Hæstiréttur íslands

Mál nr. 219/2000


Lykilorð

  • Starfsábyrgð
  • Ökutæki
  • Lausafjárkaup


Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 14. desember 2000.

Nr. 219/2000.

Snorri Freyr Garðarsson

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.)

                                                   

Starfsábyrgð. Ökutæki. Lausafjárkaup.

Bifreiðasalinn R, sem var jafnframt aðaleigandi og stjórnarformaður G ehf., átti milligöngu um sölu bifreiðar til S fyrir hönd G ehf. og undirritaði afsalið fyrir hönd seljanda. Bifreiðin var boðin til sölu á bifreiðasölu þar sem R starfaði. R vanefndi loforð sitt til S um að aflétta tiltekinni veðskuld af bifreiðinni og það leiddi til þess að bifreiðin var tekin af S og seld á nauðungaruppboði. S varð fyrir tjóni og krafði Í um bætur á þeim forsendum að leyfi R til bifreiðasölu hefði verið veitt án þess að rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar hefði verið framfylgt og það hefði orðið til þess að R hefði ranglega verið veitt leyfið. S hélt því fram að með eðlilegum vinnubrögðum hefði mátt tryggja að R hefði verið synjað um leyfið og þá hefði ekkert orðið af viðskiptum þeirra á milli og hann ekki orðið fyrir tjóni. Hæstiréttur staðfesti héraðsdóminn og sýknaði Í af bótakröfu S  með þeim athugasemdum að S hefði átt persónuleg viðskipti við R fyrir hönd G ehf. og því yrði tjónið ekki rakið til starfa R sem bifreiðasala. Þrátt fyrir vanefnd R var sú áhætta, sem S tók með því að greiða andvirði bifreiðarinnar út í hönd án þess að fá tryggingu fyrir að veðinu yrði aflétt, talin vera á hans ábyrgð.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. júní 2000 og krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, en til vara að stefndi greiði sér 1.045.000 krónur með 2% ársvöxtum frá 1. júní 1998 til 20. apríl 1999, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. 

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara er þess krafist að kröfur stefnda verði lækkaðar og málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti felldur niður.

I.

Svo sem í héraðsdómi greinir á mál þetta rætur að rekja til þeirrar háttsemi Ragnars Lövdal bifreiðasala að vanefna loforð, sem hann gaf áfrýjanda þegar hann f.h. Gosa ehf. seldi honum bifreið 11. mars 1997, um að aflétta veði af bifreiðinni, svo og til þess að Ragnar hafði falsað yfirlýsingu um starfsábyrgðartryggingu frá Sparisjóði Mýrasýslu, dagsetta 10. júní 1995, sem tekin hafði verið gild af sýslumanninum í Reykjavík, en hann hafi 12. júlí 1995 veitt Ragnari leyfi til sölu notaðra ökutækja. Þá hafi Ragnar einnig falsað staðfestingu um ábyrgðartryggingu í símbréfi 25. ágúst 1997 til iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins, sem einnig hafði verið tekin gild. Telur áfrýjandi að þeir starfsmenn stefnda, sem lagt hafi þessi skjöl til grundvallar því að veita umrætt starfsleyfi, hafi brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins og með því bakað honum tjón með saknæmum hætti. Með eðilegum vinnubrögðum, varkárni, rannsókn og athugun hvort skjölin fullnægðu 4. tölulið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 69/1994 um sölu notaðra ökutækja og 4. gr. reglugerðar nr. 406/1994 um tryggingarskyldu við sölu notaðra ökutækja, hefði átt að draga gildi þeirra í efa og synja Ragnari Lövdal um leyfi til sölu notaðra ökutækja. Hefði Ragnar ekki fengið leyfið hefði hann ekki starfað sem bifreiðasali og áfrýjandi ekki átt við hann kaupin og orðið fyrir þessu tjóni.

Áfrýjandi reisir kröfu sína um ómerkingu héraðsdóms og heimvísun málsins á því, að héraðsdómari hafi ekki tekið á þessari höfuðmálsástæðu sinni.

II.

