- Uppsögn
- Kjarasamningur
|
Fimmtudaginn 10. desember 2015. |
Nr. 297/2015.
|
Flugfélagið Atlanta ehf. (Anton B. Markússon hrl.) gegn Erni Ísleifssyni (Karl Ó. Karlsson hrl.) |
Uppsögn. Kjarasamningur.
Ö, sem starfað hafði sem flugmaður hjá F ehf., höfðaði mál á hendur félaginu og krafðist annars vegar viðurkenningar á rétti til skaðabóta vegna ólögmætrar uppsagnar og hins vegar launa í veikindaforföllum. Samkvæmt svokölluðum starfsaldursreglum átti að fara eftir starfsaldurslista við ráðningar og uppsagnir flugmanna þegar þeim væri fjölgað eða fækkað eftir þörfum F ehf. Var talið leiða af þeim að ekki væri heimilt að segja flugmanni upp af öðrum ástæðum en að viðkomandi hefði sýnt af sér misfellur í starfi eða stórfelldar ávirðingar utan þess. Í þeim tilvikum þyrfti umsögn starfsráðs að liggja fyrir áður en til uppsagnar kæmi. Í kjölfar þess að Ö féll á flughermisprófi 3. nóvember 2012 var honum sagt upp störfum að fenginni umsögn starfsráðs. Í málinu lágu fyrir nokkur læknisvottorð sem kváðu á um óvinnufærni Ö. Það fyrsta var frá 18. nóvember 2012 þar sem fram kom að Ö hefði verið óvinnufær frá 2. þess mánaðar. Var vottorðið lagt til grundvallar enda hefði því ekki verið hnekkt af hálfu F ehf. með matsgerð eða á annan hátt. Af því leiddi að Ö hefði verið veikur á þeim degi er hann þreytti prófraunina. Var því ekki talið að uppsögnin yrði réttlætt með vísan til frammistöðu hans í prófinu. Voru kröfur Ö því teknar til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. apríl 2015. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi eru starfsaldursreglur flugmanna Air Atlanta Icelandic/Flugfélagsins Atlanta ehf. hluti af kjarasamningi Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) og áfrýjanda. Samkvæmt þeim reglum skal fara eftir starfsaldurslista flugmanna við ráðningar og uppsagnir þeirra þegar þeim er fjölgað eða fækkað eftir þörfum áfrýjanda. Að því er varðar uppsagnir af öðrum ástæðum er í 11. grein starfsaldursreglanna fjallað um misfellur í starfi. Þar kemur fram að flugmaður (eða FÍA fyrir hans hönd) eða áfrýjandi geti leitað umsagnar starfsráðs samkvæmt reglunum um aðvörun, starfsbann um stundarsakir, stöðulækkun eða uppsögn flugmanns ef hann „vanrækir skyldur sínar eða gerist sekur um aðrar misfellur í starfi, eða stórfelldar ávirðingar utan starfs“. Einnig segir að ekki sé heimilt að segja flugmanni upp starfi fyrr en umsögn starfsráðs liggur fyrir. Af þessu ákvæði leiðir að áfrýjanda er óheimilt að segja flugmanni upp starfi nema hann hafi sýnt af sér misfellur í starfi eða stórfelldar ávirðingar utan þess.
Áfrýjandi hefur vefengt gildi læknisvottorðs 18. nóvember 2012 þar sem stefndi var talinn óvinnufær frá 2. þess mánaðar. Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi hafði læknirinn, sem gaf út vottorðið, haft stefnda til meðferðar nokkru áður og þekkti því til heilsufars hans. Jafnframt ræddi læknirinn við stefnda í síma 14. nóvember 2012, auk þess sem læknirinn hafði upplýsingar frá starfsbróður sínum sem skoðaði stefnda degi síðar. Þá voru í kjölfarið ítrekað gefin út læknisvottorð þar sem stefndi var metinn óvinnufær. Að þessu gættu verður vottorðið 18. nóvember 2012 lagt til grundvallar, enda hefur því ekki verið hnekkt af hálfu áfrýjanda með matsgerð eða á annan hátt.
Með þessum athugasemdum og að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Flugfélagið Atlanta ehf., greiði stefnda, Erni Ísleifssyni, 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 27. janúar 2015.
Mál þetta, sem dómtekið var 17. desember 2014, höfðaði stefnandi, Örn Ísleifsson, Helgugrund 5, Reykjavík, hinn 21. nóvember 2013 gegn stefnda, Flugfélaginu Atlanta ehf., Hlíðasmára 3, Kópavogi.
Kröfur stefnanda í málinu eru þær að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé skaðabótaskylt gagnvart stefnanda vegna ólögmætrar uppsagnar á ráðningarsamningi aðila 22. nóvember 2012. Stefnandi krefst þess jafnframt að stefnda verði dæmt til þess að greiða honum 6.106.710 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.017.785 krónum frá 3. júní 2013 til 1. júlí 2013, af 2.035.570 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2013, af 3.053.355 krónum frá þeim degi til 2. september 2013, af 4.071.140 krónum frá þeim degi til 1. október 2013, af 5.088.925 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2013, en af 6.106.710 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess, óháð úrslitum málsins, að stefnda verði dæmt til að greiða honum málskostnað.
Kröfur stefnda í málinu eru þær að félagið verði sýknað af öllum dómkröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.
I
Stefnandi er fæddur 1956 og hefur alla sína starfsævi starfað sem flugmaður. Í fyrstu flaug stefnandi flugvélum í innanlandsflugi en síðan starfaði hann sem flugmaður á Boeing 737-200/300 og 400 og síðar á Airbus 310-300/600 breiðþotum Íslandsflugs í millilandaflugi, en þangað mun hann hafa verið fastráðinn 1. ágúst 1998. Íslandsflug sameinaðist stefnda á árinu 2005. Við sameininguna varð stefnandi starfsmaður stefnda. Á árinu 2009 hlaut stefnandi þjálfun á Boeing 747-400 breiðþotur stefnda og hefur hann flogið þeirri flugvélartegund síðan.
Dagana 5.-7. apríl 2012 hlaut stefnandi reglubundna þjálfun í Frankfurt í Þýskalandi, sem lauk með svokölluðu OPC-prófi Operators proficiency check en prófið var venju samkvæmt þreytt í flughermi. Prófið þreytti stefnandi 7. apríl. Niðurstaða prófsins var fall. Hinn 15. sama mánaðar fékk stefnandi viðbótarþjálfun og þreytti síðan flughermisprófið að nýju daginn eftir. Stóðst stefnandi prófið.
Hinn 3. nóvember 2012 fór stefnandi í reglubundið flughermispróf, svonefnt LPC-próf, í Jeddah, Sádi-Arabíu. Prófdómari sá sem umsjón hafði með prófinu mat frammistöðu stefnanda ófullnægjandi og var niðurstaða prófraunarinnar fall. Sama útkoma var hjá þeim flugstjóra sem þreytti prófraunina ásamt stefnanda. Í skýrslu prófdómarans voru sett fram eftirgreind tilmæli til stefnda vegna stefnanda: „QRH READING INSTRUCTIONS, 2 TRAINING SIMULATOR SESSIONS“.
Stefnandi hélt í fyrstu kyrru fyrir í Jeddah. Mun stefnandi hafa vænst þess að settur yrði upp þjálfunartími í flughermi og að í framhaldinu myndi hann gangast undir aðra prófraun. Nokkrum dögum síðar var stefnanda hins vegar afhent ferðaplan og honum tilkynnt af yfirflugstjóra stefnda að hann skyldi halda heim til Íslands. Flaug stefnandi til Íslands 8. nóvember 2012 með viðkomu í Brussel. Flugstjóri sá sem þreytti fyrrnefnda prófraun ásamt stefnanda, og féll einnig, mun hafa gengist undir frekari þjálfun og endurtökupróf, sem hann stóðst, áður en stefnandi hélt heim.
