Hæstiréttur íslands
Mál nr. 57/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Þriðjudaginn 24. janúar 2012. |
|
Nr. 57/2012. |
Lögreglustjórinn
á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Stefán Karl Kristjánsson hdl.) |
Kærumál.
Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um
að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. janúar 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. janúar 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 17. febrúar klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann þess „að kveðið verði á um skyldu sóknaraðila til að láta framkvæma mat á því hvort að í útveggjum húsnæðis Kleppsspítala sé að finna heilsuspillandi örverur.“
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Í hinum kærða úrskurði kemur fram að samkvæmt mati geðlæknis þurfi varnaraðili ekki að vistast á viðeigandi stofnun eins og heilsu hans sé nú háttað. Að þessu virtu og með hliðsjón af 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 verður úrskurðurinn staðfestur með vísan til forsendna hans.
Krafa varnaraðila á hendur sóknaraðila um að fram fari mat á ofangreindu húsnæði er haldlaus með öllu.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður
Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 20. janúar 2012.
Lögreglustjórinn
á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess, að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði,
að X, kt. [...], með lögheimili að [...], [...],
verði á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88, 2008 gert að sæta áframhaldandi
gæsluvarðhaldi allt til 17. febrúar 2012
kl. 16:00.
Í
greinargerð lögreglu kemur fram, að laugardaginn 14. janúar kl. 22.28 hafi
borist brunaboð til lögregla vegna húss
nr. [...] við [...] í Reykjavík.
Lögreglan hafi komið á vettvang kl. 22.30, og hafi verið staðfest, að
eldur væri laus í húsinu. Fáeinum
mínútum seinna hafi slökkvilið höfuðborgarsvæðisins komið á vettvang. Þegar
lögregla hafi komið á vettvang, hafi íbúð kærða verið alelda og hafi m.a. verið
eldur út um glugga og uppi á þaki hússins, en húsið sé tvíbýlishús. Skömmu
síðar hafi kærði verið handtekinn, en hann hafði gefið sig fram við starfsfólk
að [...] og hafi hann viðurkennt að hafa kveikt í íbúð sinni.
Húsið,
sem um ræðir, sé tvíbýlishús með tveimur samliggjandi íbúðum. Í hinni íbúðinni
hafi verið maður innandyra sofandi, sem ekki hafi orðið var við eldinn og mun
öryggisvörður frá Securitas hafa vakið hann og komið
honum út úr íbúðinni, en svo virðist vera að eldtungurnar hafi náð yfir í hina
íbúðina, sem hefði getað skapað mikla hættu vegna elds og reyks fyrir
íbúa.
Kærði
hafi viðurkennt að hafa kveikt íbúð sinni og samkvæmt upplýsingum lögreglu
virðist hann hafa notað blöð og pappír og borið eld að pappakössum með bókum
í. Samkvæmt framburði kærða, þá kvaðst
hann hafa bankað þrisvar á íbúðina við hliðina til athuga, hvort þar væri
einhver áður en hann kveikti eld í íbúð sinni. Í kjölfarið hafi hann kveikt eld
í íbúð sinni.
Samkvæmt
upplýsingum vitna þá hafi kærði einnig kvaðst ætla að kveikja í spítalanum,
eftir að hann upplýsti vitnið, starfsmann á [...], um að hann hefði kveikt í
íbúð sinni. Kærði hafi ekki gefið neinar haldbærar skýringar á þessari hegðan
sinni.
Með
úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur R-18/2012 frá 15. janúar 2012 hafi kærða verið
gert að sæta gæsluvarðhaldi til 20. janúar 2012 og jafnframt því hafi kærða
verið gert að sæta geðrannsókn, sbr. úrskurð héraðsdóms Reykjavíkur R-19/2012.