Áfrýjandi hefur í lögregluskýrslu í málinu lýst kaupunum á bifreiðinni svo, að hann hafi verið að leita að breyttri Toyota Double Cap jeppabifreið í nokkurn tíma hjá bílasölum borgarinnar er hann rakst á bifreiðina IÖ 054, sem boðin var til sölu á bílasölunni Bílatorgi hf. Ásett verð hafi verið 1.250.000 krónur og hafi honum litist vel á bifreiðina og skoðað hana vel og farið í reynsluakstur, auk þess sem hann hafi fengið kunningja sína til að líta á hana. Hann hafi sagt starfsmanni á bílasölunni að hann hygðist bjóða 900.000 krónur fyrir bifreiðina, en starfsmaðurinn hafi sagt eigandann hafa hafnað einnar milljón króna boði. Starfsmaðurinn hafi sagst þurfa að bera tilboðið undir Ragnar Lövdal, þar sem hann hefði með þessa bifreið að gera. Af samskiptunum þarna á bílasölunni hafi áfrýjandi dregið þá ályktun að Ragnar hefði „eitthvert umboð til sölunnar“ en ekki að Ragnar ætti sjálfur í bifreiðinni. Áfrýjandi kveður Ragnar þá hafa gert gagntilboð um rúmlega eina milljón krónur, en sjálfur hafi hann þá aftur gert tilboð símleiðis einum til tveim dögum síðar um 950.000 krónur að frádregnum smávægilegum viðgerðarkostnaði. Starfsmaður bílasölunnar hafi tekið við þessu tilboði og hann hafi skömmu síðar fengið staðfest að þessu tilboði yrði tekið. Fastmælum var bundið að áfrýjandi kæmi þegar hann hefði aflað fjár til kaupanna, sem tekið hafi um fimm daga. Áfrýjandi kveðst síðan hafa gengið frá kaupunum 11. mars 1997 og hafi Ragnar séð um alla samningsgerð á bílasölunni. Hann hafi spurt Ragnar um fyrirtækið Gosa ehf., sem var skráður eigandi bifreiðarinnar, og hafi Ragnar einungis svarað því til að þetta væri fyrirtæki, sem keypti og seldi bifreiðir. Þegar gengið var frá kaupunum hafi Ragnar kynnt honum að „um 7-800.000 kr. veð“ hvíldi á bifreiðinni og yrði því aflétt innan fimmtán daga og hafi það verði tekið fram í afsali.

Sambúðarkona áfrýjanda bar einnig um kaupin hjá lögreglunni. Hún kvaðst hafa farið með áfrýjanda að ræða við Ragnar Lövdal á bílasölunni og hafi Ragnar kynnt þeim að fyrirtækið Gosar ehf. ætti þessa bifreið, en hann væri umboðsmaður þess til að ganga frá sölu hennar.

III.

Fram er komið í málinu að áfrýjandi keypti bifreiðina IÖ 054 af Gosum ehf. og að Ragnar Lövdal undirritaði afsal fyrir hönd seljandans. Var hann aðaleigandi félagsins og stjórnarformaður þess. Áfrýjandi átti persónuleg viðskipti við Ragnar fyrir hönd þessa einkahlutafélags og honum var ljóst að Ragnar kom fram sem umboðsmaður þess. Ragnar lofaði fyrir hönd seljanda að aflétta áhvílandi veðskuld af bifreiðinni innan 15 daga frá útgáfu afsalsins. Hann stóð ekki við það. Tjón áfrýjanda vegna þessarar vanefndar seljanda verður því ekki rakið til starfa Ragnars sem bifreiðasala. Eru þar með ekki uppfyllt skilyrði til þess að fá tjónið bætt úr hinni lögboðnu ábyrgðartryggingu bifreiðasala, sbr. 4. tölulið 1. mgr. 3. gr. þágildandi laga nr. 69/1994. Tjón áfrýjanda verður rakið til vanefnda Ragnars fyrir hönd Gosa ehf., en áfrýjandi tók þá áhættu í kaupunum að greiða andvirði bifreiðarinnar út í hönd án þess að fá tryggingu fyrir því að veðinu yrði aflétt. Af þessu leiðir að ekki er orsakasamband milli starfa Ragnars sem bifreiðasala og tjóns áfrýjanda. Ber þegar af þeirri ástæðu að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um sýknu stefnda af kröfu áfrýjanda, sbr. og dóm Hæstaréttar 16. desember 1999 í máli nr. 326/1999. Verður þá jafnframt hafnað kröfu áfrýjanda um ómerkingu og heimvísun málsins.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Snorri Freyr Garðarsson, greiði stefnda, íslenska ríkinu, 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. apríl 2000.

