Hæstiréttur íslands
Mál nr. 450/2009
Lykilorð
- Verksamningur
- Greiðsla
|
|
Þriðjudaginn 30. mars 2010. |
|
Nr. 450/2009.
|
Ans ehf. (Guðmundur B. Ólafsson hrl.) gegn Raflaxi ehf. (Sigurbjörn Þorbergsson hrl.) |
Verksamningur. Greiðsla.
R starfaði sem undirverktaki við raflagnavinnu fyrir A í fjöleignarhúsi á Akranesi. Málsaðilar deildu um reikning R 19. desember 2007 á hendur A fyrir efni og vinnu í húsinu. Fyrirsvarsmaður A hélt því fram að fullnaðaruppgjör hefði átt sér stað með greiðslu A á reikningi R 1. nóvember 2007, sem félagið hefði ekki borið ábyrgð á en greitt fyrir misgáning. Meðal málskjala voru tölvubréf milli aðila, þar sem greint var í þremur töluliðum frá einstökum verkþáttum, sem R ýmist hafði unnið eða átti eftir að vinna. Kom þar fram að yrði gengið frá greiðslu fyrir annan liðinn og jafnframt tryggt að R fengi greitt fyrir vinnu samkvæmt þriðja lið væri ekkert því til fyrirstöðu að R gæti lokið verki sínu. Talið var að A hefði mátt vera fyllilega ljóst að greiðsla reikningsins 1. nóvember 2007 væri forsenda þess að R héldi áfram að vinna verkið. Sú staðhæfing A væri haldlaus að greiðslan hefði verið innt af hendi fyrir misgáning og jafnframt að með henni hefði hann mátt líta svo á að verk R væri endanlega uppgert. Óumdeilt væri að R innti af hendi það verk sem krafa hans samkvæmt reikningi 19. desember 2007 laut að. Var því fallist á kröfu R.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. ágúst 2009. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara lækkunar á henni eða skuldajafnaðar. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi tók að sér fyrir Garðbæ ehf. að ljúka við að reisa fjöleignarhús að Tindaflöt 2-8 á Akranesi eftir að aðalverktakinn, Rúmmetri ehf., hvarf frá verkinu. Stefndi starfaði sem undirverktaki við raflagnavinnu í húsinu fyrir aðalverktakann og hélt því síðan áfram í þágu áfrýjanda á síðari hluta árs 2007 þegar atvik málsins urðu. Ágreiningur málsaðila lýtur að reikningi stefnda 19. desember 2007 á hendur áfrýjanda, sem samkvæmt hljóðan sinni er fyrir efni og vinnu í bílakjallara, geymslum og „sameign niðri“ vegna breytinga á teikningum, brunndælum, tengingu á varadælu og fleira.
Fyrirsvarsmaður áfrýjanda gaf skýrslu fyrir dómi en hann var á þeim tíma, sem um ræðir, einnig fyrirsvarsmaður Garðbæjar ehf. Bú þess félags var tekið til gjaldþrotaskipta 3. júní 2008. Hjá honum kom skýrt fram að áfrýjandi hafi beðið stefnda „um að vinna í kjallaranum og þá sérstaklega í þessum dælum.“ Hins vegar hafi áfrýjandi ekki borið ábyrgð á „greiðslum af einhverjum aukareikningum vegna íbúðanna fyrir Garðbæ, sem að við greiddum fyrir misgáning.“ Þar mun vera vísað til reiknings stefnda 1. nóvember 2007 á hendur áfrýjanda fyrir „lagfæringar á raflögnum ... v/breytinga á stigahúsum, götum o.fl.“ að fjárhæð 852.000 krónur, sem áfrýjandi greiddi 7. sama mánaðar. Þá kvaðst fyrirsvarsmaður áfrýjanda hafa talið að um fullnaðaruppgjör væri að ræða með greiðslu umrædds reiknings.
