Hæstiréttur íslands

Mál nr. 619/2006


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Örorka
  • Sjúkrahús
  • Börn
  • Læknaráð
  • Sönnunarbyrði
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. október 2007.

Nr. 619/2006.

Daníel Ísak Sölvason

(Karl Axelsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.)

og gagnsök

 

Skaðabætur. Örorka. Sjúkrahús. Börn. Læknaráð. Sönnunarbyrði. Frávísun máls að hluta frá héraðsdómi. Gjafsókn.

 

Þegar móðir D hafði gengið með hann í 41 viku kom í ljós við mæðraskoðun að nær ekkert legvatn var til staðar, fóstrið sýndi smávægileg vaxtarfrávik og móðirin var með of háan blóðþrýsting. Var hún lögð inn og átti að framkalla fæðingu tveimur dögum síðar. Morguninn eftir var D tekinn með keisaraskurði. Í aðdraganda fæðingar varð D fyrir fósturköfnun. Hann var strax lagður inn á vökudeild. Fljótlega eftir fæðingu féll blóðsykur hans. Þá fékk hann krampa sem erfiðlega gekk að ráða bót á. Á fyrstu æviárum sínum fékk D ítrekað flogaköst. Fljótlega fór að bera á heilsufarsvandamálum og þroskafrávikum hjá D. Tveir læknar voru fengnir til að meta fötlun D og töldu þeir varanlegan miska hans 90 stig en varanlega örorku 100%. Talið var að leggja yrði til grundvallar, meðal annars vegna ófullnægjandi skráninga, að mistök hefðu orðið í aðdraganda fæðingar D og að Í bæri fébótaábyrgð á þeim afleiðingum sem taldar yrðu stafa af fósturköfnun. Matsmenn og   læknaráð töldu að fleiri atriði en fósturköfnun í aðdraganda fæðingar kynnu að vera orsök fyrir fötlun D. Sönnunarbyrðin fyrir því  að D hefði allt að einu orðið fyrir tjóni þótt engin mistök hefðu verið gerð hvíldi á Í. Hafði Í ekkert gert til að axla þá sönnunarbyrði. Þar sem ekki þótti fært að láta D gjalda fyrir ófullnægjandi sönnunarfærslu með því að ákveða bætur að álitum var skaðabótaskylda vegna alls þess tjóns sem umrædd fötlun hafði valdið D felld á Í. Þegar litið var til þess að D yrði til frambúðar háður aðstoð annarra um helstu athafnir daglegs lífs þótti rétt að hækka miskabætur honum til handa um 35% með vísan til þágildandi ákvæðis 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga. Krafa um annað fjártjón þótti svo vanreifuð að óhjákvæmilegt þótti að vísa henni sjálfkrafa frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Hjördís Hákonardóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir og Páll Hreinsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. desember 2006. Hann krefst þess aðallega að gagnáfrýjandi greiði sér 26.571.850 krónur með 2% ársvöxtum frá 23. september 1994 til 6. desember 2000, dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að gagnáfrýjandi greiði sér 29.828.950 krónur með 2% ársvöxtum frá 23. september 1994 til 24. febrúar 2004 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 4. mars sama ár til greiðsludags. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 9. febrúar 2007. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að dæmd fjárhæð verði lækkuð en að því frágengnu að stefnukröfur aðaláfrýjanda verði lækkaðar en málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti í báðum þeim tilvikum látin niður falla.

I.

Móðir aðaláfrýjanda, sem átti fjögur börn fyrir, kom í mæðraskoðun 23. september 1994 á Heilsuverndarstöð Reykjavíkur. Var hún gengin með aðaláfrýjanda í 41 viku. Í þessari skoðun mældist hún með of háan blóðþrýsting. Við ómskoðun kom í ljós að nánast ekkert legvatn var fyrir hendi. Þá komu fram nokkur vaxtarfrávik hjá fóstri en hreyfingar þess voru taldar góðar. Hlutfall milli höfuð- og kviðarmælinga benti þó ekki til verulegrar vaxtarskerðingar. Hjartsláttarrit af fóstri var tekið á hádegi sama dag. Var niðurstaða þess metin eðlileg. Sá læknir sem mat niðurstöðu ritsins óskaði eftir að fæðing yrði gagnsett 25. september vegna vaxtarfráviks barnsins og þess að nánast ekkert legvatn var til staðar. Fósturrit var talið eðlilegt, en grunur var meðgönguháþrýsting/meðgöngueitrun. Var móðir aðaláfrýjanda síðan lögð inn á meðgöngudeild en fósturrit var ekki tekið aftur þann dag. Í skýrslu ljósmóður er fært að kvöldi 23. september að móðir aðaláfrýjanda hafi látið vel af sér og horft á sjónvarp. Móðirin kveður að aðfaranótt 24. september hafi hún orðið vör við að engar hreyfingar væru hjá fóstrinu og kviðurinn væri glerharður. Kveðst hún hafa talað við ljósmóður á vakt sem hafi ráðlagt henni að drekka heitt te. Það hafi hins vegar ekki leitt til aukinna fósturhreyfinga. Hafi ljósmóðirin ekkert frekar hafst að þrátt fyrir að hún hafi ítrekað kvartanir sínar. Í skýrslu ljósmóður er einungis ein færsla varðandi 24. september svohljóðandi: „Svaf illa, óreglulegir samdr“. Hjartsláttarrit af fóstri var tekið um klukkan 9:20 þann 24. september. Sýndi það hjartslátt rétt yfir eðlilegum hraðamörkum með litlum eða engum breytileika. Eftir rúmlega 30 mínútur kom samdráttur og honum fylgdi djúp og sein dýfa. Þar sem fósturritið vakti grun um yfirvofandi fósturköfnun var móðir aðaláfrýjanda færð á skurðstofu. Hófst keisaraskurður klukkan 10:30 en barnið fæddist 10 mínútum síðar. Barnið var strax eftir fæðinguna lagt inn á vökudeild vegna fósturköfnunar. Þurfti það lífgunar við og mat læknir á vökudeild að drengurinn væri „mjög lélegur“. Þegar aðaláfrýjandi var tveggja til þriggja klukkustunda gamall féll blóðsykur hans og fékk hann í framhaldinu krampa. Fékk hann lyfjagjöf við því en ekki tókst að ná tökum á krömpunum fyrr en eftir tvo sólarhringa. Hann var útskrifaður af vökudeild 10. október 1994 og fannst ekkert athugavert við rannsókn á honum fyrir útskrift. Fljótlega komu þó upp heilsufarsvandamál og gekk fæðugjöf meðal annars illa. Fékk hann ítrekað flogaveikisköst. Þá komu í ljós þroskafrávik. Í niðurstöðum athugunar Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins 30. júní 2000, þegar aðaláfrýjandi var fimm og hálfs árs gamall, kemur fram að hann hafi greinst með væga þroskahömlun og hegðunarerfiðleika, auk þess sem hann sé svonefndur smáhöfði með krampasjúkdóm.

Foreldrar aðaláfrýjanda rituðu landlæknisembættinu bréf 24. október 1998 og óskuðu þess að embættið aflaði gagna þar sem þau teldu að mistök hefðu orðið við fæðingu aðaláfrýjanda og hygðust þau þess vegna hafa uppi bótakröfur. Gagnaöflun landlæknisembættisins af þessu tilefni og niðurstöðum læknaráðs, sem embættið gerði að sínum, er lýst í hinum áfrýjaða dómi.

Lögmaður aðaláfrýjanda ritaði stefnda bréf 6. nóvember 2000 þar sem þess var óskað að bótaskylda yrði viðurkennd vegna heilsubrests aðaláfrýjanda er stafaði af ætluðum mistökum starfsmanna sjúkrahússins fyrir og í aðdraganda fæðingar hans. Gagnáfrýjandi svaraði bréfinu 26. janúar 2001 og hafnaði því að viðurkenna bótaskyldu. Lögmaður aðaláfrýjanda óskaði eftir því 6. febrúar 2003 að læknarnir Jónas Hallgrímsson og Magnús Stefánsson mætu miska og örorku aðaláfrýjanda á grundvelli skaðabótalaga nr. 50/1993 vegna væntanlegrar málshöfðunar á hendur ríkinu. Er það niðurstaða matsgerðar þeirra frá nóvember 2003 að fötlun aðaláfrýjanda sé „samrýmanleg afleiðingum óheppilegra atriða, sem vitað er að hann varð fyrir seint á meðgöngu (vaxtarseinkun), fósturköfnun skömmu fyrir og/eða í fæðingu svo og blóðsykursfalls á nýburaskeiði en ekki verður hér greint á milli hvort eitthvert þessara atriða er ráðandi orsök fyrir ástandi hans í dag eða allir þættir samverkandi.“ Telja matsmenn aðaláfrýjanda alls ófæran vegna fötlunar sinnar til að sinna grunnatriðum sjálfshjálpar, hann hafi litla sem enga félagsfærni og vitsmunaþroska á „svæði meðal þroskahömlunar“. Telja þeir það nánast óhugsandi að hann nái nokkurn tímann þeim þroska að hann geti lifað utan verndaðs umhverfis. Mátu þeir varanlegan miska hans 90 stig en varanlega örorku 100%.

Aðaláfrýjandi höfðaði mál þetta 3. mars 2004 og var það þingfest degi síðar. Fyrir aðalmeðferð málsins í héraði var lagt fyrir læknaráð að svara 30 spurningum, sem lögmenn aðila voru sammála um að leggja fyrir ráðið. Eru þessar spurningar og svör læknaráðs rakin í heild í hinum áfrýjaða dómi.

Fyrir Hæstarétti lýstu lögmenn aðila því yfir að ekki væri af þeirra hálfu dregið í efa gildi þeirra álitsgerða læknaráðs sem fyrir liggja í málinu vegna þess að þar hafi komið að verki menn sem hugsanlega teldust ekki til þess hæfir.

II.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, verður staðfest sú niðurstaða hans að gagnáfrýjandi beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem aðaláfrýjandi kann að hafa orðið fyrir vegna súrefnisskorts fyrir og í aðdraganda fæðingar hans.

 Ekki er ágreiningur um þá niðurstöðu matsmanna að fötlun aðaláfrýjanda hafi leitt til 90 stiga varanlegs miska og 100% varanlegrar örorku hans. Nokkur vafi ríkir hins vegar á um hverjar séu nánari orsakir fötlunar hans og innbyrðis samhengi þeirra. Í niðurstöðu svars læknaráðs til landlæknis 22. júní 2000 segir þannig að sérfræðingum beri saman um að ekki sé hægt að útiloka að einhvern hluta einkenna þeirra sem barnið hafi, megi rekja til fósturköfnunar við eða skömmu fyrir fæðingu þess, en einn sérfræðingur telji þó að einkenni barnsins samrýmist því að næringarskortur á síðari hluta meðgöngu eigi stærri hlut að máli. Þá segir að læknaráð telji ekki víst að fötlun aðaláfrýjanda sé eingöngu vegna fósturköfnunar á síðustu klukkustundum fyrir fæðinguna þar sem næringarskortur seint í meðgöngu geti einnig verið hluti af orsökinni. Að framan er rakin niðurstaða matsgerðar þar sem tilgreind eru þrjú atriði er valdið gætu hafa fötlun aðaláfrýjanda, vaxtarseinkun í meðgöngu, fósturköfnun við fæðingu og blóðsykurfall á nýburaskeiði, en ekki greint á milli hvort eitthvert þeirra atriða sé ráðandi orsök fyrir fötlun hans eða allir þættirnir samverkandi. Í svörum læknaráðs við spurningum sem héraðsdómur beindi til ráðsins kemur fram að ráðið telur orsakir fötlunar aðaláfrýjanda margþættar og megi rekja líkamstjón hans til vaxtarskerðingar vegna lélegrar starfsemi fylgju, sennilegrar súrefnisnauðar (fósturköfnunar), lækkaðs blóðsykurs og skemmda í heila vegna flogaveiki. Telur ráðið að ekki sé hægt að útiloka að einhvern hluta einkenna aðaláfrýjanda megi rekja til fósturköfnunar við eða skömmu fyrir fæðingu. Hins vegar séu einkenni hans ekki dæmigerð fyrir afleiðingar fósturköfnunar og það afar ólíklegt að fósturköfnun sé eina orsök ástands hans. Spurningu um hvaða líkamstjóni hefði verið unnt að forða með tímanlegri viðbrögðum starfsfólks kvennadeildar svarar læknaráð á eftirfarandi hátt: „Ekki er unnt að svara þessari spurningu með haldbærum rökum ... Heilalömun ... er talin vera afleiðing fósturköfnunar í 17-24% tilfella ... Barn/fóstur, sem þegar í fósturlífi hefur orðið fyrir áfalli af einhverju tagi er líklegt til að vera viðkvæmara fyrir hvers kyns áfalli sem verður í eða við fæðingu. Tímanleg viðbrögð eru því alltaf ákjósanleg en ekki er hægt að fullyrða að jafnvel þó fæðing hefði orðið á besta hugsanlega hátt, að endanlegt ástand barns hefði orðið annað en varð.“