Mál þetta, sem dómtekið var 17. mars s.l., er höfðað með stefnu birtri 13. apríl    s.l.

Stefnandi er Snorri Freyr Garðarsson, kt. 251172-4129, Hraunbæ 12, Reykjavík.

Stefndu eru sýslumaðurinn í Reykjavík, kt. 640692-2199, Skógarhlíð 6, Reykja­vík, viðskiptaráðherra vegna viðskiptaráðuneytisins, Arnarhváli, Reykjavík og fjár­mála­ráðherra vegna fjármálaráðuneytisins, Arnarhváli, Reykjavík, vegna ríkissjóðs.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða stefn­anda kr. 1.045.000 ásamt 2% ársvöxtum frá 1. júní 1998 til þingfestingardags, 20. apríl 1999, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðslu­dags.  Þá er krafist málskostnaðar auk virðisaukaskatts.

Dómkröfur stefndu eru þær að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og þeim tildæmdur málskostnaður að mati dómsins.  Til vara eru þær kröfur gerðar að stefnu­kröfur verði stórkostlega lækkaðar og málskostnaður látinn niður falla.

Málavextir.

Málavextir eru þeir að stefnandi keypti 11. mars 1997 bifreiðina IÖ-054 af Gos­um ehf., kt. 560296-2589 á kr. 945.000.  Samkvæmt afsali tók seljandi að sér að af­létta áhvílandi veðskuld innan 15 daga.  Viðskiptin fóru fram fyrir milligöngu bíla­söl­unnar Bílatorgs sem Ragnar Lövdal rak og mun Ragnar hafa undirritað afsalið vegna Gosa ehf.  Stefnandi segir Ragnar hafa lofað að aflétta veðinu innan 15 daga frá kaup­degi og hafi hann sagt að seljandi bifreiðarinnar væri fyrirtæki, sem stundaði bif­reiða­við­skipti og hefði hann umboð frá félaginu, sem löggiltur bifreiðasali, til að ganga er­inda þess.  Er stefnandi hugðist selja bifreiðina þá um haustið, komst hann að því að veð­inu hafði ekki verið aflétt.  Kvaðst stefnandi þá hafa rætt við Ragnar og krafist þess að veðinu yrði aflétt, ella yrði kaupum rift.  Ragnar mun hafa lofað að aflétta veð­inu, en hann stóð ekki við það.  Stefnandi leitaði til lögmanns og mun hafa fengið þá ráð­gjöf að rifta ekki kaupum, heldur greiða veðskuldina og ganga að þeim trygg­ing­um sem Ragnar hlyti að hafa til grundvallar leyfi sínu.  Stefnandi greiddi veðskuldina hins vegar ekki þar sem í ljós kom að Ragnar hafði ekki gilda starfsábyrgðartryggingu. 

Stefnandi lagði þá fram kæru á hendur Ragnari hjá rannsóknardeild lögreglunnar í Reykja­vík.  Með ákæru lögreglustjóra dagsettri 6. október 1998 var höfðað opinbert mál á hendur Ragnari fyrir margvísleg brot framin á árunum 1995 -1998.  Hann var m.a. ákærður fyrir skjalafals með því að hafa tvisvar sent yfirvöldum með símbréfi yfir­lýsingar sem hann falsaði frá rótum í nafni Sigfúsar Sumarliðasonar, spari­sjóðs­stjóra Sparisjóðs Mýrasýslu, þess efnis að ákærði hefði aflað sér starfs­ábyrgð­ar­trygg­ingar hjá sparisjóðnum í samræmi við lög nr. 69/1994 um sölu notaðra ökutækja og reglugerð nr. 406/1994 um tryggingarskyldu við sölu notaðra ökutækja og fengið þannig útgefið leyfi til sölu notaðra ökutækja í atvinnuskyni sér til handa.  Var annars vegar um að ræða yfirlýsingu sem send var stefnda sýslumanninum í Reykjavík 10. júní 1995 og hins vegar yfirlýsingu sem send var stefnda viðskiptaráðuneytinu 26. ágúst 1997.  Á grundvelli fyrri yfirlýsingarinnar og annarra gagna gaf stefndi sýslu­mað­urinn í Reykjavík út leyfi til Ragnars til sölu notaðra ökutækja, en með lögum nr. 20/1997 var stefnda viðskiptaráðuneytinu falið að gefa út slík leyfi.  Mun ráðuneytið í fram­haldi af því hafa óskað eftir því við sýslumannsembætti landsins að gögn vegna útgáfu leyfanna yrðu send ráðuneytinu.  Ráðuneytið mun síðan hafa óskað stað­fest­ingar á að starfsábyrgðartryggingar væru í gildi og barst ráðuneytinu slík staðfesting frá Ragnari í símbréfi dagsettu 25. ágúst 1997.  Ragnari var með sömu ákæru gefið að sök að hafa þann 11. mars 1997 blekkt stefnanda til að kaupa umrædda bifreið á kr. 945.000 með veðböndum fyrir skuld að fjárhæð kr. 688.447, sem  hann skuldbatt sig til að aflétta innan 15 daga frá söludegi.  Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem kveð­inn var upp 26. janúar 1999, var Ragnar sakfelldur fyrir ofangreind brot. 

