Hæstiréttur íslands
Mál nr. 845/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
- Sjálfræði
|
|
Þriðjudaginn 23. desember 2014. |
|
Nr. 845/2014. |
A (Oddgeir Einarsson hrl.) gegn fjölskyldusviði B (Edda Björk Andradóttir hdl.) |
Kærumál. Lögræði. Sjálfræði.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem A var sviptur sjálfræði í sex mánuði.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. desember 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. desember 2014 þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í sex mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann þóknunar til handa skipuðum verjanda sínum fyrir Hæstarétti.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.
Að virtum læknisfræðilegum gögnum málsins um geðhagi sóknaraðila, sem rakin eru í hinum kærða úrskurði, verður fallist á það með héraðsdómi að fullnægt sé skilyrðum a. liðar 4. gr. lögræðislaga til að sóknaraðili verði sviptur sjálfræði. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og skipaðs talsmanns varnaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði og ákveðst hún að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Oddgeirs Einarssonar hæstaréttarlögmanns, og skipaðs talsmanns varnaraðila, Eddu Bjarkar Andradóttur héraðsdómslögmanns, 125.500 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. desember 2014.
Með kröfu, sem barst Héraðsdómi Reykjaness 26. september 2014, krafðist sóknaraðili, B, kt. [...], vegna fjölskyldusviðs B, [...], [...], þess að A, kt. [...], [...], yrði sviptur sjálfræði í 6 mánuði.
I
Með vísan til 3. mgr. 10. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 var Edda Björk Andradóttir héraðsdómslögmaður skipaður talsmaður sóknaraðila og Oddgeir Einarsson hæstaréttarlögmaður skipaður verjandi varnaraðila.
Sóknaraðili vísar til a. liðar 4. gr. í lögræðislögum nr. 71/1997 um kröfu sína um sjálfræðissviptingu og um aðild er vísað til d. liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga. Fallið er frá kröfu á grundvelli b. liðar 4. gr. sömu laga.
Varnaraðili telur að ekki hafi verið sýnt fram á skilyrði a. liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 að varnaraðili geti ekki ráðið persónulegum högum sínum.
Með dómi Hæstaréttar dags. 27. október sl. í málinu nr. 618/2014, var fyrri úrskurður í málinu dags. 9. október sl. felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að afla álits sérfræðings í geðlækningum á því hvort varnaraðili væri fær um að ráða persónulegum högum sínum vegna sjúkdóms þess sem hann er haldinn.
Í þessu sambandi var leitað til Kristins Tómassonar geðlæknis og hann beðinn um að framkvæma óháð geðmat á varnaraðila. Einnig var kallað eftir vottorðum og teknar skýrslur af Birni Össurarsyni Rafnar geðlækni, Halldóru Jónsdóttur geðlækni og Ingólfi Sveini Ingólfssyni geðlækni.
Skýrsla var tekin af varnaraðila þann 17. nóvember sl., en vegna anna dómara, lögmanns varnaraðila og fjarveru lækna voru skýrslur af vitnum ekki teknar fyrr en 28. nóvember sl. auk munnlegs málflutnings og málið þá tekið til úrskurðar.
Í kröfu um sjálfræðissviptingu kemur fram að varnaraðili hafi verið nauðungarvistaður á bráðageðdeild 32C á Landspítala við Hringbraut, frá 10. september 2014. Fyrir liggur vottorð Halldóru Jónsdóttur, geðlæknis og yfirlæknis bráðageðdeildar 32C, dagsett 25. september sl. Í því vottorði kom fram að varnaraðili uppfylli greiningarskilmerki fyrir [...]sjúkdóm, auk þess sem hann eigi við alvarlegt neysluvandamál að stríða. Varnaraðili sé nú í geðrofsástandi og hafi undanfarna mánuði ekki verið fær um að halda utan um eigið líf. Hann hafi þannig misst vinnu sína og hafi engar tekjur, auk þess sem selja hafi þurft íbúð hans og bifreið vegna fíkniefnaskulda. Þá sé hann algjörlega innsæislaus um ástand sitt og neiti að taka geðlyf. Varnaraðili hafi náð nokkuð góðum bata síðastliðin 4 ár þegar hann hafi tekið geðlyf og ekki verið í neyslu fíkniefna. Nú sé hann bráðveikur og í bráðri þörf á áframhaldandi innlögn á geðdeild. Enginn vafi sé á því að hann sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi og áframhaldandi meðferð sé honum nauðsynleg því án hennar stefni hann heilsu sinni í voða, auk þess sem hann spilli möguleikum sínum á bata. Því styðji læknirinn og mæli með því að varnaraðili verði sviptur sjálfræði til 6 mánaða.
