Hæstiréttur íslands
Mál nr. 306/1998
Lykilorð
- Skaðabætur
- Umferðarlög
- Torfærutæki
- Skráningarskylda
- Vátrygging
|
|
Fimmtudaginn 18. mars 1999. |
|
Nr. 306/1998. |
Kári Elíasson (Ragnar H. Hall hrl.) gegn Bifreiðum og landbúnaðarvélum hf. (Ólafur Sigurgeirsson hrl.) |
Skaðabætur. Umferðarlög. Torfærutæki. Skráningarskylda. Vátrygging.
K slasaðist þegar vélsleði sem hann ók, lenti á snjóruðningi. Þegar slysið varð hafði K, sem átti vélsleðann, hvorki keypt ábyrgðartryggingu vegna hans né slysatryggingu ökumanns og hafði sleðinn aldrei verið skráður sem ökutæki. Taldi K að B, seljandi sleðans, bæri ábyrgð á að slysatrygging var ekki fyrir hendi og hann því ekki fengið þær vátryggingarbætur, sem honum hefði borið. Krafði hann B um skaðabætur vegna tjóns síns. Talið var að ákvæði umferðarlaga og reglugerðar um skráningu ökutækja bæri að skýra svo, að skylda til að láta skrá vélknúið ökutæki hvíldi á raunverulegum eiganda þess. Var ekki talið að B hefði sem innflytjanda verið skylt að færa ökutæki K til skráningar eða kaupa lögmæltar vátryggingar vegna þess fyrir hönd K. Sönnunarbyrði um að K hefði falið öðrum að gera vátryggingarsamning um slysatryggingu ökumanns var talin hvíla á K, og var hann hvorki talinn hafa sýnt fram á að hann hefði beðið B um að annast kaup vátrygginganna né að B hefði mátt ætla að K hefði viljað að B sæi um það. Var niðurstaða héraðsdóms um sýknu B af kröfum K staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Arnljótur Björnsson og Þorgeir Örlygsson prófessor.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. júlí 1998. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða 8.330.360 krónur með nánar tilgreindum ársvöxtum frá 26. mars 1989 til 2. október 1997, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Bú áfrýjanda var tekið til gjaldþrotaskipta 30. janúar 1998 og hefur skiptastjóri í þrotabúinu samþykkt að áfrýjandi reki sjálfur mál þetta á eigin kostnað.
I.
Áfrýjandi hefur skýrt svo frá að hann hafi slasast 26. mars 1989 á skíðasvæði Knattspyrnufélags Reykjavíkur í Skálafelli við Mosfellsdal, er vélsleði hans lenti á snjóruðningi með þeim afleiðingum að hann féll af sleðanum. Samkvæmt vottorði Rögnvaldar Þorleifssonar læknis kom áfrýjandi á slysa- og bæklunardeild Borgarspítalans klukkan 21.23 þennan dag. Í læknisvottorðinu er eftirfarandi frásögn skráð eftir áfrýjanda: „Hann skýrði svo frá að um kl. 18 þann dag hefði hann ekið snjósleða sínum í Skálafelli. Hann kvaðst hafa ekið allgreitt og þá ekið sleðanum inn í snjóvegg. Hann kvað sleðann hafa kastast áfram við höggið og kvaðst síðan sjálfur hafa fallið af sleðanum. Hann kvaðst þó fyrst hafa rekið bakið í sæti sleðans en loks lent á bakinu á harðri fönn. Hann kvaðst strax hafa fundið mikinn sársauka í mjóbakinu ...“. Með áfrýjanda var félagi hans, sem einnig var á vélsleða. Hefur hann fyrir dómi skýrt frá atvikum að slysinu í aðalatriðum á sömu lund og áfrýjandi. Þykir mega telja, svo sem gert var í héraðsdómi, nægilega sannað að slysið hafi orðið á þann hátt, sem áfrýjandi hefur lýst.
II.
Þegar slysið varð hafði áfrýjandi hvorki keypt lögmælta ábyrgðartryggingu vegna sleðans né slysatryggingu ökumanns samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Reisir hann kröfur sínar á því, að stefndi beri ábyrgð á að slysatrygging var ekki fyrir hendi, en það hafi leitt til þess að hann hafi ekki fengið þær vátryggingarbætur, sem honum hefði borið, ef slysatrygging hefði verið keypt.