Með bréfi 7. nóvember 2012 óskaði stefnda eftir því, í samræmi við 11. gr. starfsaldursreglna flugmanna stefnda, að starfsráð félagsins gæfi umsögn vegna fyrirhugaðrar uppsagnar stefnanda. Hinn 21. sama mánaðar komst meirihluti starfsráðs að þeirri niðurstöðu í umsögn sinni að stefnda væri heimilt að víkja stefnanda úr starfi „... vegna ítrekaðra misfellna hans í starfi, sem fólust í ítrekuðu falli á flughermisprófum.“
Í kjölfar niðurstöðu starfsráðs tilkynnti stefnda stefnanda með bréfi 22. nóvember 2012 að ráðningarsamningi stefnanda væri sagt upp og að hann væri leystur undan vinnuskyldu á uppsagnarfresti. Í bréfinu var meðal annars til þess vísað að stefnandi hefði „... áður verið formlega áminntur vegna ósæmilegs háttarlags í tengslum við starf þitt og AAI átalið mjög framkomu og háttsemi þína í starfi. Þar sem frammistaða þín í starfi sem flugmaður og í þjálfun hefur ítrekað verið með þeim hætti að ekki telst fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru samkvæmt reglum félagsins sem og þeim mælikvörðum (lögum/reglugerðum) sem félagið starfar eftir, segir félagið þér hér með upp störfum.“
Með bréfi 23. nóvember 2012 óskaði stefnda eftir áliti Flugmálastjórnar Íslands á því atriði í bókun fulltrúa Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA), vegna umsagnar starfsráðs, hvort tæma þyrfti rétt, sem getið er um í flugrekstrarhandbók stefnda, til að ljúka prófi í flughermi áður en til uppsagnar kæmi. Í svarbréfi Flugmálastjórnar 29. sama mánaðar sagði meðal annars að: „Flugrekstrarhandbók og kröfurnar í tilgreindum reglugerðum ná því ekki til almennrar skyldu flugrekanda gagnvart starfsmönnum/flugliðum eða öfugt t.d. um ráðningarsamband.“
Stefnandi mótmælti uppsögninni bréflega 14. desember 2012. Mótmælti stefnandi sérstaklega gildi bréfs sem stefnda mun hafa afhent honum 15. mars 2012, sem stefnandi kvað „... annars vegar hafa að geyma tilvísun til marga ára gamals atviks þegar ég var við störf hjá Íslandsflugi og hins vegar tilhæfulausar og órökstuddar ávirðingar í minn garð, sem ég andmælti á fundi með Atlanta sama dag og bréfið var afhent.“ Þá sagði stefnandi það rangt, sem haldið væri fram í bréfi stefnda frá 22. nóvember 2012, að frammistaða hans í starfi sem flugmaður hefði ekki verið samkvæmt reglum stefnda. Enn fremur vísaði stefnandi til þess að áður en hann hefði gengist undir þjálfun í nóvember 2012 hefði hann verið í sambandi við lækni og að fyrir lægi læknisvottorð sem staðfesti óvinnufærni stefnanda á ritunardegi bréfsins, og einnig áður en honum var sagt upp störfum. Umsögn starfsráðs byggðist því á röngum forsendum.
Eftir að atvik máls gerðust hafa læknisvottorð reglulega verið gefin út varðandi heilsufar stefnanda. Liggja vottorðin, sjö að tölu, frammi í málinu. Í öllum vottorðunum er stefnandi sagður óvinnufær með öllu. Upphaf veikindatímabils stefnanda samkvæmt elsta vottorðinu, sem útgefið var 18. nóvember 2012, miðast við 2. þess mánaðar.
II
Stefnandi segir viðurkenningarkröfu sína byggjast á því að uppsögn hans hafi verið óheimil og ólögmæt. Kveðið sé á um það í gildandi kjarasamningi FÍA og stefnda, gr. 2.9, að starfsaldursreglur stefnda séu hluti af kjarasamningi aðila. Samkvæmt grein 2.15.14 sé gagnkvæmur uppsagnarfrestur í tilviki stefnanda fimm mánuðir miðað við mánaðamót. Í 3. gr. starfsaldursreglna komi fram að gera skuli númeraðan starfsaldurslista með nöfnum allra fastráðinna flugmanna stefnda. Í 5. gr. starfsaldursreglnanna sé síðan kveðið á um að miðað skuli við starfsaldurslista meðal annars við uppsagnir, en af því leiði að þeim sem neðst sé á lista, með hæsta starfsaldursnúmer, sé sagt fyrst upp störfum. Þegar stefnanda hafi verið sagt upp hafi hann verið nr. 40 á listanum af þeim 110 flugmönnum sem þá hafi verið starfandi hjá stefnda samkvæmt kjarasamningi FÍA.
Af gildandi kjarasamningi og starfsaldursreglum leiði að flugmanni verði ekki sagt upp á undan öðrum neðar á starfsaldurslista, nema hann hafi gerst sekur um svo vítavert brot á starfsskyldum sínum að það réttlæti fyrirvaralausa brottvikningu úr starfi samkvæmt meginreglu vinnuréttar þar um, eða að um hafi verið að ræða ítrekað brot á starfsskyldum, að undangenginni árangurslausri áminningu starfsmanns. Hvorugu hafi verið fyrir að fara í tilviki stefnanda.
Meginreglur kjarasamnings FÍA og stefnda feli það í sér að starfsöryggi fastráðinna flugmanna sé afar vel tryggt. Því sé hvorki heimild né svigrúm fyrir stefnda til þess að segja flugmönnum upp störfum nema að uppfylltum ströngum skilyrðum. Við fastráðningu sé gengið út frá því að um æviráðningu sé að ræða, svo fremi sem ekki komi til uppsagnar vegna samdráttar, þess að viðkomandi flugmaður viðhaldi ekki starfsréttindum sínum eða alvarlegs brots í starfi. Reglurnar hafi það í för með sér að stefnda geti ekki sagt flugmönnum upp störfum að geðþótta, án rökstuðnings og án heimildar í ákvæðum kjarasamnings, loftferðalögum, reglugerðum settum samkvæmt þeim eða eftir atvikum flugrekstrarhandbók stefnda. Tekur stefnandi sérstaklega fram hvað það síðastnefnda varðar að bókin sé hluti af flugrekstrarleyfi stefnda og innskrifuð í kjarasamning aðila að því marki sem hún samræmist öðrum réttarheimildum.
Í kafla 2.10 í kjarasamningi aðila, sem fjalli um menntun og réttindi, sé sérstaklega tilgreint að flugliðar, þ.m.t. flugmenn, skuli hafa fullgild starfsskírteini, útgefin af flugmálastjórn. Í gr. 2.10.4 skuldbindi stefnda sig til þess að veita flugliðum sínum alla þá þjálfun sem krafist sé af flugmálastjórn Íslands vegna endurnýjunar eða frekari starfsréttinda. Í gr. 2.10.5 komi fram að flugliðar skuli sækja og stunda þau námskeið sem stefnda stofni til vegna viðhalds- eða viðbótarmenntunar þeirra í starfi og gangast undir próf sé þess óskað. Samkvæmt gr. 2.2 skuldbindi flugliðar sig til þess að láta stefnda í té kunnáttu sína og reynslu. Stefnda, sem aðili kjarasamningsins, skuldbindi sig samkvæmt ákvæðinu til þess að fara eftir lögum og reglum sem gildi um störf flugliða svo og flugrekstrarfyrirmælum stefnda, enda brjóti þau fyrirmæli ekki í bága við kjarasamninginn. Um stöðu kjarasamningsins og ákvæða hans vísar stefnandi til 1. gr. laga nr. 55/1980 og ákvæða laga nr. 80/1938.
Stefnandi bendir á að stefnda hafi gilt flugrekstrarleyfi á Íslandi, útgefið af Flugmálastjórn Íslands. Í flugrekstrarleyfinu sjálfu segi að það sé veitt í samræmi við ákvæði loftferðalaga nr. 60/1998 og tilvitnaðar reglur sem settar hafi verið samkvæmt lögunum. Þess sé sérstaklega getið í flugrekstrarleyfinu að „skylt [sé] leyfishafa að haga flugrekstri sínum í samræmi við áðurnefnd lög, reglugerðir settar samkvæmt þeim og viðauka 6 við ICAO samninginn, sem og reglur og fyrirmæli Flugmálastjórnar Íslands, ásamt reglum sem um geti í flugrekstrarhandbók og viðhaldsbók leyfishafa og samþykktar hafi verið af Flugmálastjórn Íslands“.
Flugmönnum hjá stefnda beri að gangast undir, og standast, próf í flughermi til þess að viðhalda atvinnuflugmannsskírteini sínu. Að vori og hausti, eða á sex mánaða fresti, fari fram svonefnt OPC-próf í flughermi, sem standi fyrir „Operators proficiency check“, sem grundvallist á þeim sérkröfum er stefnda sem flugrekandi geri samkvæmt flugrekstrarhandbók félagsins. Árlega að hausti fari fram LPC- eða TPC- próf í flughermi sem standi fyrir „Licence proficiency check“ eða „Type proficiency check“. Um þau próf gildi kröfur og reglur flugmálayfirvalda á Íslandi. Heimilt sé að framkvæma LPC- og OPC-próf í sömu atrennu og sé framkvæmdin á þann veg.