II
Í málinu liggur fyrir sjálfræðissviptingarvottorð frá Halldóru Jónsdóttur, geðlækni, yfirlækni bráðageðdeildar 32C, Landspítala-háskólasjúkrahúss, dagsett 25. september 2014, þar sem nánar eru rakin heilsufars- og hegðunarvandamál varnaraðila síðustu ár. Í niðurlagi vottorðsins kemur fram að varnaraðili sé bráðveikur og í bráðri þörf á áframhaldandi innlögn á geðdeild. Varnaraðili uppfylli greiningarskilmerki fyrir [...]sjúkdóm en auk þess eigi hann við alvarlegt neysluvandamál að stríða sem síðustu mánuði hafi hamlað því að hann ráði við meðferð við sínum geðrofssjúkdómi og að halda utan um eigið líf. Hann sé nú í virku geðrofi, án innsæis í veikindi sín og þörfina á meðferð. Hann hafi ekki verið til samvinnu um meðferðina. Án áframhaldandi meðferðar sé einnig hætta á því að hann skaði sjálfan sig þar sem hann nærist ekki.
Kallað var eftir athugasemdum frá Birni Össurarsyni Rafnar geðlækni. Í athugasemdum dags. 11. nóvember sl. kom fram að læknirinn hafi þekkt varnaraðila frá 3. júní 2010 og hafi verið geðlæknir hans allt til 16. apríl 2014 og á því tímabili hafi varnaraðili komið í 23 viðtöl hjá honum. Hafi varnaraðili verið á lyfjum allan þann tíma. Spurður hvort varnaraðili væri haldinn geðsjúkdómi kom fram að það væri alveg ljóst í hans huga að varnaraðili væri haldinn langvinnum geðsjúkdómi, nánar tiltekið [...] ([...]). Að auki uppfylli varnaraðili á tímabilum fíknigreiningar fyrir örvandi efni og kannabis. Spurður hvort varnaraðili væri fær um ráða sínum persónulegum högum kom fram að læknirinn hafi ekki annast varnaraðila frá vormánuðum 2014 en þegar sjúkraskýrslur hans séu skoðaðar og eftir viðtöl við meðferðaraðila hans sé alveg ljóst að varnaraðili hafi gengið í gegn um erfiða versnun á sjúkdómi sínum sem einkennst hefur af geðrofi með innsæisleysi sem ekki sjái fyrir endann á. Að hans mati væru miklar líkur á því að geðræn einkenni hafi mikil áhrif á dómgreind varnaraðila og um leið á getu hans til að ráða sínum persónulegu högum.
Upplýst var við meðferð málsins að varnaraðila hafi óskað eftir því að fá nýjan geðlækni sem meðferðaraðila. Var með vísan til þess einnig kallað eftir upplýsingum þess læknis. Ingólfur Sveinn Ingólfsson geðlæknir sendi dóminum læknisvottorð dags. 13. nóvember sl. Í vottorðinu eru rakin atvik þar sem varnaraðili skvettir kaffi yfir samsjúklinga þannig að skaði hlaust af og án þess að varnaraðili telji neitt athugavert við það athæfi. Í niðurlagi vottorðsins kemur fram að varnaraðili hafi verið greindur með [...]. Hann hafi þrátt fyrir meðferð með geðrofslyfjum ekki svarað meðferð nema að hluta og að ekki hafi orðið vart jákvæðrar þróunar í margar vikur. Varnaraðili hafi á þessu tímabili beitt fimm samsjúklinga misalvarlegu ofbeldi þar sem skýringar hans beri vott um aðsóknarranghugmyndir og einhverskonar trúarlegar ranghugmyndir. Á fyrstu vikum meðferðar hafi einnig verið ofbeldisatvik gagnvart starfsfólki. Varnaraðili hafi engin merki sýnt um iðrun vegna þessara atvika og hafi þau að því er virðist ekki gert boð á undan sér. Varnaraðili sé metinn í virku geðrofsástandi og öðrum hættulegur meðan það ástand varir. Þyki því óumflýjanlegt að varnaraðila verði veitt áfram meðferð með geðrofslyfjum og vistun á bráðageðdeild þar til hægt sé að veita honum endurhæfingu á öryggisdeild 15.