Vélsleðar eru torfærutæki í skilningi 2. gr. umferðarlaga. Áfrýjandi keypti tæki sitt nýtt hjá stefnda 9. febrúar 1989 og greiddi kaupverðið með peningum og skuldabréfi. Tók áfrýjandi við vélsleðanum og flutti hann frá verslun stefnda með bifreið. Á reikningi stefnda dagsettum sama dag kemur fram að fast númer sleðans var ÞA 829, en samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 523/1988 um skráningu ökutækja skulu ökutæki skráð „samkvæmt fastnúmerakerfi“. Vélsleðinn mun hins vegar aldrei hafa verið skráður sem ökutæki eða borið skráningarmerki, þrátt fyrir ákvæði um skráningarskyldu í 1. mgr. 63. gr. umferðarlaga og 1. mgr. 5. gr. nefndrar reglugerðar, en 1. málsliður 1. mgr. 5. gr. hennar hljóðar svo: „Áður en ökutæki er tekið í notkun skal það hafa verið skráð á eiganda, skráningarskírteini gefið út og skráningarmerki fest á það.“
III.
Stefndi heldur því fram að flestir, sem keyptu vélsleða hjá honum á þeim tíma, er hér um ræðir, hafi hvorki óskað eftir að kaupa ábyrgðartryggingu eða slysatryggingu ökumanns né að láta skrá þá strax og kaupin gerðust. Hafi kaupendur ekki viljað gera það fyrr en þeir tækju sleða sinn í notkun. Sé þessu þveröfugt farið með kaupendur nýrra bifreiða, sem ekki megi aka óskráðum frá seljanda.
Vélsleðinn, sem mál þetta er risið af, var húftryggður hjá vátryggingafélagi frá 9. febrúar 1989 til 30. apríl sama árs. Eftir gögnum málsins verður að miða við að áfrýjandi hafi beðið stefnda um að hafa milligöngu um að kaupa þá vátryggingu.
Fyrir dómi svaraði áfrýjandi þannig spurningu um hvort skráning og skyldutrygging hafi komið til tals við kaup sleðans: „Ég gerði bara einhvern veginn ráð fyrir því að þeir myndu sjá um það, þar sem þeir voru umboðsmenn sleðans.“ Ítrekað aðspurður um hvort hann hafi beðið stefnda um að sjá um lögmæltar vátryggingar svaraði hann: „Ég þori ekki að fara með það, hvort ég hafi beðið um það, en ég gerði bara ráð fyrir því að þeir myndu gera það ...“. Einnig tók hann fram, að skráningarmerki hafi hvorki verið á sleðanum né hafi hann fengið slíkt merki. Þá var áfrýjandi inntur eftir því hvort honum hafi ekki fundist undarlegt að fá ekki skráningarmerki. Svaraði hann því neitandi, þar sem hann hafi alveg eins getað búist við að það yrði sent heim til sín.
IV.
Í 2. gr. reglugerðar nr. 523/1988 kemur fram, að eigandi ökutækis eða sá, sem á vegum hans hafi umráð þess, t.d. innflytjandi eða framleiðandi, beri ábyrgð á að tækið sé skráð. Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 4. gr. sömu reglugerðar skal innflytjandi skráningarskylds ökutækis afhenda til ökutækjaskrár gögn, sem þarf til þess að færa megi ökutækið í forskrá. Um skráningu í skilningi 63. gr. umferðarlaga er hins vegar kveðið á í 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar eins og fyrr greinir. Ekki skal skrá ökutæki fyrr en eigandi þess eða sá, sem á vegum eigandans hefur umráð þess, leggur fram gögn um að lögmælt vátrygging hafi verið keypt vegna tækisins, sbr. 3. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar. Ákvæði umferðarlaga og reglugerðar nr. 523/1988 ber að skýra svo, að skylda til að láta skrá vélknúið ökutæki hvíli á raunverulegum eiganda þess, ef um hann er vitað. Eftir skýlausu ákvæði 93. gr. umferðarlaga hvílir skylda til að hafa lögmæltar vátryggingar vegna ökutækis ekki á öðrum en eiganda þess eða þeim, sem hefur varanlega umráð þess, sbr. 91. og 92. gr. sömu laga. Verður ekki talið, að stefnda hafi sem innflytjanda verið skylt að færa ökutæki áfrýjanda til skráningar eða kaupa lögmæltar vátryggingar vegna þess fyrir hans hönd.
