2002


Lykilorð

  • Fasteign
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 5

 

Fimmtudaginn 5. júní 2003.

Nr. 516/2002.

Skúli Einarsson

(Stefán Geir Þórisson hrl.)

gegn

Félagi húseigenda Kringlunnar 8-12

(Ingvar Sveinbjörnsson hrl.)

 

Fasteign. Skaðabætur. Líkamstjón. Gjafsókn.

S slasaðist þegar hann gekk í gegnum svonefnda tunnuhurð inn í verslunarmiðstöð, en hurðin, sem var vélknúin, snerist stöðugt og stöðvaðist ef hún rakst á þann sem um hana gekk. S stefndi F, eiganda fasteignarinnar, til greiðslu bóta vegna slyssins. Talið var að umrædd hurð væri ekki búin sérstökum hættueiginleikum og að ekki væri sýnt fram á að hættulegra væri að fara um hana en ýmis önnur mannvirki sem yrðu á vegi manna væri eðlileg aðgát höfð. F bæri ekki hlutlæga ábyrgð á tjóni S af völdum slyssins heldur mætti rekja það til óhappatilviks. Var F því sýknað af kröfu S.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. nóvember 2002. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.410.662 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 7. janúar 2000 til 20. september 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem hann hefur notið á báðum dómstigum.

Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður falli niður.

Áfrýjandi hefur stefnt Sjóvá-Almennum tryggingum hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti. Um gjafsóknarkostnað áfrýjanda hér fyrir dómi fer samkvæmt því, sem í dómsorði segir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Skúla Einarssonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun lögmanns hans, 250.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. ágúst 2002.

Mál þetta sem dómtekið var 20. þessa mánaðar er höfðað með stefnu birtri 12. október 2001.

Stefnandi er Skúli Einarsson, Hvassaleiti 56, Reykjavík.

Stefndi er Félagi húseigenda Kringlunni 8-12, Kringlunni 8-12, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 2.410.662 krónur með 4,5% vöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, frá 7. janúar 2000 til 20. september 2001, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, með síðari breytingum, frá  þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Kringlunni 5, Reykjavík, er stefnt  til réttargæslu en engar kröfur eru gerðar á hendur þeim.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum dæmdur málskostnaður. Til vara er þess krafist að stefnukröfur verði lækkaðar og hvor aðili um sig látinn bera sinn kostnað af málinu.

Af hálfu réttargæslustefnda eru engar kröfur gerðar.

Helstu málavextir eru þeir að þann 7. janúar 2000 átti stefnandi, þá á 86. aldursári, leið ásamt eiginkonu sinni í gegnum inngang B við verslunina Nýkaup sem þá var starfrækt í Kringlunni hér í borg. Hurðin í innganginum er svokölluð "tunnuhurð" sem snýst stöðugt án þess að koma þurfi við hana. Er stefnandi var að fara út úr innganginum skall hurðin á honum með þeim afleiðingum að hann hlaut alvarlega áverka af en við höggið féll hann á gólfið. Stefndi, Félag húseigenda Kringlunnar 8-12, var á slysdeginum með gilda ábyrgðartryggingu hjá réttargæslustefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

Stefndi kveðst þegar hafa kennt mikilla þrauta, einkum í bakinu þar sem hurðin hafi lent á honum. Nálægt fólk hafi hópast að honum til að veita honum og eiginkonu hans aðstoð en henni hafði brugðið mikið við slysið. Komið hafi verið með hjólastól og stefnandi færður í hann. Stuttu síðar, eða þegar eiginkonu stefnanda hafi orðið ljóst að stefnandi væri mjög slæmur af verkjum vegna slyssins, hafi hún fengið aðstoð við að koma honum út í bíl og aftur til að koma honum inn á heimili þeirra.

Eftir að stefnandi hafði verið á heimili sínu í nokkra daga eftir slysið þótti ljóst að læknisaðstoð væri nauðsynleg enda stefnandi mjög slæmur af verkjum. Var farið með hann á slysadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss, Fossvogi, þar sem hann var rannsakaður. Kom þá í ljós að hafði hlotið samfallsbrot á hryggjarliðum við slysið. Var hann lagður inn á sjúkrahúsið í þrjár vikur en var síðan fluttur á Landspítala-háskólasjúkrahús, Landakoti, og var þar til 10. mars 2000 vegna afleiðinga slyssins. Stefnandi var síðan að nýju færður á sjúkrahús í tvær vikur frá 6. september 2000 vegna samfallsbrotsins í baki, sbr. læknisvottorð Ársæls Jónssonar, dags. 21. mars 2001.

