Hæstiréttur íslands

Mál nr. 360/2013


Lykilorð

  • Landamerki
  • Samningur
  • Tómlæti
  • Kröfugerð


                                       

Fimmtudaginn 18. september 2014.

Nr. 360/2013.

Friðrik V. Halldórsson

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Degi Kristmundssyni

(Jón Jónsson hrl.)

og til réttargæslu

Sigríði Guðmarsdóttur og

(enginn)

íslenska ríkinu

(Óskar Thorarensen hrl.)

og

Dagur Kristmundsson

gegn

Friðriki V. Halldórssyni

Landamerki. Samningur. Tómlæti. Kröfugerð.

Eigendur Ásgrímsstaða, F, og Hrollaugsstaða, D, greindi á um landamerki milli jarðanna. Í fyrsta lagi var deilt um gildi landamerkjabréfs Hrollaugsstaða frá 1921, sem undirritað var af ábúendum jarðarinnar og um samþykki af ábúendum Ásgrímsstaða en ekki af eigendum jarðanna. Hæstiréttur skírskotaði til þess að landamerkjabréf væru í eðli sínu samningar væru þau samþykkt af eigendum eða umráðamönnum aðliggjandi jarða og að virtu því eðli þeirra var tekið undir með D að F gæti ekki nú, tæpum 90 árum eftir gerð landamerkjabréfsins og athugasemdalausan þinglestur þess haft uppi andmæli gegn gildi bréfsins vegna þess hvernig háttað var undirritunum á það. Í öðru lagi var deilt um merki milli jarðanna á svæði eftir að sleppti punkti þar sem landamerkjalína milli Hrollaugsstaða og Sands skar Jökullæk og endaði í Álftalækjarauga, þar sem áður mættist rennsli Jökul- og Álftalækjar. Taldi D að frá þeim punkti þar sem landamerkjalínan milli Hrollaugsstaða og Sands sker Jökullæk réði miður farvegur lækjarins milli jarðanna frá Markhólma, sem er í miðjum farvegi lækjarins, í Álftalækjarauga, sbr. 1. mgr. 3. gr. vatnalaga nr. 15/1923, en F taldi að með samningum landeigenda lægju merkin á eystri bakka Jökullækjar úr Markhól og eftir lækjarbakkanum í Álftalækjarauga. Talið var að virtri reglu 1. mgr. 3. gr. vatnalaga, sem var í samræmi við reglu sem áður kom fram í 56. gr. kapítula landsleigubálks Jónsbókar, að merkjalínu á fyrrgreindu bili lægi í miðjum farvegi Jökullækjar í Álftalækjarauga, en af kröfugerð málsaðila leiddi að frá síðastgreindum punktu lægu merkin áfram eftir miðjum farvegi Álftalækjar í Álftalækjarós. Í þriðja lagi var ágreiningur um merki jarðanna frá Álftalækjarósi í Kelduós, þar sem F byggði á því draga bæri merkin í beinni línu þvert til suðvesturs úr fyrrgreindu örnefni í hið síðargreinda. D vildi á hinn bóginn leggja til grundvallar að Ásgrímsstaðavatn réði merkjum jarðanna á þessu svæði, en í því fólst krafa um viðurkenningu á að bakki vatnsins frá Álftárósi í Kelduós að austanverðu tilheyrði Hrollaugsstöðum svo og um að Hrollaugsstöðum tilheyrðu að þessu leyti netlög í Ásgrímsstaðavatni. Hvað þetta atriði varðar vísaði Hæstiréttur til 4. gr. vatnalaga, en regla svipaðs efnis hefði áður komið fram í 56. gr. kapítula landsleigubálks Jónsbókar, um þá niðurstöðu að bakki Ásgrímsstaðavatns réði merkjum milli jarðanna tveggja frá þeim stað í Álftalækjarósi þar sem merki jarðanna kæmu í vatnið eftir miðjum farvegi Álftalækjar og að Kelduósi. Þá var réttur Hrollaugsstaða til netlaga í Ásgrímsstaðavatni fyrir landi jarðarinnar á sama svæði viðurkenndur á grundvelli 4. og 5. gr. vatnalaga. Í fjórða lagi var deilt um hvernig landamerkin lægu um Merkidal, þar sem F lagði til grundvallar að á merkjalínunni væri hlykkur, en D taldi hana beina. Talið var að af landamerkjabréfum beggja jarða yrði ráðið að þar væri ekki lýst beinni línu, heldur línu sem fylgdi miðjum dalnum samkvæmt náttúrulegri lögun hans. Með hliðsjón af því og að virtum staðháttum í Merkidal var tekið undir sjónarmið F að þessu leyti, um að á merkjalínunni væri hlykkur. Einnig var deilt um hve langt fram dalinn línan næði, þar sem ágreiningur stóð um viðmið í landamerkjabréfum Ásgrímsstaða og Hrollaugsstaða þess efnis hvar fyrst mætti sjá mann á hesti af Ásgrímsstaðahlaði þá framan eða innan kæmi Bóndastaðaveg. Hæstiréttur taldi að síðastgreindur staður á Bóndastaðavegi væri á þeim stað þar sem tilgreint var hnit nefnt 36R í málatilbúnaði D. Að síðustu var í fimmta lagi deilt um hvar væri Vatnalækjarós hinn ytri í Víðastaðavatni, en rétturinn taldi að leggja yrði til grundvallar þann stað sem F hafði lagt til grundvallar í málatilbúnaði sínum.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. maí 2013. Hann krefst sýknu af öllum kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 19. ágúst 2013. Hann krefst aðallega viðurkenningar á því að landamerki milli Hrollaugsstaða og Ásgrímsstaða, eftir að landamerkjalína milli Hrollaugsstaða og Sands sker Jökullæk, liggi eftir miðjum farvegi Jökullækjar í Álftalækjarauga, þaðan eftir miðjum farvegi Álftalækjar í Álftalækjarós, þaðan ráði Ásgrímsstaðavatn merkjum í Kelduós sem fellur úr Merkidal í Ásgrímsstaðavatn, þaðan liggi landamerkin eftir miðjum Merkidal í nánar tilgreint hnit í punkti 27 á skjali F, sem aðaláfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt og unnið er af Loftmyndum ehf., um fyrrum vörðustæði utan á Hálsinum, og svo réttlínis í Vatnalækjarós hinn ytri í nánar tilgreint hnit í punkti 29 á skjali F.

Til vara krefst gagnáfrýjandi viðurkenningar á því að landamerki Hrollaugsstaða og Ásgrímsstaða liggi eins og í aðalkröfu greinir í Kelduós, þaðan eftir miðjum Merkidal í tilgreint hnit í punkti 31, um fyrrum vörðustæði utan á Hálsinum, og svo réttlínis í Vatnalækjarós hinn ytri í tilgreint hnit í punkti 29 á skjali F. Að þessu frágengnu krefst gagnáfrýjandi viðurkenningar á því að landamerki jarðanna liggi eins og í aðalkröfu greinir í Kelduós, þaðan eftir miðjum Merkidal í beinni línu um tilgreint hnit í punkti 28 og áfram að skurðpunkti línu og eftir þeirri línu sem liggur um tilgreint hnit í punkti 36, þar sem fyrst sést maður á hesti af Ásgrímsstaðahlaði þá framan kemur Bóndastaðaveg, og í Vatnalækjarós hinn ytri í tilgreint hnit í punkti 29 á skjali F. Að því frágengnu er krafist viðurkenningar á því að landamerki jarðanna liggi eins og í aðalkröfu greinir í Kelduós, þaðan eftir miðjum Merkidal í beinni línu um tilgreint hnit í punkti 28 og áfram að skurðpunkti línu og eftir þeirri línu sem liggur um tilgreint hnit í punkti 36 á skjali F, þar sem fyrst sést maður á hesti af Ásgrímsstaðahlaði þá framan kemur Bóndastaðaveg, og í ós lækjar sem rennur í Víðastaðavatn í hniti 569330-717116. Í öllum tilvikum er krafist viðurkenningar á því að Hrollaugsstöðum fylgi netlög í Ásgrímsstaðavatni, þar sem land jarðarinnar nær að vatninu samkvæmt dómkröfu gagnáfrýjanda, svo og að aðaláfrýjanda verði gert að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti.

Aðaláfrýjandi hefur stefnt Sigríði Guðmarsdóttur til réttargæslu fyrir Hæstarétti, en hún hefur ekki látið málið til sín taka.

Aðaláfrýjandi og gagnáfrýjandi hafa stefnt íslenska ríkinu til réttargæslu fyrir Hæstarétti.

Dómendur fóru á vettvang 3. september 2014.

I

Jarðirnar Ásgrímsstaðir og Hrollaugsstaðir eru í Hjaltastaðaþinghá á utanverðu Fljótsdalshéraði og er ágreiningur milli eigenda þeirra um landamerki. Hjaltastaðaþinghá liggur inn af austanverðum Héraðsflóa og ráðast landfræðileg mörk hennar af vatnaskilum á Austurfjallgarði, frá Gripdeild í Botnsdalsfjall, en þaðan ráða sýslumörk fyrrum Norður- og Suður-Múlasýslna í Lagarfljót sem síðan ræður mörkum til sjávar í Héraðsflóa. Hjaltastaðaþinghá skiptist því sem næst um miðju af Selfljóti sem fellur á um 55 km langri leið til sjávar á Héraðssöndum í Unaósi undir Ósfjöllum en upptök fljótsins eru undir Fjarðarheiði.  

Bærinn á Ásgrímsstöðum stendur við klettabrún neðan þjóðvegar hjá bæjarlæk sem áður var virkjaður og rennur úr Víðastaðavatni í Ásgrímsstaðavatn en niður af síðarnefnda vatninu er grasgefið mýrlendi sem að hluta hefur verið framræst. Að nokkru ráðast mörk Ásgrímsstaða til norðurs af Jökullæk sem rann í um 50 m breiðum farvegi úr Lagarfljóti í Selfljót en Jökullækur á upptök sín í svökölluðum Aur norðan Steinboga. Úr Ásgrímsstaðavatni féll Álftalækur til austurs þar til hann mætti Jökullæk í Álftalækjarauga og saman runnu þeir í einum farvegi til austurs í Selfljót. Álftalækur hefur verið stíflaður og er afrennsli hans nú tekið í skurð í landi Ásgrímsstaða og eru farvegir Jökullækjar og Álftalækjar því þurrir á því svæði þar sem saman liggja merki Ásgrímsstaða og Hrollaugsstaða.

Bærinn á Hrollaugsstöðum stendur sunnan og austan Ásgrímsstaða undir klettaboga sem skagar norðaustur í Hrollaugsstaðablá milli Torfatjarnar og Ásgrímsstaðavatns. Bæjartjörn er þar neðan við tún og austan hennar hraunaröð og mýrlendi og þar fram hjá liðaðist Álftalækur úr Ásgrímsstaðavatni áður en afrennsli hans var tekið í skurð í Ásgrímsstaðalandi. Milli Ásgrímsstaða og Hrollaugsstaða liggur Merkidalur til suðurs upp frá Kelduósi við Ásgrímsstaðavatn en Kelduós gengur einnig undir heitunum Illakelda og Sortukelda. Nokkru sunnan Hrollaugsstaða eru Bóndastaðir og vestan þeirra og til norðurs liggur Bóndastaðaháls og í framhaldi af honum Hrollaugsstaðaháls sem nær að Ásgrímsstöðum. Vestan Bóndastaða og til norðurs eftir Bóndastaða- og Hrollaugsstaðahálsum lá Bóndastaðavegur, en það eru gamlar reiðgötur sem enn sést móta fyrir að hluta. Vestan við Hrollaugsstaðaháls er Víðastaðavatn og er sem fyrr segir afrennsli úr því í Ásgrímsstaðavatn. Jörðin Víðastaðir er vestan Ásgrímsstaða og Hrollaugsstaða og á merki með þeim. Norðan Ásgrímsstaða og Hrollaugsstaða er jörðin Sandur, áður Hóll og Hólshjáleiga, og á hún merki með bæði Ásgrímsstöðum og Hrollaugsstöðum. Austan Bóndastaða og Hrollaugsstaða að Jökullæk eru Hjaltastaða-, Bóndastaða- og Hrollaugsstaðablár sem saman mynda stærsta votlendissvæði austanlands.

II

Ágreiningur í málinu um merki milli Ásgrímsstaða og Hrollaugsstaða er margþættur en þó eru nokkur atriði óumdeild. Þannig er staðsetning örnefnanna Markhóll, Markhólmi, Álftalækjarauga, Hagaoddi, Álftalækjarós, Kelduós og Merkidalur ágreiningslaus þótt deilt sé um hnit og hvernig merki jarðanna liggi milli þeirra. Þá er og ágreiningslaust að miður farvegur Álftalækjar ráði merkjum milli jarðanna frá Álftalækjarauga í Álftalækjarós.

Hvað ágreiningsatriði málsins varðar er í fyrsta lagi deilt um hvert gildi hafi landamerkjabréf Hrollaugsstaða frá 15. desember 1921 sem þinglesið var 19. júlí 1922. Er eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi á því byggt af hálfu aðaláfrýjanda að landamerkjabréfið, sem undirritað var af ábúendum Hrollaugsstaða og um samþykki af ábúendum Ásgrímsstaða en ekki af eigendum jarðanna, sé hvorki lögmætt að efni til né formi og geti því ekki haft þýðingu við úrlausn málsins.

Í öðru lagi er deilt um merki milli jarðanna á svæði sem hefst eftir að landamerkjalína milli Hrollaugsstaða og Sands sker Jökullæk og endar í Álftalækjarauga þar sem áður mættist rennsli Jökullækjar og Álftalækjar. Ágreiningslaust er hvar landamerkjalína Hrollaugsstaða og Sands sker Jökullæk en gagnáfrýjandi heldur því fram að þaðan ráði miður farvegur Jökullækjar merkjum milli jarðanna frá Markhólma, sem er í miðjum farvegi lækjarins, í Álftalækjarauga, og vísar í því sambandi til þeirrar reglu 1. mgr. 3. gr. vatnalaga nr. 15/1923 að þar sem á eða lækur skilur landareignir eigi hvort land í miðjan farveg, og sé ekki vöxtur í vatni, nema önnur lögmæt skipun sé þar á gerð. Þessu hafnar aðaláfrýjandi og telur að þeirri skipan hafi verið komið á með samningum landeigenda að merki milli jarðanna liggi á eystri bakka Jökullækjar úr Markhól, sem er á eystri bakka lækjarins, og þaðan eftir lækjarbakkanum í Álftalækjarauga.

Í þriðja lagi er ágreiningur um hvernig merki milli jarðanna tveggja liggja frá Álftalækjarósi í Kelduós. Krafa aðaláfrýjanda er á því reist að merkin ráðist af beinni línu sem dregin sé þvert til suðvesturs úr Álftalækjarósi í Kelduós. Gagnáfrýjandi heldur því á hinn bóginn fram að Ásgrímsstaðavatn ráði merkjum milli jarðanna á þessu svæði, en í því felst krafa um viðurkenningu á því að bakki Ásgrímsstaðavatns frá Álftárósi í Kelduós að austanverðu tilheyri Hrollaugsstöðum. Í samræmi við það krefst gagnáfrýjandi viðurkenningar á því með vísan til 4. og 5. gr. vatnalaga að Hrollaugsstöðum tilheyri netlög í vatninu.