V.
Eins og fram er komið var áfrýjanda skylt að lögum að sjá um að keyptar væru lögmæltar vátryggingar vegna vélsleða síns. Sönnunarbyrði um að áfrýjandi hafi falið öðrum að gera vátryggingarsamning um slysatryggingu ökumanns hvílir á áfrýjanda. Hann hefur hvorki sýnt fram á að hann hafi beðið stefnda um að annast kaup á lögmæltum vátryggingum vegna sleðans, né að stefndi hafi mátt ætla að áfrýjandi hafi viljað að stefndi sæi um það. Það haggar ekki þessari niðurstöðu, að stefndi mun hafa haft heimild frá einu eða fleiri vátryggingafélögum til að bjóða viðskiptamönnum vátryggingar vegna nýrra ökutækja, sem hann hafði til sölu.
Ekki verður fallist á með áfrýjanda að stefnda hafi borið að kynna honum reglur um skráningu ökutækja og benda honum á að gæta lagaskyldu til að færa vélsleðann til skráningar og kaupa vátryggingar þær, sem kveðið er á um í 91. gr. og 92. gr. umferðarlaga. Getur áfrýjandi ekki borið fyrir sig vanþekkingu á þeim skyldum, sem honum mátti vera augljóst að hvíldu á sér sem eiganda skráningarskylds ökutækis.
Þá hefur áfrýjandi ekki stutt viðhlítandi rökum þá fullyrðingu sína, að ekki hafi farið á milli mála að ætlun hans hafi verið að taka vélsleðann í notkun strax eftir að hann var afhentur. Samkvæmt öllu framansögðu verður niðurstaða héraðsdóms staðfest um annað en málskostnað.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda í einu lagi málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti svo sem greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Áfrýjandi, Kári Elíasson, greiði stefnda, Bifreiðum og landbúnaðarvélum hf., samtals 350.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. maí 1998.
Mál þetta, sem dómtekið var 16. apríl s.l. var höfðað með stefnu útgefinni 1. október s.l. og birtri 2. október s.l.
Stefnandi er Kári Elíasson, kt. 250561-3189, Vesturbergi 8, Reykjavík.
Stefndi er Bifreiðar og landbúnaðarvélar hf., kt. 440169-7089, Suðurlandsbraut 14, Reykjavík.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð kr. 8.330.360 með 13% ársvöxtum frá 26. mars 1989 til 11. apríl 1989, en með 15% ársvöxtum frá þ.d. til 11. 06.89, en með 17% ársvöxtum frá þ.d. til 22.07.89, en með 12 % ársvöxtum frá þ.d til 01.08.89, en með 13,4% ársvöxtum frá þ.d. til 01.09.89, en með 10,2% ársvöxtum frá þ.d. til 01.10.89, en með 8,1% ársvöxtum frá þ.d. til 01.11.89, en með 9,6% ársvöxtum frá þ.d. til 01.12.89, en með 11,2% ársvöxtum frá þ.d. til 01.02.90, en með 8,3% ársvöxtum frá þeim degi til 01.03.90, en með 5,9% ársvöxtum frá þ.d. til 01.04.90, en með 4,1% ársvöxtum frá þ.d. til 01.05.90, en með 3% ársvöxtum frá þ.d. til 01.11.90, en með 2,3% ársvöxtum frá þ.d. til 01.12.90, en með 2,6% ársvöxtum frá þ.d. til 01.01.91, en með 2,8% ársvöxtum frá þ.d. til 01.02.91, en með 4% ársvöxtum frá þ.d. til 01.03.91, en með 4,7% ársvöxtum frá þ.d. til 01.07.91, en með 5,8% ársvöxtum frá þ.d. til 01.09.91, en með 6,3% ársvöxtum frá þ.d. til 01.11.91, en með 3,9% ársvöxtum frá þ.d. til 01.12.91, en með 3,4% ársvöxtum frá þ.d. til 01.01.92, en með 2,6% ársvöxtum frá þ.d. til 01.03.92, en með 1,6% ársvöxtum frá þ.d. til 01.04.92, en með 1,1% ársvöxtum frá þ.d. til 01.06.92, en með 1% ársvöxtum frá þ.d. til 01.09.92, en með 0,9% ársvöxtum frá þ.d. til 01.02.93, en með 1,1% ársvöxtum frá þ.d. til 01.03.93, en með 0,9% ársvöxtum frá þ.d. til 01.05.93, en með 0,8% ársvöxtum frá þ.d. til 01.09.93, en með 0,9% ársvöxtum frá þ.d. til 01.12.93, en með 0,5% ársvöxtum frá þ.d. til 01.06.95, en með 0,6% ársvöxtum frá þ.d. til 01.03.96, en með 0,9% ársvöxtum frá þ.d. til 01.05.96, en með 0,8% ársvöxtum frá þ.d. til 01.06.96, en með 0,75 ársvöxtum frá þ.d. til stefnubirtingardags, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda auk virðisaukaskatts.
Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda. Til vara gerir stefndi þá kröfu að kröfur á hendur honum verði stórlega lækkaðar. Í aðalkröfu er krafist málskostnaðar að skaðlausu, en í varakröfu er þess krafist að málskostnaður falli niður.
Við þingfestingu málsins gerði stefndi kröfu um málskostnaðartryggingu og með úrskurði uppkveðnum 31. október s.l. var stefnda gert að setja 400.000 króna tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar. Með dómi Hæstaréttar 21. nóvember s.l. var tryggingin ákveðin 200.000 kr.
Málavextir.
Stefnandi keypti nýjan snjósleða af stefnda 9. febrúar 1989 af gerðinni ARCTIC CAT, EL TIGRE 530 D/T með fastanúmerinu ÞA-829. Stefndi seldi stefnanda einnig í umboðssölu fyrir Sjóvá-Almennar tryggingar hf. sérstaka húftryggingu vegna sleðans. Stefnandi stóð í þeirri trú að stefndi hefði fullnægt lagaskilyrðum varðandi skráningu sleðans í ökutækjaskrá. Stefnandi fór í vélsleðaferð í Skálafell ásamt félaga sínum, Sveini Jónatanssyni 26. mars 1989. Að sögn stefnanda lenti hann síðdegis í einhvers konar snjóruðningi og kastaðist hann af sleðanum og lenti á bakinu í harðfenni. Stefnandi fann í fyrstu til mikils sársauka í mjóbaki sem leiddi niður í báða fætur og var hann í fyrstu algerlega máttlaus í báðum gagnlimum. Hélt hann í fyrstu að hann væri lamaður en smám saman fékk hann tilfinningu í fæturna og gat hann ekið sleðanum til tengdaforeldra sinna í Mosfellsbæ.
Stefnandi leið miklar kvalir um kvöldið og leitaði til slysadeildar Borgarspítalans þar sem Rögnvaldur Þorleifsson læknir skoðaði hann. Leiddi sú skoðun í ljós eymsli aftan í tveimur neðstu lendarliðunum og niður í spjaldhrygginn. Einnig voru eymsli í hægri rasskinn. Var stefnanda ráðlagt að forðast álag og vinnu næstu daga. Um sumarið 1991 versnaði ástand stefnanda og komu fram miklir leiðsluverkir niður í hægri ganglim. Var hann þá lagður inn á Landakotsspítala þar sem hann gekkst undir frekari rannsóknir. Sýndu röntgenmyndir breytingu á afturhluta liðbolar IV. lendhryggjarliðarins þar sem vaxtarkjarni hafði ekki gróið fastur við liðbolinn. Orsakaði þetta allmikla útbungun frá afturkanti liðbolsins út í mænugang sem þrengdi að mænuganginum. Við skoðun 26.11.1991 hjá Ragnari Jónssyni lækni kom fram að stefnandi var haltur á hægri ganglim, stirður í mjóbaki. Þá hafi verið viss eymsli milli hryggtinda IV. og V. hryggjarliðar. Greinileg rýrnun hafi orðið á lærvöðva framan á hægra fæti og sinaviðbrögð bæði á hæl og hné greinilega veikluð. Var ákveðið að gera aðgerð sem fólst í því að víkka mænugang og var það gert 7. janúar 1992.