Slysið hefur haft verulega slæmar afleiðingar á heilsu stefnanda eins og ofangreind lýsing ber með sér og fram kemur í hinum læknisfræðilegu gögnum. Í ofangreindu vottorði Ársæls Jónssonar, öldrunarlæknis, segir að stefnandi hafi allar götur síðan haft miklar þrautir í bakinu og þurft á aukinni meðferð og spítalavist að halda auk þess sem lyfjanotkunin sé allveruleg.

Vegna áverkanna var þess farið á leit við Jónas Hallgrímsson að hann mæti afleiðingar slyssins með hliðsjón of lögum nr. 50/1993 eins og þau voru á slysdeginum. Vegna matsins for stefnandi í viðtal til læknisins þann 26. júní 2001, en matsgerðin er dags. 9. ágúst 2001. Niðurstaða Jónasar Hallgrímssonar er sú að stefnandi hafi við slysið orðið fyrir þjáningum skv. 3. gr. skbl. auk þess að hafa hlotið 35% varanlegan miska.

Lögmaður stefnanda sendi kröfubréf, dags. 20. ágúst 2001, til réttargæslustefnda, Sjóvá-Almennra trygginga hf, þar sem krafist var greiðslu bóta á grundvelli matsgerðar Jónasar Hallgríssonar læknis. Félagið hafnaði hins vegar bótaskyldu, en sú afstaða hafði þegar komið fram í bréfum félagsins, dags. 5. júní 2001 og 14. júní 2001.

Stefnandi telur með fullu ljóst að um bótaskylt tjón sé að ræða sem stefndi, Félag húseigenda Kringlunni 8-12, beri fébótaábyrgð á vegna vanbúnaðar hurðarinnar. Hér sé um að ræða þunga, vélknúna hurð inngangi að verslunarmiðstöð þar sem allt frá ungabörnum til gamalmenna gangi um daglega. Sé um að ræða verulega fjölfarna inngönguleið. Fasteignareigendum hafi borið skylda til að tryggja að öryggisbúnaður hurðarinnar væri þannig úr garði gerður að hurðin stöðvaðist áður en hún skylli á vegfarendum. Verði ekki betur séð af bréfi réttargæslustefnda, Sjóvá-Almennra trygginga hf. dags. 15. maí 2000, en að viðurkenndur hafi verið vanbúnaður hurðarinnar. Þar segi m.a. orðrétt: "Viðhengi B - Sýnir hvernig hurð rekst á mann sem er að ganga í gegnum tunnuhurð, hurð stoppar ekki fyrr en hún rekst á manninn og það gerist af nokkru afli. Börn og gamalmenni geta slasast við það högg. / Viðhengi C/ Sýnir skyggt svæði sem skynjarar nema í dag og óskyggt svæði sem hætta er á að hurð rekist á mann er gengur í gegnum tunnuhurð. Myndin sýnir einnig hvar ætti að setja upp skynjara í tunnuhurð til að tryggja öryggi manns er gengur í gegnum tunnuhurð."

Augljóst sé af skoðun starfsmanns tjónasviðs félagsins að um vanbúnað hafi verið að ræða þar sem fleiri skynjarar væru nauðsynlegir til að koma í veg fyrir slys í líkingu við slys það sem stefnandi varð fyrir. Þá komi fram í bréfi réttargæslustefnda, Sjóvá-Almennra trygginga hf., dagsettu 14. júní 2001, að fleiri slys hafa átt sér stað í þessum dyrum. Það hafi hins vegar ekki verið fyrr en eftir þessi slys sem búnaður hurðarinnar hafi verið bættur með því að hraði hennar hafi verið færður niður, sem óhjákvæmilega bendi til þess að talið hafi verið að hætta haft stafað af búnaðinum.

Samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttarins beri fasteignareigandi bótaábyrgð vegna tjóns sem hljótist af vanbúnaði fasteignar hans og beri honum að gera viðhlítandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir hættu sem af eign hans kunni að stafa. Þá hvíli jafnframt rík varúðarskylda á eiganda fasteignar vegna hættueiginleika tækis sem staðsett sé í fasteigninni. Eigi það sérstaklega við þegar tilgangur tækisins sé að koma fólki inn og út úr eigninni. Hér sé um að ræða stórt verslunarhúsnæði þar sem búast megi við umgangi fjölda fólks dag hvern enda húseignin reist og starfrækt í þeim tilgangi og fólk jafnframt hvatt með auglýsingum til að koma þangað. Þar sem starfsemi sem þessi sé rekin í eigninni beri eiganda hennar að gæta þess sérstaklega að allur umbúnaður sé traustur og án slysahættu, enda von á allskonar fólki á öllum aldri.

