Hæstiréttur íslands

Mál nr. 285/2000


Lykilorð

  • Einkahlutafélag
  • Hlutabréf
  • Forkaupsréttur


Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 14. desember 2000.

Nr. 285/2000.

Jón Gunnarsson

Dreifing ehf. og

Garri ehf.

(Jóhannes Sigurðsson hrl.)

gegn

XCO ehf.

(Jón Halldórsson hrl.)

og gagnsök

                                                   

Einkahlutafélag. Hlutabréf. Forkaupsréttur.

J fékk tilboð í hlutabréf sín í GG ehf. og í samræmi við samþykktir félagsins sendi hann stjórn þess tilkynningu um fyrirhugaða sölu. Stjórnin ákvað að neyta ekki forkaupsréttar síns, en sinnti í kjölfarið því lögbundna hlutverki sínu að greina öðrum forkaupsréttarhöfum skriflega frá tilboðinu. Með tilkynningunni fylgdi sú athugasemd að svari skyldi beint til stjórnar GG ehf. innan tiltekins frests. Með bréfi til GG ehf. staðfesti X ehf. að það hygðist nýta sér forkaupsrétt sinn. Skömmu fyrr höfðu D ehf. og G ehf. lýst því yfir við J að þeir hefðu áhuga á að neyta forkaupsréttar síns og að liðnum lögbundum fresti seldi J þeim sinn hlut, enda höfðu honum ekki borist tilkynningar frá öðrum hluthöfum. Hæstiréttur sýknaði J, D ehf. og G ehf. af kröfum X ehf. um viðurkenningu á forkaupsrétti sínum með þeim rökum að X teldist ekki hafa beint tilkynningu sinni til bærs aðila, þ.e. J. Í lögum um einkahlutafélög nr. 138/1994, séu ekki ákvæði um milligöngu stjórnar félags varðandi tilkynningar hluthafa um nýtingu á forkaupsrétti og því hafi GG ehf. ekki getað takmarkað forræði J yfir framsali á hlutabréfum sínum með því að taka sér víðtækara hlutverk varðandi framkvæmd kaupa í skjóli forkaupsréttar en leiddu af lögum.  

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 20. júlí 2000. Þeir krefjast sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi skaut málinu fyrir sitt leyti til Hæstaréttar 16. ágúst 2000. Hann krefst þess aðallega að viðurkenndur verði forkaupsréttur sinn að hlut aðaláfrýjanda, Jóns Gunnarssonar, í Birgðaversluninni Gripið og greitt ehf. að nafnverði 493.168 krónur og að honum verði gert að selja sér þann hlut gegn greiðslu 1.726.088 króna. Þá verði ógilt sala aðaláfrýjandans Jóns á þeim hlut til aðaláfrýjenda, Dreifingar ehf. og Garra ehf. Til vara krefst hann þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um annað en málskostnað. Þá krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi hefur stefnt Birgðaversluninni Gripið og greitt ehf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti, en gerir engar kröfur á hendur henni. Hún hefur látið málið til sín taka og krefst málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Málavextir eru þeir að aðaláfrýjendur og gagnáfrýjandi voru allir hluthafar í Birgðaversluninni Gripið og greitt ehf., réttargæslustefnda í máli þessu. Í 7. gr. samþykkta réttargæslustefnda er í 1. mgr. ákvæði um að eigendaskipti að hlutum í félaginu öðlist ekki gildi gagnvart félaginu fyrr en stjórn þess hefur verið tilkynnt um þau skriflega. Er 2. mgr. 7. gr samþykktanna svohljóðandi: „Stjórn félagsins hefur forkaupsrétt fyrir félagsins hönd að fölum hlutum í A-flokki. Að félaginu frágengnu hafa hluthafar í A-flokki forkaupsrétt að fölum hlutum í hlutfalli við hlutafjáreign sína. Verði ágreiningur um verð hluta skal það ákveðið með mati tveggja óvilhallra manna, sem dómkvaddir skulu til þess starfa. Forkaupsréttarhafi hefur tveggja mánaða frest til að beita forkaupsrétti sínum og telst fresturinn frá tilkynningu til stjórnar um tilboð. Þá mega eigi líða fleiri en þrír mánuðir frá því að kaup voru ákveðin þar til kaupverð er greitt.” Samkvæmt gögnum málsins eru öll hlutabréf í réttargæslustefnda í svonefndum A-flokki.