Bifreiðin var síðan tekin af stefnanda í maí 1998 og var hún seld á nauð­ung­ar­upp­boði 16. maí sama ár.  Stefnandi mætti ekki á uppboðið og taldi vonlaust fyrir sig að gæta hagsmuna sinna þar sökum þess hve veðskuldin var há.

Málsástæður og lagarök.

Stefnandi byggir á því að hann hafi orðið fyrir tjóni sem nemi kaupverði bif­reið­ar­innar og hafi hinir opinberu aðilar sem áttu að hafa eftirlit með starfsemi bif­reiða­sala samkvæmt lögum nr. 69/1994, 20/1997 og reglugerð nr. 406/1994, brugðist skyldu sinni.  Með eðlilegum vinnubrögðum hefði mátt tryggja að Ragnari Lövdal hefði verið synjað um leyfi til sölu notaðra bifreiða samkvæmt lögum nr. 69/1994 og hefði stefnandi þá ekki orðið fyrir tjóni.  Í fyrsta lagi er á því byggt að gerð hafi verið stór­kostleg mistök með því að taka einungis við myndsendum yfirlýsingum sem full­nægjandi sönnun þess að Ragnar uppfyllti lagaskilyrði fyrir leyfisveitingu.  Skilríki sam­kvæmt 4. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 69/1994 hafi því aldrei komið til viðkomandi stjórn­valds.  Myndbréf geti aldrei talist skilríki í þeirri merkingu sem leggja verður í það orð.  Þá séu myndbréfin ekki stíluð á viðkomandi stjórnvöld, en það hefði átt að gefa tilefni til frekari fyrirspurna af hálfu stjórnvalda.  Í öðru lagi er á því byggt að yfir­lýsingarnar séu ekki ritaðar á bréfsefni Sparisjóðs Mýrasýslu og aðeins und­ir­rit­að­ar af einum manni.

Af framansögðu telur stefnandi ljóst að hin stefndu stjórnvöld hafi ekki sinnt rann­sóknarskyldu sinni.  Þeirra gagna hafi ekki verið aflað sem nauðsynlegt var að rann­saka áður en sú ákvörðun var tekin að gefa út hið opinbera leyfi sem var þess eðlis að það gat snert fjárhagslega hagsmuni fjölmargra einstaklinga.  Þá bendir stefn­andi á að engin tímamörk hafi verið í yfirlýsingunni frá 10. júní 1995, en samkvæmt reglu­gerðinni sé kveðið á um tólf mánaða tryggingatímabil.  Þá sé gert ráð fyrir því sem meginreglu að vátrygging sé keypt hjá vátryggingafélagi.

Stefnandi byggir einnig á því að hann hafi mátt treysta því að leysti Ragnar ekki bif­reiðina úr veðböndum, kæmi til kasta þeirrar tryggingar sem hann hefði sett þar til bær­um yfirvöldum.  Sé því fráleitt að stefnandi hafi sýnt af sér gáleysi við kaup bif­reið­arinnar.  Orsakir tjóns stefnanda sé hins vegar gáleysi starfsmanna stefndu og megi rekja tjónið beint til þess að Ragnari var veitt leyfi til bifreiðasölu, þrátt fyrir að hann fullnægði ekki þeim lagaskilyrðum sem fyrir leyfinu voru sett.  Beri stefndu því með gáleysi sínu ábyrgð á að stefnandi átti ofangreind viðskipti við Ragnar og þar með ábyrgð á tjóni stefnanda.  Þá byggir stefnandi á því að stefndu beri ábyrgð á því að rann­sóknarregla stjórnsýsluréttar var brotin, en stefnandi telur tjón sitt verða rakið til þess.