Í fjórða lagi er deilt um hvernig merki milli jarðanna liggja um Merkidal. Lýtur ágreiningurinn á þessu svæði í fyrsta lagi að því hvort merkjalínan um dalinn sé bein eða á henni hlykkur. Í öðru lagi er ágreiningur um hversu langt fram dalinn línan nær. Hvað seinna atriðið varðar snýst ágreiningurinn um hvar fyrst megi sjá mann á hesti af Ásgrímsstaðahlaði þá framan eða innan kemur Bóndastaðaveg, en eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi kemur það viðmið fram bæði í landamerkjabréfi Ásgrímsstaða og Hrollaugsstaða.

Kröfugerð aðaláfrýjanda í þessu sambandi er á því reist að línan suður Merkidal sé ekki bein heldur fari hún eftir dalnum miðjum eins og náttúrulegri lögun hans sé háttað og fylgi henni en af því leiði vegna staðhátta í dalnum að á henni sé hlykkur. Upphafspunkturinn sé í Sortukeldu í punkti 150 á uppdrætti aðaláfrýjanda á héraðsdómskjali 38, sem unnið sé að Loftmyndum ehf., og liggi úr honum í beinni línu til suðurs eftir miðjum dalnum að þeim stað þar sem er punktur 151 á sama skjali. Frá þeim stað fylgi línan áfram lögun Merkidals eftir honum miðjum og taki samkvæmt því sveigju til suðausturs að þeim stað þar sem er punktur 152 á skjalinu. Þaðan fylgi línan áfram lögun dalsins og stefni eilítið til suðvesturs í beinni línu að þeim stað þar sem er punktur 153 á skjalinu og frá þeim stað þvert í vestur um þann stað á skjalinu þar sem er punktur 155, en aðaláfrýjandi heldur því fram að þar sjáist fyrst á mann á hesti af Ásgrímsstaðahlaði þá framan eða innan kemur Bóndastaðaveg, í punkt 154 þar sem sé Vatnalækjarós hinn ytri í Víðastaðavatni.

Gagnáfrýjandi heldur því á hinn bóginn fram hvað þetta ágreiningsatriði varðar að merkin liggi í beinni línu með upphafspunkt við Kelduós og að þeim stað í dalnum þar sem línan taki stefnu þvert til vesturs að Víðastaðavatni á þeim stað þar sem er hnitapunktur 29 á skjali F (569577,4801-717350,7558), en þar telur gagnáfrýjandi að sé Vatnalækjarós hinn ytri.  Aðalkrafa gagnáfrýjanda í gagnáfrýjunarstefnu er á því reist að beina línan eftir Merkidal taki stefnu þvert til vesturs úr þeim stað þar sem er hnitapunktur 27 á skjali F (569712,4871-71891,3654), um fyrrum vörðustæði utan á Hálsinum í hnitapunkt 29. Í fyrstu varakröfunni miðar gagnáfrýjandi við að beina línan í Merkidal taki stefnu þvert til vesturs úr hnitapunkti 31 (569575,5030-717897,0011), um fyrrum vörðustæði utan á Hálsinum, í hnitapunkt 29. Í annarri varakröfunni miðar gagnáfrýjandi við að beina línan í Merkidal liggi um hnitapunkt 28 (569493,5141-717900,2973) allt að skurðpunkti línu og eftir þeirri línu sem liggur um hnitapunkt 36 (569360,762-717805,5), þar sem fyrst sjáist maður á hesti af Ásgrímsstaðahlaði þá framan eða innan kemur Bóndastaðaveg, og þaðan í hnitapunkt 29. Í þriðju varakröfunni miðar gagnáfrýjandi við að línan í Merkidal liggi um hnitapunkt 28 allt að skurðpunkti línu og eftir þeirri línu sem liggur um hnitapunkt 36 með stefnu í ós lækjar sem fellur í suðurenda Víðastaðavatns, hnit 569330-717116. Sá staður er nokkru sunnar og vestar en hnitapunktur 29 og er það sami staður og aðaláfrýjandi miðar við að sé Vatnalækjarós hinn ytri. Samkvæmt gagnáfrýjunarstefnu er í þriðju varakröfu „byggt að efni til á niðurstöðu héraðsdóms og byggt á hniti við umdeildan Vatnalækjarós ytri eins og ósinn er tilgreindur í málatilbúnaði gagnstefnda.“

Í fimmta lagi er um það deilt hvar sé Vatnalækjarós hinn ytri í Víðastaðavatni. Gagnáfrýjandi heldur því fram að ósinn sé í hnitapunkti 29 samkvæmt hnitamerkingum hans, skammt austan við þann stað þar sem vatnið þrengist til suðurs. Aðalaáfrýjandi heldur því á hinn bóginn fram að Vatnalækjarós hinn ytri sé í punkti 154 á héraðsdómskjali nr. 38, en hann er við suðurenda vatnsins og nokkru sunnar og vestar en hnitapunktur 29 í hnitamerkingum gagnáfrýjanda.

III

Hér að framan var gerð grein fyrir kröfugerð gagnáfrýjanda eins og hún kemur fram í gagnáfrýjunarstefnu. Í greinargerð gagnáfrýjanda til Hæstaréttar eru aðalkrafa hans og fyrsta varakrafa óbreyttar frá gagnáfrýjunarstefnu. Er í aðalkröfu sem fyrr miðað við hnitapunkt 27 og þaðan um fyrrum vörðustæði utan á Hálsinum réttlínis í Vatnalækjarós hinn ytri í hnitapunkt 29. Í fyrstu varakröfunni er sem fyrr miðað við hnitapunkt 31 og þaðan um fyrrum vörðustæði utan á Hálsinum réttlínis í Vatnalækjarós hinn ytri í hnitapunkti 29. Í annarri varakröfunni er hins vegar sú breyting gerð frá gagnáfrýjunarstefnu að í stað þess að miða við hnitapunkt 36 miðar gagnáfrýjandi við hnitapunkt 36R (569371-717794), þar sem fyrst sjáist maður á hesti af Ásgrímsstaðahlaði þá framan eða innan kemur Bóndastaðaveg, og þaðan í Vatnalækjarós hinn ytri í hnitapunkti 29. Í þriðju varakröfunni miðar gagnáfrýjandi við hnitapunkt 28, allt að skurðpunkti línu og eftir þeirri línu sem liggur um hnitapunkt 36R, þar sem fyrst sjáist maður á hesti af Ásgrímsstaðahlaði þá framan eða innan kemur Bóndastaðaveg og í ós lækjar sem rennur í Víðastaðavatn með hnitin 569330-717116. Í fjórðu varakröfu samkvæmt greinargerðinni krefst gagnáfrýjandi staðfestingar héraðsdóms með þeirri breytingu að hnit með lægra númer en 25 verði felld úr dómsorði.

Gagnáfrýjandi skýrir hina breyttu kröfugerð í greinargerðinni þannig að í ljós hafi komið að skekkja hafi verið í hnitasetningum hans í kröfugerð í héraði og í gagnáfrýjunarstefnu. Þar sem framlögð loftmynd aðaláfrýjanda á hæstaréttarskjali F sýni vel farveg Jökullækjar, Álftarauga, farveg Álftalækjar, Álftalækjarós og Kelduós og ekki sé deilt um legu og staðsetningu þessara kennileita sé í dómkröfum gagnáfrýjanda fallið frá hnitasetningu kröfulínu hans samkvæmt númerum hnitapunkta frá 1 til 26, sbr. dómskjal nr. 51 í héraði. Aðaláfrýjandi hefur ekki andmælt sérstaklega hinni breyttu kröfugerð gagnáfrýjanda að þessu leyti. Samkvæmt því og þar sem lega og staðsetning síðastgreindra örnefna er óumdeild er unnt að leggja dóm á landamerkjalínu milli Ásgrímsstaða og Hrollaugsstaða á svæðinu frá þeim stað þar sem landamerkjalína milli Hrollaugsstaða og Sands sker Jökullæk og í Kelduós, þótt ekki sé við hnitasetningu að styðjast.

Gagnáfrýjandi vísar til þess að þar sem skekkja í upphaflegum hnitasetningum hans hafi verið til suðsuðausturs og með því að land Hrollaugsstaða liggi fyrir austan Ásgrímsstaði sé ljóst að ónákvæmni hnitanna leiði til þess að umkrafin merkjalína í Merkidal gangi frekar á land Hrollaugsstaða. Þrátt fyrir það hafi gagnáfrýjandi á grundvelli forræðis síns yfir sakarefninu ákveðið að halda fast við upphaflega hnitasetningu sína á svæðinu í Merkidal, enda leiði skekkjan til ónákvæmni sem sé til hagsbóta fyrir aðaláfrýjanda. Frá þessu sé þó gerð undantekning vegna annarar og þriðju varakröfu gagnáfrýjanda og snerti hnitapunkt 36 (569360,762-71805,5) en það hnit hafi verið tekið í vettvangsgöngu héraðsdóms 17. október 2013. Skekkja hafi verið í þeirri hnitamælingu og sé þess í stað sett fram og miðað við leiðrétt hnit, 36R (569371-717794). Á nýju skjali J, sem gagnáfrýjandi lagði fyrir Hæstarétt, er að finna yfirlýsingu Lárusar Heiðarssonar skógfræðings 16. september 2013 en hann annaðist hnitasetningu fyrir gagnáfrýjanda í upphafi. Staðfestir hann þar að um skekkju hafi verið að ræða, skýrir ástæður hennar og tekur fram að skekkja einstakra hnita sé mismunandi, allt frá 0 til 20 m. Aðaláfrýjandi mótmælir þeirri breytingu á kröfugerð gagnáfrýjanda sem leiðir af því að miða við hnitapunkt 36R í stað hnitapunkts 36 og bendir í því sambandi á að hnitapunktur 36R sé staðsettur á uppýttum Borgarfjarðarvegi eldri frá 1948. Með því að miða við hnitapunkt 36R í breyttri kröfugerð sinni í greinargerðinni í stað hnitapunkts 36 hafi gagnáfrýjandi fært kröfulínu sína á þessu svæði til, aukið við kröfur sínar frá því sem var í héraði og í gagnáfrýjunarstefnu og þannig raskað grundvelli málsins.

Aðaláfrýjandi hefur ekki andmælt sérstaklega réttmæti þess sem fram kemur í  yfirlýsingu Lárusar Heiðarssonar að skekkja hafi verið í upphaflegum hnitasetningum gagnáfrýjanda og í hverju skekkjan liggi. Samkvæmt því og þar sem gögn málsins bera með sér að um óverulega skekkju er að ræða í því tilviki sem hér um ræðir telst grundvelli málsins ekki raskað með þeim breytingum sem gagnáfrýjandi hefur gert á kröfum sínum í greinargerð sinni til Hæstaréttar, enda verður ekki séð að gagnáfrýjandi hafi með breyttri kröfugerð aukið við kröfur sínar frá því sem var í héraði og í gagnáfrýjunarstefnu.

IV

Eftir gildistöku laga nr. 41/1919 um landamerki var gert landamerkjabréf fyrir Hrollaugsstaði en það er dagsett 15. desember 1921 og var þinglesið án athugasemda 19. júlí 1922. Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir efni bréfsins og hvernig háttað var undirritunum á það. Sú skipan mála um merki milli Ásgrímsstaða og Hrollaugsstaða sem þar er mælt fyrir um hefur staðið óbreytt frá upphafi og án þess að gögn málsins beri með sér að eigendur Ásgrímsstaða hafi nokkru sinni hreyft andmælum gegn gildi þess fyrr en í aðdraganda þess að mál þetta var höfðað. Hafa jarðirnar þó báðar gengið kaupum og sölum í millitíðinni. Eins og nánar greinir í dómum Hæstaréttar 11. október 2012 í máli nr. 457/2011 og 26. september 2013 í máli nr. 547/2012 eru landamerkjabréf í eðli sínu samningar séu þau samþykkt af eigendum eða umráðamönnum aðliggjandi jarða. Þegar litið er til þessa eðlis landamerkjabréfa er fallist á með gagnáfrýjanda að aðaláfrýjandi geti ekki nú, tæpum 90 árum eftir gerð landamerkjabréfs Hrollaugsstaða og athugasemdalausan þinglestur þess, haft uppi andmæli gegn gildi bréfsins vegna þess hvernig háttað var undirritunum á það. Er réttur hans í þeim efnum því fallinn niður fyrir tómlætis sakir af hálfu eigenda Ásgrímsstaða.

V

Sú regla hefur lengi gilt í íslenskum rétti að þar sem á eða lækur skilur að landareignir á hvort land í miðjan farveg vatns og sé ekki vöxtur í því, nema önnur lögmæt skipan hafi þar verið á gerð, sbr. 1. mgr. 3. gr. vatnalaga. Eins og greinir í dómi Hæstaréttar 12. júní 2014 í máli nr. 609/2013 er regla þessi í samræmi við þá sem áður kom meðal annars fram í 56. kapítula landsleigubálks Jónsbókar, en þar sagði að „ef á rennr millum bæja manna eða bekkr, ok eru fiskar í, þá eigu hálfa hvárir, ef þeir eigu svá jǫrð til tveim megin.“ Þá kemur og fram í síðastgreindum dómi að af reglu 1. mgr. 3. gr. vatnalaga leiði að sá, sem haldi því fram að annarri lögmætri skipan hafi verið komið á hafi sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu. Í ljósi þeirra lagareglna er hér hafa lengstum gilt samkvæmt framansögðu um merki milli jarða þegar straumvatn skilur að lönd, gildir einu hvort annarri skipan en þeirri sem lög mæla fyrir um var komið á fyrir eða eftir gildistöku vatnalaga, sbr. til hliðsjónar síðastgreindan dóm í máli nr. 609/2013. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða hans að eftir að landamerkjalína milli Hrollaugsstaða og Sands sker Jökullæk liggi landamerki Ásgrímsstaða og Hrollaugsstaða í miðjum farvegi Jökullækjar í Álftalækjarauga. Þá leiðir af kröfugerð beggja málsaðila að frá Álftalækjarauga liggja merki jarðanna eftir miðjum farvegi Álftalækjar í Álftalækjarós en samkvæmt málflutningsyfirlýsingum þeirra er staðsetning þessara örnefna sem fyrr segir óumdeild.

