Hæstiréttur íslands
Mál nr. 522/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald
- Farbann
- Útlendingur
|
Föstudaginn 2. ágúst 2013. |
|
|
Nr. 522/2013. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Ívar Þór Jóhannsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. Farbann. Útlendingar.
X var gert að sæta farbanni á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttur settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. ágúst 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. ágúst 2013, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi „allt til fimmtudagsins 16. ágúst 2013 klukkan 16:00“. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að varnaraðila „verði gert að halda sig innan ákveðins svæðis í stað gæsluvarðhalds.“ Að þessu frágengnu krefst varnaraðili þess að honum verði gert að sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds. Að því frágengnu krefst hann þess að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Krafist er gæsluvarðhalds yfir varnaraðila á grundvelli 5. mgr. 33. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga og b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, til þess að tryggja framkvæmd ákvörðunar innanríkisráðuneytisins [...] um að sóknaraðila verði gert að yfirgefa landið. Þá er krafan einnig reist á því að brýnt sé að lögregla fái tækifæri til að rannsaka ætluð brot varnaraðila, en hann er grunaður um vopnalagabrot, með því að hafa ógnað manni með hnífi 7. júlí síðastliðinn og tvö húsbrot, annað frá 13. ágúst 2012 og hitt frá 14. maí 2013.
Öll ætluð brot varnaraðila voru framin löngu áður en sóknaraðili setti fram kröfu sína um gæsluvarðhald. Af hálfu sóknaraðila hefur ekki verið sýnt fram á að nauðsyn sé á gæsluvarðhaldi varnaraðila, enda er unnt að tryggja framkvæmd ákvörðunar innanríkisráðuneytisins með því að varnaraðila verði gert að sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds, sbr. 100. gr. laga nr. 88/2008. Verður honum því gert að sæta farbanni eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, sæti farbanni til fimmtudagsins 15. ágúst 2013 klukkan 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 1. ágúst 2013.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess fyrir dóminum í dag að X, fd. [...] verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til fimmtudagsins 15. ágúst kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu segir að atvik máls séu þau að lögregla hafi handtekið kærða í gærkvöldi í [...]íbúð að [...] í Reykjavík en hann hefur verið eftirlýstur af stjórnvöldum annars vegar vegna ólokinna refsimála og hins vegar vegna synjunar á beiðni hans um hæli en með ákvörðun Útlendingastofnunar dags. [...] var X synjað um að beiðni hans væri tekin til efnismeðferðar á Íslandi á grundvelli 12. gr. f. laga nr. 96/2002 um útlendinga og gert að yfirgefa Ísland. Þessa ákvörðun hefur Innanríkisráðuneytið staðfest með úrskurði sínum dags. [...] en ákvörðunin var birt X fyrr í dag.
Þá hafa sænsk yfirvöld viðurkennt skyldu sína til endurviðtöku X þar sem hann hefur verið í hælismeðferð þar á grundvelli c-liðar 1. mgr. 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.
X er nánast peningalaus og er ekki með fastan samastað en honum hafði þann 9. júlí sl. verið vísað úr húsnæði að [...] í Reykjavík sem er á vegum [...]. ([...])
Lögreglustjóri telur nauðsynlegt að kærði verði úrskurðaður í gæsluvarðhald til þess að tryggja framkvæmd ákvörðunar Innanríkisráðuneytisins um að X skuli yfirgefa landið, þar sem ætla má að kærði muni annars reyna að komast úr landi. Þá er einnig brýnt að lögregla fái tækifæri til þess að rannsaka þau mál sem X er sakaður um. Í gögnum málsins kemur fram að X hefur engin tengsl við landið og hefur engar tekjur til framfærslu. Þá hefur hann engan samastað.
Með vísan til alls framangreinds, gagna málsins, 5. mgr. 33. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002 og b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, telur lögreglustjóri brýna hagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til fimmtudagsins 15. ágúst kl. 16:00.
Kærði mótmælti kröfunni og gerði þá kröfu að gæsluvarðhaldskröfunni yrði hafnað, því markaður skemmri tími verði á kröfuna fallist eða vægari úrræðum beitt.
Niðurstaða.
Fallist er á það með lögreglustjóra að hætta sé á því, fari kærði frjáls ferða sinna, muni hann reyna að komast úr landi, leynast eða koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar gangi hann laus meðan mál hans sé til rannsóknar og meðferðar innan dómskerfisins. Þá eru skilyrði b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 uppfyllt, sbr. vísan til 5. mgr. 33. gr. laga nr. 96/2002.
Með vísan til þessa er krafa lögreglu um að kærði sæti gæsluvarðhaldi til fimmtudagsins 16. ágúst nk. nk. kl. 16.00 tekin til greina.
Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kvað upp þennan dóm.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 16. ágúst 2013 kl. 16:00.