 Að framan var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að gagnáfrýjandi beri ábyrgð á því tjóni sem aðaláfrýjandi kann að hafa orðið fyrir vegna súrefnisskorts í aðdraganda fæðingar hans. Af framangreindri umfjöllun um niðurstöðu matsmanna og álit læknaráðs er ljóst að súrefnisskortur við fæðingu aðaláfrýjanda var til þess fallin að valda þeim miska og þeirri örorku sem staðfest var með niðurstöðu matsmanna. Hvílir sönnunarbyrði á gagnáfrýjanda fyrir því að aðaláfrýjandi hefði allt að einu orðið fyrir þessari fötlun að einhverju leyti eða öllu ef engin mistök hefðu verið gerð í tengslum við fæðingu hans. Gagnáfrýjandi hefur ekki sjálfur aflað neinna gagna til að axla þá sönnunarbyrði. Þótt ummæli í svörum læknaráðs séu á þá leið að „afar ólíklegt“ sé að fósturköfnun sé eina orsök ástands aðaláfrýjanda og héraðsdómur, sem eins og fyrr segir var skipaður sérfróðum meðdómsmönnum, telji að „óyggjandi sé“ að hluti af fötlun hans sé vegna skerts heilavaxtar í meðgöngu, hefur gagnáfrýjandi ekki sýnt fram á hver örorka aðaláfrýjanda af öðrum orsökum en súrefnisskorti við fæðingu ætti þá að teljast vera. Ekki er fært að láta aðaláfrýjanda gjalda fyrir ófullnægjandi sönnunarfærslu gagnáfrýjanda um þetta efni með því að skerða skaðabætur til handa honum með ákvörðun þeirra eftir álitum. Samkvæmt því verður að fella á gagnáfrýjanda skaðabótaskyldu vegna alls þess tjóns, sem umrædd fötlun hefur valdið aðaláfrýjanda.

III.

Aðaláfrýjandi reisir kröfugerð sína á þágildandi ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993 og niðurstöðu fyrrgreindrar matsgerðar. Er kröfugerð, jafnt í aðalkröfu sem í varakröfu, þannig sundurliðuð að krafist er bóta fyrir 90 stiga varanlegan miska samkvæmt 4. gr. laganna að viðbættri 50% hækkun samkvæmt heimild í þágildandi 1. mgr. greinarinnar, bóta fyrir varanlega 100% örorku samkvæmt 8. gr. laganna og fyrir annað fjártjón samkvæmt 1. gr. þeirra. Er aðalkrafa hans þannig fram sett að bætur, aðrar en bætur vegna annars fjártjóns, eru verðbættar miðað við desember 2000 og gerð krafa um dráttarvexti frá 6. desember það ár til greiðsludags en varakrafan er miðuð við að bætur, aðrar en fyrir annað fjártjón, séu verðbættar til febrúar 2004 en krafa gerð um dráttarvexti frá 4. mars það ár til greiðsludags. Ekki er tölulegur ágreiningur með aðilum að öðru leyti en því að gagnáfrýjandi andmælir því að krafa aðaláfrýjanda beri dráttarvexti fyrr en frá þingfestingu málsins 4. mars 2004, hann mótmælir kröfu aðaláfrýjanda um bætur vegna annars fjártjóns og kröfu hans um 50% hækkun miskabóta og loks mótmælir hann vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga eldri en frá 4. mars 2000, sem hann telur fyrnda.

Samkvæmt 15. gr. laga nr. 25/1987 skyldu skaðabótakröfur bera dráttarvexti að liðnum mánuði frá þeim degi er kröfuhafi sannanlega lagði fram þær upplýsingar sem þörf var á til þess að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta, sbr. nú hliðstætt ákvæði í  9. gr. laga nr. 38/2001. Bréfi aðaláfrýjanda til gagnáfrýjanda 6. nóvember 2000 fylgdi engin töluleg útlistun eða aðrar upplýsingar sem nauðsynlegar voru til að meta fjárhæð bóta. Eru engar upplýsingar þar að lútandi meðal gagna málsins eldri en fyrrgreind matsgerð tveggja lækna sem dagsett er í nóvember 2003. Verður að miða við yfirlýsingu gagnáfrýjanda í greinargerð hans í héraði þess efnis að ákveðin bótakrafa byggð á mati hafi ekki verið sett fram fyrr en við þingfestingu málsins í héraði. Verður aðalkröfu aðaláfrýjanda því hafnað.

Eins og að framan er rakið telja matsmenn að aðaláfrýjandi sé alls ófær um að sinna grunnþörfum sjálfshjálpar, hafi litla sem enga félagsfærni og sé haldinn vitsmunaþroska á „svæði meðal þroskahömlunar“. Sé nánast óhugsandi að hann nái nokkurn tímann þeim þroska að geta lifað utan verndaðs umhverfis. Þegar til þess er litið að aðaláfrýjandi verður til frambúðar háður aðstoð annarra um helstu athafnir daglegs lífs þykir rétt að nýta heimild þágildandi ákvæðis 1. mgr. 4. gr.  skaðabótalaga til að hækka miskabætur honum til handa um 35%.

Í héraðsstefnu gerði aðaláfrýjandi kröfu um annað fjártjón að fjárhæð 2.500.000 krónur með vísan til 1. gr. skaðabótalaga. Var sú krafa ekki reifuð í stefnunni en nánari rökstuðningur boðaður við munnlegan flutning málsins. Með hinum áfrýjaða dómi var þessari kröfu hafnað þar sem aðaláfrýjandi hefði enga grein gert fyrir því hvað í ætluðu tjóni fælist né hvernig kröfufjárhæð væri fundin. Í áfrýjunarstefnu og greinargerð aðaláfrýjanda er þessari kröfu haldið til streitu, enn án frekari reifunar. Það er fyrst með athugasemdum vegna gagnsakar 21. mars 2007 að aðaláfrýjandi lagði fram umfangsmikil gögn varðandi þennan kröfulið ásamt tölulegri útlistun. Lúta ýmis þessara gagna raunar fremur að sjúkrakostnaði en öðru fjártjóni, sbr. 1. gr. skaðbótalaga. Með þessum gögnum koma fram málsástæður að baki þessum kröfulið aðaláfrýjanda. Eru þær of seint fram komnar, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og koma því ekki til álita fyrir Hæstarétti. Er þessi kröfuliður svo vanreifaður að óhjákvæmilegt er að vísa honum ex officio frá héraðsdómi, sbr. e. lið 80. gr. laga nr. 91/1991.

Samkvæmt 2. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda fyrnast meðal annars kröfur um vexti á fjórum árum. Var fyrningu slitið með birtingu stefnu fyrir gagnáfrýjanda 3. mars 2004. Vextir af kröfu aðaláfrýjanda fram til 3. mars 2000 eru því fallnir niður fyrir fyrningu.

Samkvæmt framansögðu verður gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda 26.583.615 krónur með 2% ársvöxtum frá 3. mars 2000 til 24. febrúar 2004 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 4. mars sama ár til greiðsludags. Kröfu aðaláfrýjanda um bætur fyrir annað fjártjón verður vísað frá héraðsdómi.

Aðaláfrýjandi hefur sem fyrr segir notið gjafsóknar vegna málsins á báðum dómstigum. Er því ekki ástæða til að dæma gagnáfrýjanda til greiðslu málskostnaðar í héraði eða fyrir Hæstarétti. Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað aðaláfrýjanda þar fyrir dómi verður staðfest. Um gjafsóknarkostnað aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Gagnáfrýjandi, íslenska ríkið, greiði aðaláfrýjanda, Daníel Ísak Sölvasyni, 26.583.615 krónur með 2% ársvöxtum frá 3. mars 2000 til 24. febrúar 2004 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. mars 2004 til greiðsludags.

Kröfu aðaláfrýjanda um bætur fyrir annað fjártjón er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað aðaláfrýjanda er staðfest.

Allur gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans  700.000 krónur

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur  1. nóvember 2006.

I

Mál þetta, sem dómtekið var mánudaginn 18. september sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Sölva Sigurðssyni, kt. 210358-7149 og Sigurveigu Guðmundsdóttur, kt. 130252-7619, Kirkjuteigi 25, Reykjavík, vegna ólögráða sonar þeirra, Daníels Ísaks Sölvasonar, kt. 240994-2409, sama stað, með stefnu birtri 3. marz 2004 á hendur íslenzka ríkinu.

 

       Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefnda verði gert að greiða stefnanda skaða- og miskabætur að fjárhæð kr. 26.571.850 með 2% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 23.09. 1994 til 06.12. 2000.  Fjárhæðin beri síðan dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum frá 6.12. 2000 til 01.07. 2001, en dráttarvexti samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.  Til vara krefst stefnandi þess, að stefndi greiði skaða- og miskabætur, að fjárhæð kr. 29.828.950 með 2% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 23.09. 1994 til 24.02. 2004.  Fjárhæðin beri síðan dráttarvexti samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 04.03. 2004 til greiðsludags.

        Í báðum tilvikum er krafizt málskostnaðar að skaðlausu, að mati dómsins, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

 

       Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður úr hendi hans að mati réttarins.  Til vara er þess krafizt, að stefnukröfurnar verði stórkostlega lækkaðar, og málskostnaður verði í því tilviki látinn niður falla.

 

II

Málavextir

Málavextir eru þeir, að hinn 23. september 1994 fór móðir stefnanda, sem þá var þunguð af stefnanda, í mæðraskoðun á Heilsuverndarstöð Reykjavíkur við Barónsstíg.  Var þetta fimmta meðganga hennar.  Var hún gengin með 41 viku og komin með of háan blóðþrýsting og bjúg.  Við sónarskoðun kom í ljós, að mjög lítið legvatn var til staðar.  Tekið var fósturrit, og var móðirin í framhaldinu lögð inn á meðgöngudeild Landspítalans, meðan beðið var eftir, að pláss losnaði á fæðingargangi og hægt yrði að framkalla fæðingu. 

Móðir stefnanda kveður, að ekki hafi verið tekið fósturrit um kvöldið.  Aðfaranótt 24. september 1994 kveðst móðir stefnanda hafa orðið vör við, að engar hreyfingar væru hjá fóstrinu og hafi kviðurinn verið glerharður.  Kveður hún ljósmóður, sem þá var á vakt, hafa ráðlagt sér að fá sér heitt te, og ætti fóstrið að taka við sér af því.  Kveður hún enga breytingu hafa orðið á og kveðst hafa margítrekað það við ljósmóðurina, sem hafi hins vegar ekkert brugðizt við og ekki skráð neitt um samskiptin á þessu tímabili.  Kveður hún fósturrit ekki hafa verið tekið aftur fyrr en kl. 0930 um morguninn. Samkvæmt fósturritinu hafi hjartsláttur fóstursins verið mjög veikur, hraður og afbrigðilegur, en móðurinni hafi engu að síður verið sagt að bíða eftir vaktaskiptum lækna.  Kveður hún fæðingarlækni hafa komið snemma á vaktina, og hafi hann ákveðið að gera keisaraskurð um leið og hann sá fósturlínuritið, þar sem hann hafi talið, að um yfirvofandi fósturköfnun væri að ræða.  Hafi hún verið flutt samstundis á skurðstofu og framkvæmdur bráðakeisaraskurður. 

       Strax eftir fæðingu fékk stefnandi greininguna fósturköfnun og var lagður inn á vökudeild, en hann var mjög veikburða við fæðingu og þurfti endurlífgunar við.  Tveimur til þremur klukkustundum eftir fæðingu féll blóðsykur stefnanda, og fékk hann krampa og var í framhaldinu settur á krampastillandi meðferð.  Kveður móðir stefnanda, að ekki hafi náðzt að meðhöndla krampana fyrr en að tveimur sólarhringum liðnum.

       Fljótlega eftir fæðingu komu upp ýmis vandamál með stefnanda.  Gekk fæðugjöf illa og á endanum þurfti að næra hann í gegnum beintengda magasondu. Þroskafrávik komu fljótlega í ljós, ásamt flogaveikiköstum, og þurfti stefnandi stöðuga umönnun og eftirlit allan sólarhringinn.  Í vottorði Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins frá 30. júní 2000, þegar stefnandi var fimm og hálfs árs, kemur fram, að hann hafi greinzt með þroskahömlun og hegðunarerfiðleika, hann sé svokallaður smáhöfði og með krampasjúkdóm.  Hann sé í sjúkra-, iðju- og talþjálfun, njóti sérstuðnings á leiksskóla en muni hefja skólagöngu þá næsta haust.

       Í fyrirliggjandi matsgerð læknanna, Jónasar Hallgrímssonar og Magnúsar Stefánssonar, frá því í nóvember 2003, kemur fram, að stefnandi þjáist til frambúðar af alvarlegri þroskahömlun, sem leiði til þess að hann mun aldrei geta lifað utan verndaðs umhverfis.  Er niðurstaða læknanna sú, að varanlegur miski stefnanda sé 90% og varanleg örorka 100%.