VI

Ef stöðuvatn skilur fasteignir og er ekki 230 metrar á breidd ræður miðlína þess merkjum, enda hafi önnur lögmæt skipan ekki verið á því gerð, sbr. 2. mgr. 4. gr. vatnalaga. Ef stöðuvatn er breiðara fylgir vatnsbotn þeim bakka, sem hann verður talinn framhald af, 115 metra út í vatn, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna, og eru það netlög í stöðuvatni. Regla 4. gr. vatnalaga er í samræmi við þá fornu meginreglu íslensks réttar að hver maður eigi vatn og veiðistöð fyrir sinni jörðu, sbr. dóma Hæstaréttar 20. mars 1963 í máli nr. 163/1961, sem birtur er í dómasafni réttarins 1963 á bls. 173, og 18. október 2012 í máli nr. 233/2011. Regla svipaðs efnis kom áður fram í 56. kapítula landsleigubálks Jónsbókar en þar sagði meðal annars að „Hverr maðr á vatn ok veiðistǫð fyrir sinni jǫrðu ok á sem at fornu hefir verit, nema með lǫgum sé frá komit.“ Af framangreindu leiðir að sá, sem heldur því fram að annarri skipan hafi verið komið á, hefur sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu. Í ljósi þeirra lagareglna er hér hafa lengstum gilt samkvæmt framansögðu gildir einu hvort annarri skipan  var komið á fyrir eða eftir gildistöku vatnalaga, sbr. til hliðsjónar áðurgreindan dóm í máli nr. 609/2013. Að þessu gættu en að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða hans að bakki Ásgrímsstaðavatns ráði merkjum milli Ásgrímsstaða og Hrollaugsstaða frá þeim stað í Álftalækjarósi þar sem merki jarðanna koma í vatnið eftir miðjum farvegi Álftalækjar og að Kelduósi. Jafnframt er í samræmi við 4. og 5. gr. vatnalaga staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að viðurkenna rétt Hrollaugsstaða til netlaga í Ásgrímsstaðavatni fyrir landi jarðarinnar á sama svæði.

VII

Ágreiningur um merki milli Ásgrímsstaða og Hrollaugsstaða frá Kelduósi til suðurs eftir Merkidal og þaðan í Víðastaðavatn lýtur í aðalatriðum að þrennu. Í fyrsta lagi er um það deilt hvort merkin liggi í beinni línu fram dalinn að þeim stað þar sem línan breytir um stefnu yfir að Víðastaðavatni eða hvort á línunni sé hlykkur áður en hún breytir um stefnu. Í öðru lagi snýr ágreiningurinn að því hvar landamerkjalínan taki stefnubreytingu í Merkidal yfir að Víðastaðavatni og í þriðja lagi hvar í vatnið línan komi.

Við úrlausn þess hvort línan suður dalinn sé bein eða á henni hlykkur er fyrst til þess að líta að í landamerkjabréfi Ásgrímsstaða segir að línan liggi „fram eptir miðjum Merkidal og svo langt fram þar til fyrst sést maður á hesti af Ásgrímsstaðahlaði“ og í landamerkjabréfi Hrollaugsstaða segir að úr Kelduósi liggi línan „eftir miðjum Merkidal í vörðu utan á Hálsinum (eða þar sem fyrst sést maður á hesti af Ásgrímsstaðahlaði þá innan kemur Bóndastaðaveg)“. Af þessu orðalagi beggja landamerkjabréfanna leiðir að þar er ekki lýst beinni línu heldur línu sem fylgir miðjum dalnum samkvæmt náttúrulegri lögun hans. Við vettvangsgöngu kom glögglega í ljós að Merkidalur liggur í beinni stefnu frá norðri til suðurs í dalverpi milli hæðarbrúna frá Kelduósi og að þeim stað í dalnum þar sem er punktur 151 samkvæmt uppdrætti aðaláfrýjanda á héraðsdómskjali nr. 38. Þar sveigir dalurinn eilítið til suðausturs þar til komið er á þann stað þar sem er punktur 152 samkvæmt sama uppdrætti, en þar breytist lega dalsins aftur með stefnu til suðvesturs þar til komið er að þeim stað í dalnum þar sem er punktur 153 samkvæmt uppdrættinum. Eftir þessari línu milli punkta 150 og 153 gróf aðaláfrýjandi skurð og lagði þá til grundvallar miðju dalsins mælda milli hæðarbrúna. Er með hliðsjón af staðháttum í Merkidal og orðalagi landamerkjabréfa Ásgrímsstaða og Hrollaugsstaða fallist á með aðaláfrýjanda að þannig séu landamerki milli jarðanna í Merkidal réttilega ákvörðuð.

Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða að hafna beri öllum kröfum og málsástæðum gagnáfrýjanda sem lúta að því að landamerkjalína milli Ásgrímsstaða og Hrollaugsstaða liggi „um fyrrum vörðustæði á Hálsinum“. Að teknu tilliti til þeirrar leiðréttingar sem gagnáfrýjandi hefur gert á rangri hnitasetningu í upphaflegri kröfugerð sinni er með skírskotun til forsendna héraðsdóms staðfest sú niðurstaða að sá staður á Bóndastaðavegi, þar sem fyrst megi af Ásgrímsstaðahlaði sjá mann á hesti þá framan eða innan kemur Bóndastaðaveg, sé á þeim stað þar sem er hnitapunktur 36R (569371-717794) á skjali F. Loks er með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms staðfest sú niðurstaða að gagnáfrýjandi hafi engar þær sönnur fært fyrir staðhæfingu sinni um staðsetningu örnefnisins Vatnalækjarós hinn ytri í Víðastaðavatni að unnt sé að fallast á kröfu hans um viðurkenningu á því að landamerki jarðanna liggi í hnitapunkt 29 á skjali F. Af framangreindu leiðir að merki Ásgrímsstaða og Hrollaugsstaða liggja um miðjan Merkidal eftir línu úr Kelduósi í punkt 153 allt að skurðpunkti línu og eftir þeirri línu sem liggur um hnitapunkt 36R í Vatnalækjarós hinn ytri á þeim stað þar sem er punktur 154 samkvæmt uppdrætti aðaláfrýjanda.

Eftir framangreindum úrslitum málsins er rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af rekstri  þess í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Viðurkennt er að landamerki milli Ásgrímsstaða og Hrollaugsstaða á Fljótsdalshéraði, eftir að landamerkjalína milli Hrollaugsstaða og Sands sker Jökullæk, liggja eftir miðjum farvegi Jökullækjar í Álftalækjarauga og þaðan eftir miðjum farvegi Álftalækjar í Álftalækjarós í Ásgrímsstaðavatni. Úr Álftalækjarósi ræður Ásgrímsstaðavatn merkjum að Kelduósi. Úr Kelduósi liggja merkin suður Merkidal eftir línu milli punkta 150 til 153, eins og línan er mörkuð af Loftmyndum ehf. á héraðsdómskjali nr. 38, allt að skurðpunkti línu og eftir þeirri línu sem liggur um hnitapunkt 36R á hæstaréttarskjali F, þar sem fyrst sést maður á hesti af Ásgrímsstaðahlaði þá framan kemur Bóndastaðaveg,  í Vatnalækjarós hinn ytri á þeim stað þar sem er punktur 154 samkvæmt uppdrætti á héraðsdómsskjali nr. 38.

Viðurkennt er að Hrollaugsstöðum fylgir réttur til netlaga í Ásgrímsstaðavatni þar sem land jarðarinnar nær að vatninu.

Hvor aðila skal bera sinn kostnað af rekstri máls þessa í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Austurlands 11. desember 2012.

                Mál þetta, sem dómtekið var 17. október 2012, er höfðað með stefnum birtum 22. og 24. nóvember 2011 af Degi Kristmundssyni, Bláskógum 7, Egilsstöðum, á hendur Friðriki V. Halldórssyni, Brattholti 1, Mosfellsbæ og til réttargæslu Sigríði Guðmarsdóttur, Dalskógum 5a, Egilsstöðum og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra f.h. Ríkissjóðs Íslands, Vegmúla 3, Reykjavík.

                Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þessar:

                Aðalkrafa: Að viðurkennt verði með dómi að landamerki milli Hrollaugsstaða og Ásgrímsstaða, eftir að landamerkjalína milli Hrollaugsstaða og Sands sker Jökullæk, liggi eftir farvegi Jökullækjar um hnit nr. 1. 571304,5298 - 719046,078, hnit nr. 2 571244,2319 - 719044,552, hnit 3 571087,5395 - 719006,3139, hnit 4 571020,6619 - 718964,265, hnit 5 570921,3104 - 718822,8432, hnit 6 570856,4724 - 718824,3837, hnit 7 570760,7831 - 718891,6174, hnit 8 570739,7559 - 718947,032, hnit 9 570737,8275 - 719088,4412, hnit 10 570724,4449 - 719138,124, hnit 11 570661,3775 - 719189,7115, hnit 12 570600,2275 - 719189,704, hnit 13 570502,7744 - 719151,4733 í Álftalækjarauga hnit 14 570359,6711 - 719006,079, og farvegi Álftalækjar um hnit 15 570579,2274 - 719025,3606, hnit 16 570609,8125 - 718943,1941, hnit 17 570640,3938 - 718893,5134, hnit 18 570686,2624 - 718843,8346, hnit 19 570727,2958 - 718731,1435, hnit 20 570703,825 - 718684,0755, hnit 21 570698,8157 - 718605,7601, hnit 22 570714,9616 - 718557,1974, hnit 23 570691,1826 - 718464,4959, hnit 24 570634,1713 - 718368,2474, hnit 25 570601,345 - 718241,2606, í Ásgrímsstaðavatn, svo ræður vatnið að Kelduós sem fellur úr Merkidal, hnit 26 570213,1069 - 717871,368. Svo eftir miðjum Merkidal í hnit 27 569712,4871 - 717891,3654, um fyrrum vörðustæði utan á Hálsinum og svo réttlínis í Vatnalækjarós hinn ytri, hnit 29 569577,4801 - 717350,7558.

                Fyrsta varakrafa: Að landamerki milli Hrollaugsstaða og Ásgrímsstaða verði eins og í aðalkröfu að hniti 26 570213,1069 - 717871,368, en svo eftir miðjum Merkidal í hnit 31 569575,503 – 717897,0011, um fyrrum vörðustæði utan á Hálsinum og svo réttlínis í Vatnalækjarós hinn ytri, hnit 29 569577,4801 - 717350,7558.

                Önnur varakrafa: Að landamerki milli Hrollaugsstaða og Ásgrímsstaða verði eins og í aðalkröfu að hniti 26 570213,1069 - 717871,368, en svo eftir miðjum Merkidal í hnit 28 569493,5141 – 717900,2973, um fyrrum vörðustæði utan á Hálsinum og svo réttlínis í Vatnalækjarós hinn ytri, hnit 29 569577,4801 - 717350,7558.

                Þriðja varakrafa: Að landamerki milli Hrollaugsstaða og Ásgrímsstaða verði eins og í aðalkröfu að hniti 26 570213,1069 - 717871,368, en svo eftir miðjum Merkidal í beinni línu um hnit 28 569493,5141 – 717900,2973, allt að skurðpunkti línu og eftir þeirri línu sem liggur um hnit nr. 36, 569360,762 – 717805,5, þar sem fyrst sést maður á hesti af Ásgrímsstaðahlaði, þá framan kemur bóndastaðaveg, og hnit nr. 29 569577,4801 - 717350,7558, Vatnalækjarós hinn ytri.

                Í öllum tilvikum er þess jafnframt krafist að viðurkennt verði með dómi að Hrollaugsstöðum fylgi réttur til netlaga í Ásgrímsstaðavatni þar sem Hrollaugsstaðir eiga land að vatninu skv. dómkröfu.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

Af hálfu stefnda er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu.

                Af hálfu réttargæslustefndu eru engar kröfur gerðar, enda engar kröfur hafðar uppi á hendur þeim.          

                Við aðalmeðferð málsins gekk dómari á vettvang ásamt aðilum máls, lögmönnum þeirra og Lárusi Heiðarssyni, skógræktarráðunaut hjá Skógrækt ríkisins. Annaðist sá síðastnefndi hnitsetningu á vettvangi vegna þriðju varakröfu stefnanda, sem sett var fram í kjölfar vettvangsgöngunnar. Var gengið á þann hluta hinna umdeildu merkja sem liggja í Merkidal og yfir að Víðastaðavatni, auk þess sem farið var að bænum á jörðinni Ásgrímsstöðum.

I

                Aðilar máls þessa eru eigendur jarðanna Ásgrímsstaða og Hrollaugsstaða í Hjaltastaðaþinghá, sem liggja milli Lagarfljóts og Selfljóts á utanverðu Fljótsdalshéraði. Í máli þessu er deilt um landamerki milli jarðanna, auk þess sem deilt er um það hvort Hrollaugsstöðum fylgi réttur til netlaga í Ásgrímsstaðavatni. Málavöxtum er lýst ítarlega bæði í stefnu og greinargerð, en af hálfu stefnda er málavaxtalýsingu stefnanda mótmælt að því leyti sem hún fer í bága við lýsingu stefnda. Verður málavöxtum því hér að mestu lýst samkvæmt gögnum málsins, en vísað til málavaxtalýsinga aðila eftir því sem þurfa þykir.

                Stefnandi, Dagur Kristmundsson, eignaðist jörðina Hrollaugsstaði með afsali, dags. 20. júní 1967. Hann kveðst hafa alist upp á Ánastöðum í Hjaltastaðaþinghá, en hafa dvalið mikið á Hrollaugsstöðum, þar sem afi hans Kristinn Magnússon hafi búið til ársins 1958.

                Jörðina Ásgrímsstaði eignaðist stefndi, Friðrik V. Halldórsson, að hluta á árinu 1990 og hana alla á árinu 1991, samkvæmt því sem greinir í þinglýsingavottorði. Stefndi kveður afa sinn, Ágúst Ásgrímsson, hafa tekið við ábúð jarðarinnar árið 1925, keypt jörðina árið 1942 og hún verið í eigu fjölskyldunnar frá þeim tíma.

                Í málinu liggur m.a. fyrir landamerkjabréf fyrir Ásgrímsstaði, ódagsett, en sem þinglýst var á Hjaltastaðamanntalsþingi 14. júní 1890 og innfært í landamerkjabók Norður-Múlasýslu. Er ágreiningslaust að bréfið sé undirritað af eigendum og ábúendum Ásgrímsstaða og Hrollaugsstaða, auk fulltrúa annarra aðliggjandi jarða. Landamerkjum milli Ásgrímsstaða og jarðarinnar Hóls er þar fyrst lýst, en síðan merkjum við Hrollaugsstaði og er lýsingin svohljóðandi:

                „Landamerki að utan milli Ásgrímsstaða og Hóls eru í miðjan svokallaðan aur, sem ræður austur í Jökullæk, að austan og neðan ræður Jökullækur fram í Markhólma, sem er í miðjum Jökullæk. Þar þvert yfir lækinn eiga Ásgrímsstaðir heyskap allan, allt fram í þúfu þá, sem liggur mitt í læknum, út úr hagaodda austarlega, að sunnan og framan úr Álptarauga upp eptir miðjum Álftalæk allt í Ásgrímsstaðavatn og svo rétta línu í Sortukeldu, og frá Sortukeldu fram eptir miðjum Merkidal og svo langt fram þar til fyrst sést maður á hesti af Ásgrímsstaðahlaði, þá framan kemur Bóndastaðaveg, og svo réttlínis norður yfir í Vatnalækjarós hinn ytri og þaðan réttlínis yfir Víðastaðavatn [...].“

Ekki mun hafa verið gert landamerkjabréf fyrir Hrollaugsstaði fyrr en í kjölfar gildistöku núgildandi laga um landamerki o.fl. nr. 41/1919. Landamerkjabréf fyrir jörðina er dags. 15. desember 1921, þinglesið 19. júlí 1922, innfært í landamerkjabók Norður-Múlasýslu og er m.a. undirritað af ábúendum Hrollaugsstaða og Ásgrímsstaða. Lýsing þess er svo hljóðandi:

                „Að utan ræður Engilækur í Engilækjardrög, þaðan í Beinhól og bein stefna í Markhól við Jökullæk, þaðan ræður Jökullækur í Álftalækjarauga og Álftalækur í Ásgrímsstaðavatn, svo ræður vatnið að Kelduós sem fellur úr Merkidal. Svo eftir miðjum Merkidal í vörðu utan á Hálsinum (eða þar sem fyrst sést maður á hesti af Ásgrímsstaðahlaði þegar innan kemur Bóndastaðaveg) svo réttlínis norður í Vatnalækjarós hinn ytri, þaðan réttlínis í austanverðan Heygarð innan við Vatnablá. [...].“

Í málinu liggja einnig fyrir byggingarbréf fyrir Hrollaugsstaði frá 6. júní 1912 og 6. júní 1915, þar sem er að finna svohljóðandi og samhljóða lýsingu á landmerkjum gagnvart Ásgrímsstöðum:

                „[...] þaðan beina stefnu í Markhól við Jökullæk. Þaðan ræður Jökullækur í Álftarlækjarauga, þaðan ræður Álftalækur í Ásgrímsstaðavatn. Svo ræður vatnið að kelduós sem fellur úr Merkidal að norðan. Svo eftir miðjum Merkidal í vörðu utan á Hálsinum, þaðan beint í Víðastaðavatn, svo ræður Víðastaðavatn að Lækjarós, þaðan bein lína í miðjan Heygarð framan við Vatnablá. [...]“.