Samkvæmt 31. gr. loftferðalaga nr. 60/1998 sé ráðherra falið að ákveða með reglugerð hvaða skilyrðum flugliðar skuli fullnægja, meðal annars um menntun og þjálfun og um útgáfu skírteina því til staðfestu. Með reglugerð nr. 401/2008 um skírteini flugliða á flugvél, sem sett hafi verið á grunni nefnds lagaákvæðis, hafi verið innleidd í fylgiskjali I „JAR-FCL 1, 7. breyting“, útgefin af Flugöryggissamtökum Evrópu, JAA, á árinu 2006. Reglugerðin hafi að geyma ítarleg ákvæði um það hvaða skilyrði þurfi að vera uppfyllt til þess að fá útgefið skírteini flugliða á flugvél, og einnig um endurnýjun þess. Í fylgiskjali I sé meðal annars að finna 1. viðbæti við JAR-FCL 1.240 og 1.295 sem beri yfirskriftina „Færnipróf og hæfnipróf til tegundar/flokksáritunar/flugvél og atvinnuflugmannsskírteinis 1. flokks (ATPL)“. Í b-lið 3. töluliðar 1. viðbætis við JAR-FCL 1.240 og 1.295 segi svo: „Fyrir fjölstjórnarflugvélar (MPA): Umsækjandi skal standast alla hluta færniprófs/hæfniprófs. Falli umsækjandi í fleiri en 5 atriðum verður hann að taka allt prófið aftur. Umsækjandi sem fellur í 5 atriðum eða færri verður að taka þau atriði aftur sem hann féll í. Falli umsækjandi í einhverju atriði upptökuprófs, þar með talin þau atriði sem hann stóðst í fyrri tilraun, verður hann að taka allt prófið aftur.“
Í 4. tölulið segi síðan: „Eftir fall á færniprófi/hæfniprófi kann að vera þörf á frekari þjálfun. Hafi umsækjandi ekki staðist alla hluta prófsins eftir tvær tilraunir er krafist frekari þjálfunar samkvæmt nánari ákvörðun prófdómara. Gera má ótakmarkaðan fjölda tilrauna til að ná færniprófi/hæfniprófi.“
Flugrekstrarhandbók stefnda sæki stoð sína og grundvöll til reglugerðar nr. 1263/2008 um flutningaflug flugvéla, með síðari breytingum, sem sett hafi verið á grundvelli ákvæða loftferðalaga nr. 60/1998. Í viðauka I í reglugerðinni, sem hafi að geyma viðauka III við reglugerð ráðsins (EB) nr. 859/2008, sé í P-kafla fyrirmæli um handbækur, leiðabækur og skrár stefnda sem flugrekanda. Þar sé meðal annars mælt fyrir um að flugrekandi skuli sjá til þess að flugrekstrarhandbók hafi að geyma öll fyrirmæli og allar upplýsingar sem nauðsynlegar séu til þess að starfsfólk geti sinnt skyldustörfum sínum. Flugrekandi skuli sjá til þess að efni flugrekstrarhandbókar, þ.m.t. allar breytingar og leiðréttingar, brjóti ekki í bága við skilyrði flugrekandaskírteinis eða gildandi reglugerðir og að flugmálayfirvöld geti fallist á efni hennar eða samþykkt. Sérstaklega sé áskilið að í D-hluta flugrekstrarhandbókar skuli vera öll fyrirmæli um þjálfun starfsfólks sem krafist sé fyrir örugga starfrækslu. Frekari fyrirmæli um þjálfun og próf sé enn fremur að finna í N-kafla viðauka I við reglugerð nr. 1263/2008, nánar tiltekið OPS 1.965.
Flugrekstrarhandbók stefnda, sem hafi að geyma flugrekstrarfyrirmæli stefnda, sé á ensku og beri heitið „Operation Manual“. Kafli 3.2, sem sé í D-hluta flugrekstrarhandbókarinnar, beri yfirskriftina „Unsatisfactory Progress in Training and Checking“. Í kaflanum sé ítarlega fjallað um það hvernig með skuli fara ef frammistaða flugmanns á prófi sé ófullnægjandi. Í gr. 3.2.1 sé tekið fram að undir þeim kringumstæðum skuli taka flugmann af skrá þar til endurþjálfun og/eða endurtökuprófi sé lokið. Um próf í flughermi sé fjallað sérstaklega í gr. 3.2.1.2 Þar sé skýrt kveðið á um að flugmaður, sem falli í flughermi í fimm atriðum eða færri, skuli endurtaka prófið hvað varði þau atriði sem hann hafi fallið í. Endurtökuprófið skuli tekið í sama próftíma, en ef ekki sé tími til þess skuli prófið endurtekið eins fljótt og mögulegt sé. Falli flugmaður í fleiri atriðum en fimm skuli hann endurtaka allt prófið. Um endurtökupróf sé fjallað í gr. 3.2.1.3 Falli flugmaður í fimm atriðum eða færri í endurtökuprófi í flughermi þá skuli hann endurtaka prófið varðandi þau atriði sem hann féll í, annaðhvort í sama próftíma, sé þess kostur, en ella eins fljótt og kostur sé á. Falli flugmaður í einhverju þessara atriða í endurtökuprófi nr. 2 sé litið svo á að hann hafi fallið í flughermisprófi. Framhald málsins sé þá í höndum yfirflugstjóra, að gættum þeim atriðum sem rætt sé um í ákvæðinu. Af þessu megi vera ljóst að ákvæði flugrekstrarhandbókar stefnda sé að þessu leyti efnislega samhljóða fyrrgreindum ákvæðum um fyrirkomulag prófrauna í flughermi í reglugerð nr. 401/2008, um skírteini flugliða. Um nánari útlistun á fyrirkomulagi prófa í flughermi vísar stefnandi til fylgiskjals með bréfi stjórnar FÍA til starfsráðs frá 21. nóvember 2012.
Stefnandi kveðst hafa gengist undir OPC-prófraun í flughermi 7. apríl 2012. Hann hafi ekki staðist þá prófraun að mati prófdómara og hafi endurtökupróf því verið sett upp 16. apríl 2012. Þá prófraun hafi stefnandi staðist í hvívetna. Þessi framgangsmáti hafi allur verið í samræmi við áðurraktar reglur og rétt stefnanda. Með þessu hafi lokið OPC-prófraun stefnanda umrætt sinn. Engar athugasemdir eða viðbrögð hafi komið fram af hálfu stefnda gagnvart stefnanda í tilefni af þessari prófraun. Ófullnægjandi fyrri tilraun þessarar OPC-prófraunar hafi þannig hvorki ítrekunaráhrif né önnur réttaráhrif gagnvart lögboðinni síðari LPC-haustprófraun stefnanda, enda hafi stefnandi haldið áfram að starfa sem flugmaður hjá stefnda frá því að OPC-prófrauninni lauk vorið 2012, í samræmi við gildandi flugreglur og fyrirliggjandi vaktskrá.
Stefnandi hafi síðan gengist undir LPC-prófraun 3. nóvember 2012. Niðurstaða hennar hafi verið fall. Í stað þess að veita stefnanda í framhaldinu þjálfun og tækifæri til endurtökuprófs, í samræmi við fyrirmæli prófdómara Flugmálastjórnar Íslands, sem stefnda hafi verið skuldbundið að lögum og samkvæmt kjarasamningi til að veita stefnanda, hafi stefnda fyrirvaralaust hrundið af stað atburðarás fyrir starfsráði, kryddaða dylgjum og ósannindum. Þetta hafi stefnda gert á meðan stefnandi hafi enn verið staddur í Jeddah í þeim eina tilgangi að hrekja hann úr starfi, en um leið freista þess að klæða uppsögnina í lögmætan búning. Synjun stefnda á að veita stefnanda þjálfun og endurtökupróf undir þeim kringumstæðum verði ekki varin, hvorki með vísan til stjórnunarréttar atvinnurekanda né á grundvelli þess málatilbúnaðar stefnda að flugrekstrarhandbók séu leiðbeiningarreglur sem flugrekandi hafi frjálst val um að túlka, eða með öðrum framkomnum rökum stefnda.