Atli Þór Ólason læknir mat örorku stefnanda vegna afleiðinga slyssins og er álitsgerð hans dagsett 28. október 1994. Kemur þar fram að stefnandi hafi verið heilsuhraustur alla ævi og hafi aldrei kennt sér meins, hvorki í baki, hálsi né fótum. Er niðurstaða hans að stefnandi muni ætíð hafa veruleg áreynslubundin óþægindi í baki, hvort sem gerð verði spengingaraðgerð eða ekki, sem dragi úr getu hans til mikilla líkamlegra átaka og þar með starfa. Mat hann varanlega læknisfræðilega örorku stefnanda þannig að tímabundin örorka í 6 mánuði frá slysdegi var 100%, eftir það 50% í 3 mánuði og síðan varanleg örorka 20%. Læknirinn tók fram að örorkan stafaði að hluta af meðfæddu ástandi, þ.e. þrengingu á mænugangi vegna vaxtartruflana í baki og taldi eðlilegt að skipta sök til helminga milli þessara þátta eins og hann komst að orði, en benti á að mat um það væri fremur lögfræðilegt en læknisfræðilegt.
Jón Erlingur Þorláksson, tryggingafræðingur, reiknaði út örorkutjón stefnanda miðað við skattframtöl stefnanda fyrir árin 1986 til 1988. Er þar gengið út frá þeirri forsendu að stefnandi hefði haldið þeim tekjum sem fram koma í skattframtölum hans fyrir árin 1986-1988 í 20 ár frá slysdegi, en þær munu að mestu vera vegna sjómennsku. Eftir það er miðað við meðaltekjur iðnaðarmanna samkvæmt skýrslum kjararannsóknarnefndar. Stefnandi hefur fallið frá kröfu um bætur vegna tímabundinnar örorku en gerir kröfu um bætur vegna varanlegrar örorku, kr. 8.523.700, er sæti 20% frádrætti vegna skatta- og eingreiðsluhagræðis eða kr. 1.704.740. Þá gerir stefnandi kröfu um bætur vegna tapaðra lífeyrisréttinda, kr. 511.400 og kr. 1.000.000 í miskabætur.
Eftir slysið mun hafa komið í ljós að ekki hafði verið gengið frá skráningu sleðans í ökutækjaskrá. Þá hafði ekki verið keypt lögmælt ábyrgðar- og ökumannstrygging vegna hans og hefur stefnandi því ekki átt kost á vátryggingabótum vegna slyssins.
Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi óskað eftir því að annast sjálfur skráningu og ábyrgðartryggingu sleðans.
Málsástæður og lagarök.
Stefnandi reisir kröfur sínar á 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 þar sem mælt er fyrir um skyldu eiganda ökutækis til að kaupa ökumannstryggingu. Skal vátryggingin tryggja bætur vegna slyss sem ökumaður kann að verða fyrir við starfa sinn. Áður er ökutæki er tekið í notkun skal það skráð, sbr. 63. gr. sömu laga. Vélsleði sé skráningarskylt ökutæki, nánar tiltekið „torfærutæki”, sbr. skilgreiningu 2. gr. laganna. Kröfur stefnanda eru reistar á því að stefndi hafi sem innflytjandi snjósleðans borið ábyrgð á því að hann yrði skráður er kaupin fóru fram, sbr. 2. gr. rgl. nr. 523/1988 um skráningu ökutækja, sem á stoð í 64. gr. umferðarlaga. Til þess að slík skráning hefði getað farið fram hefði stefndi þurft að færa sönnur á að í gildi væri vátrygging í samræmi við ákvæði umferðarlaga, sbr. 12. gr. rgl. um ábyrgðartryggingu ökutækja o.fl. nr. 307/1988 og 3. mgr. 4. gr. rgl. nr. 523/1988.
Stefnandi byggir á því að þessar reglur um skyldu innflytjenda þjóni þeim tilgangi að koma í veg fyrir að ný ökutæki komist í umferð án skráningar, en í skráningu felist eftirlit með því að skyldutryggingar hafi verið keyptar. Hafi stefnandi mátt treysta því að stefndi, sem einnig er umboðsmaður vátryggingafélags, hefði gengið frá skráningu snjósleðans með lögmæltum hætti og lögskyldar tryggingar væru í gildi. Verði ekki á þetta fallist telur stefnandi engu að síður að stefndi beri bótaábyrgð á tjóninu þar sem starfsmenn hans hafi vanrækt skyldur sínar varðandi skráningu og að gera stefnanda grein fyrir þeim reglum sem um skráningu ökutækja gilda, en ekki var minnst á þessi atriði við kaupin. Leiddi þessi vanræksla til þess að stefnandi hefur ekki átt kost á þeim vátryggingabótum sem hann hefði átt rétt á úr ökumannstryggingu, ef gengið hefði verið frá skráningu með lögmæltum hætti.