                Í málinu liggja ennfremur fyrir landamerkjabréf aðliggjandi jarða, þ.e. ódagsett bréf Víðastaða (einnig í gögnum málsins nefnt Viðastaðir) sem þinglesið var 2. júlí 1884 og landamerkjaskrá fyrir Hól og Hólshjáleigu, dags. 23. maí 1890 og þinglesin 14. júní sama ár, bæði innfærð í landamerkjabók Norður Múlasýslu. Jörðin Víðastaðir er nú í eigu réttargæslustefnda ríkissjóðs Íslands, en jörðin Sandur, sem áður tilheyrði Hóli og Hólshjáleigum, er nú í eigu réttargæslustefndu Sigríðar Guðmarsdóttur

                Stefnandi lýsir ágreiningssvæðinu svo að það hefjist þar sem landamerkjalína milli Hrollaugsstaða og Hólsjarða liggi í Jökullæk og þar með að landi Ásgrímsstaða, en með Hólsjörðum sé vísað til jarðanna Hóls og Hólshjáleigu og síðari nýbýla sem átt hafi landið í óskiptu, þ.e. Sands og Eylands. Landi Hólsjarða hafi verið skipt með skiptagerð, dags. 3. maí 2002, en þá hafi ytri landamerki Hólsjarða verið hnitsett og landinu skipt í séreignahluta. Dómkröfur stefnanda séu hlutlausar um réttmæti landamerkjalínu Hólsjarða við Hrollaugsstaði, en byggt sé á því að lína samkvæmt dómkröfu hefjist þar sem land Hrollaugsstaða og Ásgrímsstaða liggi saman. Í samræmi við landskiptagerðina sé því nægjanlegt að réttargæslustefna eiganda jarðarinnar Sands. Ríkissjóði Íslands sé einnig stefnt til réttargæslu sem eiganda jarðarinnar Víðastaða. Sú jörð eigi land að Víðastaðavatni, sem fremri hluti landamerkja Ásgrímsstaða og Hrollaugsstaða liggi að.

                Samkvæmt framlögðum gögnum hófust formlegar viðræður málsaðila um landamerki jarðanna á árinu 2009, í kjölfar bréfs þáverandi lögmanns stefnda til stefnanda, dags. 25. júní það ár, þar sem tilkynnt var að stefndi hygðist þinglýsa yfirlýsingu um hnitsetta afmörkun á landi jarðarinnar Ásgrímsstaðir. Þar sem þær viðræður báru ekki árangur og stefndi hafði hafið skurðgröft á svæðinu, leitaði stefnandi til sýslumannsins á Seyðisfirði með bréfi, dags. 15. september 2011, með ósk um að sýslumaður héldi sáttafund um landamerkjadeiluna í samræmi við ákvæði laga nr. 41/1919, um landamerki o.fl. Stefndi hafnaði því að mæta á boðaðan sáttafund, með bréfi til sýslumannsins, dags. 19. október 2011.

                Bæði í stefnu og greinargerð er vísað til loftmyndatöku sem fram hafi farið á árinu 1993 eða þar um kring, eftir að gengið hafi verið á vettvang og settir niður segldúkar á tilteknum merkjum. Stefnandi kveður þá loftmynd lýsa röngum landamerkjum, enda hafi hann ekki sjálfur átt hlut að þessari vettvangsgöngu.

                Við aðalmeðferð málsins gáfu auk aðila málsins skýrslu vitnin Guðmar Ragnarsson, fyrrum bóndi og mjólkurbílstjóri í Hjaltastaðaþinghá, Guðmundur Karl Sigurðsson, bóndi í Laufási í Hjaltastaðaþinghá og Einar Kristinsson, móðurbróðir stefnanda. Vikið verður að framburðum aðila og vitna eftir því sem þurfa þykir í niðurstöðukafla dómsins.

II

                Til stuðnings aðalkröfu sinni kveðst stefnandi vísa til laga nr. 41/1919, um landamerki, s.s. ákvæða 2. gr. um landamerkjaskrár, þ.e. svokölluð landamerkjabréf. Stefnandi byggi á því að landamerkjabréf Hrollaugsstaða, dags. 15. desember 1921, lýsi merkjum jarðarinnar við Ásgrímsstaði. Ágreiningur sem til staðar sé um merkin byggi að hluta til á ágreiningi um legu kennileita og til hvers örnefni vísi, en jafnframt skýringu á fyrirliggjandi landamerkjagögnum. Vísað sé til almennra skýringarreglna þar um.

                Í stefnu er rakin lýsing landamerkja úr landamerkjabréfi Hrollaugsstaða gagnvart Ásgrímsstöðum, sem rakin er hér að framan, og segir að umrædd merki hafi verið hnitsett eins og geti í dómkröfu.

                Stefnandi kveður að af bréfum stefnda vegna málsins megi greina ágreining í þrennt, þ.e.:

               1. Hvar merki liggi um Jökullæk, þ.e. hvort merki liggi um miðjan farveg eða á bakkanum Hrollaugsstaðamegin.

               2. Hvernig landamerkjum sé háttað við Ásgrímsstaðavatn, þ.e. hvort bein lína ráði merkjum eða vatnið með hefðbundnum hætti, með tilheyrandi réttindum.

               3. Hvernig merki liggi um Merkidal og að Víðastaðavatni, sérstaklega sé ágreiningur um ætlað vörðustæði þar sem fyrst sjái, frá hlaðinu á Ásgrímsstöðum árið 1890, á ríðandi mann þegar innan kemur Bóndastaðaveg.

                Merki um Jökullæk.

                Stefnandi kveðst vísa til landamerkjabréfs Hrollaugsstaða þar sem vísað sé til þess að Jökullækur ráði í Álftarlækjarauga. Stefnandi byggi á því að landamerkjabréf Hrollaugsstaða sé nýjasta landamerkjabréf svæðis og gangi því framar fyrri skipan sé eitthvert ósamræmi þar á milli.

                Orðalag bréfsins beri með sér að miðja farvegar Jökullækjar skipti löndum í samræmi við almenna skipan. Um þá skipan sé m.a. kveðið í 3. gr. vatnalaga nr. 15/1923. Frávik frá meginreglu þyrftu að koma fram með óyggjandi orðalagi.

                Sjónarmið stefnda um að Ásgrímsstöðum fylgi allur farvegur Jökullækjar að bakka Hrollaugsstaðamegin standist ekki. Ákvæði landamerkjabréfs Ásgrímsstaða frá 1890 vísa til þess að Ásgrímsstaðir eigi heyskap allan frá Markhólma í þúfu sem liggi mitt í læknum. Að því marki sem sú skipan hafi ekki þótt rétt árið 1922, sé sýnt að ákvæðið lýsi slægjuítaki Ásgrímsstaða í lækjarfarvegi en víki ekki frá meginreglum. Vísað sé til laga nr. 113/1952, um lausn ítaka af jörðum, og í öllu falli ljóst að ítakið sé fallið niður. Þá sé jafnframt vísað til þess að fyrrum réttur Ásgrímsstaða hafi náð til Jökullækjar á móts við lönd Hólsjarða.

                Merki við Ásgrímsstaðavatn – netlög.

                Stefnandi kveður að í landamerkjabréfi Hrollaugsstaða sé því lýst að frá því að Jökullækur og Álftarlækur komi saman við svokallað Álftalækjarauga, ráði Álftalækur í Ásgrímsstaðavatn, en svo ráði vatnið að Kelduósi sem falli úr Merkidal. Staðsetning Kelduóss og upptaka Álftarlækjar sé ljós. Stefnandi vísi til þess að umrædd lýsing lýsi með hefðbundnum hætti að jörðin Hrollaugsstaðir eigi land að Ásgrímsstaðavatni milli þessara merkipunkta.

                Til áréttingar og til að setja niður deilur með sem skýrustum hætti sé sett fram viðurkenningarkrafa um að Hrollaugsstöðum tilheyri netlög fyrir landi jarðarinnar við Ásgrímsstaðavatn. Þannig verði skýrt að eignarhald Hrollaugsstaða að Ásgrímsstaðavatni sé ekki með nokkrum hætti afbrigðilegt, sbr. sjónarmið stefnda. Til stuðnings kröfunni sé vísað til 4. gr. vatnalaga nr. 15/1923.

                Í landamerkjabréfi Ásgrímsstaða frá 1890 sé vísað til þess að Ásgrímsstaðir eigi land í rétta línu frá upptökum Álftalækjar úr Ásgrímsstaði [sic] í Sortukeldu. Slíkt ákvæði geti ekki vikið skýru orðalagi yngra landamerkjabréfs, sbr. almennar skýringarreglur. Þá þurfi ekki að vera um ósamrýmanlega lýsingu að ræða, enda geti vísun í rétta línu verið tilvísun í þáverandi viðhorf um hvað teldist rétt lína á afmörkun veiðiréttar og annars réttar jarðarinnar út í vatnið. Stefndi vísi þessu sjónarmiði til stuðnings í öll önnur gögn um landamerki milli jarðanna sem styðja kröfu stefnanda.

                Lega landamerkja á annan veg en greinir í Hrollaugsstaðabréfi teldist afar óvenjuleg og ríka sönnunarbyrði þurfi að leggja á þann sem haldi slíkum merkjum fram. Þá sé hún andstæð meginreglum um landamerki að vötnum, sbr. ákvæði vatnalaga nr. 15/1923, sbr. einkum 4. gr. laganna.

                Merki um Merkidal og að Víðastaðavatni.

                Stefnandi kveðst vísa til landamerkjabréfs Hrollaugsstaða frá 1922 að baki dómkröfu, en ljóst sé að ágreiningur sé uppi um legu tiltekinna kennileita og áhrif breytinga á staðháttum.

                Að áliti stefnanda feli landamerkjalýsing bréfsins og landamerkjabréfs Ásgrímsstaða frá 1890 og landamerkjalýsingar í byggingarbréfum fyrir Hrollaugsstaði, dags. 6. júní 1912 og 6. júní 1915 í sér lýsingu á sömu landamerkjum. Landamerkjalýsingarnar séu samrýmanlegar og verði þær notaðar til að greina rétta legu landamerkja í ljósi breyttra staðhátta.

                Landamerkjabréf Ásgrímsstaða frá 1890 lýsi merkjum svo:

                „[...] eptir miðjum Merkidal og svo langt fram þar til fyrst sést maður á hesti af Ásgrímsstaðahlaði, þá framan kemur Bóndastaðaveg, og svo réttlínis norður yfir í Vatnalækjarós hinn ytri [...]“

                Byggingarbréfin frá 1912 og 1915 lýsi vörðu, enda séu líkur á því að hún hafi verið hlaðin í samræmi við ákvæði landamerkjalaga frá 17. mars 1882, og þá hjá viðmiðunarpunkti við reiðveginn. Bréf Hrollaugsstaða frá 1922 vísi til vörðunnar en tilgreini forsendur fyrir staðsetningu hennar innan sviga. Téð varða sé nú ekki bersýnileg og líklega horfin, en stefnandi byggi ætlaða staðsetningu hennar á eftirfarandi sjónarmiðum.

                Varðan hafi verið reist sem landamerkjavarða og þar af leiðandi verið reist við reiðveginn. Við áætlun um legu vörðunnar verði að taka tillit til breyttra staðhátta um það hvar mögulega hafi verið hægt að sjá fyrst reiðmann á Bóndastaðavegi.

·         Vegurinn hafi verið reiðvegur og því niðurgrafinn vegna troðnings.

·         Síðari tíma vegagerð hafi breytt aðstæðum á svæðinu og byggt á því að hækka vegi upp úr landslagi.

·         Bæjarhlað Ásgrímsstaðarbæjarins hafi legið annars staðar og neðar í landinu árið 1890 en nú, vegna færslu bæjarins, jarðvegsþykknunar og íburðar efnis við bæjarhlöð.

·         Hæsta holtið í sjónlínu milli Ásgrímsstaða og reiðvegar hafi verið nýtt til malarnáms í tengslum við vegagerð 1986.

                Stefnandi kveður sjónarmið stefnda ekki standast enda hvíli þau á því að ætlað vörðustæði hafi verið ákveðið án tillits til framangreinds og nærri jarðýtuslóð sem leyst hafi reiðveginn af hólmi um 1945, sbr. merkingu á loftmynd frá árinu 1993.

                Í ljósi þessa kveðst stefnandi byggja á því að vörðustæðið hafi verið við reiðveginn innarlega á holtinu þar sem malarnám hafi farið fram, þar sem sjónlína yfir há-holtið hafi náðst á reiðmann í niðurgröfnum reiðveginum.

·         Sjónarmið stefnanda samræmist landamerkjalýsingum og eðlilegri örnefnanotkun; að land Ásgrímsstaða nái ekki langt upp úr Merkidal, í samræmi við landfræðilega legu dalsins.

·         Ásgrímsstaðir eigi ekki land upp á flötu mýrina ofan Merkidals þar sem varla sé vatnshalli til Merkidals og ekkert lækjardrag hafi verið. Stefndi hafi nú grafið skurð langt inn í mýrina og spillt kennileitum og verði hann að bera allan halla um sönnun um legu Merkidals.

·         Þá sé vísað til túnræktar og girðingar, líklega frá því um 1970, sem falli að framangreindum merkjum og sjáist glögglega á loftmyndum.

·         Ætluð staðsetning vörðunnar fái einnig stuðning við merki jarðanna við Víðastaðavatn.

                Þá byggi stefnandi á því að kennileitið Vatnalækjarós hinn ytri, sé við hnit 29 569577,4801 - 717350,7558. Lækur sem nú renni í Víðastaðavatn renni annars staðar í vatnið, en vísun í Vatnalækjarós hinn ytri feli í sér að rennsli í vatnið hafi breyst í mýrinni eða lækjarsytra runnið í vatnið þarna. Tilvísun í Vatnalækjarós ytri væri annars merkingarlaus.