Þá niðurstöðu meirihluta starfsráðs, að stefnandi hafi gerst sekur um misfellur í starfi í skilningi 11. gr. starfsaldursreglna stefnda með ítrekuðu falli í flughermi, kveður stefnandi ekki eiga við nokkur rök að styðjast. Þeirri niðurstöðu sé harðlega mótmælt af hálfu stefnanda. Af hans hálfu séu áréttuð mótmæli við þeim rakalausu dylgjum sem stefnda hafi fært fram fyrir starfsráði í bréfum 7. og 20. nóvember 2012. Áminningarbréfi frá 15. mars 2012 sé enn fremur mótmælt, en bréfið hafi ekkert vægi gegn málatilbúnaði stefnanda. Áminningin hafi verið tilefnislaus, auk þess sem hún uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar séu í vinnurétti til áminninga. Hafi stefnda talið að stefnandi hefði með einhverju móti vanrækt skyldur sínar í starfi sem flugmaður eða í tengslum við þjálfun þá hefði borið að áminna stefnanda sérstaklega vegna þess. Athugasemdir og dylgjur varðandi störf og þjálfun stefnanda, bornar fram eftirá, séu hins vegar að engu hafandi.
Í málinu segir stefnandi liggja frammi nokkur læknisvottorð sem kveði á um óvinnufærni stefnanda frá 2. nóvember 2012 að telja. Fyrst sé að nefna vottorð Grímu Huldar Blængsdóttur læknis frá 18. nóvember 2012. Sá læknir hafi veitt vottorðið eftir samtal við stefnanda, enda hafi legið fyrir að læknirinn hafði haft stefnanda til skoðunar og meðferðar og ráðlagt honum hvíld frá störfum. Fyrri veikindi stefnanda nokkrum árum áður, sem stefnda hafi verið fullkunnugt um, hafi spilað hér inn í, en stefnandi hafi verið frá störfum af þeim sökum í allnokkurn tíma. Þessu til viðbótar hafi rannsókn á árinu 2013 leitt í ljós að stefnandi glími við, og hafi glímt við, kæfisvefn á alvarlegu stigi. Stefnda hafi vísað framlögðum læknisvottorðum skýringarlaust á bug og án þess að gera nokkra tilraun til þess að leita upplýsinga um veikindi stefnanda, svo sem fyrir milligöngu trúnaðarlæknis. Ekki verði hins vegar fram hjá því litið við úrlausn málsins að læknisvottorðunum hefur ekki verið hnekkt.
Viðurkenningarkröfu sína kveður stefnandi setta fram með vísan til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kröfunni, enda hafi hin ólögmæta uppsögn þegar leitt til tjóns fyrir stefnanda og muni hún fyrirsjáanlega leiða til mikils tjóns fyrir hann. Umfang tjónsins liggi hins vegar ekki fyrir, enda muni það meðal annars ráðast af því hvort og þá hvenær stefnandi verði vinnufær til flugmannsstarfa á ný, verandi orðinn 57 ára gamall.
Fjárkröfu sína segir stefnandi grundvallast á gr. 2.12.4, sbr. gr. 2.11.2, í gildandi kjarasamningi FÍA og stefnda. Í gr. 2.12.4 sé kveðið á um að komi til uppsagnar flugliða af hálfu stefnda skuli uppsögnin á engan hátt skerða rétt flugliða meðal annars til greiðslna samkvæmt gr. 2.11.2 vegna veikinda er verði áður en starfstíma hans ljúki. Í grein 2.11.2 sé mælt fyrir um veikindarétt flugliða, en réttur til launa í veikindaforföllum nemi „fullum launum“ í allt að 14 mánuði. Óumdeilt sé að með fullum launum sé átt við kjarasamningsbundin mánaðarlaun, ásamt bifreiðastyrk og 33% álagsgreiðslu samkvæmt gr. 2.15 Áður en uppsögn stefnanda bar að hafi hann framvísað læknisvottorði til sönnunar um óvinnufærni. Þá hafi hann í kjölfar uppsagnar lagt fram frekari læknisvottorð. Veikindaréttur stefnanda verði ekki skertur með uppsögn. Starfstíma flugmanns, sem sé á uppsagnarfresti, geti þar að auki ekki talist vera lokið fyrr en að kjarasamningsbundnum uppsagnarfresti liðnum. Ákvörðun stefnda að leysa stefnanda undan vinnuskyldu á uppsagnarfresti breyti þar engu um. Síðasta launagreiðsla sem stefnda hafi innt af hendi hafi verið vegna aprílmánaðar 2013. Stefnandi, sem sé og hafi verið óvinnufær, hafi framvísað læknisvottorðum til stefnda sem kveði á um samfellda óvinnufærni frá 2. nóvember 2012. Stefnda hafi kosið að virða þau að vettugi. Hvað sem líði niðurstöðu um lögmæti eða ólögmæti uppsagnar stefnanda séu samkvæmt framangreindu í vanskilum gjaldfallin kjarasamningsbundin laun í veikindaforföllum stefnanda frá og með maí 2013 að telja.
Með hliðsjón af framangreindu sundurliðist fjárkrafa stefnanda þannig að mánaðarlaun í veikindaleyfi nemi 713.570 krónum, bifreiðastyrkur á mánuði 68.737 krónum og 33% álag 235.478 krónum. Mánaðarlaun stefnanda nemi því samtals 1.017.785 krónum. Í málinu krefjist stefnandi launa í sex mánuði, þ.e. fyrir maí til október 2013, eða samtals 6.106.710 króna.
Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi til meginreglna samningaréttar og vinnuréttar um samningsfrelsi, skuldbindingargildi samninga, efndabætur, réttaráhrif kjara- og ráðningarsamninga, stjórnunarrétt atvinnurekanda, uppsagnir ráðningarsamninga og vanefndaúrræði vegna ólögmætra uppsagna. Jafnframt vísar stefnandi til meginreglna kröfu- og skaðabótaréttar, einkum um lögfylgjur ólögmætra uppsagna og skaðabætur.
Þá vísar stefnandi sérstaklega til gildandi kjarasamnings Félags íslenskra atvinnuflugmanna og stefnda, sem hann segir ráðningarkjör sín hafa miðast við. Ennfremur vísar hann til loftferðalaga nr. 60/1998 og settra reglugerða samkvæmt þeim, einkum nr. 401/2001 um skírteini flugliða á flugvél og nr. 1263/2008 um flutningaflug flugvéla.
Vaxtakröfu sína segir stefnandi byggjast á III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Um upphafsdag dráttarvaxtakröfu vísist til gr. 2.15.8 í gildandi kjarasamningi. Málskostnaðarkröfu reisir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. og lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
III
Stefnda segir það meginmálsástæðu stefnda fyrir sýknu að félaginu hafi verið fyllilega heimilt að segja upp ráðningarsamningi sínum við stefnanda, líkt og félagið hafi gert 22. nóvember 2012. Uppsögnin hafi verið lögmæt, enda hafi hún grundvallast á málefnalegum sjónarmiðum og verið í samræmi við reglur vinnuréttar og gildandi kjarasamnings.
Stefnda bendir sérstaklega á að stefnandi hafi allan sinn feril starfað sem flugmaður. Fullyrðir stefnda að stefnandi hafi gert nokkrar tilraunir til þess að verða flugstjóri, án árangurs. Vekur stefnda enn fremur á því athygli að af þeim 76 flugmönnum sem séu fyrir neðan stefnanda á starfsaldurslista sé 35 flugstjórar í dag. Því sé ljóst að framganga stefnanda í starfi hafi ekki verið í samræmi við þann uppgang sem gert sé ráð fyrir í kjarasamningi stefnda og FÍA.