Aðaláfrýjandinn Jón Gunnarsson, sem átti hlutafé að nafnverði 493.168 krónur í réttargæslustefnda, sendi félaginu 12. nóvember 1998 tilkynningu um að hann hefði fengið tilboð í hlutabréf sín á genginu 3,5. Fyrir liggur að stjórn réttargæslustefnda ákvað að neyta ekki forkaupsréttar félagsins. Þann 10. desember 1998 sendi réttargæslustefndi öllum hluthöfum sínum svohljóðandi bréf, sem undirritað var af þáverandi framkvæmdastjóra félagsins: „Kauptilboð hefur borist í eignarhlut Jóns Gunnarssonar að nafnvirði 493.168.- á genginu 3,5. Hluthafar sem vilja neyta forkaupsréttar vinsamlegast hafi samband við félagið sem fyrst og eigi síðar en 12. janúar 1999. Þeir hluthafar sem ætla ekki að neyta forkaupsréttar eru vinsamlegast beðnir að faxa neðangreint samþykki til Birgðaverslunarinnar Gripið&greitt ehf.“ Neðanmáls í bréfinu var síðan texti til undirritunar fyrir þá hluthafa, sem ekki hugðust nýta forkaupsrétt sinn.

Í framburði aðaláfrýjandans Jóns fyrir héraðsdómi kom fram að skömmu fyrir 12. janúar 1999 hafi forsvarsmenn aðaláfrýjendanna Dreifingar ehf. og Garra ehf. lýst áhuga sínum á að neyta forkaupsréttar að hlutabréfunum. Hafi jafnframt verið ákveðið að ganga frá sölu á bréfunum til fyrrgreindra félaga ef ekki bærust aðrar tilkynningar um nýtingu forkaupsréttar innan tilskilins frests. Í framburði forráðamanna aðaláfrýjendanna Dreifingar ehf. og Garra ehf. fyrir héraðsdómi kom fram að þeir hafi átt fund með aðaláfrýjandanum Jóni í vikunni áður en forkaupsréttarfresturinn rann út og staðfest að þeir hygðust neyta forkaupsréttarins. Engin skrifleg gögn um þessi tilboð eða samninga hafa verið lögð fram í málinu.

 Með bréfi 12. janúar 1999 til réttargæslustefnda staðfesti gagnáfrýjandi að hann nýtti sér forkauprétt sinn. Barst bréfið til skrifstofu gagnáfrýjanda þann dag og var jafnframt samdægurs afhent stjórnarformanni félagsins. Snemma næsta dags hafði aðaláfrýjandinn Jón símsamband við skrifstofu réttargæslustefnda, að eigin sögn til að tilkynna um sölu bréfa sinna til Dreifingar ehf. og Garra ehf. Var honum þá tikynnt um að gagnáfrýjandi hefði lýst yfir að hann vildi nýta forkaupsrétt sinn. Réttargæslustefndi tilkynnti aðaláfrýjandanum Jóni með bréfi 21. sama mánaðar um að gagnáfrýjandi nýtti sér forkaupsrétt og jafnframt að aðaláfrýjandinn gæti nálgast greiðslu fyrir hlutina hjá félaginu, en þann sama dag hafði félagið móttekið tékka frá gagnáfrýjanda fyrir kaupverðinu. Með bréfi 26. janúar 1999 andmælti aðaláfrýjandinn Jón þeim skilningi á milligönguhlutverki réttargæslustefnda, sem fram hafði komið í fyrrgreindu bréfi, og tók fram að sér hefði ekki enn borist nein tilkynning frá gagnáfrýjanda um nýtingu forkaupsréttar. Bréfi hans fylgdi tilkynning, sem dagsett var 13. janúar 1999, um að hann hafi selt Garra ehf. og Dreifingu ehf. hlutafé sitt í réttargæslustefnda.

II.

Í máli þessu er einkum deilt um hvort beina hafi átt tilkynningu um nýtingu forkaupsréttar til seljanda hlutabréfanna, aðaláfrýjandans Jóns, eða einkahlutafélags þess, sem selja átti hlut í. Er ágreiningslaust í málinu að síðasti dagur tilkynningarfrests var 12. janúar 1999.