                Þá vísi stefnandi til þeirra landfræðilegu aðstæðna við Víðastaðavatnið að það sé í raun klofið, þar sem þurrlendur ás gangi út vatnið en tveir mýrlendir vatnsendar sitt hvoru megin sem skili af sér vatni. Eðli máls samkvæmt hafi aðstæður í mýrinni breyst, s.s. vatnsrennsli, framburður og gróður, þótt nú sé ekki eiginlegur lækjarós þar. Aðstæður þessar fái einnig stuðning í umfjöllun bókarinnar Sveitir og jarðir í Múlasýslum, bls. 273 [sic], um landamerki Hrollaugsstaða. Þar sé vísað til landamerkja Hrollaugsstaða og Ásgrímsstaða í syðri vatnsfæti Víðastaðavatns, sem vísi til tveggja vatnsfóta og málvenju um áttir, sbr. t.d. landamerkjabréf Hrollaugsstaða.

                Þá vísi stefnandi til landamerkjalýsingar í byggingarbréfum Hrollaugsstaða frá 1912 og 1915, en þar sé lýst sömu merkjum um Merkidal og línu um landamerkjavörðu á Hrollaugsstaðahálsi. Framhaldi þeirrar viðmiðunarlínu sé þá lýst svo:

                „[...] þaðan beint í Víðastaðavatn, svo ræður Víðastaðavatn að Lækjarós [...]“

                Lýsingin feli í sér að Hrollaugsstaðir eigi land að Víðastaðavatni, og þá í Lækjarós hinn ytri, sbr. eðlilega samræmisskýringu landamerkjagagna.

                Þá sé að öðru leyti vísað til almennra skýringarsjónarmiða og gagna um landamerki. Engin gögn vísi til þess að lönd Víðastaða og Ásgrímsstaða liggi saman við fremri hluta Víðastaðavatns. Þá sé vísað til staðhátta og þeirrar fornu venju um landmerki að jarðir eigi land að vötnum.

                Þá sé vísað til þess að dómkröfur stefnenda muni setja niður ágreining um landamerki í samræmi við meginreglur laga um landamerki um skýrleika legu landamerkja.

                Um vara- og þrautavarakröfur sínar kveðst stefnandi vísa til málsástæðna fyrir aðalkröfu.

Fyrsta varakrafan byggi á því að ætlað vörðustæði, þar sem fyrst hafi mátt sjá reiðmann af hlaðinu á Ásgrímsstöðum 1890, sé nokkru framar og þá þannig að lína í Víðastaðavatn liggi þvert á stefnu um miðjan Merkidal. Sú lína liggi þá beint í stefnuna austur – vestur. Línan taki mið af staðháttum þannig að landamerkin liggi ekki inn fyrir Merkidal samkvæmt landfræðilegum aðstæðum, enda engar heimildir um að Ásgrímsstaðir eigi land upp fyrir dalinn og inn á slétta mýri þar sem ekki sé vatnshalli og engin drög að Merkidalslæknum.

                Um aðra varakröfu sína vísi stefnandi jafnframt til málsástæðna fyrir aðalkröfu. Byggt sé á því að staðsetning ætlaðrar vörðu, sbr. viðmið um sjónlínu og staðháttabreytingar, geti ekki legið framar. Þá verði með tilliti til gagna og staðhátta ekki byggt á því að land Ásgrímsstaða geti legið lengra inn á mýrina innan við Merkidal.

                Stefnandi kveður þriðju varakröfu sína, sem sett var fram í kjölfar vettvangsgöngu, rúmast innan fyrri kröfugerðar sinnar. Kveður hann kröfuna hvíla á sjónarmiðum sem komi fram í málsástæðum í stefnu og byggja á þeim stað þar sem fyrst sjáist maður á hesti af Ásgrímsstaðahlaði, samkvæmt prófunum á vettvangi með um 2,3 metra háar súlur. Nánar tiltekið hafi hnit verið tekið á veginum að Hrollaugsstöðum á milli tveggja súlna, þar sem önnur hafi verið sýnileg og staðsett í líklegri hæð reiðvegar neðan vegar en hin ekki sýnileg og staðsett í líklegri hæð reiðvegar. Byggt sé á aðstæðum eins og þær séu nú, það er miðað við það hvernig reiðvegurinn frá 19. öld sé merkjanlegur, síðari tíma vegagerð á svæðinu, jarðrask í sjónlínu og hæð hlaðsins á Ásgrímsstöðum árið 2012.

                Um lagarök er af hálfu stefnanda vísað til laga nr. 41/1919, um landamerki o.fl., t.d. 4. og 5. gr. laganna, vatnalaga nr. 15/1923, einkum 4. og 5. gr. laganna og laga nr. 113/1952, um lausn ítaka af jörðum. Um málskostnaðarkröfu er vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991 og um varnarþing til 34. gr. sömu laga.

III

                Stefndi kveðst mótmæla öllum málsástæðum stefnanda og telja þær landamerkjalínur sem leiði af dómkröfum stefnanda í ósamræmi við þinglýst gögn um landamerki milli Hrollaugsstaða og Ásgrímsstaði. Jafnframt sé staðsetningu einstakra örnefna mótmælt sem röngum. Þá mótmæli stefndi kröfu stefnanda um honum verði dæmd netlög fyrir Ásgrímsstaðavatni.

                Stefndi hafi fært landamerki Hrollaugsstaða og Ásgrímsstaða inn á hnitasettan uppdrátt, eins og hann telji þau réttust og leiða af þinglýstum landamerkjabréfum jarðanna. Er í greinargerð stefnda vikið nánar að málsástæðum stefnda og mótmælum við kröfugerð stefnanda með eftirgreindum hætti.

                1. Landamerki við Jökullæk frá Markhól að Álftarauga.

                Stefndi kveðst mótmæla með öllu að landamerki Ásgrímsstaða og Hrollaugsstaða skuli vera í miðjum farvegi Jökulslækjar frá Markhólma að Álftarauga. Stefndi vísi í fyrsta lagi til landamerkjabréfs Ásgrímsstaða frá 14. júní 1890 en þar sé dregin lína úr Markhólma, sem sé í miðjum Jökullæknum, og þaðan þvert yfir lækinn. Þá sé tekið fram að Ásgrímsstaðir eigi heyskap þar allan allt fram í þúfu þá, sem liggi mitt í læknum, út úr hagaodda austarlega. Ef ætlunin hefði verði að láta Jökullækinn miðjan ráða merkjum hefði það einfaldlega verið tekið fram í textanum og línan því ekki dregin þvert yfir lækinn. Það hafi hins vegar ekki verið gert og séu dómkröfur stefnanda því í andstöðu við fyrirliggjandi landamerkjabréf.

                Stefndi byggi í öðru lagi á því að landamerkjabréf Hrollaugsstaða frá 19. júlí 1922 sé jafnframt til staðfestingar á því að merki jarðarinnar gagnvart Ásgrímsstöðum liggi ekki í miðjum farvegi Jökullækjar. Í umræddu bréfi séu merki Hrollaugstaða gagnvart Hólsbæjum dregin úr svonefndum Beinhól og þaðan beina stefnu í Markhól við Jökullæk. Í þessari lýsingu veki það sérstaka athygli að merkin séu ekki dregin í Markhólma eða í miðjan Jökullæk. Þess í stað séu merkin dregin í Markhól en hann sé á austurbakka Jökullækjar. Að mati stefnda taki þetta af öll tvímæli um að Hrollaugsstaðir eigi ekki merki út í miðjan farveg Jökullækjar.

                Í þriðja lagi byggi stefndi á örnefnalýsingu Hrollaugsstaða en skráin hafi verið gerð á grundvelli heimilda frá Gróu Kristinsdóttur, móður stefnanda.  Í örnefnaskránni segi að landamerki Hrollaugsstaða að utan séu „nálægt Jökullæk“. Samkvæmt þessu séu merkin ekki í Jökullæk heldur nálægt honum, sbr. einnig fyrirliggjandi landamerkjabréf. Gróa hafi verið fædd 1918 á Hrollaugsstöðum og eðli málsins samkvæmt hafi hún þekkt vel til landamerkja jarðarinnar. Það sé því ljóst að dómkrafa stefnanda sé í andstöðu við örnefnaskrá Hrollaugsstaða.

                Í fjórða lagi vísi stefndi til þess að eignarhald stefnda á Jökullæknum, sunnan Markhólma, sé í samræmi við þá skipan sem tíðkast hafi á þessu svæði. Óumdeilt sé að merki milli Hólsbæja og Ásgrímsstaða hafi verið á vestari bakka Jökullækjar. Þannig segi í landamerkjabréfi Hóls og Hólshjáleigu frá 23. maí 1890 að merkin gagnvart Ásgrímstöðum séu úr miðjum aurskjafti eftir miðjum aur allt í Bakkatættur, ,,þaðan eptir vestari bakka Jökullækjar allt í Markhólma” Af þessu sjáist glögglega að norðan Markhólma hafi merki Ásgrímsstaða einungis náð að vestari bakka Jökullækjar en sunnan Markhólma hafi merki Ásgrímstaða náð yfir lækinn sbr. t.d. þá staðreynd að Markhóll sé á eystri bakka lækjarins.

                Í fimmta lagi byggi stefndi á því að ofangreind tilhögun landamerkja sé á engan hátt í andstöðu við 3. gr. vatnalaga nr. 15/1923, þar sem fram komi að þegar ár eða lækjir skilji að landareignir skuli miður farvegur ráða nema önnur lögmæt skipan sé þar á gerð. Með öðrum orðum sé hér um undanþæga reglu að ræða sem landeigendum á hverjum tíma sé heimilt að víkja frá. Í því tilviki sem hér sé til umfjöllunar beri heimildir með sér að landeigendur hafi árið 1890 ákveðið að láta ekki miðjan farveg ráða merkjum en í stað þess ákveðið að Ásgrímsstaðir ættu Jökullækinn frá Markhólma fram í þúfu út úr Hagaodda. Á þessu hafi ekki verið gerð breyting við gerð landamerkjabréfs Hrollaugstaða 1922 en sérstök athygli sé vakin á því að bæði bréfin hafi verið gerð fyrir gildistöku vatnalaga árið 1923.

                Í sjötta lagi mótmæli stefndi því harðlega að orðalag landamerkjabréfs Ásgrímsstaða bendi til þess að verið sé að lýsa ítaksréttindum jarðarinnar í landi Hrollaugstaða. Til að um sé að ræða ítaksréttindi verði að vera óumdeilt að nýting fari fram innan merkja annarrar jarðar. Hér sé aðstaðan önnur og sé texti landamerkjabréfsins, sem fjalli um landið austan hins miðja farvegar, óaðskiljanlegur hluti merkjalýsingar bréfsins. Stefndi byggi á því að ef ætlunin hefði verið að mæla fyrir um ítaksréttindi Ásgrímsstaða inn í miðri merkjalýsingu landamerkjabréfsins hefði þurft að taka það fram með skýrum hætti. Svo hafi ekki verið gert og því engin efni til að fallast á þá málsástæðu stefnanda að um sé að ræða ítaksréttindi sem fallin séu niður.

                Í áttunda lagi vísi stefndi til þess að framangreint land hafi á sínum tíma verið nýtt frá Ásgrímsstöðum eða í skjóli eignarhalds þeirrar jarðar.

                Í níunda lagi mótmæli stefndi mælingum á hnitum einstakra örnefna. Sem dæmi sé hnitsetningu örnefnisins Markhólma mótmælt sem rangri en að mati stefnda sé punkturinn settur niður meira en 17 metrum frá réttum stað.

                2. Landamerki úr Álftarauga í Ásgrímsstaðavatn.

                Stefndi geri ekki veigamiklar athugasemdir við dómkröfu stefnanda að því leyti sem hún taki til landamerkja frá Álftarauga í Ásgrímsstaðavatn. Fyrirvari sé þó gerður um nákvæmi hnitsetningar stefnanda en hún sé að nokkru leyti í ósamræmi við þá hnitsetningu sem stefndi hafi látið framkvæmda.

                3. Landamerki við Ásgrímsstaðavatn frá Általækjarós að Sortukeldu.

Stefndi byggi á því að merki Hrollaugsstaða við Ásgrímsstaðavatn séu í beinni línu frá Álftalækjarósi að Sortukeldu (Kelduósi). Stefndi telji þannig að landamerki jarðarinnar fylgi ekki bökkum vatnsins milli Álftalækjaróss og Sortukeldu. Leiði þessi niðurstaða af skýru orðalagi í landamerkjabréfi Ásgrímsstaða en þar segi að frá Álftalækjarósi skuli draga rétta línu í Sortukeldu. Byggt sé á því að samkvæmt almennum málskilningi sé merking réttar línu sú sama og beinnar línu. Við þetta bætist að lína geti eðli málsins samkvæmt aldrei verið annað en bein. Hvað sem öðru líði sé þannig ljóst að landamerkjabréf Ásgrímsstaða kveði á um að merkin séu í beinni línu og fylgi þar af leiðandi ekki bökkum vatnsins.

                Í landamerkjabréfi Hrollaugsstaða segi um merkin við Ásgrímsstaðavatn að þau séu þar sem Álftalækur falli úr vatninu og ráði svo vatnið að Kelduósi (Sortukeldu). Byggi stefndi á því að ef í landamerkjabréfi Hrollaugsstaða hefði átt að gera breytingu á þeim skýru merkjum sem fram komi í bréfi Ásgrímsstaða hefði þurft að gera það með ótvíræðum hætti. Að mati stefnda hafi það ekki verið gert og verði því að túlka landamerkjabréf Hrollaugstaða með hliðsjón af landamerkjabréfi Ásgrímsstaða.

                Leggi dómurinn til grundvallar að landamerkjabréf Hrollaugsstaða sé að þessu leyti ósamræmanlegt landamerkjabréfi Ásgrímsstaða sé byggt á því að síðarnefnda landamerkjabréfið skuli ganga framar. Vísi stefndi til þess að landamerkjabréf Hrollaugsstaða sé afar ófullkomið að formi og af þeirri ástæðu sé sönnunargildi þess lítið. Skipti þar mestu að landamerkjabréfið sé hvorki áritað um samþykki af eigendum Ásgrímsstaða né eigendum Hrollaugsstaða. Byggt sé á því að áritun leiguliða umræddra jarða geti aldrei komið í stað áritunar jarðeigenda. Sé gríðarlegur munur á landamerkjabréfunum að þessu leyti en allir hlutaðeigandi undirriti landamerkjabréf Ásgrímsstaða, jafnt jarðeigendur sem ábúendur.

                Stefndi byggi á því að þar sem landamerki Hrollaugstaða séu ákveðin sem bein lína milli tiltekinna punkta þá fylgi jörðinni ekki netlög í Ásgrímsstaðavatni. Umrædd merkjalína hafi verið sett niður árið 1890 eða 33 árum fyrir gildistöku vatnalaga nr. 15/1923. Eigi jörðin Hrollaugsstaðir því engin réttindi vestan umræddrar línu sem sett hafi verið niður árið 1890. Réttindi sem fylgi jörðinni Ásgrímsstöðum verði því ekki af henni tekin nema skilyrðum eignarnáms sé fullnægt. Veiðiréttur stefnanda í Ásgrímsstaðavatni sé því bundinn við bakkann frá fremra Vatnsholti og að Sortukeldu, þ.e. austan línunnar frá Sortukeldu að Álftalækjarósi.