Til vara byggir stefnandi á því að tjón hans verði rakið til stórfellds gáleysis og svika Ragnars sem bifreiðasala, sbr. 4. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 69/1994 og 7. gr. sömu laga.  Hefði Ragnar haft starfsábyrgðartryggingu leiki ekki vafi á því að stefnandi hefði fengið tjón sitt bætt úr þeirri tryggingu.  Megi rekja tjón stefnanda til þess að Ragnar hafði ekki slíka tryggingu og beri stefndu ábyrgð á því.  Með eðlilegum vinnu­brögð­um hefði mátt tryggja að Ragnari hefði verið synjað um leyfi til sölu notaðra bif­reiða nema hann legði fram fullgildar tryggingar.

Stefnandi bendir á að hann hafi orðið fyrir tjóni sínu 11. mars 1997.  Með hlið­sjón af 4. gr. reglugerðar nr. 406/1994 og því að Ragnar fékk leyfi útgefið 12. júlí 1995, hafi stefnandi orðið fyrir tjóni sínu á tryggingatímabilinu 12. júlí 1996 til 12. júlí 1997.  Við gildistöku laga nr. 20/1997 þann 17. apríl 1997 hafi stefndi við­skipta­ráð­herra átt að taka til sjálfstæðrar skoðunar og athugunar hvort Ragnar héldi leyfi sínu, sbr. 3. gr. laganna.  Þá komi fram í myndbréfinu að það berst frá fyrirtæki Ragnars, en ekki frá sparisjóðnum.  Hefðu rétt vinnubrögð ráðuneytisins leitt til þess að upp hefði komist um svik Ragnars það tímanlega að stefnandi hefði strax getað gætt réttar síns.

Stefnandi byggir á því að samkvæmt reglum sönnunarréttar í stjórnsýslumálum verði stefndu að sýna fram á að hve miklu leyti bótakrafa stefnanda hefði ekki greiðst úr viðkomandi tryggingum, hefðu þær verið fyrir hendi, verði bótum neitað á þeim grund­velli að vátryggingarfjárhæðin eða höfuðstóll tryggingarinnar nægi ekki að fullu til greiðslu bóta.  Lánist stefndu ekki slík sönnun, verði að taka dómkröfu stefnanda til greina að fullu.  Stefnandi bendir á að hefðu tryggingar Ragnars verið fullnægjandi, hefði stefnandi leitað til ráðuneytisins og krafist bóta.  Hefði ráðuneytið þá átt að taka málið til afgreiðslu og ganga að þeim tryggingum sem væru fyrir hendi.  Hefði þá komið í hlut ráðuneytisins að sýna fram á að hvaða leyti tryggingarnar næðu ekki yfir tjón stefnanda, ef svo hefði verið.   Einnig hefði ráðuneytið orðið að sýna fram á hvaða ástæður lægju því að baki, að tjón stefnanda greiddist ekki að fullu.

Stefnandi rökstyður bótakröfu sína þannig að fjárhagslegt tjón hans sé kaupverð bif­reiðarinnar kr. 945.000, en til að kaupa slíka bifreið í maí 1998 hefði hann orðið að greiða svipað verð og hann greiddi fyrir bifreiðina 11. mars 1997, en hann hefði gert ýmsar endurbætur á bifreiðinni.  Þá gerir stefnandi kröfu um kr. 100.000 í miskabætur vegna ólögmætrar meingerðar Ragnars.  Beri stefndu ábyrgð á slíkum bótum til jafns við aðrar skaðabætur, en stefnandi hafi orðið fyrir miklum óþægindum vegna svik­anna.  Hafi fylgt því ákveðin niðurlæging að missa bifreiðina með þessum hætti.

Stefnandi reisir kröfur sínar á sakarreglunni og reglunni um vinnuveitendaábyrgð, svo og reglunni um bótaábyrgð hin opinbera vegna gáleysis starfsmanna þess.  Þá vísar stefn­andi til skilyrðiskenningar skaðabótaréttar og reglna um að hið opinbera beri ábyrgð á gáleysi starfsmanna sinna þegar sök er fyrir hendi, en óvíst hver vann skaða­verkið.

Stefndi vísar til reglu stjórnsýsluréttar um rannsóknarskyldu stjórnvalda, sbr. 2. mgr. 1. gr. 10. gr. laga nr. 37/1993.  Þá vísar stefnandi til 26. gr. skaðabótalaga.

