Hæstiréttur íslands
Mál nr. 52/2004
Lykilorð
- Útlendingur
- Brottvísun úr landi
- Rannsókn
- Ógilding
- Stjórnvaldsákvörðun
- Gjafsókn
- Sératkvæði
|
|
Föstudaginn 18. júní 2004. |
|
Nr. 52/2004. |
Kestutis Baginskas(Hilmar Magnússon hrl.) gegn íslenska ríkinu (Óskar Thorarensen hrl.) |
Útlendingar. Brottvísun úr landi. Rannsókn. Ógilding. Stjórnvaldsákvörðun. Gjafsókn. Sératkvæði.
Stjórnvöld kusu að sækja stoð fyrir ákvörðun sinni um brottvísun K úr landi í lagaheimild, sem háð var því að dvöl hans hér á landi yrði talin hættulega hagsmunum almennings. Í ljósi þess var talið að þeim hafi borið að rannsaka sérstaklega, sbr. 10. gr. laga nr. 37/1993, hvort geðheilsu K var svo komið að þessu skilyrði væri fullnægt, eftir atvikum með þeim úrræðum, sem um ræðir í d. lið 1. mgr. 71. gr. laga nr. 19/1991. Gátu stjórnvöld ekki látið þetta hjá líða vegna hugsanlegs kostnaðar eða tafa sem af þessu myndi leiða og þess í stað stuðst við ályktanir um heilsufar K, sem dregnar voru af læknisfræðilegum gögnum frá árinu 1995, án þess að gæta um leið að því að hann hafi fengið lausn undan öryggisgæslu í heimalandi sínu fjórum árum síðar. Voru þannig taldir slíkir annmarkar á málsmeðferð útlendingaeftirlitsins að óhjákvæmilegt væri að ógilda úrskurð dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um staðfestingu ákvörðunar útlendingaeftirlitsins um afturköllun á dvalarleyfi K, brottvísun hans úr landi o.fl.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Guðrún Erlendsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. janúar 2004 og krefst þess aðallega að ógiltur verði úrskurður dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 8. febrúar 2002 um staðfestingu ákvörðunar útlendingaeftirlitsins 26. nóvember 2001 um afturköllun á dvalarleyfi áfrýjanda, brottvísun frá Íslandi sem jafnframt gildir á Norðurlöndum, ævilangt endurkomubann til Íslands og skráningu í Schengen-upplýsingakerfið næstu þrjú árin. Til vara að ævilangt endurkomubann til Íslands verði fellt úr gildi. Hann krefst og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar hans fyrir réttinum.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Samkvæmt gögnum málsins kom áfrýjandi, sem er ríkisborgari Litháen, hingað til lands seint á árinu 1999. Fékk hann hér tímabundið dvalarleyfi og atvinnuleyfi 15. mars 2000, sem standa skyldi til 1. febrúar 2001.
Fyrir liggur að lögreglu í Reykjavík bárust í byrjun maí 2001 spurnir um að áfrýjandi kynni að hafa einhverjum árum áður gerst sekur um alvarlegt afbrot í heimalandi sínu. Að þessu fram komnu leitaði lögregla nánari upplýsinga um áfrýjanda og kom þá fram að hann hafi gerst sekur á árinu 1995 um manndráp og kynferðisbrot. Hann hafi verið talinn ósakhæfur og því vistaður á geðsjúkrahúsi, en þaðan hafi hann verið útskrifaður á árinu 1999. Lögregla kvaddi áfrýjanda af þessu tilefni á sinn fund 20. september 2001, þar sem hann kannaðist við framangreind atvik. Sagðist hann hafa átt við geðræn vandamál að stríða, en gæti nú með töku lyfja stundað vinnu og átt eðlilegt líf.