                Stefndi kveðst mótmæla þeim hnitum sem gefin séu upp fyrir Álftalækjarós og Sortukeldu.

                4. Landamerki frá Sortukeldu að Vatnslækjarós ytri.

                Í landamerkjabréfi Ásgrímsstaða frá 1890 segi að merkin við Ásgrímsstaðavatn séu frá Sortukeldu fram eftir miðjum Merkidal og svo langt fram þar til fyrst sjáist maður á hesti af Ásgrímsstaðahlaði, þá framan komi Bóndastaðaveg og svo réttlínis norður yfir í Vatnalækjarós hinn ytri. Í landamerkjabréfi Hrollaugsstaða frá 1922 sé merkjum lýst með svipuðum hætti en þar segi að merkin séu frá Kelduósi „eftir miðjum Merkidal í vörðu utan á Hálsinum (eða þar sem fyrst sést maður á hesti af Ásgrímsstaðahlaði þegar innan kemur Bóndastaðaveg) svo réttlínis norður í Vatnalækjarós hinn ytri.“ Hér skuli áréttuð sú málvenja á þessum slóðum að þegar talað sé um norður sé í raun átt við norðvestur.

                Landamerkjabréf Ásgrímsstaða og Hrollaugsstaða séu um flest samhljóða að því er varði merkin frá Sortukeldu að Vatnslækjarósi hinum ytri. Það sem helst skilji þó á milli sé að í landamerkjabréfi Hrollaugstaða sé greint frá vörðu sem eigi að hafa verið á sama stað og fyrst sjáist maður á hesti af Ásgrímsstaðahlaði. Stefndi hafi lengi spurst fyrir um umrædda vörðu, m.a. á sínum tíma hjá föður sínum og móður stefnanda. Ekki hafi þau kannast við vörðuna. Umræddir aðilar hafi helst talið að staðið hafi til að setja upp vörðuna en að það hafi aldrei komist til framkvæmda.

                Stefndi kveður að ágreiningur sé með aðilum um það hvar fyrst sjáist á ríðandi mann á hesti frá Ásgrímsstaðahlaði þá fram komi Bóndastaðaveg. Stefndi byggi á því að hér sé um að ræða þann stað þar sem fyrst sjáist maður á hesti af hlaðinu og hann sé jafnframt í beinni línu við Vatnalækjarós ytri og punkt í miðjum Merkidal. Svo vilji til að sá punktur sé einmitt í jaðrinum á hinu svokallaða Merkikeri við enda dalsins. Til að ná fram hinni beinu línu sé nauðsynlegt að ná þremur punktum þ.e. punktinum í Merkikeri, punktinum þar sem fyrst sjáist maður á hesti og svo punktinum í Vatnslækjarósi ytri. Minnt sé á að í vettvangsferðinni 19. júlí 1993 hafi viðstaddir aðilar verið sammála um staðsetningu Vatnalækjaróss ytri, miðs Merkidals og þess staðar sem fyrst sjáist ríðandi maður á Bóndastaðavegi. Hafi umræddir staðir í kjölfarið verið merktir og tekin loftmynd.

                Stefndi vilji að öðru leyti ítreka mótmæli sín við þeirri landamerkjalínu sem felist í dómkröfum stefnanda frá Sortukeldu og Víðastaðavatni.

                Í fyrsta lagi sé staðsetningu Vatnalækjaróss ytri mótmælt en um staðsetningu hans hafi aldrei staðið ágreiningur fyrr en nú. Stefndi byggi á því að Vatnalækjarós ytri liggi syðst í Víðastaðavatni ytra og Vatnalækjarós innri liggi nyrst í Víðastaðavatni innra. Stefndi staðhæfi að frá 1890 hafi aldrei runnið annar Vatnalækur en sá sem nú renni milli Víðastaðavatns fremra og Víðastaðavatns ytra. Útilokað sé annað en að ummerki um lækinn sæjust í landslaginu hafi annar lækur runnið á milli vatnanna.

                Í öðru lagi vilji stefndi benda á að hvergi í landamerkjabréfi Hrollaugsstaða komi það fram að merki jarðarinnar liggi um Víðastaðavatn ytra. Þá hafi það enga þýðingu í þessu máli þótt í byggingarbréfum Hrollaugsstaða frá 1912 og 1915 komi fram að Víðastaðavatn ráði mörkum. Umrædd byggingarbréf séu einhliða gerningar sem eigendur aðliggjandi jarða hafi enga aðkomu haft að. Jafnframt skipti máli í þessu sambandi að umrædd byggingarbréf hafi verið gerð áður en hið ósamhljóða landamerkjabréf Hrollaugsstaða var gert árið 1922. Af þessum ástæðum sé sönnunargildi byggingarbréfanna afar lítið ef þá nokkuð.

                Í þriðja lagi vilji stefndi benda á að frá þeim stað sem stefnandi haldi fram að sé Vatnalækjarós ytri séu einungis tæpir 572 metrar yfir í miðjan Merkidal. Stefndi byggi á því að sú fjarlægð sé í ósamræmi við umfjöllun um merki Hrollaugstaða í  byggðasögunni Sveitir og Jarðir í Múlaþingi. Þar segi að vesturmörk jarðarinnar liggi um blána norður í syðri vatnsfótinn og þaðan þvert austur tæpan kílómetra. Þessi lýsing fáist hins vegar samræmst þeirri landamerkjalínu sem stefndi telji hina réttu línu. Þar sé fjarlægðin frá miðjum Merkidal og yfir í Vatnalækjarós ytri (í syðri vatnsfætinum) 798,5 metrar, byggt á mælingum Loftmynda ehf. Stefndi vilji jafnframt vekja athygli á ósamræmi á landamerkjalýsingum Hrollaugstaða og Víðastaða.

                Í fjórða lagi vilji stefndi ítreka að landmerkjalína stefnanda úr Sortukeldu að Víðastaðavatni gangi á engan hátt upp. Landamerkjalínunni virðist tilviljunarkennt beygt úr Merkidal og vestur í Víðastaðavatn. Þá sé stefnandi með getgátur um staðsetningu tiltekinnar vörðu og byggi á að hún hafi verið staðsett nærri þeim stað þar sem fram hafi farið malarnám árið 1986. Stefnandi hafi þó ekki reynt að staðsetja umræddan punkt með nákvæmum hætti en full ástæða hefði verið til þess þar sem dómkrafa stefnanda grundvallist m.a. á þessum punkti. Það sem hins vegar útiloki að hægt sé að taka dómkröfu stefnanda til greina að þessu leyti sé sú staðreynd að umræddur staður sé fjarri því að vera þar sem fyrst sjáist maður ríðandi á hesti frá hlaðinu á Ásgrímsstöðum. Sá staður þar sem fyrst sjáist ríðandi maður sé allt að einu mun sunnar á Bóndastaðavegi. Komi þetta berlega í ljós ef gengið sé á vettvang.

                Stefndi byggi á því að gatan sem liggi um Bóndastaðaveg hafi frá árinu 1890 gengið mikið niður, en skepnur hafi gengið um reiðgöturnar allt fram til 1960. Leiði þetta til þess að í dag sjáist hinn ríðandi maður ekki jafn vel frá hlaðinu og árið 1890. Jafnframt skyggi jarðýtuslóðin frá 1955 á sjónlínuna frá Ásgrímsstaðahlaði. Stefndi vilji sérstaklega mótmæla þeirri fullyrðingu stefnanda að hlaðið á Ásgrímsstöðum standi í dag hærra en árið 1890. Þá vilji stefndi einnig vekja athygli á að þegar gamla baðstofan á Ásgrímsstöðum hafi verið rifin árið 1937, þá hafi hið nýja hús verið byggt á sama stað. Aðstæður hafi því ekkert breyst að þessu leyti. Jafnframt vilji stefndi mótmæla umfjöllun stefnda um vegagerð á svæðinu í gegnum tíðina.

                Loks vilji stefndi vekja athygli á þeim punkti sem hann telji vera þann stað þar sem fyrst sjáist á ríðandi mann frá Ásgrímsstaðahlaði, punkti nr. 155 á dskj. 38 (A:717798 N:569327). Á þessum stað breytist aðstæður. Gatan verði lárétt og hætti að halla til suðurs og fari að halla til norðurs þannig að skyndilega sjáist í hinn ríðandi mann. Að því er varði punkt 153 í Merkikeri í Merkidal (A:717913 N:569282) þá sé hann án alls vafa hluti Merkidals enda séu hæðir báðum megin við þann stað.

                Stefndi kveðst mótmæla þeim hnitum sem stefnandi gefi upp vegna þeirra punkta sem krafa hans grundvallast á.

                5. Almennt

                Stefndi kveðst að öðru leyti mótmæla öllum þeim málsástæðum sem stefnandi hafi sett fram til stuðnings kröfu sinni. Nái þau mótmæli jafnt til aðalkröfu, varakröfu og þrautavarakröfu stefnanda. Sérstaklega sé mótmælt að til staðar sé regla um að yngri landamerkjabréf gangi ávallt framar eldri landamerkjabréfum.

                Stefndi hafi lagt fram á dskj. 38 hnitsetta loftmynd sem hann byggi á að sýni hin réttu landamerki Ásgrímsstaða gagnvart Hrollaugsstöðum.

                Um lagarök kveðst stefndi vísa til landamerkjalaga nr. 5/1882 og laga nr. 41/1919, um landamerki o.fl. Um málskostnað sé vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

IV

                Ágreiningi aðila um landamerki jarðanna Hrollaugsstaða og Ásgrímsstaða má skipta í nokkur svæði og verður vikið að hverju þeirra í þeirri röð sem þau koma fyrir í dómkröfu stefnanda. Áður en að því kemur er rétt að víkja að ágreiningi aðila um réttmæti hnitsetningar stefnanda.

                Í stefnu greinir að stefnandi hafi hnitsett landamerkjalínu samkvæmt dómkröfu í Isnet hnitakerfi. Engin gögn hafa verið færð fram af hálfu stefnanda né hafa vitni borið um það hvernig sú hnitsetning sem dómkrafa hans byggir á var framkvæmd. Við vettvangsgöngu sem fram fór við aðalmeðferð málsins var þó viðstaddur fyrir tilhlutan stefnanda skógræktarráðunautur hjá Skógrækt ríkisins sem stefnandi upplýsti að hafi annast hnitsetningu þá sem greinir í dómkröfukafla stefnunnar og sem annaðist á staðnum hnitsetningu vegna þriðju varakröfu stefnanda. Stefndi mótmælir hnitsetningu stefnanda og byggir á því að hnitsetning sem hann hafi sjálfur látið framkvæma og sett er fram á loftmyndum á dskj. 38-42, sýni hin réttu landamerki jarðanna.

                Athugasemdir stefnda við hnitsetningu stefnanda byggjast, eins og áður sagði, á því að hún samræmist ekki hnitsetningu sem stefndi hafi látið framkvæma. Stefndi hefur engin gögn eða rök fært fram til stuðnings því að hnitsetning hans sé nákvæmari eða réttmætari en hnitsetning stefnanda. Ljóst er af málatilbúnaði stefnda að hnitsetningu hans er einungis að hluta til ætlað að taka til sömu línu og þeirrar sem stefnandi heldur fram, enda byggist málatilbúnaður hans á fleiri röksemdum en þeim sem lúta að nákvæmni hnitsetningar, t.d. á því að bakki farvegar Jökullækjar ráði merkjum en ekki miðlína. Af samanburði á fyrirliggjandi loftmyndum, þar sem inn á hafa verið dregnar línur og punktar út frá hnitum aðila, t.d. dskj. nr. 12, 38 og 50, verður ekki ráðið að um neina verulega skekkju geti verið að ræða í hnitsetningu stefnanda. Í þeim tilvikum þar sem stefndi hefur ekki fært fram nein gögn eða röksemdir sem varpa rýrð á nákvæmni einstakra hnitsetninga stefnanda og hnitsetning stefnda sjálfs byggir á öðrum röksemdum, þykir ekki varhugavert að leggja til grundvallar að hnitsetningar í dómkröfu stefnanda séu nægilega nákvæmar og réttmætar til þess að unnt sé að taka þær til greina, sé á annað borð fallist á málatilbúnað hans fyrir einstökum hlutum kröfulínunnar. Að ágreiningi um einstakar hnitsetningar verður þó vikið síðar.

                Verður þá vikið að ágreiningi aðila um landamerki á svæði sem hefst „eftir að landamerkjalína milli Hrollaugsstaða og Sands sker Jökullæk“. Við munnlegan flutning málsins féll lögmaður stefnda frá sérstökum mótmælum sem höfð eru uppi í greinargerð við að hnit nr. 1 í dómkröfu stefnanda lýsi staðsetningu Markhólma, enda hafði lögmaður stefnanda í málflutningsræðu sinni tekið af allan vafa um að hnitinu sé ekki ætlað að lýsa staðsetningu hólmans heldur miðjum farvegi Jökullækjar rétt innan hans.

                Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði að landamerkjalínan liggi „eftir farvegi Jökullækjar“ um tilgreind hnit, tölusett nr. 1 til og með 13, uns kemur „í Álftalækjarauga“, hnit nr. 14. Á þessu svæði snýst ágreiningur aðila um það í raun hvort miðlína farvegar Jökullækjar ráði merkjum, eins og stefnandi heldur fram, eða hvort farvegurinn allur tilheyri Ásgrímsstöðum og merkin liggi eftir eystri bakka farvegar Jökullækjar, líkt og stefndi heldur fram. Málatilbúnaður stefnanda, eins og hann var nánar skýrður við munnlegan málflutning, byggist á því að landamerkjabréf Hrollaugsstaða frá 1921 og byggingarbréf frá 1912 og 1915 lýsi merkjunum rétt og í samræmi við landamerkjabréf fyrir Ásgrímsstaði frá árinu 1890, en í síðastnefndu bréfi sé auk þess að finna lýsingu á ítaksréttindum Ásgrímsstaða í farvegi Jökullækjar, sem fallin séu niður með vísan til laga nr. 113/1952, um lausn ítaka af jörðum. Verði landamerkjabréfin fyrir Ásgrímsstaði og Hrollaugsstaði ekki talin samrýmanleg sé byggt á því að yngra bréfið gangi fyrir hinu eldra.

                Með 3. gr. vatnalaga nr. 15/1923 var lögfest sú réttarregla, sem lengi hefur gilt í íslenskum rétti, að upphafleg miðlína farvegar ráði merkjum í straumvatni sem skilur lönd manna. Sú regla er þó undanþæg, enda kveðið á í 3. gr. laganna að hún gildi „nema önnur lögmæt skipun sé þar á gerð“. Stefndi byggir á því að með landamerkjabréfi fyrir Ásgrímsstaði frá 1890 hafi með skýrum hætti verið kveðið á um aðra lögmæta skipan. Fyrir þeirri staðhæfingu hlýtur stefndi þó að bera sönnunarbyrði.