Það er almenn regla að eigandi hlutar í einkahlutafélagi getur framselt hann að vild nema annað leiði af lögum, samþykktum félags eða öðrum samningum, sbr. 13. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Með 14. gr. laganna er heimilað að ákveða með samþykktum að við eigendaskipti að hlut, önnur en við erfð eða búskipti, skuli þær hömlur settar á framsal að hluthafar eða aðrir hafi forkaupsrétt. Var þessi heimild nýtt með 7. gr. samþykkta réttargæslustefnda eins og að framan er rakið. Stjórn félags er í 14. gr. laga nr. 138/1994 ætlað nokkuð hlutverk í framkvæmd varðandi nýtingu forkaupsréttar. Samkvæmt b. lið 1. mgr. skulu vera í samþykktum ákvæði um frest, er forkaupsréttarhafi hefur til að beita forkaupsrétti sínum, en hann má lengstur vera tveir mánuðir og telst frá tilkynningu til stjórnar um tilboð. Samkvæmt 3. mgr sömu greinar skal stjórn félags þegar í stað greina forkaupsréttarhöfum skriflega frá tilkynningu um tilboð. Stjórn félagsins er þannig ætlað það hlutverk að koma vitneskju til hluthafa um að til sölu sé hlutur, er þeir hafa forkaupsrétt að. Í lögunum eru hins vegar ekki ákvæði um hliðstæða milligöngu stjórnar félagsins varðandi tilkynningar hluthafa um nýtingu á forkaupsrétti sínum. Verður það hlutverk félagsins heldur ekki leitt af því einu að hliðstæð efnisrök og liggja að baki hinum lögákveðnu tilvikum kunni að mæla með slíkri milligöngu, enda væri slíkt skyldubundið hlutverk félagsstjórnar takmörkun á framangreindri meginreglu um frelsi eiganda hlutar til að framselja hann. Í 7. gr. samþykkta réttargæslustefnda er ekki kveðið á um að stjórn félagsins hafi hlutverk varðandi móttöku tilkynninga um nýtingu forkaupsréttar frekar en ráðið verður af framangreindum lagaákvæðum. Af þessu leiðir að gagnáfrýjandi telst ekki hafa tilkynnt um að hann hygðist nýta sér forkaupsrétt sinn innan tilskilins frests til þess, sem bær var til að veita tilkynningunni viðtöku. Ekki gat réttargæslustefndi heldur einhliða takmarkað forræði aðaláfrýjandans Jóns yfir framsali á hlutabréfum sínum með því að taka sér í áðurnefndu bréfi 10. desember 1998 víðtækara hlutverk varðandi framkvæmd kaupa í skjóli forkaupsréttar en leiddi af lögum og samþykktum félagsins, en í því sambandi er einnig til þess að líta að ekki hefur verið leitt í ljós að aðaláfrýjandanum hafi verið kunnugt um efni bréfsins að þessu leyti. Samkvæmt þessu verða aðaláfrýjendur sýknaðir af kröfum gagnáfrýjanda í málinu.

Í ljósi atvika málsins er rétt að hver aðili beri sinn kostnað af því í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Aðaláfrýjendur, Jón Gunnarsson, Dreifing ehf. og Garri ehf., eru sýknir af kröfum gagnáfrýjanda, XCO ehf.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júní 2000.

Mál þetta, sem dómtekið var 25. maí síðastliðinn að afloknum munnlegum málflutningi,  er höfðað með stefnu, þingfestri 9. desember 1999, af XCO ehf., kt. 681271-1129, Skútuvogi 10B, Reykjavík, gegn Jóni Gunnarssyni, kt. 199033-2539, Túngötu 39, Reykjavík, Dreifingu ehf., kt. 490287-1599, Vatnagörðum 8, Reykjavík og Garra ehf., kt. 670892-2129, Lynghálsi 2, Reykjavík. Þá er Birgðaversluninni Gripið og greitt ehf. stefnt til réttargæslu.