Máli áfrýjanda var beint til útlendingaeftirlitsins, sem tók skýrslu af honum 4. október 2001 og aflaði síðan frekari gagna að utan, þar á meðal um sjúkdóm þann, sem áfrýjandi var talinn hafa átt við að stríða. Liggur fyrir að útlendingaeftirlitið hafi fengið þannig upplýst að áfrýjandi hafi verið talinn haldinn ofsóknarkenndum geðklofa, („paranoia schitzophrenia“). Að fengnum þeim upplýsingum leitaði útlendingaeftirlitið eftir afstöðu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til málsins með orðsendingu 2. nóvember 2001, þar sem sagði meðal annars: „Undirrituð hefur tvisvar haft samband við geðsvið Landspítalans og rætt þar við vakthafandi lækna, sem báðir upplýstu að geðklofi væri sjúkdómur sem væri næsta ólæknanlegur og meðferð tæki mörg ár. Í gær ræddi undirrituð við vakthafandi geðlækni og tjáði honum að staðfesting hefði fengist á því að maðurinn „hefði verið með ofsóknarkenndan geðklofa“ og var læknirinn mjög undrandi á því að maðurinn gæti starfað og sinnt eðlilegum daglegum þörfum sínum. Þegar lækni var tjáð að maðurinn væri mjög ungur (fæddur 1976) varð undrun hans enn meiri og voru spekúlasjónir uppi um að röng sjúkdómsgreining hefði átt sér stað, því paranoia schitzophrenia er illvígur sjúkdómur sem ekki læknast af sjálfu sér og þarf fólk almennt að vera á lyfjum alla sína ævi, auk þess að vera undir stöðugu eftirliti lækna. Með tilliti til þessa er það álit undirritaðrar að krefja beri manninn um að ganga til geðlæknis, auk þess sem spurning er hvort ekki eigi að fara fram ítarleg rannsókn á geðrænum burðum hans, með tilliti til fyrri atburða og þeirrar sjúkdómsgreiningar sem hann fékk í heimalandi.“ Ekki liggur fyrir hver svör ráðuneytisins urðu við þessu erindi.
Með bréfi 6. nóvember 2001 fór útlendingareftirlitið þess á leit við Landspítala háskólasjúkrahús að þar yrði lagt mat á geðheilsu áfrýjanda. Þessu neitaði sjúkrahúsið með bréfi 23. sama mánaðar, þar sem vísað var til þess að geðrannsókn færi þar ekki fram í sakamálum nema leitað væri eftir því af hendi dómstóla, ákæruvalds eða verjenda sakaðra manna.
Hinn 26. nóvember 2001 tilkynnt útlendingareftirlitið áfrýjanda bréflega um þá ákvörðun, sem áðurgreindar dómkröfur hans í málinu lúta að. Í ákvörðuninni var meðal annars vikið að framangreindum atriðum, þar á meðal að Landspítali háskólasjúkrahús hafi ekki fengist til að framkvæma geðrannsókn á áfrýjanda af framangreindri ástæðu, auk þess sem fram hafi komið að útvega yrði læknisfræðileg gögn frá heimalandi hans og fá aðstoð túlks ef rannsaka ætti geðheilsu áfrýjanda hér á landi að eigin ósk hans. Með því að útlendingaeftirlitið ætti ekki tök á að krefjast þess við áfrýjanda að hann gengist undir slíka rannsókn væri það álit þess að taka yrði ákvörðun í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna, enda yrði geðheilsa hans ekki könnuð frekar nema með kostnaðarsömum og tímafrekum aðgerðum. Líta yrði til þess að áfrýjandi nyti hér aðeins tímabundins dvalarleyfis og atvinnuleyfis, sem afturkalla mætti þegar útlendingaeftirlitið teldi ástæðu til. Væri það álit útlendingaeftirlitsins að áfrýjandi væri hættulegur sjálfum sér og umhverfi sínu með tilliti til sjúkdómsgreiningar hans í heimalandi, en það væri skylda útlendingareftirlitsins að gæta hagsmuna íslenskra borgara, þótt það kynni að hafa í för með sér brottvísun áfrýjanda. Var af þessum sökum og með vísan til 4. töluliðar 1. mgr. 11. gr. þágildandi laga nr. 45/1965 um eftirlit með útlendingum tekin ákvörðunin, sem áður getur, og hún kynnt áfrýjanda 3. desember 2001.
Áfrýjandi kærði framangreinda ákvörðun útlendingaeftirlitsins til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 14. desember 2001. Við meðferð kærumálsins aflaði áfrýjandi meðal annars læknisfræðilegra gagna frá heimalandi sínu varðandi útskrift hans af sjúkrahúsi 30. ágúst 1999. Kom meðal annars fram í þeim gögnum að við útskrift hafi áfrýjandi ekki talist hafa einkenni af geðsjúkdómum og heldur ekki þarfnast frekari læknismeðferðar.
Ákvörðun útlendingaeftirlitsins var staðfest með úrskurði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 8. febrúar 2002. Í samræmi við þá niðurstöðu mun áfrýjandi hafa haldið héðan af landi brott 2. mars sama ár.
II.
