Hæstiréttur íslands
Mál nr. 305/1998
Lykilorð
- Skaðabætur
- Dýralæknar
- Skaðsemisábyrgð
|
|
Fimmtudaginn 4. mars 1999. |
|
Nr. 305/1998. |
Kristján S. Leósson (Steingrímur Þormóðsson hdl.) gegn Gunnari Erni Guðmundssyni (Hákon Árnason hrl.) |
Skaðabætur. Dýralæknar. Skaðsemisábyrgð.
Dýralæknirinn G sprautaði hest í eigu K með vítamínlyfi og féll hesturinn þá dauður niður. Í máli sem K höfðaði á hendur G til greiðslu skaðabóta, þótti ekkert komið fram sem veitti ástæðu til að draga í efa að réttu lyfi hefði verið sprautað í hestinn eða lyfið hefði skaðlega eiginleika. Þá var talið að K yrði að bera halla af því að ekki var gerð ítarlegri rannsókn á dauða hestsins en raun bar vitni og þóttu ekki vera rök fyrir því að víkja frá þeirri almennu reglu að tjónþola bæri að sanna að tjón hans yrði rakið til atvika sem vörðuðu skaðabótaskyldu. Var niðurstaða héraðsdóms um sýknu G af kröfum K staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. júlí 1998 og krefst þess að viðurkennt verði með dómi að stefndi beri skaðabótaábyrgð á því tjóni, sem áfrýjandi varð fyrir vegna dauða stóðhestsins Gjafars. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Hinn 29. maí 1996 var fyrrnefndur hestur áfrýjanda í vörslum sonar hans Sigmundar, sem virðist hafa séð um hann fyrir áfrýjanda. Sigmundur bað stefnda að sprauta hestinn með vítamíni, en sýna átti hann til kynbótadóms.
Stefndi kvaðst fyrir héraðsdómi hafa sprautað í hestinn „eitthvað á bilinu 25-30 ml“ af vítamínlyfinu Becoplex vet. Er ekkert komið fram, sem veitir ástæðu til að draga í efa að stefndi hafi notað vítamínlyf, en af hálfu áfrýjanda hefur verið leitt getum að því, að röngu lyfi kunni að hafa verið sprautað í hestinn í ógáti.
Samkvæmt gögnum málsins er Becoplex vet. óskráð sérlyf, sem má aðeins nota með sérstakri heimild. Stefndi sótti um slíka heimild og var hún samþykkt af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu 11. janúar 1996 að undangenginni jákvæðri umsögn lyfjanefndar ríkisins, sbr. 3. tölul. 3. mgr. 4. gr. lyfjalaga nr. 93/1994. Áfrýjandi staðhæfir, að lyfið, sem hestinum var gefið, hafi haft hættulega eiginleika og að dauði hans verði rakinn til þeirra. Svo sem greinir í héraðsdómi, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmanni, eru ekki þekktar neinar aukaverkanir af notkun lyfsins í hesta. Áfrýjandi hefur ekki bent á nein viðhlítandi gögn, sem benda til að þessi staðhæfing hans um skaðsemi lyfsins eigi við rök að styðjast. Bótaskylda verður því ekki felld á stefnda á grundvelli reglna um ábyrgð á tjóni, sem hlýst af hættulegum eiginleikum vöru.
II.
Fyrir Hæstarétti var því haldið fram af hálfu áfrýjanda að stefndi kunni að hafa gefið hestinum vítamínið í slagæð. Í málinu er ekkert, sem bendir til þess. Auk þess hefur áfrýjandi ekki skýrt með vísun til læknisfræðilegra gagna hver áhrif þess hefðu geta orðið.