Stefnandi krefst þess aðallega, að viðurkenndur verði forkaupsréttur hans að hlut stefnda, Jóns Gunnarssonar, í réttargæslustefnda, Birgðaversluninni Gripið og greitt ehf., að nafnverði  493.168 krónur, og að stefnda, Jóni Gunnarssyni, verði dæmt skylt að selja og afsala til stefnanda hlutafé sínu í réttargæslustefnda, á genginu 3.5, samkvæmt ódagsettu tilboði frá ókunnum tilboðsgjafa, tilkynntu stjórn hins réttargæslustefnda einkahlutafélags 12. nóvember 1998, gegn greiðslu 1.726.088 króna, og að ógilt verði sala til stefndu, Dreifingar ehf. og Garra ehf., á framangreindum hlut samkvæmt tilkynningu til réttargæslustefnda, dagsettri 13. janúar 1999. Til vara er þess krafist, að viðurkenndur verði forkaupsréttur stefnanda að hlut stefnda, Jóns Gunnarssonar, í réttargæslustefnda, að nafnverði 123.292 krónur, og að stefnda, Jóni Gunnarssyni, verði dæmt skylt að selja og afsala til stefnanda hlutafé sínu í réttargæslustefnda á genginu 3.5, samkvæmt ódagsettu tilboði frá ókunnum tilboðsgjafa, tilkynntu stjórn hins réttargæslustefnda einkahlutafélags 12. nóvember 1998, gegn greiðslu 431.533 króna og ógilt verði sala til stefndu Dreifingar ehf. og Garra ehf. á þeim hlut samkvæmt tilkynningu til réttargæslustefnda, dagsettri 13. janúar 1999. Að lokum er gerð krafa um málskostnað úr hendi stefndu samkvæmt málskostnaðarreikningi. Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda.

Stefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá gera þeir, hver fyrir sig, kröfu um, að stefnandi verði dæmdur til þess að greiða þeim málskostnað að skaðlausu samkvæmt málskostnaðareikningi og við þá ákvörðun verði tekið tillit til skyldu stefnda til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.

Réttargæslustefndi gerir ekki sjálfstæðar dómkröfur að öðru leyti en því, að hann krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

Með stefnu, þingfestri 13. janúar síðastliðinn, höfðaði áðurnefndur Jón Gunnarsson gagnsakar­mál á hendur XCO ehf. og með stefnu, þingfestri sama dag, höfðaði Birgðaverslunin Gripið og greitt ehf. sjálfstætt mál á hendur XCO ehf. Það mál, nr. E-222/2000, var sameinað máli þessu í þinghaldi 14. þessa mánaðar með vísan til b. liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 91/1991. XCO ehf. krafðist þess, að gagnsakarkröfunni, sem og kröfu Birgðarverslunarinnar Gripið og greitt ehf. á hendur XCO ehf. (mál nr. E-222/2000) yrði vísað frá dómi. Með úrskurði 30. mars síðastliðinn var fallist á umræddar kröfur XCO ehf.

Mál út af stefnukröfum var áður þingfest 29. júní 1999, en vísað frá dómi 18. nóvember sama ár vegna formgalla. 

I.

Málavextir

Með bréfi, dagsettu 12. nóvember 1998, tilkynnti stefndi, Jón Gunnarsson, réttargæslustefnda um, að hann hefði fengið tilboð í hlutabréf sín í réttargæslustefnda á genginu 3.5. Hlutafjáreign stefnda var að nafnverði 493.168 kr. og tilheyrði A-flokki, eins og öll önnur útgefin hlutabréf í félaginu. Af hálfu réttargæslustefnda var hluthöfum tilkynnt um kauptilboðið með samhljóða bréfi, dagsettu 10. desember sama ár. Í bréfinu sagði, að hluthafar, sem vildu neyta forkaupsréttar, skyldu hafa samband við félagið sem fyrst og eigi síðar en 12. janúar 1999. Þá var þeim tilmælum beint til þeirra hluthafa, sem ekki ætluðu að neyta forkaupsréttar, að senda samþykki þess efnis til réttargæslustefnda í símbréfi. Stefnandi sendi réttargæslustefnda símbréf 12. janúar 1999, þar sem stefnandi staðfesti forkaupsrétt sinn í hlutabréf stefnda, Jóns, að nafnverði 493.168 krónur á genginu 3.5. Fékk stefndi, Jón, vitneskju um tilkynningu stefnanda um  forkaupsréttinn um kl. 9 að morgni næsta dags, en stefndi kvaðst þá þegar hafa selt meðstefndu hlut sinn í félaginu. Stefnandi afhenti réttargæslustefnda  ávísun 21. sama mánaðar, að fjárhæð 1.726.077,50 krónur, sem greiðslu fyrir hlutabréfin, en hún hefur ekki verið innleyst.