Samkvæmt fyrrnefndum 4. tölulið 1. mgr. 11. gr. laga nr. 45/1965 var útlendingaeftirlitinu heimilt að vísa útlendingi úr landi ef áframhaldandi dvöl hans hér á landi teldist hættuleg hagsmunum ríkisins eða almennings eða vist hans var óæskileg af öðrum ástæðum. Því er borið við af hálfu stefnda að brottvísun áfrýjanda hafi helgast af þeirri heimild, sem hér um ræðir, vegna þeirrar hættu, sem almenningi var búin af dvöl hans á landinu.
Þegar útlendingaeftirlitið tók ákvörðun sína 26. nóvember 2001 hafði áfrýjandi dvalið hér á landi í nærfellt tvö ár. Virðist annað ekki hafa legið fyrir en að hann hafi stundað vinnu á því tímabili og hvorki leitað læknismeðferðar né tekið lyf vegna þess geðsjúkdóms, sem hann taldist haldinn samkvæmt læknisfræðilegum gögnum á árinu 1995. Þá er ekkert fram komið um framferði áfrýjanda hér á landi, sem bent gæti til geðrænna sjúkdóma hans eða að hættu stafaði af honum. Af áðurgreindri umleitan útlendingaeftirlitsins til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 2. nóvember 2001 verður séð að þá hafði verið leitað almennra upplýsinga sérfræðinga um þann sjúkdóm, sem áfrýjandi var talinn haldinn á árinu 1995. Var þar meðal annars greint frá því að sérfræðingur, sem rætt hafði verið við, hafi leitt að því getum að greining á sjúkdómi áfrýjanda í heimalandi hans kynni að vera röng að teknu tilliti til aðstæðna hans hér á landi.
Við töku íþyngjandi ákvörðunar um brottvísun áfrýjanda úr landi á grundvelli almennt orðaðrar heimildar í 4. tölulið 1. mgr. 11. gr. laga nr. 45/1965 bar útlendingaeftirlitinu að rannsaka svo sem kostur var öll þau atriði, sem máli gátu skipt, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í því skyni stóð meðal annars heimild til þess að leita atbeina lögreglu til rannsóknar, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 45/1965. Úr því að stjórnvöld kusu í máli áfrýjanda að sækja stoð fyrir ákvörðun sinni um brottvísun hans úr landi í lagaheimild, sem háð var því að dvöl hans hér á landi yrði talin hættuleg hagsmunum almennings, bar að rannsaka sérstaklega hvort geðheilsu hans var svo komið að þessu skilyrði væri fullnægt, eftir atvikum með þeim úrræðum, sem um ræðir í d. lið 1. mgr. 71. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Gátu stjórnvöld ekki látið þetta hjá líða vegna hugsanlegs kostnaðar eða tafa, sem af þessu myndi leiða, og þess í stað stuðst við ályktanir um heilsufar áfrýjanda, sem dregnar voru af læknisfræðilegum gögnum frá árinu 1995, án þess að gæta um leið að því að hann hafi fengið lausn undan öryggisgæslu í heimalandi sínu fjórum árum síðar. Voru þannig slíkir annmarkar á málsmeðferð útlendingaeftirlitsins og síðar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að óhjákvæmilegt er að taka aðalkröfu áfrýjanda til greina.
Rétt er að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður. Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað skal standa óraskað, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ógiltur er úrskurður dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 8. febrúar 2002 um staðfestingu ákvörðunar útlendingaeftirlitsins 26. nóvember 2001 um afturköllun á dvalarleyfi áfrýjanda, Kestutis Baginskas, hér á landi, brottvísun hans héðan sem jafnframt gildir á Norðurlöndum, ævilangt endurkomubann til Íslands og skráningu í Schengen-upplýsingakerfið næstu þrjú árin.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað skal standa óraskað. Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 350.000 krónur.
Sératkvæði
Garðars Gíslasonar
Málavextir er raktir í héraðsdómi og í kafla I í atkvæði meirihluta dómenda, og er ekki um þá ágreiningur.
Samkvæmt gögnum málsins var áfrýjandi af dómstól heimalands síns 24. júní 1997 fundinn sekur um verkað sem talinn var hafa ógnað almannaöryggi, en úrskurðaður ósakhæfur vegna niðurstöðu geðrannsóknar um að hann væri bæði þá og hefði verið „á því tímabili sem glæpurinn var framinn haldinn geðsjúkdómi geðklofa“ og því hvorki gert sér grein fyrir hegðan sinni né stjórnað henni. Var hann undanþeginn refsingu en gert skylt að gangast undir meðferð sérfræðinga á geðsjúkrahúsi undir strangri gæslu. Er því í ljós leitt að áfrýjandi framdi slík afbrot í heimalandi sínu 1995 að hann hefði þar væntanlega sætt margra ára fangelsisvist hefði hann ekki verið úrskurðaður ósakhæfur og vistaður í geðsjúkrahúsi vegna sjúkdómsins geðklofa, sem talinn er nánast ólæknanlegur nema með lyfjameðferð undir eftirliti á mjög löngum tíma.