       Með bréfi, dags. 24. október 1998, sneru foreldrar stefnanda sér til landlæknis­embættisins vegna málsins með ósk um rannsókn þess.  Í framhaldinu kallaði embættið eftir gögnum og greinargerðum viðkomandi aðila og utanaðkomandi sérfræðinga.  Meðal annars var leitað umsagnar Reynis Tómasar Geirssonar forstöðulæknis, Guðrúnar B. Sigurbjörnsdóttur yfirljósmóður og Unnar Kjartans­dóttur ljósmóður, sem var á vakt á umræddum tíma.  Þá var leitað álits læknanna, Péturs Lúðvígssonar, Stefáns Hreiðarssonar, Gests Pálssonar og Atla Dagbjartssonar.  Embætti landlæknis skilaði síðan álitsgerð, dags. 18. júlí 2000, þar sem embættið gerði niðurstöðu siðamáladeildar Læknaráðs að sinni.  Er niðurstaðan á þá leið, að barnið sé fatlað, en sérfræðingum beri saman um, að ekki sé hægt að útiloka, að einhvern hluta einkenna stefnanda megi rekja til fósturköfnunar við eða skömmu fyrir fæðingu.  Einn sérfræðinganna telur þó, að einkenni barnsins samrýmist því, að næringarskortur á síðari hluta meðgöngu eigi stærri hlut að málinu.  Þá segir, að læknaráð telji ekki sannað, að um aðgerðarleysi ljósmóður hafi verið að ræða, en skráningu hennar á atvikum sé ábótavant.  Þá telur læknaráð heldur ekki víst, að fötlun barnsins sé eingöngu vegna fósturköfnunar á síðustu klukkustundum fyrir fæðinguna, þar sem næringarskortur seint í meðgöngu geti einnig verið hluti af orsökinni.

       Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 23. maí 2005, var lagt fyrir læknaráð að svara tilgreindum spurningum varðandi orsök fötlunar stefnanda, og er niðurstaða ráðsins, sem dagsett er 23. janúar 2006, svohljóðandi:

1.     Var tilhlýðilega staðið að mæðraeftirliti/læknishjálp á meðgöngutíma, þar til móðir kom á meðgöngudeild kvennadeildar 23. september 1994 með tilliti til vaxtarfráviks stefnanda?

Sv.  Já.  Á meðgöngutíma, allt fram að komu móður á meðgöngudeild LSH 23. september 1994, hafði ekkert komið fram, sem benti til vaxtarskerðingar fósturs.

2.     Var um óyggjandi vaxtartregðu að ræða?

Sv.  Já, en ekki fyrr en við skoðun 23. september 1994 er konan var gengin með 41 viku komu fram vísbendingar um vaxtartregðu við ómskoðun.

3.     Gaf fósturrit sem tekið var á hádegi 23. september tilefni til að vekja grunsemdir um fósturstreitu eða yfirvofandi fósturköfnun?

Sv.  Vakthafandi læknir dæmdi ritið eðlilegt en vandasamt er að túlka fósturrit og má telja að einkenni konunnar og niðurstaða ómskoðunar, auk fyrirhugaðrar gangsetningar hefðu átt að gefa tilefni til þess að endurtaka ritið samdægurs.

4.     Hefði vakthafandi læknir átt að gefa fyrirmæli um að taka fósturrit að kveldi 23. september?

Sv.  Já, sjá svar við spurningu 3.

5.     Hefði átt að kalla á lækni aðfaranótt 24. september?

Sv.  Já.  Hafi móðirin vakið athygli á því að hún fann ekki fyrir hreyfingum 5-7 klst. áður en hún fæddi barnið.

6.     Þótti ástæða til að láta móður ganga fyrir í fósturrit morguninn 24. september?

Sv.  Já, (samanber ofanskráð).

7.     Gaf fósturrit sem tekið var að morgni 24. september tilefni til að kalla strax eftir lækni í stað þess að bíða eftir vaktarskiptum?

Sv.  Já, rétt ákvörðun var að kalla strax eftir lækni og framkvæma bráðakeisaraskurð.

8.     Var rétt ákvörðun hjá viðtakandi lækni að framkvæma bráðakeisaraskurð?

Sv.  Já, sbr. ofanskráð.

9.     Hvað eru venjuleg vinnubrögð varðandi vigtun og skoðun fylgju eftir keisaraskurð?

Sv.  Hefðbundin skoðun felst í því að vigta fylgju, meta staðsetningu æða og athuga hvort um sé að ræða merki kölkunar.  Ef þurfa þykir er fylgja send í vefjagreiningu til þess að hægt sé að svara þeim spurningum sem upp koma.  Ef grunur er um sýkingu í fylgjubeðnum ber að taka frá henni sýni í ræktun.

10.   Undir hvaða kringumstæðum telur læknaráð eðlilegt og faglegt að sérfræðingar vökudeildar séu viðstaddir fæðingar.

Sv.  Læknaráð telur að sérfræðingur í nýburalækningum eða læknir langt kominn í sérnámi í faginu ætti að vera viðstaddur eða stutt frá öllum áhættufæðingum sé þess nokkur kostur.  Á það einkum við um fyrirburafæðingar, fjölburafæðingar svo og við fæðingar, sem ber óeðlilega að af einhverjum ástæðum.

11.   Var tilhlýðilega staðið að mæðraeftirliti/læknishjálp eftir komu móður á dagönn þann 23. september 1994 unz barnið var tekið með keisaraskurði 24. september kl. 10.40?

Sv.  Nei, eftirliti og læknishjálp var að því leyti áfátt að efni hefðu verið til að endurtaka fósturrit 23. september 2004 síðar um daginn (sjá svar við spurningu 3).  Einnig ber að nefna að sé það rétt að móðirin hafi vakið athygli á því að hún hafi ekki fundið fósturhreyfingar hefði átt að kalla til lækni (sjá svar við spurningu 5).

12.   Hvað telur læknaráð almennt séð eðlilegan tíma frá fæðingu barna, sem greinast með fósturköfnun og fóstureitrun þar til blóðgös þeirra eru mæld?

Sv.  Læknaráð telur að ákvörðun um að mæla blóðgös sé tekin í hverju tilfelli fyrir sig og ráðist af því ástandi sem barnið er í.

13.   Hvaða orsakir telur læknaráð að hafi legið til þess blóðsykurfalls sem lýst er í sjúkraskrá á dskj. 40, hjúkrunarskráningu á dskj. 43.2 og yfirlitsblaði vökudeildar á dskj. 43.3, sem varð um klukkan 14, er blóðsykur lækkaði niður í 1-2?

S.     Læknaráð telur líklegast, að blóðsykurfallið hafi orðið í kjölfar tveggja þátta.  Annars vegar vaxtarskerðingar á fósturskeiði (líkamsþyngd í 10% (percentil) og hins vegar afleiðing fósturköfnunar, en lágur blóðsykur er þekkt einkenni hjá börnum með fósturköfnum (Volpe, Neurology og the newborn 331-393, Saunders 2001, Philadelphia).

14.   Telur læknaráð hugsanlegt að súrefnisskortur við fæðingu hafi getað orsakað blóðsykurfall á fyrstu klukkustundum eftir fæðingu?

Sv.  Sjá svar við spurningu 13.

15.   Telur læknaráð að blóðsykurfallið og blóðsykur í lægri kanti um tíma á vökudeild hafi sjálfstætt valdið stefnanda einhverju líkamstjóni?

Sv.  Erfitt er að meta, hvort lágur blóðsykur hafi sjálfstætt verið skaðlegur barninu, þar sem ekki er vitað hversu lágur blóðsykur einn og sér er skaðlegur miðtaugakerfinu.  Lágur blóðsykur hjá barni, sem einnig hefur skert blóðflæði og súrefnisflutning til heila, getur afar líklega verið samverkandi þáttur.

16.   Telur læknaráð að einkenni stefnanda eftir fæðingu bendi til þess að stefnandi hafi orðið fyrir alvarlegum súrefnisskorti á síðustu klukkustundunum fyrir fæðingu, sem hafi valdið honum varanlegu heilsutjóni?

Sv.  Af gögnum sést, að einkenni, sem voru til staðar fyrir fæðinguna, þ.e. hraður hjartsláttur (tachycardia) í riti, lítið reaktífitet og seinar dýfur, ásamt þykku, grænu legvatni, benda til bráðs álags stuttu fyrir fæðinguna (þ.e. mínútur til nokkurra klukkustunda).  Barnið var slappt við fæðingu, sbr. lágt APGAR skor og þurfti að blása í barnið.  Engin blóðgös eru til fyrr en við 5½ klst. aldur og eru þau þá eðlileg.  Hvað varðar áhrif á önnur líffæri en miðtaugakerfi, þá er eingöngu til ein mæling á kreatinini, sem við 2ja sólarhringa aldur er hækkað (110) miðað við aldur barns og blóð í þvagi við skimpróf (á stixi) á fyrsta sólarhring, sbr. dskj. 43.  Getur þetta hvort tveggja bent til að nýrun hafi orðið fyrir skertu blóðflæði.  Þau áhrif voru hins vegar stuttvarandi og þvagútskilnaður næstu sólarhringa skv. skráningu er talinn eðlilegur.  Engin lifrarpróf eða hjartaensímmælingar eru til staðar til að meta áhrif á lifur og hjarta.  Hvort áhrif bráðrar fósturköfnunar í kringum fæðinguna er næg til að skýra microcephaliu og þroskavandamál drengsins er hins vegar óljósara.  Margir þættir geta blandazt þar í, t.d. er áhætta fyrir skertri meðvitund með/án krampa hjá vaxtarskertum nýburum aukin 17-20falt með RR (risk ratio) 38.2 (Badawi N et al, Antepartum risk factors for newborn encephalopathy:  The Western Australian case-control study, BMJ 1998:317:1549).  Einnig verður að taka með í reikninginn sögu móður um krampa fyrir fæðingu og sögu um blæðingu á öðrum hluta meðgöngu.  Allir þessir þættir geta haft áhrif á ástand drengsins nú.  Sjá nánar svar við spurningu 28.

17.   Var að mati læknaráðs tilhlýðilega staðið að læknishjálp í kjölfar fæðingar stefnanda á vökudeild?

Sv.  Já.  Barnið var lagt inn á vökudeild, gefið súrefni og sykurvatn, fylgzt náið með lífsmörkum og krampar greindir fljótt og meðhöndlaðir rétt.

18.   Telur læknaráð, að niðurstöður segulómana við tveggja vikna aldur, sbr. dskj. 43.8 og 6 mánaða aldurs, sbr. dskj. 44, geti samrýmzt því að súrefnisskortur í kringum fæðingu hafi valdið stefnanda varanlegum heilaskaða?

Sv.  Segulómun við 2ja vikna aldur sem sýndi minnkað segulskyn frontoparietalt vinstra megin í hvíta vefnum (dskj. 43.8) gæti samrýmzt því, en þær breytingar voru hins vegar horfnar við 6 mánaða aldur og rannsókn þá eðlileg.  Þótt rannsóknirnar séu ekki dæmigerðar fyrir börn, sem orðið hafi fyrir fósturköfnun, þá geta þær samt samrýmzt því.

19.   Telur læknaráð almennt séð mögulegt að krampar rétt eftir fæðingu geti orsakazt af súrefnisskorti við fæðingu?

Sv.  Já, súrefnisskortur við eða fyrir fæðingu, svo og heilablæðingar/heilablóðföll, lágur blóðsykur og lágt blóðkalk eru taldar algengustu orsakir krampa hjá nýburum.

20.   Hversu algengt er það skv. skoðun læknaráðs, að prenatal krampar greinist hjá börnum, sem svo seinna greinast með krampasjúkdóm?

Sv.  Það er afar sjaldgæft að krampar greinist fyrir fæðingu en engar tíðnitölur eru til.  (Keogh et al, Acta Obstet Gynaecol Scand 2000, 79:787-789).  Flestar greinar um prenatal krampa hafa verið lýsing á stökum tilfellum („case report“) og hafa greinzt ýmist með ómunum eða að mæður barnanna hafa tekið eftir óeðlilegum hreyfingum.  Hins vegar er erfitt að greina krampa fyrir fæðingu og ekki ólíklegt að þeir séu algengari en talið er.

21.   Telur læknaráð líklegt að krampasjúkdómur stefnanda sé meðfæddur?

Sv.  Já, læknaráð telur að saga móður um krampa barnsins fyrir fæðingu styðji það, að svo sé.

22.   Hverjar eru að áliti læknaráðs orsakir krampasjúkdóms stefnanda?

Sv.  Það er ómögulegt að kveða á um það með vissu, en sennilegt er að um meðfædda flogaveiki sé að ræða (sbr. svar við spurningu 21), sem hafi versnað af fósturköfnun og lágum blóðsykri og því séu samverkandi orsakaþættir að baki krampasjúkdómi stefnanda.

