Hæstiréttur íslands
Mál nr. 67/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Mánudaginn 24. febrúar 2003. |
|
Nr. 67/2003. |
Lögreglustjórinn á Selfossi(Ásta Stefánsdóttir fulltrúi) gegn X (Ólafur Björnsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
X var gert að sæta gæsluvarðhaldi með vísan til c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. febrúar 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 16. febrúar 2003, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 10. mars nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur, enda hefur sóknaraðili ekki kært hann fyrir sitt leyti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 16. febrúar 2003.
Með beiðni dagsettri í dag, lagði Lögreglustjórinn á Selfossi fram kröfu um að X, [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, allt til mánudagsins 31. mars 2003 kl. 16.00.
[...]
Rannsókn stendur nú yfir hjá lögreglu vegna meintra brota kærða, en hann hefur m.a. játað fjögur brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, sem öll voru framin í síðustu viku. Kærði er atvinnulaus fíkniefnaneytandi, sem fjármagnað hefur neyslu sína og greiðslu fíkniefnaskulda með innbrotum. Fyrir dómi kvaðst hann algerlega peningalaus og fái fyrst peninga um næstu mánaðamót er hann fái greitt frá félagsþjónustunni.
Þegar framangreint er virt ber að fallast á með lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að hann haldi áfram brotum sínum, fari hann frjáls ferða sinna. Ber því með vísan til c-liðar 103. gr. laga nr. 19/1991 að fallast á framkomna kröfu um gæsluvarðhald, þó þannig að gæsluvarðhaldi er markaður skemmri tími en krafist er, allt eins og greinir í úrskurðarorði.
Ingveldur Einarsdóttir, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 10. mars næstkomandi klukkan 16.00.