Stefnandi hafi fengið réttindi til að fljúga flugvélartegundinni Boeing 747-400 í janúar 2010. Hann hafi einkum flogið þeirri flugvélartegund fyrir Saudi Arabian Airlines, bæði með farþega og frakt. Stefnda, sem flugrekanda, beri að leggja fram flugrekstrarhandbók til notkunar og leiðbeiningar fyrir starfsfólk flugrekstrarsviðs. Hvað varði tilgang og fyrirkomulag flugrekstrarhandbókar segi svo í gr. 8.b í IV. viðauka við reglugerð EB nr. 216/2008, um sameiginlegar reglur um almenningsflug og um stofnun Flugöryggisstofnunar Evrópu, sem innleidd hafi verið með reglugerð nr. 812/2012: „Rekstur í ábataskyni og starfræksla flókinna, vélknúinna loftfara skal einungis fara fram í samræmi við flugrekstrarhandbók flugrekandans. Slík handbók skal hafa að geyma öll nauðsynleg fyrirmæli, upplýsingar og verklag fyrir loftför, sem starfrækt eru, og fyrir starfsfólk flugrekstrarsviðs þannig að það geti sinnt skyldustörfum sínum. Tilgreina skal takmarkanir sem gilda um flugtíma, flugvaktir og hvíldartíma fyrir flugverja. Flugrekstrarhandbókin og síðari endurskoðun hennar verða að samrýmast samþykktri flughandbók og er breytt eftir því sem nauðsynlegt er.“
Í D-hluta flugrekstrarhandbókar stefnda, sem beri heitið þjálfunarhandbók (e: Operation Manual Part D) sé fjallað um þjálfun flugliða. Samkvæmt gr. 4.1.2 skuli flugliðar undirgangast hæfnispróf, svokallað OPC (Operators proficiency check), á sex mánaða fresti. Fyrsta hæfnispróf stefnanda eftir að hafa öðlast réttindi til að fljúga B747-400 hafi verið í maí 2010. Um haustið sama ár, nánar tiltekið 25. nóvember, hafi stefnandi þreytt fyrsta LPC-flughermisprófið, en gildistími þess sé tólf mánuðir. Við sama tækifæri hafi hann undirgengist öðru sinni OPC-próf. Árið 2011 hafi stefnandi tekið sömu próf, þ.e. OPC í júní og LPC og OPC í nóvember. Í apríl 2012 hafi svo aftur verið komið að því hjá stefnanda að fara í upprifjunarþjálfun og flughermispróf, OPC. Þjálfun og próftaka hafi farið fram í Frankfurt í Þýskalandi. Þjálfunin hafi lýst sér í því að dagana 5. og 6. apríl hafi stefnandi tekið þjálfunartíma í flughermi, fjórar klukkustundir í hvort skipti, samtals átta klukkustundir. Hinn 7. sama mánaðar hafi stefnandi síðan þreytt flughermispróf. Líkt og fram komi í umsögn þjálfunarflugstjórans, Robin Willetts, hafi niðurstaðan verið fall. Atriði þau sem leitt hafi til falls stefnanda séu reifuð í framlagðri skýrslu þjálfunarstjórans „Unsatisfactory Proficiency Report“. Á fremstu síðu skýrslunnar, undir liðnum „athugasemdir“, séu tilgreind þau atriði sem leitt hafi til falls stefnanda. Nánari útlistun á þeim atriðum sé svo að finna á blaðsíðu tvö í skýrslunni, sem og tillögur þjálfunarstjórans um endurþjálfun stefnanda.
Í samræmi við kafla 3.2 í Flugrekstrarhandbók, OM-D, sem lýsi verklagi stefnda þegar um er að ræða ófullnægjandi framfarir í þjálfun eða árangur í prófum, hafi verið ákveðið að stefnandi færi í viðbótarþjálfun með það fyrir augum að endurtaka flughermisprófið. Þjálfunin hafi farið fram í flughermi dagana 15. og 16. apríl 2012. Endurtökuprófið hafi stefnandi þreytt í seinni tímanum og hafi hann þá staðist prófið. Eins og framlögð flugliða „log-bók“ stefnanda sýni hafi hann flogið rúmlega 255 klukkustundir á B747-400 á tímabilinu 17. apríl til 8. október 2012. Í nóvember sama ár, nánar til tekið dagana 2. og 3. þess mánaðar, hafi verið komið að reglubundinni flughermisþjálfun og prófi, OPC og LPC, hjá stefnanda og hafi þjálfunin farið fram í flughermi í borginni Jeddah í Sádí-Arabíu.
Það sé mat stefnda að þjálfun og próftaka stefnanda hefði átt að ganga áfallalaust fyrir sig umrætt sinn, ekki síst vegna þeirrar viðbótarþjálfunar sem stefnandi hafi fengið einungis fimm mánuðum áður. Reyndin hafi hins vegar orðið sú að stefnandi féll á flughermisprófinu, sbr. framlagða „skýrslu um ófullnægjandi færni“ frá 3. nóvember 2012 sem þjálfunarflugstjórinn Jóhann Gylfi Kristinsson hafi unnið í tilefni af falli stefnanda. Frammistaða stefnanda í flughermisprófinu hafi reynst með öllu ófullnægjandi. Stefnandi hafi í prófinu gert sig sekan um mistök sem eigi og megi hreinlega ekki sjást hjá atvinnuflugmanni. Sem dæmi megi nefna það atriði að fara ekki eftir þeirri grundvallarreglu að lesa gátlista fyrir flugtak, en þau mistök hafi leitt til þess að vængbörð voru uppi í flugtaksbruni. Stefnda telji mistök af þessum toga óafsakanleg með öllu og segi í raun allt sem segja þurfi um vanhæfni stefnanda sem flugmanns. Hvað sem öðru líði sé alveg ljóst að frammistaða stefnanda í prófinu hafi verið langt frá þeim lágmörkum og kröfum sem gerðar séu samkvæmt reglum stefnda, sem og þeim lögum og reglugerðum sem félagið starfi eftir. Stefnda vilji undirstrika að félagið hafi gefið flugmönnum, sem hafa fallið á flughermisprófi, tækifæri til þess að þreyta prófið að nýju að undangenginni viðbótarþjálfun. Sú leið hafi verið reynd í tilviki stefnanda. Þá telji stefnda rétt að benda á þá staðreynd að einungis 3 af þeim 115 flugmönnum stefnda, sem séu félagsmenn í FÍA, hafi fallið í flughermisprófum á árinu 2012, eða innan við 3% þeirra sem þreytt hafi prófin. Stefnandi hafi hins vegar fallið í tveimur af þeim þremur prófum sem hann hafi þreytt árið 2012, eða í 66% tilvika.
Í ljósi sögu stefnanda sem flugmanns hjá stefnda og fyrri þjálfunum hafi stefnda tekið þá ákvörðun að ekki þjónaði hagsmunum félagsins að senda stefnanda í frekari þjálfun. Á því sé byggt af hálfu stefnda að yfirflugstjóri og stjórnendur stefnda hafi ákvörðunarvald um hvernig bregðast skuli við ítrekuðu falli flugmanna og hver viðbrögð skuli vera ef þeir standi sig ekki í starfi. Slíkar ákvarðanir séu ekki í höndum þjálfunarflugstjóra, þótt þeir geti vissulega komið með sínar tillögur. Með öðrum orðum þá liggi endanlegt ákvörðunarvald um viðbrögð við ítrekuðu falli flugmanna stefnda hjá stjórnendum félagsins.
Stefnda segir alrangt að félagið hafi meinað stefnanda að þreyta endurupptökupróf í flughermi. Staðreyndin sé sú að stefnandi hafi ekki átt rétt á að þreyta endurtökupróf í flughermi eftir að hafa fallið, enda hvergi getið um skilyrðislausan rétt til endurtöku, hvorki í kjarasamningum né lögum og reglum sem stefnda starfi eftir og sé skylt að fylgja. Hvað D-hluta flugrekstrarhandbókar stefnda áhræri, sem meðal annars fjalli um þjálfun og prófraunir í flughermi, sé áhersla lögð á að um sé að ræða almennar vinnureglur félagsins sem samþykktar séu af Flugmálastjórn Íslands. Því sé alfarið hafnað að túlka beri reglurnar svo að þær veiti flugmanni skilyrðislausan rétt til endurtökuprófa í flughermi, þrátt fyrir ítrekað fall og augljósa vankunnáttu. Slíkar ákvarðanir liggi hjá stjórnendum og yfirflugstjóra félagsins. Bendi stefnda á að ábyrgð stjórnenda sé mikil í þessu sambandi og talsvert ríkari en almennt gerist, sbr. ákvæði 141. gr. loftferðalaga. Stefnda telji að túlka beri reglurnar svo að þær gefi leiðbeiningar um hvernig þjálfun skuli háttað í tengslum við fall, taki félagið ákvörðun um að slíkt þjóni tilgangi með hliðsjón af frammistöðu flugmanns í fyrri þjálfunum, prófum og starfi, þeim gríðarlega ríku almannahagsmunum sem í húfi séu, og varði öryggissjónarmið, og síðast en ekki síst með hagsmuni félagsins fyrir augum.
Vegna bókunar fulltrúa FÍA í starfsráði með umsögn ráðsins vegna fyrirhugaðrar uppsagnar stefnanda hafi stefnda ritað Flugmálastjórn Íslands bréf 23. nóvember 2012 og óskað álits stofnunarinnar á ákveðnum álitaefnum. Efni svarbréfs Flugmálastjórnar, dags. 29. sama mánaðar, segir stefnda taka af allan vafa hvað það álitaefni varði hvort stefnandi hafi átt rétt til endurtökuprófs eða ekki. Flugmálastjórn telji réttinn ekki vera fyrir hendi, enda taki handbókin ekki á reglum vinnuréttarins. Í handbókinni sé fjallað um það hvernig þjálfun skuli háttað og verklag þegar árangur í prófum sé ófullnægjandi. Lengra nái handbókin ekki. Ákvörðunarvald um það hvernig bregðast skuli við falli og um réttinn til endurtökuprófs sé alfarið í höndum flugrekanda, enda hluti af stjórnunarrétti hans. Samkvæmt íslenskum vinnurétti sé stjórnunarréttur vinnuveitanda ríkur og sæti ekki takmörkunum nema skýrar heimildir mæli fyrir um slíkt.