Þetta lá fyrir þegar útlendingaeftirlitið tók ákvörðun sína 26. nóvember 2001 um vísun áfrýjanda úr landi á grundvelli 4. töluliðar 1. mgr. 11. gr. laga nr. 45/1965 um eftirlit með útlendingum. Við þessar aðstæður verður að fallast á þá niðurstöðu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 8. febrúar 2002, að útlendingaeftirlitið hafi mátt leggja úrskurð á málið án frekari rannsóknar. Verður þannig ekki séð að því hafi borið á grundvelli d. liðar 1. mgr. 71. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð opinberra mála að rannsaka geðheilsu áfrýjanda sérstaklega, enda ekkert sem bendir til að rökstudd ástæða hafi verið til að efast um niðurstöðu þeirrar geðrannsóknar sem leiddi til þess að hann var metinn ósakhæfur. Vegna þessa og með vísan til forsendna héraðsdóms að öðru leyti er rétt að staðfesta hann.
Ég er sammála ákvæði meirihluta um málskostnað og gjafsóknarkostnað.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. október 2003.
I
Málið var höfðað 9. október 2002 og tekið til dóms 7. október sl.
Stefnandi er Kestutis Baginskas, til heimilis í Telsiai í Litháen.
Stefndi er íslenska ríkið.
Dómkröfur stefnanda eru að ógiltur verði úrskurður dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 8. febrúar 2002 "um að staðfesta úrskurð útlendingaeftirlitsins frá 26. nóvember 2001, um afturköllun dvalarleyfis stefnanda, brottvísun hans frá Íslandi er jafnframt gildir á Norðurlöndum, ævilangt endurkomubann til Íslands og skráningu í Schengen-upplýsingakerfið. Til vara er þess krafist að ævilangt endurkomubann stefnanda til Íslands verði fellt úr gildi svo og skráning stefnanda í Schengen-upplýsingakerfið." Þá er krafist málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar.
II
Stefnandi, sem er litháískur ríkisborgari, kom til landsins seint á árinu 1999. Hann fékk hér vinnu og var honum upphaflega veitt atvinnu- og dvalarleyfi 15. mars 2000, er gilti til 1. febrúar 2001. Það var síðar framlengt og gilti þá til 1. febrúar 2002. Þetta leyfi var afturkallað með ákvörðun útlendingaeftirlitsins 26. nóvember 2001, sem staðfest var með úrskurði dóms-og kirkjumálaráðuneytisins 8. febrúar 2002. Í framhaldi af þessu fór stefnandi af landi brott 2. mars 2002.
Ákvörðun útlendingaeftirlitsins var byggð á 4. tl. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 45/1965 um eftirlit með útlendingum en þar segir að heimilt sé að vísa útlendingi úr landi ef áframhaldandi dvöl hans hér á landi telst hættuleg hagsmunum ríkisins eða almennings, eða vist hans er óæskileg af öðrum ástæðum. Í ákvörðuninni fólst að dvalarleyfi stefnanda var afturkallað og honum vísað úr landi. Jafnframt var honum bannað að koma aftur til landsins fyrir fullt og allt og gilti það bann einnig fyrir öll Norðurlöndin, sbr. Norðurlandasamning þar um frá 1957. Bannið var skráð í Schengen-upplýsingakerfið, sem þýðir að stefnandi er óæskilegur í Schengen ríkjunum í 3 ár frá skráningunni.
Framangreind ákvörðun var tekin vegna þess að komið hafði í ljós að stefnandi hafði á árinu 1995 verið dæmdur í heimalandi sínu fyrir að nauðga og myrða unga konu. Þar eð stefnandi greindist með geðklofa var hann dæmdur til vistar á lokuðu geðsjúkrahúsi en var látinn laus þaðan 1999 og mun hafa komið til Íslands í framhaldi af því.
Í stefnu kveðst stefnandi hafa náð góðum bata á sjúkrahúsinu og hafi hann verið útskrifaður án lyfja. Hann kveður sér hafa gengið vel að aðlagast samfélaginu á nýjan leik og ekki gerst brotlegur við refsilög.