Til stuðnings bótakröfunni heldur áfrýjandi einkum fram, að stefndi sé bótaskyldur vegna þess að honum hafi ekki tekist að sanna að dauði hestsins verði rakinn til óhapps eða annarra atvika, sem stefndi beri ekki ábyrgð á. Um það bendir hann meðal annars á, að stefndi hafi hvorki haldið til haga lyfjaglasinu, sem hann notaði í umrætt sinn, né lagt fram dagbók, þar sem greint sé frá tjónsatvikinu. Ekki verður þó séð að áfrýjandi hafi skorað á stefnda að leggja fram dagbók sína um læknisverk.
Í héraðsdómi er tekið upp meginefni krufningarskýrslu Sigurðar Sigurðarsonar, dýralæknis við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Eins og þar kemur fram var niðurstaða skýrslunnar sú, að hestur áfrýjanda hafi dáið af „Blóðrásarbilun (sjokk?)“, eins og segir orðrétt í skýrslunni. Eru málsaðilar sammála um að orðið „sjokk“ í skýrslunni merki ofnæmisviðbrögð. Áfrýjandi hefur ekki aflað álits dómkvadds manns eða annarra gagna í því skyni að leita frekari upplýsinga um orsök tjónsins. Fram er komið að hesturinn dó síðdegis 29. maí 1996. Áfrýjandi kvaðst hafa farið með hann til krufningar samdægurs. Hins vegar segir í greinargerð Sigurðar Sigurðarsonar og annars dýralæknis, sem krufði hestinn ásamt Sigurði, að hesturinn hafi verið fluttur að Keldum síðdegis 30. maí og skilinn þar eftir án þess að frekari upplýsingar fylgdu. Hafi ekki legið fyrir skrifleg beiðni um krufninguna og hafi þess vegna ekki verið litið svo á að óskað hafi verið eftir réttarkrufningu. Krufningin var gerð að morgni 31. sama mánaðar.
Áfrýjandi ákvað sjálfur að óska eftir krufningu og ber ábyrgð á því hvernig hann hagaði beiðni um rannsókn. Verður hann sjálfur að bera halla af því að ítarlegri rannsókn var ekki gerð, til dæmis með könnun á blóð- eða vefjasýni úr hræinu. Verður ekki metið stefnda til réttarspjalla að hafa ekki af sjálfdáðum hlutast til um rannsókn á tjónsatburðinum. Ekki verður heldur talið að skortur á upplýsingum úr dagbók eða lyfjaglas nægi til að leggja sönnunarbyrði á stefnda. Samkvæmt ofangreindu þykja rök ekki vera til að víkja frá þeirri almennu reglu, að tjónþola beri að sanna, að tjón hans verði rakið til atvika, sem varða skaðabótaskyldu.
Með þessum athugasemdum og að öðru leyti með skírskotun til forsenda héraðsdóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað.
Eftir atvikum er rétt að hvor aðila beri sinn málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Héraðsdómur Vesturlands 30. apríl 1998.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 17. mars sl., að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað af Kristjáni S. Leóssyni, kt.030756-3209, Presthúsabraut 25, Akranesi á hendur Gunnari Erni Guðmundssyni, kt. 171148-3409, dýralækni, Ásvegi 10, Hvanneyri og til réttargæslu á hendur Sigurði Sigurðarsyni, kt. 021039-4629, dýralækni, Keldum, Grafarholti, Vesturlandsbraut og Vátryggingafélags Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda á hendur stefnda, Gunnari Erni, eru þær, að hann verði dæmdur til að greiða stefnanda krónur 4.000.000, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 1. júlí 1996 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda ásamt virðisaukaskatti.
Engar dómkröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefndu.
Dómkröfur stefnda, Gunnars Arnar Guðmundssonar eru þær að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Af hálfu réttargæslustefnda Vátryggingarfélags Íslands eru ekki gerðar sjálfstæðar dómkröfur.
Þingsókn af hálfu réttargæslustefnda, Sigurðar Sigurðarsonar, féll niður, án þess að kröfur kæmu fram af hans hálfu.