Stefndu byggja á því að samkvæmt 4. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 69/1994 skyldi um­sækjandi leggja fram skilríki því til sönnunar að hann hefði gilda tryggingu.  Komi hvers konar skilríki er sannað geti tilvist tryggingar til álita og sé þess ekki krafist að frum­rit tryggingarskírteinis eða bankatryggingar fylgi umsókn.  Ekki verði á það fall­ist að á stjórnvöldum hvíli almennt að lögum rannsóknarskylda varðandi falsleysi skjala er þeim berast og engum þeim atvikum hafi verið til að dreifa er gáfu tilefni til að tortryggja innsend gögn og synja um leyfisveitingu.  Við gildistöku laga nr. 20/1997 hafi þessi málaflokkur horfið til stefnda viðskiptaráðuneytisins og hafði ráðu­neytið enga ástæðu til að ætla að annmarkar væru á leyfisveitingu til Ragnars né var til að dreifa neinum atvikum er gáfu ástæðu til að ætla að endurstaðfesting á starfs­ábyrgð­artryggingu væri fölsuð.  Leyfi Ragnars hafi verið í fullu gildi við laga­breyt­ing­una og röskuðu þau lög í engu rétti þeirra sem fengið höfðu útgefið starfsleyfi.  Hafi því ekki komið til skoðunar hvort Ragnar héldi leyfi sínu heldur var þvert á móti á því byggt að leyfið væri í fullu gildi.  Stefndu vísa því á bug að stjórnvöld hafi sýnt af sér saknæmt gáleysi eða nokkurt samband sé á milli tjóns stefnanda, leyfisveitingar til Ragnars sem bifreiðasala eða skorts á starfsábyrgðartryggingu hans.

Stefndu byggja á því að stefnandi hafi átt við skipti við Gosa ehf. um kaup á bif­reið­inni og samkvæmt afsali hvíldi skuldbinding til að aflétta áhvílandi veðskuld á Gos­um ehf. sem seljanda.  Vanefndir Gosa ehf. sem seljanda bifreiðarinnar á að af­létta veðskuldinni verði ekki raktar til þess að Ragnar hafði gilt leyfi til sölu notaðra öku­tækja.  Starfsskyldum bifreiðasala sé lýst í 4.-7. gr. laga nr. 69/1994 og felist ekki í störfum þeirra að þeir takist á hendur ábyrgð á því að kaupsamningar séu efndir og sé því ekki tilgangur lögboðinnar starfsábyrgðartryggingar bifreiðasala að tryggja bætur vegna vanefnda samningsaðila í bifreiðaviðskiptum.  Stefnandi hafi því aldrei átt nokkra kröfu í lögboðna starfsábyrgðartryggingu bifreiðasala yrðu vanefndir af hálfu seljanda bifreiðarinnar á því að aflétta áhvílandi veðskuld sem leiddi til tjóns.  Skýrt komi fram í gögnum málsins að stefnanda duldist ekki að við kaupsamning og gerð af­sals kom Ragnar fram sem umboðsmaður seljanda, hvort sem stefnanda var ljóst að Ragnar var sjálfur aðaleigandi Gosa ehf. eða ekki.  Stefnandi hafi sjálfur tekið þá áhættu að staðgreiða allt kaupverðið og taka við afsali án þess að nein trygging yrði sett fyrir því að áhvílandi veðskuld yrði aflétt.  Stefnandi hafi ekki hirt um að ganga úr skugga um hvort staðið yrði við þær skuldbindingar og koma í veg fyrir eða takmarka tjón sitt.

Stefndu byggja einnig á því að bótakröfur stefnanda uppfylli ekki skilyrði fyrir stofnun bótaréttar úr lögboðinni tryggingu bifreiðasala.  Trygging bifreiðasala sé sam­kvæmt 3. gr. laga nr. 69/1994 og reglugerðar nr. 406/1994 ábyrgðartrygging sem nái yfir fjártjón sem bifreiðasalar kunna að valda viðskiptamönnum sínum með störfum sínum sem bifreiðasalar.  Þau skilyrði séu sett í lögunum og reglugerðinni að fulln­að­ar­dómur eða réttarsátt hafi gengið um skaðabótaábyrgð bifreiðasalans og upphæð bót­anna ákveðin.  Stefnandi hafi ekkert aðhafst í því skyni að fá staðfesta skaða­bóta­skyldu Ragnars sem bifreiðasala eða fá ákvörðun um bætur vegna fjártjóns.  Sé þannig ekki fullnægt því skilyrði fyrir stofnun bótaréttar er kynni að verða leiddur af reglum um ábyrgðartryggingu bifreiðasala.  Þá takmarkist heildarfjárhæð tryggingarbóta innan hvers 12 mánaða tryggingartímabils við kr. 9.000.000, sbr. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 406/1994.  Af hálfu stefnanda hafi ekki verið sýnt fram á að það skilyrði standi ekki í vegi bótakröfu hans.