Í læknisvottorði Kristins Tómassonar geðlæknis dags. 9. nóvember sl., sem framkvæmdi óháð mat á varnaraðila er rakin læknissaga varnaraðila út frá gögnum Landspítala auk viðtala og skoðunar sem læknirinn framkvæmdi. Í áliti sem fram kemur í niðurlagi vottorðsins segir að varnaraðili hafi lítið svarað meðferð. Hann sé með viðvarandi ranghugmyndir, laus hugrenningartengsl með mikilmennsku ívafi án þess að geðheilbrigði falli að slíku. Vakni grunur um að hann heyri raddir þó hann sé ekki tilbúinn að segja frá því auk þess sem tortryggni sé töluverð. Varnaraðili sé með öllu innsæislaus. Hann hafi verið óútreiknanlegur og hafi komið að ofbeldisverkum á deild, bæði gagnvart starfsfólki og samsjúklingum, gjörðum sem tengjast veikindum hans en ekki öðru.
Varnaraðili sé þrátt fyrir meðferð frá 10. september sl. enn með verulegt geðrof og innsæisleysi í veikindi sín. Hann sé ófær um að taka ákvarðanir um meðferð sína og muni á efa ef henni yrði létt, lenda í miklum og ófyrirséðum vandræðum með að ala önn fyrir sér og tryggja eigin velferð. Þá stafi umhverfinu af honum hætta á meðan geðrofið hefur ekki verið meðhöndlað með fullnægjandi hætti.
III
Bjarni Össurarson Rafnar geðlæknir gaf símaskýrslu fyrir dóminum og staðfesti vottorð sitt dags. 11. nóvember 2014. Rétt væri að hann hafi annast varnaraðili í tæp fjögur ár. Hafi varnaraðili verið með klár geðrofseinkenni á öllu því tímabili. Niðurstaða hans hafi verið sú að varnaraðili væri haldinn [...]. Hafi varnaraðili alltaf gengist við að taka lyf sín en síðastliðið vor hafi hann hætt því og ekki viljað leita aðstoðar hans eftir það. Hafi geðrofseinkenni hans þá verið versnandi og aukið innsæisleysi. Hafi hann ekki komið að meðferð varnaraðila eftir þetta nema að hann hafi tekið ákvörðun um innlögn hans í september sl. Á þeim tíma hafi varnaraðili komið í viðtal en verið metinn það veikur að hann hafi þurft að leggjast inn. Hafi líkamlegt ástand hans verið mikið breytt frá því að annaðist hann áður, til dæmis hafi hann verið mikið grennri. Varnaraðili hafi verið það veikur að það hafi haft áhrif á hans dómgreind og hann hafi því ekki getað ráðið sínum persónulegum högum. Hafi varnaraðili verið algjörlega innsæislaus í sín veikindi og með ranghugmyndir. Þá hafi verið mjög stutt í pirring og ofbeldi hjá honum og hann þá fluttur á aðra deild.
Halldóra Jónsdóttir geðlæknir og yfirlæknir, kom fyrir dóminn og staðfesti læknisvottorð sitt frá 25. september sl. Fram kom að hún hafi annast varnaraðila eftir innlögn í september sl. og fram í miðjan október sl. Hafi hún átt í samræðum við varnaraðila sem hafi gengið misvel. Varnaraðili hafi ekki viljað viðurkenna hennar sjúkdómsgreiningu um geðrof og borið að hann væri í beinum tengslum við [...] og jafnvel að hann væri [...]. Þá hafi hegðun hans á stundum verið furðuleg en varnaraðili hafi meðal annars brennt sig með sígarettum og ekki fundist það neitt óeðlilegt. Einnig hafi hann á tímabilum verið hótandi og með ofbeldi við starfsfólk og aðra sjúklinga. Hafi það verið hennar mat og annarra að hann væri í geðrofsástandi, bæði með ranghugmyndir og ofskynjanir. Hann uppfylli því greiningarmerki um að vera með [...]sjúkdóm.
Aðspurð hvort líkur væri á því að varnaraðili myndi hætta að taka lyf sín ef meðferð væri hætt, taldi vitnið allar líkur á því þar sem varnaraðili hafi ekki verið til samvinnu um að taka lyfin. Spurð hvort varnaraðili gæti ráðið sínum persónulegum högum ef hann hætti að taka lyfin bar vitnið að svo væri ekki. Varnaraðili hefði alls ekki innsæi í sinn sjúkdóm. Hann hafi ekki getað ráðið högum sínum þegar hann var lagður inn eins og rakið var í vottorði hennar og gæti það heldur ekki í dag. Þá hafi hegðun hans upp á síðkastið einnig leitt til þess að hann gæti verið hættulegur öðrum.