23.   Hverjar eru að áliti læknaráðs ástæður þess, sbr. dskj. 45, að eftir 3ja mánaða aldur fór að bera á næringarvandamálum og að höfuðvaxtakúrfa vék af leið um svipað leyti, á 4.-6. mánuði?

Sv.  Höfuð hættir að vaxa eðlilega, ef heili vex ekki eðlilega og er það ástæða þess að höfuðvaxtarkúrfa vék af leið, enda sýna síðari segulómanir vefjatap í vinstra heilahveli.  Næringarvandamálin eru væntanlega einnig angi af sama meiði og afar algeng hjá börnum, sem orðið hafi fyrir heilaskaða, sama af hvaða orsökum.

24.   Hverjar eru að mati læknaráðs skýringarnar á því að breyting verður á ástandi stefnanda, hvað varðar vitsmunaþroska, sem hafði framan af verið talinn innan eðlilegra marka, sbr. dskj. 47, en við athugun á greiningarstöð í september 1998, sbr. dskj. 5, kom í ljós, að þroskahraði væri hægari en áður og vitsmunaþroski fyrir neðan marka þroskahömlunar?

Sv.  Bæði samkvæmt dskj. 4 og 5 hafði drengurinn verið talinn eftir í þroska strax fyrir 3ja ára aldur.  Mat á þroskafrávikum, sérstaklega hvað varðar vitsmunaþroska er erfitt framan af og kemur oft ekki í ljós fyrr en barnið er orðið eldra.  Við mat á vitsmunaþroska er almennt talið að skoðun við 4-5 ára aldur sé nákvæmari en nokkur skoðun fyrr í lífi barns og hafi betra forspárgildi.

25.   Segulómun af heila 21. marz við sex mánaða aldur sýndi engar óeðlilegar breytingar í heilavef, sbr. dskj. 44.  Segulómun af heila í október 2001 við sjö ára aldur, sbr. dskj. 48, leiddi hins vegar í ljós dreifðar breytingar í heilaberki og hvíta vef á mótum næringarsvæða stóru æðanna.  Einnig sást áberandi rýrnun á vinstra heilahvelinu.  Hvaða orsakir liggja til seinna tilkominna breytinga að áliti læknaráðs?

Sv.  Læknaráð tekur undir álit Ólafs Thorarensen barnataugalæknis í dskj. 32, að síðar tilkomnar breytingar skýrist líklega af illvígri flogaveiki.

26.   Hvenær telur læknaráð að það líkamstjón hafi átt sér stað, sem liggur til grundvallar núverandi einkennum stefnanda, þ.e. flogaveiki, microcephaliu, þroskaröskun og hegðunarerfiðleikum?

Sv.  Læknaráð telur ekki unnt að tímasetja, hvenær líkamstjónið varð, en líklegt sé, að um samverkandi þætti sé að ræða, bæði í kringum fæðinguna og fyrr á meðgöngu.

27.   Telur læknaráð að núverandi einkenni stefnanda séu dæmigerð fyrir fósturköfnun í kringum fæðingu (perinatal asphyxia)?

Sv.  Nei.  Hjá börnum þar sem megineinkenni fósturköfnunar á nýburaskeiði eru krampar, er algengast að þau séu með spastíska fjórlömun, þótt greindarskerðing geti fylgt með (Volpe, Neurology of the newborn 331-393).

28.   Telur læknaráð að núverandi einkenni stefnanda megi mögulega rekja, að einhverju eða öllu leyti, til fósturköfnunar í kringum fæðingu?

Sv.  Læknaráð ítrekar fyrra álit frá 22.06.2000, að ekki sé hægt að útiloka, að einhvern hluta þeirra einkenna, sem barnið hefur, megi rekja til fósturköfnunar við eða skömmu fyrir fæðingu.  Hins vegar eru einkenni drengsins nú ekki dæmigerð fyrir afleiðingar fósturköfnunar og það er afar ólíklegt, að fósturköfnun sé eina orsök ástands hans. (sjá svar við spurningu 27).

29.   Ollu viðbrögð starfsfólks í mæðraeftirliti, kvennadeild eða vökudeild stefnanda líkamstjóni, sem komast hefði mátt hjá með tímanlegri vinnubrögðum?

Sv.  Ekki er unnt að leiða með vissu rök að því að minnka hefði mátt líkamstjón barnsins með tímanlegri vinnubrögðum starfsfólks í mæðraeftirliti, kvennadeild eða vökudeild.  Vísað er til svara við spurningum hér að framan þar sem fram kemur að orsakir líkamstjóns barnsins eru taldar vera margþættar og megi rekja til vaxtarskerðingar vegna lélegrar starfsemi fylgju, sennilegrar súrefnisnauðar (fósturköfnunar) og lækkaðs blóðsykurs (hypoglyvemi) og skemmda í heila vegna flogaveiki.

30.   Hvaða líkamstjóni hefði verið hægt að forða með tímanlegri viðbrögðum starfsfólks kvennadeildar?

Sv.  Ekki er unnt að svara þessari spurningu með haldbærum rökum (sbr. svarið við 29. spurningu).  Heilalömun, þ.e. „cerebral palsy“ er talin vera afleiðing fósturköfnunar í 17-24% tilfella (Volpe, Neurology of the newborn pp. 283-284).  Barn/fóstur, sem þegar í fósturlífi hefur orðið fyrir áfalli af einhverju tagi, er líklegt til að vera viðkvæmara fyrir hvers kyns áfalli, sem verður í eða við fæðingu.  Tímanleg viðbrögð eru því alltaf ákjósanleg en ekki er hægt að fullyrða, að jafnvel þótt fæðing hefði orðið á bezta hugsanlega hátt, að endanlegt ástand barns hefði orðið annað en varð.

       Ágreiningur aðila snýst um bótaskyldu stefnda vegna meintra læknamistaka.        

 

III

Málsástæður stefnanda

Kröfur sínar um skaða- og miskabætur úr hendi stefnda reisir stefnandi á þeirri forsendu, að hann hafi orðið fyrir varanlegu heilsutjóni og miska, sem og varanlegri örorku, vegna bótaskyldra mistaka starfsmanna Landspítala.  Á þeim ólögmætu og saknæmu mistökum beri stefndi ábyrgð, m.a. samkvæmt almennu skaðabótareglunni, reglunni um vinnuveitandaábyrgð og þeim sérstöku reglum skaðabótaréttarins, sem mótazt hafi við sakarmat vegna mistaka í heilbrigðiskerfinu.

       Augljóst sé, að heilsubrest stefnanda megi rekja til súrefnisskorts, sem átt hafi sér stað í aðdraganda fæðingar hans, þ.e. fósturköfnunar.  Vegna mistaka vaktahafandi starfsmanna spítalans á umræddum tíma hafi ekki verið brugðizt tímanlega og réttilega við.  Vísist þá m.a. til grunsemda, sem fósturrit það, sem tekið hafi verið degi fyrir fæðinguna, hefði átt að vekja; þeirrar staðreyndar, að ekkert fósturrit hafi verið tekið að kvöldi þess sama dags og svo þess sinnuleysis, sem vakthafandi ljósmóðir/ljósmæður og eftir atvikum aðrir starfsmenn hafi sýnt aðfaranótt og að morgni 24. september 1994 og það þrátt fyrir stöðugar, eindregnar og skýrar kvartanir móður stefnanda.

       Í greinargerð siðamáladeildar læknaráðs, dags. 22. júní 2000, séu raktar umsagnir þeirra aðila, sem málið varði, og standi frásögn móður um atburðarás við aðdraganda fæðingarinnar algjörlega óhrakin.  Skuli sérstaklega minnt á þá þýðingu, sem vanræksla/skortur á skráningu í sjúkraskrá hafi varðandi sönnunarbyrði í málum af þessum toga, sbr. dómafordæmi.

       Í greinargerð Reynis Tómasar Geirssonar forstöðulæknis frá 10. janúar 1999 segi m.a. um atburðarásina, en sérstaklega sé bent á, að greinargerð  Reynis beri að meta sem hverja aðra aðilaskýrslu:

Ljósmóðirin á vakt umrœdda nótt var Unnur Kjartansdóttir. Hún minnist þessa tilviks ekki sérstaklega nú, en telja verður að fœrslur og viðbrögð um nóttina skv. því sem konan segir hafi verið ófullnœgjandi og hið sama mœtti segja um viðbrögð nœsta morgun eftir vaktaskipti ljósmœðra en þá var ekkert fœrt inn um ástand konunnar, hvorki á meðgöngudeild eða á fæðingargangi áður en hún fór í keisaraskurð.

 

       Í niðurlagi greinargerðar Reynis segi svo, að ekki hafi verið staðið með bezta hætti að meðferð konunnar eftir innlögn og eftirlit, og viðbrögð hefðu mátt vera skýrari síðustu 12 klst. eða svo fyrir fæðingu barnsins.

       Í greinargerð ljósmæðra á kvennadeild Landspítalans vegna fæðingar, dags. 25. júní 1999, sem með sama hætti og Reynir hafi aðilastöðu í málinu, segi m.a.:

Þar sem nokkuð langur tími er liðinn frá umrœddri nótt, er ekki hœgt að fullyrða neitt um samskipti ljósmóður við móður Daníels Ísaks.

.........................

Hvað varðar gang mála er vísað til svars við 1. spurningu, en skráning ljósmóður hefði mátt vera ítarlegri.

 

       Við niðurstöður landlæknis í málinu, sbr. bréf hans frá 18. júlí 2000, þar sem hann geri niðurstöður siðamáladeildar Læknaráðs að sínum, sé óhjákvæmilegt að gera þann fyrirvara, að málinu sýnist ranglega hafa verið vísað til meðferðar siðamála­deildar Læknaráðs, en ekki réttarmáladeildar, eins og rétt hefði verið.  Í annan stað hafi ekkert verið upplýst um, hvaða aðilar hafi staðið að nefndri umsögn siðamáladeildar og Læknaráðs, og hvort þeir hafi að lögum verið til þess hæfir, m.a. með tillit til starfstengsla sinna við umrætt sjúkrahús stefnda.  Í tilvitnuðum niðurstöðum siðamáladeildar Læknaráðs segi:

Ekki fást fullnœgjandi svör við spurningu aðstoðarlandlœknis. Staðhœfingar hjónanna í bréfinu eru ekki staðfestar né er þeim heldur mótmœlt í neinum þeim gögnum sem finnast eða aðspurðir segjast muna eftir. Eina atriðið sem hœgt er að sannreyna er, að móðirin segir að dregist hafi til kl. 9.30 að taka fósturrit og í gögnunum að fósturrit hafi verið tekið um kl. 09.20.

Sérfrœðingum sem tjá sig um málið ber öllum saman um að barnið hafi orðið fyrir súrefnisnauð á klukkustundunum um eða fyrir fœðingu og þeim ber einnig saman um að einhvern hluta þeirra einkenna, sem komu fram á barninu, megi hugsanlega rekja til þess.

 

       Hvað sem líði varfærnislegum ályktunum í umsögnum tilvitnaðra stjórnvalda, sé allt að einu fullljóst, að fyrir liggi næg gögn og sönnun þess efnis, að hvorki hafi verið brugðizt nægilega fljótt né eðlilega við vegna ábendinga móður eða ástands mála yfirleitt.  Enn sé minnt á, hvaða þýðingu vanrækslu við skráninga hafi fyrir sönnunarbyrði í málinu.

       Allir sérfræðingar, sem um málið hafi fjallað, telji, að hið varanlega heilsutjón verði, að hluta til a.m.k., rakið til fósturköfnunar.  Hér vísist m.a. til tilvitnaðra umsagna læknanna, Péturs Lúðvígssonar, sbr. bréf, dags. 30. júní 1999 og 20. desember 2002, Stefáns Hreiðarssonar, sbr. bréf, dags. 28. júní 1999, bréfs Gests Pálssonar og Atla Dagbjartssonar, dags. 12. marz 1999, sem og matslæknanna, Magnúsar Stefánssonar og Jónasar Hallgrímssonar, sbr. matsgerð þeirra frá nóvember 2003.  Í tilvitnuðum umsögnum sé að því vikið, að aðrir þættir kunni mögulega og jafnframt að hafa spilað inn í heilsutjón stefnanda, og séu þá nefnd til sögunnar möguleg áhrif vaxtarseinkunar á meðgöngu, sem og möguleg áhrif blóðsykurfalls eftir fæðingu. Raunar sé það hins vegar svo, að eingöngu Pétur Lúðvígsson telji líklegra, að meint vaxtarseinkun kunni að eiga stærri hluta að máli, meðan aðrir sérfræðinganna telji umrædda fósturköfnun líklegasta ástæðu, sbr. þá afdráttarlausu ályktun Stefáns J. Hreiðars­sonar, að ekki liggi fyrir neinar upplýsingar, sem bendi til þess, að fötlun stefnanda stafi af neinu öðru en umræddri fósturköfnun.