Þá sé það skylda fasteignareiganda að vekja athygli vegfarenda á því með áberandi hætti ef einhver hætta stafi af fasteigninni eða búnaði hennar. Samkvæmt bréfi Magnúsar Pálssonar, öryggisstjóra stefnda, Húsfélags Kringlunnar, til réttargæslustefnda, Sjóvá-Almennra trygginga hf., sé hnappur staðsettur fyrir utan hurðina til að hægja á henni. Stefnandi telur fráleitt að halda því fram að slíkur útbúnaður sé nægjanleg ráðstöfun til að koma í veg fyrir slysahættu vegna hurðarinnar þegar af þeirri ástæðu að hurð sem þessi eigi einfaldlega að vera þannig úr garði gerð m.t.t. þeirrar starfsemi sem fram fari í húsinu, staðsetningar hurðarinnar og mikillar notkunar, að hún geti ekki valdið vegfarendum neinni hættu. Jafnframt verði ekki séð að komið hefði verið í veg fyrir slysið þrátt fyrir að hnappur þessi hefði verið notaður. Þá ber að líta til þess að hnappurinn hafi með engum hætti gerður svo áberandi að nægði til að vekja athygli vegfarenda enda hafi hvorki stefnandi né eiginkona hans tekið eftir hnappi þessum. Þá virðist sem hnappur þessi hafi ekki dugað í þeim tilvikum er aðrir hafi slasast í hurðinni.

Stefnandi telur jafnframt að strangari ábyrgð hvíli á stefnda en samkvæmt almennu sakarreglunni vegna eðlis húsnæðisins og búnaðar þess. Þá telur stefnandi að stefndi beri sönnunarbyrði um að slysið haft ekki orðið vegna vanbúnaðar hurðarinnar.

Dómkrafa stefnanda sundurliðast þannig:

1. Bætur vegna sjúkra- og lyfjakostnaðar                        kr. 46.070.-

2. Bætur vegna þjáningatímabils                                      

51 x 1.680 + 203 x 900                                                           kr. 319.380.-

3. Bætur vegna miska                                                                         

35 % af kr. 3.878.500.- = 1.357.475.

-1.375.475 x 50 %     =   687.737.

      2.045.212.-                        kr. 2.045.212

Samtals                 kr. 2.410.662.-

Stefnandi byggir m.a. á matsgerð Jónasar Hallgrímssonar, dags. 9. ágúst 2001, og skaðabótalögum nr. 50/1993.

Kröfu um bætur vegna sjúkra- og lyfjakostnaðar byggir stefnandi á 1. gr. skaðabótalaga en stefnandi kveðst hafa orðið fyrir umtalsverðu fjártjóni vegna slyssins. Stefnandi byggir á gíróseðlum, kvittunum, reikningum og yfirlitum frá Rauða krossi Íslands, Sjúkrahúsi Reykjavíkur, Sjúkrahúsapóteki Reykjavíkur og Lyfjum og  heilsu samtals að fjárhæð 46.070 krónur.

Krafan um þjáningabætur byggist á 3. gr. skbl. Samkvæmt matsgerð Jónasar Hallgrímssonar hafi stefnandi verið veikur í skilningi ákvæðisins frá slysdeginum til 21. september 2000. Þá hafi hann verið rúmliggjandi fyrst í 35 daga eftir slysið og síðan 16 daga, eða samtals í 51 dag.

Krafan um bætur fyrir varanlegan miska byggist á 4. gr. skbl. Þá telur stefnandi að aðstæður séu með þeim hætti að þær réttlæti kröfu um 50% hærri bætur en skv. 1-2 mgr. 4. gr., sbr. 3 . mgr. 4. gr.

Dráttarvaxta er krafist frá 20. september 2001, eða mánuði eftir dagsetningu kröfubréfsins til réttargæslustefnda, Sjóvá-Almennra trygginga hf., þar sem allar forsendur voru til staðar til að ganga frá uppgjöri í málinu. Var dráttarvaxtakrafan boðuð í niðurlagi bréfsins.

Um bótakröfuna vísar stefnandi til almennra reglna íslensks skaðabótaréttar, einkum reglunnar um ábyrgð húseigenda og umráðamanna húseigna, skaðabótalaga, nr. 50/1993, með síðari breytingum og fjöleignahúsalaga nr. 26/1994, með síðari breytingum, einkum 51.-54. gr. laganna.

Um vaxtakröfur er vísað til vaxtalaga nr. 25/1987 og laga um vexti og verðtryggingu, nr. 3 8/2001, einkum 1. mgr. 6. gr. laganna.

Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Af hálfu stefnda eru ekki bornar brigður á lýsingu stefnanda í stefnu á því hvernig slysið bar að höndum né það líkamstjón sem slysið hafði í för með sér fyrir hann.

Umrædd hurð hafi verið sett í Kringluna fyrir tæpum þremur árum. Hurðin virki þannig að hún snúist í hringi á jöfnum hraða. Útbúnaður hurðarinnar hafi aðallega þann tilgang að halda hita inni í húsinu.