III
Stefnandi byggir á því að meðferð útlendingaeftirlitsins á máli hans hafi hvorki verið í samræmi við ákvæði laga nr. 45/1965, er þá giltu um eftirlit með útlendingum, né í samræmi við ákvæði laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Þá hafi ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verið brotin á honum svo og ákvæði laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu auk mannréttindaákvæða stjórnarskrárinnar.
Stefnandi telur að það sé brot á stjórnarskránni að sami aðili rannsaki mál og úrskurði í því eins og verið hafi samkvæmt ákvæðum laga nr. 45/1965. Leiði þetta til þess að ógilda beri málsmeðferðina. Samkvæmt 18. gr. laganna skuli fara með rannsókn brota gegn þeim að hætti opinberra mála en af því leiði að lögreglan eigi að rannsaka þau en ekki útlendingaeftirlitið. Við rannsókn málsins hafi verið brotið gegn rétti stefnanda, honum hafi ekki verið tjáð að hann þyrfti ekki að tjá sig um sakarefnið og þá hafi honum ekki verið skipaður réttargæslumaður. Þá telur stefnandi að annar starfsmanna dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, sem standa að úrskurðinum, hafi verið vanhæfur þar eð útlendingaeftirlitið hafi beint til hans fyrirspurn um hvernig staðið skyldi að afgreiðslu máls stefnanda. Þetta eigi að leiða til ógildingar úrskurðarins, sbr. 3. gr. stjórnsýslulaga. Mál stefnanda hafi heldur ekki verið rannsakað sem skyldi, sbr. 10. gr. sömu laga og lög um meðferð opinberra mála, sem hafi valdið því að úrskurðurinn hafi verið byggður á ófullkomnum og að hluta til röngum gögnum, sem gefið hafi aðra og alvarlegri mynd af sjúkleika hans en réttmætt hafi verið. Loks er á því byggt að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga þar eð tekin hafi verið íþyngjandi ákvörðun í máli stefnanda þegar stjórnvöld hefðu getað náð markmiði sínu með vægara móti.
Stefnandi byggir á því að brottvísunarheimildin í 4. tl. 11. gr. laga nr. 45/1965 sé brot á 2. mgr. 66. gr. stjórnarskrárinnar, sem kveði á um að í lögum skuli skipað fyrir hverjar sakir sé hægt að vísa útlendingum úr landi. Lagaheimildin lúti að atriði, sem sé matskennt, og það sé ólögmætt framsal löggjafans til framkvæmdavaldsins að hafa þennan hátt á. Í lögum eigi að kveða á um heimildir til að vísa útlendingum úr landi en ekki leggja þær ákvarðanir undir mat stjórnvalds.
Þá telur stefnandi að við meðferð málsins hafi verið brotið gegn inntaki 1. gr. a-liðar samningsviðauka nr. 7 við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. 5. tl. 1. gr. laga nr. 62/1994 og bendir á að andmælaréttur hans hafi ekki verið virtur.
Varakrafa stefnanda er á því byggð að framkoma hans og hegðun hér á landi geti ekki gefið tilefni til þeirra þungbæru viðurlaga, sem að hans mati felst í ævilöngu banni við komu til landsins svo og skráningu í Schengen-upplýsingakerfið. Heimild 14. gr. laga nr. 45/1965 beri að skýra þröngt, enda sé þar um að ræða verulega íþyngjandi afleiðingar fyrir þá, sem fyrir þeim verða.
Stefndi byggir á því að lagaskilyrði hafi verið fyrir því að vísa stefnanda úr landi, banna honum endurkomu til landsins, er nái einnig til Norðurlandanna, svo og að skrá þessar upplýsingar í Schengen-upplýsingakerfið. Vísar stefndi máli sínu til stuðnings til ákvæða laga nr. 45/1965, laga nr. 16/2000 um Schengen-upplýsingakerfið og til Norðurlandasamnings frá 12. júlí 1957.
Stefndi bendir á að stefnandi hafi framið glæp í heimalandi sínu. Hann hafi verið greindur með nánast ólæknandi geðsjúkdóm, verið úrskurðaður ósakhæfur og vistaður á sjúkrahúsi eins og rakið var. Það hafi verið mat stefnda að stefnandi væri hættulegur hagsmunum almennings og ríkisins og að hann væri hættulegur sjálfum sér. Honum hafi því verið vísað úr landi, enda hafi hér vegið þyngra hagsmunir almennings heldur en hagsmunir stefnanda sjálfs. Bendir stefndi enn fremur á að stefnandi hafi ekki upplýst um þessa hagi sína við komuna til landsins. Hefðu þær upplýsingar legið fyrir hefði honum verið meinuð landganga.