                Enda þótt fallast megi á það með stefnda að óheppilegt sé að lýsa ítaksréttindum í miðri landamerkjalýsingu landamerkjabréfs, verður ekki fram hjá því litið að í landamerkjabréfi Ásgrímsstaða frá 1890 er beinlínis vísað til þess að „þvert yfir lækinn“ á þessu svæði eigi Ásgrímsstaðir „heyskap allan“. Bendir það orðalag óneitanlega til þess að þarna sé rætt takmörkuð eignarréttindi eða ítak, en ekki bein og ótakmörkuð eignarréttindi.

                Í landamerkjabréfi Hrollaugsstaða frá 1921 er merkjum „að utan“, þ.e. gagnvart jörðinni Sandi (áður hluta Hóls og Hólshjáleigna), lýst svo að þau liggi „í Beinhól og bein stefna í Markhól við Jökullæk“ en merkjum sem snúa að Ásgrímsstöðum er í beinu framhaldi lýst svo að „þaðan ræður Jökullækur í Álftalækjarauga og Álftalækur í Ásgrímsstaðavatn“, án nánari tilgreiningar á því hvernig merkin liggi um farveg Jökullækjar og Álftalækjar. Við túlkun á lýsingu þessa bréfs er óhjákvæmilegt að horfa til þeirrar fornu meginreglu sem áður var lýst, sbr. nú 3. gr. vatnalaga.

                Ljóst er af landamerkjabréfi Ásgrímsstaða frá 1890 að landamerkin framan og aftan við umdeilt svæði miðast við miðjan farveg Jökullækjar, þ.e. Markhólma sem óumdeilt er að liggur í miðjum farveginum og „þúfu þá, sem liggur mitt í læknum, út úr hagaodda austarlega“. Samræmist þetta einnig lýsingu í landamerkjabréfi fyrir Hól og Hólshjáleigur frá 1890, þar sem landamerki milli Hóls og Ásgrímsstaða eru sögð liggja „eptir vestari bakka Jökullækjar allt í Markhólma“. Í ljósi þessa verður ekki fallist á það með stefnda að það styðji málsstað hans, fremur en stefnanda, að merki milli Hrollaugsstaða og Sands (áður Hóls og Hólshjáleigna) miðist við Markhól á eystri bakka farvegarins, gegnt Markhólma. Þvert á móti þykir sú staðreynd að merki milli Ásgrímsstaða og Hóls eru ekki dregin frá vestari bakkanum þvert yfir farveginn í Markhól, heldur einungis í miðjan farveginn í Markhólma, styðja staðhæfingar stefnanda um að lýsing í landamerkjabréfi Hrollaugsstaða frá 1921 samræmist í raun lýsingu merkja í hinu eldra bréfi Ásgrímsstaða þegar litið er til þess að í síðarnefndu bréfi sé að auki lýst ítaksréttindum, eins og fyrr var rakið. Ekkert liggur fyrir um að ágreiningur hafi verið um landamerki jarðanna þegar landamerkjabréf þeirra voru gerð og raunar ekki fyrr en hin síðustu ár. Lýsingar bréfanna á merkjum jarðanna eru mjög áþekkar, þótt þær séu ekki eins. Landamerkjabréf Hrollaugsstaða er undirritað af ábúendum beggja jarða og ekkert sérstakt er komið fram í málinu sem rýrir sönnunargildi þess um merki jarðanna, þótt ljóst sé að ábúendur hefðu ekki getað afsalað eignarrétti eigenda þeirra ef til hefði staðið að gera breytingar á merkjum.

                Samkvæmt framanrituðu verður að fallast á það með stefnanda að framlögð gögn styðji staðhæfingar hans um að landamerkjalína milli Ásgrímsstaða og Hrollaugsstaða á framangreindu svæði liggi eftir miðjum farvegi Jökullækjar, um hnit stefnanda nr. 1 til 13, enda þykja landamerkjabréf jarðanna skýrð eins og að framan greinir ekki ósamrýmanleg að þessu leyti. Verður jafnframt að hafna þeirri málsástæðu stefnda sem lýtur að því að með Ásgrímsstaðabréfi hafi verið kveðið á um aðra lögmæta skipan, sbr. 3. gr. vatnalaga, enda verður að gera þá kröfu að gögn séu skýr um ætlun til að víkja frá þeirri reglu, sem áður gilti ólögfest. Eins og fyrr kom fram styður orðalag landamerkjabréfs Ásgrímsstaða um „heyskap allan“ ekki þá staðhæfingu stefnda. Aðrar málsástæður stefnda, sem lúta m.a. að því að í örnefnaskrá fyrir Hrollaugsstaði séu merkin talin „nálægt Jökullæk“; að eignarhald stefnda á Jökullæknum sé í samræmi við skipan sem tíðkast hafi á þessu svæði og um nýtingu farvegarins til slægju af hálfu Ásgrímsstaðabænda á sínum tíma, hafa að áliti dómsins ekki það vægi að varpa rýrð á framangreindar röksemdir. Að öllu framanrituðu virtu eru ekki efni til annars en að fallast á dómkröfu stefnanda að því er viðvíkur þessum hluta landamerkja jarðanna.

                Víkur þá að þeim hluta hinna umdeildu landamerkja, sem liggur frá Álftalækjarauga eftir farvegi Álftalækjar í Ásgrímsstaðavatn. Aðilar eru þar sammála um að miður farvegur Álftalækjar ráði merkjum og er því á þessu svæði einungis uppi ágreiningur um nákvæmni og réttmæti hnitsetningar stefnanda. Samkvæmt hnitsettri loftmynd sem stefndi hefur lagt fram á dskj. 40 eru þrír punktar á þessum hluta línunnar þar sem fáeinum metrum munar á hnitsetningum aðila, þ.e. við hnit stefnanda nr. 14 við Álftalækjarauga, hnit nr. 23 og hnit nr. 25 við Ásgrímsstaðavatn, sem virðast samsvara hnitum stefnda nr. 131, 147 og 159. Auk þess ber í milli hnits stefnanda nr. 26 og hnits stefnda nr. 150 við örnefnið Sortukeldu eða Kelduós, handan við Ásgrímsstaðavatn. Þar sem stefndi hefur með framlagningu hnita sinna leitt líkum að því að einhverrar ónákvæmni kunni að gæta um framangreind fjögur hnit stefnanda nr. 14, 23, 25 og 26, þykir stefnandi verða að bera hallann af því að fullnægjandi sönnun fyrir réttmæti þeirra þykir ekki komin fram. Þar sem ekki er uppi ágreiningur um legu línunnar að öðru leyti en varðandi hnitsetningar verður með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og fyrri umfjöllunar um réttmæti hnitsetningar stefnanda almennt, fallist á dómkröfu stefnanda, utan framangreindra fjögurra hnita.

                Verður nú vikið að landamerkjum frá þeim stað þar sem línan kemur í Ásgrímsstaðavatn og yfir í það örnefni við vatnið sem stefnandi nefnir Kelduós en stefndi Sortukeldu. Eins og fyrr sagði greinir aðila ekki á um þessar staðsetningar nema um nákvæma hnitsetningu þeirra. Á þessu svæði lýtur ágreiningur aðila að því hvort bein lína ráði merkjum þaðan sem landamerkjalínan kemur að vatninu eftir farvegi Álftalækjar og yfir í Kelduós, eða hvort vatnið ráði merkjum milli þessara staða, líkt og stefnandi heldur fram. Stefnandi hefur jafnframt uppi kröfu um viðurkenningu til netlaga í vatninu, með vísan til 4. og 5. gr. vatnalaga nr. 15/1923, sem stefndi hafnar.

                Málatilbúnaður stefnda verður ekki skilinn öðru vísi en svo að hann byggi kröfu sína um sýknu af viðurkenningarkröfu stefnanda á því að jörðinni Ásgrímsstöðum tilheyri beinn eignarréttur að vatninu og botni þess, allt að þeirri „réttu línu“, - sem hann telur merkja beina línu,- sem draga beri þvert yfir vatnið og bakka þess milli framangreindra staða. Vísar stefndi þar í orðalag landamerkjabréfs Ásgrímsstaða frá 1890 og byggir á því að það bréf hafi ríkara sönnunargildi en hið yngra bréf Hrollaugsstaða, með tilliti til þess hvernig staðið var að undirritun bréfanna. Stefnandi byggir aftur á móti á því að hið yngra landamerkjabréf Hrollaugsstaða frá 1921, þar sem segir að vatnið ráði merkjum, gangi framar hinu eldra, auk þess sem aðrir kostir komi til greina við skýringu orðanna „rétt lína“, þannig að bréfin þurfi ekki að vera ósamrýmanleg að þessu leyti.

Landamerkjabréf Ásgrímsstaða lýsir merkjum við vatnið einungis með þeim orðum að merkin séu dregin „í Ásgrímsstaðavatn og svo rétta línu í Sortukeldu“. Sjá má af þeim hnitsettu loftmyndum sem stefndi hefur lagt fram, t.d. á dskj. nr. 38, að sú beina lína sem hann heldur fram að beri að draga milli þessara staða sker tvo tanga sem liggja út í vatnið frá landi Hrollaugsstaða og Hrollaugsstaðamegin línunnar liggja einungis tveir litlir vogar, en vatnið að öðru leyti Ásgrímsstaðamegin.

                Fyrir setningu vatnalaganna nr. 15/1923 munu ekki hafa gilt neinar sérstakar réttarreglur um eignarhald að botni stöðuvatna, sbr. t.d. athugasemdir við 4. gr. frumvarps til laganna. Þótt fallast megi á það með stefnda að ekki sé ósennilegt að með orðunum „rétt lína“ sé átt við beina línu, þykja aðrir skýringarkostir ekki verða útilokaðir. Í ljósi þess hve fáort landamerkjabréf Ásgrímsstaða er um það hvernig merkin liggja við vatnið og þegar haft er í huga réttarástand á þeim tíma sem landamerkjabréf Ásgrímsstaða var þinglesið, verður ekki fullyrt út frá orðalagi bréfsins að meðvituð ákvörðun hafi verið tekin með undirritun þess um eignarhald að vatninu og botni þess þannig að í því felist önnur lögmæt skipan en sú sem nú er kveðið á um í 4. og 5. gr. vatnalaga. Verður að telja að sá sem heldur fram beinum eignarrétti yfir vatni og vatnsbotni, í andstöðu við nefndar reglur vatnalaga, beri sönnunarbyrði fyrir þeim.

                Upplýst var við skýrslutökur fyrir dómi af aðilum og vitnum að af hálfu Hrollaugsstaðabænda hafi í gegnum tíðina verið lögð stund á veiði í Ásgrímsstaðavatni, án athugasemda af hálfu eigenda eða ábúenda Ásgrímsstaða svo vitað sé. Kvaðst vitnið Einar Kristinsson hafa frá barnæsku lagt net í vatnið út frá töngum sem liggja við það suð-austanvert, sem samkvæmt málatilbúnaði stefnda tilheyra Ásgrímsstöðum, en stefndi kvað ekki hafa verið amast við því þótt Hrollaugsstaðamenn legðu net sín í Ásgrímsstaðalandi, þótt hann teldi fremur hafa verið lagt út frá vogunum. Að áliti dómsins er þetta ekki til þess fallið að styðja staðhæfingar stefnda um að hann eigi beinan eignarrétt að vatninu og töngunum sem áður var lýst, allt að þeirri beinu línu sem hann heldur fram.

                Eins og fyrr var rakið bendir ekkert til þess að ágreiningur hafi verið uppi um landamerki jarðanna fyrr en í seinni tíð. Að öllu framanrituðu virtu þykir ekki verða lagt til grundvallar að landamerkjabréf Ásgrímsstaða frá 1890 og Hrollaugsstaða frá 1921 séu ósamrýmanleg að því er varðar merki jarðanna við Ásgrímsstaðavatn. Þegar af þeim ástæðum sem að framan hafa verið raktar þykir stefndi verða að bera hallann af því að þær málsástæður sem hann byggir á til stuðnings kröfu sinni um sýknu af viðurkenningarkröfum stefnanda, teljast ósannaðar. Verður því fallist á kröfu stefnanda um að viðurkennt verði að bakki Ásgrímsstaðavatns ráði merkjum milli jarðanna frá þeim stað þar sem landamerkin koma í vatnið eftir farvegi Álftalækjar og að Kelduósi (Sortukeldu). Jafnframt verður, í samræmi við 4. og 5. gr. vatnalaga nr. 15/1923, fallist á þá kröfu stefnanda að viðurkenndur verði réttur Hrollaugsstaða til netlaga í Ásgrímsstaðavatni fyrir landi jarðarinnar.

                Verður þá vikið að ágreiningi aðila um það hvernig merki liggi frá Kelduósi um Merkidal og að Víðastaðavatni. Stefnandi kveðst miða dómkröfur sínar við að bein lína liggi frá Kelduósi um Merkidal, þar til línan breyti um stefnu yfir að Víðastaðavatni og að ekki sé um frekari stefnubreytingar að ræða. Stefndi virðist aftur á móti miða við að línan liggi að hluta til í sveig eftir Merkidal, eins og sést af hnitsettum loftmyndum í málinu, t.d. dskj. nr. 12. Engar málsástæður eru þó settar fram af hálfu stefnda til stuðnings því að landamerkjalína jarðanna taki frekari stefnubreytingum en þeirri sem ágreiningslaust er að hún taki í Merkidal, nánar tiltekið við þann stað þar sem „fyrst sést á ríðandi mann“. Verður því lagt til grundvallar að línan liggi beint fram eftir dalnum, eins og dómkröfur stefnanda miðast við og að einungis sé um eina stefnubreytingu að ræða á línunni yfir að Víðastaðavatni. Ágreiningur aðila á þessu svæði lýtur þannig í fyrsta lagi að því hvar línan sem liggur eftir Merkidal breyti um stefnu og beygi í norðvestur (samkvæmt málvenju á svæðinu í norður) að Víðastaðavatni. Í öðru lagi lýtur ágreiningurinn að því hvar línan komi að vatninu, sem einkum snýr að því hvar örnefnið Vatnalækjarós hinn ytri sé að finna.

                Stefnandi byggir dómkröfu sína á því að línan breyti um stefnu við „fyrrum vörðustæði utan á hálsinum“. Í byggingarbréfum fyrir Hrollaugsstaði frá 1912 og 1915 og landamerkjabréfi jarðarinnar frá 1921 er vísað til „vörðu utan á Hálsinum“. Verður af landamerkjabréfi Hrollaugsstaða ráðið að um sömu staðsetningu sé að ræða og  „þar sem fyrst sést maður á hesti af Ásgrímsstaðahlaði þegar innan kemur Bóndastaðaveg“, en sú lýsing er nánast orðrétt sú sama og í landamerkjabréfinu fyrir Ásgrímsstaði frá 1890. Engin gögn liggja fyrir sem staðfesta að varða þessi hafi verið reist né hvar hún hafi þá staðið. Fyrir dómi þekktu aðilar málsins og vitni sem að því voru spurð ekki til staðsetningar vörðunnar, né hafa verið leidd í ljós nein ummerki um hana. Verður ekki í máli þessu byggt á því hvar varðan kunni hugsanlega að hafa staðið og er öllum málsástæðum stefnanda þar að lútandi hafnað.