Samkvæmt 31. gr. laga nr. 91/1991 var sakarefni skipt og málið flutt um bótaskyldu, en önnur atriði látin hvíla. Í þessum þætti málsins er einungis til úrlausnar ágreiningur um bótaskyldu stefnda.
II.
Málavextir eru þeir, að hinn 29. maí 1996 leitaði sonur stefnanda eftir aðstoð stefnda, Gunnars Arnar, og óskaði eftir að hann gæfi hesti sínum, Gjafari 5 vetra, vítamínsprautu, en sýna átti hestinn stuttu seinna til kynbótadóms. Stefndi sprautaði hestinn með B- vítamíni í æð og skömmu síðar féll hesturinn dauður niður. Nokkrum vikum áður hafði stefndi meðhöndlað hestinn vegna bólgu á fæti. Eftir þetta sprautaði stefndi hestinn með adrenalín í hjartavöðva og reyndi jafnframt að lífga hann við með hjartahnoði án árangurs.
Sigurður Sigurðarson, dýralæknir og meinafræðingur að Keldum krufði hestinn hinn 31. maí 1997. Í krufningarskýrslu dýralæknisins segir svo m.a.:„...Nokkurt blóðrennsli hefur verið fram úr nösum. Hesturinn er lítið eitt uppblásinn. Við fláningu finnast talsverðar blæðingar undir húð á hálsi, síðu og aftan við bóga beggja megin og einnig í vöðvum ofarlega á síðu milli rifja frá 8. til 12. rifs vinstra megin. Vægur bjúgvökvi er undir húð og við kjúkuliði framfóta, meira vinstra megin.
KVIÐARHOL:
Þegar kviðarhol er opnað kemur í ljós að þindin er rifin (líklega eftir dauða). Lifrað blóð er í kviðarholi, einn lítri, einkum á maga og um garnir. Lifur virðist eðlileg, milti er þrútið með nokkrum blæðingum, nýru eðlileg, kynfæri og þvagfæri eðlileg. Í maga er ekki hey eða gras en talsvert af kjarnfóðri. Röð smására eru í jaðri hvíta hlutans. Garnir eru loftfylltar og hálftómar. Dreifðar smáblæðingar eru í slímhúð mjógarna aftarlega, annars eru þær eðlilegar. Ekki sést missmíði á æðum. Eitlar eru eðlilegir.
BRJÓSTHOL:
Í brjóstholi er talsvert (1,5-2 lítrar) af ólifruðu blóði, sem virðist hafa blætt frá æð við gollurhús. Hjarta er slappt og fullt af blóði, hjartavöðvi fremur ljós. Lungu eru bjúgfull með dreifðar blæðingar. Ólifrað blóð er í barka og berkjum.
HÖFUÐ:
Slímhúð nashols er blóðþrungin og með smáblæðingum. Heili var tekinn út og athugaður. Heilaæðar eru þandar en hvergi blæðingar að sjá með berum augum.
VEFJASKOÐUN:
Teknir voru bitar úr hjarta, lungum, maga og heila til herðingar í 10% formalín. Talsverður bjúgur, blóðfylling og blæðingar sjást við smásjárskoðun á lungum, blóðfylling í æðum heilans og heilahimna og smáblæðingar um háræðar í heila og mænukylfu. Í maga eru átusár meðfram kirtlahluta. Hjartavöðvi virðist eðlilegur.
NIÐURSTAÐA:
Blóðrásarbilun („sjokk”?).”
Ekki fór fram efna- og lyfjarannsókn á blóði hestsins.
III.