Tveir skynjarar séu innan hurðar í millivegg, sem geri það að verkum að hurðin stöðvist sjálfkrafa án snertingar komi hún of nærri þeim, sem eigi leið sína um hana. Þessir skynjarar séu aðeins á ytra hluta veggjar millihurðarinnar, þar sem minnst sé umferð. Hins vegar stöðvist hurðin að öðru leyti aðeins við snertingu vegfarenda við hælvarnarlista, sem sé neðst á miðju hurðarinnar.

Það sé ekki talið hægt að hafa skynjara fyrir öllum milliveggnum, því að hurðin myndi ekki virka nægilega, þar sem hún væri sífellt að stöðvast ef því væri þannig fyrir komið.

Umrædd hurð eigi að vera hættulaus ef fólk sýni eðlilega aðgætni á ferð sinni um hana. Bent sé á að vegfarendur geti stillt hraða hennar, bæði utan frá og innan, telji þeir að hún gangi of hratt miðað við getu þeirra.

Þessi gerð af hurðum, sem sé þýsk framleiðsla, hafi verið tekin í notkun um allan heim, m.a. í flugstöðvum, þ.á.m. Keflavíkurflugvelli, verslunarmiðstöðvum og stærri fyrirtækjum. Eins og málum hátti á Íslandi fari ekki fram nein sérstök úttekt byggingaryfirvalda á búnaði fasteigna sem þessari hringhurð en hins vegar uppfylli hún öll öryggisskilyrði í framleiðslulandinu.

Því er haldið fram að útbúnaður hurðarinnar og virkni hennar geti á engan hátt talist saknæm og að slysið verði því fyrst og fremst rakið til óhapps eða aðgæsluleysis stefnanda. Beri því að taka kröfur stefnda til greina.

NIÐURSTAÐA

Dyr þær sem stefnandi fór um eru þannig útbúnar að hurðin í þeim stöðvast ef hún rekst á þann sem um þær gengur. Einnig er ljósnemi sem skynjar ef fólk er á tilteknu svæði í dyraopi og stöðvast hurðin við það. Í yfirlýsingu vitnisins Ragnars Sveinssonar, tæknimanns hjá A. Karlssyni hf. frá 17. febrúar 2000 til öryggisstjóra stefnda segir að öryggisbúnaður hringhurðar við Nýkaup í Kringlunni þann 16. febrúar 2000 hafi allur reynst í góðu lagi. Vitnið sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að hurðin hefði verið sett upp í september-október 1999 og tekin í notkun um hálfum mánuði síðar. Fram kemur í málinu að slys hafði orði í dyrunum 4. nóvember 1999 er öldruð kona féll við að hurðarvængur kom aftan á hana. Slys stefnanda virðist hafa borið að með sama hætti. Enn fremur hafa 3 slys orðið með sama hætti á tímabilinu 4. júlí 2000 til 15. mars 2002. Fram kom hjá vitninu Zóphaníasi Sigurðssyni, tæknistjóra Kringlunnar, að um 5 milljónir manna komi í Kringluna á ári og þar af um 30%, eða ein og hálf milljón um dyrnar þar sem slysið varð. Ekki liggja fyrir gögn í málinu sem benda til þess að bilun hafi orðið í búnaði hurðarinnar er slysið varð.

Hurðin í dyrunum er stefnandi gekk um er þannig útbúin að hún stöðvast ef hurðarvængur kemur á þann sem um dyrnar fer. Ekki er fallist á það með stefnanda að hurðin sé búin sérstökum hættueiginleikum sem leiði til ábyrgðar stefnda verði slys við notkun hennar. Er ekki sýnt fram á að hættulegra sé að fara um hana heldur en um ýmis mannvirki önnur sem verða á vegi manna, sé eðlileg aðgát höfð. Er ekki fallist á þá málsástæðu stefnanda að hugleiðingar forstöðumanns tjónasviðs réttargæslustefnda í bréfi, dagsettu 15., maí feli í sér viðurkenningu á bótaskyldu stefnda eða að af þeim verði sú ályktun dregin að búnaði hefði átt að breyta til þess að hann teldist fullnægjandi.

Þá er ekki sýnt fram á að stefndi beri hlutlæga ábyrgð á slysi stefnanda sem rekja verður til óhappatilviks sem stefndi ber ekki ábyrgð á.

Samkvæmt þessu verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda en málskostnaður fellur niður.

Stefnandi hefur fengið gjafsókn í máli þessu og greiðist allur málskostnaður hans úr ríkissjóði, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns hans, 350.000 krónur auk virðisaukaskatts úr ríkissjóði.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ

                Stefndi, Félag húseigenda Kringlunni 8-10, skal sýkn af öllum kröfum stefnanda, Skúla Einarssonar.

                Málskostnaður fellur niður.

                Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóð, þ.m.t. málflutningsþóknun lögmanns hans, 350.000 krónur.