Ingólfur Sveinn Ingólfsson, geðlæknir kom fyrir dóminn og staðfesti vottorð sitt dags. 13. nóvember 2014. Hann bar að hafa tekið við meðferð varnaraðila af Halldóru Jónsdóttur geðlækni um miðjan október sl. og hafi annast hann fram til dagsins í dag. Varnaraðili telji sig í viðtölum þeirra á milli ekki eiga við veikindi að stríða. Hafi þeir oft rökrætt það án þess að það hafi skilað neinni niðurstöðu. Óyggjandi sé að hans mati og annarra sem hafi komið að hans málum, að varnaraðili sé haldinn [...]sjúkdómi. Varnaraðili sé í lyfjameðferð og nú sé verið að reyna nýtt geðrofslyf þar sem fyrra lyf hafi ekki gefið fullnægjandi árangur. Varnaraðila sé nauðsynlegt að sú meðferð haldi áfram. Það sé borin von miðað við innsæisleysi varnaraðila að hann myndi halda þeirri meðferð áfram ef hann fengi að ráða. Varnaraðili sé algjörlega innsæislaus á sín veikindi. Miðað við ástand varnaraðila við innlögn og þann litla árangur sem hafi náðst til dagsins í dag, myndi heilsu hans stefnt í óefni ef hann fengi að fara heim í dag. Þá hafi varnaraðili orðið uppvís af ofbeldi og án meðferðar og hugsanlegrar vímuefnaneyslu hans gætu skapast mjög hættulegar aðstæður.
Kristinn Tómasson, geðlæknir kom fyrir dóminn og staðfesti vottorð sitt dags. 9. nóvember 2014. Hafi álit hans á varnaraðila verið byggt upp með þeim hætti að hann hafi tekið tvö viðtöl við varnaraðila áður en hann hafi kynnt sér önnur gögn málsins. Hafi verið samræmi á milli þess sem hann upplifði og fyrirliggjandi gagna eins og sjúkraskráa. Varnaraðili hafi sýnt það í viðtölum við hann að hann sé klárlega með einkenni geðrofssjúkdóms. Hann geti ekki af þeim tveimur viðtölum gert þá greiningu að varnaraðili sé með [...]sjúkdóm en það megi greina af sjúkragögnum hans. Sé það mat hans að varnaraðili sé fullkomlega innsæislaus á veikindi sín og hafi það komið fram í viðtölum þeirra. Yfirgnæfandi líkur væru á því að varnaraðili myndi hætta lyfjatöku fengi hann að fara heim til sín í dag. Varnaraðili sé með mjög laustengdar hugsanir um siðferðisvitund, til dæmis um alvarleg atvik er tengjast ofbeldi innan spítalans sem almennt væru talin alvarleg en varnaraðili telji eðlileg. Ef meðferð yrði hætt nú á þessari stundi væru yfirgnæfandi líkur á því að varnaraðili yrði færður aftur inn á sjúkradeild með sama hætti og áður og miðað við þau ofbeldisverk sem fram hafi komið á sjúkradeild væru líkur á því að hann gæti sýnt af sér slík ofbeldisverk annar staðar í samfélaginu. Sú aðstaða sem varnaraðili hafi verið kominn í fyrir innlögn bæði um vinnu og fjárhagsmálefni hans megi rekja til geðsjúkdóms hans. Sé miðað við heildarmynd af háttsemi varnaraðila sé ljóst að hann muni ekki geta séð um sig sjálfur og jafnvel ekki þó svo að horft yrði framhjá ofbeldisverkunum. Það sé mikið hagsmunamál fyrir varnaraðila sjálfan að fá viðeigandi meðferð um nokkra mánaða skeið til þess að tryggja það að heilsa hans nái jafnvægi.