Við yfirheyrslur fyrir dómi kom fram hjá stefnda, að hann hafi sprautað hestinn með u.þ.b. 30 ml af B-koplex vítamíni. Kvaðst hann hafa sprautað hestinn í æð, frekar en í vöðva eða undir húð, til þess að minnka hættu á bólgum í vöðvakerfinu, sem hugsanlega gætu truflað hreyfingu dýrsins. Kvaðst hann hafa orðið við þessari ósk sonar stefnanda, þar sem hann hafi talið það gott fyrir hestinn eftir langa þjálfun hans. Stefndi kvaðst hafa borið sig þannig að við verkið, að hann hefði verið með lyfið í sprautunni og nálina á sprautunni er hann fór inn í stíuna til hestsins. Sigmundur, sonur stefnanda, hélt hestinum. Stefndi kvaðst hafa haldið um háls hestsins til þess að fá blóðfyllingu í æðina og síðan stungið hestinn í æð. Hann kvaðst hafa sogað aðeins blóð inn í sprautuna til að kanna hvort hann væri á réttum stað með nálina og sprautað síðan lyfinu í hestinn.
Skömmu eftir að þeir stefndi og Sigmundur fóru út úr stíunni tóku þeir eftir að hesturinn var óstyrkur. Stefndi teymdi hestinn út úr stíunni og hné þá hesturinn niður. Stefndi reyndi þá að hnoða brjóstkassa hestsins með fótunum, en án árangurs. Stefndi kvaðst þá hafa gefið hestinum adrenalín og síðar lóbelín. Við það hafi hesturinn andað betur, en aðeins í stuttan tíma. Stefndi reyndi að hnoða hestinn áfram, en án árangurs.
IV.
Stefnandi byggir kröfur sínar á hendur stefnda, Gunnari Erni, dýralækni, á því að hann hafi valdið dauða hestsins með gáleysislegum vinnubrögðum. Innihald sprautunnar hafi valdið dauða hestsins, sem drepist hafi nær strax eftir að hann var sprautaður. Byggir stefnandi á því, að þegar sá sem valdi tjóni hafi betri möguleika á að tryggja sér sönnun beri honum að gera það. Sönnunarbyrði hvíli því á stefnda um það annars vegar, að eitri hafi ekki verið sprautað í ógáti í hestinn og hins vegar, að efnið hafi ekki orsakað tjónið. Stefndi hafi borið að tryggja sér sönnun, svo sem með því að afhenda syni stefnanda þegar í stað sprautuna og sjá til þess að dreggjar hennar yrðu efnagreindar og einnig að blóð hestsins yrði efna- og lyfjagreint. Stefndi hafi hins vegar ekkert gert til þess að sanna sakleysi sitt. Þá hafi hann í engu liðsinnt stefnanda um það hvernig hann ætti að bera sig að varðandi beiðni um rannsókn á hestinum.
Þá bendir stefnandi á, að í krufningarskýrslu sé látið að því liggja, að hesturinn hafi fengið blóðrásarsjokk, en þandar heilaæðar bendi einnig til þess, að hestinum hafi verið gefið efni í æð, sem leitt hafi til dauða hestsins.
Til vara byggir stefnandi á því, verði komist að því að hestinum hafi verið gefið vítamín í æð, að slíkt sé ekki venjulegt. Stefndi hafi því átt að vara við slíkri inngjöf, sé hún ekki hættulaus eða gefa frekari upplýsingar og bera það síðan undir stefnanda eða son hans, hvort þeir samþykktu slíka innvortisgjöf. Stefndi sé sérfræðingur á sviði dýralækninga og hafi því átt að búa yfir þekkingu um hættumöguleika aðgerðar sinnar. Stefnandi og sonur hans hafi því treyst því að hesturinn fengi hættulausa meðhöndlun. Byggir stefnandi á því, að jafnvel þó komist verði að því, að hestinum hafi verið gefið vítamín í æð, þá sé ljóst að það hafi valdið dauða hestsins, en slík vinnubrögð stefnda við þessar aðstæður hafi verið ólögmæt.