Stefnda mótmælir sérstaklega þeirri fullyrðingu stefnanda að fastráðning samkvæmt kjarasamningi FÍA jafngildi æviráðningu. Stefnda sé með öllu fyrirmunað að skilja hvernig stefnandi kemst að þeirri niðurstöðu en ekkert í kjarasamningi aðila gefi tilefni til jafn víðtækrar og frjálslegar túlkunar. Áréttar stefnda að endanlegt ákvörðunarvald varðandi það hvaða flugmenn séu við stjórnvölinn í flugstjórnarklefum véla stefnda sé hjá félaginu sjálfu. Enginn flugmaður geti í krafti stéttarfélags og kjarasamnings krafist þess að halda starfi eftir ítrekaðar falleinkunnir í flughermi og augljósa vankunnáttu til að bregðast við krefjandi aðstæðum. Áréttar stefnda í þessu sambandi að starfsemi félagsins lúti ekki að léttvægum hagsmunum. Þvert á móti sé ábyrgð stefnda gríðarlega mikil, enda um að ræða líf og heilsu allt að 500 einstaklinga í hverri flugferð. Í því ljósi verði að gera þá skýlausu kröfu að við stjórnvölinn í flugstjórnarklefa flugvéla félagsins séu ávallt flugmenn sem geti brugðist við óvæntum og krefjandi aðstæðum og tilvikum sem upp geti komið, og það sem öllu máli skipti, sýnt rétt viðbrögð í neyðartilvikum. Þá ítrekar stefnda þá ríku ábyrgð og skyldur sem félagið beri gagnvart Flugmálastjórn og lúti að því að öllum kröfum um flugöryggi í starfsemi og daglegum rekstri félagsins sé framfylgt í hvívetna.
Stefnda segir ákvörðun um að segja upp ráðningarsamningi stefnanda hafi fyrst og fremst verið grundvölluð á vankunnáttu stefnanda sem flugmanns og því samdóma áliti stjórnenda og fagaðila, sem metið hafi hæfni hans, að áframhaldandi starf hans í flugstjórnunarklefa ógnaði flugöryggi í starfsemi félagsins. Að mati stefnda sé ekki forsvaranlegt að fela stefnanda þá miklu ábyrgð sem því fylgi að annast stjórn og eftirlit í flugstjórnarklefa um borð í vélum félagsins. Af þeim sökum beri að sýkna stefnda af viðurkenningarkröfu stefnanda.
Stefnda kveðst mótmæla sem röngum þeim staðhæfingum, lýsingum málavaxta, málsástæðum og öðrum röksemdum sem haldið sé fram í stefnu. Í því sambandi nefnir stefnda sérstaklega staðhæfingar um eðli og gildi ráðningarsambands aðila, um heimildir vinnuveitanda til að segja upp ráðningarsamningi, eðli og inntak stjórnunarréttar vinnuveitanda, sem og viðleitni stefnanda til að telja dómnum trú um að réttarstaða hans í skilningi kjarasamnings og starfsaldursreglna, með hliðsjón af meginreglum íslensks vinnuréttar, sé önnur og ríkari en raunin sé.
Enn fremur kveðst stefnda mótmæla því að leggja beri til grundvallar að stefnandi njóti betri réttar en kveðið sé á um í kjarasamningi og leiða megi af meginreglum íslensks vinnuréttar. Hvernig stefnandi komist að þeirri niðurstöðu að flugrekstrarhandbók stefnda sé innskrifuð í kjarasamning aðila sé stefnda með öllu fyrirmunað að skilja, enda verði ekki séð að sú staðhæfing fái stoð í fyrirliggjandi gögnum. Henni sé því alfarið mótmælt sem rangri og ósannaðri.
Stefnda segir að einnig beri að sýkna félagið af fjárkröfu stefnanda. Sú krafa sé á því reist að stefnandi eigi rétt til fullra launa í veikindaforföllum frá og með maí 2013 að telja. Kröfunni til stuðnings vísi stefnandi til læknisvottorðs sem gefið hafi verið út 18. nóvember 2012, en í vottorðinu komi fram að stefnandi hafi verið „100% óvinnufær vegna veikinda“ frá 2. nóvember 2012. Samkvæmt því hafi stefnandi verið óvinnufær í skilningi kjarasamnings þegar honum hafi verið sagt upp starfi 22. nóvember það ár. Stefnda kveðst alfarið mótmæla því að stefnandi hafi verið óvinnufær í skilningi kjarasamnings er honum var sagt upp störfum. Læknisvottorð það sem stefnandi vísi til getur aldrei talist lögfull sönnun fyrir líkamlegu og/eða andlegu ástandi stefnanda á þeim tíma sem þjálfun og próf fóru fram, þ.e. dagana 2. og 3. nóvember 2012. Það sem dragi úr sönnunargildi vottorðsins sé sú staðreynd að 31. október 2012 hafi stefnandi ferðast frá Íslandi til Frankfurt í Þýskalandi. Hinn 2. nóvember sama ár hafi stefnandi verið staddur í Jeddah, Sádi-Arabíu, en þann dag hafi hann þreytt þjálfun í flughermi. Ekkert sé fram komið í málinu sem bendi til þess að heilsufar stefnanda hafi verið slíkt umræddan dag að hann hafi verið ófær um að sinna starfi sínu eða að öðru leyti ekki í ástandi til að undirgangast þjálfun. Verði stefnandi að bera hallann af þeim sönnunarskorti. Enn dragi úr sönnunargildi vottorðsins sú staðreynd að eiginleg læknisskoðun á stefnanda hafi ekki farið fram fyrr en tveimur vikum eftir að hann varð óvinnufær með öllu samkvæmt vottorðinu. Slíkt sé bersýnilega á skjön við ákvæði 11. gr. þágildandi læknalaga, sbr. 19. gr. laga nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn, sem öðlast hafi gildi 1. janúar 2013. Áreiðanlegar heilsufarsupplýsingar um stefnanda hafi þannig ekki legið til grundvallar við mat á vinnufærni hans 2. nóvember 2012, einvörðungu upplýsingar frá stefnanda sjálfum. Stefnandi fullyrði sjálfur í bréfi til stefnda, dags. 17. nóvember 2012, að hann hafi verið óvinnufær er hann gekkst undir þjálfunina. Að mati stefnda sýni þau ummæli vel hversu ótrúverðugur og ósannfærandi málatilbúnaður stefnanda sé í raun og veru. Samhliða því að fullyrða að hann hafi verið óvinnufær, bæði er hann hafi verið við þjálfun og þegar hann þreytti prófið 2. og 3. nóvember 2012, haldi hann því því einnig staðfastlega fram að hann hafi rétt á að endurtaka flughermisprófið að undangenginni viðbótarþjálfun, sbr. tölvubréfasamskipti stefnanda við starfsmann stefnda 5. nóvember 2012. Í ljósi þessa sé ekki óeðlilegt að stefnda spyrji hvort það geti virkilega verið svo að stefnandi hafi ekki áttað sig á því, eða verið ófær um að meta, hvort hann væri veikur.
Þá er einnig á því byggt af hálfu stefnda að réttur stefnanda til veikindalauna hafi ekki stofnast í skilningi kjarasamnings. Með bréfi 7. nóvember 2012 til starfsráðs FÍA og stefnda hafi félagið óskaði eftir umsögn ráðsins um ákvörðun um uppsögn ráðningarsamnings stefnanda, sbr. 11. gr. starfsaldurslista flugmanna stefnda. Í erindinu hafi verið tíundaðar helstu ástæðurnar að baki ákvörðun stefnda. Hinn 19. sama mánaðar hafi FÍA skilað umsögn sinni til starfsráðs ásamt athugasemdum stefnanda. Við mat á því við hvort tímamarkið eigi að styðjast, varðandi upphaf meintra veikinda stefnanda annars vegar og uppsögn ráðningarsamnings hins vegar, beri að miða við það tímamark þegar stefnda hafi kunngjört ákvörðun sína um uppsögn ráðningarsamnings, þ.e. hinn 7. nóvember 2012. Á því tímamarki hafi ákvörðun stefnda legið fyrir. Ákvæði kjarasamnings, sem kveði á um skyldu vinnuveitanda til að leita umsagnar starfsráðs áður en ákvörðun um uppsögn öðlist gildi, breyti þar engu um. Á sama tímamarki hafi starfstíma stefnanda í skilningi ráðningarsambands aðila lokið.