       Um frekari niðurstöður vísist til umsagnar siðamáladeildar Læknaráðs frá 22. júní 2000, sbr. bréf landlæknis frá 18. júlí 2000.  Þessum sérfræðilegu athugunum til fyllingar megi vísa til samantektar foreldra stefnanda í bréfum frá 24. október 1998 og 18. september 2000, þar sem dregin séu fram og vakin sérstök athygli á nokkrum frekari staðreyndum málsins.

       Að öllu þessu virtu sé ljóst, að lögfull sönnun sé komin fram um, að viðkomandi starfsmönnum á kvennadeild Landspítala hafi orðið á saknæm mistök með því að bregðast hvorki réttilega né nægilega snemma við þeim aðstæðum, sem upp hafi komið og það þrátt fyrir stöðugar, eindregnar og skýrar kvartanir móður, sem hafi gengið með sitt fimmta barn.  Á þessum mistökum beri eigandi sjúkrahússins, stefndi, ábyrgð.  Færi svo, að talið yrði, að blóðsykurfall eftir fæðingu gæti hafa haft marktæk áhrif á staðreyndan skaða stefnanda, sé jafnframt á því byggt, að á því beri stefndi ábyrgð, enda hafi starfsmenn hans ekki brugðizt réttilega við.  Eftirlit með blóðsykri eftir fæðingu virðist þannig hafa verið vanrækt og raunar algjörlega óupplýst, hversu lengi sú vanræksla hafi staðið yfir, og hvenær brugðizt hafi verið við með fullnægjandi hætti. Þá bendi stefnandi jafnframt á, að engin marktæk gögn liggi fyrir í málinu, sem styðji getgátur um mögulega vaxtarseinkun á meðgöngu.  Ekki liggi annað fyrir í gögnum málsins en að meðganga hafi í alla staði gengið eðlilega fyrir sig, og að vöxtur og þroski fósturs hafi verið með eðlilegum hætti.  Sé það hins vegar svo, að vaxtarseinkun teljist mögulega hafa einhver áhrif í þessu sambandi, sé enn á því byggt, að þar á beri stefndi skaðabótaábyrgð.  Við eðlilega og réttilega framkvæmt meðgöngueftirlit eigi einkenni um slíka vaxtarseinkun ekki að geta farið fram hjá þeim aðilum, sem slíku eftirliti sinni.  Eingöngu vanræksla viðkomandi aðila geti þá skýrt það, að ekki hafi verið brugðizt við með viðeigandi hætti miklu fyrr.

       Hinum heilsufarslegu afleiðingum sé lýst hér að framan, en því til fyllingar vísist sérstaklega til vottorðs Greiningar- og ráðgjafastöðvar ríkisins frá 30. júní 2000, þeirra gagna, sem aflað hafi verið vegna gerðar örorkumats, sem og matsins sjálfs. 

       Í niðurstöðum tilvitnaðs örorkumats segi svo:

Daníel Ísak er í dag alls ófær vegna fötlunarinnar um að sinna grunnatriðum sjálfshjálpar, hefur litla sem enga félagsfærni, vitsmunaþroska á svæði meðal þroskahömlunar, sem leiðir til mjög lélegrar námsgetu er m.a. kemur í ljós á þann hátt, að ekki hefur tekist að kenna honum að vara sig á hættum. Daníel Ísak er í dag alls ófær um að lifa utan verndaðs umhverfis. Þótt ekki verði í dag með vissu hægt að segja til um hvar á sviði þroskahömlunar stöðug þjálfun og kennsla við hans hæfi muni skila honum þá er það reynslan, að því miður dregur heldur í sundur en saman með einstaklingum eins og Daníel Ísak er og jafnöldrum eftir því sem þroski og geta hinna síðarnefndu eykst og kröfur samfélagsins verða flóknari.

Það er því í dag nánast óhugsandi að Daníel Ísak nái nokkurn tímann þeim þroska að geta lifað utan verndaðs umhverfis.

 

       Að því leyti sem einhver mögulegur vafi kunni að verða talinn leika á því, að umrætt tjón verði að öllu leyti rakið til þeirra bótaskyldu mistaka að bregðast ekki við hættu á yfirvofandi fósturköfnun sé eftirfarandi að segja:  Um sönnun á orsakatengslum og umfangi þeirra afleiðinga, sem orðið hafi, vísist sérstaklega til þess, að í niðurstöðum þeirra sérfræðinga, sem siðamáladeild læknaráðs leitaði til, komi fram það samdóma álit þeirra, að stefnandi hafi orðið fyrir súrefnisnauð á klukkustundunum um eða skömmu fyrir fæðingu, og að minnsta kosti einhvern hluta þess heilsufarsskaða, sem fram hafi komið, megi rekja til súrefnisskorts fyrir og við fæðingu.  Þá vísist til fyrrnefndra sjónarmiða um ábyrgð stefnda á mögulegu blóðsykurfalli.  Í norrænum rétti, þ.á m. íslenzkum skaðabótarétti, hafi verið talin gilda ákveðin sönnunar­regla um skaðabótaábyrgð lækna og sjúkrastofnana.  Reglan hafi verið sett fram á eftirfarandi hátt:

Um sönnun þess hvort mistök hafi átt sér stað gildir almenna skaðabótareglan. Ef mistök hinsvegar sannast, ber læknir eða sjúkrastofnun sönnunarbyrðina fyrir því að afleiðingar hefðu komið fram þó að engin mistök hefðu átt sér stað (öfug sönnunarbyrði um afleiðingar).

 

       Leiði framangreind sönnunarregla til þess, að sjúkrahúsið beri alfarið sönnunarbyrði fyrir því, hvort og þá hvaða hluta heilsufarstjóns stefnanda megi rekja til annarra og óskyldra orsaka en framangreindra mistaka, en stefnandi byggi, svo sem fram hafi komið, fyrst og fremst á því, að allur heilsufarslegur skaði hans verði rakinn til fósturköfnunar þeirrar, sem hafi átt sér stað fyrir fæðinguna, sbr. m.a. dómur Hæstaréttar frá 2. október 2003 í málinu nr. 23/2003.  Það sé síðan áréttað, að verði talið, að vaxtarseinkun á meðgöngu og/eða blóðsykurfall kunni að eiga hlut að máli, sé sjálfstætt byggt á því, að á afleiðingum þess beri stefndi skaðabótaábyrgð.

 

Tölulegar forsendur kröfugerðar stefnanda:

Í aðalkröfu sé miðað við dráttarvaxtaálagningu frá og með 6. desember 2000, mánuði frá dagsetningu bréfs lögmanns stefnanda til stefnda, sbr. 15. gr. eldri vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, sbr. nánar 5. og 9. gr. laganna.  Séu forsendur kröfugerðar þá eftirfarandi:

 

1.     Miskabætur skv. 4. gr. skaðabótalaga

       kr. 4.000.000 verðbættar miðað við des.’00 (3990/3282)

       kr. 4.863.000 x 90% kr. 4.376.700 x 50% hækkun,

       sbr. heimild 1. mgr. 4. gr.                                                                                                                      kr.   6.565.050

2.    Varanleg örorka, sbr. 8. gr. þágildandi skaðabótalaga

        kr. 4.376.700 x 400%                                                                                                                              kr. 17.506.800

3.       Annað fjártjón skv. heimild 1. gr. skaðabótalaga                                                                            kr.   2.500.000

       Samtals                                                                                                                                                   kr. 26.571.850

 

       Í varakröfu sé miðað við dráttarvaxtaálagningu frá og með þingfestingu málsins 4. marz 2004, sbr. III. kafli laga vaxtalaga nr. 38/2001, sbr. nánar 5. og 9. gr. laganna.  Séu forsendur kröfugerðar þá eftirfarandi:

 

1.     Miskabætur skv. 4. gr. skaðabótalaga

       kr. 4.000.000 verðbættar miðað við feb.’04 (4530/3282)

       kr. 5.521.000 x 90% kr. 4.968.900 x 50% hækkun,

       sbr. heimild 1. mgr. 4. gr.                                                                                                                      kr.   7.453.350

2.    Varanleg örorka sbr. 8. gr. þágildandi skaðabótalaga

       kr. 4.968.900 x 400%                                                                                                                              kr. 19.875.600

3.    Annað fjártjón skv. heimild 1. gr. skaðabótalaga                                                                            kr.   2.500.000

       Samtals                                                                                                                                                   kr. 29.828.950

 

       Forsendur kröfugerðar miðist við niðurstöður matsgerðar læknanna, Jónasar Hallgrímssonar og Magnúsar Stefánssonar, um 90% miska.  Um heimild til hækkunar miskabóta vísist til ákvæðis 5. ml., 1. mgr., 4. gr. skaðabótalaga, eins og það hafi verið á slysdegi.  Sé því krafizt 50% álags á þær miskabætur, sem greiddar yrðu miðað við 90% miskamat. Um þann algjöra heilsufarslega skaða, sem stefnandi búi ævilangt við, þurfi ekki að hafa mörg orð.  Þroskahömlun hans sé þess eðlis, að hann muni aldrei geta lifað utan verndaðs umhverfis.  Standi öll rök til þess að beita hækkunarheimildinni, sbr. skýr fordæmi dómstóla í þá veru, sem nánar verði reifuð við munnlegan flutning málsins.

        Um kröfu vegna annars fjártjóns vísist til 1. gr. skaðabótalaga.

       Það athugist svo sérstaklega, að ástæða þess, að höfuðstóll aðalkröfu sé lægri en höfuðstóll varakröfu helgist af samhengi við dráttarvaxtakröfur, sem í tilviki aðalkröfu miðist að upphafi til við desember 2000 í stað marz 2004 í tilviki varakröfu.  Leiði þetta til þess, að verði fallizt á vaxtakröfu stefnanda í aðalkröfu, verði dæmd fjárhæð með vöxtum miklum mun hærri í tilviki aðalkröfu en varakröfu.  Telji dómurinn hins vegar ekki skilyrði til þess að fallast á forsendur aðalkröfu um upphaf dráttarvaxtaálagningar, beri að dæma bætur í samræmi við varakröfu, þar sem tekið hafi verið tillit til lögboðinna verðbreytinga samkvæmt skaða­bótalögum til þess upphafsdags dráttarvaxtaálagningar, sem þar sé ráðgerður, þ.e. frá þingfestingu máls þessa.

       Krafa um skaða- og miskabætur úr hendi stefnda styður stefnandi við almennar reglur skaðabótaréttarins, þ.m.t. regluna um vinnuveitandaábyrgð.  Þá vísar stefndi til ákvæða reglugerðar nr. 227/1991, einkum 2.- 5. gr., sbr. læknalög nr. 53/1988 og lög um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990.  Um kröfu vegna annars fjártjóns vísast til 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Um miskabótakröfu vísast til 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Kröfuna um varanlega örorku styður stefnandi við 8. gr. skaðalaga nr. 50/1993.  Kröfur um vexti og dráttarvexti styður stefnandi við skaðabótalög nr. 50/1993, einkum 16. gr. og III. kafla eldri vaxtalaga nr. 25/1987 og III. kafla núgildandi vaxtalaga nr. 38/2001.  Um málskostnaðarkröfu er vísað til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

 

Málsástæður stefnda

Af hálfu stefnda er þeim sjónarmiðum stefnanda, sem hann byggir dómkröfur sínar á, sem og kröfunum sjálfum, eindregið vísað á bug.

       Í greinargerð Reynis Tómasar Geirssonar forstöðulæknis, dags. 10. janúar 1999 á dskj. nr. 7, séu á bls. 1-3 ítarlega raktir málavextir, hvað varði meðgöngueftirlit, komu móður á meðgöngudeild hinn 23. september og aðdraganda að fæðingu stefnanda með keisaraskurði hinn 24. september, og vísist um málavexti, hvað það tímabil varði til þess, sem þar greini, sem og til greinargerðar ljósmæðra á dskj. nr. 9.  Enn fremur vísist til framlagðra gagna á dskj. nr. 34-41. Vakin sé athygli á því, að staðhæfingar um málsatvik í stefnu og á bls. 1 á dskj. nr. 4 séu í mörgum atriðum í ósamræmi við skráningu í samtímagögnum.