Stefnandi byggir kröfu um bætur vegna fjárhagslegs tjóns á læknisfræðilegu mati Atla Þórs Ólasonar læknis og útreikningum Jóns Erlings Þorlákssonar, tryggingafræðings, sem er í samræmi við hefðbundnar uppgjörsaðferðir miðað við þær réttarreglur er í gildi voru er slysið varð og er miðað við 4,5% framtíðarafvöxtun á ári.
Miskabótakrafa er reist á 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga vegna þeirra óþæginda sem stefnandi hefur mátt þola vegna meiðsla sinna, þ.á.m. skurðaðgerð og óvissu um nauðsyn frekari aðgerða. Þá er ljóst að slysið mun há stefnanda í framtíðinni og mun stefnandi ekki geta sinnt mörgum af þeim áhugamálum sem honum eru hugleikin.
Dráttarvaxtakrafa er byggð á III. kafla vaxtalaga og krafa um málskostnað er reist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Stefndi reisir sýknukröfu sína á því í fyrsta lagi að ósannað sé að stefnandi hafi slasast á vélsleðanum ÞA-829. Hafi hann yfirhöfuð slasast geti það hafa verið á öðrum sleða. Samkvæmt skrám Sjóvá-Almennra trygginga hf. hafi aldrei verið greitt kaskótjón vegna sleðans og slysið hefur ekki verið staðreynt með lögregluskýrslu.
Í öðru lagi byggir stefndi á því að takist ofangreind sönnun liggi ljóst fyrir að stefndi eigi enga sök á vanrækslu skráningar og tryggingar, því stefnandi hafi sjálfur ætlað að sjá um þá hluti áður en hann tæki sleðann í notkun. Stefnandi eigi að vita að við skráningu ökutækis séu sett númeraspjöld á það eða þau afhent eiganda. Honum hafi verið fullkunnugt um að sleðinn var óskráður því ekki voru númersplötur á honum og ekki fékk hann slíkar plötur afhentar. Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi aldrei ætlað sér að skrá og tryggja sleðann.
Í þriðja lagi byggir sýknukrafan á því að stefndi beri enga ábyrgð á vanrækslu á skráningu og tryggingu vélsleðans þar sem sú skylda hvíli á raunverulegum eiganda ökutækis ef um hann er vitað, en hann er jafnan skráningarskyldur. Enginn vafi leiki á því að stefnandi var eigandi og umráðamaður sleðans þegar slysið varð og ber hann því einn ábyrgð á því að vélsleðinn var hvorki skráður né tryggður. Stefndi bendir á 91. og 92. gr. umferðarlaga þar sem mælt er fyrir um vátryggingarskyldu, en samkvæmt 93. gr. hvílir hún á eiganda ökutækis eða þeim sem hefur varanlega umráð þess. Í umferðarlögum sé ekki kveðið á um á hverjum skráningarskyldan hvíli en í 2. gr. reglugerðar nr. 523/1988 um skráningu ökutækja segi hins vegar að eigandi ökutækis eða sá, sem á vegum eigandans hefur umráð þess, t.d. innflytjandi eða framleiðandi, beri ábyrgð á því að ökutæki sé skráð. Samkvæmt 63. gr. umferðarlaga skuli skrá torfærutæki og setja á það skráningarmerki áður en það er tekið í notkun. Það sé ekki innflytjandinn sem tekur torfærutæki í notkun, heldur kaupandinn eða eigandinn. Það sama eigi því við um skráningarskylduna sem tryggingarskylduna; hún hvílir á eiganda.
Stefndi byggir á því að vegna meðfæddrar þrengingar á mænugangi eigi með vísan til örorkumats Atla Þórs Ólasonar læknis að meta örorku stefnanda einungis 10% vegna slyssins og eigi bótafjárhæðir að lækka sem því nemur. Þá telur stefndi að vegna hagræðis af eingreiðslu og skattfrelsi bóta megi beita 35% frádrætti og miskabætur ættu ekki að vera hærri en kr. 70.000.