Verði stefndi, Gunnar, sýknaður af kröfum stefnanda á þeim grundvelli að krufningarskýrslan sýni ekki á ótvíræðan hátt að hestinum hafi verið gefið efni, sem ekki hafi mátt gefa honum eða af þeirri ástæðu að ekki hafi farið fram efna- og lyfjarannsókn á blóði hestsins, þá sé ljóst að vinnubrögð réttargæslustefnda, Sigurðar, verði að teljast óviðunandi og gálaus. Geti því svo farið að stefnandi eigi bótakröfu á hendur Sigurði og af þeirri ástæðu sé honum réttargæslustefnt í málinu.
V.
Stefndi, Gunnar, byggir sýknukröfu sína á því, að hann beri ekki skaðabótaábyrgð á dauða hests stefnanda, þar sem skilyrði skaðabótaábyrgðar séu ekki fyrir hendi. Samkvæmt krufningarskýrslu hafi hrossið drepist vegna blóðrásarbilunar eða „sjokks”. Þetta séu þekkt ofnæmisviðbrögð, en mjög fátíð. Þessi viðbrögð hestsins séu ekki á ábyrgð stefnda heldur stefnanda sjálfs.
Stefndi heldur því fram að í norrænum rétti sé rík hefð fyrir því, að um skaðabótaábyrgð sjálfstætt starfandi sérfræðinga, eins og dýralækna, fari að reglum skaðabótaréttar utan samninga. Bótagrundvöllurinn sé sakarreglan og byggir stefndi á því að hann hafi með því að gefa hesti stefnanda B-vítamín í æð ekki gerst sekur um saknæma og ólögmæta háttsemi. Stefnandi byggir á því að það hafi verið fullkomlega eðlilegt og venjulegt að gefa hrossi stefnanda B-vítamín, enda um það beðið af syni stefnanda og á engan hátt á færi stefnda að sjá á hestinum fyrirfram að hann fengi „skyndiofnæmi”, sem leiddi til blóðrásarbilunar við vítamíngjöfina.
Stefndi heldur því fram, að sönnunarbyrðin um skilyrði skaðabóta hvíli óskipt á stefnanda og ekki sé lagagrundvöllur eða dómvenja fyrir því að velta sönnunarbyrðinni af stefnanda yfir á stefnda. Stefnanda hefði verið í lófa lagið að tryggja sér nákvæmari rannsókn á hrossinu eftir dauða þess, ef hann hefði gefið krufningardýralækninum fyrirmæli um það eða látið í ljós sérstakar óskir um einstakar rannsóknir.
Stefndi byggir og á því, að stefndi hafi sönnunarbyrðina fyrir því að stefndi hafi ekki framkvæmt vítamíngjöfina réttilega og ekki hefur verið sýnt fram á að saknæmt hafi verið af hálfu stefnda að gefa hrossinu vítamín í æð svo sem gert hafi verið. Algengt muni vera að gefa hrossum vítamín með þessum hætti og lítil hætta því samfara. Stefnandi verði að sanna að um handvömm stefnda hafi verið að ræða við læknisverkið.
Stefndi mótmælir aðdróttunum stefnanda í stefnu um að hann hafi jafnvel gefið hrossinu eitur.
Þá byggir stefndi á því, að ósannað sé að dauði hrossins hafi verið fyrirsjáanleg afleiðing þess að gefa hrossinu inn vítamín. Vítamíngjöf með sprautu í æð sé venjuleg og einföld aðgerð sem alla jafna hafi ekki neina hættu í för með sér. Dýralæknar megi ekki almennt gera ráð fyrir því að vítamínsprauta leiði til tjóns og því sé tjón stefnanda ekki sennileg afleiðing af dýralæknisverki stefnda. Beri að leggja á hlutrænan mælikvarða hvort vítamíngjöf almennt auki líkur á dauða hestsins. Þar sem um óvenjulega afleiðingu af vítamínsprautu sé að tefla, sem ekki hafi mátt sjá fyrir, sé því skilyrði skaðabóta að tjónsatburður skuli vera sennileg afleiðing af verknaði ekki fullnægt.