                Við vettvangsgöngu kom í ljós að ekki er uppi ágreiningur um legu Bóndastaðavegar, sem er gamall reiðvegur og nokkur ummerki sjást um, né um seinni tíma vegaframkvæmdir á svæðinu sem lýst er í stefnu, þótt deilt sé um hve mikil áhrif þessar framkvæmdir hafi haft á sjónlínu frá Ásgrímsstaðahlaði á gamla reiðveginn. Í framburði aðila og vitna fyrir dómi kom fram að nákvæm staðsetning þess staðar þar sem fyrst sást á ríðandi mann frá Ásgrímsstaðahlaði á árinu 1890 sé þeim ekki kunn. Byggt er á því af hálfu beggja aðila að jarðvegsframkvæmdir, jarðvegsþykknun og fleiri þættir kunni að hafa haft áhrif á sjónlínu frá Ásgrímsstaðahlaði á reiðveginn, ýmist þannig að lengra hljóti að hafa sést inn eftir reiðveginum eða skemmra.

                Við vettvangsgönguna kom í ljós að greina mátti veifur, sem komið var fyrir á stöngum í u.þ.b. 2,20 til 2,30 m hæð frá jörðu, á reiðveginum eða þar sem hann var talinn hafa legið til móts við þau hnit í Merkidal sem aðalkrafa og önnur varakrafa stefnanda eru byggðar á, þ.e. hnit nr. 27 og 28. Á grundvelli þess sem í ljós var leitt með þeirri prófun setti stefnandi fram þriðju varakröfu sína, sem byggir á því, eins og lýst er í kafla um málsástæður hans hér að framan, að á þeim stað, þ.e. við hnit nr. 36, geti reiðmaður fyrst sést frá Ásgrímsstaðahlaði, eins og aðstæður eru nú á vettvangi. Nálgast stefnandi með þeirri kröfu sinni verulega þá staðsetningu sem stefndi byggir á að sé rétt staðsetning þessa merkis.

                Stefnandi byggir á því að landamerkjalýsingar gefi ekki til kynna að línan nái upp fyrir Merkidal og hefur stefndi tekið undir það, en aðila greinir á um hvar Merkidalur endar og flatlend mýri þar fyrir innan taki við. Landslagi á umræddu svæði er þannig háttað að um fremur flatlent svæði er að ræða og ekki við áberandi kennileiti að styðjast til marks um það hvar mörk dalsins og mýrarinnar liggi. Stefnandi hefur ekki fært nánari rök fyrir því hvernig stefndi hafi spillt kennileitum sem hafi verið til marks um þetta með skurðgreftri og er það ósannað.

                Sléttlent svæði sem bent var á við vettvangsgöngu undir heitinu Merkiker af hálfu stefnda en Ljósalykkja af hálfu stefnanda, virðist af loftmyndum liggja austanmegin við miðjan Merkidal og er ágreiningslaust að land þar tilheyri Hrollaugsstöðum. Getur staðsetning þess svæðis því ekki veitt neinar vísbendingar um staðsetningu hins umdeilda merkis.

                Stefndi byggir á því að við þann stað á gamla reiðveginum sem hann kýs að miða stefnubreytingu línunnar við, hætti reiðvegurinn að halla til suðurs og því standi líkur til þess að sést hafi þangað frá Ásgrímsstaðahlaði árið 1890. Eins og landslagi á þessu svæði er háttað og að teknu tilliti til vafa sem uppi er vegna m.a. jarðvegsframkvæmda og hugsanlegrar jarðvegsþykknunar á svæðinu, telur dómurinn einsýnt að sönnun um þá staðsetningu sem stefndi heldur fram yrði jafnmiklum vandkvæðum háð og sönnun um kröfur stefnanda í þessum efnum. Stefnanda hefur að áliti dómsins ekki tekist að leiða nægar líkur að staðhæfingum sínum um að staðsetning þessa merkis sé í samræmi við aðalkröfu hans, né heldur fyrstu og aðra varakröfu hans, sem byggðar eru á því annars vegar að stefna landamerkjalínunnar liggi þvert á stefnu línunnar í Merkidal og beint í austur-vestur og hins vegar á því að mörk Merkidals geti ekki legið innar. Stefnandi hefur aftur á móti með þriðju varakröfu sinni nálgast svo mjög þann stað sem stefndi heldur fram að ekki munar nema á að giska fáeinum tugum metra. Jafnframt styður það sem fram kom við vettvangsgöngu að þar geti fyrst sést í ríðandi mann á reiðveginum miðað við núverandi aðstæður.

                Þegar allt framangreint er virt þykir sýnt að úr óvissu um nákvæma staðsetningu þessa merkis verði ekki skorið með nákvæmari rannsókn en þegar hefur verið framkvæmd. Þykir því verða að fallast á það með stefnanda að sá staður þar sem landamerki jarðanna breyti um stefnu miðist við skurðpunkt beinnar línu eftir miðjum Merkidal og línu sem liggi um hnit stefnanda nr. 36, sbr. þriðju varakröfu hans.  

                Ágreiningur aðila lýtur loks að legu línunnar úr framangreindum punkti þar sem stefnan breytist í Merkidal, yfir að Víðastaðavatni. Snýst ágreiningurinn um það hvar við vatnið örnefnið Vatnalækjarós hinn ytri sé að finna, en þangað liggur landamerkjalína jarðanna samkvæmt landamerkjabréfum beggja jarðanna.

                Víðastaðavatn er ílangt stöðuvatn, breiðast um miðbikið en mjókkar í totu sem vísar inn til landsins, nokkurn veginn í suðurátt. Byggir stefndi á því að Vatnalækjarós hinn ytri sé ós læks sem rennur í vatnið við botn þeirrar totu frá Vatnablá sem liggi lengra til suðurs.

                Stefnandi byggir aftur á móti á því að örnefnið Vatnalækjarós hinn ytri vísi til þess að um tvo ósa sé eða hafi verið að ræða og sé hann staðsettur lengra í austur, við breiðari hluta vatnsins þar sem það eigi sér annan vatnsfót í mýrlendu svæði sem liggur þar að vatninu. Að áliti dómsins verður að taka undir það með stefnanda að heitið Vatnalækjarós hinn ytri bendi til tilvistar annars Vatnalækjaróss, sem eftir atvikum kann að vera „hinn innri“. Þessu til svars byggir stefndi á að innri ósinn kunni að vera í öðru vatni sem liggi á Vatnabláarsvæðinu og gangi undir heitinu Víðastaðavatn hið fremra eða innra, en lækurinn sem renni í Víðastaðavatn „ytra“ renni þar á milli.

                Af loftmyndum sem liggja fyrir í málinu má skýrlega greina læk þann sem rennur í syðstu totu Víðastaðavatns (ytra) úr Vatnablánni eða Víðastaðavatni „innra“. Var þetta jafnframt staðfest við vettvangsgöngu, en þá kom einnig í ljós að á þeim stað sem stefnandi bendir á sem Vatnalækjarós hinn ytri seytlar nokkurt vatn úr mýrlendinu þar fyrir innan. Ekki verður með neinni vissu fullyrt af eða á um það hvort ummerki um lækjarfarveg séu greinanleg á þeim stað í mýrlendinu, hvorki af loftmyndum né því sem í ljós var leitt við vettvangsgöngu.

Þau vitni sem komu fyrir dóminn könnuðust ekki við annan ós sem Vatnalækjarós en þann sem stefndi bendir á syðst í totu Víðastaðavatns.

                Máli sínu til stuðnings vísar stefnandi m.a. til þeirrar málvenju á svæðinu að rætt sé um norður þegar í raun sé átt við norðvestur. Virðist stefnandi byggja á því að í málvenju þessari felist einnig að þegar rætt sé um „suður“ sé átt við suðaustur og að málvenjan styðji þar með að „syðri vatnsfóturinn“, sem vísað sé til í umfjöllun um Hrollaugsstaði í ritinu Sveitir og jarðir í Múlaþingi, sé í þeim hluta vatnsins sem liggur syðst í austanverðum breiðasta hluta vatnsins, næst Merkidal. Í framburði vitnisins Guðmars Ragnarssonar, sem fæddur er og uppalinn í Hjaltastaðaþinghá, kom fram að málvenja um áttir á svæðinu lúti að því að rætt sé um norður og austur sem gagnstæðar áttir milli fjallgarða, í stað austurs og vesturs, en „utar“ og „innar“ þegar rætt sé um stefnu til sjávar og inn til landsins, en sú stefna samsvarar nokkurn veginn stefnunni norður-suður. Stefnandi hefur engar sönnur fært fyrir því að málvenja sé fyrir því á svæðinu að rætt sé um „suður“ þegar átt sé við austur eða suðaustur. Er sú málsástæða stefnanda að málvenja og umfjöllun um „syðri vatnsfót“ í tilvitnuðu riti styðji dómkröfu hans að þessu leyti því ósönnuð.

                Stefnandi byggir á því að byggingabréfin tvö fyrir Hrollaugsstaði frá 1912 og 1915, styðji dómkröfu hans. Byggingarbréfin lýsa merkjum við vatnið svo að línan liggi „beint í Víðastaðavatn, svo ræður Víðastaðavatn að Lækjarós, þaðan beina línu í miðjan Heygarð framan við Vatnablá“. Stefnandi byggir á að sá staður þar sem línan komi í vatnið sé Vatnalækjarós hinn ytri. Sú staðhæfing á sér ekki beina stoð í bréfunum, sem lýsa aðeins einum lækjarósi, og nefna ekki neinu nafni þann stað þar sem línan liggur að vatninu. Þá er ljóst að ósamræmi er milli byggingarbréfanna og landamerkjabréfs Hrollaugsstaða, þar sem í landamerkjabréfinu er hvergi getið um að merkin liggi eftir vatnsbakkanum heldur liggi línan, strax eftir að í Vatnalækjarós hinn ytri er komið, „réttlínis í austanverðan Heygarð innan við Vatnablá“ og er þar lýst merkjum gagnvart jörðinni Víðastöðum. Í lýsingu landamerkja Víðastaða og Hrollaugsstaða í landamerkjabréfi fyrrgreindu jarðarinnar sem þinglesið var 1884, segir: „Úr austanverðum heygarði, er liggur í Vatnablá beina leið þaðan í Viðastaðavatn fremra, svo ræður Vatnalækur úr Viðastaðavatni ytra.“ Bendir sú lýsing ekki til annars en að einn Vatnalækur hafi runnið á svæðinu, auk þess sem hún virðist staðfesta að á Vatnabláarsvæðinu innan við Víðastaðavatn „ytra“ hafi þá sem nú verið að finna annað vatn, Víðastaðavatn „fremra“, þar sem hugsanlegan „innri ós“ kann að vera eða hafa verið að finna.

                Önnur atriði mæla einnig á móti því að örnefnið sé staðsett þar sem stefnandi heldur fram, svo sem staðhæfingar stefnda, sem ekki hefur verið mótmælt, um að frá þeim stað séu einungis tæpir 572 metrar yfir í miðjan Merkidal, en um 798,5 metrar frá þeirri staðsetningu óssins sem stefndi heldur fram. Samræmist síðarnefnd vegalengd betur lýsingu í ritinu Sveitir og jarðir í Múlaþingi þar sem mörk jarðarinnar Hrollaugsstaðir eru sögð liggja „um blána norður í syðri vatnsfótinn, þaðan þvert austur tæpan kílómetra“.

                Síðari tíma túnrækt og girðingaframkvæmdir á landsvæði milli Víðastaðavatns og þjóðvegarins, sem stefnandi telur samræmast þeirri legu landamerkjalínunnar sem hann heldur fram, kvaðst vitnið Guðmundur Karl Sigurðsson, bóndi í Laufási, telja þáverandi bónda á Víðastöðum hafa ráðist í á grundvelli ítaksréttinda í land Ásgrímsstaða. Ekki verður séð að þær framkvæmdir geti stutt málstað stefnanda svo að þýðingu hafi við sönnunarfærslu fyrir dómkröfu hans.

                Að framanrituðu virtu þykir stefnandi ekki hafa fært þær sönnur fyrir staðhæfingu sinni um staðsetningu örnefnisins Vatnalækjarós hinn ytri, að unnt sé að fallast á kröfu hans um viðurkenningu þess að landamerki jarðanna liggi í hnit nr. 29 samkvæmt dómkröfu hans.

                Samkvæmt öllu framanrituðu er fallist á þriðju varakröfu stefnanda að því marki sem í dómsorði greinir, en að öðru leyti er stefndi sýkn af þeirri kröfu.

                Með hliðsjón af atvikum öllum og úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 941.250 krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

                Dómur þessi er kveðinn upp af Hildi Briem héraðsdómara, að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, en dómsuppsaga hefur dregist vegna embættisanna dómarans.

Dómsorð:

                Fallist er á þá kröfu stefnanda, Dags Kristmundssonar, landamerki milli jarðanna Hrollaugsstaða og Ásgrímsstaða í Hjaltastaðaþinghá á Fljótsdalshéraði, eftir landamerkjalína milli Hrollaugsstaða og Sands sker Jökullæk, liggi eftir farvegi Jökullækjar um hnit nr. 1. 571304,5298 - 719046,078, hnit nr. 2 571244,2319 - 719044,552, hnit 3 571087,5395 - 719006,3139, hnit 4 571020,6619 - 718964,265, hnit 5 570921,3104 - 718822,8432, hnit 6 570856,4724 - 718824,3837, hnit 7 570760,7831 - 718891,6174, hnit 8 570739,7559 - 718947,032, hnit 9 570737,8275 - 719088,4412, hnit 10 570724,4449 - 719138,124, hnit 11 570661,3775 - 719189,7115, hnit 12 570600,2275 - 719189,704, hnit 13 570502,7744 - 719151,4733 í Álftalækjarauga, og farvegi Álftalækjar um hnit 15 570579,2274 - 719025,3606, hnit 16 570609,8125 - 718943,1941, hnit 17 570640,3938 - 718893,5134, hnit 18 570686,2624 - 718843,8346, hnit 19 570727,2958 - 718731,1435, hnit 20 570703,825 - 718684,0755, hnit 21 570698,8157 - 718605,7601, hnit 22 570714,9616 - 718557,1974, hnit 24 570634,1713 - 718368,2474, í Ásgrímsstaðavatn, svo ræður vatnið Kelduós sem fellur úr Merkidal. Svo eftir miðjum Merkidal í beinni línu um hnit 28 569493,5141 – 717900,2973, allt að skurðpunkti línu og eftir þeirri línu sem liggur um hnit nr. 36, 569360,762 – 717805,5, þar sem fyrst sést maður á hesti af Ásgrímsstaðahlaði, þá framan kemur bóndastaðaveg, og Vatnalækjarós hinn ytri.

                Viðurkennt er að Hrollaugsstöðum fylgi réttur til netlaga í Ásgrímsstaðavatni þar sem Hrollaugsstaðir eiga land að vatninu skv. dómkröfu.

                Að öðru leyti er stefndi, Friðrik V. Halldórsson, sýkn af kröfum stefnanda í máli þessu.

                Stefndi greiði stefnanda 941.250 krónur í málskostnað.