Stefndu mótmæla kröfum um miskabætur og telja þær ekki hafa lagastoð.  Þá sé ljóst að eini kostnaður stefnanda sem tengdur yrði bótaskyldu tjóni felist í þeim hluta upp­boðsandvirðis bifreiðarinnar er gekk til greiðslu áhvílandi veðskuldar að fjárhæð kr. 290.643.

Forsendur og niðurstaða.

Ágreiningur aðila í máli þessu snýst um það hvort stefndu beri skaðabótaábyrgð á því gagnvart stefnanda að Ragnari Lövdal var veitt leyfi til sölu notaðra ökutækja m.a. á grundvelli falsaðra gagna um að hann hefði aflað sér starfsábyrgðartryggingar.  Byggir stefnandi á því að hefði Ragnari verið synjað um leyfi hefði stefnandi ekki orðið fyrir tjóni við það að Ragnar stóð ekki við loforð um að aflýsa áhvílandi veði á bif­reiðinni IÖ-054, sem stefnandi keypti af Gosum ehf. 11. mars 1997, en í ljós hafi komið að Ragnar hafði ekki gilda starfsábyrgðartryggingu.  Verði tjón stefnanda því rakið til gáleysis starfsmanna stefndu.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 406/1994 um tryggingarskyldu við sölu notaðra öku­tækja, sem sett var með heimild í 4. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 69/1994, sbr. c-lið 3. gr. laga nr. 20/1997 um breytingu á þeim lögum, sbr. nú lög nr. 28/1998 um versl­un­ar­atvinnu, varð hver sá, sem vildi reka verslun eða umboðssölu með notuð ökutæki, að hafa til þess leyfi sýslumanns í viðkomandi umdæmi, síðar viðskiptaráðherra.  Meðal þeirra skilyrða, sem uppfylla þurfti, var að lögð væru fram skilríki því til sönn­unar að þeir hafi gilda tryggingu sem bæti viðskiptavinum tjón er þeir kunna að verða fyrir vegna ásetnings eða gáleysis bifreiðasala.  Í 2. gr. reglugerðarinnar kemur fram að bif­reiðasala beri eftir almennum reglum skaðabótaréttar að bæta viðskiptamönnum sínum það tjón sem hann kann að baka þeim með störfum sínum.  Þá er ráð fyrir því gert í lögunum, sbr. 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar, að kaupanda skuli greitt af trygg­ing­ar­fénu að gengnum fullnaðardómi eða að gerðri réttarsátt um vanefnd og þegar ljóst er að seljandi getur ekki efnt skyldu sína samkvæmt dóminum eða sáttinni.

Af gögnum málsins er ljóst að Ragnar Lövdal undirritaði yfirlýsingu þess efnis fyrir hönd seljanda bifreiðarinnar IÖ-054, Gosa ehf., að áhvílandi veðskuld yrði aflétt innan 15 daga.  Við þetta var ekki staðið og er ljóst að stefnandi varð fyrir tjóni af þeim sökum.  Verður tjónið því rakið til þessara vanefnda Gosa ehf. eða eftir atvikum Ragnars Lövdal.  Skilyrði þess, að þeir sem verði fyrir tjóni vegna starfa bifreiðasala geti fengið greitt af tryggingarfé, er samkvæmt framansögðu að fullnaðardómur hafi gengið eða réttarsátt verið gerð um vanefnd.  Stefnandi hefur ekki beint málatilbúnaði sínum að Ragnari Lövdal í því skyni að fá úr því skorið hvort tjón hans verði rakið til starfa Ragnars sem bifreiðasala, en telja verður það nauðsynlegt til að staðreyna or­saka­samband milli athafna starfsmanna stefndu og tjóns stefnanda.  Ber því að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.

Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Stefndu, sýslumaðurinn í Reykjavík, viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins, skulu vera sýknir af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.