Varnaraðili mætti fyrir dóminn ásamt lögmanni sínum og gaf skýrslu. Fram kom í skýrslu hans að ýmislegt væri ósatt sem fram kæmi í vottorðum Bjarnar Össurarsonar Rafnar og Halldóru Jónsdóttur. Þá komi fram fullyrðingar í læknisvottorði Kristins Tómassonar sem teknar hafi verið úr samhengi við það sem hann hafi sagt. Í þessu máli væri orð gegn orði. Hann gæti vel séð um sjálfan sig í samfélaginu, enda ætti hann nægt fé og væri fullfær um að útvega sér vinnu auk þess sem hann ætti foreldra sem styðji hann þó þau hafi ekki gert það áður. Aðspurður kvaðst hann hafa getað séð um sig sjálfan áður en hann var lagður inn. Hann viti ekki um stöðuna á íbúð sinni en ætti íbúð í öðru bæjarfélagi og sé að flytja þaðan og fái óblíðar móttökur við þann flutning. Verið geti að „þeir“ líti á hann sem mótaðila líkt og í fótboltakeppni. Til að skýra orsök þessa máls taldi varnaraðili að valdamenn í þjóðfélaginu hafi reynt að koma á hann höggi vegna einhvers sem er honum óútskýranlegt. Því til staðfestingar muni hann leggja fyrir dóminn skjöl sem sýni að undirritun hans á umboð og kauptilboð vegna sölu á íbúð hans í [...] hafi verið fölsuð og að ekki sé annað hægt að lesa úr því en að „þessi öfl“ hafi viljað hann út úr [...]. Tengslin séu skýr þar sem [...] sé að reka þetta mál og lyklar af íbúð hans sem voru í vörslum spítalans séu horfnir. Engar sannanir séu fyrir því að hann þjáist af [...]sjúkdómi. Ekki liggi fyrir vitnisburðir þessum fullyrðingum læknanna til staðfestingar. Annars verði að gera ráð fyrir því að öfl innan samfélagsins geti frelsissvipt menn með lyginni einni saman. Fjórir læknar séu fengnir til þess að fella einn mann í stað þess að einum sé trúað og Kristinn Tómasson geðlæknir sé fenginn af Hæstarétti til þess að meta svokölluð veikindi hans en byggi skýrslu sína ekki á sjálfstæðu mati heldur skýrslum annarra.
Talsmaður sóknaraðili ítrekaði framkomna kröfu og vísaði til framlagðra gagna, sérstaklega læknisvottorðs Kristins Tómassonar geðlæknis. Ljóst væri að varnaraðili væri bráðveikur og í bráðri þörf fyrir áframhaldandi læknismeðferð til þess að fá þá meðferð sem honum væri nauðsynleg. Varnaraðili hafi ekki innsæi í eigin sjúkdóm og fengi hann að fara frjáls myndi hann stefna heilsu sinni í voða og spilla fyrir möguleikum á bata auk þess sem hann gæti verið hættulegur öðrum og tengdist það beint sjúkdómi hans. Varnaraðili sé þannig ófær um að taka ákvörðun um eigin sjúkdóm og að ala önn fyrir sjálfum sér auk þess sem hann geti verið umhverfi sínu hættulegur. Sjálfræðissvipting í 6 mánuði væri lágmarkstími í þessu sambandi.
Lögmaður varnaraðila krafðist þess að framkominni kröfu um sjálfræðissviptingu yrði hafnað. Varnaraðili taldi að ekki væru til staðar skilyrði samkvæmt a. lið 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 til sjálfræðissviptingar, enda ekkert komið fram um það að varnaraðili gæti ekki ráðið persónulegum högum sínum. Varnaraðili hafi sjálfur borið að geta ráðið sínum persónulegu högum. Vottorð Kristins Tómassonar væri takmarkað í þessum efnum, enda hafi hann bara hitt varnaraðili í tveimur viðtölum. Ekkert væri sannað um ofbeldisverk varnaraðila og hafi hann ekki verið kærður vegna þeirra og væri því saklaus þar til sekt væri sönnuð. Þá lægju ekki fyrir upptökur af meintum ranghugmyndum hans.
IV
Í a. lið 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, kemur fram að svipta má mann sjálfræði með úrskurði dómara ef þörf krefur. Í a. lið 4. gr. kemur nánar fram: „Ef hann er ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum eða fé vegna andlegs vanþroska, ellisljóleika eða geðsjúkdóms eða vegna annars konar alvarlegs heilsubrests“.
Í greinargerð með lögræðislögum kemur fram að skilyrði sjálfræðissviptingar séu bundin við ákveðin læknisfræðileg skilyrði. Það er óumdeilt að mati Björns Össurarsonar Rafnars, geðlæknis, Halldóru Jónsdóttur geðlæknis, Ingólfs Sveins Ingólfssonar geðlæknis og Kristins Tómassonar geðlæknis, að varnaraðili er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi samkvæmt ákvæðum a. liðar 4. gr. lögræðislaga og uppfylli varnaraðili greiningarskilmerki fyrir [...], alvarlegustu tegund geðrofs. Í málinu var ekki talin þörf á því að afla frekari læknisfræðilegra gagna.