Meðal málskjala eru tölvubréf milli aðilanna 24. og 25. október 2007. Í bréfi fyrirsvarsmanns stefnda síðarnefnda daginn, sem óumdeilt er að fyrirsvarsmaður áfrýjanda samdi að undanskildum fjárhæðum sem þar koma fram, greinir í þremur töluliðum frá einstökum verkþáttum, sem stefndi ýmist hafi unnið eða eigi eftir að vinna. Verk samkvæmt hinum fyrsta þeirra hafi verið unnið í þágu fyrrverandi aðalverktaka og sé óviðkomandi samningi málsaðila. Annar liðurinn er sagður vera fyrir „óuppgerð aukaverk“ að fjárhæð 852.000 krónur, en hann beri Garðbæ ehf. að greiða. Þriðji liðurinn sé fyrir vinnu við raflagnir í bílakjallara, geymslur, brunndælur og fleira og sé það verk unnið fyrir áfrýjanda. Í niðurlagi bréfsins segir síðan að verði gengið frá greiðslu fyrir annan liðinn og jafnframt tryggt að stefndi fái greitt fyrir vinnu samkvæmt þriðja lið sé ekkert því til fyrirstöðu að stefndi geti lokið verki sínu.
Áður var þess getið að stefndi sendi áfrýjanda reikning nokkrum dögum eftir bréfaskiptin fyrir verk samkvæmt öðrum lið, sem sá síðarnefndi greiddi. Honum mátti vera fyllilega ljóst að sú greiðsla var forsenda þess að stefndi héldi áfram að vinna verk samkvæmt þriðja liðnum. Sú staðhæfing áfrýjanda er haldlaus að greiðslan á 852.000 krónum hafi verið innt af hendi fyrir misgáning og jafnframt að með henni hafi hann mátt líta svo á að verk stefnda væri endanlega uppgert. Óumdeilt er að stefndi innti af hendi það verk sem krafa hans samkvæmt reikningi 19. desember 2007 lýtur að. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Ans ehf., greiði stefnda, Raflaxi ehf., 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. maí 2009.
Mál þetta var höfðað 5. nóvember 2008 og dómtekið 12. þ.m.
Stefnandi er Raflax ehf., Garðsstöðum 64, Reykjavík.
Stefndi er ANS ehf., Þverholti 11, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum skuld að fjárhæð 1.363.050 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 19. desember 2007 til greiðsludags auk málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda en til vara verulegrar lækkunar á kröfum stefnanda og jafnframt skuldajafnaðar á kröfum stefnda gagnvart kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Af hálfu stefnanda er málsástæðum og helstu málsatvikum lýst þannig að hann reki raflagnafyrirtæki. Krafa stefnanda byggist á ógreiddum reikningi en stefndi hafi keypt vöru og þjónustu af stefnanda. Stefnandi hafi sent stefnda reikning á útgáfudegi umstefnds reiknings, 19. desember 2007 en reikningurinn, að upphæð 1.363.050 krónur sé ógreiddur. Stefnandi byggir á því að stefnda sé skylt að greiða fyrir þá vöru og þjónustu sem stefnandi hafi sannanlega látið honum í té að beiðni hans.
Reikningurinn, sem mál þetta snýst um, hljóðar um eftirfarandi: Lagt í bílakjallara, geymslur og sameign niðri, v/breytinga á teikningum, teknar upp brunndælur, tengd varadæla o.fl.