Stefndi byggir og á því að málsmeðferð hafi verið málefnaleg og lögmæt. Strax og upplýsingar bárust um fortíð hans hafi hann verið kvaddur til yfirheyrslu. Hann hafi ekki talið sig þurfa á lögmannsaðstoð að halda í upphafi en á síðari stigum hafi hann notið hennar. Túlkur hafi hins vegar túlkað við yfirheyrsluna. Þá hafi stefnandi aldrei verið leyndur því af hverju væri verið að athuga mál hans og réttarstaða hans verið útskýrð fyrir honum. Útlendingaeftirlitið hafi kannað rækilega hvers eðlis sjúkdómur stefnanda væri og hverjar væru batahorfur hans. Komið hafi í ljós að sjúkdómsgreining hans var ofsóknarkenndur geðklofi og að batahorfur væru litlar sem engar. Það er á því byggt af hálfu stefnda að mál stefnanda hafi því verið fullrannsakað, andmælaréttar hans hafi verið gætt og ákvörðunin, sem tekin var í máli hans, hafi verið í eðlilegu samræmi við málsatvik og því í samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.
Af hálfu stefnda er á því byggt að rétt hafi verið að rannsókn máls stefnanda staðið af hálfu útlendingaeftirlitsins, enda fari það með stjórnsýsluþátt laga nr. 45/1965 en lögreglan með refsiþáttinn. Þessi málsástæða stefnanda byggi því á misskilningi. Engin gögn bendi til þess að starfsmaður dóms- og kirkjumálaráðuneytisins hafi verið vanhæfur til að kveða upp úrskurð í málinu þar eð hann hafi fyrir fram látið í ljós skoðun á því.
IV
Af hálfu stefnanda er á því byggt að lagaheimildin, sem ákvörðun útlendingaeftirlitsins var byggð á, sé andstæð 2. mgr. 66. gr. stjórnarskrárinnar en þar segir að með lögum skuli skipa rétti útlendinga til að koma til landsins og dveljast hér, svo og fyrir hverjar sakir sé hægt að vísa þeim úr landi. Í lagagreininni segir að heimilt sé að vísa útlendingi úr landi ef áframhaldandi dvöl hans hér á landi telst hættuleg hagsmunum ríkisins eða almennings, eða vist hans er óæskileg af öðrum ástæðum. Þessi heimild gerir ráð fyrir að hægt sé að vísa útlendingi úr landi á grundvelli mats stjórnvalds en við það mat ber stjórnvaldi að leggja til grundvallar reglur stjórnsýsluréttarins, eins og fjallað verður um hér á eftir. Dómurinn hafnar því þeirri málsástæðu að nefnd lagagrein brjóti í bága við stjórnarskrána.
Þá er á því byggt að óheimilt hafi verið að sami aðili rannsakaði mál stefnanda og úrskurðaði í því. Telur stefnandi þetta líka brjóta gegn stjórnarskránni og bendir á að samkvæmt 18. gr. laga nr. 45/1965 eigi lögreglan að rannsaka brot gegn lögunum en ekki útlendingaeftirlitið sem úrskurði í þeim. Stefnandi hefur ekki verið sakaður um brot á þessum lögum og breytir engu þótt svo sé ritað á skjalaskrá, er gerð var við upphaf rannsóknar máls hans. Stefnanda var hins vegar vísað úr landi á grundvelli nefndra laga og á þessi málsástæða hans ekki við í málinu.
Einnig er á því byggt að annar starfsmanna dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, sem standa að úrskurði þess, hafi verið vanhæfur þar eð útlendingaeftirlitið hafi beint til hans fyrirspurn um hvernig staðið skyldi að afgreiðslu máls stefnanda og eigi þetta að leiða til ógildingar úrskurðarins. Í gögnum málsins er tölvupóst- og símbréf frá starfsmanni útlendingaeftirlitsins til þessa starfsmanns. Það hafa hins vegar engin gögn verið lögð fram um að starfsmaður ráðuneytisins hafi svarað þessum bréfum eða á annan hátt tekið afstöðu í málinu áður en úrskurðað var í því. Þeirri málsástæðu er því hafnað að hann hafi verið vanhæfur til að kveða upp úrskurðinn.