Varnaraðili hefur að mati lækna verið haldinn geðrofssjúkdómi síðastliðin fjögur ár. Sjúkdómseinkennum hafi verið haldið niðri að mestu með lyfjagjöf. Varnaraðili hætti hins vegar sjálfur að taka lyf sín síðastliðið vor. Við innlögn í september sl. má ætla að líkamlegu ástandi hans hafi hrakað verulega auk þess sem grunur var um fíkniefnanotkun og bera gögn málsins með sér að hann hafi misst vinnu sína og eigur á þessu stutta tímabili.
Meta þarf samkvæmt nefndum ákvæðum lögræðislaga hvort varnaraðili sé fær um ráða persónulegum högum sínum vegna framangreinds geðsjúkdóms. Í greinargerð með lögræðislögum kemur fram: „Þannig getur til dæmis verið réttlætanlegt og í þágu sjúklings að svipta hann sjálfræði sínu vegna alvarlegs geðsjúkdóms til þess að koma megi við nauðsynlegri læknishjálp meðan á alvarlegum og tíðum geðsveiflum stendur þótt heilsa hans sé betri og hann fær um að ráða persónulegum högum sínum þess á milli“. Þannig er ekki gerð krafa um það að aðili sé algjörlega ófær um að ráða persónulegum högum sínum en að það verður að vera um að ræða, verulegt frávik frá eðlilegu ástandi.
Varnaraðili hefur að mati lækna alls ekkert innsæi í eigin sjúkdóm og geti ekki á þessari stundu haldið utan um daglegt líf sitt sjálfur. Varnaraðili hafi ekki verið til samvinnu um að taka lyf við sjúkdóminum, enda telji hann sjálfur að hann sé ekki haldinn neinum sjúkdómi. Að mati lækna eru yfirgnæfandi líkur á því að varnaraðili hætti að taka lyf sín fengi hann að ráða og myndi aftur stefna heilsu sinni og velferð í mikla hættu. Þá kom fram í vottorði lækna að varnaraðili sem alla jafna sé ekki þekktur af ofbeldi hafi án iðrunar sýnt ítrekað af sér slíka hegðun innan spítalans og geti því beinlínis verið hættulegur umhverfi sínu fari hann frjáls ferða sinna og fái ekki viðeigandi meðferð á þessari stundu. Fram kom að framangreindar aðstæður og hegðun varnaraðila megi rekja beint til sjúkdóms varnaraðila. Verður að telja að slíkt ástand varnaraðila verulegt frávik frá eðlilegu ástandi.
Beiðni um sjálfræðissviptingu nú er hugsuð í þeim tilgangi að tryggja varnaraðila nauðsynlega hjálp að öðrum kosti muni hann að mati lækna aftur lenda í þeirri aðstöðu að hann geti ekki haft stjórn á eigin lífi. Varnaraðili er algjörlega innsæislaus á eigin sjúkdóm og telur sig ekki þurfa hjálp. Þetta innsæisleysi hans er sjálfskaðandi og fái varnaraðili ekki viðeigandi meðferð við sínum sjúkdómi nú er heilsu hans stefnt í voða og spillir möguleikum hans á bata auk þess sem varnaraðili geti verið umhverfi sínu hættulegur. Má rekja þetta þetta ástand beint til geðsjúkdóms hans. Hefur að mati dómsins verið sýnt fram á skilyrði og þörf sjálfræðissviptingar á þann hátt að varnaraðili geti ekki ráðið sínum persónulegu högum.
Að öllu virtu er það niðurstaða dómsins að fullnægt sé skilyrðum 1. mgr. a. liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 fyrir sjálfræðissviptingu varnaraðila í sex mánuði.
Allur málskostnaður greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 17. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, þar með talin þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Eddu Bjarkar Andradóttur hdl. og verjanda varnaraðila Oddgeirs Einarssonar hrl. eins og segir í úrskurðarorði.
Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
ÚRSKURÐARORÐ:
Varnaraðili, A, er sviptur sjálfræði í 6 mánuði frá deginum í dag að telja.
Þóknun talsmanns sóknaraðila, Eddu Bjarkar Andradóttur héraðsdómslögmanns og verjanda varnaraðila, Oddgeirs Einarssonar hæstaréttarlögmanns, að fjárhæð 200.800 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.