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir á því, að samkvæmt 14. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 hafi stjórn félags skyldur til aðgerða gagnvart hluthöfum sínum, þegar kemur til sölu hlutabréfa í félaginu, að því tilskyldu, að samþykktir félags veiti hluthöfum forkaupsrétt. Leiði skyldur þessar til þess, að stjórnin virki sem milliliður milli seljanda hlutabréfa og forkaupsréttarhafa. Verði svar forkaupsréttarhafa að teljast komið til rétts viðtakanda og því fullgert, þegar það sé lagt fyrir stjórnina eða berist félaginu. Réttargæslustefndi hafi komið fram sem milliliður milli stefnda, Jóns Gunnarssonar, og stefnanda varðandi þau hlutabréfaviðskipti, sem málið snýst um, og hafi félagið starfað í umboði seljandans, stefnda, Jóns Gunnarssonar. Hafi umræddur stefndi beint yfirlýsingu sinni til stjórnar réttargæslustefnda, en ekki haft sjálfur frumkvæði að því að senda öllum hluthöfum félagsins boð um að neyta forkaupsréttar, þó að honum væri fullkunnugt um rétt forkaupsréttarhafa. Stefnandi hafi tilkynnt innan tilskilinna tímamarka til rétts viðtakanda, að félagið vildi neyta forkaupsréttar á öllum hlutnum, og þá hafi hann sent réttum viðtakanda ávísun fyrir öllum hlutnum. Eigi stefnandi þannig rétt á að kaupa allan hlutinn, því að hann sé eini hluthafinn, sem uppfyllt hafi formkröfur og greitt hlutinn.

 Stefndu, Dreifing ehf. og Garri ehf., eigi hins vegar ekki rétt á að nýta forkaupsrétt sinn, þar sem þeir hafi ekki farið formlega rétt að með því að vanrækja að tilkynna réttargæslustefnda um, að þeir vildu neyta forkaupsréttar. Réttargæslustefndi hafi sent öllum forkaupsréttarhöfum tilkynningu um fram komið tilboð og bent þeim á að tilkynna til sín. Hafi stefndi, Jón Gunnarsson, ekki sent forkaupsréttarhöfum neinar tilkynningar og ekki verið vísað á hann sem móttakanda tilkynninga. Hafi stefndu, Dreifing ehf. og Garri ehf., ekki verið upphaflegir tilboðsgjafar og því haft sömu réttarstöðu og aðrir forkaupsréttarhafar til að ganga inn í tilkynnt tilboð. Sé sala hlutabréfa til þessara stefndu ógild, þar sem hún hafi ekki átt sér stað, fyrr en eftir að tilkynningarfresturinn var liðinn.

Um lagarök er vísað til laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, einkum 14. gr., og samþykkta réttargæslustefnda, einkum 7. gr., og meginreglur hlutafélaga-, eigna- og samningaréttar.

 

III.

Málsástæður og lagarök stefndu

Stefndi, Jón Gunnarsson, byggir á því, að forkaupsréttarhöfum hafi verið rétt að koma tilkynningum beint til eiganda hlutanna fyrir 13. janúar 1999. Ljóst sé, að tilkynningu stefnanda til félagsins hafi ekki verið beint til rétts aðila. Hafi félagið sjálft ekki verið að selja hlutina og þess vegna hafi það ekki haft sérstaka þýðingu að senda því tilkynningu. Að vísu komi fram í bréfi félagsins til hluthafa ósk um, að þeir, sem ætluðu að nýta sér réttinn, hefðu samband við félagið. Sá misskilningur virðist hafa verið uppi hjá framkvæmdastjóra félagsins á þessum tíma, að félaginu væri rétt eða skylt að hafa milligöngu um þessar tilkynningar. Engar slíkar kvaðir hvíli á félaginu samkvæmt lögum um einkahlutafélög eða samþykktum félagsins. Verði af þeim sökum enginn réttur byggður á hendur stefnda sem seljanda hlutanna. Enn fremur skuli bent á, að aðaleigandi stefnanda hafi jafnframt átt sæti í stjórn réttargæslustefnda á þessum tíma.

Stefndi hafi aldrei veitt stjórn réttargæslustefnda umboð eða heimild til að hafa milligöngu um sölu hlutabréfa stefnda. Sé það einfaldlega á ábyrgð og áhættu einstakra forkaupsréttarhafa að koma tilkynningu um, að þeir ætli að beita rétti sínum, til seljanda hlutanna. Einu afskipti stjórnar séu þau, að komi fram boð um, að forkaupsréttarhafar nýti sér forkaupsrétt, beri félaginu að taka afstöðu til þess hvort það sjálft muni nýta forkaupsréttinn og nýti það hann ekki, beri því að tilkynna það öðrum forkaupsréttar­höfum.