Stefnda kveðst undirstrika í því sambandi sem hér um ræði að stefnandi hafi látið hjá líða að tilkynna stefnda um meint veikindi sín, líkt og honum beri skylda til samkvæmt kjarasamningi, er meint veikindi hófust 2. nóvember 2012. Slík tilkynning starfsmanns til vinnuveitanda sé nauðsynleg og grundvallarforsenda þess að hann geti notið réttinda í veikindum samkvæmt ákvæðum kjarasamnings. Fyrir liggi að stefnandi hafi aldrei upplýst stefnda um hin meintu veikindi, en félagið hafi fyrst haft af þeim spurnir í umsögn FÍA og athugasemdum stefnanda, dagsettum 19. nóvember 2012, í tengslum við málsmeðferðina fyrir starfsráðinu. Þegar af þeirri ástæðu geti stefnandi aldrei notið réttar í fjarvistum vegna veikinda samkvæmt ákvæðum kjarasamnings. Samkvæmt framlögðum gögnum megi ráða að stefnandi hafi fyrst við framangreint tímamark upplýst um hin meintu veikindi og svo virðist sem stefnandi hafi þá fyrst gert að því reka að afla sér læknisvottorðs vegna meintra veikinda. Á þeim tíma er læknisvottorðsins var aflað hafi stefnandi því ekki sinnt vinnuskyldu í þágu stefnda, enda hafi komið í ljós að efni vottorðsins hafi verið ætlað að upplýsa um liðin atvik. Með engu móti sé hægt að fallast á það að dómkröfur stefnanda í máli þessu verði reistar á slíkum málatilbúnaði.
Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnda til meginreglna íslensks vinnuréttar um stjórnunarrétt atvinnurekanda og heimild til uppsagnar ráðningarsamnings vegna augljósrar vankunnáttu starfsmanns í starfi. Jafnframt vísar stefnda til ákvæða ráðningarsamnings aðila og kjarasamnings FÍA og stefnda. Þá sé vísað til loftferðalaga nr. 60/1998 og reglugerða samkvæmt þeim nr. 1263/2008 og nr. 401/2001. Loks vísi stefnda til 11. gr. þágildandi læknalaga nr. 53/1988, sbr. 19. gr. laga nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn.
IV
Mál þetta hefur stefnandi höfðað samkvæmt áðursögðu annars vegar til viðurkenningar á rétti til bóta vegna meintrar ólögmætrar uppsagnar á ráðningarsamningi og hins vegar til innheimtu launa í veikindaforföllum.
Í málinu liggja frammi sjö læknisvottorð þar sem kveðið er á um algera óvinnufærni stefnanda. Upphaf veikindatímabils stefnanda samkvæmt elsta vottorðinu, útgefnu 18. nóvember 2012, miðast við 2. þess mánaðar. Miða öll hin vottorðin við sama upphafsdag veikindatímabilsins. Stefnda hefur í málinu vefengt gildi vottorðsins frá 18. nóvember 2012 og heldur því fram að líta beri fram hjá vottorðinu með öllu.
Í vottorðinu frá 18. nóvember 2012 kemur fram að stefnandi hafi tilkynnt lækni um veikindi sín 14. nóvember 2012 og að skoðun læknis hafi farið fram degi síðar. Útgefandi vottorðsins, Gríma Huld Blængsdóttir yfirlæknir, kom fyrir dóm við aðalmeðferð málsins. Skýrði hún vottorðið og staðfesti gerð þess og efni. Fram kom hjá vitninu að stefnandi hefði fyrst leitað til vitnisins í lok apríl 2012 vegna ýmissa kvilla. Stefnandi hefði kvartað undan þreytu, slappleika og sleni, en einnig [...]. Kom fram að vitnið hefði kynnt sér fyrirliggjandi gögn um sjúklinginn. Við blóðrannsókn hefði komið í ljós að stefnandi var með allt of háan blóðsykur og hann verið greindur með sykursýki 2. Blóðþrýstingur stefnanda hefði einnig verið of hár. Hefði vitnið sett stefnanda á lyf við hvoru tveggja. Þá hefði vitnið greint stefnanda með „hrotur“, sem vitnið tók sérstaklega fram að væru sjúkdómslýsing en ekki sjúkdómsgreining. Vegna þessa hefði vitnið útbúið beiðni fyrir stefnanda um að fram færi rannsókn á því hvort stefnandi væri með kæfisvefn. Vitnið sagðist hins vegar ekki vita til þess að stefnandi hefði gengist undir slíka rannsókn á grundvelli beiðninnar. Vitnið kvaðst hafa gefið vitninu ýmsar leiðbeiningar um hvernig það skyldi taka á vandamálum sínum og meðal annars nefnt þann möguleika að fara til dvalar á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði. Vitnið sagði stefnanda hafa komið að nýju til þess í júní 2012. Vitnið hefði þá slegið sjúkdómsgreiningu sinni fastri og ítrekað meðferðarheldni við stefnanda.
Fram kom hjá Grímu Huld Blængsdóttur að hún hefði ekki sjálf skoðað stefnanda 15. nóvember 2012, það hefði Ingvar Ingvarsson læknir gert. Vottorð vitnisins frá 18. nóvember 2012 byggðist þrátt fyrir það meðal annars á niðurstöðum þeirrar skoðunar sem vitnið hefði kynnt sér. Vottorðið hefði einnig grundvallast á samtali læknisins við stefnanda degi áður þar sem stefnandi hefði lýst ýmsum sjúkdómseinkennum sem fallið hefðu vel að sjúkrasögu hans. Á grundvelli alls framangreinds hefði vitnið komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi hefði verið veikur 2. nóvember 2012, eins og hann hafi sjálfur haldið fram, og eftir það tímamark verið óvinnufær með öllu vegna [...].
Einnig kom fyrir dóm við aðalmeðferð málsins Ingvar Ingvarsson, heimils- og fluglæknir. Hann er útgefandi sex vottorða sem öll eiga það sammerkt að segja til um algera óvinnufærni stefnanda frá 2. nóvember 2012. Eru vottorðin gefin út á tímabilinu frá 11. janúar 2013 til 21. janúar 2014. Staðfesti vitnið gerð og efni vottorðanna. Ástæðu óvinnufærni stefnanda kvað vitnið aðspurt fyrst og fremst vera [...], sem vitnið sagði hafa versnað á tímabilinu. Staðfesti vitnið að stefnandi hefði greinst með kæfisvefn á því tímabili sem vitnið hefur haft stefnanda til meðferðar, sbr. einnig vottorð Kristbjargar Leósdóttur hjúkrunarfræðings, dags. 18. júlí 2013, þar sem hún staðfestir, fyrir hönd Landspítala-háskólasjúkrahúss, að stefnandi hafi verið greindur með kæfisvefn. Að endingu greindi vitnið Ingvar frá því að stefnandi hefði á nýliðnu sumri lagst inn á sjúkrastofnun eftir að hafa reynt sjálfsvíg.
Af framburði vitnisins Robin Willetts þjálfunarflugstjóra, sem umsjón hafði með prófraun stefnanda í Frankfurt 7. apríl 2012, var ljóst að vitnið hafði eftir próftöku stefnanda ákveðnar áhyggjur af honum. Þá var augljóst af framburði vitnanna Jóhanns Gylfa Kristinssonar þjálfunarflugstjóra og Guðlaugs Inga Sigurðssonar flugstjóra að upplifun þeirra af prófraun þess síðarnefnda og stefnanda í Jedda 3. nóvember 2012 var allt önnur en stefnanda, sem fyrir dómi sagði niðurstöðu prófraunarinnar ekki hafa verið í samræmi við tilfinningu hans. Guðlaugur Ingi var hins vegar afdráttarlaus um það að niðurstaðan hefði ekki verið neitt annað en fall. Þá bar Jóhann Gylfi, í samræmi við áðurgreindan framburð stefnanda og Guðlaugs Inga, að það hefði virst koma stefnanda mjög á óvart, og honum verið brugðið, þegar hann hefði verið upplýstur um niðurstöðu prófsins. Guðlaugur Ingi hefði hins vegar verið meðvitaður um að prófið hefði gengið illa.