       Stefnandi hafi verið slappur við fæðingu og hafi ekki andað sjálfur.  Apgar stigun hafi verið 1 við eina mínútu, 5 við fimm mínútur og 7 við sjö mínútna aldur.  Hann hafi þurft endurlífgunar við með poka og maska, en hafi jafnað sig fljótt.  Hann hafi verið lagður inn á vökudeild í hitakassa og gefið súrefni eftir þörfum, og settur hafi verið upp 10% glúkósi í æð.  Fæðingarþyngd hafi verið rétt neðan við 10 percentile og lengd við 25 percentile og höfuðmál 34 cm, við 10 percentile.  Stefnanda hafi verið gefið aukasúrefni í innönduðu lofti í nokkrar klukkustundir og síðar hafi hann mettað vel.  Fyrsta Astrup mæling hafi verið gerð fimm og hálfri klukkustund eftir fæðingu og hafi blóðgös og sýrustig blóðsins reynzt eðlileg.  Þegar stefnandi var 2-3 klukkustunda gamall hafi blóðsykur lækkað, þrátt fyrir 10% glúkósu í æð.  Honum hafi verið gefnir 3 ml af 25% glúkósu og skömmu síðar hafi verið tekið eftir staðbundnum kippum í hægri fótlegg og hendi, sem illa hafi gengið að meðhöndla. Hafi þurft Diazepam, Phenýtóin og Penobarbitol í æð í stórum skömmtum.  Gefin hafi verið hærri sykurlausn, en þrátt fyrir það hafi sykur verið í lægri kanti, en þó ekki svo lágur, að hann ylli krömpum.  Skráð sé í sjúkraskrá á dskj. 43 hinn 25/9 af Pétri Lúðvígssyni:

     Gerður var sónar af höfði í gær sem var tæknilega lélegur, en gaf þó grun um lágþéttni lesion í hæ. balal ganglia.  Fengið verður CT-scan af höfði í dag.

Orsakir krampa þessa drengs eru óljósar en margt virðist benda til prenatal orsaka.  Bæði er það saga móðurinnar um krampa in utero, lágþéttni lesion sem virðist vera fyrir hendi á sónar og það hversu erfiðlega gengur að stöðva þessi köst.  Einhver metabolisk orsök gæti einnig legið að baki, en blóðsykur, kalsium, electrolytar og sýru-basa-vægi hefur verið þokkalega stabilt, nema blóðsykur sem hefur verið í lægra lagi en varla nógu lár (sic) til þess að gefa þessi einkenni.

 

       Stefnandi hafi verið slappur fyrstu tvo sólarhringana, líklega vegna hárra skammta af flogalyfjum.  Á þriðja sólarhring hafi hann orðið hressari og farið að hreyfa sig sjálfur og á fimmta degi hafi hann farið að taka næringu um munn.

       Tölvusneiðmynd af heila 25. september án skuggaefnis hafi engar blæðingar sýnt, en grun um svolitla hyperemiu í cortex.  Einnig hafi verið lítil lágþéttnisvæði beggja vegna í hvítaefni af óþekktum uppruna.  Ekkert annað óeðlilegt hafi sézt.  Heilarit gert 4. október hafi verið óeðlilegt með staðbundinni epileptogen virkni bilat meira vinstra megin.  Segulómun á heila þann 10. október hafi sýnt eðlilega rannsókn, bæði supratentorialt og í fossa posterior.  Heilahólf og heilavefur hafi verið eðlileg og engar sjúklegar breytingar hafi sézt periventriculert.  Stefnandi hafi útskrifazt eftir tvær vikur, og fljótlega hafi farið að bera á vanþrifum, og höfuðmál hafi farið að víkja af kúrfu.  Við 6 mánaða aldur hafi hann verið lagður inn í endurtekna segulómun á heila til að útiloka hypoxiskar heilaskemmdir.  Sú segulómrannsókn, framkvæmd 22. marz 1995, hafi sýnt vökvasöfnun framan við vinstri lobus tempoalis, líklegast arachnoidal cystu.  Segulgerð heilavefsins hafi verið eðlileg, og hafi útlit og dreifing hvíta og gráa efnisins í heilanum verið eðlileg.  Heilahólfin hafi sömuleiðis verið eðlileg.  Gastrostomia hafi verið gerð í marz 1995.  Stefnandi hafi haldið áfram á Phenemali til 6 mánaða aldurs.  Hann hafi lagzt inn við 14 mánaða aldur í desember 1995 með endurtekin flog frá hægri líkamshelmingi, og hafi þá að nýju verið hafin flogalyfjameðferð.  Við 18 mánaða aldur í marz 1996 hafi hann lagzt inn með síflog, sem hafi staðið í 20 mínútur.  Hann hafi verið með kippi í öllum hægri líkamshelmingi, og augu hafi leitað til hægri.  Þetta hafi gerzt með hita, uppköstum og niðurgangi. Hann hafi fengið Diasemuls í i.v., og krampar hafi stöðvazt.  Við 3 ára aldur í marz 1997 hafi hann aftur lagzt inn með síflog, þar sem krampar hafi staðið í um eina og hálfa klukkustund án finnanlegra skýringa.  Hann hafi fengið Ativan og hleðsluskammt af phenýtóini og hafi verið hafður á gjörgæzludeild vegna öndunarslævandi áhrifa af lyfjum.  Hann hafi ekki þurft svæfingu eða barkrennu.

       Sjö ára gamall, eða hinn 31. október 2001, hafi stefnandi verið lagður inn í endurteknar segulómunarrannsóknir á höfði.  Þar hafi komið í ljós, að vinstra heilahveli hafi verið áberandi rýrara en það hægra, og hafi verið um að ræða rýrnun á cortex og hvítavef.  Segulskynsbreytingar hafi sézt í hvítavef parietalt vinstra megin og occipitalt í cortex og hvítum vef báðum megin.  Breytingarnar hafi verið mest áberandi á mótum næringarsvæða stóru æðanna.  Myelisering var eðlileg.  Þetta hafi verið í fyrsta skipti, sem afgerandi breytingar hafi sézt á segulómun af heila.

       Ljóst sé af gögnum og sjúkraskrám, að stefnandi eigi við ýmsa erfiðleika að stríða, svo sem þroskahömlun, hegðunarerfiðleika, flogaveiki auk microcephaliu.  Hann hafi verið í sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og talþjálfun og þurfi sérstakan stuðning í skóla.  Í matsgerð læknanna, Jónasar Hallgrímssonar og Magnúsar Stefánssonar barnalæknis, komi fram, að fötlun stefnanda leiði til þess, að hann sé ófær um að lifa utan verndaðs umhverfis.  Vitsmunaþroski sé á svæði meðalþroskahömlunar og félagsþroski og námsgeta séu léleg.

       Ekki fái staðizt þær staðhæfingar stefnanda, að augljóst sé, að súrefnisskortur í aðdraganda fæðingar hafi valdið varanlegum heilsubresti stefnanda.  Í niðurstöðu matsmanna á dskj. nr. 27 segi, að fötlun stefnanda sé samrýmanleg afleiðingum óheppilegra atriða, sem vitað sé, að hann hafi orðið fyrir seint á meðgöngu (vaxtarseinkun), fósturköfnun skömmu fyrir og/eða í fæðingu, svo og blóðsykurfalls á nýburaskeiði, en ekki verði í matinu greint á milli þess, hvort eitthvert þessara atriða sé ráðandi orsök fyrir ástandi hans í dag eða allir þættirnir samverkandi.  Ljóst sé af upptalningu gagna, að matsmenn hafi ekki haft undir höndum sjúkraskrá Vökudeildar, sbr. dómskjöl 42-48. Af áliti læknaráðs á dskj. nr. 13 og umsögn Stefáns Hreiðarssonar til landlæknis á dskj. nr. 10 komi fram, að hvorugur þessara aðila hafi heldur haft sjúkraskrána undir höndum.

       Af hálfu stefnda sé talið, að heilsutjón stefnanda sé að rekja til vandamála, sem hafi verið komin til í móðurkviði á meðgöngu, en tengist ekki súrefnisskorti, sem átt hafi sér stað í aðdraganda fæðingar.  Vaxtarfrávik stefnanda, útlit hjartsláttarrits daginn áður með fremur hröðum hjartslætti miðað við 41. viku og minnkuðum breytileika, bendi til þess, að fóstrið hafi þegar verið aðþrengt þann 23. september, þó ekki yrði fyllilega ljóst, að svo væri, fyrr en næsta morgun, þegar hjartsláttarrit var tekið á ný.   Margar rannsóknir undanfarinna ára sýni, að vandamál af því tagi, sem stefnandi eigi við að etja, séu í að minnsta kosti um 85% tilvika tilkomin allnokkru fyrir fæðinguna eða meðfædd.  Með tilliti til þess, sem hafi sézt í hjartsláttarriti og ómun daginn áður, verði að telja líklegt, að svo hafi verið, sbr. umfjöllun í greinargerð Reynis Tómasar Geirssonar á dskj. nr. 7.  Greining fyrir fæðingu í þannig tilvikum geti verið ógerleg með þeirri tækni, sem unnt sé að beita nú og hafi verið hægt að beita 1994.

       Pétur Lúðvígsson, barnalæknir og sérfræðingur í tauga- og heilasjúkdómum barna, telji ýmislegt benda til, að vandamál stefnanda hafi verið komið til í móðurkviði, en tengist ekki yfirvofandi fósturköfnun.  Hinn hraði bati bendi til þess, að fósturköfnunarástand hafi ekki staðið mjög lengi.  Því verði að telja mjög ólíklegt, að fósturköfnunarástand skýri ástand stefnanda.  Þyngst vegi vaxtartregða á meðgöngu, sem líklega hafi staðið um nokkurt skeið, þegar barnið fæddist.  Algengt sé, að börn, sem svo sé ástatt um, sýni merki lágs blóðsykurs fljótlega eftir fæðinguna, en það hafi einmitt verið raunin með stefnanda.  Vaxtartregða á meðgöngu sé einnig áhættuþáttur fyrir skertan heilavöxt, en skertur heilavöxtur og smáhöfði með þroskaskerðingu sé einmitt aðalvandamál stefnanda.  Segulómskoðun á heila, gerð í marzmánuði 1995, sé ekki í samræmi við það, að lítill heilavöxtur stefnanda og smáhöfði sé afleiðing af heilaskaða vegna súrefnisskorts.  Aðalorsök heilsubrests stefnanda sé vaxtartregða á meðgöngu.  Fósturköfnunarástand og lækkun blóðsykurs geti hafa verið samverkandi, en hvorugt þessara atvika sé nægjanlegt, eitt og sér, til að valda skaðanum, sbr. dskj. nr. 11 og 20.

       Í áliti Ólafs Thorarensen, sérfræðings í heila- og taugasjúkdómum barna, á dskj. nr. 32, komi fram, að hann telji, að heilaskaði stefnanda sé orsakaður af þáttum, sem hafi komið fram snemma á meðgöngu, en tengist ekki súrefnisskorti, sem átt hafi sér stað í aðdraganda fæðingar.  Fyrstu blóðgös hafi verið tekin eftir fimm og hálfa klukkustund, og þá hafi blóðgösin verið búin að leiðréttast, og sýrustig blóðsins hafi verið eðlilegt.  Fósturköfnunin hafi því verið væg og stefnandi lífgaður á árangursríkan máta eftir fæðinguna.  Ekki hafi verið saga um alvarleg vandamál í tengslum við fæðinguna, svo sem framfall á naflastreng eða sturtblæðing, og hafi keisaraskurðurinn gengið með eðlilegum hætti.  Einkenni stefnanda, þ.e. væg þroskahömlun, hreyfiþroskaröskun, hegðunarörðugleikar og flogaveiki, séu ekki dæmigerð fyrir heilaskaða vegna fósturköfnunar.  Stefnandi hafi hvorki einkenni spastískrar fjórlömunar né slingurlamanir, en þær tvær gerðir heilalömunar séu dæmigerðar fyrir heilaskaða vegna fósturköfnunar.  Alvarlegur súrefnisskortur í aðdraganda fæðingar hafi áhrif á fleiri líffæri en heilann og sé algengt, að garnir, nýru, lifur og hjarta skaðist einnig.  Engin merki hafi verið um skaða á þessum líffærum eftir fæðingu stefnanda.  Segulómun á heila, gerð við tveggja vikna aldur, hafi sýnt eðlilega útlítandi heila miðað við aldur.  Segulómun af heila við sex mánaða aldur hafi engar óeðlilegar breytingar sýnt í heilavef, og hafi sú rannsókn staðfest, að súrefnisskortur í aðdraganda fæðingar hafi ekki valdið varanlegum skaða á miðtaugakerfinu. Segulómun af heila við sjö ára aldur leiði hins vegar í ljós dreifðar breytingar á heilaberki og hvítavef á svæðum á mótum næringarsvæða stóru æðanna.  Einnig sjáist áberandi rýrnun á vinstra heilahvelinu.  Þetta séu breytingar, sem komi fram eftir sex mánaða aldurinn, því þá hafi segulómunin af heila verið eðlileg.  Líklegt sé, að þessar breytingar séu tilkomnar vegna illvígrar flogaveiki, en stefnandi hafi tvisvar lagzt inn með síflog, þ.e. í marz 1996 og marz 1997.  Í fyrra skiptið hafi flogið varað í 20 mínútur, en í seinna skiptið í eina og hálfa klukkustund.  Samfara síflogi séu oft truflanir á blóðþrýstingsstjórnun, blóðflæði og súrefnismettun vefja.  Þetta geti skýrt hinar nýtilkomnu breytingar á segulómuninni.