Uppphaf máls þessa má rekja til þess að 2. maí 2001 kom ónefndur aðili á lögreglustöðina í Reykjavík og gaf þær upplýsingar um stefnanda að hann hefði nauðgað og myrt unga konu í heimalandi sínu. Afhenti hann lögreglunni blaðagrein frá Litháen máli sínu til stuðnings. Lögreglan lét þýða greinina og aflaði upplýsinga um stefnanda. Hann var svo boðaður á lögreglustöðina í Reykjavík og mætti þar 20. september 2001. Þar ræddi lögreglumaður við hann á ensku og var vottur viðstaddur. Um viðræðurnar var gerð skýrsla þar sem fram kemur að stefnanda hafi verið kynnt tilefni viðtalsins, sem voru framangreindar upplýsingar, og að hann þyrfti ekki að svara spurningum. Í skýrslunni er skráð eftir stefnanda að hann hafi verið dæmdur árið 1995 fyrir morð í heimalandi sínu. Hann hafi verið dæmdur til vistunar á lokuðu geðsjúkrahúsi og verið vistaður þar í fjögur ár. Hann hafi fyrst komið til Íslands sem ferðamaður 1999 en síðan aftur í janúar 2000 til að setjast hér að. Stefnandi kvaðst hafa átt við geðræn vandamál að stríða en væri nú á jafnvægislyfjum og geti þess vegna stundað vinnu og lifað eðlilegu lífi.
Gögn málsins voru send útlendingaeftirlitinu og var þar tekin skýrsla af stefnanda 4. október 2001. Honum var gerð grein fyrir tilefni skýrslutökunnar og honum boðið að kalla til lögmann, sem hann hafnaði. Viðstaddur yfirheyrsluna var litháískur túlkur. Í skýrslunni er haft eftir stefnanda að hann hafi aldrei komið fyrir dóm vegna framangreinds máls heldur verið greindur með geðklofa, úrskurðaður ósakhæfur og vistaður á geðsjúkrahúsi. Í lok yfirheyrslunnar var stefnanda tilkynnt að útlendingaeftirlitið væri að skoða málið með tilliti til afturköllunar dvalarleyfis hans og honum veittur 7 daga frestur til að leggja fram greinargerð. Jafnframt var honum bent á að ráðfæra sig við lögmann. Þá voru honum kynnt ákvæði laga nr. 45/1965 og laga nr. 16/2000 og ákvæði Norðurlandasamnings frá 1957.
Í framhaldi af þessu hóf útlendingaeftirlitið að afla gagna um stefnanda frá heimalandi hans. Jafnframt var lagt fyrir lögregluna í Reykjavík að hafa eftirlit með honum.
Lögmaður stefnanda skilaði greinargerð 5. nóvember 2001 og mótmælti því að dvalarleyfi hans yrði afturkallað. Taldi hann málið ekki hafa verið rannsakað fyllilega og því skorti lagaskilyrði til að taka slíka ákvörðun.
Með bréfi 6. nóvember 2001 fór útlendingaeftirlitið fram á það við geðdeild Landspítalans að hún tæki að sér að meta geðrænt ástand stefnanda. Þessu var hafnað með bréfi 23. sama mánaðar og bent á að leita til sjálfstætt starfandi sérfræðinga. Það var ekki gert og 26. nóvember var tekin ákvörðun sú sem hér er til umfjöllunar.
Í niðurstöðum ákvörðunar útlendingaeftirlitsins kemur fram að samkvæmt gögnum frá lögregluyfirvöldum í Litháen hafi stefnandi verið úrskurðaður með ofsóknarkenndan geðklofa (paranoia schizofrenia) og að sjúkdómurinn væri ólæknanlegur samkvæmt álitsgerðum lækna, er lagðar hafi verið fram í dómi í Litháen í janúar 1999. Allt að einu hafi stefnanda verið sleppt úr vist á geðsjúkrahúsi hálfu ári síðar án skýringa. Þá er skýrt frá því að aflað hafi verið upplýsinga hér á landi um möguleika á geðrannsókn á stefnanda en komið hafi í ljós að slík rannsókn yrði bæði kostnaðarsöm og tímafrek. Með hliðsjón af þessu og þeim alvarlega verknaði, er stefnandi hafði framið í heimalandi sínu, taldi útlendingaeftirlitið hann hættulegan sjálfum sér og umhverfi sínu. Það taldi sig fyrst og fremst hafa skyldur að rækja við borgara landsins þrátt fyrir að það kynni að hafa brottvísun stefnanda í för með sér.