Stefndi mótmælir því, að skýrsla réttargæslustefnda, Sigurðar sé fullgild sönnun um ástæður þess að hrossið drapst, þar sem hún sé einhliða sönnunargagn, sem stefnandi hafi hlutast til um að afla án nokkurs samráðs við stefnda. Skýrslan gefi til kynna að blóðrásarbilun eða „sjokk” hafi leitt til dauða hestsins. Hins vegar sé skýrslan ekki sönnun þess að vinnubrögð stefnda við inngjöf vítamínsins hafi verið ábótavant eða mat á réttmæti þess að gefa hestinum vítamín við þessar aðstæður. Skýrslan sé því ekki sönnunargagn, sem unnt sé að leggja til grundvallar við sakarmatið og verði stefnandi að bera hallan af því að tryggja sér ekki sönnun um meinta sök stefnda.
VI.
Óumdeilt er að sonur stefnanda, sem hirti hestinn Gjafar fyrir stefnanda, óskaði eftir því við stefnda, að hann sprautaði hestinn með vítamíni í þeim tilgangi að styrkja hestinn vegna væntanlegrar sýningar. Stefndi kveðst hafa sprautað hestinn með u.þ.b. 30 ml af B-koplex vítamíni og er ekkert það fram komið í málinu, sem bendir til þess að annað lyf hafi verið notað. Vítamínið er ekki skráð hér á landi, en stefndi keypti það af Parmaco innflytjanda lyfsins. Samkvæmt framburði stefnda fyrir dómi framkvæmdi stefndi ekki nákvæma skoðun á hestinum áður en hann sprautaði hann.
Nokkrum vikum fyrir greindan atburð meðhöndlaði stefndi hestinn með bólgueyðandi lyfjum vegna bólgu á fæti, en vítamíngjöfin var ekki í neinum tengslum við þá meðferð. Það er álit hins sérfróða meðdómsmanns, að gögn málsins, þar með taldar yfirheyrslur fyrir dómi, hafi ekki sýnt fram á annað en stefndi hafi staðið að aðgerð þessari með venjubundnum hætti. Ljóst er, að hvorki lyf né læknisaðgerðir eru með öllu hættulausar. B-vítamín það, sem stefndi gaf hestinum hefur verið talið skaðlaust lyf og eru ekki þekktar neinar aukaverkanir af notkun þess í hesta, enda þótt læknisfræðilegt gildi slíkrar meðhöndlunar sé umdeilanlegt. Þá kom fram, að hestinum hafði ekki áður verið gefið B-vítamín og því hefði ekki átt að vera hætta á ofnæmisviðbrögðum. Stefnandi lét kryfja hestinn, en af þeirri skýrslu er ekki ljóst hvað orsakaði blóðrásartruflunina, sem varð hestinum að bana. Stefnandi lét ekki framkvæma ýtarlegri rannsókn á hræinu og verður því að bera hallan af því.
Með vísan til framanritaðs og niðurstöðu krufningarskýrslu er ekkert það fram komið sem bendir til þess að stefndi hafi sýnt af sér saknæma háttsemi við aðgerðina og beri þannig ábyrgð á hinum ólíklegu afleiðingum hennar. Samkvæmt því ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.
Eftir þessari niðurstöðu ber að dæma stefnanda til þess að greiða stefnda krónur 200.000 í málskostnað. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið tekið tillit til þeirrar skyldu stefnda, að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
Dóminn kváðu upp, Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari , sem dómsformaður, Arngrímur Ísberg, héraðsdómari og Páll Stefánsson, dýralæknir. Dómsuppkvaðning hefur dregist nokkuð vegna embættisanna dómsformanns.
Dómsorð:
Stefndi, Gunnar Örn Guðmundsson, er sýkn af kröfum stefnanda, Kristjáns S. Leóssonar.
Stefnandi greiði stefnda krónur 200.000 í málskostnað.