       Margt bendi þannig til, að orsök vanda stefnanda tengist þáttum snemma á meðgöngu.  Þessir þættir séu blæðing fyrir 15. viku, lýsing móður á taktföstum kippum í barninu í móðurkviði, sem bendir til prenatalkrampa, auk vaxtarseinkunar og lítils legvatns.  Einnig sé saga um litla fylgju með kölkunum.  Einkenni stefnanda, þ.e. flogaveiki, mikrocephalía, þroskaröskun og hegðunarerfiðleikar, tengist neonatal encepalopathaiu, sem stafi af þáttum, sem komið hafi fram snemma á meðgöngu, en tengist ekki súrefnisskorti, sem hafi átt sér stað í aðdraganda fæðingar.  Stefnandi sé einnig með nýtilkomnar breytingar á segulómun á heila, sem ekki hafi verið til staðar við sex mánaða aldur og skýrist líklega af illvígri flogaveiki.

       Staðhæfingar stefnanda um, að meðgöngueftirliti hafi verið áfátt, og að vaxtar-seinkun hafi ekki átt að fara framhjá aðilum, sem slíku eftirliti hafi sinnt, fái ekki staðizt.  Greining fyrir fæðingu í þannig tilvikum geti verið ógerleg með þeirri tækni, sem er unnt að beita nú og hafi verið hægt að beita 1994, sbr. dskj. nr. 7, bls. 5.

       Móðir stefnanda hafi fengið vægan meðgönguháþrýsting undir lok meðgöngunnar, en ekki meðgöngueitrun.  Nýr maki auki áhættuna á meðgönguháþrýstingi og slíkt ástand, ásamt smáblæðingum snemma á meðgöngu, auki áhættuna á vaxtarseinkun. Fósturvöxtur virtist hins vegar vera eðlilegur alla meðgönguna og þyngdaraukning, sem einnig hafi verið eðlileg, hafi stutt það.  Ekki sé getið neins í klínískri skoðun hjá móður stefnanda, sem benti til þess, að stefnandi yrði óeðlilega lítill.  Þegar blóðþrýstingur hafði hækkað við 41. viku hafi rétt viðbrögð verið viðhöfð, sem hafi leitt til sónarskoðunar og dagannar, og í framhaldi af því, þegar fannst, að barnið væri í smærra lagi og legvatn hafi nánast ekkert verið, en fósturhreyfingar hafi verið góðar, hafi móðir stefnanda verið lögð inn sama dag.  Þá hafi verið tekið hjartsláttarrit á hádegi og læknirinn á vakt, Tanja Þorsteinsdóttir deildarlæknir, hafi dæmt það eðlilegt.  Hafi læknirinn óskað eftir gangsetningu 25. september vegna vaxtarfráviks barnsins og vegna þess, að nánast ekkert legvatn hafi verið fyrir hendi. Fósturrit sé eðlilegt, en grunur sé um meðgönguhá­þrýsting /meðgöngueitrun.

       Í skýrslu á dskj. nr. 40, sem Óskar Jónsson læknanemi tók, þegar móðir stefnanda lagðist inn, sé gerð grein fyrir tveimur smá blæðingum, sem urðu fyrir 15. viku, en tengsl séu á milli slíkra blæðinga og vaxtarseinkunar hjá fóstrum, vegna áhrifa blæðinga á fylgjustarfsemi.  Í meðgöngueftirlitinu hafi þó ekkert bent til, að svo hefði orðið.  Ekkert athugavert hafi fundizt við ytri skoðun, og ekki hafi verið nein merki um yfirvofandi versnun á blóðþrýstingsvandamálum.  Elísabet Helgadóttir aðstoðarlæknir hafi yfirfarið þetta og skrifað fyrirmæli um almenna meðferð vegna háþrýstings og framhaldsrannsóknir, þar með talið daglegt hjartsláttarrit af fóstrinu.  Ekki hafi verið talin þörf á því að gangsetja fæðingu föstudagskvöldið 23. september, heldur að óhætt væri að bíða venjulegs tíma fyrir upphaf gangsetningar fæðinga á rúmhelgum dögum, þ.e. sunnudagskvöldið 25. september.

       Á kvöldvakt innlagnardaginn hafi blóðþrýstingur verið 150/100 mmHg og sagt, að konan láti vel af sér, sbr. dskj. nr. 38.  Engar ástæður hafi verið til að taka rit aftur um kvöldið, þar sem rit fyrr um daginn hefðu verið dæmd innan eðlilegra marka.  Á næturvakt sé skráð „Svaf illa, óreglulegir samdrættir".  Legháls hafi verið óþroskaður og sé ekki óvanalegt, að konur finni fyrir óreglulegum samdráttum í lok meðgöngu.  Þekkt sé, að samdrættir/hríðir þurfi að vera reglulegar til að legháls opnist.  Þar sem rit hafi verið metið eðlilegt daginn áður, legháls óþroskaður og samdrættir óreglulegir, hafi ekki verið óeðlilegt að sjá til með að taka rit.  Hjartsláttarrit hafi verið tekið upp úr kl. 09.15 að morgni 24. september og hafi þá sézt merki um alvarlega fósturstreitu.  Tíminn, sem leið frá því að ákvörðun var tekin um keisaraskurð, þar til stefnandi fæddist, hafi verið 36 mínútur.  Fái þannig ekki á nokkurn hátt staðizt staðhæfingar stefnanda þess efnis, að ekki hafi verið brugðizt tímanlega og réttilega við eftir innlögn móður á spítalann.  Ekkert tjón verði heldur að réttu lagi við það tengt, jafnvel þótt komizt yrði að annarri niðurstöðu.  Segulómrannsókn á heila stefnanda, sem gerð hafi verið við 6 mánaða aldur, staðfesti, að súrefnisskortur í aðdraganda fæðingar hafi ekki valdið varanlegum skaða á miðtaugakerfi stefnanda.

       Ekki fái heldur staðizt staðhæfingar stefnanda um, að eftirlit með blóðsykri eftir fæðingu hafi verið vanrækt.  Lækkun blóðsykurs fljótlega eftir fæðingu sé algengur fylgifiskur vaxtartregðu á meðgöngu og hafi strax verið brugðizt við með glúkósagjöf og vandlega fylgzt með þeim þætti á vökudeild, svo sem gögn úr sjúkraskrá stefnanda á vökudeild beri skýrlega með sér.

       Samkvæmt framangreindu fái ekki staðizt, að heilsutjón stefnanda verði rakið til mistaka í meðgöngueftirliti eða viðbrögðum eftir innlögn móður, eða í kjölfar fæðingar stefnanda, er varðað gæti stefnda bótaábyrgð að lögum.  Beri þegar af þeirri ástæðu að sýkna af öllum kröfum stefnanda í málinu.  Ljóst sé jafnframt, að stefnandi hafi þegar orðið fyrir óbætanlegu alvarlegu heilsutjóni á meðgöngu í móðurkviði, sem leitt hafi til þess varanlega miska og varanlegrar örorku, sem honum hafi verið metin.  Ekkert viðbótartjón verði að réttu tengt við hugsanleg mistök, sem leiði til sýknu af öllum kröfum stefnanda.

       Verði ekki á sýknukröfu stefnda fallizt, sé varakrafa hans sú, að kröfur stefnanda verði stórkostlega lækkaðar.  Aðalkröfu stefnanda, sem taki mið af því, að dráttarvextir reiknist frá og með 6. desember 2000, sé harðlega mótmælt.  Af hálfu stefnanda hafi ekki verið sett fram ákveðin bótakrafa, byggð á mati á varanlegri örorku og miska, fyrr en með þingfestingu máls þessa hinn 4. marz 2004.  Fái þannig ekki staðizt að reikna dráttarvexti frá fyrri tíma en miðað við þingfestingu málsins, sbr. 13. og 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 og nú 9. og 7. gr. laga um vexti og verð-tryggingu nr. 38/2001.

       Kröfum stefnanda um vexti samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga frá 23. september 1994 til 4. marz 2000 sé mótmælt sem fyrndum.  Kröfu stefnanda um bætur vegna annars fjártjóns að fjárhæð kr. 2.500.000 sé mótmælt og krafizt sýknu af henni, en til vara sé krafizt stórkostlegrar lækkunar hennar.  Enga reifun sé að finna á þeirri kröfugerð í stefnu, en boðaður nánari rökstuðningur hennar við munnlegan flutning málsins.  Sú kröfugerð sé þannig svo vanreifuð, að virðist varða frávísun hennar ex offisio frá dómi.  Loks sé kröfu stefnanda um 50% hækkun miskabóta mótmælt.

      

IV

Forsendur og niðurstaða

Fyrir dóminn komu til skýrslugjafar Sigurveig Guðmundsdóttir húsmóðir, móðir stefnanda, Sölvi Ellert Sigurðsson tæknifræðingur, faðir stefnanda, María Jóna Hreinsdóttir ljósmóðir, Unnur Kjartansdóttir ljósmóðir, Tanja Þorsteinsson læknir, Gestur Ingvi Pálsson, sérfræðingur í barnalækningum, Jens A. Guðmundsson læknir, Guðmundur Arason sérfræðingur í kvensjúkdóma- og fæðingalækningum, Kristleifur Kristjánsson, læknir og sérfræðingur hjá Íslenzkri erfðagreiningu, matsmennirnir Magnús Stefánsson læknir og Jónas Hallgrímsson læknir, og Pétur Lúðvígsson  læknir, sérfræðingur í heila- og taugasjúkdómum barna.

        Stefnandi býr við alvarlega fötlun, þroskahömlun og hegðunarerfiðleika, svo sem fram kemur í stefnu.  Hann er svokallaður smáhöfði og með krampasjúkdóm. 

        Af hálfu stefnanda er bótakrafa á hendur stefnda á því byggð, að fötlun hans stafi af mistökum starfsmanna stefnda skömmu fyrir fæðingu og við fæðingu hans.  Af hálfu stefnda er því haldið fram, að fötlun hans hafi orðið þegar á meðgöngu. 

        Samkvæmt niðurstöðu læknaráðs, sem rakin hefur verið hér að framan, telur ráðið líklegast að líkamstjón stefnanda megi rekja til samverkandi þátta, bæði í kringum fæðingu og fyrr á meðgöngu.  Þá telur ráðið afar ólíklegt, að fósturköfnun sé eina orsök ástands hans og einkenni hans nú ekki dæmigerð fyrir afleiðingar fósturköfnunar. 

        Í gögnum málsins kemur fram, að við fæðingu reyndist stefnandi vera með vaxtarfrávik, sem bendir til vaxtarskerðingar á meðgöngu.  Telur dómurinn fyrirliggjandi upplýsingar benda til þess, að sú vaxtartregða hafi staðið um einhvern tíma fyrir fæðingu.  Leiðir sú niðurstaða af því, að vaxtaskerðing stefnanda var nokkuð jöfn, þegar borin er saman þyngd hans og höfuðmál.  Ómskoðun við 15. og 19. vikna meðgöngulengd sýndi eðlilega stórt höfðuð við mælingar frá hlið til hliðar, sem er algengasta höfuðmælingin, en ekki er getið um höfuðummál þá.  Við ómskoðun, sem gerð var 23. september, var höfuð mælt frá hlið til hliðar, og var frávik þá -3%, sem telst mjög lítið frávik.  Bolurinn mældist hins vegar frekar rýr, eða sem samsvarar -18% fráviki frá meðaltali, og áætluð þyngd var mjög nálægt eiginlegri fæðingarþyngd daginn eftir.  Ekki var þá heldur mælt ummál höfuðs.  Eftir fæðingu reyndist höfuðummál vera í 10. percentili.  Möguleg skýring á misræmi á milli mælinga við ómskoðun og svo eftir fæðingu, gæti verið, að höfuðmál frá enni til hnakka hafi verið í minna lagi.

        Við þessa síðustu ómskoðun kom fram, að mjög lítið legvatn var, sem er algengt að sjá við vaxtaskerðingar og þegar fóstur hafa verið aðþrengd um tíma.

        Fljótlega eftir fæðingu tók höfuðvöxtur að víkja út af kúrfu, og hefur stefnandi verið greindur smáhöfði, sem felur í sér, að heilinn vex ekki eðlilega.  Sjúklegar breytingar á heila sáust þó ekki við segulómskoðanir, sem gerðar voru í tvígang á fyrstu 6 mánuðum eftir fæðingu hans.  Þegar stefnandi var 7 ára var enn gerð segulómskoðun á heila hans og komu þá í ljós verulegar breytingar á heilanum.  Það liggur fyrir, að stefnandi var haldinn alvarlegri flogaveiki, sem kom fram á fyrstu klukkustundum eftir fæðingu.  Var hann m.a. lagður á sjúkrahús í tvígang með síflog, annars vegar árið 1995 og hins vegar árið 1997.  Er talið, að samfara síflogi megi gera ráð fyrir, að truflun verði á blóðflæði og súrefnismettun í vefjum.