Eitt þeirra fimm atriða sem urðu þess valdandi að stefnandi féll í prófraun þeirri sem hann þreytti í Jedda 3. nóvember 2012 var það að hann las ekki gátlista fyrir flugtak. Vængbörð voru í framhaldinu ekki sett út, próftakar byrjuðu flugtakið og fengu flugtaksviðvörun. Það er mat hins fjölskipaða dóms að þessi alvarlegu mistök, ásamt hinum atriðunum fjórum sem leiddu til falls stefnanda umrætt sinn, séu þess eðlis að með nokkrum ólíkindum sé að flugmaður með áratuga starfsreynslu, líkt og stefnandi á að baki, hafi gerst sekur um þau.
Samkvæmt öllu framansögðu er ljóst að hið umdeilda vottorð Grímu Huldar Blængsdóttur læknis frá 18. nóvember 2012 byggðist á ýmsu öðru en upplýsingum frá stefnanda sjálfum. Fyrir liggur að læknirinn hafði nokkru áður haft stefnanda til meðferðar og þekkti því til heilsufars hans. Jafnframt ræddi læknirinn við stefnanda símleiðis 14. nóvember 2012. Þá skoðaði Ingvar Ingvarsson læknir stefnanda degi síðar og hafði Gríma Huld upplýsingar um þá skoðun er hún gaf vottorð sitt út. Dómurinn telur að vætti Ingvars Ingvarssonar sé vottorði samstarfskonu hans til stuðnings, sem og að nokkru leyti sú staðreynd að Ingvar hefur, eftir að Gríma Huld gaf vottorð sitt út, sex sinnum metið stefnanda óvinnufæran með öllu, sbr. fyrirliggjandi læknisvottorð þess efnis. Þá liggur ekkert annað fyrir í málinu en stefnandi sé af læknum enn talinn óvinnufær með öllu. Vætti Jóhanns Gylfa Kristinssonar og Guðlaugs Inga Sigurðssonar þykir einnig að sínu leyti skjóta nokkrum stoðum undir þá niðurstöðu Grímu Huldar að stefnandi hafi ekki verið heill heilsu andlega er hann þreytti prófraun sína. Þá telur dómurinn að endingu ekki verða litið fram hjá eðli þeirra mistaka sem stefnanda urðu á er hann þreytti prófraunina, svo sem fyrr var getið.
Hvað varðar þau orð stefnda að stefnandi hafi ekki tilkynnt strax um veikindi sín telur dómurinn verða til þess að líta að þau veikindi stefnanda, sem að mati lækna gera hann ófæran til vinnu með öllu, eru af andlegum toga. Þá er ljóst að upplifun stefnanda á öðrum atvikum og aðstæðum á umræddum tíma var samkvæmt áðursögðu í veigamiklum atriðum ekki í takt við upplifun annarra. Að þessu gættu þykir engu geta skipt við úrlausn málsins að stefnandi hafi ekki tilkynnt um veikindi sín fyrr en rúmum hálfum mánuði eftir að hann þreytti prófraunina.
Að öllu framangreindu heildstætt virtu er það niðurstaða dómsins að ekki séu efni til þess að bera brigður á efni vottorðs Grímu Huldar Blængsdóttur læknis um algera óvinnufærni stefnanda frá 2. nóvember 2012 að telja. Þá telur dómurinn, í ljósi alls framangreinds, haldlausan þann málatilbúnað stefnda að útgáfa vottorðsins hafi farið gegn ákvæðum þágildandi læknalaga. Stefnda hefur enga haldbæra tilraun gert til þess að hnekkja vottorðinu. Af þessu leiðir að leggja verður til grundvallar við úrlausn málsins að stefnandi hafi verið veikur á þeim degi sem hann þreytti títtnefnda prófraun í Jedda 3. nóvember 2012.
Í kjarasamningi FÍA og stefnda, grein 2.9., er kveðið á um það að starfsaldursreglur stefnda séu hluti af kjarasamningi aðila. Þá liggur fyrir samkvæmt grein 2.15.14. í samningnum að gagnkvæmur uppsagnarfrestur í tilviki stefnanda er fimm mánuðir miðað við mánaðamót.
Í 3. gr. starfsaldursreglna stefnda er kveðið á um að gera skuli númeraðan starfsaldurslista með nöfnum allra fastráðinna flugmanna stefnda. Í 5. gr. reglnanna er síðan kveðið á um að miðað skuli við starfsaldurslistann, meðal annars við uppsagnir. Af þeirri reglu leiðir að við fækkun fastráðinna flugmanna stefnda skal fyrst segja upp þeim sem neðst er á starfsaldurslistanum. Upplýst er að þegar stefnanda var sagt upp störfum í nóvember 2012 var hann nr. 40 á starfsaldurslistanum af 110 flugmönnum sem þá voru starfandi hjá stefnda samkvæmt kjarasamningi FÍA.
Samkvæmt áðursögðu verður flugmanni hjá stefnda ekki sagt upp á undan öðrum neðar á starfsaldurslista, nema viðkomandi flugmaður hafi gerst sekur um svo vítavert brot á starfsskyldum sínum að það réttlæti fyrirvaralausa brottvikningu úr starfi samkvæmt meginreglu vinnuréttar þar um, ella að um hafi verið að ræða ítrekað brot flugmannsins á starfsskyldum að undangenginni áminningu. Vegna veikinda stefnanda á þeim degi sem hann þreytti prófraunina 3. nóvember 2012 verður uppsögn stefnda á ráðningarsamningi stefnanda ekki réttlætt með vísan til frammistöðu stefnanda í prófinu. Þar sem málatilbúnaður stefnda, hvað viðurkenningarkröfu stefnanda varðar, hvílir allur á niðurstöðum nefndrar prófraunar verður þegar að þessu sögðu því slegið föstu að uppsögn stefnda á ráðningarsamningi stefnanda 22. nóvember 2012 hafi verið ólögmæt. Verður því fallist á kröfu stefnanda um að viðurkennt verði að stefnda sé skaðabótaskylt gagnvart stefnanda vegna hinnar ólögmætu uppsagnar.
Í grein 2.11.2. í kjarasamningi FÍA og stefnda er kveðið á um veikindarétt flugliða, en réttur til launa í veikindaforföllum skal nema fullum launum í allt að fjórtán mánuði. Telja verður óumdeilt í málinu að með fullum launum sé átt við kjarasamningsbundin mánaðarlaun, bifreiðastyrk og 33% álagsgreiðslu samkvæmt grein 2.15. kjarasamningsins.
Í málinu liggur frammi bréf starfsmannastjóra stefnda frá 22. nóvember 2012 þar sem stefnanda var tilkynnt „... að ráðningarsamningi á milli þín og AAI er hér með sagt upp.“ Svo sem áður var rakið, sbr. framlögð læknisvottorð, hafði stefnandi er þarna var komið sögu verið óvinnufær með öllu í tuttugu daga. Þá er óumdeilt að stefnda hafði á þessum degi undir höndum læknisvottorð því til staðfestu og hefur stefnandi síðar framvísað frekari læknisvottorðum um algera óvinnufærni sína vegna veikinda. Hin ólögmæta uppsögn gat engin áhrif haft á veikindarétt stefnanda samkvæmt áðurnefndum kjarasamningsákvæðum. Fyrir liggur að stefnda greiddi stefnanda laun út apríl 2013. Samkvæmt því og með vísan til þeirra læknisfræðilegu gagna sem fyrir liggja í málinu um óvinnufærni stefnanda vegna veikinda þykir verða að fallast á fjárkröfu stefnanda, svo sem hún er fram sett í stefnu. Verður stefnda því dæmt til þess að greiða stefnanda 6.106.710 krónur ásamt dráttarvöxtum með þeim hætti sem nánar greinir í dómsorði.
Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari, ásamt meðdómsmönnunum Gísla Þorsteinssyni og Gylfa Jónssyni, fyrrverandi flugstjórum. Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt fyrirmæla 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
D Ó M S O R Ð:
Viðurkennd er skaðabótaskylda stefnda, Flugfélagsins Atlanta ehf., gagnvart stefnanda, Erni Ísleifssyni, vegna ólögmætrar uppsagnar stefnda á ráðningarsamningi aðila 22. nóvember 2012.
Stefnda greiði stefnanda 6.106.710 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.017.785 krónum frá 3. júní 2013 til 1. júlí 2013, af 2.035.570 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2013, af 3.053.355 krónum frá þeim degi til 2. september 2013, af 4.071.140 krónum frá þeim degi til 1. október 2013, af 5.088.925 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2013, en af 6.106.710 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Stefnda greiði stefnanda 1.500.000 krónur í málskostnað.