Stefndi vísar til 63. gr., 88. gr., 89. gr., 90. gr., 91. gr., 92. gr. og 93. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Þá vísar hann til reglugerða nr. 523/1988 og 307/1988. Krafa um málskostnað styðst við 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991.
Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi skýrslu fyrir dómi og skýrði frá því að hann hafi gert ráð fyrir að stefndi sæi um skráningu og ábyrgðartryggingu vélsleðans. Stefnandi þorði ekki að fullyrða að hann hafi rætt um trygginguna við sölumann, en kvaðst hafa gert ráð fyrir að stefndi sæi um þau mál. Stefnandi kvað skráningarmerki ekki hafa verið á sleðanum og hann kvaðst ekki hafa fengið þau afhent. Stefnandi kvaðst hafa átt tvo vélsleða áður og var hvorugur þeirra með ábyrgðartryggingu. Stefnandi kvaðst hafa keypt kaskótryggingu, enda hafi hann viljað hafa þau mál í lagi.
Vitnið Sveinn Jónatansson, kt. 130663-2309, lögmaður, staðfesti fyrir dómi að umrædd vélsleðaferð hefði verið farin og að stefnandi hefði slasast á sleða þeim er mál þetta snýst um.
Forsendur og niðurstaða.
Í máli þessu er ágreiningur með aðilum um það hvort stefnandi hafi í raun slasast á vélsleða þeim er mál þetta snýst um. Þegar litið er til framburðar vitnisins Sveins Jónatanssonar og læknisvottorða, þar sem fram kemur sú frásögn stefnanda að hann hafi ekið snjósleða sínum í snjóvegg og kastast af honum, þykir nægilega sannað að stefnandi hafi slasast með þeim hætti er hann heldur fram.
Samkvæmt 2. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 telst vélsleði vera torfærutæki og samkvæmt 63. gr. sömu laga skal skrá torfærutæki og setja á það skráningarmerki áður en það er tekið í notkun, sbr. einnig c-lið 1. gr., 1. mgr. 5. gr. og 11. gr. reglugerðar nr. 523/1988 um skráningu ökutækja. Umferðarlögin greina ekki frá því á hverjum skráningarskyldan hvílir en í 2. gr. sömu reglugerðar segir að eigandi ökutækis eða sá sem á vegum eigandans hefur umráð þess, t.d. innflytjandi eða framleiðandi, beri ábyrgð á því að ökutæki sé skráð. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. skal innflytjandi afhenda ökutækjaskrá gögn svo færa megi ökutækið í forskrá. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. skal ökutæki áður en það verður skráð hafa fengið viðurkenningu Bifreiðaskoðunar og auk þess skal eigandi ökutækisins eða sá, sem á vegum eigandans hefur umráð þess, leggja fram gögn um að ökutækið hafi verið tollafgreitt og tryggt lögmæltri vátryggingu. Samkvæmt 93. gr. umferðarlaga hvílir vátryggingarskylda skv. 91. og 92. gr. sömu laga á eiganda ökutækisins eða þeim sem hefur varanlega umráð þess.
Í máli þessu er ekki ágreiningur um að stefnandi keypti umræddan vélsleða af stefnda og leikur því ekki vafi á því að stefnandi var eigandi sleðans. Samkvæmt framangreindum laga- og reglugerðarákvæðum hvílir meginábyrgð og skyldur við skráningu og vátryggingu sleðans á eiganda hans, stefnanda í máli þessu. Upplýst er í málinu að stefnandi tók sleðann í notkun án þess gæta lagafyrirmæla um að festa skráningarmerki á hann. Rennir sú staðreynd stoðum undir þá fullyrðingu stefnda að stefnandi hafi sjálfur ætlað að annast skráningu og vátryggingu sleðans. Þar sem stefnanda hefur ekki gegn andmælum stefnda tekist að færa sönnur á að stefndi hafi tekið að sér skyldur eiganda í þessum efnum, ber að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.
Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda 200.000 krónur í málskostnað.
Dómsorð:
Stefndi, Bifreiðar og landbúnaðarvélar hf., skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Kára Elíassonar í máli þessu.
Stefnandi greiði stefnda 200.000 krónur í málskostnað.