        Er það álit dómsins, með vísan til framanritaðs, að óyggjandi sé, að hluti af fötlun drengsins sé vegna skerts heilavaxtar, sem rakinn verður til meðgöngu.  Þá telur dómurinn og ljóst, að hluti þroskahömlunar hans verði rakinn til síðar til kominna atvika.  Ekki er ágreiningur í málinu um, að stefnandi varð fyrir súrefnisskorti vegna fósturköfnunar í kringum fæðingu.  Samkvæmt gögnum málsins stóð hún fremur stutt yfir, drengurinn var endurlífgaður og virtist jafna sig fljótt, hann andaði strax sjálfur og þurfti lítið auka súrefni.  Ekki liggur fyrir, að önnur líffæri, svo sem garnir, lifur, nýru og hjarta hafi skaddazt af þessum sökum, sem er dæmigert, þegar um alvarlega fósturköfnun er að ræða.  Þannig virðist sem fósturköfnunin hafi ekki verið mjög alvarleg.

        Móðir stefnanda var lögð inn á meðgöngudeild í kjölfar sónarskoðunar við 41. viku meðgöngu hinn 23. september 1994, sem leiddi í ljós væga vaxtarskerðingu og nánast ekkert legvatn.  Fyrirmæli læknis, sem fylgdu á meðgöngudeildina, voru um monitorrit daglega og gangsetningu 25. september.  Tekið var monitorrit á hádegi 23. september, sem liggur fyrir í málinu á dskj. nr. 54.  Tanja Þorsteinsson læknir, sem las úr ritinu, taldi það vera eðlilegt og ekki gefa tilefni til sérstakrar eftirfylgni umfram það, sem ráðlagt var.  Fyrir dómi skýrði hún svo frá, að ritið væri tekið annars vegar þegar móðirin lá á baki, og hins vegar á hlið.  Liggjandi á baki sýndi ritið hjartslátt í hærri kanti og ekki mjög „reaktíft“.  Taldi hún ritið ekki benda til þess, að fóstrið hefði verið aðþrengt.  Aðspurð, hvort hún teldi allt í ritinu benda til þess, að það væri fullkomlega eðlilegt, svaraði hún því til, að það mætti sjá meiri „reaktionir“ á hreyfingu, meiri breytileika, en hún teldi þetta vera innan eðlilegra marka.  Ástæðu þess, að hún bað um gangsetningu kvað hún vera lítið legvatn, undirstærð fósturs og hár blóðþrýstingur móður, auk þess sem hún hafi verið komin á tíma.

        Móðir stefnanda skýrði svo frá fyrir dómi, að eftir að monitorritið hafði verið tekið, hefði henni verið sagt að liggja í rúminu.  Um kvöldið hefði læknir komið og skoðað hana og talað um, að hún væri með háþrýsting og meðgöngueitrun og sagt, að það þyrfti að fylgjast með því.  Hún hefði vaknað um kl. hálftvö um nóttina og kallað á vakthafandi ljósmóður, þar sem henni hefði liðið illa; kviðurinn hafi verið grjótharður og hún hafi ekki fundið neinar hreyfingar.  Hafi ljósmóðirin sagzt myndu koma með monitor.  Þegar nokkur tími hafi liðið án þess að hún hafi látið sjá sig, hefði hún farið fram á ganginn, ásamt konu, sem lá með henni á herbergi.  Ljósmóðirin hafi þá setið inni í býtibúri, og þær hafi farið og talað við hana.  Ljósmóðirin hafi bara ýtt í kviðinn á henni utan á sloppinn og gefið þeim te og sagt, að börnin hreyfðu sig venjulega, ef maður fengi heitan drykk.  Drykkurinn hafi hins vegar ekki haft tilætluð áhrif.  Ljósmóðirin hafi þá sagt henni að fara bara aftur inn í rúm og leggjast og hún myndi koma.  Hún hafi síðan farið inn, en ljósmóðurina hafi hún ekki séð aftur um nóttina.  Undir morgun hafi móður stefnanda aftur farið að lengja eftir ljósmóðurinni, en þá hafi henni verið sagt að bíða fram yfir morgunmat.  Eftir morgunmatinn hafi henni verið sagt að bíða, meðan dagkonur væru teknar í monitor.  Hún hafi síðan verið sett í monitor kl. rúmlega 9 um morguninn.  Eftir smástund í monitornum hafi hægt á hjartslætti, og þá hafi enn verið sagt við hana, að það væri að koma að læknaskiptum og boð yrðu látin liggja fyrir næsta vakthafandi lækni.  Hún kvað kviðinn hafa verið grjótharðan allan tímann og engar hreyfingar.  Síðan hafi komið til hennar Guðmundur Arason læknir, sem hafi skoðað línuritið og farið með hana beint í keisaraskurð.

        Unnur Kjartansdóttir ljósmóðir, sem var á vakt kvöldið 23. september og aðfaranótt 24. september, skýrði svo frá fyrir dómi, að móðir stefnanda hefði verið með blóðþrýsting 140/95, þegar hún kom á meðgöngudeildina.  Um kvöldið hefði hún hækkað í 150/100, en bara verið vottur af eggjahvítu í þvaginu.  Hún hefði látið vel af sér þarna um kvöldið og horft á sjónvarp.  Um nóttina hefði blóðþrýstingur verið 150/100 og engin eggjahvíta í þvaginu.  Aðspurð um skráningu um að móðir stefnanda hefði sofið illa og verið með óreglulega samdrætti, skýrði vitnið svo frá, að samdrættirnir hefðu verið eðlilegir.  Þetta hefði bara verið undirbúningsferli í meðgöngunni.  Sú athugun, sem lá að baki mati hennar á samdráttunum, hefði verið á þá lund, að hún hefði lagt höndina á kúluna og metið stöðuna.  Aðspurð hvers vegna ekkert væri skráð um kvartanir móður stefnanda vegna strengds kviðar og engra hreyfinga, kvaðst hún myndu hafa skráð það, ef um það hefði verið að ræða.  Hún kvaðst hins vegar ekkert muna eftir þessu kvöldi, enda væri langt um liðið.  Aðspurð um ráðleggingu um að drekka heitt te kvað hún ástæðu að baki slíkri ráðleggingu hugsanlega hafa verið þá, að hún gæti frekar sofnað.  Aðspurð kvað hún, að í gamla daga hefði verið sagt, að það hefði stundum hjálpað að drekka sæta eða heita drykki til að örva hreyfingar fósturs.  Hún kvað þær stundum gera þetta, en í þessu tilfelli yfir nótt, hafi heitur drykkur verið hugsaður fyrir svefn.  Aðspurð, hvort það gæti verið rétt, að hún hefði ráðlagt móður stefnanda að drekka heitt te til að örva hreyfingar, svaraði hún því til, að hún gæti ekki nákvæmlega sagt til með vissu um þeirra samskipti.

        Jens Albert Guðmundsson læknir skýrði svo frá, aðspurður um monitorritið, sem tekið var þann 23. september, að það væri innan eðlilegra marka, en þó í efri eðlilegum mörkum.  Ekki væri nægilega mikill breytileiki í því, meðan konan lá á bakinu, en eftir að skipt hafi verið um legu á henni, væri ritið breytt, aðeins lægri grunntíðni og aukinn breytileiki.  Hann kvað ritið ekki gefa tilefni til að endurtaka það innan sólarhrings nema eitthvað annað komi til.  Aðspurður, hvernig ljósmóðir hefði átt að bregðast við kvörtunum um engar hreyfingar, kvað hann hana hafa átt að taka rit.  Það sé hins vegar alltaf mat ljósmóður, hvort kalla eigi á lækni, hann gæti ekki svarað því, hvað hefði verið rétt í þessu tilviki.

        Guðmundur Arason læknir skýrði svo frá, að á ritinu frá 23. september sjáist tveir eða þrír samdrættir í leginu, en ekki sé að sjá viðbrögð fóstursins við þeim.  Hann kvaðst telja, að ritið væri á mörkum þess að vera eðlilegt, á mörkum þess að vera „reaktívt“ rit.  Hann hefði kannski viljað hafa það lengra og kannski endurtaka það eftir fjóra eða fimm klukkutíma.  Ritið, sem tekið var að morgni 24. september, hafi hann strax dæmt mjög óeðlilegt og ákveðið að gera strax keisaraskurð.  Mjög lítill breytileiki sé í línuriti barnsins, það sé mjög flatt og það, sem gerist líka, eins og hafi gerzt á fyrra ritinu, sé að það verði samdráttur í leginu, en í staðinn fyrir að sýna enga breytingu á ritinu 23. september, komi slæm dýfa á yngra ritinu, sem gefi til kynna, að það sé fylgjuþurrð, og hafi hann metið ritið svo, að barnið væri í yfirvofandi súrefnisþurrð.  Fyrra ritið bendi hins vegar ekki til fylgjuþurrðar.

        Þegar framburður móður stefnanda er virtur, verður að telja hann trúverðugan, og hefur hann ekki verið hrakinn, en Unnur Kjartansdóttir ljósmóðir kvaðst ekkert muna frá umræddu kvöldi og nótt.  Það liggur fyrir, að móðirin var með harðan kvið og litlar eða engar hreyfingar um morguninn, og kvaðst Guðmundur Arason læknir hafa fengið þær upplýsingar, þegar hann kom á vaktina, en hann mundi ekki hvort þær voru komnar frá móðurinni eða ljósmóður.  Frásögn móðurinnar af heitu te kemur heim og saman við aðferðir, sem hafa, að sögn ljósmóðurinnar, verið viðhafðar á deildinni, og er þannig trúverðug, en ekkert er skráð um samskipti þeirra um nóttina.  Skráningu frá aðfaranótt 24. september er ábótavant og ber stefndi hallann af því að sönnun skortir fyrir því, sem fór á milli móður stefnanda og ljósmóðurinnar þá nótt. Verður að telja, að ekki hafi verið réttilega brugðizt við kvörtunum stefnanda um nóttina.  Þá liggur fyrir, að móðir stefnanda var ekki sett í monitor fyrr en eftir vaktaskipti um morguninn, og verður að taka framburð hennar trúanlegan um það, að hún hafi verið látin bíða vegna anna við morgunverð.  Þá liggur ekki fyrir, að lækni hafi verið falið að lesa úr ritinu fyrr en Guðmundur Arason kom á vakt.  Er það álit dómsins, að stefndi beri skaðabótaábyrgð á tjóni því, sem stefnandi kann að hafa orðið fyrir vegna súrefnisskorts, sem rekja má til þess, að ekki var rétt brugðizt við umkvörtunum stefnanda eða fylgzt nægilega með henni á grundvelli þeirra upplýsinga, sem fylgdu henni á meðgöngudeild. Ekki verður með neinni vissu sagt til um, hver áhrif alls þessa kunna að hafa verið á súrefnisskort stefnanda og núverandi þroskahömlun.  Hins vegar telur dómurinn, svo sem fyrr er rakið, og með vísan í niðurstöðu læknaráðs, sem ekki hefur verið hnekkt, að ljóst sé, að hluti þroskahömlunar stefnanda stafi af súrefnisskorti á meðgöngu, sem leiddi til vaxtartregðu og skerðingar á heilavexti.  Hafa engin haldbær rök verið færð fram fyrir því, að rekja megi það ástand til vanrækslu eða ábyrgðar stefnda.  Telur dómurinn að eðlilegt sé, með hliðsjón af málavöxtum öllum, að stefndi beri 50% skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda.  Reiknast miskabætur stefnanda þannig kr. 3.282.525 og varanleg örorka kr. 8.753.400.  Kröfu stefnanda um annað fjártjón hefur verið mótmælt sem órökstuddri, en stefnandi vísar henni til stuðnings einungis til 1. gr. skaðabótalaga.  Hefur af hálfu stefnanda engin grein verið gerð fyrir því, hvað í meintu tjóni hans felst samkvæmt þessum lið, eða hvernig fjárhæðin er fengin.  Ber því að hafna þessum lið.

        Fallizt er á upphafstíma vaxtakröfu.

        Stefnandi hefur gjafsókn í málinu. Ákveðst gjafsóknarkostnaður hans kr. 1.700.000, auk útlagðs kostnaðar, kr. 221.390.  Við ákvörðun gjafsóknarkostnaðar hefur ekki verið litið til virðisaukaskatts.  Ekki þykja efni til að dæma stefnda, íslenzka ríkið, til greiðslu málskostnaðar, enda rynni sá kostnaður í ríkissjóð.

        Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn ásamt meðdómendunum Katrínu Davíðsdóttur lækni og Guðjóni Vilbergssyni lækni.

 

D Ó M S O R Ð

Stefndi, íslenzka ríkið, greiði stefnanda, Daníel Ísaki Sölvasyni, kr. 12.035.925, ásamt 2% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 23.09. 1994 til 06.12. 2000, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 01.07. 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

        Málskostnaður fellur niður.

        Gjafsóknarkostnaður stefnanda, kr. 1.921.390, greiðist úr ríkissjóði.