Stefnandi hafi ekki beint tilkynningu til rétts aðila innan lögbundinna tímamarka og stefnda því aldrei borist tilkynning frá stefnanda um, að hann hefði áhuga á að beita forkaupsrétti að hinum seldu hlutum innan tímamarkanna. Þar sem engar tilkynningar hafi borist frá stefnanda eða öðrum hluthöfum en þeim, sem keyptu hlutinn innan tilsetts tíma, hafi stefndi selt hlutina þeim aðilum á því verði, sem forkaupsrétturinn hafi verið boðinn á. Þá hafi stefndi, með bréfi 26. janúar 1999, tilkynnt stjórn félagsins, að hann hefði selt hluti sína til meðstefndu. Hafi stefndi því verið í góðri trú, er hann seldi hlut sinn í félaginu.

Þá verði að hafa í huga við túlkun á ákvæðum laga nr. 138/1994 um forkaupsrétt og viðeigandi ákvæðum í samþykktum réttargæslustefnda, að forkaupsréttur sé íþyngjandi kvöð á ráðstöfun hlutabréfa. Af þeim sökum verði að skýra slíkar takmarkanir þröngt og eiganda hlutabréfanna í hag.

Varðandi sýknu af varakröfu stefnanda vísar stefndi til þess, sem að framan er rakið.

 Til stuðnings ofangreindum sjónarmiðum vísist til 14. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, 7. gr. samþykkta réttargæslustefnda og almennra reglna samningaréttar.

Stefndu, Garri ehf. og Dreifing ehf., vísa kröfugerð og málatilbúnaði varðandi aðal-, vara- og þrautavarakröfu stefnanda alfarið til greinargerðar meðstefnda, Jóns Gunnarssonar. Taka stefndu undir og gera að sínum málsástæður þær og lagarök þau, sem þar eru tilgreind. Hins vegar árétta stefndu, að þeir hafi beint tilkynningu sinni um, að þeir hygðust beita forkaupsrétti sínum, til meðstefnda, Jóns Gunnarssonar, með réttum hætti og innan tilskilinna tímamarka. Þar sem enginn hluthafi hafi tilkynnt seljanda hlutarins um beitingu réttar síns, hafi seljandi gengið til samninga við stefndu um sölu á hlut sínum á þeim kjörum, sem forkaupsrétturinn var boðinn á. Það sé því ekki rétt hjá stefnanda, að stefndu hafi ekki tilkynnt meðstefnda um, að þeir ætluðu að beita forkaupsrétti sínum.

Til stuðnings ofangreindum sjónarmiðum vísist til 14. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, 7. gr. samþykkta réttargæslustefnda og almennra reglna samningaréttar.

IV.

Forsendur og niðurstaða

Mál þetta snýst um, hvort tilkynning stefnanda um beitingu forkaupsréttar í tilefni af sölu stefnda, Jóns Gunnarssonar, á hlutabréfum sínum í hinu réttargæslustefnda félagi, Gripið og greitt ehf., hafi verið í samræmi við ákvæði 14. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 og 2. mgr. 7. gr. samþykkta félagsins og jafnframt, hvort sala stefnda, Jóns, á hlut sínum í félaginu til meðstefndu hafi verið lögmæt.

Samkvæmt 14. gr. laga nr. 138/1994 má ákveða í samþykktum einkahlutafélags, að við eigendaskipti að hlut, önnur en við erfð eða búskipti, skuli hluthafar eða aðrir hafa forkaupsrétt. Þá segir þar einnig, að í samþykktum skuli vera nánari reglur um þetta og skal þar meðal annars greina: 1) röð forkaupsréttarhafa, 2) ákvæði um frest, er forkaupsréttarhafi hefur til að beita forkaupsrétti sínum, sem lengstur má vera tveir mánuðir og telst fresturinn frá tilkynningu stjórnar um tilboð, 3) ákvæði um frest til greiðslu kaupverðs, sem þó má eigi vera lengri en þrír mánuðir frá því að kaup voru ákveðin. Þá er kveðið á um það í ákvæðinu, að stjórn félags skuli þegar í stað greina forkaupsréttarhöfum skriflega frá tilkynningu um tilboð.