Stefnandi kærði ákvörðunina til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, sem staðfesti hana með úrskurði 8. febrúar 2002. Hann óskaði eftir að réttaráhrifum úrskurðarins yrði frestað þar til dómur hefði gengið í málinu en því var hafnað og fór stefnandi af landi brott eins og rakið var.
Það er meginmálsástæða stefnanda að útlendingaeftirlitið hafi ekki rannsakað mál hans á fullnægjandi hátt áður en það tók ákvörðun sína. Hér að framan var gerð grein fyrir þeim upplýsingum sem lágu fyrir áður en ákvörðun um brottvísun stefnanda var tekin. Fyrst er þess þó að geta að aldrei hefur verið ágreiningur um að hann framdi framangreindan verknað og var dæmdur fyrir hann. Þá hefur það verið viðurkennt af stefnanda frá upphafi rannsóknar lögreglu að hann er haldinn geðsjúkdómi. Það var og er hins vegar ekki að fullu upplýst hvort hann sé ólæknandi eða ekki. Þó er komið fram í málinu að stefnandi hefur ekki leitað lækna hér á landi og að eigin sögn fengið lyf frá vinum sínum þegar hann þurfi á þeim að halda.
Ákvörðun útlendingaeftirlitsins var byggð á 4. tl. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 45/1965 um eftirlit með útlendingum en þar segir að heimilt sé að vísa útlendingi úr landi ef áframhaldandi dvöl hans hér á landi telst hættuleg hagsmunum ríkisins eða almennings, eða vist hans er óæskileg af öðrum ástæðum. Með vísun til þess, sem rakið var hér að framan, er það niðurstaða dómsins að rannsókn útlendingaeftirlitsins hafi verið fullnægjandi og leitt í ljós að stefnandi hafði framið alvarlegan glæp, en vegna geðveiki verið úrskurðaður ósakhæfur. Á þessum grundvelli mat útlendingaeftirlitið það svo að áframhaldandi dvöl hans hér á landi teldist hættuleg hagsmunum ríkisins og almennings og væri vist hans hér óæskileg. Það er enn fremur niðurstaða dómsins að þessi ákvörðun hafi verið tekin á málefnalegan hátt og ekki hafi verið kostur á vægari ákvörðun í þessu tilviki. Stefnanda var frá upphafi gerð grein fyrir stöðu hans, eins og rakið var, honum gefinn kostur á að tjá sig og jafnframt bent á að afla sér lögmannsaðstoðar. Ekki verður annað séð en lögmaður hans, eftir að hann kom að málinu, hafi haft aðgang að gögnum þess og fengið færi á að koma að andmælum. Var því ekki brotið gegn andmælarétti stefnanda. Samkvæmt framansögðu er því hafnað að útlendingaeftirlitið hafi við meðferð máls stefnanda brotið gegn reglum stjórnsýsluréttarins. Með sömu rökum er það niðurstaða dómsins að við meðferð málsins hafi ekki verið brotið gegn 1. gr. a-liðar samningsviðauka nr. 7 við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. 5. tl. 1. gr. laga nr. 62/1994. Af þessu leiðir að hafnað er aðalkröfu stefnanda um að úrskurður dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, sem staðfesti ákvörðunina, verði felldur úr gildi.
Með úrskurðinum var staðfest sú ákvörðun útlendingaeftirlitsins að banna stefnanda endurkomu til Íslands að fullu og öllu, sbr. 14. gr. laga nr. 45/1965. Í varakröfu krefst stefnandi þess að þessi ákvörðun verði felld úr gildi svo og að hann skuli skráður í Schengen-upplýsingakerfið. Með hliðsjón af þeim alvarlega glæp, sem stefnandi framdi í heimalandi sínu, er það niðurstaða dómsins að ekki séu efni til að verða við þessari kröfu. Skráning stefnanda í nefnt upplýsingakerfi er lagaskylda, sbr. 96. gr. laga nr. 16/2000 og verður því einnig að hafna þessari kröfu hans.
Samkvæmt öllu framansögðu verður stefndi sýknaður af kröfu stefnanda. Málskostnaður á milli aðila skal falla niður en gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.m.t. laun lögmanns hans, Hilmars Magnússonar hrl., 500.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, skal greiddur úr ríkissjóði.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð
Stefndi, íslenska ríkið, er sýknaður af kröfu stefnanda, Kestutis Baginskas.
Málskostnaður fellur niður en gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.m.t. laun lögmanns hans, Hilmars Magnússonar hrl., 500.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, skal greiddur úr ríkissjóði.