Kristófer Þorleifsson, geðlæknir, hafi verið fenginn til að framkvæma
geðrannsókn á kærða, en samkvæmt umsögn Ólafs Bjarnasonar, geðlæknis, sem hafi
skoðað kærða 15. janúar sl., þá taldi hann að kærða haldinn
persónuleikaröskunum, en ekki bráðum sturlunareinkennum. Það hafi verið mat
læknisins, að kærði þurfi ekki eins og á stendur vist á viðeigandi stofnun
Með
beiðni lögreglustjóra 16. janúar sl. hafi Guðmundur Gunnarsson,
yfirverkfræðingur, verið dómkvaddur sem matsmaður, sbr. úrskurð héraðsdóms
Reykjavíkur R-21/2012, til að meta almannahættu og aðra hættu og tjón, sem hafi
skapast, þegar eldur kviknaði í búðinni að [...] í húsi nr. [...]. Með
bráðabirgðamati hans frá 18. janúar sl. taldi Guðmundur, að almannahætta hefði
skapast með íkveikjunni og mikil hætta fyrir þann, sem hafi verið sofandi í
samliggjandi íbúð að húsi nr. [...] að [...].
Það sé mat lögreglu, að hér hafi getað
stofnast til eldsvoða, sem hefði í för með sér almannahættu með
ófyrirsjáanlegum afleiðingum, þar sem annar íbúi hafi verið í húsinu.
Kærði
sé undir sterkum grun um sérstaklega alvarlegt brot, sem sé talið geta varðað
við 1., sbr. 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, en slíkt
brot geti varðað fangelsi allt að 16 árum, ef sök sannast, og eftir atvikum
ævilöngu fangelsi. Að mati ákæruvaldsins
séu því uppfyllt skilyrði ákvæðis 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88, 2008, þar sem um
sterkan grun sé að ræða. Einnig sé það mat ákæruvaldsins, að almannahagsmunir
krefjist þess, að maður undir sterkum grun um að hafa gerst sekur um jafn
alvarlegt brot og brenna er, og varðar allt að 16 ára fangelsi, sæti
gæsluvarðhaldi allt þar til máli hans er lokið hjá lögreglu, ákæruvaldi og fyrir dómi.
Kærði
er undir sterkum grun um alvarlegt brot, sem talið er geta varðað við 1., sbr.
2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en í ákvæðunum er ekki að
finna hámark refsirammans, sem ákvarðast eftir almennum reglum. Kærði hefur
viðurkennt að hafa borið eld að pappa í húsnæðinu, sem um ræðir, en telur sig
hafa gert allt, sem í sínu valdi hafi staðið til að koma í veg fyrir tjón á
mönnum. Þá kveður hann það ekki hafa vakað fyrir sér að valda hættu, heldur
frekar að þjóna almannahagsmunum með því að brenna sýkla, sem finna megi í
húsnæðinu og veggjum þess, en það var áður nýtt undir holdsveikraspítala. Hefur
kærði hvorki gert grein fyrir því, að brýna nauðsyn hafi borið til þeirrar
aðgerðar, né að hann hafi haft heimildir til slíkrar sótthreinsunar með
íkveikju.
Í
bráðabirgðamati Guðmundar Gunnarssonar, byggingaverkfræðings, sem dómkvaddur
var til að meta almannahættu vegna íkveikjunnar með úrskurði Héraðsdóms
Reykjavíkur 16. janúar sl., kemur fram að telja megi öruggt, að um almannahættu
hafi verið að ræða, þegar kærði hafi borið eld að húsnæðinu.
Með
vísan til ofangreindra atriða og gagna málsins verður fallist á það með
lögreglu, að fyrir hendi sé sterkur grunur um alvarlegt brot kærða, sem varðað
geti við 1., sbr. 2. mgr. 164. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þar sem
ekki er sett refsihámark við slíku broti í ákvæðunum, þykja skilyrðum 2. mgr.
95. gr. laga nr. 88/2008 vera fullnægt. Verður því fallist á kröfu
lögreglustjórans eins og hún er sett fram og nánar segir í úrskurðarorði.
Hrannar
Már S Hafberg settur héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði,
X kt. [...], skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi
allt til 17. febrúar nk. kl. 16:00.