Í 2. mgr. 7. gr. samþykkta réttargæslustefnda segir svo: ,,Stjórn félagsins hefur forkaupsrétt fyrir félagsins hönd að fölum hlutum í A-flokki. Að félaginu frágengnu hafa hluthafar í A-flokki forkaupsrétt að fölum hlutum í hlutfalli við hlutafjáreign sína. Verði ágreiningur um verð hluta skal það ákveðið með mati tveggja óvilhallra manna, sem dómkvaddir skulu til þess starfa. Forkaupsréttarhafi hefur tveggja mánaða frest til að beita forkaupsrétti sínum og telst fresturinn frá tilkynningu til stjórnar um tilboð. Þá mega eigi líða fleiri en þrír mánuðir frá því að kaup voru ákveðin þar til kaupverð er greitt.”

Upplýst er í málinu, að stjórn réttargæslustefnda ákvað að notfæra sér ekki forkaups­rétt sinn fyrir hönd félagsins.

Svo sem rakið hefur verið tilkynnti stefndi, Jón Gunnarsson, hinu réttargæslu­stefnda félagi þann 28. nóvember 1998, að honum hefði borist tilboð í hlut hans í félaginu á genginu 3.5. Í framhaldi af því sendi félagið samhljóða bréf til allra hluthafa, þar sem ofangreindum upplýsingum var komið á framfæri. Í bréfinu er því beint til forkaupsréttarhafa að hafa samband við félagið sem fyrst út af kauptilboðinu, hygðust þeir neyta forkaupsréttar síns, og eigi síðar en 12. janúar 1999. Verður því að miða við, að frestur til að tilkynna ósk um neytingu forkaupsréttar að nefndum hlutum hafi runnið út klukkan 12 á miðnætti umræddan dag. Ljóst er af gögnum málsins, að bæði stefnandi og stefndu, Dreifing ehf. og Garri ehf., fullnægðu frestskilyrðinu, stefnandi með tilkynningu til réttargæslustefnda 12. janúar 1999 og stefndu með kaupum hlutarins af stefnda, Jóni Gunnarssyni, sama dag, að undangengnum viðræðum þeirra í milli. Heldur stefnandi því fram, að hann hafi farið rétt að, en stefndu ekki og öfugt.

Forkaupsréttur hluthafa í réttargæslustefnda á hlutabréfum stefnda, Jóns Gunnarssonar, í félaginu varð virkur þegar réttargæslustefndi rækti skyldu sína samkvæmt 2. mgr. 7. gr. samþykkta félagsins, sbr. 14. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, og sendi samhljóða tilkynningu til þeirra með símbréfi 12. nóvember 1998, en þá hafði verið tekin ákvörðun um það af hálfu réttargæslustefnda að nýta ekki rétt stjórnar félagsins til kaupa á hinum falboðna hlut stefnda í félaginu.

Svo sem rakið hefur verið, er kveðið á um það í 14. gr. einkahlutafélagalaga og 2. mgr. 7. gr. samþykkta réttargæslustefnda, að frestur forkaupsréttarhafa til að beita forkaupsrétti sínum teljist frá tilkynningu stjórnar um tilboð. Þá er sú lagaskylda lögð á stjórn einkahlutafélags í ofangreindu ákvæði laga nr. 138/1994 að greina forkaupsréttar­höfum skriflega frá tilkynningu um tilboð. Af þessum ákvæðum má draga þá ályktun, að stjórn réttargæslustefnda sé ætlað að hafa milligöngu milli seljanda og forkaupsréttarhafa. Verður að telja það eðlilegt og hagkvæmt með hliðsjón af því, að stjórninni er kunnugt um, hverjir eru forkaupsréttarhafar og hvert eigi að senda þeim tilkynninguna. Þá verður og talið, að sú niðurstaða stuðli að jafnræði meðal forkaupsréttarhafa sem og festu og öryggi í viðskiptunum.

Í áðurnefndri tilkynningu réttargæslustefnda til forkaupsréttarhafa frá 12. nóvember 1998 er þeim tilmælum beint til forkaupsréttarhafa að hafa samband við félagið, hygðust þeir neyta forkaupsréttar síns. Samkvæmt því og með vísan til ofanskráðs var stefnanda rétt að tilkynna réttargæslustefnda um, að hann ætlaði að neyta forkaupsréttar síns að hinum fala hlut í félaginu. Þar sem stefnandi kom tilkynningu til réttargæslu­stefnda um, að hann hygðist notfæra sér forkaupsrétt sinn, innan settra tímamarka, og sýndi greiðsluvilja sinn og getu í verki með því að senda réttargæslustefnda ávísun fyrir hlutnum, er það álit dómsins, að stefnandi hafi fullnægt öllum formskilyrðum til að mega neyta forkaupsréttar síns samkvæmt framansögðu.