Af hálfu stefnda er málavöxtum og málsástæðum lýst sem hér segir:
Stefndi tók að sér að ljúka við húsið að Tindaflöt 2-8 á Akranesi samkvæmt samkomulagi við Garðbæ ehf. og Glitni banka. Verkið hafði áður verið í höndum Rúmmeters ehf. sem var aðalverktaki á verkinu. Stefnandi hafði séð um raflagnir í húsinu sem undirverktaki Rúmmeters ehf. Er stefndi kom að verkinu var talað við stefnanda um að vinna við raflagnir en stefndi tók ekki að sér að greiða skuldir eða fyrir vinnu annarra sem höfðu áður unnið við verkið. Í september 2007 tilkynnti Glitnir banki Garðbæ ehf. að lánasamningur væri útrunninn og yrði ekki framlengdur. Stefndi stöðvaði þá allar framkvæmdir vegna verksins, þ.m.t. vinnu stefnanda. Tveir reikningar bárust frá stefnanda eftir þetta; sá fyrri að upphæð 388.685 krónur, dagsettur 26. september 2007 og greiddur 16. október s.á., og sá síðari að upphæð 852.000 krónur, dagsettur 10. október 2007 og greiddur 7. nóvember s.á. Í október og nóvember 2007 stóðu síðan yfir viðræður stefnda og Glitnis banka um verklokin og leitaði stefndi m.a. til stefnanda um tilboð í lok framkvæmda við rafmagn. Leiddu þær viðræður ekki til niðurstöðu og leysti Glitnir banki þá til sín verkefnið. Stefnanda var tilkynnt þessi niðurstaða og var því fullljóst að ekki yrði unnið frekar að verkinu. Ekki hafi verið beðið um vinnu samkvæmt umstefndum reikningi og því beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Varakrafa um lækkun vegna skuldajafnaðar er reist á því að stefndi hafi greitt framangreinda tvo reikninga, samtals að upphæð 1.240.685 krónur, án þess að honum hafi borið að gera það.
Lögmaður stefnanda sendi stefnda innheimtubréf 20. maí 2008 vegna þeirrar kröfu sem um ræðir í málinu en ekki sést að því hafi verið svarað eða við því brugðist á nokkurn hátt.
Óumdeilt er að stefnandi innti af höndum þjónustu fyrir stefnda í tímavinnu við fasteignina Tindaflöt 2-8, Akranesi. Af hálfu stefnanda hafa verið lagðar fram tímaskýrslur sem sýna vinnu frá því um miðjan ágúst fram um mánaðamót október/nóvember. Frammi liggur tölvupóstur forsvarsmanns stefnda til eiganda stefnanda, dags. 23. nóvember 2007, en þar segir: „Nú hefur það gerst að Glitnir hefur eftir viðræður við ANS tekið þá ákvörðun að draga til baka fjármögnun verkefnisins. Því vil ég biðja þig um að halda að þér höndum með framhald vinnu á vegum ANS og gera ekkert fyrir okkur þar á meðan ekki er vissa um greiðslur. Það liggur auðvitað fyrir að með einum eða öðrum hætti þarf að ljúka við byggingu hússins og þú ert jú rafvirkjameistari þess svo það er ekki ólíklegt að til þín verði leitað með það.“
Engar sönnur eru um að stefndi hafi hafnað þjónustu stefnanda fyrr en með framangreindum tölvupósti en þá þegar hafði hann innt af höndum þau verk sem hann krefur greiðslu á. Af hálfu stefnda hefur ekki verið sýnt fram á að hinn umstefndi reikningur sé ósanngjarn eða of hár. Ekki verður fallist á varakröfu stefnda þegar af þeirri ástæðu að af hálfu hans hefur ekki verið sýnt fram á að hann hafi greitt umrædda reikninga og - jafnvel þótt svo hafi verið - að honum hafi ekki borið að gera það. Þá er ekki sýnt fram á að hinar ætluðu greiðslur reikninganna séu vegna þeirrar þjónustu sem krafist er greiðslu fyrir í málinu.
Samkvæmt þessu er niðurstaða málsins sú að fallist er að öllu leyti á kröfu stefnanda. Málskostnaður er ákveðinn 250.000 krónur.
Mál þetta dæmir Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefndi, ANS ehf., greiði stefnanda, Raflax ehf., skuld að fjárhæð 1.363.050 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 19. desember 2007 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 250.000 krónur í málskostnað.