Fram er komið í málinu, að fyrirsvarsmenn stefndu, Dreifingar ehf. og Garra ehf., Haukur Hjaltason og Magnús R. Jónsson, hafi komið að máli við meðstefnda, Jón Gunnarsson, og lýst áhuga sínum sem forkaupsréttarhafar á að kaupa hlut meðstefnda í réttargæslustefnda. Jafnframt kom fram í skýrslum þeirra fyrir dómi, að frá kaupunum hafi endanlega verið gengið 12. janúar 1999, eða áður en umræddur tímafrestur rann út.

Enda þótt ráða megi af ákvæðum 114. gr. laga nr. 138/1994 og 2. mgr. 7. gr. samþykkta réttargæslustefnda, að stjórn félagsins beri að hafa milligöngu milli seljanda hlutabréfa og forkaupsréttarhafa, eru engin ákvæði í lögunum eða samþykktum félagsins, sem leggja bann við því, að forkaupsréttarhafar snúi sér beint til seljanda og falist eftir hlut hans. Samkvæmt því fullnægðu stefndu, Dreifing ehf. og Garri ehf., einnig tilkynningarskyldu sinni með því að koma óskum sínum um kaup á hlutabréfum meðstefnda, Jóns, til hans sjálfs sem seljanda bréfanna.

Það er því niðurstaða dómsins, að stefnandi og stefndu, Dreifing ehf. og Garri ehf., eigi allir rétt á að kaupa hlut stefnda, Jóns Gunnarssonar, í hinu réttargæslustefnda félagi samkvæmt forkaupsrétti þeirra sem hluthafar í félaginu og fer um réttindi þeirra til kaupanna eftir eignarhlutföllum þeirra í því. Samkvæmt gögnum málsins á stefndi, Dreifing ehf., tvo hluti í réttargæslustefnda, en stefnandi og stefndi, Garri ehf., einn hlut hvor. Ber því að skipta hinum falboðna hlut stefnda, Jóns, í félaginu, sem var að nafnverði 493.168 krónur, í fjóra hluta. Á stefndi, Dreifing ehf., rétt á tveimur hlutum, en stefnandi og stefndi, Garri ehf., hvor um sig rétt á einum hlut. Tilboð það, sem stefndi, Jón, fékk í hlutabréfin hljóðaði upp á gengið 3.5. Var kaupverð bréfanna því samtals að fjárhæð 1.726.088 krónur. Ber stefnda, Dreifingu ehf., að greiða helming þess, 863.044 krónur, en hinn helminginn ber stefnanda og stefnda, Garra ehf., að greiða að jöfnu, eða 431.522 krónur hvorum fyrir sig. Er því fallist á varakröfu stefnanda og viðurkenndur forkaupsréttur hans að hlut stefnda, Jóns Gunnarssonar, í réttargæslu­stefnda að nafnverði 123.292 krónur. Er stefnda, Jóni Gunnarssyni, skylt að selja og afsala til stefnanda hlutafé sínu í réttargæslustefnda á genginu 3.5, samkvæmt tilboði því, sem stefndi fékk í hlutaféð og tilkynnt var stjórn réttargæslustefnda 12. nóvember 1998, gegn greiðslu 431.522 króna. Jafnframt er ógilt sala stefnda, Jóns Gunnarssonar, til meðstefndu, Dreifingar ehf. og Garra ehf., á þeim hlut.

Eftir atvikum og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir rétt, að málskostnaður milli aðila falli niður.

Dóminn kvað upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.

Dómsorð:

Viðurkenndur er forkaupsréttur stefnanda, XCO ehf., á hlut stefnda, Jóns Gunnarssonar, í réttargæslustefnda, Birgðaversluninni Gripið og greitt ehf., að nafnverði 123.292 krónur. Er stefnda, Jóni Gunnarssyni, skylt að selja og afsala til stefnanda hlutafé sínu í réttargæslustefnda á genginu 3.5, samkvæmt tilboði því, sem stefndi fékk í hlutaféð og tilkynnt var stjórn réttargæslustefnda 12. nóvember 1998, gegn greiðslu 431.522 króna. Jafnframt er ógilt sala stefnda, Jóns Gunnarssonar, til meðstefndu, Dreifingar ehf. og Garra ehf., á framangreindum hlut.

Málskostnaður fellur niður.